Hæstiréttur íslands

Mál nr. 78/2014


Lykilorð

  • Vátryggingarsamningur
  • Ábyrgðartrygging
  • Gjafsókn


                                                                                               

Fimmtudaginn 18. september 2014.

Nr. 78/2014.

Páll Rúnar Elíson

(Kristján B. Thorlacius hrl.)

gegn

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

(Kristín Edwald hrl.)

Vátryggingarsamningur. Ábyrgðartrygging. Gjafsókn.

P varð fyrir slysi við störf hjá L ehf. og fékk greiddar bætur úr ábyrgðartryggingu félagsins hjá S hf. Í vátryggingarsamningi L ehf. og S hf. var eigin áhætta vátryggingataka ákveðin 1.500.000 krónur og greindi P og síðarnefnda félagið á um hvort heimilt hefði verið að draga þá fjárhæð frá útreiknuðum skaðabótum til P. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti með vísan til forsendna, sagði að réttur P til bóta úr hendi S hf. væri leiddur af vátryggingarsamningi L ehf. og S hf. og gæti ekki orðið ríkari en þar væri kveðið á um. Sú ályktun fengi ennfremur stoð í 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, þar sem fram kæmi að tryggingarfélag geti ekki einungis haft uppi sömu mótbárur gegn kröfu tjónþola og hinn vátryggði, heldur einnig aðrar mótbárur svo fremi sem þær eigi ekki rót að rekja til háttsemi vátryggðs eftir að vátryggingaratburður varð. Í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 30/2004 væri þannig sérstaklega vikið að því að tryggingarfélag geti borið fyrir sig ákvæði í vátryggingarsamningi um eigin áhættu hins vátryggða. S hf. hefði því verið rétt að taka tillit til eigin áhættu P sem nam fyrrgreindri fjárhæð við uppgjör bótanna.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. febrúar 2014. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.500.000 krónur með 4,5% vöxtum frá 16. október 2006 til 10. nóvember 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Páls Rúnars Elísonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 450.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. nóvember 2013.

                                                                                           I.

         Mál þetta, sem var dómtekið 28. október 2013, er höfðað 8. mars 2013 af Páli Rúnari Elíssyni, Þverárseli 26 í Reykjavík, gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5 í Reykjavík.

         Stefnandi krefst þess að stefndi greiði sér 1.500.000 krónur með 4,5% vöxtum frá 16. október 2006 til 10. nóvember 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim tíma til greiðsludags. Jafnframt krefst stefnandi málskostnaðar auk virðisaukaskatts eins og málið sé eigi gjafsóknarmál.

         Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að hann verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað. Til vara krefst hann lækkunar á kröfu stefanda og að málskostnaður verði látinn niður falla.

                                                                                          II.

         Stefnandi slasaðist 16. október 2006 er hann var við vinnu sína hjá Loftorku Borgarnesi ehf. Loftorka var þá með frjálsa ábyrgðartryggingu fyrir atvinnurekendur hjá stefnda. Í málinu liggur fyrir samrit ábyrgðarskírteinis er þá var í gildi. Þar segir meðal annars eftirfarandi:

         Vátryggingarfjárhæð:                  Kr. 160.000.000

         Eigin áhætta:                                

         Eigin áhætta grunnskilmála gildir nema annað sé tekið fram: Kr. 1.500.000.

         Í almennum vátryggingarskilmálum tryggingarinnar segir í 2. gr. að vátryggingin taki til skaðabótaábyrgðar, sem fellur á vátryggðan vegna líkamstjóns eða skemmda á munum vegna viðkomandi starfsemi, enda verði líkamstjónið eða skemmdirnar raktar til skyndilegs og óvænts atburðar. Fjallað er um eigin áhættu í 28. gr. skilmálanna en ákvæðið hljóðar svo: „Af hverju tjóni ber vátryggður sjálfur tiltekinn hluta tjóns í eigin áhættu. Kveðið er á um eigin áhættu í vátryggingarskírteini. Nái höfuðstóll bótakröfu ekki lágmarki eigin áhættu, greiðir félagði ekki heldur kostnað, þó að krafan og kostnaðurinn samanlagt verði meiri en fjárhæð eigin áhættu.“

