Hæstiréttur íslands
Mál nr. 519/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 25. ágúst 2014. |
|
Nr. 519/2014.
|
Einar Árnason (sjálfur) gegn D fasteignafélagi ehf. (Friðbjörn E. Garðarsson hrl.) |
Kærumál. Nauðungarsala. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem máli E gegn D hf., R og D ehf. var vísað frá dómi með vísan til þess að sá tímafrestur sem fram kæmi í 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, til að leita úrlausnar héraðsdómara um gildi nauðungarsölu, hefði verið liðinn.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem barst héraðsdómi 17. júlí 2014 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júlí 2014, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 85. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Í hinum kærða úrskurði segir að máli sóknaraðila hafi verið vísað frá dómi með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 16. september 2013 þar sem það hefði borist of seint. Í síðarnefnda úrskurðinum var komist svo að orði að sóknaraðili hefði enn ekki lagt fram staðfest eftirrit framlagðra gagna og endurrit úr gerðarbók, en liðnir væru rúmir tveir mánuðir frá því hann hefði lagt fram kröfu sína til héraðsdóms 19. júlí 2013. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 8. júlí 2014.
Mál þetta, sem þingfest var 24. janúar 2014, var tekið til úrskurðar 25. júní sl. Sóknaraðili er Einar Árnason, Grundarstíg 5, Reykjavík.
Varnaraðilar eru Drómi hf., Lágmúla 6, Reykjavík, Reykjavíkurborg, Ráðhúsinu, Reykjavík, og D fasteignafélag ehf., Lágmúla 6, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 28. maí 2013 um að fram færi framhald nauðungarsölu fasteignar sóknaraðila að Tjarnargötu 10, Reykjavík, íbúð nr. 0502, fastanúmer 200-2809. Þá krefst hann málskostnaðar.
Varnaraðilinn D fasteignafélag ehf. krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi, en til vara að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar.
Af hálfu varnaraðilanna Dróma hf. og Reykjavíkurborgar er ekki sótt þing.
Málið var tekið til úrskurðar í þinghaldi 25. júní sl. um frávísunarkröfu varnaraðila, D fasteignafélags ehf. Hann gerir þá kröfu í þessum þætti málsins að málinu verði vísað frá dómi og sóknaraðila verði gert að greiða honum málskostnað.
Sóknaraðili krefst þess að frávísunarkröfu varnaraðilans verði hafnað og honum verði gert að greiða sér málskostnað.
I
Samkvæmt gögnum málsins krafðist varnaraðili, Drómi hf., þess með beiðni til sýslumannsins í Reykjavík 16. febrúar 2012 að íbúð í eigu sóknaraðila að Tjarnargötu 10 í Reykjavík, númer 01-0502, með fastanúmer 200-2809, yrði seld nauðungarsölu til lúkningar skuld við sig samkvæmt veðskuldabréfi útgefnu 27. október 2004, en íbúðin hafði verið sett að veði til tryggingar skuldinni. Með tilkynningu sýslumanns 15. mars 2012 var varnaraðila greint frá því að fyrrgreind beiðni um nauðungarsölu hefði borist embættinu og yrði hún tekin fyrir á skrifstofu þess 24. maí 2012, að undangenginni auglýsingu sem send yrði til birtingar í Lögbirtingablaði 12. apríl sama ár.
Hinn 28. maí 2013 fór samkvæmt fyrirliggjandi endurriti úr gerðabók sýslumanns fram að Tjarnargötu 10 nauðungarsala til að halda áfram uppboði á fyrrnefndri eign sóknaraðila. Fyrir varnaraðila, Dróma hf., sem gerðarbeiðanda var mættur nafngreindur héraðsdómslögmaður og sóknaraðili sem gerðarþoli. Bókað var að honum hefði verið kynnt framlögð gögn og leiðbeint um réttarstöðu sína. Síðan var fært til bókar: „Gerðarþoli óskar bókað að hann hafi krafist að fá að greiða lánið á 1. veðrétti á sama hátt og lán Hildu hf. sem hvílir á Grundarstíg 5, Reykjavík en það hafi ekki fengist. Gerðarþoli leggur fram tölvupósta ... með samskiptum við Dróma hf. þar sem hann telur að fram komi ósannindi starfsmanns og vanræksla starfsmanna Dróma hf. við úrlausn mála.“ Lögmaður varnaraðila, Dróma hf., mótmælti bókun sóknaraðila í heild sinni sem rangri og tilhæfulausri og var þess krafist að uppboðið færi fram. Sýslumaður taldi þær athugasemdir sem fram komu ekki leiða til þess að stöðva bæri uppboðið og skyldi það því fara fram að kröfu varnaraðila, Dróma hf., sem gerðarbeiðanda. Leitað var eftir boðum í eignina og var hæst boðið í hana af hálfu varnaraðila, Dróma hf. Síðan var bókað: „Frekari boð komu ekki fram og er uppboðið á eigninni nú lokið. Hæstbjóðanda er greint frá því að boð hans í eignina verði samþykkt ef greiðsla berst samkvæmt því í samræmi við breytta uppboðsskilmála þann 23. júlí nk. kl. 11:00.“
