Hæstiréttur íslands
Mál nr. 450/2008
Lykilorð
- Lögbann
- Kröfugerð
|
|
Fimmtudaginn 29. október 2009. |
|
Nr. 450/2008. |
Sigurbjörg Aðalsteinsdóttir(Sveinn Guðmundsson hrl.) gegn Elísabetu H. Guðmundsdóttur (Lára V. Júlíusdóttir hrl.) |
Lögbann. Kærugerð.
S keypti árið 1988 ásamt fyrrverandi eiginmanni sínum sumarbústaðarlóð í landi jarðarinnar H af P. Kaupsamningi aðila var ekki þinglýst, en eigendaskipti voru tilkynnt Fasteignamati ríkisins. P sem var áfram þinglýstur eigandi lóðarinnar gaf út til N afsal fyrir henni sem var afhent til þinglýsingar 27. júlí 2007. N seldi síðan E lóðina og var afsal þess efnis afhent til þinglýsingar 2. ágúst 2007. Sýslumaðurinn á Selfossi varð 8. október 2007 við kröfu S um að lögbann yrði lagt við framkvæmdum E á lóðinni. Fyrir Hæstarétti krafðist S þess að lögbann þetta yrði staðfest þar til dómsmál hennar og P yrði til lykta leitt, en héraðsdómur hafði sýknað E af þeirri kröfu. Með dómi Hæstaréttar 29. október 2009 í máli nr. 333/2008 voru P, N og E sýknuð af kröfu S um viðurkenningu á eignarrétti hennar að hinni umdeildu lóð. Talið var að S hefði ekki borið fram nein sjálfstæð rök fyrir því að efni gæti verið til að staðfesta lögbannið óháð þeirri niðurstöðu sem fengist í hæstaréttarmálinu nr. 333/2008. Var E samkvæmt því sýknuð af kröfu S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. ágúst 2008. Hún krefst þess að staðfest verði lögbann, sem sýslumaðurinn á Selfossi lagði 8. október 2007 að kröfu hennar við „frekari framkvæmdum á lóð nr. 93 í landi Hests í Grímsness- og Grafningshreppi, landnr. 168599, þar til dómsmál gerðarbeiðanda og Páls Skúlasonar er til lykta leitt.“ Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt gögnum málsins keyptu áfrýjandi og þáverandi eiginmaður hennar sumarbústaðarlóð úr landi jarðarinnar Hests, sem auðkennd var nr. 93, af Páli Skúlasyni með kaupsamningi 5. ágúst 1988. Samningnum var framvísað við Fasteignamat ríkisins 28. október 1988 og kaupendurnir skráðir þar eigendur lóðarinnar, en honum var á hinn bóginn ekki þinglýst. Þá er óumdeilt að afsal hafi ekki verið gefið út fyrir lóðinni. Með samningi, sem gerður var vegna hjónaskilnaðar kaupendanna 7. október 1998, kom lóðin í hlut áfrýjanda og var það tilkynnt Fasteignamati ríkisins 14. desember 2000. Ekki mun hafa verið reist hús á lóðinni, en áfrýjandi kveðst hafa greitt fasteignagjöld af henni allt til ársins 2006. Á árinu 2007 hafi hún hins vegar ekki fengið kröfu um fasteignagjöld og hafi athugun leitt í ljós að skráningu hjá fasteignamatinu hefði verið breytt á þann veg að Páll Skúlason væri eigandi lóðarinnar. Áfrýjandi höfðaði 22. júní 2007 mál á hendur Páli, sem hafði allan tímann sem hér um ræðir verið þinglýstur eigandi lóðarinnar, og krafðist viðurkenningar á eignarrétti sínum að henni, en það mál var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 28. sama mánaðar og tók Páll þar til varna. Fyrir liggur að Páll gaf út afsal fyrir lóðinni til Núll sjö ehf., sem dagsett var 21. maí 2007 og þinglýst 30. júlí sama ár, en það félag gaf út afsal fyrir lóðinni til stefndu 1. ágúst 2007, sem þinglýst var 3. sama mánaðar. Í framhaldi af því mun áfrýjandi hafa orðið þess vör að fyrirhugaðar væru framkvæmdir á lóðinni og beindi hún áskorun til stefndu 11. ágúst 2007 um að láta af þeim. Því hafnaði stefnda 22. sama mánaðar. Áfrýjandi höfðaði síðan sakaukasök á hendur Núll sjö ehf. og stefndu og krafðist þess að þeim yrði ásamt Páli Skúlasyni gert að þola dóm um viðurkenningu á eignarrétti áfrýjanda að lóðinni. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 1. apríl 2008 voru allir gagnaðilar áfrýjanda í því máli sýknuð af kröfu hennar.