         Loftorka var tekin til gjaldþrotaskipta 27. júní 2009. Hinn 18. mars 2010, höfðaði stefnandi mál gegn stefnda þar sem hann krafðist þess að félagið greiddi bætur úr fyrrgreindri ábyrgðartryggingu Loftorku vegna líkamstjóns sem stefnandi hafði orðið fyrir við slysið 16. október 2006. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 23. desember 2010 var fallist á þá kröfu stefnanda. Aðilar gerðu upp skaðabæturnar 10. nóvember 2011. Á framlögðu fullnaðaruppgjöri segir að bótafjárhæðin sé 14.298.856 krónur en að til frádráttar komi annars vegar innborgun að fjárhæð ein milljón króna og hins vegar „frádregin eigin áhætta vátryggingartaka“ að fjárhæð 1.500.000 krónur. Í tölvuskeyti stefnda, sem er dagsett sama dag og fullnaðaruppgjörið, segir að á tjónsdegi hafi eigin áhætta vátryggingartaka numið 1.500.000 krónum. Þá segir þar að  af þeim sökum hafi vátryggingarverndin tekið til tjóns umfram 1.500.000 krónur. Þar kemur einnig fram að ekki hafi verið lagt út fyrir eigin áhættu þar sem vátryggingartaki hafi verið gjaldþrota. Um frádráttarheimildina er í skeytinu vísað til 44. gr. laga um vátryggingarsamninga og greinargerðar með ákvæðinu þar sem fjallað er um rétt vátryggingafélags til að hafa uppi sömu mótbárur gagnvart tjónþola og hinum vátryggða.

         Lögmaður stefnanda undirritaði fullnaðarkvittun með fyrirvara um frádregna eigin áhættu vátryggingartaka. Með tölvuskeyti 28. nóvember 2011 var þess krafist af hálfu stefnanda að hið stefnda félag greiddi stefnanda 1.500.000 krónur með vöxtum og dráttarvöxtum. Þar voru færð rök fyrir því að stefnda hafi verið óheimilt að draga eigin áhættu vátryggingartaka frá fjárhæð skaðabótanna.

                                                                                         III.

1. Málsástæður og lagarök stefnanda

         Stefnandi byggir á því að hvergi í umræddum vátryggingarskilmálum hafi verið ákvæði um að tjónþoli eigi að hlíta því að bætur hans verði lækkaðar vegna eigin áhættu vátryggingartaka. Hann áréttar í því sambandi að vátryggingin taki til skaðabótaábyrgðar sem falli á vátryggðan vegna líkamstjóns í starfsemi vátryggðs, sbr. 2. gr. skilmálanna. Þá greiði félagið bætur þrátt fyrir að vátryggingin falli síðar úr gildi, sbr. 16. gr. þeirra. Félagið greiði einnig bætur komi afleiðingar atviks, sem tjón hefur hlotist af og gerst hefur á vátryggingartímanum, ekki í ljós fyrr en vátryggingin er fallin úr gildi. Í 28. gr. skilmálanna sé fjallað um eigin áhættu vátryggðs. Hvergi sé vikið að því í skilmálunum að samband sé á milli eigin áhættu og bótagreiðslu til tjónþola.

         Stefnandi kveðst reisa kröfu sína á því að hann eigi rétt á því að fá tjón sitt bætt að fullu. Ekkert samningssamband sé á milli vátryggingartaka og stefnanda um frádrátt vegna eigin áhættu vátryggingartaka. Stefnandi sé ekki aðili að samningi vátryggingartaka og hins stefnda félags um eigin áhættu. Hann hafnar því alfarið að hann eigi að hlíta ákvæðum um eigin áhættu í samningi sem hann sé ekki aðili að. Réttarsamband stefnanda og stefnda sé skaðabótaréttarsamband, sem byggist á skaðabótaábyrgð vátryggingartaka utan samninga, en stefndi hafi tekið að sér að standa skil á skaðabótunum samkvæmt vátryggingarsamningi vátryggingartaka og stefnda.

         Af hálfu stefnanda er tekið fram að samkvæmt skaðabótalögum, nr. 50/1993, eigi hann rétt á fullum bótum, sbr. 1. gr. laganna. Í 4. mgr. 5. gr. laganna eru tæmandi taldar þær greiðslur sem eiga að dragast frá örorkubótum tjónþola. Eigin áhætta vátryggingartaka sé ekki talin þar upp. Þá hafnar stefnandi því að vátryggingarvernd stefnanda taki til tjóns umfram 1.500.000 krónur. Engar slíkar takmarkanir hafi legið fyrir gagnvart stefnanda og hann verið í góðri trú um að hann fengi tjón sitt að fullu bætt.

