Hæstiréttur íslands
Mál nr. 138/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Föstudaginn 27. mars 2009. |
|
Nr. 138/2009. |
Samkeppniseftirlitið og íslenska ríkið (Heimir Örn Herbertsson hrl.) gegn Keri hf. (Kristinn Hallgrímsson hrl.) Olíuverslun Íslands hf. og(Gísli Baldur Garðarsson hrl.) Skeljungi hf. (Hörður F. Harðarson hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanna
Fallist var á beiðni K, O og S um að dómkvaddir yrðu menn til að meta nánar tilgreind atriði í máli þeirra á hendur SE og Í.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 16. mars 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2009, þar sem tekin var til greina beiðni varnaraðila um að dómkvaddir yrðu menn til að meta nánar tiltekið atriði í tengslum við mál þeirra á hendur sóknaraðilum. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að beiðni varnaraðila verði hafnað og þeim gert að greiða kærumálskostnað.
Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur og sóknaraðilum gert að greiða kærumálskostnað.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Samkeppniseftirlitið og íslenska ríkið, greiði varnaraðilum, Keri hf., Olíuverslun Íslands hf. og Skeljungi hf., hverjum um sig 120.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2009.
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 25. febrúar sl., er höfðað af Keri hf., Suðurlandsbraut 18, Reykjavík, Olíuverslun Íslands hf., Sundagörðum 2, Reykjavík og Skeljungi hf., Hólmaslóð 8, Reykjavík, á hendur Samkeppniseftirlitinu og íslenska ríkinu, með stefnum birtum 29. júní 2005, 28. júlí 2005 og 27. júlí 2005, en málin voru sameinuð í fyrirtöku 28. febrúar 2006.
Í þessum þætti málsins eru tekin fyrir mótmæli stefndu við því að dómkvaddir verði tveir hæfir og óvilhallir menn til að meta og gefa álit á eftirfarandi:
„Hver hefði ávinningur matsbeiðenda af meintu samráði verið ef við viðmiðun á tímabili samráðs hefði tímabilið 1996-2001 verið borið saman við tímabilið 2002-2004 miðað við útreikninga Samkeppnisráðs.“
Stefndu, þ.e. matsþolar, krefjast þess að dómari hafni þeirri kröfu að dómkvaddir verði tveir matsmenn til þess að svara spurningu þeirri sem stefnendur lögðu fram í matsbeiðni í þinghaldi hinn 21. janúar sl., sem liggur frammi í málinu sem dskj. nr. 90.
Stefnendur, þ.e. matsbeiðendur, krefjast þess að kröfu stefndu verði hafnað og að dómkvaddir verði tveir matsmenn til þeirra starfa er tilgreind eru í matsbeiðni á dskj. 90.
Upphaf máls þessa er að rekja til 18. desember 2001 er Samkeppnisstofnun (nú Samkeppniseftirlitið) hóf rannsókn á ætluðu ólögmætu samráði olíufélaganna Kers hf. (áður Olíufélagið hf.), Skeljungs hf. og Olíuverzlunar Íslands hf. Gerð var húsleit hjá öllum félögunum sama dag. Miðaðist rannsókn Samkeppnisstofnunar við að kanna hvort félögin hefðu haft með sér ólögmætt samráð og brotið þar með gegn 10. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993. Samkeppnisráð tók ákvörðun í málinu nr. 21/2004, 28. október 2004, þar sem matsbeiðendur voru fundnir sekir um samfellt brot gegn 10. gr. samkeppnislaga frá 1. mars 1993 til 18. desember 2001 og var þeim gerð sekt samtals að fjárhæð 2.585.000.000 kr.
Matsbeiðendur kærðu ákvörðun samkeppnisráðs með kæru, dags. 25. nóvember 2004 þar sem farið var fram á að ákvörðun samkeppnisráðs yrði felld úr gildi. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála komst að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum nr. 3/2004, dags. 29. janúar 1995 að brot matsbeiðanda skyldi staðfesta að mestu en sektir lækkaðar og námu samtals 1.505.000.000 kr.
Matbeiðendur vildu ekki una þessu og höfðuðu mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur nr. E-4965/2005 sem er nú rekið á milli matsbeiðenda og matsþola. Í málinu er þess krafist að ákvörðun áfrýjunarnefndar samkeppnisráðs verði felld úr gildi eða sektir lækkaðar verulega.
Mál þetta er mjög umfangsmikið og margar álitsgerðir hafa verið lagðar fram allt frá því að það byrjaði hjá samkeppnisyfirvöldum. Nefna má greinargerð hagfræðinganna dr. Jóns Þórs Sturlusonar og Tryggva Þórs Herbertssonar. Einnig álit dr. Guðmundar Guðmundssonar, sérfr. í tölfræði og Friðriks Más Baldurssonar, prófessors. Þá hafa endurskoðendur olíufélaganna lagt fram gögn og útreikninga. Einnig liggja fyrir matsgerðir dómkvaddra matsmanna, þeirra Guðmundar Magnússonar prófessors og Heimis Haraldssonar, lögg.end. Vegna þeirrar matsgerðar er yfirmatsgerð þeirra Guðrúnar Johnsen, hagfræðings, Gylfa Zoëga, hagfræðings og Þorsteins Haraldssonar lögg. end. Einnig undirmatsgerð Guðrúnar Johnsen, hagfræðings og Gylfa Zoëga, hagfræðings sem nú hefur verið krafist yfirmats á og dómkvaðning yfirmatsmanna hefur farið fram.
