Hæstiréttur íslands
Mál nr. 252/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Lögskilnaður
- Gjafsókn
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Miðvikudaginn 9. maí 2012. |
|
Nr. 252/2012.
|
K (Katrín Theódórsdóttir hdl.) gegn M (Kristján Stefánsson hrl.) |
Kærumál. Hjónaskilnaður. Gjafsókn. Frávísunarúrskurður staðfestur.
K krafðist þess fyrir dómi að henni yrði falin forsjá barna hennar og M og að M yrði gert að greiða henni meðlag til framfærslu barnanna. Fyrir héraðsdómi var rekið mál milli sömu aðila þar sem K krafðist lögskilnaðar en til vara skilnaðar að borði og sæng frá M. Talið var að ekki yrði kveðið á um forsjá barna K og M og meðlagsgreiðslur í þessu máli þar sem það kæmi í hlut dómara í skilnaðarmáli aðila að leysa úr ágreiningi um forsjá, sbr. 34. gr. laga nr. 76/2003. Því máli var ólokið og var málinu því vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. apríl 2012 sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2012, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og „að fallist verði á frestbeiðni sóknaraðila þar til dómur fellur í hjónaskilnaðarmáli aðila“. Þá krefst hún kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila án tillits til gjafsóknar sem sóknaraðila hefur verið veitt.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Aðilar málsins gengu í hjúskap 26. júní 1999. Þau eignuðust börnin A [...], B [...] og C [...]. Þau slitu samvistum í októbermánuði 2010.
Sóknaraðili sótti um leyfi til skilaðar að borði og sæng á grundvelli 34. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Málið var tekið fyrir hjá sýslumanninum í Reykjavík 23. nóvember 2010. Var þá bókað að varnaraðili samþykkti kröfu sóknaraðila um skilnað á „ofangreindum grundvelli.“ Sóknaraðili krafðist forsjár barnanna en varnaraðili hafnaði þeirri kröfu og lá því fyrir að ekki var samkomulag um forsjána. Þá var bókað að hvorugt hjónanna tæki afstöðu til lífeyris og unnið væri að gerð fjárskiptasamnings.
Sóknaraðili höfðaði mál þetta 27. apríl 2011 og hafði uppi kröfur um forsjá barnanna þriggja, meðlagsgreiðslu varnaraðila og málskostnað. Sóknaraðili krafðist þess með beiðni sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 9. nóvember 2011 að opinber skipti færu fram til fjárslita milli aðila. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði 18. sama mánaðar þar sem gögn málsins sýndu að hvorugur aðili ætti eignir umfram skuldir.
Hjónaskilnaðarmál aðila var aftur tekið fyrir hjá sýslumanni 29. nóvember 2011. Sóknaraðili mætti en varnaraðili ekki og var þá bókað: „óskað er eftir því að sýslumaður veitti leyfi til skilnaðar sbr. 2. mgr. 41. gr. hjúskaparlaga.“ Þá var einnig bókað að ágreiningur væri um forsjá og meðlagsgreiðslur, en sóknaraðili legði fram stefnu í máli því sem hér er til umfjöllunar. Þá var bókað um framangreindan úrskuð Héraðsdóms Reykjavíkur 18 nóvember 2011. Loks var bókað að málinu væri „frestað til fyrirtöku með hinum aðilanum og verður honum send boðun til viðtals.“ Í bréfi sýslumannsins í Reykjavík til sóknaraðila 23. janúar 2012 kom fram að ekki hafi tekist að boða varnaraðila til fyrirtöku skilnaðarmáls aðila þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Með vísan til 33. gr., 34. gr. og 41. gr. hjúskaparlaga gæti sýslumaður ekki veitt leyfi til skilnaðar að borði og sæng og væri málinu „því hér með vísað frá embætti sýslumannsins í Reykjavík.“ Með stefnu 12. desember 2011 höfðaði sóknaraðili mál á hendur varnaraðila og gerði þá aðalkröfu að sér yrði veittur lögskilnaður frá varnaraðila, en til vara skilnaður að borði og sæng. Þá krafðist hún málskostnaðar.
Þann 21. desember 2011 gerðu aðilar dómsátt um hluta krafna sóknaraðila í máli því sem hér er til umfjöllunar um að sóknaraðili færi með forsjá barnanna þriggja, meðlagsgreiðslur varnaraðila með þeim og umgengnisrétt hans. Samkomulag aðila tók þó hvorki til þess hvenær meðlagsgreiðslur skyldu hefjast né til málskostnaðar. Þann 15. mars 2012 hófst aðalmeðferð í héraði með aðilaskýrslu sóknaraðila. Að því búnu óskaði sóknaraðili eftir að málinu yrði frestað þar til dómur hefði gengið í hjónaskilnaðarmáli aðila, en varnaraðili krafðist frávísunar málsins og málskostnaðar. Héraðsdómari kvað upp hinn kærða úrskurð 20. mars 2012.
Eins og að framan er rakið voru aðilar í hjúskap er mál þetta var höfðað. Er nú rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur mál þar sem sóknaraðili krefst aðallega lögskilnaðar en til vara skilnaðar að borði og sæng frá varnaraðila. Er því máli ólokið. Að því gættu verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna sinna.