Sóknaraðili leitaði úrlausnar héraðsdóms 19. júlí 2013 „um ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík ... 28. maí 2013 vegna framhalds nauðungarsölu og nauðungarsölu almennt að Tjarnargötu 10 íbúð nr-0502 fnr. 200-2809“. Krafðist sóknaraðili þess að ákvörðun sýslumanns yrði felld úr gildi og sér úrskurðaður málskostnaður.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 16. september 2013 var málinu vísað frá dómi þar sem það hefði borist of seint. Með dómi Hæstaréttar Íslands 1. nóvember 2013 í málinu nr. 654/2013 var úrskurðurinn ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, með vísan til þess að héraðsdómur hefði ekki leyst úr málinu á réttum lagagrundvelli. Skýra yrði kröfu sóknaraðila svo að hann leitaði úrlausnar um gildi nauðungarsölu eftir að uppboði á íbúð hans hefði verið lokið. Beri því að leysa úr kröfunni eftir XIV. kafla laga nr. 90/1991, en ekki XIII. kafla þeirra svo sem gert var í hinum kærða úrskurði.
Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 24. janúar 2014. Óskaði sóknaraðili, sem er ólöglærður, þá eftir fresti til þess að leita aðstoðar lögmanns. Mætti hann með lögmanni sínum við fyrirtöku málsins 7. mars sl. og óskaði þá eftir fresti til að skila greinargerð. Var þá einnig sótt þing af hálfu varnaraðila, D fasteignafélags ehf., og bókað að það hefði fengið framselt hæsta boð í þá eign er málið lúti að. Þingsókn féll hins vegar niður af hálfu Reykjavíkurborgar og jafnframt var bókað að ekki væri sótt þing af hálfu Dróma hf. Í þinghaldinu lagði lögmaður sóknaraðila fram bókun þar sem hann krafðist þess, með vísan til 3. mgr. 55. gr. laga nr. 90/1991, að dómari leysti úr því með úrskurði undir rekstri málsins, hvort honum eða öðrum umráðamanni yrði vikið af fasteigninni að Tjarnargötu 10 í Reykjavík, fastanúmer 200-2809, fyrr en lyktir þessa máls yrðu fengnar.
II
Varnaraðili, D fasteignafélag ehf., krefst frávísunar málsins á þeim grundvelli að krafa sóknaraðila um úrlausn dómsins hafi borist of seint. Leitað sé úrlausnar um gildi nauðungarsölu að uppboði loknu, sbr. XIV. kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Samkvæmt 1. mgr. 80. gr. geti hver sá sem hafi lögvarinna hagsmuna að gæta leitað úrlausnar héraðsdómara um gildi nauðungarsölunnar, en krafa þess efnis skuli berast héraðsdómara innan 4 vikna frá því að uppboði ljúki. Uppboð á eigninni hafi farið fram 28. maí 2013, en krafa sóknaraðila hafi borist 19. júlí 2013. Þá hafi fjögurra vikna frestur samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 verið liðinn. Skilyrði 2. mgr. 80. gr. laganna til að koma beiðni að engu að síður séu ekki fyrir hendi. Af þessari ástæðu beri að vísa málinu frá dómi.
Við munnlegan málflutning var jafnframt vísað til þess sem fram kom í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 16. september 2013 um að sóknaraðili hafi ekki lagt fram staðfest eftirrit framlagðra gagna og endurrit úr gerðabók, sbr. 2. mgr. 82. gr. laga nr. 90/1991.
III
Sóknaraðili krefst þess að frávísunarkröfu varnaraðila, D fasteignafélags ehf., verði hafnað og málið verði tekið til efnisumfjöllunar. Sóknaraðili byggi kröfu sína annars vegar á því að ekki sé öruggt að telja eigi að uppboði í eignina sé lokið þegar hamar falli og hætt sé að leita tilboða. Þá eigi eftir að fara fram ferli við að samþykkja tilboðið. Eðlilegt sé að miða við það tímamark þegar því sé lokið. Þá vísi sóknaraðili til þess að hann hafi sjálfur mætt hjá sýslumanni, en hann sé ólöglærður. Sýslumaður hafi ekki gætt leiðbeiningarskyldu og t.d. ekki leiðbeint honum um tímafresti. Ekkert sé bókað í endurriti úr gerðabók sýslumanns um leiðbeiningarskylduna. Vísað sé til 3. mgr. 80. gr. og 4. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 1. mgr. 7. gr. og 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þessi skortur á leiðbeiningum eigi að leiða til þess að tímafrestum verði ekki haldið upp á sóknaraðila.