         Stefnandi vísar einnig til þess að engin heimild sé til þess að halda eftir eigin áhættu með vísan til fyrirliggjandi viðurkenningardóms, þar sem viðurkennt hafi verið að stefnda skyldi greiða bætur úr ábyrgðartryggingu atvinnurekstrar Loftorku vegna líkamstjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir við vinnu sína hjá fyrirtækinu 16. október 2006. Dómsorðið sé skýrt og afdráttarlaust og telur stefnandi að stefndi sé alfarið bundinn af því. Á þeim grundvelli telur hann að stefnda skorti heimild til að lækka bætur vegna eigin áhættu.

         Stefnandi reisir kröfu sína einnig á því að stefndi hafi sýnt tómlæti við að halda fram sjónarmiðum sínum um eigin áhættu. Þegar stefna hafi verið birt fyrir stefnda 18. mars 2010 hafi legið fyrir að vátryggingartaki væri gjaldþrota. Því hafi kröfu um viðurkenningu verið beint að stefnda á grundvelli 1. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004, sbr. 2. mgr. 46. gr. sömu laga. Stefndi hafi hvorki haft uppi athugasemdir við þann málatilbúnað stefnanda né gert fyrirvara eða athugasemd um eigin áhættu vátryggingartaka. Viðurkenningardómur hafi gengið án þess að málsástæða um eigin áhættu hafi verið höfð uppi í greinargerð eða við aðalmeðferð. Þá hafi stefndi ekki gert fyrirvara við samþykkt matsbeiðni um örorkumat. Því hafi stefndi sýnt af sér tómlæti við meðferð viðurkenningarmálsins og ekki fylgt málsmeðferðarreglum einkamálalaga um að koma strax fram með þær málsástæður er hann hafi ætlað að byggja á.

         Stefnandi hafnar enn fremur þeirri mótbáru stefnda að hann geti haft uppi sömu mótbárur gagnvart tjónþola og vátryggingartaka með vísan til 44. gr. laga nr. 30/2004. Stefnandi telur að 4. mgr. 44. gr. sé ætlað samkvæmt orðanna hljóðan að taka til þeirra mótbára sem vátryggingartaki/félagið geti haft uppi gegn kröfu tjónþola. Ekki sé hægt að skilja ákvæðið öðruvísi en svo að þar sé átt við hefðbundnar mótbárur í skaðabótamálum, svo sem mótbárur sem lúti að eigin sök tjónþola, útreikningi á tjóni o.s.frv. Ekki verði séð hvernig félagið eigi að geta haft uppi mótbárur sem lúti að eigin áhættu vátryggingartaka, enda séu það ekki mótbárur sem vátryggingartaki geti haft uppi gagnvart tjónþola komi til tjóns. Lög um vátryggingarsamninga kveði ekki skýrt á um þetta atriði og að mati stefnanda séu ummæli í greinargerð með frumvarpi ekki tæk sem grundvöllur þess að halda eftir eigin áhættu í tjóni stefnanda. Hér verði að skýra óskýrleika vátryggingarsamningalaga stefnanda í hag.

         Stefnandi heldur því fram að gjaldþrot vátryggingartaka eigi ekki að breyta réttarstöðu stefnanda gagnvart stefnda við uppgjör skaðabóta. Þvert á mót tryggi vátryggingasamningalögin beina aðild félagsins í slíkum málum, sbr. 2. mgr. 46. gr., sbr. 44. gr. laganna. Ákvæðum VII. kafla laganna sé einmitt ætlað að tryggja réttarstöðu tjónþola í slíkum tilvikum. Ekki verði lesið út úr ákvæðum kaflans að tjónþoli eigi að þurfa að sæta takmörkun á rétti sínum t.d. vegna samnings vátryggingartaka og félags um eigin áhættu. Vátryggingin hafi verið í gildi þegar tjónið hafi orðið og stefndi greiðsluskyldur þrátt fyrir að tryggingin hafi síðar fallið úr gildi, sbr. 16. gr. vátryggingarskilmála. Stefnandi kveðst hafna þeim rökum að hann eigi að vera eins settur og ef vátryggingartaki hefði ekki verið með vátryggingu og orðið gjaldþrota, en þá hefði stefnandi engar bætur fengið.

