Hæstiréttur íslands
Mál nr. 490/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Þriðjamannslöggerningur
|
|
Mánudaginn 23. september 2013. |
|
Nr. 490/2013.
|
SPRON verðbréf hf. (Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl.) gegn Kaupþingi hf. (Jóhannes Karl Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Þriðjamannslöggerningur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var að viðurkenna kröfu S hf. á hendur K hf. sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Reisti S hf. kröfu sína á endurfjármögnunarsamningi G ehf. og K hf. og byggði í fyrsta lagi á því að í honum hefði falist skuldbindandi og óskilyrt greiðsluloforð K hf. gagnvart S hf., í öðru lagi að K hf. væri bundinn af samningnum gagnvart S hf. á grundvelli reglna samningaréttarins um eiginlega þriðjamanns löggerninga og í þriðja lagi að K hf. hefði tekið á sig kröfuábyrgð á skuld G ehf. við S hf. Um ágreining aðila um gildi endurfjármögnunarsamningsins sagði í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, að það hvíldi á K hf. að gera trúverðuga grein fyrir mun á texta þeirra fundargerða sem lægju fyrir í málinu. K hf. hefði ekki kvatt nein vitni fyrir dóminn. Þar sem bæði fulltrúar G ehf. og starfsmenn K hf. sem að málinu komu hafi talið formsatriði frágengin yrði að ganga út frá því að samningurinn hefði tekið gildi. Hann hefði þó einn og sér hvorki veitt S hf. beinan og sjálfstæðan rétt á hendur K hf. né væri unnt að túlka orðalag hans þannig að hann veitti S hf. slíkan rétt. Þá yrði S hf. ekki talið eiga fjárkröfu á hendur K hf. með því að K hf. hefði tekið á sig kröfuábyrgð gagnvart S hf. Var kröfu S hf. því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. júní 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júní 2013, þar sem kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila var hafnað. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að krafa hans að fjárhæð 1.680.791.421 króna verði viðurkennd í réttindaröð við slit varnaraðila sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, SPRON verðbréf hf., greiði varnaraðila, Kaupþingi hf., 400.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur, miðvikudaginn 12. júní 2013.
Þetta mál, sem barst dóminum, 14. september 2011, með bréfi slitastjórnar Kaupþings banka hf., var þingfest 28. október það ár og tekið til úrskurðar 17. apríl 2013.
Sóknaraðili, slitabú SPRON Verðbréfa hf., kt. 670505-1970, krefst þess að viðurkennd verði krafa hans í slitabú Kaupþings banka hf. að fjárhæð 1.680.791.421 kr. svo og að henni verði skipað í réttindaröð sem almennri kröfu, samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Sóknaraðili krefst einnig málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili, slitabú Kaupþings banka hf., kt. 560882-0419, krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað svo og að sóknaraðila verði gert að greiða honum málskostnað.
Málavextir
Sóknaraðili byggir kröfu sína á greiðsluloforði Kaupþings banka hf. sem hann telur felast í endurfjármögnunarsamningi bankans og Fjárfestingarfélagsins Giftar ehf. þess efnis að Kaupþing greiddi skuldir Giftar hjá nánar tilgreindum lánveitendum, þar á meðal SPRON Verðbréfum, eftir því sem þær féllu í gjalddaga. SPRON Verðbréf (SPV) hafi átt kröfu á hendur Gift á grundvelli lánssamnings sem féll í gjalddaga 3. október 2008 og varði greiðsluloforð Kaupþings gagnvart SPV þá kröfu. Kaupþing hafi hins vegar ekki innt greiðsluna af hendi þegar vald hluthafafundar Kaupþings var tekið yfir af Fjármálaeftirlitinu (FME) 9. október 2008.
Sóknaraðili segir atvik málsins þau að 3. október 2006 hafi Eignarhaldsfélag Samvinnutrygginga svf. tekið fjölmyntareikningslán hjá móðurfélagi SPV, Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf. (SPRON). Lánið hafi numið 1.990.672,28 evrum, 3.156.565,66 svissneskum frönkum, 298.889.838 japönskum jenum, 2.533.294,73 Bandaríkjadölum og 305.609.089 íslenskum krónum. Upphaflegur gjalddagi þess hafi verið 3. janúar 2007 en eftir nokkrar breytingar á skilmálum lánssamningsins hafi seinasti umsamdi gjalddagi lánsins verið 3. október 2008. Með skuldskeytingu, 21. nóvember 2007, hafi Gift, kt. 620507-0910, orðið skuldari lánsins. Á árinu 2008 hafi upphaflegur lánveitandi, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf., framselt dótturfélagi sínu, SPV, lánið.
Varnaraðili tekur fram að Gift fjárfestingarfélag ehf. hafi verið stofnað, 15. júní 2007, þegar aðalfundur Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga samþykkti að stefna að formbreytingu á eignarhaldsfélaginu með því að færa öll réttindi og skyldur þess til nýs dótturfélags og slíta móðurfélaginu í kjölfarið. Sama dag, 15. júní 2007, hafi verið haldinn hluthafafundur í einkahlutafélaginu Bank ehf. Á honum hafi nýjar samþykktir fyrir félagið verið samþykktar og nafni þess breytt í Gift. Í desember 2007 hafi Gift keypt rúmlega 23 milljónir hluta í Kaupþingi hf. fyrir um 20 milljarða króna og hafi Kaupþing fjármagnað kaupin.
Í upphafi ársins 2008 og á næstu mánuðum þar á eftir hafi markaðsverð hlutabréfa lækkað en nánast allar eignir Giftar hafi verið í skráðum verðbréfum. Með lækkandi verði hlutabréfa hafi rýrnað verðmæti þess vörslusafns sem Gift hafði sett til tryggingar lánum sínum frá Kaupþingi.
Hinn 14. maí 2008 hafi verið undirritaður svonefndur rammasamningur/tilboð (rammasamningurinn) þess efnis að Kaupþing banki veitti Gift fjármagn. Ingólfur Helgason forstjóri Kaupþings á Íslandi og Bjarki H. Diego framkvæmdastjóri útlánasviðs bankans hafi ritað undir rammasamninginn sem og stjórn Giftar. Samningurinn hafi verið háður nokkrum fyrirvörum. Hvorki Gift né aðrir aðilar hafi fengið greiðslur á grundvelli hans.
Í 5. gr. rammasamningsins hafi verið ákvæði sem skuldbatt stjórn Giftar til að hækka hlutafé í Gift um tvo milljarða króna eða hlutast til um útgáfu skuldabréfs með breytirétti í sama fjölda hluta. Kaupþing banki hafi jafnframt samþykkt í 6. gr. samningsins að sölutryggja útgáfu nýs hlutafjár í Gift eða skuldabréf með breytirétti, sbr. 5. gr. samningsins. Í 6. gr. komi fram að Kaupþing hafi forgang til að skrá sig fyrir hinu nýja hlutafé eða skuldabréfi með breytirétti og/eða ráðstafa hlutafjárhækkun eða skuldabréfi með breytirétti til þriðja aðila samkvæmt einhliða ákvörðun Kaupþings.
Í júlí 2008 hafi verið gengið frá lánssamningi, áskriftarsamningi og þóknunarsamningi vegna þessara ákvæða rammasamningsins. Með samningunum hafi Kaupþing fengið rétt til að skrá sig fyrir nýju hlutafé í Gift að nafnvirði tveir milljarðar króna fram til 1. febrúar 2013 og Gift hafi fengið tvo milljarða króna að láni fram til 1. febrúar 2013. Áætlað hafi verið að gera lánið upp með skuldajöfnuði á móti nýju hlutafé í Gift. Samhliða þessu hafi verið gerður þóknunarsamningur milli Giftar og Kaupþings vegna framangreinds. Til þess hafi þó aldrei komið að varnaraðili nýtti sér forgangsrétt sinn að útgáfu nýrra hluta í Gift.
Að sögn sóknaraðila átti SPV á árinu 2008 í viðræðum við fulltrúa Giftar vegna stöðu skulda félagsins við sjóðinn og yfirvofandi gjalddaga láns félagsins, en fjárhagsstaða félagsins hafi verið erfið á þessum tíma, meðal annars vegna verðfalls á mörkuðum. Forsvarsmenn Giftar hafi upplýst að félagið hefði gert samning við Kaupþing um endurfjármögnun skulda félagsins og hafi í því sambandi vísað til rammasamnings/tilboðs, dags. 13. maí 2008.