Sóknaraðili verður dæmd til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, K, greiði varnaraðila, M, 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns hennar 200.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2012.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 16. mars sl., var höfðað fyrir dómþinginu af K, heimilisfang [...], á hendur M, s.st., með stefnu, áritaðri um birtingu 27. apríl 2011.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að henni yrði einni falin forsjá barnanna, A, kt. [...], B, kt. [...], og C, kt. [...], til 18 ára aldurs þeirra. Jafnframt er þess krafist, að stefnda verði gert að greiða stefnanda meðlag til framfærslu barnanna eins og barnalífeyrir er ákveðinn hverju sinni frá 1. október 2010 til 18 ára aldurs þeirra.
Stefnandi krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi stefnda, auk virðisaukaskatts, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Stefnandi fékk gjafsókn með bréfi innanríkisráðuneytisins, dagsettu 3. nóvember 2011.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda í málinu og gerir kröfu um að honum verði falin forsjá barnanna, A, B og C. Þá krefst stefndi þess, að stefnandi verði dæmd til þess að greiða honum einfalt meðalmeðlag með börnunum, eins og það ákveðst af Tryggingarstofnun ríkisins hverju sinni, frá dómsuppsögudegi til fullnaðs átján ára aldurs þeirra.
Stefndi gerir og kröfu um að dómurinn ákvæði inntak umgengnisréttar barnanna við það foreldri, sem ekki fær forsjá þeirra.
Stefndi krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi stefnanda, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
II
Málavextir eru þeir, að aðilar málsins gengu í hjúskap 26. júní 1999. Þau slitu samvistum í októbermánuði 2010, og var síðasta sameiginlega heimili þeirra að [...], Reykjavík. Meðan á hjónabandinu stóð eignuðust þau börnin, A, [...], B, [...] og C, [...].
Hinn 23. nóvember 2010 sótti stefnandi um skilnað hjá sýslumanninum í Reykjavík, þar sem hún krafðist þess, að hún færi ein með forsjá barnanna, en stefndi hafnaði því. Við fyrirtökuna kom fram, að unnið væri að gerð skiptasamnings. Eftir að aðilar höfðu ákveðið að skilja, flutti stefndi í íbúð við [...] í Reykjavík. Stefnandi varð hins vegar eftir á heimilinu með börnin.
Stefnandi byggir kröfu sína um forsjá á því, að börnunum sé best borgið með því að hún fari ein með forsjána og að best sé fyrir börnin að alast upp saman hjá henni. Umönnun barnanna hafi, á sambúðartíma aðila, aðallega komið í hennar hlut. Vísar stefnandi til barnalaga kröfum sínum til stuðnings. Þá byggir hún kröfu um meðlag á þeirri skyldu foreldra að framfæra börn sín sameiginlega. Stefndi hafi hvorki greitt meðlag með börnunum frá samvistarslitum né hafi hann sinnt framfærsluskyldu sinni gagnvart stefnanda.
Stefndi byggir kröfu sína um forsjá barnanna á 34. gr. laga nr. 76/2003 og telur hagsmunum barnanna best borgið í sinni umsjá. Börnin séu tengd honum og fjölskyldu hans afar sterkum böndum, enda hafi fjölskylda stefnda verið aðalfjölskylda barnanna allt frá fæðingu. Njóti stefndi mjög góðs stuðnings fjölskyldunnar allrar í máli þessu, bæði félagslegs- tilfinningalegs- og fjárhagslegs stuðnings. Telur stefndi að fyrir liggi að ef stefnandi fengi forsjá barnanna myndi hún flytjast úr landi með börnin, og hagsmunum þeirra væri þar með stefnt í voða, en drengurinn A sé seinfær og þurfi meiri umönnun en gengur og gerist. Þá hafi stefnandi, aðallega fyrst eftir sambúðarslitin, hindrað samskipti stefnda við börnin.
II
Eins og að framan greinir var mál þetta höfðað 27. apríl 2011. Hefur málinu verið frestað ítrekað bæði til gagnaöflunar og til sáttaumleitana. Undir rekstri málsins komu aðilar sér saman um forsjá barnanna og umgengni, en greinir enn á um meðlagsgreiðslur með börnunum. Fyrir liggur í máli þessu, að aðilar eru enn í hjúskap og voru það, er málið var höfðað. Samkvæmt 29. gr. barnalaga á barn rétt á forsjá beggja foreldra sinna, sem eru í hjúskap. Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga nr. 31/1993 skal skipa forsjá barns og ákveða framfærslueyri með því við skilnað að borði og sæng og við lögskilnað í samræmi við ákvæði barnalaga. Samkvæmt 34. gr. barnalaga er kveðið á um að ef foreldrar leita skilnaðar fyrir dómi, leysi dómari um leið úr ágreiningi um forsjá. Með því að aðilar eru enn í hjúskap verður ekki, með vísan til þess sem að framan er rakið, kveðið á um forsjá barna þeirra og meðlagsgreiðslur, í dómsmáli. Samkvæmt þessu er ekki fullnægt skilyrðum fyrir höfðun máls þessa. Verður því ekki hjá því komist að vísa málinu frá dómi ex officio.
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Eins og að framan greinir nýtur stefnandi gjafsóknar við rekstur málsins fyrir héraðsdómi, sbr. bréf innanríkisráðuneytisins, dagsettu 3. nóvember 2011. Gjafsóknin er takmörkuð við 400.000 krónur. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er þóknun lögmanns hennar, Katrínar Theodórsdóttur hdl., 400.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun gjafsóknarkostnaðar hefur ekki verið tekið tillit til virðisaukaskattsskyldu stefnanda.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, K, 400.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.