Hæstiréttur íslands
Mál nr. 189/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
- Þagnarskylda
- Prestur
|
|
Föstudaginn 19. maí 2000. |
|
Nr. 189/2000. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík (Egill Stephensen saksóknari) gegn Miyako Þórðarson (Gestur Jónsson hrl.) |
Kærumál. Vitni. Þagnarskylda. Prestar.
Talið var M, sem starfaði sem prestur heyrnarlausra og aðstoðað hafði B við að skýra móður sinni frá því er faðir hennar sýndi henni kynferðislega áreitni, væri bundinn þagnarskyldu gagnvart B og einnig móður hennar, að því marki, sem móðirin tjáði sig eða lét í ljósi viðbrögð við frásögn B að M viðstaddri. Þar sem hegningarlagaákvæðið, sem háttsemi föðursins gat varðað við, kvað ekki á um tiltekna lágmarksrefsingu þótti ekki fullnægt skilyrði b. liðar 55. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, að um væri að ræða afbrot, sem varðaði minnst tveggja ára fangelsi, til þess að M bæri að gefa skýrslu fyrir dómi án leyfis þess, sem í hlut ætti. Þar sem ekki var fram komið að brotaþoli eða móðir hennar hefðu gefið M leyfi til að skýra frá framangreindum atburði var úrskurður héraðsdóms um að M bæri að gefa skýrslu fyrir dómi samkvæmt c. lið 74. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999, felldur úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. maí 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. maí 2000, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að varnaraðili gæfi skýrslu fyrir héraðsdómi samkvæmt c. lið 74. gr. a. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991. Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila um skýrslutökuna verði hafnað og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
I.
Samkvæmt gögnum málsins hefur lögreglan til rannsóknar ætluð kynferðisafbrot nánar tiltekins manns gegn dóttur sinni, sem fædd er á árinu 1983. Hefur ætlaður brotaþoli meðal annars borið um atvik, sem gerðist vorið 1999, og nánar greinir í úrskurði héraðsdóms. Kveðst brotaþoli hafa skýrt móður sinni frá atvikinu í júní sama árs, en þá hafi varnaraðili verið gestkomandi á heimili þeirra, en móðir hennar og varnaraðili séu vinkonur. Varnaraðili hafi hjálpað henni við að segja móðurinni, sem er heyrnarskert, frá atvikinu.
Varnaraðili kaus með vísan til 2. mgr. 54. gr. laga nr. 19/1991 að tjá sig ekki um málið fyrir lögreglu, þar sem hún hefði verið kölluð á heimilið sem prestur í embættiserindum í umrætt sinn, en varnaraðili kveðst þjóna heyrnarlausum sem prestur þjóðkirkjunnar. Varnaraðili vísar til þagnarskyldu presta samkvæmt 18. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. 1. mgr. 61. gr. laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar og greinar 4.1 í siðareglum presta, en þar segir: „Prestur er bundinn algjörri þagnarskyldu um allt er hann verður áskynja í starfi og leynt skal fara. Í sálgæslu og skriftum er prestur áheyrandi í Krists stað. Þess sem hann verður þannig áskynja má hann því aldrei láta uppi án samþykkis viðkomandi skjólstæðings.“
Í beiðni sóknaraðila um töku skýrslu af varnaraðila fyrir héraðsdómi kemur fram að móðir brotaþola hafi viðhaft þau orð við rannsóknarlögreglumenn, sem komu á heimili brotaþola, að hún segði ósatt um atvik málsins. Af hálfu sóknaraðila er það talið skipta miklu um rannsóknina að varnaraðili gefi skýrslu í málinu, en móðir brotaþola hefur neitað að gefa skýrslu fyrir lögreglu með vísan til 50. gr. laga nr. 19/1991. Geti framburður varnaraðila staðfest sögu brotaþola, gefið upplýsingar um viðbrögð móðurinnar og jafnframt orðið grunaða til varnar.
II.
Sóknaraðili hefur ekki mótmælt staðhæfingu varnaraðila um að hún hafi verið stödd á heimili brotaþola vegna starfa sinna sem prestur þjóðkirkjunnar, en hvorugur málsaðila hefur lagt fram nánari upplýsingar um störf varnaraðila í þágu heyrnarlausra eða tilefni umræddrar heimsóknar hennar. Að þessu virtu verður lagt til grundvallar að varnaraðili hafi verið að störfum sem prestur þegar hún aðstoðaði brotaþola við að skýra móður sinni frá þeim atburði, sem að framan greinir. Með aðstoð sinni við tjáskipti brotaþola og móður hennar öðlaðist varnaraðili vitneskju um viðkvæm atvik og persónuleg trúnaðarmál. Var varnaraðili bundin þagnarskyldu gagnvart brotaþola um það, sem hún tjáði móður sinni fyrir milligöngu varnaraðila, sbr. 18. gr. laga nr. 70/1996 og 1. mgr. 61. gr. laga nr. 78/1997. Sömuleiðis var varnaraðili bundin þagnarskyldu að því marki, sem móðir brotaþola tjáði sig eða lét í ljósi viðbrögð við frásögn brotaþola að henni viðstaddri.