Gögn málsins sýni að Kaupþing hafi gert Gift tilboð um endurfjármögnun skulda félagsins eða um heildarendurfjármögnun eins og yfirskrift samninganna beri með sér. Í 1. gr. samningsins sé fjallað um aðdraganda samningsgerðarinnar. Þar komi meðal annars fram að Kaupþing hafi verið stærsti lánveitandi Giftar og að tryggingar Kaupþings fyrir efndum skulda Giftar gagnvart bankanum hafi verið undir skilgreindum mörkum. Samkvæmt 2. gr. hafi markmið samningsins verið að tryggja hagsmuni hluthafa Giftar og „annarra sem leiða rétt sinn frá honum ...“ og að tryggja fjármögnun Giftar til 1. febrúar 2010 „með aðgang að lánsfé“. Í 3. gr. samningsins lýsi Kaupþing yfir vilja til að endurfjármagna skuldir Giftar við aðra en Kaupþing og „tryggja ... aðgang að lánsfé þar sem Kaupþing skuldbindi sig til að lána Gift allt að 15,4 milljörðum ... með því ófrávíkjanlega skilyrði að andvirði lánsins verði alfarið ráðstafað til greiðslu á skuldum Giftar eftir því sem þær skuldir falla í gjalddaga, eða fyrr ef Kaupþing ákveður að skuldirnar skuli greiddar fyrir gjalddaga“. Samkvæmt 5. gr. samningsins hafi einn þáttur í endurfjármögnuninni verið sá að hlutafé Giftar yrði aukið um tvo milljarða, úr fjórum í sex.
Framangreindur rammasamningur/tilboð hafi verið samþykktur á stjórnarfundi Giftar 14. maí 2008. Þar sem sú dagsetning sé innan samþykkisfrests 8. gr. líti sóknaraðili svo á að bindandi samningur hafi komist á.
Í fylgiskjali samningsins, sem samkvæmt lokamálslið 3. gr. samningsins skoðast sem hluti hans, sé gerð nánari grein fyrir lánskjörum og skilmálum endurfjármögnunarinnar. Undir liðnum „Ádrættir“ segi að heimilt verði að draga á lánsfjárhæðina á tiltekinn hátt og sé skuld Giftar gagnvart SPV þar tilgreind svo og gjalddagi hennar.
Að mati sóknaraðila lýsti Kaupþing, í október 2008, ótvírætt yfir því gagnvart SPV að lán Giftar hjá SPV yrði greitt upp á gjalddaga þess. Það hafi gerst þannig að tveimur dögum áður en lán Giftar hjá SPV féll í gjalddaga, eða 1. október 2008, hafi Helgi M. Baldvinsson, þáverandi starfsmaður SPV, sent Rúnari Magna Jónssyni, viðskiptastjóra á fyrirtækjasviði Kaupþings, tölvupóst þar sem Helgi óskaði eftir „staðfestingu þess efnis að Kaupþing muni greiða upp“ lán Giftar á gjalddaga þess. Rúnar Magni hafi svarað erindinu samdægurs með orðunum: „Við munum afgreiða þetta mál.“
Að morgni föstudagsins 3. október 2008 hafi Helgi aftur sent Rúnari Magna tölvuskeyti þar sem Helgi sagði SPV vænta greiðslu þann dag og að Gunnar Ingi Halldórsson, þáverandi starfsmaður í fjárstýringu SPRON-samstæðunnar, yrði í sambandi vegna frágangs á greiðslunni. Rúnar Magni hafi svarað tölvuskeytinu mínútu síðar og segi í skeyti sínu: „Getið þið sent mér sem fyrst fjárhæðina sem á að greiða og hvert á að greiða hana.“
Framangreindu skeyti hafi Gunnar Ingi svarað skömmu síðar þar sem hann óskaði eftir því að greiðslurnar yrðu lagðar inn á IG reikninga (gjaldeyrisreikninga) SPRON hjá Kaupþingi, auk þess sem sendar voru upplýsingar um sundurliðun fjárhæðarinnar. Þá hafi Gunnar Ingi og Rúnar Magni ræðst við í síma um sömu atriði. Í samskiptum þeirra hafi jafnframt komið fram að beðið væri eftir eyðublöðum vegna stofnunar reikninganna en ljóst hafi verið að stofna þurfti IG reikninga í evrum, svissneskum frönkum, japönskum jenum og Bandaríkjadölum. Í framhaldinu hafi eyðublöð vegna stofnunar gjaldeyrisreikninganna verið undirrituð og send Kaupþingi ásamt öðrum gögnum sem nauðsynleg voru.
Sóknaraðili vekur athygli á því að Bjarki Diego, sem þá var framkvæmdastjóri útlána Kaupþings banka og gegndi einni af æðstu stöðum innan bankans, og Björk Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, hafi fengið afrit af hluta framangreindra tölvuskeyta. Auk þess hafi þau bæði setið í lánanefnd bankans. Hvorugt þeirra hafi gert athugasemd við greiðsluna.
Samkvæmt gögnum málsins hafi Ólafur Haraldsson, aðstoðarsparisjóðsstjóri SPRON, og Björk Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Kaupþings, eftir hádegi þennan sama dag, 3. október 2008, gert með sér munnlegt samkomulag um frestun á greiðslunni í „2 vikur eða þar til „sameining SPRON og Kaupþings hefur farið fram“. Þetta skýrist af því að á þessum tíma hafi legið fyrir samkomulag milli SPRON-samstæðunnar og Kaupþings um sameiningu en aðeins hafi verið beðið eftir samþykki eftirlitsaðila áður en af sameiningunni gæti orðið. Þessa samþykkis hafi verið vænst á næstu vikum.
Eins og áður greinir tók Fjármálaeftirlitið, 9. október 2008, yfir vald hluthafafundar Kaupþings án þess að sóknaraðila hefði borist greiðsla. Eftirlitið skipaði Kaupþingi banka hf. skilanefnd í samræmi við þágildandi ákvæði 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, eins og þeim hafði verið breytt með 5. gr. laga nr. 125/2008 og fékk varnaraðili heimild til greiðslustöðvunar, 24. nóvember 2008, með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur.
Kaupþingi banka hf. var skipuð slitastjórn, 25. maí 2009, í samræmi við 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 og 4. tölulið bráðabirgðaákvæðis II sömu laga. Varnaraðili birti í fyrsta sinn innköllun til kröfuhafa í Lögbirtingablaðinu 30. júní 2009. Kröfulýsingarfrestur rann út 30. desember sama ár. Með kröfulýsingu, 29. desember 2009, lýsti sóknaraðili fyrir slitastjórn varnaraðila kröfu á grundvelli 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti að fjárhæð 1.680.791.421 kr. Slitastjórn hafnaði kröfunni með bréfi, 7. september 2010, og mótmælti sóknaraðili afstöðu slitastjórnar með bréfi, 10. september 2010. Slitastjórn boðaði þá til funda í því skyni að reyna að jafna ágreininginn um réttmæti kröfu sóknaraðila. Þar sem það tókst ekki beindi slitastjórnin honum til héraðsdóms með bréfi, 9. september 2011, í samræmi við 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002.
Málsástæður sóknaraðila
Sóknaraðili reisir kröfu sína á endurfjármögnunarsamningi Giftar og Kaupþings banka, 13. maí 2008. Hann byggir í fyrsta lagi á þeirri málsástæðu að í samningnum hafi falist skuldbindandi og óskilyrt greiðsluloforð Kaupþings gagnvart SPV um að skuld Giftar við SPV yrði greidd upp á gjalddaga lánsins. Það hafi Rúnar Magni Jónsson, viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði Kaupþings, staðfest í tölvuskeytum 1.-3. október 2008 og símtölum sama dag. Með yfirlýsingum Rúnars um greiðslu og öðrum athöfnum bankans, svo sem stofnun sérstakra gjaldeyrisreikninga til að leggja andvirði lánsins inn á, eins og að framan er lýst, hafi stofnast samningssamband milli málsaðila sem veiti sóknaraðila rétt til að krefjast efnda úr hendi varnaraðila á grundvelli meginreglna samninga- og kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga.
Sóknaraðili byggir í annan stað á því að varnaraðili sé bundinn af endurfjármögnunarsamningnum gagnvart sóknaraðila á grundvelli reglna samningaréttarins um eiginlega þriðjamannslöggerninga. Endurfjármögnunarsamningur Kaupþings og Giftar hafi verið gerður lánardrottnum Giftar til hagsbóta og hafi verið þeim kunnur. Sóknaraðila sé því rétt og heimilt að krefjast efnda úr hendi varnaraðila á grundvelli reglunnar.
Sóknaraðili byggir í þriðja lagi á reglum kröfuréttarins um kröfuábyrgð með sömu rökum og að framan greinir.
Þessi endurfjármögnunarsamningur Kaupþings banka og Giftar hafi verið forsenda þess að SPV hafi haldið að sér höndum við að innheimta skuldina hjá Gift, enda hafi skýrt loforð Kaupþings um uppgreiðslu lána félagsins hjá kröfuhafa legið fyrir, en þá skyldu hafi Kaupþing viðurkennt gagnvart sóknaraðila eins og áður rakin tölvuskeyti starfsmanna SPV og Kaupþings sýni.
Þá liggi fyrir að Gift greiddi Kaupþingi ríflega 1,1 milljarð króna í þóknun vegna endurfjármögnunarsamningsins, 12. september 2008, sem eitt og sér staðfesti að samningurinn hafi komið til framkvæmda og hafi verið skuldbindandi fyrir Kaupþing gagnvart sóknaraðila.