         Af hálfu stefnanda er á því byggt að hér verði að líta til eðlis eigin áhættu. Henni sé ætlað að takmarka tjón vátryggingafélags gagnvart vátryggingartaka, svo og að hafa áhrif á iðgjöld vátryggingartaka. Því hærri sem eigin áhætta vátryggingartaka sé því lægri iðgjöld þurfi hann alla jafna að greiða. Þetta fyrirkomulag eigin áhættu eigi ekki að hafa nein áhrif á vátryggingarvernd tjónþola sem eigi að fá tjón sitt bætt að fullu. Stefnandi heldur því einnig fram að það væri með öllu óeðlilegt ef staða tjónþola væri mismunandi eftir því hversu háa eigin áhættu fyrirtæki væru með, en það færi í bága við meginmarkmið VII. kafla vátryggingarsamningalaga, sem hafi m.a. verið að styrkja réttarstöðu tjónþola við ábyrgðartryggingartjón.

         Stefnandi bendir jafnframt á að 2. mgr. 49. gr. í lögum um vátryggingarsamninga geri ráð fyrir því að vátryggingafélag geti skuldajafnað vangoldnu iðgjaldi þegar tjónþoli fái greiddar bætur. Þar sem þetta sé eina tilgreinda heimildin til skuldajafnaðar verði að beita gagnályktun og líta svo á að skuldajöfnun eigi ekki við um eigin áhættu. Stefnandi tekur fram að stefndi hafi ekki lýst yfir skuldajöfnuði.

         Stefnandi dregur þá ályktun af öllu framangreindu að hann eigi að fá tjón sitt að fullu bætt og krefst því greiðslu á þeim hluta bótanna sem stefndi hafi haldið eftir við uppgjör.

         Stefnandi kveður kröfuna nema 1.500.000 krónum og sé fjárhæðin óumdeild, enda sú fjárhæð sem stefndi hafi haldið eftir við uppgjör bóta. Krafist sé vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga miðað við tjónsdag 16. október 2006, þar sem ekki verði ráðið af uppgjörsblaði stefnda af hvaða lið eigin áhætta sé frádregin, þ.e. hvort það sé af miska eða varanlegri örorku. Dráttarvaxtakrafan byggist á því að kröfuna hafi átt að greiða að fullu við uppgjör 10. nóvember 2011 og hafi hún þar með fallið í gjalddaga þann dag, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

         Um lagarök vísar stefnandi til skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 1. gr. og 5. gr., laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, einkum VII. kafla og VIII. kafla, svo og til almennra reglna kröfuréttar. Einnig á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Krafa um vexti sé reist á 16. gr. skaðabótalaga og þá sé krafa um dráttarvexti reist á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum á 5. gr. laganna. Málskostnaðarkrafan sé reist á ákvæðum XX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá sé krafa um virðisaukaskatt reist á lögum nr. 50/1988, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili.

2. Málsástæður og lagarök stefnda

         Stefndi kveðst byggja kröfu sína á því að stefnandi hafi þegar fengið greiddar að fullu þær bætur sem hann eigi rétt á úr frjálsri ábyrgðartryggingu Loftorku hjá stefnanda. Stefnandi eigi ekki rétt til hærri greiðslna úr ábyrgðartryggingunni en sem vátryggingarsamningur Loftorku og stefnda kveði á um.

         Stefndi heldur því fram að Loftorka hafi keypt ábyrgðartryggingu af stefnda sem bæti tjón sem Loftorka beri skaðabótaábyrgð á umfram 1.500.000 krónur. Loftorka hafi ákveðið að bera sjálf tjón allt að umfangi 1.500.000 krónur og hafi ekki keypt vátryggingu vegna þess. Stefndi tekur fram að til staðfestingar á þessu og öðru efni vátryggingarsamningsins hafi verið gefið út vátryggingarskírteini. Þar hafi komið fram ákvæði vátryggingarsamningsins sem hafi ekki komið fram í vátryggingarskilmálum, sbr. f-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 30/2004. Því sé ljóst að stefndi hafi skuldbundið sig til að greiða þeim sem Loftorka ylli tjóni bætur fyrir tjón umfram 1.500.000 krónur, en tryggingin hafi ekki náð til fyrstu 1.500.000 krónanna af umfangi tjónsins.