Áfrýjandi krafðist þess 27. september 2007 að sýslumaðurinn á Selfossi legði lögbann við framkvæmdum stefndu á fyrrnefndri lóð og tók sýslumaður þá kröfu til greina 8. október sama ár. Mál þetta var síðan höfðað 15. sama mánaðar og þingfest fyrir Héraðsdómi Suðurlands 21. nóvember sama ár, en samkvæmt héraðsdómsstefnu krafðist áfrýjandi þess að „úrskurði sýslumannsins á Selfossi, uppkveðinn þann 8. október, 2007 verði staðfestur, þá þannig að lögbann verði sett á allar framkvæmdir á lóð nr. 93, landnúmer 168599 í landi Hests í Grímsness- og Grafningshreppi, þar til dómsmál sem er rekið til viðurkenningar á eignarrétti gerðarbeiðanda milli gerðarbeiðanda og Páls Skúlasonar, skv. kaupsamningi dags. 5. ágúst, 1988 er til lykta leitt.“ Samkvæmt dómsorði hins áfrýjaða dóms var þar „fallist ... á þá kröfu stefndu ... að lögbann það sem lagt var á framkvæmdir á lóð nr. 93, landnúmer 168599 af sýslumanninum á Selfossi þann 8. október 2007, sé niður fallið“ og áfrýjanda jafnframt gert að greiða stefndu „100.000 krónur í skaðabætur.“ Eftir málatilbúnaði aðilanna verður að líta svo á að mál þetta hafi verið höfðað til staðfestingar á lögbanninu, sem sýslumaður lagði umræddan dag við framkvæmdum stefndu á lóðinni, svo og að héraðsdómur hafi sýknað stefndu af þeirri kröfu.
Með dómi Hæstaréttar 29. október 2009 í máli nr. 333/2008 er staðfestur áðurnefndur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. apríl 2008, þar sem Páll Skúlason, Núll sjö ehf. og stefnda í þessu máli voru sýknuð af kröfu áfrýjanda um viðurkenningu á eignarrétti hennar að hinni umdeildu lóð. Í málinu, sem hér er til úrlausnar, hefur áfrýjandi ekki borið fram nein sjálfstæð rök fyrir því að efni geti verið til að staðfesta lögbannið, sem sýslumaður lagði á 8. október 2007, óháð þeirri niðurstöðu, sem fengist í hæstaréttarmálinu nr. 333/2008. Samkvæmt því verður stefnda sýknuð af kröfu áfrýjanda.
Í greinargerð stefndu fyrir héraðsdómi var þess meðal annars krafist að áfrýjanda yrði gert að greiða henni 320.854 krónur með nánar tilgreindum vöxtum í skaðabætur vegna tjóns, sem lögbannið frá 8. október 2007 hafi leitt til, og var áfrýjanda af þessu tilefni gert í héraðsdómi að greiða stefndu 100.000 krónur, en til vaxtakröfu stefndu var þar ekki tekin afstaða. Kröfu þessa gat stefnda ekki haft uppi í málinu án þess að höfða um hana gagnsök, sbr. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þegar af þessari ástæðu verður efnisdómur ekki felldur á þessa kröfu.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Stefnda, Elísabet H. Guðmundsdóttir, er sýkn af kröfu áfrýjanda, Sigurbjargar Aðalsteinsdóttur.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 29. júlí 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var 3. júní sl., er höfðað með stefnu birtri 15. október sl.
Stefnandi er Sigurbjörg Aðalsteinsdóttir, kt. 090247-2639, Bræðraborgarstíg 13, Reykjavík.
Stefnda er Elísabet H. Guðmundsdóttir, kt. 170561-55469, Ekrusmára 7, Kópavogi.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að úrskurður sýslumannsins á Selfossi, uppkveðinn 8. október 2007 verði staðfestur, þá þannig að lögbann verði sett á allar framkvæmdir á lóð nr. 93, landnúmer 168599 í landi Hests í Grímsness- og Grafningshreppi, þar til dómsmál sem er rekið til viðurkenningar á eignarrétti gerðarbeiðanda milli gerðarbeiðanda og Páls Skúlasonar, skv. kaupsamningi dags. 5. ágúst 1988, er til lykta leitt í Hæstarétti. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Endanlegar dómkröfur stefndu eru þær aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi. Til vara er þess krafist að staðfest verði að lögbann það sem lagt var á framkvæmdir á lóð nr. 93, landnúmer 168599 af sýslumanninum á Selfossi þann 8. október 2007, sé niður fallið. Til þrautavara er þess krafist að framangreindu lögbanni verði aflétt. Þá er krafist sýknu af málskostnaðarkröfu stefnanda. Þá krefst stefnda skaðabóta úr hendi stefnanda að fjárhæð 177.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2007 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt reikningi.
Málavextir.