Kröfufjárhæðin hafi sundurliðast svo, 3. október 2008, þegar reikningslánið féll í gjalddaga, eins og lokaskilmálabreyting þess og sundurliðun sýni:
· höfuðstóll þess hluta lánsins sem var í íslenskri mynt nam 280.763.163 kr. auk áfallinna vaxta að fjárhæð 28.812.571 kr. eða samtals 309.575.734 kr.,
· sá hluti lánsins sem var veittur í USD stóð í 2.288.992 USD, auk 87.457 USD áfallinna vaxta, samtals 2.376.448 USD, eða samtals 268.301.025 ISK miðað við gengi 3. október 2008 (2.376.448,- USD x 112,9),
· sá hluti lánsins sem var veittur í JPY stóð í 268.250.143 JPY, auk 8.036.746 JPY áfallinna vaxta, samtals 276.286.889 JPY, eða samtals 296.870.262 ISK miðað við gengi JPY 3. október 2008 (8.036.746,- JPY x 1,0745),
· sá hluti lánsins sem var veittur í CHF stóð í 2.842.302 CHF, auk 113.347 CHF áfallinna vaxta, samtals 2.955.649 CHF, eða samtals 295.151.149 ISK miðað við gengi 3. október 2008 (2.955.649 CHF x 99,86),
· sá hluti lánsins sem var veittur í EUR stóð í 1.798.572 EUR, auk 88.107 EUR áfallinna vaxta, samtals 1.886.679 EUR, eða samtals 295.321.889 ISK miðað við gengi EUR 3. október 2008 (1.886.679 EUR x 156,53).
Samanlagt nemi höfuðstóll kröfunnar 1.465.220.060 krónum (309.575.734 + 268.301.025 + 296.870.262 + 295.151.149 + 295.321.899) auk dráttarvaxta, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 3. október 2008 til 22. apríl 2009, að fjárhæð 215.571.361 kr. eða alls að fjárhæð 1.680.791.421 kr.
Sóknaraðili vísar til þess að slitastjórn varnaraðila hafi hafnað kröfu sóknaraðila. Á fundum sem haldnir voru í því skyni að jafna ágreining aðila, sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991, sem hér gildi, sbr. 4. mgr. 102. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, hafi óljóst verið vísað til þess að endurfjármögnunarsamningur Kaupþings og Giftar hafi ekki gengið eftir án þess að nokkur gögn hafi verið lögð fram því til stuðnings. Þetta geri sóknaraðila einkar erfitt að átta sig á því á hvaða röksemdum afstaða slitastjórnar varnaraðila er reist.
Sóknaraðili hafnar málatilbúnaði varnaraðila alfarið, hafi sjónarmið varnaraðila á annað borð eitthvert gildi í málinu. Sóknaraðili telur lögskipti Kaupþings og Giftar hafa takmarkaða þýðingu fyrir úrlausn málsins, enda beri að horfa á málið frá sjónarhóli sóknaraðila og þeim loforðum og yfirlýsingum sem SPV hafi verið gefin um efndir. Rétt sé þó að gera grein fyrir helstu atriðum í lögskiptum Kaupþings og Giftar frá apríl til september 2008 sem að mati sóknaraðila staðfesti að endurfjármögnunarsamningur Kaupþings og Giftar hafi komið til framkvæmda og hafi verið skuldbindandi gagnvart sóknaraðila.
Á stjórnarfundi Giftar, 25. apríl 2008, hafi endurfjármögnun félagsins verið til umræðu. Í fundargerð segi að lagt hafi verið fram á fundinum tilboð frá Kaupþingi, dagsett sama dag, um „rammasamning við félagið og um skilmála heildarendurfjármögnunar félagsins“. Eftir umræður hafi verið ákveðið að fresta afgreiðslu málsins. Á stjórnarfundi Giftar, 8. maí 2008, hafi endurfjármögnun félagsins aftur verið til umræðu. Upplýst var að samþykkisfrestur á tilboði Kaupþings um endurfjármögnun skulda félagsins hefði verið framlengdur til 14. maí 2008. Á stjórnarfundi Giftar, 14. maí 2008, var tilboð Kaupþings banka um endurfjármögnun samþykkt og undirritað.
Eftir undirritun endurfjármögnunarsamningsins hafi Kaupþing og Gift átt margvísleg samskipti vegna samningsins. Þá hafi verið gerðir frekari samningar á milli þeirra á grundvelli samningsins og nái sú atburðarás allt til 12. september 2008 en þá hafi aðeins um fjórar vikur verið þar til Kaupþing banki var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu.
Hinn 10. júní 2008 hafi verið undirritaður viðauki við endurfjármögnunarsamning Kaupþings og Giftar. Það sýni að á þeim degi hafi báðir talið rammasamninginn í fullu gildi enda hefði að öðrum kosti, eðli málsins samkvæmt, ekki verið undirritaður viðauki við samninginn. Í viðaukanum var 5. gr. samningsins breytt á þá lund að Kaupþing fékk áskriftarrétt að nýju hlutafé í Gift að nafnvirði tveggja milljarða króna á genginu 1,0 án þess að reyndi á forkaupsrétt annarra hlutahafa. Samkvæmt 2. gr. viðaukans skuldbatt Kaupþing sig til að veita Gift lán að fjárhæð tveir milljarðar króna með þeim skilmálum sem þar greinir.
Á hluthafafundi í Gift, 30. júní 2008, hafi verið samþykkt sú tillaga að stjórn félagsins væri heimilt að undirrita áskriftarsamning við Kaupþing um kaup á framangreindum tveimur milljörðum hluta. Þá hafi samþykktum félagsins verið breytt til samræmis við framangreinda ákvörðun.
Stjórn Giftar hafi, 31. júlí 2008, undirritað umboð fyrir stjórnarformann félagsins, Sigurjón Rúnar Rafnsson, til þess að undirrita fyrir hönd félagsins, lánssamning, áskriftarsamning, þóknunarsamning og rammasamning við Kaupþing vegna endurfjármögnunar Giftar.
Lánssamningur og áskriftarsamningur hafi verið undirritaðir, 31. júlí 2008. Sóknaraðili leggi fram undirritað eintak lánssamningsins og óundirritað eintak áskriftarsamningsins þar sem sóknaraðila hafi ekki tekist að afla undirritaðs eintaks. Samkvæmt lánssamningnum hafi Kaupþing veitt Gift lán að fjárhæð tveir milljarðar króna til fimm ára með lokagjalddaga, 1. júlí 2013. Lánssamningurinn hafi verið óaðskiljanlegur hluti áskriftarsamningsins en samkvæmt síðarnefnda samningnum hafi Kaupþingi verið veittur áskriftarréttur að tveimur milljörðum hluta í Gift á genginu 1,0 í samræmi við ákvæði í fyrrnefndum viðaukasamningi.
Þóknunarsamningurinn hafi verið undirritaður sama dag, 31. júlí 2008. Í 1. gr. hans sé vísað til rammasamnings aðilanna auk framangreinds viðauka. Í 2. gr. segi að samkvæmt rammasamningi aðila geti heildarfjármögnun Kaupþings til Giftar numið 32-45 milljörðum króna á samningstímanum. Svo segi: „Samkomulag er á milli aðila um að Gift greiði Kaupþingi við undirritun þessa þóknunarsamnings kr. 1.156.224.526,- sem sérstaka þóknun fyrir þá fyrirgreiðslu, þ.e. endurfjármögnun og hugsanleg ný eða frekari lán, og skilmálabreytingar, sem felast í rammasamningi aðila frá 13. maí 2008.“
Þessi þóknun hafi verið greidd Kaupþingi, 12. september 2008, í tveimur færslum, annarri að fjárhæð 900.000.000 kr. og hinni að fjárhæð 166.224.526 kr. eða samanlagt 1.156.224.526 kr. sem sé sama fjárhæð og um var samið. Þóknun hafi því numið 2,5%-3,6% af skuldbindingum Kaupþings samkvæmt endurfjármögnunarsamningnum.
Bjarki Diego, hrl. og framkvæmdastjóri útlána hjá Kaupþingi, og Áslaug Guðjónsdóttir lögfræðingur hafi undirritað framangreinda samninga fyrir hönd bankans. Sóknaraðili vísar til þess að Bjarki hafi, í krafti stöðu sinnar hjá Kaupþingi sem æðsti yfirmaður þess sviðs sem fór með útlán bankans, haft fulla heimild og umboð til undirritunar samninganna þannig að skuldbindandi væri fyrir bankann.
Í febrúar 2009, eða um fjórum mánuðum eftir fall Kaupþings, hafi Margrét Guðjónsdóttir, endurskoðandi Giftar, sent Rúnari Magna fyrirspurn og óskað eftir kvittunum vegna framangreindra færslna á bankareikningi Giftar nr. 272 hjá Kaupþingi. Rúnar Magni hafi svarað fyrirspurn Margrétar með tölvuskeyti, 12. febrúar 2009, með þeim hætti að greiðslan væri „þóknun vegna endurfjármögnunarsamnings sem Gift og Kaupþing gerðu með sér“. Með þessu sé staðfest að í febrúar 2009 hafi starfsmenn Kaupþings enn litið svo á að endurfjármögnunarsamningur Kaupþings og Giftar hefði komið til framkvæmda.
