Hæstiréttur íslands
Mál nr. 161/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
- Yfirmat
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Þorgeir Ingi Njálsson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. mars 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. mars 2017, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um dómkvaðningu yfirmatsmanna. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að framangreindri kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Svo sem rakið er í hinum kærða úrskurði varðar mál þetta kröfu varnaraðila um dómkvaðningu yfirmatsmanna til að endurmeta tilgreind atriði sem þegar hafa verið metin yfirmati, en þess var aflað að beiðni sóknaraðila í tengslum við sakamál sem rekið er á hendur varnaraðila fyrir Hæstarétti. Er á því byggt af hálfu varnaraðila að slíkir gallar séu á matinu að það sé ekki tækt sem sönnunargagn í skilningi XIX. kafla laga nr. 88/2008. Eru sjónarmið hans sem að þessu lúta rakin í úrskurði héraðsdóms.
Samkvæmt 131. gr. laga nr. 88/2008 getur aðili krafist yfirmats þar sem tekin verði til endurmats þau atriði sem áður hafa verið metin. Svo sem fram er komið liggur slíkt endurmat fyrir í málinu. Kemur sönnunargildi matsgerðanna til skoðunar þegar leyst verður úr framangreindu sakamáli á hendur varnaraðila, sbr. 2. mgr. 133. gr. laganna. Að þessu gættu eru engin efni til að fallast á það með varnaraðila að umrædd matsatriði verði að nýju tekin til endurmats. Samkvæmt þessu verður kröfu hans um dómkvaðningu yfirmatsmanna hafnað.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu varnaraðila, X, um dómkvaðningu yfirmatsmanna.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness mánudaginn 6. mars 2017.
Með beiðni 5. janúar 2017, sem barst Héraðsdómi Reykjaness sama dag, er þess krafist af sóknaraðila, að dómkvaddir verði yfirmatsmenn í því skyni að leggja mat á hver hafi verið líklegust dánarorsök drengsins A, kt. [...], sem lést [...]. maí 2001, en sé ekki hægt að kveða á um það, að metið verði hvort hægt sé að útiloka, svo yfir allan vafa sé hafið, að aðrar orsakir kunni að hafa leitt A til dauða en byggt hafi verið á í krufningsskýrslu.
Sóknaraðili er X, [...], [...].
Varnaraðili er ríkissaksóknari, Suðurlandsbraut 4, Reykjavík.
Af hálfu varnaraðila er framkominni beiðni mótmælt og þess krafist að henni verði hafnað. Munnlegur málflutningur um ágreining aðila fór fram 6. febrúar síðastliðinn.
I
Yfirmatsbeiðni sóknaraðila er lögð fram í tengslum við mál sem samþykkt hefur verið að verði endurupptekið í Hæstarétti Íslands með málsnúmerinu [...]. Beiðni sama efnis kom fram af hálfu varnaraðila 13. október 2015. Fékk málið málsnúmerið M-[...]/2015. Voru þeir B, [...], [...], Noregi og C, [...], [...], Bandaríkjunum, að tillögu málsaðila, dómkvaddir 13. janúar 2016, til að framkvæma hið umbeðna mat.
Bókað var í þingbók málsins númer M-[...]/2015, að yfirmatsmenn ættu að tilkynna aðilum með sannanlegum hætti og hæfilegum fyrirvara hvenær skoðunar- og yfirmatsgerð færi fram, að gefa þeim kost á að gæta hagsmuna sinna og að þeir ættu að semja skriflega og rökstudda yfirmatsgerð og vera til þess reiðubúnir að staðfesta hana fyrir dómi. Þá ættu yfirmatsmenn að afhenda yfirmatsbeiðanda yfirmatsgerðina gegn greiðslu hæfilegrar þóknunar. Áréttað var að það væri í höndum yfirmatsbeiðanda að tilkynna yfirmatsmönnum um dómkvaðninguna og láta þeim í té endurrit af bókun um hana ásamt þeim gögnum málsins, sem þeir þurftu til afnota við yfirmatið. Var gert ráð fyrir því að matinu yrði lokið hið allra fyrsta og eigi síðar en 29. febrúar 2016. Reyndist sá tími þegar til kom allt of skammur.
Með bréfi varnaraðila 24. nóvember 2016 var Héraðsdómi Reykjaness, með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sendar matsgerðir yfirmatsmanna ásamt þýðingum. Höfðu yfirmatsmenn látið varnaraðila í té sitthvora yfirmatsgerðina, dagsettar 16. september 2016 og 5. október sama ár.