Málavextir eru þeir að með kaupsamningi dagsettum 5. ágúst 1988 keypti stefnandi og þáverandi eiginmaður hennar, Haukur Haraldsson, lóð nr. 93 í landi Hests í Grímsness- og Grafningshreppi af Páli Skúlasyni héraðsdómslögmanni. Við skilnað stefnanda og Hauks munu þau hafa samið svo um að lóðin kæmi í hlut stefnanda. Stefnandi mun hafa tilkynnt Fasteignamati ríkisins um eignabreytinguna og þar hefur skráningu lóðarinnar verið háttað þannig að stefnandi og eiginmaður hennar voru skráðir eigendur frá 9. maí 1989 en stefnandi ein frá árinu 2000. Kaupsamningi um lóðina var ekki þinglýst og frá 19. maí 2006 er Páll Skúlason skráður eigandi eignarinnar samkvæmt skráningu sýslumannsins á Selfossi um þinglýstan eiganda eignarinnar skv. skjali dags. 19. júní 1987. Stefnandi kveðst hafa greitt fasteignagjöld af lóðinni frá því hún eignaðist hana og ennfremur hafi hún greitt félagsgjöld til sumarhúsafélags á svæðinu í um 20 ár. Hún hafi ræktað lóðina, gróðursett plöntur og girt landið af. Þegar henni hafi ekki borist rukkun fyrir fasteignagjöldum árið 2007 hafi hún fengið þær upplýsingar að hún væri ekki lengur skráður eigandi eignarinnar hjá FMR. Hafi komið í ljós að Páll Skúlason væri orðinn skráður eigandi lóðarinnar og hafi orðið fátt um skýringar af hans hálfu. Hafi komið í ljós að Páll hafi selt lóðina til Núll sjö ehf. sem aftur hafi selt lóðina til stefndu með afsali dagsettu 1. ágúst 2007. Sé stefnda nú þinglýstur eigandi lóðarinnar. Stefnda hafi hafið framkvæmdir á lóðinni og með símskeyti 11. ágúst 2007 hafi þess verið krafist að stefnda léti af öllum framkvæmdum á lóðinni. Stefnda hafi ekki talið sér skylt að verða við þeirri beiðni, sbr. símskeyti dagsett 22. ágúst sama ár og hafi stefnandi því beðið um lögbann til að koma í veg fyrir frekara tjón og jarðrask í lóðinni vegna framkvæmda á vegum stefndu. Lögbann var sett á framkvæmdir á lóðinni 19. september sama ár en þar sem réttarstefna var ekki gefin út féll lögbannið sjálfkrafa úr gildi. Lögbann hafi verið sett á ný á framkvæmdir á lóðinni 8. október sl. og er mál þetta höfðað til staðfestingar á því lögbanni. Stefnda kveðst hafa orðið fyrir fjárhagstjóni vegna lögbannsins og gerir kröfu á hendur stefndu af þeim sökum.
Stefnandi höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu birtri 22. júní 2007 og sakaukastefnu útgefinni 9. október sama ár á hendur stefndu, Páli Skúlasyni og Núll sjö ehf. Gerði stefnandi þá kröfu að viðurkenndur yrði eignarréttur hennar að umræddri lóð. Með dómi uppkveðnum 1. apríl sl. voru stefndu sýknuð af öllum kröfum stefnanda og henni gert að greiða stefndu Elísabetu 250.000 krónur í málskostnað.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir rétt sinn á lögbannsgerðinni sem réttmætur eigandi lóðarinnar samkvæmt kaupsamningi frá 5. ágúst 1988. Breyti engu þótt stefnda hafi þinglýst afsal úr hendi félags sem leiði rétt sinn frá Páli Skúlasyni. Vísar stefnandi til þeirrar niðurstöðu sem fram komi í úrskurði sýslumanns að hún hafi ríkan brigðarétt, sbr. meginreglur 14. kapitula Jónsbókar og geti stefnda ekki haft ríkari heimildir en sá sem afsali henni lóðinni, enda hafi lögmaður sá sem gengið hafi frá því máli þekkt allar aðstæður stefnanda. Hafi hún verið skráður eigandi lóðarinnar í nær 20 ár samkvæmt opinberum gögnum og greitt fasteignagjöld af lóðinni til sama tíma.
Stefnandi styður málskostnaðarkröfu við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991
Málsástæður og lagarök stefndu.
Stefnda byggir aðalkröfu sína um frávísun málsins á því að hliðsettur dómstóll hafi þegar leyst úr ágreiningi aðila með dómi uppkveðnum 1. apríl sl. Leiði res judicata áhrif til þess að niðurstöðu dómsins verði ekki haggað í þessu máli.