Samkvæmt öllu framangreindu telji sóknaraðili ljóst að endurfjármögnunarsamningur Kaupþings og Giftar hafi komið til framkvæmda. Samningurinn hafi verið undirritaður í maí 2008, viðauki við hann undirritaður í júní 2008, auk þess sem aðrir samningar sem málinu tengdust hafi verið undirritaðir í júlí sama ár. Þá hafi sú þóknun, sem Gift greiddi sem gjald fyrir endurfjármögnunarsamninginn, verið innt af hendi 12. september 2008. Jafnframt hafi starfsmenn Kaupþings gengist við ábyrgðinni á gjalddaga lánsins og staðfest með tölvuskeyti í febrúar 2009 að þóknunin væri greidd vegna endurfjármögnunarsamningsins.
Gögn málsins og athafnir aðila frá apríl 2008 til febrúar 2009 staðfesti málatilbúnað sóknaraðila. Málflutningur varnaraðila sem byggi með óljósum hætti á því að samningar Giftar og Kaupþings hafi ekki gengið eftir fái hins vegar ekki staðist.
Til stuðnings kröfu sinni vísar sóknaraðili til meginreglna samninga- og kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga, greiðsluloforð, kröfuábyrgð og þriðjamannslöggerninga. Hann vísar einnig til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum XXIV. kafla. Málskostnaðarkrafa hans styðst við 130. og 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður varnaraðila
Þá kröfu að dómkröfu sóknaraðila verði hafnað byggir varnaraðili í fyrsta lagi á því að ekki hafi komist á bindandi samningur milli Kaupþings banka og Giftar. Í öðru lagi byggir hann á því að sóknaraðili geti ekki átt kröfu á varnaraðila vegna rammasamningsins annars vegar, þar sem það lán SPV, sem hafi verið tilgreint í honum, hafi nú verið framselt Dróma sem hafi lýst kröfu á grundvelli þess samnings við nauðasamning Giftar, og hins vegar að rammasamningurinn hafi ekki veitt SPV rétt á hendur Kaupþingi. Í þriðja lagi byggir hann á því að þeir samningar sem gerðir hafi verið í tengslum við rammasamninginn geti ekki veitt honum gildi og í fjórða lagi að samskipti starfsmanna Kaupþings og starfsmanna SPV hafi ekki skapað réttmætar væntingar fyrir þann síðarnefnda um að samningssamband væri komið á milli hans og bankans. Í fimmta lagi telur varnaraðili kröfufjárhæð sóknaraðila vanreifaða.
Rammasamningur/tilboð um fjármögnun Giftar
Varnaraðili byggir í fyrsta lagi á því að ekki hafi komist á bindandi samningur milli Kaupþings banka og Giftar um endurfjármögnun skuldbindinga Giftar. Í tilboði Kaupþings banka hafi bankinn sett skýra fyrirvara sem hafi þurft að ganga eftir til að samningurinn tæki gildi. Þar sem fyrirvararnir hafi ekki verið uppfylltir hafi aldrei komist á skuldbindandi samningur milli Kaupþings og Giftar.
Í 3. gr. rammasamnings/tilboðs, komi fram að drög að lánskjörum og skilmálum séu hluti af rammasamningnum. Í drögum að lánskjörum og skilmálum komi fram að tilboðið hafi þessa fyrirvara:
a) að samkomulag náist um endanlega skjalagerð,
b) að fyrir liggi áreiðanleikakönnun á óskráðum eignum lántaka sem Kaupþing sætti sig við og
c) að samþykki lánanefndar stjórnar Kaupþings fyrir lánveitingunni liggi fyrir.
Að mati varnaraðila hefði þurft að uppfylla sérhvern þessara fyrirvara til þess að komist hefði á skuldbindandi samningur fyrir báða aðila. Fyrir liggi að skilyrði a) og b) höfðu ekki verið uppfyllt við fall Kaupþings, 9. október 2008, og því ljóst að skuldbinding beggja aðila samkvæmt tilboðinu væri fallin niður, að minnsta kosti frá þeim tíma.
Beiðni um lánafyrirgreiðslu til Giftar að fjárhæð allt að 15,4 milljörðum króna hafi verið lögð fyrir lánanefnd stjórnar Kaupþings, 28. maí 2008. Eins og fundargerð sýni hafi lánanefndin ákveðið að fresta því að taka afstöðu til umræddrar lánabeiðni á fundinum. Lánanefnd stjórnar hafi aftur komið saman 24. september 2008, en fyrrgreind lánafyrirgreiðsla hafi ekki verið til umræðu á þeim fundi. Þetta sýni að fyrirvarinn um samþykki lánanefndar stjórnar hafi ekki náð fram að ganga og þegar af þeirri ástæðu hafi allar skuldbindingar varnaraðila um lánveitingar til Giftar fallið niður.
Fyrirvarinn um að varnaraðili og Gift næðu samkomulagi um endanlega skjalagerð í tengslum við lánveitingar þýði að varnaraðili hafi hvorki verið skuldbundinn til að inna af hendi neinar greiðslur né endurfjármagna nein lán Giftar fyrr en varnaraðili og Gift hefðu náð samkomulagi og gengið frá viðeigandi skjölum vegna slíkrar fjármögnunar. Þar megi nefna sérstaka samninga um sérhverja lánveitingu og ráðstöfun þeirra fjármuna ásamt samkomulagi um tryggingar og stöðu veða.
Bjarki Diego, fyrrverandi framkvæmdastjóri útlána á samstæðugrunni (e. group credit officer), hafi gefið slitastjórn skýrslu á grundvelli 81. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., 28. janúar 2011. Þar staðfesti hann að rammasamningurinn hafi ekki tekið gildi þar sem lánanefnd stjórnar hafi ekki samþykkt hann eins og fyrirvarinn gerði ráð fyrir. Nánar tiltekið segi hann spurður um gerð rammasamningsins við Gift;
Ef ég man rétt þá lítur rammasamningurinn að því að Kaupþing ætlaði að fjárfesta í Gift og þar af leiðandi styðja við eiginfjárgrunninn sem var síðan gert ef ég man rétt. Þ.e.a.s., Kaupþing fjárfestingabanki keypti þarna hvort að Varrant eða eitthvað svoleiðis áttu allavega kauprétt að hlutum í Gift. Þá var samþykkt líka til þess að setja gerði rammasamningurinn ráð fyrir því að öll lán Giftar yrðu bara yfirtekin af Kaupþingi ef ég man rétt. Allar tryggingarnar þar settar undir. Það var þó settur sá fyrirvari að það þyrfti að samþykkja þetta með lánanefnd stjórnar og þetta mál fór fyrir lánanefnd stjórnar á einhverjum tímapunkti. Athugaðu líka að á þessum tíma að þá voru markaðir að veikjast nokkuð hratt og það var tekin ákvörðun um að gera þetta ekki. Þótti of áhættusamt. Það er að taka ekki yfir öll lánin. Þannig að það var ákveðið að nýta fyrirvarann.
Í þessu samhengi bendir varnaraðili á að lán Glitnis banka til Giftar (lán nr. 308851, 308856 og 308934) voru á gjalddaga, 22. ágúst 2008. Gift gerði þau upp við Glitni banka með sölu undirliggjandi veða (hlutabréf í Kaupþingi) en gerði samhliða framvirkan samning við Glitni banka um kaup á umræddum hlutum 10. janúar 2009. Umfjöllum um þessi viðskipti sé meðal annars í fram lagðri skýrslu um starfsemi Samvinnutrygginga o.fl. Hefði rammasamningurinn tekið gildi þegar í maí 2008, eins og sóknaraðili haldi fram, séu líkur fyrir því að Gift hefði nýtt ádráttarheimild sína til að greiða lán sín við Glitni banka eins og samningurinn gerði ráð fyrir.
Starfsmönnun Kaupþings hefði aldrei verið heimilt að inna af hendi greiðslur sem næmu mörgum milljörðum króna án þess að viðeigandi lánanefnd Kaupþings hefði samþykkt lánveitinguna og að til staðar væru undirritaðir lána- og veðsamningar milli Kaupþings og Giftar. Gift hafi verið fullkunnugt um fyrirvarana og að þá þyrfti að uppfylla til þess að kominn væri á bindandi samningur milli aðilanna. Sóknaraðili eigi ekki neina aðild að umræddum samningi og geti því ekki notið betri réttarstöðu en Gift hvað þetta varðar. Sóknaraðili geti fráleitt átt kröfu á hendur varnaraðila á grundvelli hins meinta greiðsluloforðs þar sem samningurinn sem greiðsluloforðið byggist á hafi ekki komist á endanlega milli Kaupþings og Giftar.
Með vísan til alls framangreinds geti sóknaraðili ekki byggt neinn rétt á greiðslu úr hendi varnaraðila á grundvelli rammasamnings/tilboðs um fjármögnun til Giftar frá 13. maí 2008.
Aðildarskortur
Þá byggir varnaraðili enn fremur á því að hafna beri kröfum sóknaraðila á grundvelli aðildarskorts.
