Hæstiréttur íslands
Mál nr. 718/2016
Lykilorð
- Lögvarðir hagsmunir
- Viðurkenningarkrafa
- Félagafrelsi
- Stjórnarskrá
- Frávísun frá héraðsdómi
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 20. október 2016 að fengnu áfrýjunarleyfi. Þeir krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að þeir verði sýknaðir af kröfum gagnáfrýjanda. Í báðum tilvikum krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 4. janúar 2017. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur, en til vara að allar ákvarðanir aðalfundar aðaláfrýjandans VM Félags vélstjóra og málmtæknimanna 26. mars 2011 um breytingar á samþykktum aðaláfrýjandans Akks styrktar- og menningarsjóðs VM Félags vélstjóra og málmtæknimanna verði ógiltar. Þá krefst hann þess aðallega að málskostnaður í héraði skuli vera 1.460.620 krónur, en til vara að hann verði hækkaður frá því sem dæmt var í héraði. Loks krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og nánar er rakið í héraðsdómi var samþykktum aðaláfrýjandans Akks styrktar- og menningarsjóðs VM Félags vélstjóra og málmtæknimanna breytt á aðalfundi aðaláfrýjandans VM Félags vélstjóra og málmtæknimanna 26. mars 2011. Fólu breytingarnar meðal annars í sér að allir félagsmenn í síðarnefnda félaginu gátu eftir þær tekið þátt í kosningu um breytingar á samþykktum sjóðsins, sbr. 7. grein þeirra, en ekki aðeins vélstjóramenntaðir félagsmenn eins og verið hafði. Samþykktunum, sem upphaflega voru settar 7. október 2006, hafði áður verið breytt í tvígang á aðalfundum aðaláfrýjandans VM Félags vélstjóra og málmtæknimanna 24. mars 2007 og 17. apríl 2009.
Samhliða framangreindri breytingu á 7. grein á fundinum 26. mars 2011 var markmiði sjóðsins samkvæmt samþykktunum breytt. Í grein 3.1 þeirra sagði eftir breytinguna að sjóðnum væri ætlað að styrkja rannsóknir á vinnuumhverfi og aðbúnaði félagsmanna aðaláfrýjandans VM Félags vélstjóra og málmtæknimanna og námsefni og kennsluaðferðum í námi félagsmanna þess. Áður hafði verið gert ráð fyrir að styrkir væru veittir til rannsókna sem tækju einungis til vinnuumhverfis og aðbúnaðar vélstjóra og vélfræðinga og námsefnis og kennsluaðferða í vélstjóranámi. Þá var óbreytt það ákvæði í sömu grein að sjóðurinn veitti styrki til brautryðjendastarfs, þróunarstarfs, menningar og lista. Jafnframt sagði í grein 3.2 samþykktanna að til þess að sjóðurinn gæti náð megintilgangi sínum væri stjórn hans heimilt að eiga samstarf við aðra aðila og gera í því skyni samkomulag um samstarf við aðra um ákveðin verkefni. Var sjóðnum, hvorki fyrir né eftir umræddar breytingar, ætlað að veita styrki til einstakra félagsmanna innan vébanda aðaláfrýjandans VM Félags vélstjóra og máltæknimanna.
Aðalkrafa gagnáfrýjanda, sem er vélstjóri og félagsmaður í aðaláfrýjandanum VM Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, er að viðurkennt verði að á fyrrgreindum aðalfundi hafi engin gild breyting verið gerð á samþykktum aðaláfrýjandans Akks styrktar- og menningarsjóðs VM Félags vélstjóra og málmtæknimanna. Reisir hann kröfu sína meðal annars á því að ekki hafi verið réttilega staðið að boðun til fundarins og að við atkvæðagreiðslu á honum hafi ekki verið gengið úr skugga um að aðeins vélstjóramenntaðir félagsmenn fengju að kjósa um breytingarnar eins og áskilið var samkvæmt grein 7.1 í eldri samþykktum sjóðsins frá 17. apríl 2009. Var aðalkrafa gagnáfrýjanda tekin til greina með hinum áfrýjaða dómi.
Heimild til að krefjast viðurkenningardóms er samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála háð því skilyrði að stefnandi hafi sjálfur lögvarða hagsmuni af því að skorið verði úr um tilvist eða efni viðkomandi réttinda eða réttarsambands. Til þess að sýnt verði að þessu skilyrði sé fullnægt fyrir höfðun máls er óhjákvæmilegt að stefnandi beri skýrlega fyrir sig málsástæður um að lögvarðir hagsmunir af nánar tilgreindum ástæðum séu fyrir hendi. Í stefnu til héraðsdóms gerði gagnáfrýjandi ekki viðhlítandi grein fyrir þessu heldur kemur þar einungis fram að hann eigi, sem félagsmaður í aðaláfrýjandanum VM Félagi vélstjóra og máltæknimanna og vélstjóri, ekki að þurfa að þola að samþykktir sjóðsins hafi verið brotnar og starfsemi hans breytt með þeim hætti sem gert var á aðalfundinum 26. mars 2011. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti var síðan af hans hálfu vísað sérstaklega til þess að það leiði meðal annars af fyrirmælum 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar um rétt manna til þess að stofna félög að félagsaðild hafi jafnan í för með sér að lögvarðir hagsmunir félagsmanns teljist vera fyrir hendi vegna ákvarðanatöku á vettvangi þess. Hvað sem líður fyrirmælum tilvitnaðrar stjórnarskrárgreinar leiðir aðild að félagi ekki sjálfkrafa til þess að lögvarðir hagsmunir félagsmanns séu ávallt taldir vera fyrir hendi vegna sérhverrar ákvarðanatöku á vettvangi þess. Slíkt þarf sem endranær að meta sjálfstætt hverju sinni á grundvelli einstaklegra, beinna og lögvarinna hagsmuna viðkomandi félagsmanns. Gagnáfrýjandi hefur ekki sýnt fram á slíka lögvarða hagsmuni til að fá leyst úr aðalkröfu sinni. Af þessu leiðir jafnframt að gagnáfrýjandi hefur ekki heldur lögvarða hagsmuni að fá efnisdóm um varakröfu sína um að ógiltar verði allar breytingar sem gerðar voru á samþykktum aðaláfrýjandans Akks styrktar- og menningarsjóðs VM Félags vélstjóra og málmtæknimanna á umræddum aðalfundi. Verður málinu því vísað frá héraðsdómi.
Samkvæmt 2. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 verður gagnáfrýjanda gert að greiða aðaláfrýjendum málskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi á báðum dómstigum eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Gagnáfrýjandi, Helgi Laxdal Magnússon, greiði aðaláfrýjendum, VM Félagi vélstjóra og málmtæknimanna og Akki styrktar- og menningarsjóði VM Félags vélstjóra og málmtæknimanna, sameiginlega samtals 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júní 2016.
Þetta mál, sem var tekið til dóms 12. apríl 2016, er höfðað af Helga Laxdal Magnússyni, kt. [...], Hrauntungu 60, Kópavogi, á hendur VM, félagi vélstjóra og málmtæknimanna, kt. 530169-5299, og sjóðnum Akki, kt. 410207-0870, báðum með skráð aðsetur að Stórhöfða 25, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess aðallega að viðurkennt verði að á aðalfundi stefnda, VM, félags vélstjóra og málmtæknimanna, 26. mars 2011 hafi engin gild breyting verið gerð á lögum stefnda Akks, styrktar- og menningarsjóðs vélstjóra og vélfræðinga.
Til vara krefst stefnandi þess að allar ákvarðanir aðalfundarins um breytingar á samþykktum Akks verði ógiltar.
Hann krefst málskostnaðar að skaðlausu.
Stefndu krefjast sýknu af öllum dómkröfum stefnanda.
Þeir krefjast einnig málskostnaðar úr hendi hans.
Málsatvik
Ágreiningur þessa máls varðar það hvort löglega hafi verið staðið að breytingum á samþykktum sjóðsins Akks á aðalfundi VM, félags vélstjóra- og málmtæknimanna 2011. Með breytingunum var orðunum „vélstjóra og vélfræðinga“, „vélstjóranáms“, „vélstjórnarmenntaðir menn“ í samþykktunum skipt út fyrir „VM-Félags vélstjóra og málmtæknimanna“ og „félagsmanna VM“. Þýðing þessara breytinga er sú að heiti sjóðsins er breytt, rannsóknir sem sjóðurinn styrkir eru ekki bundnar við vinnuumhverfi og nám vélstjóra heldur taka þær til vinnuumhverfis og náms allra félagsmanna VM. Breytingunum fylgir jafnframt að allir félagsmenn í VM geta orðið stjórnarmenn í sjóðnum en ekki einvörðungu vélstjórnarmenntaðir menn eins og áður var. Síðast en ekki síst geta allir félagsmenn í VM tekið þátt í að breyta samþykktum sjóðsins en ekki einvörðungu vélstjórnarmenntaðir menn.
Víða í fram lögðum skjölum er notað orðið lög fyrir samþykktir sem félagsmenn hafa sett. Þar eð grundvöllur reglnanna er samþykki þeirra félagsmanna sem settu þær verður orðið samþykktir notað hér nema þegar vitnað er beint til texta skjalanna. Þetta á bæði við um samþykktir sjóðsins Akks og samþykkir félagsins VM.
Forsaga sjóðsins Akks er sameining tveggja stéttarfélaga; Vélstjórafélags Íslands (VSFÍ) og Félags járniðnaðarmanna (FJ). Umræður um hana hófust árið 2005 og í febrúar 2006 undirrituðu fyrirsvarmenn stéttarfélaganna samning um sameiningu þeirra. Í honum var gert ráð fyrir því að við sameininguna rynnu þau saman í nýtt félag og eignir þeirra og skuldir yrðu eign hins nýja félags. Ráðgert var að fjárhagsleg sameining yrði 1. janúar 2007 og allir félagsmenn beggja félaganna yrðu sjálfkrafa félagsmenn í hinu nýja félagi, VM, félagi vélstjóra og málmtæknimanna.