Varakrafa stefndu er á því byggð að lögbannið sé niður fallið með framangreindum dómi. Hafi lögbannið verið lagt við frekari framkvæmdum þar til dómsmál gerðarbeiðanda og Páls Skúlasonar sé til lykta leitt. Með framangreindum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hafi verið leyst úr ágreiningi aðila og hafi engin gögn verið lögð fram um að því máli hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar. Þar sem dómsmálið hafi verið til lykta leitt sé lögbannið niður fallið.
Þrautavarakrafan er á því byggð að ekki séu lagaforsendur til að staðfesta lögbannið. Stefnda sé réttur eigandi lóðarinnar samkvæmt þinglýstu afsali. Hafi hún verið í góðri trú um eignarréttindi seljanda lóðarinnar og í fullum rétti að standa fyrir framkvæmdum á lóðinni. Þar sem stefnandi hafi ekki þinglýst réttindum sínum yfir fasteigninni í framhaldi af kaupum hennar á landinu árið 1988, haldi réttindin ekki gagnvart stefndu. Stefnda vísar til 1. mgr. 29. gr. þinglýsingarlaga þar sem fram komi að réttindum yfir fasteign skuli þinglýsa til þess að þau haldi gildi sínu gegn þeim sem reisa rétt sinn á samningum um eignina og gegn skuldheimtumönnum eiganda eða annars rétthafa að eign.
Stefnda byggir á því að stefnandi beri ábyrgð á því tjóni sem af lögbanninu hafi hlotist, enda brjóti það í bága við þinglesinn rétt stefndu til lóðarinnar. Með vísan til 42. gr. laga nr. 31/1990 sundurliðist bæturnar þannig að kostnaður vegna flutnings vinnuvéla sé 100.000 krónur, vinnutap 20.000 krónur, ferðakostnaður 7.000 krónur og miski 50.000 krónur. Stefnda byggir dráttarvaxtakröfu á 9. gr. vaxtalaga og málskostnaðarkrafa er reist á 91. gr., sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða.
Mál þetta er höfðað til staðfestingar á lögbanni sem lagt var á allar framkvæmdir á lóð nr. 93 í landi Hests í Grímsnes- og Grafningshreppi 8. október sl., sbr. VI. kafla laga nr. 3/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Var lögbanninu ætlað að standa þar til dómsmál stefnanda og Páls Skúlasonar væri til lykta leitt. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 1. apríl sl. var leyst úr ágreiningi aðila um eignarrétt að lóðinni og var kröfum stefnanda þar að lútandi hafnað. Þeirri niðurstöðu verður ekki haggað hér fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Hins vegar liggur fyrir dóminum í þessu máli að leysa úr því hvort lögbannið skuli staðfest eða það fellt úr gildi, en ekki var leyst úr því álitamáli í framangreindu dómsmáli. Verður máli þessu því ekki vísað frá dómi.
Eins og rakið hefur verið var umræddu lögbanni ætlað að standa þar til ágreiningur aðila um eignarhald að lóðinni hefði verið til lykta leiddur. Með framangreindum dómi var leyst úr þessu ágreiningsefni og var niðurstaðan sú að kröfum stefnanda var hafnað. Stefnandi hefur krafist þess að lögbannið standi þar til málið hefur verið til lykta leitt í Hæstarétti. Ekkert liggur fyrir í máli þessu um að framangreindum dómi hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar. Verður því ekki hjá því komist að fallast á þá málsástæðu stefndu að lögbannið hafi fallið úr gildi með framangreindum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.
Stefnda hefur krafist greiðslu skaðabóta vegna tjóns sem hún telur að hún hafi orðið fyrir af völdum lögbannsins með vísan til ákvæða 42. gr. laga nr. 31/1990. Samkvæmt þeirri lagagrein skal gerðarbeiðandi bæta þann miska og það fjártjón sem telja má að gerðin hafi valdið. Er heimilt að dæma skaðabætur að álitum ef ljóst þykir að fjárhagslegt tjón hafi orðið en ekki er unnt að sanna fjárhæð þess. Stefnda hefur ekki lagt fram gögn til stuðnings kröfu sinni en með hliðsjón af framansögðu og atvikum öllum þykir heimilt að fallast á að stefnandi skuli greiða stefndu 100.000 krónur í skaðabætur að álitum.
Að fengnum þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefndu 300.000 krónur í málskostnað.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri kvað upp dóminn. Dómsuppkvaðning hefur dregist vegna embættisanna dómarans en lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan.
DÓMSORÐ:
Fallist er á þá kröfu stefndu, Elísabetar H. Guðmundsdóttur, að lögbann það sem lagt var á framkvæmdir á lóð nr. 93, landnúmer 168599 af sýslumanninum á Selfossi þann 8. október 2007, sé niður fallið.
Stefnandi, Sigurbjörg Aðalsteinsdóttir, greiði stefndu 100.000 krónur í skaðabætur.
Stefnandi greiði stefndu 300.000 krónur í málskostnað.