         Stefndi telur að með greiðslunni 10. nóvember 2011 hafi þær bætur, sem stefnandi hafi átt rétt á að fá úr frjálsri ábyrgðartryggingu Loftorku, verið greiddar að fullu. Því sé alfarið mótmælt að stefnandi eigi rétt á frekari greiðslum úr hendi stefnda og telur stefndi að málatilbúnaður stefnanda sé reistur á grundvallarmisskilningi á gildissviði vátryggingarinnar og vátryggingarsamningsins.

         Stefndi heldur því fram að vátryggingarsamningur sinn og Loftorku hafi kveðið skýrt á um að Loftorka væri einungis að kaupa vátryggingu vegna tjóns umfram 1.500.000 krónur. Stefndi hafi ekki tekið á sig greiðsluskyldu vegna alls þess tjóns sem Loftorka bæri skaðabótaábyrgð á. Loftorka hafi verið hinn skaðabótaskyldi aðili en ekki stefndi. Ekkert samningssamband hafi verið milli stefnanda og stefnda heldur sé réttur stefnanda til greiðslu vátryggingarbótanna afleiddur réttur af samningi stefnda og Loftorku. Stefnandi hafi því ekki eignast ríkari rétt en vátryggingarsamningurinn hafi kveðið á um. Tilvísun stefnanda til skaðabótalaga sé því mótmælt sem þýðingarlausri.

         Stefndi vísar til dómsorðs í fyrra máli stefnanda gegn félaginu og tekur fram að þar hafi eðli málsins samkvæmt ekki verið tekin nein afstaða til fjárhæðar bótanna, hvorki umfangs vátryggingarverndarinnar né frádráttarliða svo sem vegna greiðslna frá þriðja aðila. Stefndi hafnar því að fyrri dómurinn geti haft nokkurt gildi um umfang bótanna. Með viðurkenningardómi um að bótakrafan yrði greidd úr ábyrgðartryggingu Loftorku hafi ekki verið skorið úr um þær fjárhæðir sem hafi borið að greiða.

         Stefndi tekur fram að hann hafi ekki haft neina ástæðu til að byggja á málsástæðum sem lutu að fjárhagslegu umfangi vátryggingarverndarinnar í viðurkenningarmálinu. Taki það meðal annars til umfangs eigin áhættu Loftorku. Vísar stefndi því alfarið á bug að málsástæður stefnda í máli þessu séu of seint fram komnar sem og að félagið hafi sýnt af sér tómlæti á einhvern hátt.

         Þá tekur stefndi fram að gjaldþrot Loftorku hafi engin áhrif haft á rétt stefnanda til greiðslu vátryggingarbóta. Engin breyting hafi orðið á vátryggingarverndinni við gjaldþrotið. Stefndi mótmælir því að lög um vátryggingarsamninga kveði á um að við gjaldþrot vátryggingartaka aukist vátryggingarverndin eins og stefnandi virðist byggja á. Kafli VII í lögunum verði ekki túlkaður á þann veg.

         Stefndi bendir á að samkvæmt 95. gr. eldri vátryggingarsamningalaga, nr. 20/1954, hafi tjónþoli ekki öðlast kröfu á hendur vátryggingafélagi fyrr en skaðabótaskylda hins vátryggða var staðreynd, þ.e. viðurkennd eða dæmd. Í gildistíð fyrri laga hafi krafa tjónþola á hendur vátryggingafélagi því fallið niður við gjaldþrot vátryggingartaka ef hún hafði ekki verið staðreynd. Með setningu núgildandi vátryggingarsamningalaga hafi þessari stöðu verið breytt og tjónþola veitt heimild til þess að krefja vátryggingarfélag beint um bætur, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004. Jafnframt hafi verið kveðið sérstaklega á um það í 4. mgr. 44. gr. laganna að vátryggingafélag geti haft uppi mótbárur gegn kröfu tjónþola svo fremi þær eigi ekki rót að rekja til háttsemi vátryggðs eftir að vátryggingaratburður hafi orðið. Ráða megi af 4. mgr. 44. gr. laganna að sú mótbára, að vátryggingin nái einungis til tjóns umfram 1.500.000 krónur, komist að gagnvart stefnanda. Í því felist að tjónþoli geti ekki öðlast betri réttarstöðu gagnvart vátryggingafélagi en vátryggingartaki hefði haft. Mótmælir stefndi því að lögin séu óskýr að þessu leyti.

