Hæstiréttur íslands

Mál nr. 507/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Föstudaginn 5

 

Föstudaginn 5. október 2007.

Nr. 507/2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Jóhannes Albert Sævarsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. október 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. október 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 10. október 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði stendur nú yfir hjá sóknaraðila rannsókn á því hvort varnaraðili hafi í félagi við nokkra fleiri menn gerst að undanförnu sekur um þjófnaði úr ýmsum verslunum á höfuðborgarsvæðinu. Verður fallist á með sóknaraðila að rökstuddur grunur sé um að svo kunni að vera. Við slíkum brotum liggur fangelsisrefsing samkvæmt 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður fallist á niðurstöðu hins kærða úrskurðar um að skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt fyrir gæsluvarðhaldi varnaraðila og verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 4. október 2007.

             Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [kt.], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 11. október 2007 kl. 16:00.

Gerð var húsleit í íbúð á 4. hæð við Y, Reykjavík, í gærdag, í kjölfar upplýsinga þess efnis að íbúar tengdust öðrum aðilum sem grunaðir eru um skipulagðan þjófnað á undanförnum mánuðum. Kærði hefur dvalið íbúðinni og er hann  talinn tengjast þeim aðilum sem grunaðir eru um skipulagðan þjófnað. Við húsleitina var lagt hald á mikið magn af munum, svo sem fatnað, snyrtivöru og ýmsar tölvuvörur. Kveðst lögreglan þegar hafa tengt hluta munanna við þjófnaði sem tilkynntir hafa verið í verslunum á höfuðborgarsvæðinu á síðustu mánuðum.

             Sakarefni málanna er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

             Rökstuddur grunur beinist að kærða um þátt eða hlutdeild í auðgunarbrotum.  Þar sem átta aðrir eru einnig undir grun verður að tryggja að þeim verði gert ókleift að hafa samband sín á milli og samræma skýrslur sínar.  Verður kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.  Er hæfilegt að marka varðhaldinu tíma í eina viku.

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

             Kærða, X, er gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 10. október nk. kl. 16.00.