Hæstiréttur íslands
Mál nr. 107/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Fjarnám
- Lífeyrissjóður
|
|
Mánudaginn 21. mars 2005. |
|
Nr. 107/2005. |
Mýflug hf. (Logi Guðbrandsson hrl.) gegn Eftirlaunasjóði atvinnuflugmanna (Atli Gíslason hrl.) |
Kærumál. Fjarnám. Lífeyrissjóður.
M krafðist ógildingar aðfarargerða sem E hafði látið gera hjá honum vegna vangreiddra lífeyrissjóðsiðgjalda. Var deilt um hvort M bæri sem atvinnurekanda að inna af hendi 16% mótframlag til E gegn 4% framlagi launþega, líkt og kveðið hafði verið um í kjarasamningi sem gilt hafði til 30. apríl 2000, eða einungis 6% mótframlag, líkt og sagði í þeim ráðningarsamningum sem gerðir voru eftir það tímamark og voru til skoðunar í málinu. Var talið að samkvæmt skýrum fyrirmælum laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, hefðu aðilar með ráðningarsamningunum skuldbundið sig til þess að fara að reglu E um lágmarkslífeyrisgreiðslur og væru þeir þegar af þeirri ástæðu bundnir af samþykktum E. Var því hafnað kröfu M um ógildingu aðfarargerðanna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. mars 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 18. febrúar 2005, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrðu úr gildi tvö fjárnám, sem sýslumaðurinn á Húsavík gerði hjá honum 24. mars 2004 fyrir kröfum varnaraðila að höfuðstól samtals 555.246 krónur. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að framangreind fjárnám verði felld úr gildi og sér dæmdur málskostnaður í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af kærumáli þessu.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands 18. febrúar 2005.
Mál þetta, sem upphaflega var tekið til úrskurðar 16. nóvember s.l. og endurflutt 26. f.m., er til komið vegna kröfu sóknaraðila Mýflugs hf., kt. 630785-0579, Reykjahlíðarflugvelli, Reykjahlíð, sem með kröfu 18. maí 2004 og þingfestri 3. júní sama ár, krefst þess að tvær fjárnámsgerðir varnaraðilja, Eftirlaunasjóðs FÍA., kt. 650376-0809, Laugavegi 77, Reykjavík, sem sýslumaðurinn á Húsavík framkvæmdi hjá sóknaraðilja 24. mars 2004 verði ógiltar með dómi.
Er önnur aðfarargerðin auðkennd nr. 025-2003-00274, fyrir kröfu að fjárhæð kr. 577.847 og hin nr. 025-2004-00183, að fjárhæð kr. 188.026, en fjárnám var gert fyrir báðum kröfunum í TF-MYY flugvél Cessna C-206. Þá krefst sóknaraðilji málskostnaðar úr hendi varnaraðilja að mati dómsins.
Varnaraðilji krefst þess að kröfu sóknaraðilja verði hafnað og staðfestar verði hinar kærðu aðfarargerðir sýslumannsins á Húsavík, auk þess er þess krafist að sóknaraðilji verði dæmdur til að greiða varnaraðilja málskostnað, auk virðisaukaskatts að mati dómsins.
Af hálfu sóknaraðilja flutti málið Berglind Svavarsdóttir hdl. og af hálfu varnaraðilja Karl Ó. Karlsson hdl.
Ekki er tölulegur ágreiningur með aðiljum vegna máls þessa.
Sóknaraðilji rekur málavexti og málsástæður og lagaheimildir svo að kröfur varnaraðilja byggi á meintum ógreiddum lífeyrissjóðsiðgjöldum til hans vegna áranna 2001 og 2002 og varnaraðili byggi rétt sinn með ólögmætum hætti með tilvísun til 11. tl. 1. gr. laga nr. 29, 1885, sbr. 10. tl. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga nr. 90, 1989, svo og 2. og 6. gr. laga nr. 55, 1980.
Samkvæmt kjarasamningi dagsettum 19. apríl 1999 á milli Félags íslenskra atvinnuflugmanna - FÍA - og sóknaraðilja hafi verið ákvæði þess efnis í gr. 9-1 að flugmenn skyldu greiða 4% af föstum launum samkvæmt samningnum í eftirlaunasjóð að eigin vali, en sóknaraðilji skyldi greiða 16% mótframlag í viðkomandi sjóð. Hafi samningur þessi gilt til 30. apríl 2000, en hafi þá fallið úr gildi án sérstakrar uppsagnar. Ekki hafi verið gerður nýr kjarasamningur milli þessara aðilja síðan og sóknaraðilji ekki bundinn af neinum kjarasamningi. Ráðningabundin starfskjör starfsmanna sóknaraðilja byggja því ekki á kjarasamningi heldur skriflegum ráðningarsamningi við hvern og einn þar sem að tiltekið 6% mótframlag, en ekki 16% eins og áður hafði verið. Þau starfskjör fullnægi skilyrðum 2. gr. laga nr. 129, 1997 og almennra kjarasamninga aðildarsamtaka vinnumarkaðarins.
Sóknaraðilji hafnar því alfarið að skilyrði séu til þess að gera fjárnám hjá honum vegna órökstuddrar kröfu varnaraðilja um 16% mótframlag og hafi sýslumanni því borið að synja um aðför.
Alla lagaheimild skorti til þess að verða við kröfum varnaraðilja er varða mótframlag umfram 6% lífeyrissjóðsiðgjald, en lögtaksréttur, sbr. 11. tl. 1. gr. laga nr. 29, 1885 nái ekki til aukinna réttinda, umfram umsamin gjöld. Þá hafi sóknaraðilji staðið full skil á lífeyrisiðgjöldum til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda.
Samþykktir varnaraðilja sem kveði á um 16% lífeyrissjóðsiðgjald flugrekanda sé ekki á nokkurn hátt skuldbindandi fyrir sóknaraðilja, þar sem enginn kjarasamningur sé í gildi milli sóknaraðilja og FÍA.
Varnaraðilji rekur málavexti, málsástæður og lagarök svo, að mál þetta snúist um aðfarargerðir sem séu samkynja og varði ágreining um skyldu sóknaraðilja til greiðslu lífeyrisréttinda vegna 5 starfsmanna, sem störfuðu hjá sóknaraðilja á árunum 2001 og 2002, en tilgangur sóknaraðilja sé rekstur flugfélags og önnur skyld starfsemi.
Sóknaraðilja beri sem atvinnurekanda skylda til þess að senda skilagreinar til lífeyrissjóðs ásamt því að standa skil á greiðslum iðgjalda. Iðgjaldagreiðslutímabil sé mánuður og gjalddagi iðgjalda til lífeyrissjóðs 10. næsta mánaðar á eftir. Sóknaraðili hafi hvorki greitt iðgjöld á réttum tíma né staðið skil á skilagreinum vegna starfsmanna sinna fyrir þau tímabil sem mál þetta varði.
Krafan að baki aðfararmáli nr. 025-2003-00274 varði iðgjöld þriggja starfsmanna sóknaraðilja á árinu 2001, þeirra Sigurðar Jónssonar, Ingimars Sigurðssonar og Garðars Sigurvaldasonar. Krafan sé afleiðing lögboðins eftirlits embættis ríkisskattstjóra skv. 6. gr. laga nr. 129, 1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, en krafan að baki aðfararmáli nr. 025-2004-00183 varði iðgjöld þriggja starfsmanna sóknaraðilja á árinu 2002, þeirra Vals Gunnarssonar, Garðars Sigurvaldasonar og Victors Björgvins Victorssonar.
Sé krafan tilkomin vegna kvörtunar eins starfsmanns til varnaraðilja þess efnis að sóknaraðilji hafi ekki staðið skil á iðgjöldum.
Þar sem sóknaraðilji hafi ekki sinnt áskorun um að skila skilagreinum hafi varnaraðilji útbúið af þeim sökum skilagreinar á grundvelli framkominna launaseðla starfsmannanna. Ágreiningurinn varði þá megin spurningu hvort sóknaraðilja beri sem atvinnurekanda að inna af hendi 16% mótframlag til varnaraðilja gegn 4% framlagi flugmanns eða hvort sóknaraðilja beri einungis skylda til að inna af hendi 6% mótframlag til varnaraðilja gegn 4% framlagi flugmanns.
Af hálfu varnaraðilja er á því byggt að sóknaraðilja beri skylda að inna af hendi iðgjöld til varnaraðilja sem nemi 20% af launum flugmanna, þ.e.a.s. 4% hluta flugmanns og 16% sem mótframlag atvinnurekanda. Á þeirri kröfu grundvallast útreikningur varnaraðilja á kröfunni.
Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 129, 1997 sé kveðið á um að iðgjald til öflunar lífeyrisréttinda skuli ákveða í sérlögum, kjarasamningi, ráðningarsamningi eða með öðrum sambærilegum hætti, en lágmarksiðgjald til lífeyrisssjóðs skuli vera a.m.k. 10% af iðgjaldsstofni.
Í 2. mgr. 2. gr. sömu laga komi fram að um aðild að lífeyrissjóði, greiðslu lífeyrisiðgjalds og skiptingu iðgjaldsins milli launamanns og launagreiðanda fari eftir þeim kjarasamningi sem ákvarði lágmarkskjör í hluteigandi starfsgrein eða sérlögum ef við eigi.
Taki kjarasamningur ekki til viðkomandi starfssviðs eða ráðningarbundin starfskjör ekki byggð á kjarasamningi velji viðkomandi sér lífeyrissjóð eftir því sem reglur einstakra sjóða leyfa, en aðild að lífeyrissjóði skuli tilgreina í skriflegum ráðningarsamningi.
Sóknaraðilji og Félag íslenskra atvinnuflugmanna -FÍA - hafi undirritað kjarasamning 19. apríl 1999, sem gilti til 30. apríl 2000. Í grein 9-1 í þeim samningi hafi kveðið á um að flugmenn skyldu greiða 4% af föstum launum í eftirlaunasjóð og sóknaraðilji inna af hendi 16% mótframlag í viðkomandi lífeyrissjóð.
Sú venjuhelgaða regla gildi í vinnurétti um kjarasamninga sem sagt hafi verið upp eða séu útrunnir, að um réttindi og skyldur samningsaðila fari í öllum meginatriðum eftir gamla samningnum meðan enn sé ósamið og verkfall ekki skollið á. Sé þessi venjuhelgaða regla staðfest í dómum Félagsdóms og er á því byggt að aðiljar málsins séu bundnir af ákvæðum kjarasamnings, þ.m.t. ákvæði hans um greiðslu 20% iðgjalds í lífeyrissjóð og við því verði ekki hróflað nema með gerð nýs kjarasamnings. Einnig beri til þess að líta að FÍA hafi gert kjarasamninga við aðra flugrekendur á Íslandi, svo sem Flugleiðir hf., Flugfélag Íslands hf., Íslandsflug hf., Bláfugl hf., Geirflug hf. og Flugskóla Íslands hf. um kjör flugmanna á Íslandi og í öllum þessum samningum hafi verið samið um að mótframlag atvinnurekanda sé 16% eða 18% og verði að telja að kjarasamningar FÍA við sóknaraðilja og aðra flugrekendur á Íslandi „ákvarði lágmarkskjör í hluteigandi starfsgrein“, þ.e.a.s. starfsgrein flugmanna eins og segi í 1. ml., 2. mgr. 2. gr. laga nr. 129, 1997. Samkvæmt þeim samningum beri atvinnurekanda að greiða 20 eða 22% iðgjald í lífeyrissjóð af launum flugmanna.
Byggt er á því að ákvæði laga nr. 129, 1997, ofannefndum kjarasamningum, ráðningarsamningum starfsmanna og samþykktum varnaraðilja frá 2. nóvember 2000 sem staðfestar hafa verið af fjármálaráðherra 16. s.m., leiði að sóknaraðilja beri að standa skil á iðgjöldum til varnaraðilja og skuli iðgjöld nema 20% af launum flugmanna.
Samkvæmt grein 2.2. í samþykktum varnaraðilja þá starfi lífeyrissjóðurinn samkvæmt ákvæðum laga nr. 127, 1997 og kjarasamningum FÍA og tryggi sjóðurinn þau lágmarksréttindi sem þar greinir. Samkvæmt grein 9.1 í samþykktum varnaraðilja skuli iðgjöld til sjóðsins nema a.m.k. 20% af launum sjóðsfélaga samkvæmt nánari tilgreiningu. Starfandi flugmenn greiði 4% en flugfélag það sem flugmaður starfar hjá greiðir 16% af sömu fjárhæð. Sé sérstaklega tekið fram að iðgjald til lágmarkstryggingarverndar sé 20%.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 55, 1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda skulu laun og önnur starfskjör sem aðiljasamtök vinnumarkaðarins semji um vera lágmarkskjör fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því sem samningurinn tekur til. Samningur einstakra launamanna og atvinnurekanda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar kveði á um skulu vera ógildir. Ákvæði í ráðningarsamningum aðilja um lægri iðgjaldagreiðslur af hálfu atvinnurekanda en 20% séu undir samningsbundnum lágmarkskjörum og því ógild. Samningsákvæði um lægri iðgjaldagreiðslur en 20% fari einnig gegn ákvæðum samþykkta varnaraðilja og sé af þeirri ástæðu einnig ógilt. Þar fyrir utan hafi sóknaraðilji samþykkt í ráðningarsamningum að greiða skuli iðgjöld til varnaraðilja og sé sóknaraðilji þegar af þeirri ástæðu bundinn greiðslu iðgjalds sem nemi lágmarks tryggingarvernd, þ.e.a.s. 20%.
Þeirri málsástæðu sóknaraðilja að varnaraðilja skorti lögtaksheimild er mótmælt sem rangri og tilhæfulausri svo og því að sóknaraðili hafi staðið í skilum með því að greiða í Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda.
Álit dómsins:
Sóknaraðili hefur lagt fram ráðningarsamning, dagsettan 30.4.2001, við Sigurð B. Jónsson yfir ráðningartímabilið 1.5. til 1. október 2001 þar sem fram kemur að laun séu samkvæmt samkomulagi, lífeyrissjóður FÍA og starfsmaður greiðir 4% og vinnuveitandi 6%. Samningur sama efnis var gerður við Garðar Sigurvaldason 1.6.2001, sem gilti frá þeim degi til 31.12.2001 og við Ingimar Sigurðsson 1.10.2001 sem gilti frá þeim degi til 1.5.2002. Er í öllum tilfellum um að ræða flugmenn og lífeyrissjóður tilgreindur sem varnaraðili. Ráðningarsamningar vegna annarra þeirra sem lögtökin varða hafa ekki verið lagðir fram.
Ekki er deilt um það í málinu að iðgjaldagreiðslur skuli renna til varnaraðila, en ágreiningurinn snýst um framlag sóknaraðila.
Til þess ber að líta að þegar sóknaraðili og ofannefndir flugmenn hafa valið varnaraðila sem lífeyrissjóð, að 2. ml. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 129, 1997 mælir svo fyrir að taki kjarasamningur ekki til viðkomandi starfssviðs eða séu ráðningarbundin starfskjör ekki byggð á kjarasamningi þá velji viðkomandi sér lífeyrissjóð eftir því sem reglur einstakra sjóða leyfa og að aðild að lífeyrissjóði skuli tiltaka í skriflegum ráðningarsamningi.
Samkvæmt þessum skýru lagafyrirmælum telur dómurinn að með ráðningar-samningum þessum hafi aðilar skuldbundið sig til þess að fara að reglum varnaraðila um lágmarkslífeyrisgreiðslur og séu þegar af þeirri ástæðu bundnir af samþykktum varnaraðila, sem staðfestar hafa verið af Fjármálaráðuneyti og gildi tóku áður en ráðningarsamningar þessir voru gerðir.
Af þeim sökum telur dómurinn að lögtaksheimild hafi verið fyrir kröfum varnaraðila með vísan til 11. tl. 1. gr. laga nr. 29, 1885 og er því kröfu sóknaraðila um að fjárnám varnaraðila verði úr gildi fellt hafnað.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Úrskurð þennan kvað upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson héraðsdómari, en uppkvaðning hans hefur dregist vegna veikindaforfalla dómara.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Mýflugs h.f., um að felldar verði úr gildi fjárnámsgerðir nr. 025-2003-00274 fyrir kröfu að fjárhæð kr. 577.847 og nr. 025-2004-00183 að fjárhæð kr. 188.026, er sýslumaðurinn á Húsavík gerði fjárnám í TF-MYY flugvél Cessna C-206 þann 24. mars 2004 að kröfu varnaraðila, Eftirlaunasjóðs FÍA.
Málskostnaður fellur niður.