Hæstiréttur íslands
Mál nr. 385/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaðartrygging
|
|
Fimmtudaginn 12. júní 2014. |
|
Nr. 385/2014. |
Jón
Bjarni Magnússon (Heimir Örn Herbertsson hrl.) gegn Svönu
Láru Ingvaldsdóttur (enginn) |
Kærumál. Málskostnaðartrygging.
Felldur var úr gildi
úrskurður héraðsdómdóms, þar sem hafnað var kröfu M um að K yrði gert að setja
tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli hennar á hendur M, og krafan
tekin til greina með skírskotun til þess að árangurslaust fjárnám hefði verið gert
hjá K um sjö mánuðum áður en hún höfðaði málið á hendur M og ekki leitast við
að renna neinum stoðum undir að hún væri, þrátt fyrir það, í stakk búin að
greiða málskostnað ef til þess kæmi.
Dómur
Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. maí 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. maí 2014, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli hennar á hendur sóknaraðila. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir varnaraðila að setja málskostnaðartryggingu að fjárhæð 1.000.000 krónur, „eða lægri fjárhæð að mati Hæstaréttar“. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði reisir sóknaraðili kröfu sína um að varnaraðila verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli því, sem hún höfðaði gegn honum 25. mars 2014, á því að leiða megi að því líkur að hún sé ófær um greiðslu málskostnaðar. Sóknaraðili vísar um lagastoð til b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991. Á honum hvílir sönnunarbyrði um að því skilyrði ákvæðisins, að leiddar séu líkur að því að varnaraðili sé ófær um að greiða málskostnað sem á hana kann að falla, sé fullnægt. Hann telur sig hafa fært fram slíka sönnun með því að leggja fram endurrit úr gerðarbók sýslumannsins í Reykjavík þar sem fram kemur að 28. ágúst 2013 hafi að kröfu Arion banka hf. verið gert árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila. Það sanni eignaleysi hennar.
Réttur stefnda í máli til að krefjast þess að stefnanda verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar er undantekningarregla og leiðir til þess að réttur manna til að bera ágreiningsmál undir dómstóla sætir takmörkunum. Verður að skýra heimild sóknaraðila í máli þessu til samræmis við þetta. Fyrir liggur að árangurslaust fjárnám var gert hjá varnaraðila um sjö mánuðum áður en hún höfðaði mál þetta gegn sóknaraðila. Hún hefur ekki leitast við að renna neinum stoðum undir að hún sé, þrátt fyrir hið árangurslausa fjárnám, í stakk búin til þess að greiða málskostnað ef til kemur. Í dómum Hæstaréttar 2. mars 1999 í máli nr. 71/1999 og 27. apríl 2012 í máli nr. 224/2012 var komist að þeirri niðurstöðu að við aðstæður eins og hér um ræðir sé það fullnægjandi vísbending um að stefnandi sé ekki fær um greiðslu málskostnaðar ef gert hefur verið hjá honum árangurslaust fjárnám svo skömmu áður en málið er höfðað. Skiptir í því efni ekki máli þótt gerðarþoli hafi ekki verið viðstaddur er fjárnámið var gert. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila beri að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar. Þykir hún hæfilega ákveðin 500.000 krónur. Skal hún sett með peningum eða bankaábyrgð og héraðsdómara afhent skilríki fyrir tryggingunni innan tveggja vikna frá uppsögu dóms þessa.
Varnaraðili verður dæmd til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Varnaraðila, Svönu Láru
Ingvaldsdóttur, er skylt að setja málskostnaðartryggingu, að fjárhæð 500.000
krónur. Ber að setja trygginguna með peningum eða bankaábyrgð innan tveggja
vikna frá uppsögu dóms þessa.
Varnaraðili greiði sóknaraðila, Jóni
Bjarna Magnússyni, 300.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16.
maí 2014.