Vélstjórafélagið átti stofnbréf í Sparisjóði vélstjóra (SPV) sem ekki voru talin mjög mikils virði. Þegar átti að selja þau vegna sameiningarinnar kom í ljós að markaðsvirði þeirra var um 185.000.000 kr. Hefði þessi fjárhæð gengið inn í sameininguna óskilyrt hefði hlutur FJ að sögn stefnanda verið 433.000.000 kr. en VSFÍ 635.000.000 kr. eða um 47% hærri.
Að sögn stefnanda, sem þá var formaður Vélstjórafélags Íslands, höfðu margir félagar VSFÍ samband við hann þegar eign félagsins í SPV spurðist út og sögðu honum að þeir myndu greiða atkvæði gegn sameiningunni ætti hún að renna inn í sameinað félag. Stefnandi hafi einnig rætt við fjölmarga félagsmenn um land allt til þess að inna þá eftir afstöðu þeirra til fyrirhugaðrar sameiningar félaganna. Það sjónarmið hafi verið ráðandi að gengi þessi fjárhæð inn í sameiginlegt félag væru líkur til þess að sameiningin yrði felld. Þá hafi sú hugmynd vaknað að stofna sjóð sem í rynnu þeir fjármunir sem VSFÍ átti í stofnbréfum í SPV. Í ársskýrslu VSFÍ fyrir árið 2006 segir:
Laugardaginn 7. október var á félagsfundi í Vélstjórafélagi Íslands samþykkt að stofna Styrktar- og menningarsjóð vélstjóra og vélfræðinga. Markmið og verkefni sjóðsins er að styrkja rannsóknir og annað sem kemur vélstjórum og vélfræðingum til góða við nám og störf, til lands og sjávar.
Að sögn stefnanda var lögð áhersla á að sjóðurinn bæri nafn vélstjóra og vélfræðinga til þess að hvetja félagsmenn VSFÍ til að samþykkja sameininguna.
Vitnið Sævar Örn Kristjánsson, sem sat með stefnanda í sameiningarnefndinni fyrir hönd vélstjórafélagsins, bar fyrir dómi að einungis fámennur hópur, sem hafi verið nátengdur starfsemi félagsins, hafi vitað af því að virði stofnbréfanna hefði aukist svona mikið. Hinn almenni félagsmaður úti á landi hafi ekki vitað af því og af þeim sökum hafi þessir fjármunir ekki getað haft neina þýðingu fyrir það hvort félagsmenn VSFÍ samþykktu sameininguna eða ekki.
Í samþykktum sjóðsins í grein 4.1 segir að stjórnina skipi þrír menn og skuli þeir vera vélstjóramenntaðir að frátöldum formanni. Samkvæmt grein 3.1 er markmið sjóðsins meðal annars að styrkja rannsóknir á vinnuumhverfi, aðbúnaði og náms- og kennsluefni vélstjórnarnáms. Það er jafnframt verkefni sjóðsins að styrkja brautryðjenda- og þróunarstarf, menningu og listir.
Í grein 7.1 segir að breytingar á samþykktum sjóðsins öðlist ekki gildi nema þær hafi hlotið samþykki meirihluta vélstjórnarmenntaðra manna á aðalfundi Vélstjórafélags Íslands. Stefnandi tekur fram að með „vélstjórnarmenntuðum mönnum“ sé átt við vélstjóra og vélfræðinga en ekki þá sem hafi minni menntun í vélstjórn.
Eftir stofnun sjóðsins Akks var kosið um sameininguna innan VSFÍ og FJ. Atkvæði féllu þannig:
|
Stéttarfélag |
Á kjörskrá |
Atkvæði greidd |
Hlutf. félagsm. |
Samþykkir, Já |
% |
Mótfallnir, Nei |
% |
Auð / ógild |
% |
|
VSFÍ |
1648 |
725 |
44,0% |
390 |
53,8% |
316 |
43,6% |
19 |
2,6% |
|
FJ |
1287 |
495 |
38,5% |
449 |
90,7% |
36 |
7,3% |
10 |
2,0% |
Stefnandi telur kosninguna sýna að meiri tregða hafi verið meðal vélstjórnenda til að ganga til sameiningarinnar og hefði hún aldrei verið samþykkt án stofnunar sjóðsins.
Upprunalegu stéttarfélögin tvö voru lögð niður og sameinuðust í VM, félag vélstjóra og málmtæknimanna sem var stofnað 14. október 2006 að viku liðinni frá stofnun sjóðsins Akks.
Fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra voru afhentar samþykktir (lög) VM 24. október 2006. Samkvæmt samþykktunum, eins og þær birtast nú á heimasíðu VM, var þeim breytt 29. apríl 2016. Hér er gengið út frá því að samþykktirnar, eins og þær voru afhentar ríkisskattstjóra, hafi gilt í apríl 2011. Þar segir meðal annars:
4. gr. Félagsaðild
Félagið er opið öllum sem lokið hafa viðurkenndu vélstjóranámi, iðnnámi í málm- og véltæknigreinum, veiðarfæragerð, báta- og skipasmíði svo og námsmönnum og öðrum þeim sem starfa í greinunum.
Félagsmenn geta einnig orðið þeir sem vinna að málefnum félagsins og aðrir sem stjórn metur hæfa hverju sinni.
5. gr. Félagsmenn
Fullgildir félagar eru þeir einir sem hafa sótt um inngöngu í félagið og greitt hafa félagsgjald. Þeir sem greiða til félagsins en óska ekki eftir inngöngu í félagið teljast aukafélagar.
Aukafélagar hafa sömu réttindi og fullgildir félagar að undanskildum atkvæðisrétti og kjörgengi. Aukafélagi fær sérstaklega auðkennt félagsskírteini sem veitir honum takmörkuð félagsréttindi.
6. gr. Innganga
Umsækjendur um félagsaðild óska aðildar með skriflegri inntökubeiðni. Stjórn félagsins er þó heimilt að hafa annan háttinn á eftir atvikum.
Umsóknir sem uppfylla kröfur félagsins um inntöku eru staðfestar af félaginu. Leiki vafi á hvort umsækjandi uppfylli kröfurnar tekur stjórn félagsins umsóknina fyrir.
Þegar umsækjandi hefur verið tekinn inn í félagið er hann bundinn af lögum þess og samþykktum. Hann fær félagsskírteini sem veitir honum full félagsréttindi og aðgang að fundum félagsins.
29. gr. Aðalfundir
Aðalfundur félagsins er haldinn fyrir lok apríl ár hvert og skal hann boðaður með minnst viku fyrirvara með auglýsingum í blaði félagsins, dagblaði og útvarpi. Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Á aðalfundi eru eftirfarandi mál tekin fyrir:
1. Skýrsla stjórnar
2. Reikningar félagsins og sjóða
3. Ákvörðun um löggilta endurskoðendur
4. Lagabreytingar og reglugerðir
5. Lýst eftir kjöri stjórnar
6. Kjör í stjórnir sjóða
7. Kjör í fulltrúaráð
8. Önnur mál
.....
Fundarstjóri kannar hvort fundur sé rétt boðaður, sér til þess að fundurinn fari skipulega fram og lögum og samþykktum félagsins sé fylgt.
Við sameininguna færðist Akkur, styrktar- og menningarsjóður vélstjóra og vélfræðinga undir hið nýja stéttarfélag. Allt að einu var ekki hægt að breyta samþykktum sjóðsins nema með samþykki meirihluta vélstjórnarmenntaðra manna og tveir af þremur stjórnarmönnum sjóðsins skyldu vera vélstjórnarmenntaðir.
Starfsreglur fyrir Styrktar- og menningarsjóð vélstjóra og vélfræðinga voru settar 4. janúar 2007.
Fyrsti aðalfundur hins sameinaða stéttarfélags var haldinn 24. mars 2007. Á honum var lögð til sú breyting á grein 7.1 að í stað þess að segja að kosning um breytingu á samþykktunum færi fram á aðalfundi Vélstjórafélags Íslands stæði að kosningin færi fram á aðalfundi VM, Félags vélstjóra og málmtæknimanna, enda hafði vélstjórafélagið verið lagt niður.
Þegar kjósa átti um þessa breytingu á aðalfundinum 2007 kom fram fyrirspurn um skilgreiningu á hugtakinu „vélstjóramenntaðir menn“, sbr. grein 7.1 í samþykktum sjóðsins. Fundarstjóri gerði fundarmönnum grein fyrir því að einungis vélstjóramenntaðir menn hefðu rétt til að greiða atkvæði. Breytingarnar voru bornar undir atkvæði og samkvæmt fundargerð voru þær samþykktar án athugasemda við það hvernig kosningin fór fram.
Engin skrá mun vera haldin yfir það á fundum hverjir fundarmanna séu vélstjóramenntaðir. Í samþykktum félagsins eru ekki heldur ákvæði um sérstaka aðferð til að sanna hverjir séu vélstjórar eða vélfræðingar á aðalfundum, sem hafa einir atkvæðisrétt við atkvæðagreiðslu samkvæmt grein 7.1.
Stefndu benda á að á aðalfundi 2007 og síðar hafi því verið treyst á að fundarmenn segðu satt og rétt til um menntun sína. Þáverandi formaður félagsins, stefnandinn Helgi Laxdal, hafi setið fundinn og ekki gert athugasemdir við þetta fyrirkomulag atkvæðagreiðslunnar frekar en aðrir fundarmenn.
Stefnandi bar að sú breyting sem gerð var á samþykktum sjóðsins 2007 hafi hvorki verið þess eðlis að hún haggaði réttarstöðu þeirra sem máttu kjósa um breytingar á samþykktum sjóðsins, né hafi hún haft áhrif á markmið sjóðsins eða hverjir sætu í stjórn hans.
Að sögn stefndu voru vegna sameiningar Vélstjórafélags Íslands og Félags járniðnaðarmanna samþykktar á aðalfundi VM 17. apríl 2009 margháttaðar tillögur stjórnar Akks að breytingum á samþykktum Akks.
Á sama hátt og á aðalfundi stefnda VM árið 2007 hafi fundarstjóri tjáð fundarmönnum að einungis vélstjóramenntaðir menn hefðu rétt til að greiða atkvæði um breytingar á samþykktum sjóðsins. Þessa er þó ekki getið í fundargerð aðalfundarins. Breytingarnar voru bornar undir atkvæði og samþykktar. Ekki var til skrá til þess að staðreyna mætti hverjir fundarmanna væru vélstjóramenntaðir. Í samþykktum félagsins voru þá ekki heldur ákvæði um sérstaka aðferð við atkvæðagreiðslu samkvæmt grein 7.1 í samþykktum Akks til að sanna hverjir væru vélstjórar eða vélfræðingar á fundum, þegar taka ætti fyrir breytingar á samþykktum sjóðsins.
Á þessum aðalfundi 2009 hafi því verið treyst, eins og á aðalfundi félagsins 2007, að fundarmenn segðu satt og rétt til um það, hvort þeir væru vélstjóralærðir og hefðu þar af leiðandi kosningarrétt. Fyrrverandi formaður stefnda VM, stefnandi, sat fundinn og gerði engar athugasemdir við þetta fyrirkomulag atkvæðagreiðslunnar frekar en aðrir fundarmenn.
Stjórn VM sendi stjórn Akks bréf 5. febrúar 2011. Í því segir:
Á fundi stjórnar VM-Félags vélstjóra og málmtæknimanna hinn 27. janúar 2011, kom fram tillaga um að beina því til stjórnar Akks að hún komi með tillögu á næsta aðalfundi VM um að nafni sjóðsins verði breytt. Tillagan er um að nafni sjóðsins verði breytt í Akkur-Styrktar- og menningarsjóður VM. Tillagan var samþykkt í stjórn VM-Félags vélstjóra og málmtæknimanna.
Stjórn VM beinir því þeim óskum til stjórnar Akks að hún taki það til skoðunar að nafni sjóðsins verði breytt í Akkur-Styrktar- og menningarsjóður VM, með þeim breytingum sem því fylgja á lögum sjóðsins.
Stjórn Akks svaraði því með bréfi 14. mars 2011 og þar segir meðal annars:
Í lögum Styrktar- og menningarsjóðs vélstjóra og vélfræðinga segir að breytingar á samþykktum sjóðsins öðlist ekki gildi nema þær hafi hlotið samþykki meirihluta vélstjórnarmenntaðra manna á aðalfundi VM-Félags vélstjóra og málmtæknimanna. Að öðru leyti gera lögin ekki frekari grein fyrir því með hvaða hætti breytingar á lögum eða samþykktum sjóðsins skuli bera að. Í ljósi þess svo og með hliðsjón af þeim efnislegu breytingum sem stjórn VM leggur til að gerðar verði á lögum sjóðsins, en þær munu ekki hafa áhrif á starfsemi sjóðsins verði þær samþykktar á aðalfundi VM, þá taldi stjórn Akks ekki ástæðu til að gefa umsögn um þessar breytingartillögur stjórnar VM.
Í Fréttablaðinu 19. mars 2011 var auglýst að aðalfundur VM yrði haldinn 26. mars 2011 og tilkynnt svohljóðandi dagskrá:
- Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins
- Reikningar félagsins og sjóða
- Umræður um skýrslu og reikninga
- Kjör endurskoðenda
- Reglugerða- og lagabreytingar
- Ákvörðun stjórnarlauna
- Kjör í nefndir og stjórnir sjóða
- Önnur mál
Engin tillaga að breytingum samþykktum (lögum eða reglugerðum) fylgdi fundarboði. Fyrir fundinum lágu tvær tillögur um breytingu á ýmsum greinum samþykkta stefnda Akks. Annars vegar sú tillaga stjórnar stefnda VM að í stað orðanna „vélstjórar og vélfræðingar“, sem ekki hafði áður verið breytt eftir samrunann, kæmu orðin „félagsmenn VM“, m.a í grein 7.1, sem hér er helsta umfjöllunarefnið. Til þess að breytt yrði samþykktum sjóðsins þyrfti meirihluta félagsmanna VM á aðalfundi félagsins í stað meirihluta vélstjórnarmenntaðra manna.
Að sögn stefndu var tilgangur stjórnar VM sá að þetta eina mál, sem ekki var orðið sameiginlegt með öllum félagsmönnum VM, yrði það í stað þess að vera eyrnamerkt hluta félagsmanna hins sameinaða félags. Í greinargerð með tillögunni kom fram að með breytingu á reglugerð nr. 175/2008 um vélstjórnarréttindi á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum myndu vélvirkjar, sem teljist til málmtæknimanna, fá réttindi til vélstjórnar með því að taka sveinspróf, en þeir séu félagsmenn stefnda VM. Stjórn VM taldi þetta styðja þá breytingu sem hún lagði til að yrði gerð á samþykktum sjóðsins.
Fyrir fundinum lá einnig skrifleg tillaga stefnanda og Páls Magnússonar um breytingu á samþykktum stefnda Akks en hún hafði verið kynnt og rædd á stjórnarfundi stefnda VM 18. mars 2011. Tillagan gerði ráð fyrir því, að grein 7.1 yrði óbreytt en yrði að grein 7.2. Inn kæmi ný málsgrein, sem yrði grein 7.1, og mælti fyrir um frest til að skila inn tillögum til breytinga á samþykktum sjóðsins. Í annan stað var lögð til sú breyting að eingöngu vélstjórar og vélfræðingar mættu leggja til breytingar á samþykktum sjóðsins, en ekki sá hluti félagsmanna VM sem ekki mátti kjósa um breytingar á samþykktum sjóðsins.
Að sögn stefnanda var ástæða tillögu hans og Páls bréfið, sem stjórn VM hafði sent stjórn sjóðsins Akks í febrúar 2011, þar sem stjórn félagsins óskaði eftir því að stjórn sjóðsins legði til á aðalfundi að sjóðurinn yrði jafnt fyrir vélstjórnarmenntaða menn og aðra félagsmenn hins sameinaða félags.
Á aðalfundinum 2011 var tillaga stjórnarinnar borin fyrst upp. Vitnið Sævar Örn Kristjánsson kvaðst hafa borið tillöguna fram og kynnt hana.
Stefnandi áréttar að ekki sé vitað hvort einhverjir útvaldir hafi vitað af tillögu að breytingum á samþykktum á meðan öðrum var ekki um það kunnugt. Með tillögu stjórnar VM um breytingar „á nafni og lögum Akks“ fylgdu nýjar samþykktir (lög). Að sögn stefnanda var hvergi vakin athygli á þeirri grundvallarbreytingu í grein 7.1 að í stað þess að vélstjórar einir gætu greitt atkvæði um málefni sjóðsins gætu allir félagsmenn VM gert það. Í greinargerð með tillögu sinni hafi stjórn VM getið þess að breyting á nafni sjóðsins væri eðlileg í framhaldi af sameiningu hinna tveggja stéttarfélaga. Stjórnin hafi hins vegar ekki getið þess að sjóðurinn hafi gagngert verið stofnaður vegna sameiningarinnar og til þess að af henni yrði. Í greinargerðinni sé einnig gefið í skyn að með breytingu á reglugerð nr. 175/2008 um vélstjóraréttindi á fiskiskipum muni vélstjórum fjölga verulega. Þetta sé ekki rétt því ekki hafi staðið til að fjölga í hópi þeirra sem 1. mgr. 6. gr. laga nr. 30/2007 tók til.
Atkvæði voru greidd um tillögu stjórnar VM á sama hátt og gert var á aðalfundunum 2007 og 2009. Að sögn stefndu var á sama hátt og á þeim aðalfundum áréttað sérstaklega við fundarmenn, að eingöngu vélstjórar og vélfræðingar hefðu rétt til að kjósa um tillöguna í samræmi við þágildandi samþykktir Akks. Síðan var tillaga stjórnarinnar borin undir atkvæði og samþykkt með 26 atkvæðum gegn 12, en fundarmenn á þessum aðalfundi voru alls 65. Samkvæmt því tóku 38 fundarmenn þátt í atkvæðagreiðslunni en 27 ekki.
Að mati stjórnar VM gekk tillaga stefnanda og Páls skemmra en tillaga stjórnarinnar og því kom hún ekki til atkvæða. Samkvæmt fundargerð voru engar athugasemdir gerðar á þessum aðalfundi við framkvæmd atkvæðagreiðslunnar frekar en áður á aðalfundum félagsins 2007 og 2009.
Vitnið Bragi Ragnarsson vélfræðingur sótti fundinn 2011. Hann bar að hann og fleiri hefðu verið ósáttir við að keyra skyldi þessa breytingu í gegn enda hafi ekki verið getið um hana í fundarboðinu. Hann hafi stigið í ræðustól í það minnsta tvisvar og óskað eftir því að atkvæðagreiðslu um tillögu stjórnarinnar yrði frestað. Hann hafi jafnframt óskað eftir því að þeir sem greiddu atkvæði sönnuðu á sér deili þannig að það væri ótvírætt að einungis vélstjórar og vélfræðingar greiddu atkvæði. Það hefði verið ákvörðun félagsmanna í vélstjórafélaginu að stofna sjóðinn. Ef til stæði að gera hann sameiginlegan öllum félagsmönnum VM ættu þeir sem stóðu að stofnun hans að ákveða það en ekki hvaða fundarmaður sem væri enda ætti það að vera þannig samkvæmt samþykktum sjóðsins. Fundarstjóri hafi hins vegar fallist á hvoruga beiðni hans en brýnt fyrir fundarmönnum að einungis vélfræðingar og vélstjórar mættu kjósa. Vitnið kvaðst hafa séð að fleiri en vélstjórar og vélfræðingar kysu um tillögu stjórnarinnar.
Bragi kvaðst hvorki hafa sótt aðalfundinn 2007 né fundinn 2009 og hafi hann af þeim sökum ekki gert athugasemd við þessa aðferð við kosningu um breytingu á samþykktum Akks á þeim fundum.
Vitnið Gylfi Ingvarsson var fundarstjóri á aðalfundi VM 2011. Hann bar að í upphafi fundar hefði verið gengið úr skugga um að fundurinn væri lögmætur. Fyrir fundinum hafi legið tvær tillögur um breytingu á samþykktum Akks. Þar eð önnur þeirra hafi verið víðtækari hafi hún verið afgreidd fyrst. Hann hafi áréttað við fundarmenn að eingöngu fyrrverandi félagsmenn vélstjórafélagsins mættu kjósa eins og venja hefði verið á þeim aðalfundum félagsins þar sem kjósa hafi átt um breytingar á samþykktum Akks. Stjórnin hafi treyst á drengskap hinna fundarmannanna að þeir kysu ekki. Atkvæðagreiðslan hafi farið þannig fram og hafi ekki verið gerðar neinar athugasemdir við hana. Þá hafi verið greint frá niðurstöðu kosninganna. Þar eð tillaga stjórnarinnar hafi verið samþykkt hafi hin tillagan fallið niður. Ekki hafi verið gerðar athugasemdir við að sú tillaga yrði ekki sérstaklega borin undir atkvæði.
Í fundargerð sem var rituð nokkru eftir fundinn kemur ekki fram að athugasemdir hafi verið gerðar við atkvæðagreiðsluna. Fundargerðin er undirrituð af sjö manna stjórn VM en ekki fundarritara.
Eftir þennan aðalfund kveðst stefnandi hafa haft samband við ýmsa félagsmenn sem létu í ljós óánægju sína. Sumir þeirra hafi talið stjórn VM hafa beitt blekkingum með því að hafa ekki tilkynnt fyrir fram hvað stæði til og láta tillögu stjórnar stefnda VM ekki fylgja dagskrá fundarins. Jafnframt hafi verið farið með rangt mál við gerð og kynningu tillögunnar. Að fundi og ritun fundargerðar hafi verið staðið þannig að ekki hafi verið ljóst hvernig atkvæði hefðu fallið og hverjir greiddu atkvæði og hvort þeir uppfylltu skilyrði til að greiða atkvæði.
Vitnið Bragi ritaði stjórn stefnda VM bréf 26. apríl 2011, mánuði eftir fundinn. Hann óskaði upplýsinga um það hversu margir félagsmenn VM sátu fundinn, hversu margir þeirra höfðu atkvæðisrétt um lögbundin málefni Akks samkvæmt grein 7.1 í samþykktum sjóðsins, og hvort fundarstjóri hafi haft undir höndum upplýsingar um hverjir og hve margir fundarmanna hafi haft atkvæðisrétt um lögbundin málefni Akks því sú aðferð sem var notuð við atkvæðagreiðsluna á aðalfundinum hafi alls ekki tryggt að aðrir en þeir sem höfðu atkvæðisrétt tækju ekki þátt í atkvæðagreiðslunni. Í bréfinu lagði hann til að breytingin á samþykktum Akks sem kosið var um á aðalfundinum kæmi ekki til framkvæmda fyrr en atkvæðagreiðslan hefði verið endurtekin á næsta aðalfundi.
Stjórn stefnda VM svaraði honum fjórum mánuðum síðar með bréfi 25. ágúst 2011. Þar kom fram að á fundum 2007 og 2009 hafi verið lagðar fram tillögur um breytingar á samþykktum sjóðsins. Á þeim fundum hafi fundarstjóri tekið fram hverjir hefðu atkvæðisrétt um málefni sjóðsins og breytingar á samþykktum hans verið bornar undir atkvæði og samþykktar. Á hvorugum fundinum hafi fundarstjóri haft upplýsingar um menntun fundarmanna og því ekki vitað hvaða fundarmenn mættu greiða atkvæði og hverjir ekki. Treyst hafi verið á að fundarmenn sýndu þann drengskap að einungis vélstjórnarmenntaðir menn greiddu atkvæði og ekki verið gengið úr skugga um hvaða menntun þeir hefðu sem greiddu atkvæði. Stjórn VM taldi því að ekki hafi verið ástæða til að hafa annað fyrirkomulag á kosningunni á aðalfundi 2011. Tekið var fram að erfitt væri að ganga úr skugga um það á fundinum hverjir væru vélstjórnarmenntaðir og hverjir ekki enda væru þær upplýsingar ekki í félagakerfi VM. Að mati stjórnar hafi atkvæðagreiðslan um breytingar á samþykktum Akks á aðalfundi 2011 verið lögmæt.
Bragi kvaðst hafa óskað eftir því skriflega við stjórn VM að fá afhenta hljóðupptöku af fundinum en við því hafi stjórnin ekki orðið. Hann hafi hins vegar verið kallaður eins og sakborningur fyrir alla stjórn félagsins og spurður spjörunum úr. Komið hafi verið fram við hann eins og sakamann og eins og hann væri að flytja mál stefnanda þegar hann hafi einvörðungu viljað koma á framfæri sinni sjálfstæðu skoðun á því að við kosninguna hefði ekki verið farið að samþykktum sjóðsins þar eð ekki hefði verið gengið úr skugga um að einungis vélstjórnarmenntaðir menn greiddu atkvæði um tillöguna.
Lögmaður stefnda VM ritaði minnisblað um málið 18. febrúar 2012. Áður en hann ritaði minnisblaðið kallaði hann eftir svörum frá Braga. Í minnisblaðinu er áhersla lögð á að nafni sjóðsins hafi verið breytt á fundinum en þó tekið fram að eftir breytingarnar hafi öllum félagsmönnum VM verið heimilt að kjósa um breytingar á samþykktum sjóðsins.
Í minnisblaðinu var vísað til þess að samþykktum Akks hefði á aðalfundum 2007 og 2009 verið breytt með sama kosningafyrirkomulagi og á fundinum 2011. Önnur rök í bréfinu eru mjög þau sömu og rök stefndu í þessu máli.
Með undirskriftum sem safnað var í maí 2012 kröfðust 37 vélstjórar þess að fengið yrði hlutlaust lögfræðiálit um málið. Samkvæmt fram lögðum gögnum brást stjórn VM ekki við því fyrr en með bréfi sem barst stefnanda 7. janúar 2013. Í því kom fram að stjórnin gæti ekki skipt sér af gerðum aðalfundar. Þeir sem vildu að samþykktum Akks yrði breytt til fyrra horfs, þ.a. einungis vélstjórar og vélfræðingar mættu kjósa um breytingar á samþykktum sjóðsins, yrðu að leggja slíka tillögu fyrir aðalfund félagsins.
Sveinn Gíslason lögfræðingur ritaði stjórn stefnda VM bréf 28. janúar 2013 fyrir hönd vélstjóranna. Í svarbréfi stefnda VM 22. febrúar 2013 var ítrekað að stjórn félagsins gæti ekki haggað samþykktum aðalfundar.
Í janúar 2014 staðfesti Egill Guðmundsson, skólastjóri Véltækniskólans, að vélgæslunám væri ekki hluti af öðru námi til vélstjórnarréttinda, sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 175/2008 um skipstjórnar- og vélstjórnarréttindi á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum. Þar með var ljóst að ein þeirra röksemda sem stjórn VM færði fyrir tillögu sinni um breytingar á samþykktum sjóðsins byggðist á misskilningi.
Núverandi lögmaður tilkynnti stefndu 6. janúar 2015 að stefnandi myndi höfða mál til að fá fundarsamþykktina dæmda ólögmæta. Stefna var gefin út 26. mars 2015. Með úrskurði 23. desember 2015 hafnaði héraðsdómur því að kröfu stefnanda yrði vísað frá dómi.
Málsástæður stefnanda
Stefnandi áréttar að tillaga stjórnar VM hafi fengið afgreiðslu á umræddum fundi. Af þeim sökum hefði átt að afgreiða tillögu hans og Páls einnig. Þess í stað hafi ranglega verið ákveðið að greiða fyrst atkvæði um tillögu stjórnar stefnda VM sem var sögð ganga lengra en tillaga stefnanda og Páls. Að henni samþykktri hafi verið ákveðið að hin tillagan kæmi ekki til atkvæða. Það hafi verið óheimilt enda hafi tillögurnar ekki verið sama efnis.
Þegar tillaga stjórnar stefnda VM hafi verið kynnt hafi verið farið með rangt mál því staðhæft hafi verið að tillagan væri til að reka endahnút á sameininguna. Þvert á móti hafi verið lagður grunnur að sameiningunni með stofnun sjóðsins. Staðhæft hafi verið að fleiri félagsmenn stefnda VM yrðu sjálfkrafa aðilar að stefnda Akki vegna breytinga á reglugerð nr. 175/2008. Fyrir liggi að það sé ekki rétt.
Við talningu atkvæða hafi ekki verið gengið úr skugga um hvort eingöngu þeir sem höfðu atkvæðisrétt greiddu atkvæði. Því sé engan veginn vitað hvernig atkvæði féllu í raun. Ekkert sé upplýst um það sem skipti máli, þ.e. hvort tillagan hafi verið samþykkt eða ekki. Stefnanda virðist þeir hafa fengið að greiða atkvæði sem ekki voru vélstjórar eða vélfræðingar. Vel kunni að vera að misskilningur í greinargerð með tillögu stjórnar félagsins og kynningu tillögunnar hafi leitt til þess að vélgæslumenn hafi einnig kosið þótt það hafi þeir ekki mátt.
Stefnandi byggir á því að þannig hafi verið staðið að því að fá breytingar á sjóðnum samþykktar á aðalfundinum 26. mars 2011 að 30. gr. laga nr. 7/1936 eigi við.
Stefnandi skýrir aðild sína að kröfunni þannig að hann sé vélstjóri og félagsmaður í stefnda VM. Hann sé fyrrverandi formaður Vélstjórafélags Íslands og hafi staðið að sameiningu hinna tveggja félaga í VM. Hann hafi lögvarða hagsmuni af niðurstöðu málsins sem félagsmaður í VM og vélstjóri sem ekki eigi að þurfa að þola að sjóði, sem sé ætlaður vélstjórum, sé í raun breytt á þennan hátt. Félag veiti félagsmönnum sínum réttindi og leggi á þá skyldur. Milli félags og félagsmanna sé því ákveðið samningssamband. Félagsmaður þurfi ekki að þola að á þennan hátt sé brotið gegn almennum lögum og samþykktum félags sem um kosninguna gilda.
Nái aðalkrafa stefnanda fram að ganga verði málefnum Akks ráðstafað í samræmi við upphaflegar samþykktir félagsins. Sama niðurstaða fáist nái varakrafan fram að ganga. Dómsorð í samræmi við kröfur myndi því breyta réttarstöðu félagsmanna innan stefndu, þar með talið stefnanda, í fyrra horf.
Stefndi VM sé stéttarfélag sem ákvæði laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, og laga nr. 55/1980, um starfskjör launþega og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, gilda um. Tilvist hans eigi einnig stoð í 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar.
Félagið sé samkvæmt samþykktum sínum opið öllum sem vinna í þeim fagstéttum sem félagið taki til, á félagssvæði þess. Kjarasamningar þess séu lágmarkskjör á félagssvæðinu þannig að kjarasamningarnir taki að töluverðu leyti til þeirra sem ekki eru aðilar að slíkum samningi.
Stéttarfélög séu að mörgu leyti opinbers eðlis og geti skuldbundið félagsmenn í kjarasamningum. Um þau gildi því strangar skráðar og óskráðar reglur um vönduð vinnubrögð meðal annars á félagsfundum og við undirbúning þeirra.
Aðalkrafa
Stefnandi ítrekar það mat sitt að augljós tilgangur þess að stofnaður var sérstakur sjóður vegna ágóða af sölu Vélstjórafélags Íslands á stofnbréfum í Sparisjóði vélstjóra hafi verið að halda þeim fjármunum aðgreindum í hinu sameinaða félagi. Þegar tillaga stjórnar VM um breytingar á nafni og samþykktum (lögum) stefnda Akks hafi verið kynnt fundarmönnum á aðalfundi VM 26. mars 2011, hafi verið farið með rangt mál því tillagan hafi verið kynnt sem síðasta aðgerðin í sameiningu félaganna og að eðlilegra væri að sjóðurinn tilheyrði félaginu í heild. Sú kynning gangi þvert gegn upprunalegum tilgangi sjóðsins.
Atkvæðagreiðslan á þessum fundi hafi ekki samrýmst þeim samþykktum sem stefnda Akki voru settar við stofnun hans, sér í lagi grein 7.1. Tilgangurinn með stofnun sjóðsins hafi verið að halda fyrir utan sameiningu FJ og VSFÍ tilteknum fjármunum sem félagsmenn VSFÍ töldu sig eiga umfram félagsmenn FJ.
Skýrt komi fram í grein 7.1 að breytingar á samþykktum sjóðsins öðlist ekki gildi nema þær hafi hlotið samþykki meirihluta vélstjórnarmenntaðra manna á aðalfundi stefnda VM. Ljóst sé að á aðalfundi stefnda VM 26. mars 2011 hafi ekki verið gengið úr skugga um að aðeins vélstjórnarmenntaðir menn greiddu atkvæði því ekki hafi verið nokkur leið fyrir fundarstjóra að staðfesta að aðeins þeir réttu upp hönd við atkvæðagreiðsluna.
Undirbúningur fundarins hafi verið gallaður, svo og framkvæmd hans. Auk þess sé ósannað og óupplýst hvort tillagan hafi verið samþykkt af þeim sem voru til þess bærir. Af þessum sökum verði að líta svo á að fundurinn hafi í raun aldrei samþykkt breytingu á samþykktum sjóðsins eða að slík samþykkt sé markleysa (nullitet).
Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til almennra reglna félagaréttar en einnig samningaréttar. Hann byggir á því að með þessu hafi verið brotið gegn einstökum félagsmönnum með vélstjórnarréttindi. Þær málsástæður sem tilgreindar eru vegna varakröfu séu einnig aðalkröfunni til stuðnings.
Varakrafa
Að því leyti sem málsástæður fyrir aðalkröfunni leiði ekki til þess að hún verði tekin til greina, byggir stefnandi á því að þær leiði til þess að varakrafan verði tekin til greina.
Stefnandi áréttar að ekkert liggi fyrir um að tillaga stjórnar VM um breytingar á samþykktum (lögum) stefnda Akks hafi hlotið samþykki. Þannig hafi verið staðið að fundarboði og fundargerð að ekkert verði byggt á þeim gögnum um að gild breyting hafi átt sér stað.
Samkvæmt almennum reglum félagaréttar þurfi allar tillögur til lagabreytinga að fylgja fundarboði eða á einhvern hátt að vera aðgengilegar væntanlegum fundarmönnum til skoðunar og þeir að vita hvað til standi. Þannig þurfi að tryggja að menn mæti undirbúnir á fundinn og séu ekki mataðir á röngum upplýsingum eða villt sé um fyrir þeim. Einnig þurfi að tryggja að þeir, sem vilji skipta sér af málinu, sæki fundinn og síðast en ekki síst að tryggja að stuðningsmönnum sé ekki smalað á fundi án vitundar hinna sem kynnu að vera á móti.
Sé út af borið í þessum efnum varði það ógildi ákvörðunarinnar. Þá þurfi ekki að sanna hvort mönnum hafi gengið eitthvað misjafnt til eða ekki, enda sé slíkt torsannað. Almennum reglum félagaréttar sé ætlað að svipta menn þeim möguleika að koma fram málum á óeðlilegan hátt eða að mikilsverð mál séu afgreidd óundirbúið að lítt athuguðu máli og án þess að að umræðunum komi þeir sem vilji taka þátt í þeim.
Stefnandi byggi á því að svo alvarlega hafi brugðið út af í þessu tilviki að það varði ógildingu ákvörðunarinnar ef yfirleitt upplýsist að nokkur ákvörðun hafi verið tekin þess efnis sem fundargerðin virðist ranglega staðhæfa. Komið hafi á daginn, eins og áður sé rakið, að tillaga hafi verið kynnt á röngum forsendum og vísað til þess að hún sækti stoð í sameiningu félaganna svo og að fleiri væru að bætast í hóp vélstjóra af félagsmönnum stefnda VM. Allt yfirbragð framkvæmdarinnar hafi verið eins og þetta væri aðeins minni háttar formbreyting. Haga verði málum þannig að allir geti treyst því að unnið hafi verið heiðarlega og gagnsætt. Sé hægt með réttu að þyrla upp slíkum vafa verði að meta ákvörðun fundarins ógilda.
Í 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar segi: Í lögum skal kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu. Þetta stjórnarskrárákvæði hafi löggjafinn efnt með lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur ásamt síðari breytingum. Þar segi að stéttarfélög ráði málum sínum sjálf með þeim takmörkunum sem séu settar í lögum. Þar segi einnig að menn eigi rétt til að stofna stéttarfélög og þau þurfi að vera opin öllum sem í þau vilji ganga og uppfylla til þess almenn skilyrði. Þau koma fram fyrir hönd félagsmanna sinna og semji um kaup og kjör. Í lögum nr. 55/1980 um starfskjör launþega sé gengið skrefinu lengra þannig að kjarasamningar séu nánast orðnir laga- eða reglugerðaígildi.
Tilvist stéttarfélaga sé lögbundin og eigi rætur í stjórnarskránni. Það valdi því að um þau gildi sérstakar reglur. Í lögum verði að gera miklar kröfur til formfestu, gagnsæis og vandaðrar framkvæmdar þegar samþykktum stéttarfélags sé breytt, einkum í ljósi þess hversu margir geta orðið bundnir af þeim og hversu nauðsynlegt það sé vinnandi fólki að geta átt aðild að slíku félagi. Stefnandi byggir á því að þessar ströngu reglur hafi verið þverbrotnar.
Stefnandi vísar til almennra reglna félaga- og samningaréttar, 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar, laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og laga nr. 55/1980 um starfskjör launþega. Kröfu um málskostnað styður hann við XXI. kafla laga nr. 91/1991, sérstaklega 129. og 130. gr. Tekið verði tillit til þess að stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og þurfi því aðfararhæfan dóm fyrir skattinum.
Málsástæður og lagarök stefndu
Stefndu árétta að ágreiningur málsaðila varði fyrst og fremst lögmæti aðferðar, sem höfð var við kosningu um breytingu á samþykktum (lögum) stefnda Akks. Stefnandi byggi á því að hann hafi ekki mátt treysta því, að fundarmenn á aðalfundi 2011 segðu satt til um það, hvort þeir væru vélstjórar eða vélfræðingar og hefðu þar af leiðandi kosningarétt um málefni stefnda Akks, enda þótt það sama fyrirkomulag hafi verið notað tvisvar áður á aðalfundum stefnda VM. Stefnandi telji að á aðalfundinum 2011 hafi þvert á móti borið að krefja félagsmenn skilríkja eða einhverra skriflegra sannanna um það, að þeir væru í reynd vélstjórar eða vélfræðingar, en ekki málmtæknimenn og mættu því kjósa um málefni stefnda Akks.
Stefndu benda á að auk fyrri framkvæmdar við kosningar um málefni stefnda Akks hafi hvorki verið sagt né segi hvergi, í samþykktum (lögum) stefnda VM eða samþykktum (lögum) stefnda Akks, neitt um það, hvaða aðferð sé skylt að nota við atkvæðagreiðslur. Í þeim ákvörðunum fundarstjóra aðalfundanna að beita þeirri aðferð, sem beitt var, felist ekki á neinn hátt brot gegn samþykktum (lögum) stefndu. Þegar þessar ákvarðanir hafi verið teknar á aðalfundum félagsins árin 2007, 2009 og 2011 hafi þeim heldur aldrei verið mótmælt. Fundarstjórarnir hafi því úrskurðað þessar kosningar lögmætar.
Stefndu leggja áherslu á að stefnandi hafi verið formaður stefnda VM árið 2007 og hafi framkvæmd kosninga um málefni stefnda Akks verið með fullu samþykki hans. Sem almennur félagsmaður á aðalfundi 2009 hafi stefnandi heldur ekki gert neinar athugasemdir við þetta fyrirkomulag kosninganna. Aðalfund 2011 hafi hann ekki sótt en heldur kosið að vera í fríi á miðri vertíð, enda þótt hann vissi að tillaga hans og Páls Magnússonar ásamt tillögu stefnda VM yrði tekin fyrir á fundinum og leidd þar til lykta. Fyrir aðalfundinn hafi ekki komið fram neinar óskir eða kröfur frá stefnanda til stjórnar stefnda VM, að áður en gengið yrði til kosninga, bæri að krefja félagsmenn um skriflegar sannanir fyrir því að þeir væru vélstjórar eða vélfræðingar.
Kjarni málsins sé að sú aðferð, sem beitt var á þessum aðalfundum, hafi ekki á neinn hátt brotið í bága við samþykktir (lög) stefndu heldur verið í samræmi við það sem tíðkast hafi á fyrri aðalfundum. Eins og á fyrri aðalfundum hafi ekki nokkur mótmælt þessu fyrirkomulagi, áður en gengið var til atkvæða á þennan hátt. Hefði borið brýna nauðsyn til þess a.m.k áður en fundarstjórinn úrskurðaði kosninguna lögmæta.
Stefndu benda á að hvorki af hálfu stefnanda né annarra félagsmanna stefnda VM hafi komið fram á næsta aðalfundi á eftir, þ.e. 2012, eða á síðari aðalfundum tillaga um að breyta samþykktum (lögum) stefnda Akks til fyrra efnis. Eingöngu hafi verið krafist ógildingar þessarar löngu liðnu kosningar á aðalfundinum 2011 á þeim forsendum, að mögulegt væri að einhver þeirra félagsmanna stefnda VM sem kaus, hafi ekki, eftir allt saman, verið vélstjóri eða vélfræðingur heldur málmtæknimaður. Á stefnanda hvíli alfarið sönnunarbyrði fyrir því að aðrir en vélstjórar og vélfræðingar hafi kosið á aðalfundinum 2011 um málefni stefnda Akks. Á það hafi stefnandi ekki á nokkurn hátt fært sönnur. Hér eigi ekki við öfug sönnunarbyrði, það er að stefndu þurfi að afsanna órökstuddar fullyrðingar stefnanda um meint ólögmæti kosninganna.
Með þessum rökum krefjast stefndu sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.
Stefndi vísar máli sínu til stuðnings í almennar reglur félagaréttar auk samþykkta (laga) stefndu, VM Félags vélstjóra og málmtæknimanna og samþykkta (laga) stefnda Akks styrktar- og menningarsjóðs VM Félags vélstjóra og málmtæknimanna og til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Krafa hans um málskostnað styðst við XXI kafla þeirra.
Niðurstaða
Stefnandi er félagsmaður í stéttarfélaginu VM, félagi vélstjóra og málmtæknimanna. Það félag varð til þegar tvö stéttarfélög, Vélstjórafélag Íslands og félag Járniðnaðarmanna, sameinuðust um miðjan október 2006. Áður en félögin sameinuðust seldi Vélstjórafélagið stofnbréf sem það átti í Sparisjóði Vélstjóra. Með fé sem fékkst við þá sölu stofnaði vélstjórafélagið sjóðinn Akk, styrktar- og menningarsjóð vélstjóra og vélfræðinga. Markmið og verkefni sjóðsins er að styrkja rannsóknir og annað sem kemur vélstjórum og vélfræðingum til góða við nám og störf, til lands og sjávar. Samkvæmt samþykktum sjóðsins máttu einvörðungu vélstjórnarmenntaðir menn kjósa um breytingar á samþykktum sjóðsins.
Á aðalfundi VM 26. mars 2011 var samþykktum sjóðsins breytt verulega. Stefnandi telur að þegar kosið var um þá breytingu hafi ekki verið gætt lögboðinna aðferða. Hann telur svo verulega galla hafa verið á undirbúningi kosningarinnar og kosningaraðferðinni að telja verði að engin gild breyting hafi verið gerð á samþykktum sjóðsins Akks á fundinum.
Stefnandi telur í fyrsta lagi að með fundarboði hafi átt að fylgja tillögur að breytingum á samþykktum Akks en auk stjórnar VM lögðu hann og Páll Magnússon heitinn fram tillögu að breytingum á samþykktum sjóðsins, sem gekk í nokkuð aðra átt en tillaga stjórnarinnar.
Stefndu byggja á því að tillögurnar hafi ekki þurft að fylgja fundarboðinu. Hvorki sé gert ráð fyrir því í samþykktum félagsins né samþykktum sjóðsins. Reikningar félagsins liggi frammi á skrifstofu þess viku fyrir aðalfundinn og þangað geti menn farið og skoðað þá. Sama eigi við um breytingar á samþykktum. Ekki sé hægt að birta langa romsu breytinga á samþykktum félagsins eða sjóða, sem heyri undir það, í blöðum fyrir almenning. Sérstaklega að því spurður kvaðst formaður félagsins ekki muna hvort tillögurnar tvær að breytingum á samþykktum sjóðsins hefðu legið frammi á skrifstofu félagsins viku fyrir aðalfundinn.
Í grein 29 í samþykktum VM stóð á þessum tíma að aðalfund skuli boða með minnst viku fyrirvara með auglýsingum í blaði félagsins, dagblaði og útvarpi.
Í fundargerð aðalfundar segir:
GI kannaði lögmæti fundar. ... Fundurinn var auglýstur í dagblöðum laugardaginn 19. mars, á heimasíðu VM ... og í blaði VM sem félagsmenn fengu í vikunni.
Dómurinn fellst á það með stefnanda að nauðsynlegt sé að auglýsa tímanlega fyrir aðalfund tillögur að breytingu á samþykktum félags eða sjóða sem það hefur með að gera og kjósa á um á fundinum í því skyni að félagsmenn geti metið að hvaða marki tillagan snertir þá, myndað sér afstöðu til hennar og metið út fá því hvort þeir telji nauðsynlegt að sækja aðalfundinn til þess annaðhvort að samþykkja tillöguna eða hafna henni. Með því eru tryggð vönduð vinnubrögð og að samþykktum sé ekki breytt að vanhugsuðu máli.
Telji stjórn VM óheppilegt að birta tillögur að breytingum á samþykktum í dagblöðum eða útvarpi hefur hún tvo aðra miðla sem fyrst og fremst eru ætlaðir félagsmönnum, þ.e. heimasíðu VM og tímarit VM, sem mun samkvæmt fundargerð aðalfundar hafa borist félagsmönnum í vikunni fyrir aðalfundinn. Tillögur að breytingum á samþykktum sem kjósa átti um á aðalfundi 2011 birtust í hvorugum miðlinum þótt það verklag hafi verið tekið upp síðar að birta á heimasíðunni tillögur að breytingum á samþykktum. Munurinn á þessum tveimur miðlum er þó sá að tímaritið er borið út og því tryggt að það berist á heimili félagsmanna. Hins vegar þurfa menn að hafa aðgang að tölvu til þess að geta kynnt sér það sem er birt á heimasíðu félagsins.
Í það minnsta hefði stjórn VM þurft að taka skýrt fram í fundarboði að félagsmenn gætu kynnt sér tillögur að breytingum á samþykktum á skrifstofu félagsins en alls lágu fyrir fundinum fjórar tillögur um breytingar á samþykktum (lögum/reglugerðum) félagsins og sjóða þess.
Stefnandi telur í öðru lagi að kynning á tillögu stjórnar VM um breytingu á samþykktum sjóðsins hafi verið villandi á aðalfundinum 2011.
Árétta má að það var ekki stjórn Akks sem lagði til breytingar á samþykktum Akks heldur stjórn VM, sbr. bréf sem hún sendi stjórn sjóðsins 5. febrúar 2011. Í fundargerð aðalfundar 2011 er texti tekinn upp úr þeirri greinargerð stjórnar VM sem fylgdi tillögu hennar að breytingum á samþykktum Akks. Þar segir:
Tillaga stjórnar VM um breytingar á nafni og lögum Akks styrktar- og menningarsjóðs vélstjóra og vélfræðinga
Tillagan varðaði breytingu á nafni styrktarsjóðsins úr Akkur Styrktar- og menningarsjóður vélstjóra og vélfræðinga í Akkur Styrktar- og menningarsjóður VM og að samhliða verði gerðar tilheyrandi breytingar á lögum sjóðsins.
Sævar Örn gerði grein fyrir tillögunni og sagði hana síðustu aðgerð í sameiningu félaganna. Staðan væri sú að einungis vélstjórnarmenntaðir menn mættu t.d. greiða atkvæði um málefni sjóðsins. Eðlilegra væri að sjóðurinn tilheyrði félaginu í heild.
Guðmundur Ragnarsson, formaður VM, bar að gerð hefði verið grein fyrir þeim breytingum sem fælust í tillögunni með því að varpa upp af skjávarpa samanburði á samþykktum Akks óbreyttum og breyttum.
Vitnið Sævar Örn Kristjánsson sem bar tillöguna upp kvaðst hafa kynnt hana þannig að sú breyting sem í henni fælist væri lokahnykkurinn í sameiningu félaganna. Hann teldi þessa breytingu eðlilega og um leið og nafni sjóðsins yrði breytt ætti einnig að breyta því að fjármunir sjóðsins gætu jafnt gengið til rannsóknar á vinnuumhverfi járniðnaðarmanna og vélstjóra. Að sama skapi væri eðlilegt að allir félagsmenn gætu breytt samþykktum sjóðsins. Ekki væri hægt að standa í þessum flokkadráttum við atkvæðagreiðslu árum saman löngu eftir að menn hefðu gleymt því hvernig stóð á stofnun sjóðsins.
Fallast má á það að tilvísun stjórnarinnar til breytinga á reglugerð þannig að vélfræðingum ætti eftir að fjölga í félaginu hafi verið byggð á misskilningi. Þau rök flutningsmanns tillögunnar að sú breyting sem stjórnin lagði til væri lokahnykkurinn í sameiningu félaganna er afstaða stjórnar VM til málsins. Sú afstaða kann að hljóma villandi í eyrum þeirra, stefnanda og margra annarra félagsmanna, sem hafa þá sýn á málavexti að sjóðurinn hafi verið grundvallarforsenda sameiningarinnar. Hér er ekki hægt að taka afstöðu til þess hver var forsenda hvers félagsmanns VSFÍ fyrir því að fallast á sameiningu þess félags við félag járniðnaðarmanna þótt vel kunni að vera að stofnun sjóðsins hafi verið forsenda margra sem samþykktu sameininguna.
Einnig má fallast á það með stefnanda að í greinargerð með tillögu stjórnar VM og í fundargerð virðist helsta breytingin á samþykktunum felast í breyttu nafni sjóðsins og að sú áhersla gefi alls ekki til kynna þá umfangsmiklu breytingu á samþykktum Akks sem með fylgdi. Hafi hins vegar verið farið yfir allan texta samþykkta sjóðsins, bæði óbreyttan og breyttan, hefðu fundarmenn átt að átta sig á því hversu umfangsmikil breyting fólst í tillögum stjórnar VM.
Stefnandi byggir einnig á því að óheimilt hafi verið að ákveða að tillaga hans og Páls heitins kæmi ekki til atkvæða því hún hafi ekki verið sama efnis og tillaga stjórnar VM. Það var tillaga þeirra að grein 7.1 yrði grein 7.2 og að í grein 7.1 stæði:
Tillögur til breytinga á lögum sjóðsins skulu berast stjórn hans eigi síðar en 3 vikum, 21 degi, fyrir aðalfund VM-Félags vélstjóra og málmtæknimanna. Þær skulu bornar fram af félagsmanni/mönnum VM sem uppfylla ákvæði 4.1 um kjörgengi.
Dómurinn telur, vegna tilvísunar til greinar 4.1 í samþykktum sjóðsins, að skilja beri þessa tillögu þannig að einungis vélstjórnarmenntaðir menn í stjórn sjóðsins megi bera upp tillögur að breytingum á samþykktum sjóðsins og skuli þeir gera það eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund VM.
Samkvæmt tillögu stjórnar VM um breytingar á samþykktum Akks átti að taka út allar tilvísanir til vélstjóra og vélfræðinga í samþykktunum og setja „félagsmenn VM“ eða „VM-Félags vélstjóra og málmtæknimanna“ þeirra í stað.
Dómurinn fellst á það með stefndu að í þeirri tillögu felist mun afdrifaríkari breytingar á samþykktum sjóðsins en tillaga stefnanda og Páls. Eftir að fundarstjóri hafði lýst yfir því að tillaga stjórnar VM hefði verið samþykkt var ekki neitt tilefni til að greiða atkvæði um tillögu stefnanda og Páls enda hafði efni samþykktanna breyst meira en svo að tillaga þeirra gæti haft þýðingu. Því var eðlilegt að ekki væri kosið um hana sérstaklega.
Stefnandi byggir í fjórða lagi á því að ekki hafi verið gengið úr skugga um að þeir sem greiddu atkvæði hafi einungis verið þeir sem máttu greiða atkvæði samkvæmt samþykktum sjóðsins Akks. Því sé ósannað og óupplýst að tillagan hafi verið samþykkt af þeim sem voru til þess bærir. Af þeim sökum sé ekki vitað hvernig atkvæði hafi í raun fallið.
Ein mikilvægasta meginreglan í félagarétti er meginreglan um jafnræði félagsmanna. Þessi jafnræðisregla kemur þó ekki í veg fyrir að í samþykktum félags sé kveðið á um ólík réttindi og skyldur einstakra félagsmanna og þeim skipað í ólíka flokka samkvæmt því. Í samræmi við þetta gekk Félag járniðnaðarmanna, þegar hið sameinaða félag VM var stofnað, að því að Vélstjórafélag Íslands kæmi með tiltekinn sjóð inn í hið sameinaða félag og að um hann giltu sérstakar reglur sem veittu einungis takmörkuðum hópi tiltekin réttindi. Félag járniðnaðarmanna gekk að því að undir hið sameinaða félag heyrði sjóður sem hefði að markmiði að bæta vinnuumhverfi vélstjóra og vélfræðinga og bæta námsgögn og vélstjórnarmenntun, að hann hefði stjórn þar sem tveir af þremur eru vélstjórnarmenntaðir, og ekki hvað síst hefði þau fyrirmæli í samþykktum sínum að einungis vélstjórnarmenntaðir menn mættu taka þátt í kosningum um breytingar á þeim samþykktum.
Því var fallist á það í hinu sameinaða félagi að félagsmenn með tiltekna fagþekkingu, vélstjórar og vélfræðingar, nytu sérstakrar réttarstöðu samkvæmt samþykktum Akks en aðrir félagsmenn hins sameinaða félags nytu hennar ekki. Efni samþykktanna átti því að ráðast af vilja þeirra sem voru vélstjórar og vélfræðingar en ekki af vilja annarra félagsmanna. Kosning um breytingar á samþykktum þess sjóðs hlaut því alltaf að verða frábrugðin kosningum um önnur atriði sem bera skyldi upp við alla félagsmenn VM.
Samþykktir Akks lögðu því þær skyldur á stjórn hins sameinaða félags að gera félagatal sitt þannig úr garði að unnt væri að fylgjast með því hvort þeir sem greiddu atkvæði þegar kosið væri um breytingar á samþykktum Akks hefðu þá réttarstöðu sem til þyrfti, væru vélstjórar eða vélfræðingar, og þá jafnframt að aðrir félagsmenn VM sem ekki nytu þeirrar réttarstöðu tækju ekki þátt í þeirri kosningu.
Það er einvörðungu lögfræðileg hártogun að vísa til þess að samþykktir Akks áskilji ekki að menn geri grein fyrir menntun sinni áður en þeir greiða atkvæði um þær. Úr því að hið sameinaða félag VM var stofnað með þessum sérstaka sjóði sem veitti einungis vélstjórnarmenntuðum mönnum þá réttarstöðu að geta breytt samþykktum hans varð stjórn félagsins að tryggja, með fullnægjandi ráðum, að samþykktum sjóðsins væri fylgt. Því varð að láta menn gera grein fyrir menntun sinni áður en þeir kusu.
Dómurinn fellst á það með stefnanda að það sé grundvallarbreyting á samþykktum hans að gefa öllum félagsmönnum VM kost á að breyta samþykktum sjóðsins eins og gert var með breytingu á grein 7.1. Af þeim sökum var enn brýnna en á fyrri fundum, þar sem einnig var kosið um breytingar á samþykktum sjóðsins, að tryggja að fyrirmæli þeirra um kosningar væru virt.
Dómurinn fellst því ekki á það með stefnda VM að hafi á fyrri aðalfundum verið beitt þessari drengskaparaðferð við að ganga úr skugga um að þeir sem kysu væru vélstjórar eða vélfræðingar þá verði henni ekki hnekkt síðar.
Stefndu telja það hafa þýðingu að stefnandi hafi ekki komið með athugasemdir sínar á fundinum. Það er ljóst þegar fundur er einungis boðaður með viku fyrirvara að ekki geta allir, sem áhuga hafa á því, sótt hann vegna annarra áður ákveðinna skuldbindinga. Núverandi formaður kvaðst til dæmis ekki hafa getað sótt aðalfund 2007 því þá hefði hann verið að störfum á sjó. Engu að síður telur dómurinn að það hefði ekki útilokað hann frá því að gera athugasemd við það sem hann teldi að hefði misfarist á fundinum. Stjórn og fundarstjóri geta ekki skákað í því skjóli að þeir sem ekki komust á fundinn en telja að þar hafi eitthvað misfarist hafi ekki komið athugasemdum sínum á framfæri á fundinum.
Vitnið Bragi kvaðst ekki hafa getað verið viðstaddur aðalfundi 2007 og 2009. Að mati dómsins kemur það ekki í veg fyrir að hann hafi getað, á fundinum 2011, mótmælt því að atkvæðagreiðslan færi fram á þennan hátt. Hann kvaðst hafa stigið í ræðustól á aðalfundinum 2011 og óskað eftir því að atkvæðagreiðslu um þessa tillögu stjórnarinnar yrði frestað. Ekki er getið um það í fundargerðinni. Þeir sem báru vitni fyrir dómi voru sammála um að brýnt hefði verið fyrir fundarmönnum að einvörðungu vélstjórar og vélfræðingar mættu taka þátt í kosningu um breytingar á samþykktum Akks. Í fundargerð aðalfundar er ekki heldur getið um að það hafi verið gert. Erfitt er því að meta hvað verður sannað með fundargerðinni og hvað ekki og þykir hún ekki vera óbrigðult sönnunargagn um það hvað fór fram á fundinum og hvort kosningaraðferðinni var þá mótmælt eða ekki.
Fram lögð gögn sýna þó að áður en mánuður var liðinn frá fundinum hafði Bragi einnig sent stjórn VM skriflegar athugasemdir sínar. Viðleitni ýmissa félagsmanna til að fá kosningunni hnekkt er rakin í lýsingu málavaxta. Að þeim tilraunum kom stefnandi og hann fylgir þeim nú eftir með þessu máli.
Ekki þykir leika vafi á því að fundarstjóri hafi áréttað við fundarmenn að aðeins vélstjórnarmenntaðir menn mættu kjósa um tillögu stjórnarinnar um breytingar á samþykktum Akks. Vitnið Gylfi, sem var fundarstjóri, bar að hann hefði sagt fundarmönnum að einungis vélstjórnarmenntaðir menn sem hefðu verið í Vélstjórafélagi Íslands mættu greiða atkvæði. Vitnið Bragi bar að hann og fleiri hefðu séð að fleiri en vélstjórnarmenntaðir menn hafi greitt atkvæði.
Stefndu byggja á því að það hvíli á stefnanda að sanna að fleiri en þeir sem áttu atkvæðisrétt hafi greitt atkvæði um tillögu stjórnar VM.
Vitnið Gylfi fundarstjóri bar að til þess að fá afhent fundargögn, dagskrá, tillögur að breytingum á samþykktum og greinargerðir með þeim, hafi þeir sem vildu sitja fundinn þurft að gera grein fyrir sér áður en þeir gengu til sætis enda þurfti að greina að fullgilda félaga og aukafélaga, því þeir hafa ekki kosningarétt, sbr. 5. gr. samþykkta VM.
Í 4. gr. samþykkta VM segir að félagið sé opið öllum sem hafa lokið viðurkenndu vélstjóranámi, iðnnámi í málm- og véltæknigreinum, veiðarfæragerð og báta- og skipasmíði svo og námsmönnum og öðrum þeim sem starfa í greinunum. Einnig geti þeir orðið félagsmenn sem vinna að málefnum félagsins og aðrir sem stjórn metur hæfa hverju sinni. Þessari grein var einnig breytt á aðalfundi VM 2011 og er félagið nú einnig opið fólki sem starfar í bílgreinum.
Á umsóknareyðublaði sem fylla þarf út til þess að fá inngöngu í félagið þurfa menn gera grein fyrir fagmenntun sinni. Þær upplýsingar hlýtur félagið að vista einhvers staðar. Að mati dómsins eru það ekki boðleg rök fyrir því að fundarstjóri þurfi að reiða sig á drengskap fundarmanna að tölvutækt félagakerfi sé ekki þannig upp byggt að menntun sé skráð inn í það eins og formaður félagsins bar fyrir dómi. Ráði tiltekið félagatalsforrit ekki við það ætti að vera létt að halda utan um menntun félagsmanna og aðrar forsendur fyrir aðild þeirra í word- eða excel-skjali. Í félaginu sameinast fjöldi fagstétta og samkvæmt gögnum um sameininguna ættu félagsmenn að vera hátt í fjögur þúsund.
Að mati dómsins er ekki hægt að gera þá kröfu til stefnanda að hann nafngreini einhvern sem tók þátt í kosningunni en er ekki vélstjórnarmenntaður. Allar upplýsingar sem máli geta skipt, svo sem hverjir sóttu fundinn og hver er menntun þeirra, eru í fórum stefnda VM eða eiga í það minnsta að vera það. Þær upplýsingar átti félagið að nýta til þess að leggja vandaðan grunn að kosningunni þannig að sannanlegt væri að einvörðungu vélstjórar og vélfræðingar kysu.
Hallann af því að ekki verður sannað hvort einvörðungu vélstjórar og vélfræðingar tóku þátt í kosningunni verður að leggja á stefnda VM. Það er stjórn þess félags sem á að sjá til þess að kosningar fari þannig fram að fylgt sé samþykktum Akks og það félag hefur eða á að hafa þær upplýsingar sem þarf til að sannreyna megi að samþykktunum sé fylgt og einungis þeir sem njóta þessarar tilteknu réttarstöðu kjósi hvort heldur er með því að rétta upp hönd eða greiða atkvæði skriflega.
Dómurinn fellst á það með stefnanda að ágallar hafi verið á undirbúningi að breytingum á samþykktum sjóðsins Akks og á framkvæmd kosninga um þær breytingar á aðalfundi VM 26. mars 2011.
Í 94. gr. laga nr. 5/1998, um kosningar til sveitarstjórna, er lögfest það viðmið að gallar á framboði eða kosningu leiði ekki til ógildingar kosningar, nema ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna. Dóminum þykir það viðmið einnig geta átt við um kosningar í almennum félögum eins og stéttarfélögum, þ.e.a.s. að ekki nægi að formgalli sé sannaður heldur verði jafnframt að vera einhverjar líkur til þess að hann hafi haft réttaráhrif.
Stjórn VM ber ábyrgð á því að nægilega vandaður grunnur sé lagður að kosningunum svo sem með því að auðkenna þá í félagatali sem máttu kjósa um breytingar á samþykktum Akks, og tryggja að einungis þeir fengju einhver auðkenni þannig að fundarstjóri gæti þekkt þá úr ef kosið væri með handauppréttingu eða afhenda þeim sérstaka kjörseðla ætti að kjósa skriflega. Því til stuðnings að einvörðungu vélstjórar og vélfræðingar hafi greitt atkvæði við kosninguna vísar stjórnin til þess að hún hafi reitt sig á drengskap þeirra félagsmanna sem sóttu aðalfundinn.
Samkvæmt 57. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal dómari, eftir kröfu málsaðila, láta vitni staðfesta framburð sem það hefur gefið fyrir dómi með eiði eða drengskaparheiti. Áður en vitni staðfestir framburð sinn brýnir dómari fyrir því helgi og þýðingu staðfestingar, bæði fyrir úrslit máls og vitnið sjálft lagalega og siðferðilega. Sé vitnið trúað vinnur það eið en annars heit. Sú staðfesting fer þannig fram að vitnið lyftir upp hægri hendi og hefur þessi orð eftir dómara: Ég lýsi því yfir og legg við drengskap minn og heiður að ég hef sagt það sem ég veit sannast og réttast og ekkert dregið undan. Drengskaparheit getur því haft þýðingu að lögum.
Fyrir dómi kom ekki fram að hver og einn sá sem kaus hafi verið látinn gefa drengskaparheit. Hins vegar var áréttað að einvörðungu vélstjórar og vélfræðingar mættu kjósa um þessa tilteknu breytingu. Í huga sínum treysti stjórn VM hins vegar á að aðrir fundarmenn sýndu þann drengskap að taka ekki þátt í kosningunum.
Heiðarleiki, drengskapur, er mikilsvert skapgerðareinkenni. Nú, á tímum hárnákvæmra sannana, verður vart stuðst við hann sem sönnunargagn nema gersamlega ómögulegt sé að koma við öðrum sönnunargögnum eins og 57. gr. laga nr. 91/1991 miðar við. Stjórn VM átti hins vegar að hafa til reiðu öll þau sönnunargögn sem til þurfti.
Enginn þeirra sem bar vitni fyrir dómi gat fullyrt að allir þeir sem greiddu atkvæði hefðu einvörðungu verið vélstjórar eða vélfræðingar. Fundarstjóri vissi ekki hvaða réttindi þeir höfðu sem tóku þátt í kosningunni. Hann hafði þannig aldrei í höndunum neina sönnun þess að hann gæti lýst kosningu um breytingar á samþykktum Akks lögmæta.
Ekkert verður því um það sagt hversu margir þeirra sem tóku þátt í kosningu um breytingar á samþykktum Akks höfðu til þess þá réttarstöðu sem nauðsynleg var til þess að breytingarnar væru gildar samkvæmt samþykktunum. Því er ekki með neinu móti hægt að útiloka að sá galli sem var á kosningunni hafi haft áhrif á úrslit hennar. Samkvæmt því verður að fallast á að ekki hafi verið gerð gild breyting á samþykktum Akks á aðalfundi VM 26. mars 2011.
Það er því niðurstaða dómsins að stjórn félags, sem ber ábyrgð á því að kosning innan vébanda þess fari rétt fram, og hefur eða á að hafa til þess öll gögn og allar forsendur, og ber að tryggja að ekki séu fyrir borð bornir hagsmunir neins félagsmanns við kosninguna, geti ekki staðið þannig að henni að ekki sé gagnsætt og sannanlegt að skilyrði samþykkta um kosninguna sé fullnægt. Það er jafnframt niðurstaðan að stjórnin geti ekki sagt við þann félagsmann sem telur að ekki hafi verið gætt réttra aðferða og þannig brotið gegn hagsmunum hans að hann verði að sanna að sú aðferð sem beitt var hafi að öllu leyti uppfyllt skilyrði samþykktanna, þegar hann hefur hvorki gögnin né aðrar forsendur til þess.
Stefnandi krefst málskostnaðar. Í málatilbúnaði hans er þó hvergi vikið að því að stefndi Akkur eða stjórn hans eigi sök á því að ágreiningsmál um kosningar á breytingum á samþykktum hans var borið undir dóm. Því verður að skilja kröfu stefnanda um málskostnað þannig að hún beinist einvörðungu að stefnda VM.
Þar eð fallist hefur verið á kröfu stefnanda verður stefndi VM, með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, dæmdur til að greiða honum málskostnað. Þegar litið er til flutnings um frávísun og að teknu tilliti til virðisaukaskatts þykir málflutningsþóknun hæfilega ákveðin 960.000 kr.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm.
D Ó M s o r ð
Viðurkennt er að á aðalfundi stefnda, VM, Félags vélstjóra og málmtæknimanna, 26. mars 2011 hafi engin gild breyting verið gerð á lögum stefnda Akks, styrktar- og menningarsjóðs vélstjóra og vélfræðinga.
Stefndi VM greiði stefnanda, Helga Laxdal Magnússyni, 960.000 kr. í málskostnað.