Samkvæmt b. lið 1. mgr. 55. gr. laga nr. 19/1991 er prestum óheimilt að svara spurningum án leyfis þess sem í hlut á um atriði, sem varða einkahagi manna og þeim hefur verið trúað fyrir í starfa sínum, nema um afbrot sé að ræða, sem varðar minnst tveggja ára fangelsi. Eins og að framan greinir neitaði varnaraðili að svara spurningum hjá lögreglu vegna rannsóknar á ætlaðri háttsemi föður brotaþola, sem sóknaraðili telur geta varðað við 2. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 8. gr. laga nr. 40/1992. Refsing samkvæmt því ákvæði varðar allt að tveggja ára fangelsi og allt að fjögurra ára fangelsi sé barnið yngra en 16 ára. Samkvæmt þessu kveður 2. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga ekki á um tiltekna lágmarksrefsingu og er því ekki fullnægt því skilyrði b. liðar 55. gr. laga nr. 19/1991 að um sé að ræða afbrot, sem varði minnst tveggja ára fangelsi. Verður varnaraðila því ekki gert skylt að svara spurningum um umrædd atriði án leyfis þess, sem í hlut á, enda hafi henni verið trúað fyrir þeim í starfa sínum. Ákvæði 2. mgr. 54. gr. laga nr. 19/1991, sem ætlað er að tryggja opinbera leyndarhagsmuni, á hins vegar ekki við um atvik málsins.
Í málinu er ekki fram komið að brotaþoli eða móðir hennar hafi leyft að varnaraðili skýrði frá framangreindum atburði, en af beiðni sóknaraðila um skýrslutöku fyrir héraðsdómi verður ráðið að sóknaraðili hyggist meðal annars leggja spurningar fyrir varnaraðila um viðbrögð móðurinnar við frásögn brotaþola. Af þessum sökum er varnaraðila ekki heimilt að svara þeim spurningum, sem ráðið verður að sóknaraðili hyggist leggja fyrir hana, sbr. b. lið 1. mgr. 55. gr. laga nr. 19/1991. Eins og málið liggur fyrir er skilyrðum c. liðar 74. gr. a. laga nr. 19/1991 ekki fullnægt til að skýrsla verði tekin af varnaraðila og verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Sóknaraðili, lögreglustjórinn í Reykjavík, greiði varnaraðila, Miyako Þórðarson, 30.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. maí 2000.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur, með vísan til b-liðar 1. mgr. 55. gr. laga nr. 91/1991, farið þess á leit, að tekin verði skýrsla fyrir dómi af vitninu Miyako Þórðarson.
Til rannsóknar er hjá lögreglunni í Reykjavík ætlað kynferðisbrot X gagnvart dóttur sinni, Y. Samkvæmt framburði stúlkunnar sýndi faðirinn henni kynferðislega áreitni þrisvar til fjórum sinnum á tímabilinu frá mars til maí 1998 og frá desember sama ár fram í janúar árið 1999 [...]. Alvarlegasta tilvikið átti sér þó stað að kvöldi til rétt fyrir fyrsta samræmda próf stúlkunnar vorið [...] Hún sagði móður sinni, sem er mjög heyrnarskert, frá þessum atburði í júní 1999, að viðstöddu vitninu Miyako Þórðarson, presti heyrnarlausra, og hjálpaði presturinn henni við það.
Er taka átti skýrslu af prestinum hjá lögreglu 30. mars síðastliðinn, kaus hún að tjá sig ekki um málið og bar fyrir sig 2. mgr. 54. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Hún áréttaði þá afstöðu sína fyrir dómi í dag.
Verið er að rannsaka ætlað brot gegn 2. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn þeirri lagagrein varðar allt að 4 ára fangelsi, þar sem Y var ekki orðin 16 ára, þegar hinir kærðu atburðir áttu sér stað. Ekki verður talið, að ofangreint ákvæði laga nr. 19/1991, siðareglur presta eða þagnarskylduákvæði 18. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem vitnið vísar til, geti átt við, eins og hér stendur á.
Samkvæmt b-lið 1. mgr. 55. gr., sem hér á við, er prestum óheimilt sem vitnum að svara, án leyfis þess, sem í hlut á, spurningum um atriði, sem varða einkahagi manna og þeim hefur verið trúað fyrir í starfa sínum, nema um afbrot sé að ræða, sem varðar minnst tveggja ára fangelsi. Með því að brot það, sem til rannsóknar er samkvæmt framansögðu, varðar allt að 4 ára fangelsi, ef sannað verður, er það niðurstaða dómsins, að vitnið Miyako Þórðarson geti ekki skorast undan skýrslugjöf í málinu.
Helgi I. Jónsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Vitninu Miyako Þórðarson er skylt að gefa skýrslu í máli þessu.