         Þá mótmælir stefndi því að óeðlilegt sé að staða tjónþola sé mismunandi eftir því hversu háa eigin áhættu vátryggingartaki ákveði að bera. Um sé að ræða frjálsa ábyrgðartryggingu en ekki lögbundna ábyrgðartryggingu. Því sé fullkomlega eðlilegt í slíkum tilvikum að staða tjónþola sé mismunandi enda gæti tjónvaldur allt eins verið ótryggður.

         Stefndi bendir einnig á að stefnanda hefði verið í lófa lagið að lýsa kröfu í þrotabú Loftorku, en hann hafi verið farinn að leita réttar síns vegna slyssins að minnsta kosti rúmu ári áður en félagið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta.

         Stefndi tekur einnig fram að eigin áhætta geti haft áhrif á iðgjald vátryggingartaka. Það hafi hins vegar ekkert með stöðu tjónþola gagnvart vátryggingarfélaginu að gera. Vátryggingarverndin sé í samræmi við vátryggingarsamninginn, hvorki takmarkaðri né víðtækari.

         Stefndi vísar málsástæðum er lúta að skuldajöfnuði á bug sem þýðingarlausum og máli þessu óviðkomandi, enda hafi stefndi hvorki lýst yfir skuldajöfnuði né borið slíkar reglur fyrir sig.

         Af öllu framangreindu telur stefndi að réttur stefnanda til greiðslu vátryggingarbóta fari eftir vátryggingarsamningi Loftorku og stefnda. Stefnandi hafi fengið fullar bætur greiddar úr vátryggingunni lögum samkvæmt og eigi því ekki rétt á frekari greiðslu úr hendi stefnda.

         Verði ekki fallist á aðalkröfu er krafist lækkunar á kröfu stefnanda á þeim grundvelli að vextir sem voru eldri en fjögurra ára á stefnubirtingardegi 8. mars 2013 séu fyrndir. Jafnframt sé upphafstíma dráttarvaxta mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppkvaðningardegi.

         Um lagarök vísar stefndi einkum til laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, almennra reglna samningaréttar, almennra reglna kröfuréttar og laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Um málskostað vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                                                                                         IV.

         Stefnandi hefur fengið greiddar skaðabætur úr ábyrgðartryggingu, sem Loftorka Borganesi ehf. var með hjá hinu stefnda tryggingarfélagi, í tilefni af slysi sem stefnandi varð fyrir 16. október 2006. Í vátryggingarsamningi Loftorku og stefnda var eigin áhætta vátryggingartaka ákveðin 1.500.000 krónur. Við uppgjör bótanna var framangreind fjárhæð dregin frá útreiknuðum skaðabótum samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993. Aðila greinir á um hvort heimilt hafi verið að beita þeim frádrætti. Stefnandi telur sig eiga rétt til fullra bóta úr hendi tryggingarfélagsins, enda snúi eigin áhætta vátryggingartaka aðeins að réttarsambandi hans og hins stefnda tryggingarfélags. Því hafi verið óheimilt að draga framangreinda fjárhæð frá bótum til stefnanda. Stefndi er á öndverðum meiði og byggir á því að réttur tjónþola á hendur sér leiði af vátryggingarsamningi félagsins og vátryggingartaka með þeim takmörkunum á ábyrgð sem þar var um samið.

         Eins og rakið hefur verið var í vátryggingarskírteini vísað um eigin áhættu til almennra skilmála frjálsrar ábyrgðartryggingar fyrir atvinnurekendur, sem urðu með því hluti af vátryggingarsamningi vátryggingartaka og stefnda. Þar var um það samið að vátryggður bæri sjálfur hluta tjóns er næmi 1.500.000 krónum í eigin áhættu. Eins og skilmálarnir hljóða verður að leggja þann skilning í ákvæði þeirra að stefndi bæti aðeins þann hluta af tjóni tjónþola sem er umfram 1.500.000 krónur. Með vátryggingarsamningnum tók stefndir því ekki á sig skyldu til að greiða tjónþola fullar bætur, eins og stefnandi reisir málatilbúnað sinn á.