IV
Samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu getur hver sá sem hefur lögvarinna hagsmuna að gæta leitað úrlausnar héraðsdómara um gildi nauðungarsölu þegar uppboði hefur verið lokið samkvæmt V. eða XI. kafla, tilboði hefur verið tekið í eign samkvæmt VI. kafla eða andvirði réttinda hefur verið greitt sýslumanni eftir ráðstöfun samkvæmt 2. eða 3. mgr. 71. gr., en krafa þess efnis skal þá berast héraðsdómara innan fjögurra vikna frá því fyrrgreinda tímamarki sem á við hverju sinni. Samkvæmt 2. mgr. verður því aðeins leitað úrlausnar héraðsdómara um gildi nauðungarsölu þegar frestur samkvæmt 1. mgr. er liðinn að það sé samþykkt af hendi allra aðila að henni, sem hafa haft uppi kröfur fyrir sýslumanni og úrlausnin gæti varðað, svo og kaupanda að eigninni ef um hann er að ræða.
Svo sem fram hefur komið fór nauðungarsala á fasteigninni Tjarnargötu 10 í Reykjavík, íbúð nr. 01-0502, fram 28. maí 2013. Samkvæmt endurriti úr gerðabók sýslumanns lýsti hann því þar að uppboði á eigninni væri lokið. Boð hæstbjóðanda yrði samþykkt ef greiðsla bærist samkvæmt því í samræmi við breytta uppboðsskilmála 23. júlí 2013 kl. 11:00. Samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 er málshöfðunarfrestur sóknaraðila fjórar vikur frá því uppboði var lokið. Sóknaraðili telur að skýra þurfi þetta orðalag með tilliti til samþykkisfrests, en ekki hafi verið ljóst fyrr en að honum loknum hvort tilboði hæstbjóðanda yrði tekið. Samkvæmt V. kafla laga nr. 90/1991 lýkur uppboði þegar boð hafa komið fram við framhald uppboðs og sýslumaður hefur þrívegis lýst eftir öðrum boðum án þess að þau komi fram. Að uppboðinu loknu ákveður sýslumaður hverju boði verði tekið svo tímanlega að bjóðendur séu enn bundnir við boð sín samkvæmt uppboðsskilmálum. Er því ljóst að uppboðinu var lokið, í skilningi 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991, þann 28. maí 2013, sbr. einnig t.d. dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 668/2012 frá 14. nóvember 2012.
Málskot sóknaraðila var stimplað um móttöku í Héraðsdómi Reykjavíkur 19. júlí 2013 sl. Var þá löngu liðinn sá fjögurra vikna frestur sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991. Frá þessum fresti er gerð sú eina undantekning sem mælt er fyrir um í 2. mgr. greinarinnar, að leita megi úrlausnar um ógildingu nauðungarsölu að fresti liðnum ef fyrir liggur samþykki allra aðila að henni sem hafa haft uppi kröfur fyrir sýslumanni og úrlausnin gæti varðað, svo og kaupanda að eigninni ef um hann er að ræða. Ekki er um það að ræða í málinu.
Varnaraðili hefur borið því við að skortur á leiðbeiningum sýslumanns eigi að leiða til þess að hann verði ekki bundinn við tímafrest þann sem mælt er fyrir um í lögum um nauðungarsölu. Í 2. mgr. 21. gr. laga nr. 90/1991 er mælt fyrir um leiðbeiningarskyldu sýslumanns við nauðungarsölu. Kemur þar fram að ef gerðarþoli mætir, eða einhver fyrir hans hönd, kynni sýslumaður honum framlögð gögn og veiti nauðsynlegar leiðbeiningar um réttarstöðu hans og kröfu gerðarbeiðanda, á sama hátt og dómara í einkamáli beri að leiðbeina ólöglærðum málsaðila. Í endurriti úr gerðabók sýslumanns frá 28. maí 2013 er bókað að sóknaraðili sé mættur. Honum séu kynnt framlögð gögn og leiðbeint um réttarstöðu sína. Þá eru bókaðar athugasemdir sóknaraðila og ósk hans um aukinn samþykkisfrest, auk yfirlýsingar sóknaraðila um að hann myndi leita úrlausnar héraðsdóms um þá ákvörðun að uppboðið skyldi fara fram. Í ljósi þessara bókana í gerðabók sýslumanns verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að leiðbeiningar sýslumanns hafi verið ófullnægjandi.
Með hliðsjón af framangreindu ber að vísa málinu frá dómi.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.