Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-206
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Kynferðisbrot
- Börn
- Skaðabætur
- Sönnunarmat
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 14. maí 2019 leitar X leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 12. apríl sama ár í málinu nr. 727/2018: Ákæruvaldið gegn X, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr., 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.
Með fyrrnefndum dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn tveimur dætrum sínum eins og þeim var nánar lýst í fjórum ákæruliðum, en í héraði hafði hann verið sýknaður af sakargiftum samkvæmt tveimur þeirra. Voru brotin talin varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir að hafa tvívegis brotið gegn nálgunarbanni sem hann sætti gagnvart annarri dætra sinna, sbr. 1. mgr. 232. gr. laga nr. 19/1940. Var refsing leyfisbeiðanda ákveðin fangelsi í sjö ár. Þá var honum gert að greiða brotaþolum skaðabætur.
Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt. Byggir hann meðal annars á því að meðferð málsins fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant þar sem ekki hafi verið boðað til þinghalds að nýju þegar krafa kom fram af hálfu réttargæslumanns um að leyfisbeiðandi viki úr þinghaldi á meðan annar brotaþola gæfi viðbótarskýrslu þar fyrir dómi. Auk þess hafi brotaþolinn verið spurð um sömu atriði og áður í héraði sem brjóti í bága við e. lið 2. mgr. 203. gr. laga nr. 88/2008. Þá hafi kröfu leyfisbeiðanda um að tilgreindur sálfræðingur yrði kvaddur fyrir dóm verið ranglega hafnað og því beri að ómerkja dóm Landsréttar. Að lokum telur leyfisbeiðandi að sakarefnið hafi verulega almenna þýðingu og sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að formi til og efni.
Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt fyrst og fremst á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar leyfisbeiðanda, brotaþola og nafngreindra vitna, en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Er beiðninni því hafnað.