Matsþolar byggja á því að 3. mgr. 46. gr. eml. eigi við hér, því um þarflausa dómkvaðningu sé að ræða en matsþolar telja umhugsunarvert hvor mat dómkvaddra matsmanna geti breytt niðurstöðu stjórnvalda. Þá sé matsbeiðnin þarflaus í ljósi allra þeirra mata sem liggja fyrir í málinu. Einnig telja matsþolar augljóst að samanburður við tímabilið 2002-2004 sé ekki rökréttur með því að þá var samráði lokið og málið komið í rannsókn. Ekki sé tækt að í umfjöllun um gildi stjórnvaldsákvörðunar sé vísað til atvika er gerðust síðar.
Matsþolar vísa til reglna um hraða málsmeðferð og útilokunarreglu réttarfarsins. Þeir benda á að málið hafi nú þegar verið á fimmta ár hjá dómstólunum og þessum matsgerðum verði að linna. Þá telja þeir að sjónarmið um tímabilið 2002-2004 hafi verið í umræðunni hjá matsbeiðendum endur fyrir löngu, og þeir hafi haft næg tækifæri til að koma þeim að.
Matbeiðendur halda því fram að ávinningur þeirra af ætluðu samráði sé ekki sannaður og fyrir liggi matsgerð er styðji það. Vegna hennar hafi matsþolar óskað yfirmats og annarrar undirmatsgerðar, sbr. matsgerðir Guðrúnar Johnsen, Gylfa Zoëga og Þorsteins Haraldssonar. Framlagðar matgerðir gefi tilefni til þeirrar matsbeiðni er matsbeiðendur hafa nú uppi. Varðandi tímamarkið, þ.e. 2002-2004, þá hefur ekki verið tímabært að hafa þessa spurningu uppi fyrr en nú, þar sem matsgerð Guðmundar Magnússonar og Heimis Haraldssonar tilgreindi engan ávinning.
Matsbeiðendur halda því fram að skilyrðum 3. mgr. 46. gr. sé ekki fullnægt. Þetta sé ekki þarflaust mat. Engar hömlur sé að finna í lögunum varðandi málsforræðisregluna þannig að hafna ætti beiðni matsbeiðenda, enda er matið á þeirra áhættu og kostnað. Þá benda matsbeiðendur á að gagnaöflun hefur ekki verið lýst lokið í máli. Ekki sé hætta á að matsvinnan tefji málið, því þegar sé verið að vinna að yfirmatsgerð.
Í dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 145/2008 segir: „Varnaraðilar eiga samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 rétt á að afla í einkamáli þeirra sönnunargagna sem þeir telja málstað sínum til framdráttar. Er að meginreglu hvorki á valdi gagnaðila né dómstóla að takmarka þann rétt umfram það sem leiðir af ákvæði 3. mgr. sömu lagagreinar. Eina áskilnaðinn um form og efni matsbeiðna er að finna í 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991, sbr. þó 64. gr. sömu laga, en samkvæmt fyrrnefnda ákvæðinu skal í matsbeiðni koma skýrlega fram hvað eigi að meta, hvar það sé sem meta á og hvað aðili hyggst sanna með matinu. Ekki eru reistar sérstakar skorður við því að beðið sé um mat á atriðum sem áður hafa verið metin en hafa ekki endanlega verið leidd til lykta fyrir dómi. Enn síður er fyrir það girt að aflað sé nýrrar matsgerðar til viðbótar eldri matsgerð. Þá þykir 3. mgr. 46. gr. sömu laga ekki standa dómkvaðningu í vegi enda ekki bersýnilegt að matsgerð samkvæmt beiðninni komi ekki til með að skipta máli eða verði tilgangslaus, en varnaraðilar bera áhættuna af notagildi matsgerðar til sönnunar í málinu og kostnað af öflun hennar.“ Á þessi tilvitnun við í máli þessu. Dómurinn telur ekki bersýnilegt að hin nýja matsgerð skipti ekki máli fyrir niðurstöðu málsins eða sé tilgangslaus. Þótt dómurinn taki undir það að mál þetta sé orðið gamalt, en það var þingfest á árinu 2005, þá telur dómurinn að heimild skorti til að hafna dómkvaðningu á þeirri forsendu að meginreglan um hraða málsmeðferð og útilokunarreglan hafi ekki verið virtar.
Með vísan til þess sem að framan greinir eru ekki efni til að hafna því að hin umbeðna dómkvaðning fari fram.
Af hálfu matsbeiðenda flutti málið Hörður Felix Harðarson hrl.
Af hálfu matsþola flutti málið Heimir Örn Herbertsson hrl.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Umbeðin dómkvaðning skal fara fram.