Lánssamningur Giftar í eigu þriðja aðila
Kröfu um aðildarskort byggir varnaraðili í fyrsta lagi á því að sóknaraðili geti ekki gert neina kröfu á hendur varnaraðila á grundvelli lánssamnings Giftar nr. 0581, sem var á gjalddaga 3. október 2008, þar sem umræddur lánssamningur sé nú í eigu Dróma, kt. 710309-1670. Kröfu vegna sama lánssamnings hafi Drómi lýst við nauðasamninga Giftar í nóvember 2011 og hafi krafa Dróma verið samþykkt sem samningskrafa. Nauðasamningurinn hafi síðan verið samþykktur á kröfuhafafundi Giftar, 20. desember 2011. Staðfesting Héraðsdóms Reykjavíkur á efni nauðasamningsins og efndir Giftar samkvæmt honum gagnvart Dróma muni hafa sömu réttaráhrif og hefði upphafleg samningskrafa, það er lánssamningur nr. 0581, verið efndur eftir upphaflega efni sínu. Varnaraðili fái ekki séð hvernig sóknaraðili geti átt lögvarða kröfu á hendur honum sem byggist efnislega á lánssamningi sem óumdeilt sé að tilheyri nú þriðja aðila. Það eigi sérstaklega við þegar sá þriðji aðili hafi samið á endanlegan hátt um efndir á lánssamningnum við upphaflegan skuldara.
Sóknaraðili hafi af einhverjum ástæðum talið rétt, í málatilbúnaði sínum, að láta þess ógetið að hann eigi ekki lengur lögvarða hagsmuni á grundvelli framangreinds lánssamnings þar sem hann hafi verið framseldur þriðja aðila. Sóknaraðila hafi þó verið í lófa lagið að geta þess og færa rök fyrir meintri kröfu sinni á varnaraðila með tilliti til framangreinds. Þetta verði að telja sérstaklega ámælisvert í ljósi þess að sömu aðilar skipa slitastjórn sóknaraðila og skipa stjórn Dróma. Af þessu verði ekki dregin önnur ályktun en sú að slitastjórn sóknaraðila sé að reyna að fá sömu kröfuna greidda tvisvar í gegnum tvö aðskilin félag, það er sóknaraðila og Dróma. Varnaraðili mótmæli þessum málatilbúnaði sóknaraðila sem haldlausum og án lagastoðar.
Rammasamningur felur ekki í sér réttindi til handa sóknaraðila
Varnaraðili hafnar því enn fremur að með rammasamningnum hafi stofnast sjálfstæð réttindi fyrir sóknaraðila, það er að sá samningur sé eiginlegur þriðjamannslöggerningur eins og sóknaraðili haldi fram. SPV hafi ekki verið aðili að umræddum rammasamningi og markmið og tilgangur hans hafi ekki verið að stofna til sjálfstæðra réttinda handa lánardrottnum Giftar. Markmið samningsins hafi fyrst og fremst verið að tryggja fjárhagslegt öryggi Giftar sem hafi verið beintengt hagsmunum Kaupþings sem stærsta einstaka lánveitenda félagsins. Þannig geri samningurinn þá ófrávíkjanlegu kröfu að samningsaðilar, það er Gift og Kaupþing, nái samkomulagi um endanlega skjalagerð og geri sérstaka samninga um lánveitingar, ráðstöfun lána inn á skuldir Giftar og veðtöku í tengslum við framangreint. Af ákvæðum samninganna sé ljóst að þeir sköpuðu SPV ekki beinan og sjálfstæðan rétt til að krefjast efnda af hálfu Kaupþings.
Varnaraðili bendir jafnframt á að samkvæmt rammasamningnum hafi Gift ekki verið skylt að nýta sér væntanlega lánsheimild frá varnaraðila til að endurfjármagna lán sín hjá öðrum lánardrottnum eftir því sem þau féllu í gjalddaga heldur hafi félaginu einvörðungu verið það heimilt. Í drögum að lánskjörum og skilmálum, segi að Gift sé heimilt að draga á lánsfjárhæð eftir því sem nánar tilgreind lán þess falli í gjalddaga. Hefði rammasamningurinn komist á hefði Gift engu að síður ávallt þurft að ákveða í sérhvert sinn hvort félagið hygðist nýta sér heimild til að draga á lánsfjárhæð til þess að greiða upp nánar tilgreind lán og ganga frá skjalagerð þar að lútandi. Kaupþingi hefði ekki verið heimilt að greiða upp tilgreind lán án aðkomu og samþykkis Giftar og því síður hefðu lánardrottnar Giftar getað einhliða krafið Kaupþing um greiðslu á skuldbindingum Giftar.
Þegar af þeirri ástæðu að í rammasamningnum hafi einungis falist heimild en ekki skylda fyrir Gift til að draga á lánsfjárhæð þegar kom að gjalddaga útistandandi lána sé vandséð hvernig sú fullyrðing sóknaraðila að í samningnum hafi falist „skuldbindandi og óskilyrt greiðsluloforð af hálfu Kaupþings gagnvart sóknaraðila“ fái staðist. Í greinargerð sinni hafi sóknaraðili ekki getað vísað til neinna ákvæða í rammasamningnum eða drögum að lánskjörum og skilmálum þar sem slíkt greiðsluloforð sé gefið.
Varnaraðili mótmælir sem rangri og vanreifaðri þeirri málsástæðu sóknaraðila að í samningunum hafi falist einhvers konar kröfuábyrgð. Sóknaraðili hafi ekki gert neinn reka að því að rökstyðja hvernig sú ábyrgð eigi að hafa stofnast, enda færi slík kröfuábyrgð þvert gegn einu af markmiðum rammasamningsins, sbr. 2. gr. hans, sem sé að auka tryggingastöðu Kaupþings vegna þeirra lána sem félagið hafði veitt Gift. Þriðja grein rammasamningsins um endurfjármögnun skulda sé skýr um hvað fælist í samningnum kæmist hann á en þar sé kveðið á um endurfjármögnun skulda Giftar gegn veðtöku í öllum eignum félagsins að nánari skilyrðum uppfylltum. Hins vegar sé hvergi minnst á það að Kaupþing ábyrgist skuldir Giftar gagnvart lánardrottnum félagsins.
Varnaraðili hafnar því jafnframt að umrætt samningstilboð hafi verið lánardrottnum Giftar kunnugt eins og sóknaraðili haldi fram. Í því sambandi vísar varnaraðili til draga að lánskjörum og skilmálum, en þar segi:
Efni tilboðs þessa skal vera trúnaðarmál milli tilboðsaðila þessa og skulu þeir ekki veita upplýsingar um efni þess nema lög mæli fyrir um það eða aðilar verða sammála um að veita upplýsingarnar.
Þetta ákvæði sýni að ekki stóð til af hálfu samningsaðila að efni tilboðsins væri kynnt þriðja aðila sérstaklega, til dæmis lánardrottnum Giftar. Það að SPV hafi verið kunnugt um tilboðið og ákveðið að halda að sér höndum með innheimtu á kröfu sinni á hendur Gift sé varnaraðila algjörlega óviðkomandi enda hafi SPV gert það að eigin frumkvæði og áhættu. Sóknaraðili hafi auk þess ekki haldið því fram eða sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir einhverju tjóni með því að hefja ekki innheimtuaðgerðir.
Sú meginregla samningaréttar að með samningi stofnist einungis réttindi eða skyldur fyrir þá aðila sem að samningi standa sé alkunn. Krafa sóknaraðila gangi þvert gegn þeirri reglu. Með vísan til alls framangreinds verði sóknaraðili að bera alla sönnunarbyrði fyrir því að til hafi stofnast beinn og sjálfstæður réttur, honum til handa, til að krefja varnaraðila um greiðslu á skuldbindingum þriðja aðila þrátt fyrir að ekki sé kveðið á um slíka skyldu eða réttindi í umræddum samningum.
Þá bendir varnaraðili á að sóknaraðili hafi ekki lagt fram upprunalegan lánssamning milli SPRON og Giftar frá 3. október 2006. Þá hafi sóknaraðili ekki heldur lagt fram gögn sem sýni að hann hafi fengið umræddan lánssamning framseldan frá SPRON á árinu 2008. Þegar af þeirri ástæðu hafi sóknaraðili ekki sýnt fram á að hann geti átt aðild að kröfu á hendur varnaraðila sem sé grundvölluð á umræddum lánasamningi.
Áskriftarsamningur/lánssamningur/þóknunarsamningur
Sóknaraðili vísi í greinargerð sinni til þriggja samninga, áskriftarsamnings, þóknunarsamnings og lánssamnings, sem gerðir voru í júlí 2008, til stuðnings því að rammasamningurinn hafi tekið gildi.
Með áskriftarsamningnum hafi varnaraðili fengið áskriftarrétt að nýjum hlutum í Gift að nafnvirði tveir milljarðar króna á genginu 1,0. Í þóknunarsamningnum sé vísað til meintrar þóknunar fyrir endurfjármögnun og hugsanleg ný eða frekari lán og skilmálabreytingar sem fólust í rammasamningnum. Með lánssamningnum hafi Kaupþing veitt Gift lán að fjárhæð tveir milljarðar króna, án vaxta og lántökugjalds. Lánið hafi borið að endurgreiða 1. júlí 2013 myndi Kaupþing ekki neyta réttar samkvæmt áskriftarsamningum til þess að kaupa nýja hluti í Gift fyrir 1. júlí 2013. Gift hafi sömuleiðis, samkvæmt grein 2.2. í samningum, verið óheimilt að greiða lánið upp nema með skuldajöfnuði til uppgjörs á skuld lánveitanda við lántaka vegna kaupa á nýjum hlutum samkvæmt áskriftarsamningum.
Framangreindir þrír samningar séu tengdir innbyrðis. Í skýrslutökum slitastjórnar varnaraðila á grundvelli 81. gr. laga nr. 21/1991 hafi verið upplýst að raunverulegar ástæður þess að lánssamningurinn var án vaxta og lántökugjalds, jafnframt því að hafa sérstök ákvæði um uppgreiðslu, hafi verið þær að þarna hafi Kaupþing keypt hluti í Gift fyrir ákveðna upphæð. Það skýri einnig hina meintu þóknun á grundvelli þóknunarsamningsins sem Gift greiddi Kaupþingi. Rétt sé þó að halda því til haga að hin meinta þóknun hafi verið greidd af láninu sem Kaupþing veitti Gift.
Útgefið hlutafé í Gift hafi, fyrir mögulega hækkun og væntanleg kaup Kaupþings, numið fjórum milljörðum króna að nafnvirði. Stjórn Giftar hafi haft heimild til hækka hlutaféð með útgáfu nýrra hluta fyrir tvo milljarða króna að nafnvirði. Það samsvari rétti Kaupþings til áskriftar að nýjum hlutum samkvæmt áskriftarsamningi. Virði hvers hlutar í hlutafélagi geti ekki verið minna en ein króna. Þar sem innra virði (nafnvirði hlutafjár/eigin fjár) Giftar, þegar samningarnir voru gerðir, hafi verið minna en ein króna hefði það falið í sér ofgreiðslu, með hliðsjón af virði félagsins, fyrir Kaupþing að eignast 1/3 af félaginu með því að greiða tvo milljarða króna fyrir útgefið hlutafé. Ofgreiðslan hefði numið ríflega 1,1 milljarði króna. Því hafi sú leið verið farin að láta Gift greiða Kaupþingi þóknun sem nam þeim mismun á virði félagsins og réttu útgefnu nafnvirði þess. Með hliðsjón af því sem að ofan greinir hafi meint þóknun sem Gift greiddi Kaupþingi verið til þess ætluð að gefa Kaupþingi kost á að kaupa hlut í Gift á raunverulegu innra virði félagins þótt hún hafi verið klædd í búning þóknunarsamnings tengdum endurfjármögnun og nýjum lánum til Giftar.
Um ofangreint atriði segi Bjarki H. Diego, fyrrverandi framkvæmdastjóri útlána á samstæðugrunni, í skýrslutöku hjá slitastjórn varnaraðila, spurður um þóknunarsamninginn:
Ef ég man rétt þá litu menn þannig á að eiginfjárvirðið, raunverulegt eiginfjárvirði í Gift á þessum tíma getur verið að menn hafi talið að það væru sextánhundruð milljónir. Þetta laut að því á hvaða gengi menn gætu keypt hlutina. Í rauninni þegar að þú varst að kaupa einn þriðja þá hefðu menn bara keypt semsagt fyrir áttahundruð milljónir króna. En vegna fjölda hluta í Gift þá þyrftu menn að borga tvöþúsund milljónir til þess að ná einum þriðja og að þessi þóknunarreikningur hafi í rauninni bara verið til að jafna þetta.
Allt ofangreint sýni að samningarnir hafi verið tengdir innbyrðis og hafi verið sjálfstæðir gerningar milli Kaupþings og Giftar. Þeir, einir sér, geti ekki veitt rammasamningnum gildi og vikið til hliðar þeim skýru fyrirvörum sem hann kvað á um að þyrfti að uppfylla.
Samskipti sóknar- og varnaraðila 1.-3. október 2008
Varnaraðili mótmælir harðlega þeirri málsástæðu sóknaraðila að með tölvuskeyti Rúnars Magna Jónssonar, 1. október 2008, hafi stofnast samningssamband milli SPV og Kaupþings sem veiti sóknaraðila rétt til að krefja varnaraðila um greiðslu á tæplega 1,7 milljörðum króna.
Varnaraðili telur ljóst að umrætt tölvuskeyti Rúnars Magna, sem segi einfaldlega „við munum afgreiða þetta mál“ feli ekki í sér greiðsluskuldbindingu fyrir varnaraðila og skapi sóknaraðila ekki sjálfstæðan rétt gagnvart honum. Sóknaraðila hafi mátt vera það ljóst frá upphafi að hann gæti ekki byggt nokkurn rétt á tölvuskeytinu gagnvart varnaraðila. Forsögu umrædds tölvuskeytis megi rekja til þess að 1. október 2008 hafi legið fyrir beiðni frá Gift um endurfjármögnun á láni sóknaraðila en sú beiðni hafði þá ekki farið fyrir lánanefnd Kaupþings til samþykktar. Hinn 2. október hafi beiðnin verið lögð fyrir lánanefnd Íslands sem vísaði henni til lánanefndar samstæðu. Beiðnin hafi verið tekin fyrir í lánanefnd samstæðu sama dag og hafi verið samþykkt með fyrirvara um samþykki lánanefndar stjórnar. Lánsbeiðnin hafi hins vegar aldrei verið lögð fram hjá lánaefnd stjórnar til afgreiðslu og þar af leiðandi hafi Kaupþing aldrei samþykkt beiðnina.
Þá geti stofnun gjaldeyrisreikninga einna og sér eða virt í sambandi við tölvuskeyti Rúnars Magna ekki stofnað neinn rétt fyrir SPV á hendur Kaupþingi. Krafa um greiðslu á láni þriðjamanns að fjárhæð 1,7 milljarðar króna verði ekki reist á svo veikum stoðum.
Rúnar Magni Jónsson, sem gegndi stöðu viðskiptastjóra á fyrirtækjasviði, hafi ekki haft sjálfstæða útlánaheimild hjá Kaupþingi, eins og fram lagðar lánareglur varnaraðila sýni. SPV, sem fjármálafyrirtæki í útlánastarfsemi, hafi mátt vera fullljóst að einstaka starfsmenn Kaupþings hefðu ekki sjálfstæðar útlánaheimildir og að allar ákvarðanir um lánveitingar þyrfti að bera undir viðeigandi lánanefnd innan Kaupþings. SPV hafi aldrei kallað eftir slíkri staðfestingu frá Kaupþingi enda hefði ekki verið hægt að gefa hana þar sem lánveitingin sem slík hafi beðið eftir samþykki lánanefndar stjórnar.
Þá hafi Rúnar Magni ekki haft sjálfstætt umboð, hvorki stöðu- né prókúruumboð, til að skuldbinda Kaupþing gagnvart þriðja aðila né fella slíka greiðsluskyldu á Kaupþing. SPV hafi mátt vera það fullljóst. Varnaraðili telur hafið yfir allan vafa að starfsmaður, sem gegni stöðu viðskiptastjóra, geti ekki bundið Kaupþing við að lána eða ábyrgjast jafnháa fjárkröfu og þá sem hér sé deilt um án nokkurra lánssamninga eða trygginga.
Með vísan til alls framangreinds sé ljóst að SPV hafi ekki getað haft réttmætar væntingar til þess að komið væri á samningssamband við Kaupþing þar sem Kaupþing hefði tekið að sér að greiða upp skuldbindingar Giftar eða að öðrum kosti ábyrgst efndir þeirra.
Annað
Varnaraðili mótmælir jafnframt kröfu sóknaraðila sem óljósri og vanreifaðri. Sóknaraðili byggi fjárhæð kröfu sinnar á lánssamningi nr. 0581 eða svokölluðu fjölmyntareikningsláni sem hafi upphaflega verið í krónum, evrum, svissneskum frönkum, japönskum jenum og Bandaríkjadölum. Samkvæmt greinargerð sóknaraðila muni láninu öllu hafa verið breytt í íslenskar krónur á gjalddaga þess, 3. október 2008.
Varnaraðili telur sérstaka ástæðu til að mótmæla fjárhæð kröfu sóknaraðila. Ekki sé útilokað að umræddur lánssamningur sé þannig úr garði gerður að hann falli undir dóm Hæstaréttar í máli nr. 155/2001, svokallaðan „Mótormax-dóm“ og sé lánssamningurinn þannig í raun í íslenskum krónum en bundinn gengi erlendra gjaldmiðla. Með því bæri sóknaraðila að lækka fjárhæð kröfu sinnar umtalsvert. Í ljósi þess að sóknaraðili hafi ekki lagt fram eintak af lánssamningnum geti varnaraðili þó ekki fullyrt að svo sé.
Þá bendir varnaraðili enn fremur á að krafa sóknaraðila, yrði fallist á hana, fæli í sér mjög ósanngjarna niðurstöðu fyrir varnaraðila. Sóknaraðili myndi með því eignast kröfu á varnaraðila sem næmi 1,7 milljörðum króna án þess að varnaraðili eignaðist gagnkröfu á þriðja aðila. Það færi þvert gegn tilgangi rammasamningsins sem hafi meðal annars verið að bæta stöðu Kaupþings sem lánveitanda. Hins vegar sé ljóst að varnaraðili gæti ekki eignast kröfu á Gift á grundvelli lánssamningsins þar sem krafa Dróma á grundvelli þess samnings hafi þegar verið samþykkt við nauðasamning Giftar.
Þá hafi sóknaraðili hvorki reifað né rökstutt hvernig hann geti haldið fram kröfu um greiðslu sem grundvelli lánssamnings sem hann hafi nú framselt þriðja aðila. Ekki sé hægt að slíta í sundur eignarhald á lánssamningi og rétt til að krefja þriðja aðila um efndir samkvæmt efni lánssamningsins.
Til stuðnings kröfum sínum vísar varnaraðili til X. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Hann vísar til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála svo og til 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa hans um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt af málskostnaði styðst við lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Málið er flutt á grundvelli XXIV. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 171. gr. sömu laga.
Niðurstaða
Slitabú Spron Verðbréfa krefst greiðslu úr slitabúi Kaupþings vegna skuldar félagsins Giftar við SPV sem SPV telur Kaupþing hafa lofað eða ábyrgst að greiða. Gift gerði við lánardrottna sína nauðasamning, sem var staðfestur af Héraðsdómi Reykjavíkur 27. janúar 2012. SPV lýsti ekki kröfu vegna nauðasamningsumleitana Giftar.
Sóknaraðili byggir kröfuna í fyrsta lagi á því að Kaupþing hafi gefið Spron Verðbréfum skuldbindandi og óskilyrt greiðsluloforð, í annan stað á því að endurfjármögnunarsamningur Giftar og Kaupþings sé eiginlegur þriðjamannslöggerningur og í þriðja lagi á því að Kaupþing hafi tekið á sig kröfuábyrgð á skuld Giftar við Spron Verðbréf.
Stjórn upphaflegs lánveitanda, Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., var tekin yfir af Fjármálaeftirlitinu 21. mars 2009. Með ákvörðun eftirlitsins var meðal annars stofnað sérstakt hlutafélag í eigu SPRON, Drómi, sem tók við öllum eignum félagsins.
Varnaraðili telur sóknaraðila ekki geta átt aðild að málinu þar sem Drómi hafi lýst kröfu á grundvelli sama samnings við nauðasamningsumleitanir Giftar. Auk þess hafi lánssamningurinn ekki verið lagður fram og því liggi ekki fyrir hvers efnis hann sé.
Fjármálaeftirlitið ákvað jafnframt, 21. mars 2009, hvernig ætti að ráðstafa eignum og skuldum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. Eins og áður segir tók nýtt hlutafélag, Drómi, við öllum eignum SPRON þar á meðal hlutabréfaeign sparisjóðsins í dótturfélögum hans, eins og SPV, en tók ekki yfir eignir dótturfélaganna. Við aðalmeðferð kom fram að Drómi þjónustaði lánasöfn dótturfélaganna þar á meðal lánasafn SPV. Nægjanlega þykir leitt í ljós að eftir ákvörðun FME, 21. mars. 2009, hafi það lán sem sóknaraðili styður kröfu sína við ranglega verið fært í lánakerfi Dróma sem hans eign. Af þeim sökum lýsti Drómi kröfu í bú Giftar vegna nauðasamningsumleitana þess félags og tók þátt í atkvæðagreiðslu um nauðasamninginn. Þegar varnaraðili benti á það í greinargerð sinni vegna þessa máls að byggt hefði verið á sama láninu á tveimur vígstöðvum leiðrétti lögmaður Dróma mistökin við umsjónarmann nauðasamningsumleitana Giftar. Ekki fæst séð að þessi mistök hafi haft nokkra þýðingu fyrir nauðasamning Giftar.
Meðal gagna málsins er staðfesting á fjölmyntareikningsláni sem Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar svf. tók 3. október 2006. Sú staðfesting er hinn eiginlegi lánssamningur. Jafnframt eru gögn um framlengingu lánsins og skuldskeytingu, þegar Gift verður skuldari þess, svo og skjal dags. 2. apríl 2008 þar sem Spron Verðbréf eru tilgreind kröfuhafi lánsins. Sú málsástæða varnaraðila að sóknaraðili sé ekki eigandi kröfunnar og þar með ekki réttur aðili að málinu fær ekki stoð í framlögðum gögnum.
Varnaraðili mótmælir einnig fjárhæð kröfu sóknaraðila þar sem ekki sé útilokað, úr því að lánssamningurinn hafi ekki verið lagður fram, að lánið sé í íslenskum krónum bundið gengi erlendra mynta. Fjárkrafa sóknaraðila kunni því að vera of há.
Frá miðju ári 2010 hafa gengið fjölmargir dómar þar sem Hæstiréttur hefur raðað saman þeim atriðum sem hann telur greina lán, þar sem erlendar myntir hafa verið teknar að láni, frá þeim lánum, þar sem íslenskar krónur eru teknar að láni en höfuðstóll og afborgun lánsins er tengd gengi erlendra mynta þannig að brýtur gegn lögum nr. 38/2001. Af þessum dómum má ráða að við mat á því hvorum megin hryggjar tiltekið lán lendir beri að líta til heitis skuldabréfsins, tilgreiningar lánsfjárhæðarinnar, tilgreiningar vaxta og skilmálabreytingar hafi skilmálum lánsins verið breytt.
Lán Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga, síðar Giftar, heitir Fjölmyntareikningslán. Samningsfjárhæðin er tilgreind í fjórum erlendum myntum og íslenskum krónum í einingum en ekki hundraðshlutum. Grunnvextir hverrar myntar eru tilgreindir sérstaklega og má glöggt ráða af hundraðshluta þeirra að erlendu myntirnar bera LIBOR-vexti en hluti lánsins í íslenskum krónum ber REIBOR-vexti. Í síðustu framlengingu lánsins er það enn nefnt fjölmyntalán, myntirnar enn tilgreindar í einingum og vextirnir enn tilgreindir sem LIBOR-vextir. Þar sem veðskuldabréfið hefur þessi kennimerki og með vísan til dóma Hæstaréttar í málum nr. 524/2011 og 757/2012 verður lánið talið veitt í hinum erlendu myntum ásamt með íslenskum krónum. Ekki frekar en í þeim dómum verður það hér talið hafa þýðingu þótt Sparisjóðurinn hafi greitt Eignarhaldsfélagi Samvinnutrygginga lánið í íslenskum krónum og borið hafi að endurgreiða það í íslenskum krónum. Því er fallist á það með sóknaraðila að lánið sé í þeim erlendu myntum sem hann hefur tilgreint og íslenskum krónum en sá hluti lánsins er ekki tengdur gengi erlendra gjaldmiðla.
Að mati varnaraðila komst ekki á, á milli Kaupþings og Giftar, rammasamningur um endurfjármögnun félagsins þar sem þeir fyrirvarar sem settir voru í 3. gr. tilboðsins hafi aldrei verið uppfylltir. Varnaraðila telur þetta einnig staðfest í framburði Bjarka Diego, fyrrverandi framkvæmdastjóra útlána á samstæðugrunni, í skýrslu sem hann gaf slitastjórn Kaupþings, 28. janúar 2011, á grundvelli 81. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Sóknaraðili taldi ekki byggjandi á framburði Bjarka fyrir slitastjórninni enda væri ekki vitað hvaða skjöl hann hafði í höndunum þegar hann gaf skýrslu sína en framburður hans samrýmdist ekki því sem berum orðum stæði í skjölunum.
Eftir áskoranir sóknaraðila lagði varnaraðili fram tölvuskeyti sem gengu milli starfsmanna Kaupþings 3. október 2008 varðandi lánið til Giftar. Fyrir hádegi þann dag óskaði Rúnar Magni eftir því við starfsmann sem gegndi starfsheitinu Credit Admin. að sér yrði send bókun vegna láns til Giftar sem Bjarki Diego hefði látið bóka á síðasta lánafundi „væntanlega GCC“. Skömmu síðar barst honum þetta svar í tölvuskeyti:
„Engin gögn voru afhent, ekkert talað um lánstíma, kjör eða neitt. Bara upphæð og búið
GCC 02.10.2008
Gift fjárfestingarfélag ehf.
Counterparty type: Margin Lending, model in development. Total exposure is ISK 22b.
A loan in the amount of ISK 1.5b within SPRON will mature October 3rd and an approval is sought for refinancing.
The Credit Committee approved the request.“
Á þessum texta byggir sóknaraðili það að endanlegt samþykki bankans hafi verið í höfn eigi síðar en 2. október 2008. Hann vísar jafnframt til þess að sú fjárhæð sem átti að renna til SPV hafi verið vel innan marka þeirrar fjárhæðar sem lánanefnd samstæðu mátti taka ákvörðun um án þess að bera hana undir lánanefnd stjórnar.
Varnaraðili hefur hins vegar lagt fram eiginlega fundargerð lánanefndar samstæðu (Group Credit Committee) 2. október 2008. Hún er óundirrituð. Þar er textinn svona:
Gift fjárfestingarfélag ehf.
Counterparty type: Margin Lending, model in development. Total exposure is ISK 22b.
A loan in the amount of ISK 1.5b within SPRON will mature October 3rd and an approval is sought for refinancing.
The Credit Committee approved the request subject to final approval by Board Credit Committee as a merger between Kaupthing Bank is forthcoming.
Varnaraðili byggir á þessari fundargerð lánanefndar samstæðu enda hafi hún farið, með þessu orðalagi, í skjalageymslur Arion banka. Þar sem lánanefnd samstæðu hafi, á fundi sínum 2. október 2008, skotið ákvörðuninni til lánanefndar stjórnar (Board Credit Committee) og sú nefnd hafi ekki samþykkt lánið áður en bankinn féll hafi rammasamningurinn/endurfjármögnunarsamningurinn ekki komist á.
Að mati dómsins hvílir það á varnaraðila að gera trúverðuga grein fyrir þeim mun sem er á texta fundargerðar lánanefndar samstæðu sem var sendur Rúnari Magna að morgni dags 3. október 2008 og texta þeirrar fundargerðar sem varnaraðili byggir á.
Varnaraðili kvaddi ekki nein vitni fyrir dóminn. Samkvæmt fram lagðri fundargerð voru á þessum fundi lánanefndar samstæðu Bjarki Diego, Björk Þórarinsdóttir og Hreiðar Már Sigurðsson.
Framlögð gögn, tölvuskeyti og endurrit símtala, sýna að allir þeir starfsmenn Kaupþings sem komu að því að undirbúa greiðsluna til SPV svo og Björk Þórarinsdóttir, sem sat þennan tiltekna fund lánanefndar samstæðu, hafi litið svo á að allir fyrirvarar og útborgunarskilmálar hafi verið uppfylltir enda var það Björk sem óskaði eftir því að greiðslunni til SPV yrði frestað. Hefði hún ekki talið öll skilyrði uppfyllt, þar á meðal að lánið hafi ekki verið samþykkt af réttri lánanefnd Kaupþings, verður að gera ráð fyrir að hún hefði komið í veg fyrir greiðsluna með þeim rökum.
Fram kom hjá vitnunum Benedikt Sigurðssyni, framkvæmdastjóra Giftar, og Sigurjóni Rúnari Rafnssyni, formanni stjórnar Giftar, að þeir hefðu aldrei heyrt á það minnst á þessum tíma að rammasamningurinn hefði ekki komist á. Þeir hafi litið svo á, þegar leið að gjalddaga láns SPV, að allt væri frágengið og án fyrirvara. Skrifleg yfirlýsing sem Sigurjón gaf, 17. febrúar 2012, er sama efnis. Þar segir hann að tveir fyrirvarar hafi verið í samkomulagi um heildarendurfjármögnun, annar um endanlega skjalagerð og hinn um samþykki lánanefndar bankans. Um miðjan júlí 2008 hafi endanleg skjöl verið undirrituð af hálfu félagsins í samræmi við framangreint upplegg.
Þar sem vitni hafa ekki verið leidd fyrir dóminn til að færa fram trúverðuga skýringu á þessum tveimur útgáfum af fundargerð lánanefndar samstæðu, 2. október 2008, fulltrúar Giftar töldu öll formsatriði frágengin og ekki verður annað séð en að það hafi þeir starfsmenn Kaupþings sem undirbjuggu greiðsluna, svo og einn nefndarmaður í lánanefnd samstæðu, einnig talið verður að ganga út frá því að endurfjármögnunarsamningur Giftar og Kaupþings hafi þegar tekið gildi 3. október 2008.
Glitnir, sem einnig átti lán tilgreint í endurfjármögnunarsamningnum átti frumkvæði að því að því var breytt í framvirkan samning eins og skýrt kom fram í vitnisburði fyrrverandi framkvæmdastjóra og fyrrverandi formanns stjórnar Giftar. Þeir báru jafnframt að vegna endurfjármögnunarsamningsins hafi félagið aflað sérstaks samþykkis Kaupþings-manna fyrir því að lánið frá Glitni yrði sett í framvirkan samning. Af þessari ráðstöfun verður því ekki ályktað að endurfjármögnunarsamningurinn hafi ekki komist á. Önnur lán Giftar, sem tilgreind voru í honum, féllu í gjalddaga í lok desember 2008 og byrjun febrúar 2009.
Framlögð gögn, þar á meðal tölvuskeyti sem gengu milli starfsmanna SPRON Verðbréfa og starfsmanna Kaupþings 1. og 3. október 2008 og endurrit símtala 3. október, sum milli starfsmanna SPV og starfsmanna Kaupþings og önnur innbyrðis milli starfsmanna SPRON, sýna að einungis munaði hársbreidd að starfsmenn Kaupþings hefðu greitt skuld Giftar við SPV inn á gjaldeyrisreikninga sem stofnaðir höfðu verið sérstaklega af þessu tilefni þegar spurnir bárust af því að Björk Þórarinsdóttir, yfirmaður fyrirtækjasviðs Kaupþings og nefndarmaður í lánanefnd, hafi óskað eftir því að greiðslunni yrði frestað.
Þrátt fyrir þetta verður ekki yfir þann þröskuld komist að það réttarsamband sem þessir starfsmenn unnu að því að efna var réttarsamband Giftar og Kaupþings, jafnvel þótt SPV hafi jafnframt átt að njóta góðs af því.
Til þess að sóknaraðili hefði getað byggt á endurfjármögnunarsamningi Giftar og Kaupþings einum og sér hefði samningurinn þurft að mæla fyrir um þann rétt SPV berum orðum eða að unnt hefði verið að túlka orðalag hans þannig að hann veitti SPV slíkan rétt, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 526/2008. Að mati dómsins er endurfjármögnunarsamningurinn ekki orðaður þannig að með túlkun megi lesa inn í hann beinan og sjálfstæðan rétt SPV á hendur Kaupþingi banka.
Öll sú undirbúningsvinna sem farið hafði fram vegna greiðslunnar, til dæmis stofnun gjaldeyrisreikninga hjá Kaupþingi til að leggja hana inn á og sú fullvissa starfsmanna Kaupþings að þeim bæri að inna greiðsluna af hendi, sem þeim vissulega bar samkvæmt samningssambandi Giftar og Kaupþings, getur ekki bætt úr því að endurfjármögnunarsamningurinn einn og sér veitti SPV ekki beinan og sjálfstæðan rétt á hendur Kaupþingi banka.
Sóknaraðili byggir í annan stað á þeirri málsástæðu að SPV hafi átt rétt samkvæmt endurfjármögnunarsamningnum þar sem hann sé eiginlegur þriðjamannslöggerningur það er að segja löggerningur, sem vísar til hagsmuna þriðja manns, sem ekki er aðili að löggerningnum en veitir honum beinan og sjálfstæðan rétt til að krefjast samningsefnda. Með þeim rökum að samningurinn mæli hvorki fyrir um beinan og sjálfstæðan rétt SPV berum orðum né unnt sé að túlka orðalag hans þannig að hann veitti SPV slíkan rétt, er þessari málsástæðu sóknaraðila einnig hafnað.
Það er þriðja málsástæða sóknaraðila að í endurfjármögnunarsamningnum felist kröfuábyrgð Kaupþings gagnvart SPV. Fallist er á það með varnaraðila að endurfjármögnunarsamningurinn sé ekki yfirlýsing Kaupþings til SPV þess efnis að bankinn ábyrgist lán Giftar hjá SPV heldur verður samningurinn ekki skilinn á annan hátt en þann að með honum sé Kaupþing að veita Gift lán gegn veðrétti í öllum hlutabréfum Giftar eftir því sem þau losna við endurfjármögnun lána Giftar. Það þykir ekki breyta þessu þótt það sé ófrávíkjanlegt skilyrði samningsins að andvirði lánsins verði alfarið ráðstafað til greiðslu á skuldum Giftar eftir því sem þær falla í gjalddaga og skuld Giftar við SPV sé sérstaklega tilgreind í samningnum. Sóknaraðili er því ekki talinn eiga fjárkröfu á hendur varnaraðila fyrir þá sök að Kaupþing banki hafi tekið á sig kröfuábyrgð gagnvart SPV.
Þar sem því er hafnað að Kaupþing banki hafi gefið SPV skuldbindandi og óskilyrt greiðsluloforð, að endurfjármögnunarsamningur Giftar og Kaupþings sé eiginlegur þriðjamannslöggerningur svo og að Kaupþing hafi tekið á sig kröfuábyrgð á skuld Giftar við SPV er því hafnað að sóknaraðili eigi fjárkröfu í slitabú varnaraðila.
Vegna þessarar niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila 800.000 krónur í málskostnað. Við ákvörðun hans hefur verið tekið tillit til skyldu varnaraðila til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kröfu sóknaraðila, slitabús SPRON Verðbréfa hf., á hendur varnaraðila, slitabúi Kaupþings hf., er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 800.000 kr. í málskostnað.