Mál þetta, sem var tekið til
úrskurðar 5. maí sl., er höfðað af Svönu Láru Ingvaldsdóttur, Flétturima 22,
Reykjavík, á hendur Jóni Bjarna Magnússyni, Berjarima 20, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess í málinu
að stefndi verði dæmdur til að greiða henni skuld að fjárhæð 1.126.705 krónur,
auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og
verðtryggingu af 982.880 krónum frá 1. október 2010 til 1. september 2013, en
af stefnufjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr
hendi stefnda.
Við þingfestingu málsins, 3.
apríl sl., krafðist stefndi málskostnaðartryggingar úr hendi stefnanda með
vísan til b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála vegna
líkinda fyrir ógjaldfærni stefnanda. Stefnandi mótmælti kröfunni. Munnlegur
málflutningur fór fram um þessa kröfu stefnda 5. maí sl.
I
Til stuðnings þeirri kröfu að
stefnanda verði gert að setja málskostnaðartryggingu vísar stefndi til þess að
samkvæmt fram lögðu yfirliti úr vanskilaskrá Creditinfo,
dags. 31. mars sl., hafi verið gert árangurslaust fjárnám hjá stefnanda 28.
ágúst 2013. Af þessum upplýsingum megi leiða líkur að því að stefnandi sé ófær
um greiðslu málskostnaðar sem á hana kynni að vera lagður í málinu. Því sé
fullnægt skilyrði b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 fyrir því að
stefnanda verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar. Það hvíli
á stefnanda að hnekkja þessum líkum fyrir ógjaldfærni sinni, en það hafi hún ekki
gert.
Stefndi áætlar að
lögmannskostnaður hans vegna málsins muni nema um 1.000.000 króna.
II
Stefnandi hefur andmælt kröfu
stefnda um málskostnaðartryggingu. Hún vísar til þess að umrætt fjárnám hafi
verið gert 28. ágúst sl. Það leiði af 1. tl. 2. mgr.
65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að árangurslaust fjárnám
gefi ekki rétta mynd af fjárhag aðila, séu meira en þrír mánuðir liðnir síðan
fjárnámið fór fram. Við þingfestingu þessa máls hafi um sjö mánuðir verið
liðnir frá fjárnámsgerðinni. Gefi fjárnámið því ekki rétta mynd af
fjárhagslegri stöðu stefnanda.
III
Samkvæmt b-lið 1. mgr. 133. gr.
laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála getur stefndi krafist þess við
þingfestingu máls að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar,
megi leiða líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar sem á
hann kunni að falla í málinu.
Stefndi byggir kröfu sína á
fjárnámsgerð, sem fór fram 28. ágúst 2013 og lauk án árangurs. Fjárnámsgerð,
sem hefur verið lokið að hluta eða í heild án árangurs, gefur sterka
vísbendingu um ógjaldfærni gerðarþola, enda felst í þeim málalyktum að
gerðarþoli á hvorki handbært fé til að greiða þá kröfu sem krafist er fjárnáms
fyrir, né eignir sem taka má fjárnámi til tryggingar kröfunni. Þegar þetta mál
var þingfest voru sjö mánuðir liðnir frá fjárnámsgerðinni. Getur þessi
fjárnámsgerð af þeirri ástæðu ekki gefið rétta mynd af fjárhagslegri stöðu
stefnanda í dag. Verður krafa um að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu
málskostnaðar því ekki byggð á fjárnámsgerðinni.
Þar sem stefndi hefur ekki fært
fram önnur gögn til stuðnings kröfu sinni þykir hann ekki hafa fært sönnur
fyrir því að stefnandi sé ófær um að greiða þann málskostnað sem kann að verða
felldur á hana í þessu máli. Stefndi þykir því ekki hafa sýnt fram á að
fullnægt sé skilyrði b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991. Verður því að
hafna þeirri kröfu hans að stefnandi leggi fram málskostnaðartryggingu.
Ákvörðun málskostnaðar, vegna
þessa þáttar málsins, bíður efnisdóms.
Barbara Björnsdóttir
héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r
ð a r o r ð :
Hafnað er þeirri kröfu stefnda,
Jóns Bjarna Magnússonar, að stefnanda, Svönu Láru Ingvaldsdóttur, verði gert að
setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar.