Hæstiréttur íslands
Mál nr. 444/2005
Lykilorð
- Kærumál
- EFTA-dómstóllinn
- Vitni
|
|
Þriðjudaginn 25. október 2005. |
|
Nr. 444/2005. |
Íslenska ríkið(Óskar Thorarensen hrl.) gegn HOB víni ehf. (Stefán Geir Þórisson hrl.) |
Kærumál. EFTA-dómstóllinn. Vitni.
Í máli sem H hafði höfðað gegn Í var farið fram á ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins. Krafðist H þess að teknar yrðu skýrslur af tveimur nafngreindum vitnum fyrir héraðsdómi til framlagningar fyrir EFTA-dómstólinn, með heimild í 2. mgr. 76. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar sem sönnunarfærsla þessi þótti bersýnilega þýðingarlaus var kröfu H hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Guðrún Erlendsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. október 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. október 2005 þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um heimild til að leiða tvö nafngreind vitni fyrir dóminn, með vísan til 2. mgr. 76. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til sönnunarfærslu fyrir EFTA-dómstólnum. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um að skýrsla verði tekin af umræddum vitnum.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Málavöxtum og málsástæðum aðila er lýst í hinum kærða úrskurði. Þá er og réttilega gerð grein fyrir þeim lagareglum sem á reynir við úrlausn málsins. Fallist er á skýringu héraðsdóms á 2. mgr. 76. gr. laga nr. 91/1991 og þá niðurstöðu að aðila máls sé heimilt að fara fram á skýrslutöku fyrir dómi á grundvelli ákvæðisins vegna meðferðar máls fyrir EFTA-dómstólnum, án þess að sá dómstóll hafi sjálfur óskað hennar, svo fremi að sönnunarfærslan teljist ekki bersýnilega tilgangslaus fyrir þá meðferð.
Í samræmi við niðurstöðu dóms Hæstaréttar 7. júní 2005 í máli nr. 212/2005 hefur verið óskað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á því hvort 11. gr. og 16. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið standi því í vegi að ríkisfyrirtæki, sem hafi einkaleyfi til smásölu á áfengi, krefjist þess af birgjum sínum, að þeir afhendi fyrirtækinu áfengi til smásölu á sérstakri gerð vörubretta (EUR-vörubrettum) og jafnframt að verð vörubrettis sé innifalið í vöruverði svo og hvort 59. gr. samningsins standi í vegi skilyrðum af þessu tagi. Spurningarnar voru settar fram í því augnamiði að fá álit EFTA-dómstólsins á því hvernig grein 4.9 í reglum nr. 351/2004 um innkaup og sölu áfengis og skilmálum í viðskiptum við birgja, samræmdist samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Reglur þessar og skilmálar eru sett af stjórn ÁTVR og hlutu staðfestingu fjármálaráðherra.
Af beiðni varnaraðila um hina umdeildu vitnaleiðslu má ráða að með henni hyggist hann sýna fram á að í einhverjum tilvikum hafi framangreindu ákvæði reglna nr. 351/2004 ekki verið framfylgt gagnvart einstökum birgjum í tiltekinni verslun ÁTVR. Ekki verður séð hvernig sönnunarfærsla um frávik frá reglunum í einstaka tilvikum getur haft þýðingu fyrir meðferð EFTA-dómstólsins á því erindi sem samkvæmt framansögðu hefur verið beint til hans. Skýrslur vitnanna varða atvik í tilteknum viðskiptum hér innanlands, sem ástæða kann að verða til að leiða í ljós við aðalmeðferð málsins, allt eftir því sem málsástæður aðila gefa tilefni til. Er hin umbeðna sönnunarfærsla bersýnilega þarflaus fyrir ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins um þau atriði, sem beint var til hans í samræmi við dóm Hæstaréttar 7. júní 2005. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.
Sóknaraðili hefur ekki krafist kærumálskostnaðar og verður hann því ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu varnaraðila, HOB víns ehf., um að teknar verði vitnaskýrslur af Alfreð Erni Almarssyni og Valbirni O. Þorsteinssyni með heimild í 2. mgr. 76. gr. laga nr. 91/1991.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. október 2005.
Með beiðni áritaðri um móttöku af héraðsdómara 5. október sl. óskar HOB vín ehf., Kaplahrauni 1, Hafnarfirði eftir því að Alfreð Örn Almarsson, verslunarstjóri vínbúðar ÁTVR á Akureyri, og Valbjörn O. Þorsteinsson, aðstoðarverslunarstjóri sömu vínbúðar, gefi skýrslu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur eða, eftir atvikum, Héraðsdómi Norðurlands Eystra vegna reksturs máls nr. E-4/05 fyrir EFTA-dómstólnum, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur 4. maí sl. sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 7. júní sl. í máli nr. 212/2005.
Ágreiningslaust er að Áfengis- og Tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR), Stuðlahálsi 2, Reykjavík, og fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, Arnarhváli, Reykjavík, beri að skoða sem varnaraðila í málinu.
Sóknaraðili rökstyður beiðni sína svo að framangreindir menn geti gefið upplýsingar um framkvæmd hjá vínbúð ÁTVR á Akureyri sem mismuni vörum eftir uppruna. Kunni þessi framgangsmáti að skipta verulegu máli vegna reksturs umrædds máls fyrir EFTA-dómstólsins.
Af hálfu stefnda hefur beiðni stefnanda verið mótmælt. Er vísað til þess í fyrsta lagi að frestur til framlagningar gagna vegna meðferðar umrædds máls hjá EFTA-dómstólnum hafi runnið út 13. september sl. Þá telja varnaraðilar að umrædd gagnaöflun hafi ekki þýðingu fyrir úrlausn EFTA-dómstólsins þar sem dómstólinn leysi ekki úr sönnunaratriðum og snúist beiðni um ráðgefandi álit ekki um sönnunarfærslu. Þá sé beiðnin svo seint fram komin að fyrirsjáanlegt sé að ekki takist að koma endurritum af skýrslutökum fyrir EFTA-dómstólinn áður en málið verður flutt 21. október nk. Einnig er vísað til þess að engin beiðni hafi borist frá EFTA-dómstólnum um skýrslutöku, en 2. mgr. 76. gr. laga nr. 91/1991 eigi við um þær aðstæður EFTA-dómstóllinn fari fram á að teknar séu skýrslur hér á landi.
Niðurstaða.
Eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar 7. júní sl. í máli nr. 212/2005 hefur verið leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins vegna meðferðar héraðsdómsmálsins nr. E 10670/2004. Hefur í fyrsta lagi verið beint spurningu til EFTA-dómstólsins um hvort 11. gr. og 16. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið standi því í vegi að ríkisfyrirtæki, sem hefur einkaleyfi til smásölu á áfengi, krefjist þess af birgjum sínum, að þeir afhendi fyrirtækinu áfengi til smásölu á sérstakri gerð vörubretta (EUR-vörubrettum) og jafnframt að verð vörubrettis sé innifalið í vöruverði. Í öðru lagi hefur þeirri spurningu verið beint til dómstólsins hvort 59. gr. samningsins standi í vegi skilyrðum af þessu tagi.
Samkvæmt 34. gr. EFTA-samnings um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls er EFTA-dómstóllinn til þess bær að láta uppi ráðgefandi um túlkun EES-samningsins, eftir nánari beiðni dómstóls EFTA-ríkis, sbr. 2. mgr. greinarinnar. Hefur íslenskum dómstólum verið veitt heimild til þess að afla ráðgefandi álits í samræmi við umrædd ákvæði EFTA-samningsins með lögum nr. 21/1994. Samkvæmt 2. mgr. 76. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 27. gr. laga nr. 133/1993, skal beita ákvæðum 75. gr. laga nr. 91/1991, eftir því sem getur átt, þegar gagna er aflað fyrir héraðsdómi hér á landi í tengslum við rekstur máls erlendis, þar á meðal fyrir EFTA-dómstólnum. Að mati dómara verður að skýra þetta ákvæði þannig að aðili geti óskað eftir því að skýrslutaka fari fram fyrir héraðsdómi í þágu meðferðar máls fyrir EFTA-dómstólnum að því marki sem ekki er bersýnilegt að skýrslutaka sé tilgangslaus fyrir meðferð máls fyrir EFTA-dómstólnum. Dómari telur að ekki ráði úrslitum í þessu sambandi þótt EFTA-dómstólinn hafi heimildir í 25. gr. bókunar 5 við samning um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls til að óska eftir vitnaleiðslum í því aðildarríki þar sem vitni hefur heimilisfesti, enda geta þessar reglur ekki haggað við heimildum sóknaraðila til gagnaöflunar samkvæmt íslenskum lögum. Verða athugasemdir við það frumvarp sem varð að lögum nr. 133/1993 því ekki taldar leiða til þess að skýra beri 2. mgr. 76. gr. laga nr. 91/1991 svo þröngt að heimildin sé bundin við þær aðstæður þegar EFTA-dómstólinn fer sjálfur fram á skýrslutöku fyrir innlendum dómstól.
Að mati dómara er ljóst að hlutverk EFTA-dómstólsins við ráðgefandi álit er að tjá sig um skýringu réttarreglna, nánar tiltekið reglna EES-samningsins. Í því héraðsdómsmáli, sem sóknaraðili hefur höfðað gegn varnaraðilum og fengið hefur málanúmerið E-10670/2005, fellur það þannig ótvírætt ekki undir hlutverk EFTA-dómstólsins heldur innlendra dómstóla að skera úr um hvort brotið hafi verið gegn reglum EES-samningsins. Þrátt fyrir þetta verður ekki hjá því litið að við túlkun almennra lagaákvæða er óhjákvæmilegt að hafa hliðsjón af afmörkuðu tilviki. Í samræmi við þetta er gert ráð fyrir í því í tilkynningu EFTA-dómstólsins nr. 1/99 að atvik máls séu eftir föngum upplýst þegar dómstóll EFTA-ríkis óskar eftir ráðgefandi áliti. Að þessu virtu er það niðurstaða dómara að beiðni sóknaraðila um skýrslutöku sé ekki bersýnilega tilgangslaus. Getur það ekki haggað þessari niðurstöðu þótt vafi kunni að vera um hvort sóknaraðila takist að koma umræddum gögnum fyrir EFTA-dómstólinn sökum fresta.
Samkvæmt framangreindu verður fallist á kröfu sóknaraðila um skýrslutöku með vísan til 2. mgr. 76. gr. laga nr. 91/1991.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Fallist er á beiðni sóknaraðila, HOB-vína ehf., um tveir nafngreindir menn gefi skýrslu fyrir héraðsdómi.