         Ákvæði laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga setja ekki skorður við því að samið sé með þessum hætti um eigin áhættu vátryggðs við töku frjálsrar ábyrgðartryggingar. Réttur stefnanda til bóta úr hendi stefnda er leiddur af vátryggingarsamningi vátryggingartaka og stefnda og getur ekki orðið ríkari en þar er kveðið á um. Fær sú ályktun enn fremur stoð í 44. gr. laganna þar sem fjallað er um stöðu tjónþola þegar vátrygging tekur til tjóns vátryggðs vegna skaðabótaábyrgðar sem hann ber, þ.e. þegar um ábyrgðartryggingu er að ræða. Kemur þar fram að þá geti tjónþoli krafist bóta beint frá tryggingarfélaginu, sbr. 1. mgr. greinarinnar. Geri tjónþoli það getur félagið aftur á móti haft uppi, ekki einungis sömu mótbárur gegn kröfu tjónþola og hinn vátryggði, heldur einnig aðrar mótbárur svo fremi þær eigi ekki rót að rekja til háttsemi vátryggðs eftir að vátryggingaratburður varð. Eins og fram kemur í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 30/2004 geta þessar mótbárur meðal annars byggst á reglum vátryggingaréttar. Sérstaklega er þar vikið að því að þannig geti tryggingarfélag „borið fyrir sig ákvæði í vátryggingarsamningi um eigin áhættu hins vátryggða“.

         Sú takmörkun á bótagreiðslu úr hendi hins stefnda vátryggingafélags sem af framangreindu leiðir breytir engu um rétt stefnanda til að fá tjón sitt að fullu bætt. Greiðsluskylda vátryggingafélagsins verður hins vegar ekki meiri en leiðir af vátryggingarsamningi reynist tjónvaldur ekki borgunarmaður skaðabótanna.

         Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 23. desember 2010 var einungis fjallað um kröfu stefnanda um að viðurkennt yrði að stefndi skyldi greiða stefnanda bætur úr umræddri ábyrgðartryggingu vegna líkamstjóns er stefnandi varð fyrir í vinnu sinni hjá Loftorku 16. október 2006. Þar var í engu vikið að atriðum er lúta að fjárhæð skaðabótakröfunnar. Þessi dómsniðurstaða hamlaði því ekki að stefndi greiddi stefnanda bætur úr ábyrgðartryggingunni að teknu tilliti til eigin áhættu vátryggðs. Þá verður ekki séð að stefndi hafi, eins og kröfugerð stefnanda var háttað í fyrra málinu, haft tilefni til að tefla þar fram röksemdum um að eigin áhætta vátryggðs skyldi koma til frádráttar útreiknuðu fjártjóni stefnanda. Þá telur dómurinn að stefndi hafi ekki, á grundvelli reglna um tómlæti, misst rétt til að bera fyrir sig þá röksemd við útgreiðslu bótanna þó að hann hafi ekki gert fyrirvara um þetta atriði þegar leitað var eftir örorkumati í máli stefnanda.

         Eins og rakið hefur verið átti stefnandi ekki ríkari bótarétt úr hendi stefnda en leiddi af vátryggingarsamningi vátryggingartaka og stefnda. Samkvæmt honum bætti stefndi aðeins þann hluta af tjóni tjónþola sem var umfram 1.500.000 krónur. Þegar stefndi dró þá fjárhæð frá útreiknuðum skaðabótum stefnanda samkvæmt skaðabótalögum notaði stefndi því ekki gagnkröfu til skuldajafnaðar á móti bótakröfu stefnanda. Sú takmörkun á rétti vátryggingafélags til að skuldajafna, sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 49. gr. laga nr. 30/2004, hefur því enga þýðingu í máli þessu.

         Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið verður að telja að stefnda hafi verið rétt að taka tillit til eigin áhættu vátryggðs að fjárhæð 1.500.000 krónur við uppgjör á skaðabótum til stefnanda. Því ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

         Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að hvor málsaðila beri sinn kostnað af rekstri málsins. Stefnandi nýtur gjafsóknar í málinu samkvæmt gjafsóknarleyfi, dags. 4. desember 2012. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Hjördísar E. Harðardóttur hrl., 571.025 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

         Mál þetta dæmir Ásmundur Helgason héraðsdómari.

                                                                          D Ó M S O R Ð :

         Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Páls Rúnars Elíssonar.

         Málskostnaður milli aðila fellur niður.

         Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Hjördísar E. Harðardóttur hrl., 571.025 krónur.