Með bréfi varnaraðila 15. desember 2016 krafðist varnaraðili þess að skýrslutaka færi fram fyrir dómi af yfirmatsmönnum í matsmáli Héraðsdóms Reykjaness númer M-[...]/2015, þeim B og C, í samræmi við 132. gr. laga um meðferð sakamála. Sóknaraðili mótmælti þeirri kröfu á þeim forsendum að slíkir formgallar væru á yfirmatinu að það væri ekki tækt sem sönnunargagn í skilningi XIX. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þannig hafi, þrátt fyrir ótvíræða lagaskyldu, ekki verið haldinn matsfundur með aðilum matsmálsins þar sem sóknaraðila hafi gefist kostur á því að koma að sjónarmiðum sínum og hnykkja á þeim atriðum sem hann teldi skipta máli varðandi matsspurningarnar. Þá hafi yfirmatsmenn málsins ekkert samráð haft sín á milli og engin tilraun hafi verið gerð til þess að komast að sameiginlegri niðurstöðu en eðli málsins samkvæmt hefði verið gengið út frá því að þeir ynnu matið í sameiningu. Vísaði sóknaraðili í því sambandi til þess að í XIX. kafla laga nr. 88/2008, sbr. IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, væri gengið út frá því að yfirmatsmenn væru fleiri en einn og tilgangurinn að fleiri væru um niðurstöðuna en í undirmati og væri því ekki um eiginlegt yfirmat að ræða.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 7. janúar 2017 í málinu númer V-[...]/2016 var mótmælum sóknaraðila hafnað og krafa varnaraðila um að matsmennirnir B og C gæfu skýrslu fyrir Héraðsdómi Reykjaness, tekin til greina. Með dómi Hæstaréttar Íslands 10. janúar síðastliðinn í málinu númer 11/2007 var sú niðurstaða staðfest.
II
Kröfu sinni til stuðnings vísar sóknaraðili til sömu atriða og hann byggði mótmæli sín við skýrslugjöf yfirmatsmanna B og C á, við meðferð máls Héraðsdóms Reykjaness númer V-[...]/2016, og áður greinir. Telur sóknaraðili að vegna formgalla á framkvæmd yfirmatsins sé ekki um eiginlegt yfirmat að ræða þar sem gert sé ráð fyrir því að fleiri en einn yfirmatsmaður hnekki niðurstöðu hins dómkvadda matsmanns. Kveður sóknaraðili að vegna þessa og til að forðast þau réttarspjöll að byggt verði á yfirmatsgerðum sem haldnar séu slíkum annmörkum í endanlegum dómi Hæstaréttar Íslands, sé óhjákvæmilegt að fara þess á leit að nýir yfirmatsmenn verði dómkvaddir.
III
Varnaraðili mótmælir kröfu sóknaraðila. Byggir varnaraðili á því að þeir gallar sem sóknaraðili telji vera á matsgerðum yfirmatsmannanna komi til skoðunar við efnisúrlausn málsins, þar á meðal hvort matsgerðirnar séu tæk sönnunargögn í skilningi laga um meðferð sakamál.
Varnaraðili kveður þau atriði sem sóknaraðili hafi bent á ekki til þess fallin að hafa áhrif á sönnunargildi matsgerðanna. Þvert á móti hafi matsgerðirnar aukið vægi þar sem yfirmatsmatsmenn komist báðir að efnislega sömu niðurstöðu, sitt í hvoru lagi. Lög um meðferð sakamála áskilji það eitt að yfirmatsmenn séu fleiri en matsmenn sem framkvæmdu undirmat.
Varnaraðili telur enga heimild í lögum um meðferð sakamála til að dómkveðja á ný tvo yfirmatsmenn, hvað sem formi fyrirliggjandi yfirmatsgerðar og framkvæmd hennar líði.
IV
Í 138. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála segir meðal annars að óski aðili eftir að fá matsmann kvaddan fyrir öðrum dómi en þar sem mál er rekið skuli hann leggja skriflega beiðni um það fyrir dómara í málinu. Samkvæmt 1. mgr. 140. gr. sömu laga er meðal annars tekið fram að fara skuli eftir ákvæðum II. og XVIII.-XX. kafla laganna eftir því sem við getur átt. Loks segir í 1. mgr. 141. gr. sömu laga að ákvæðum 140. gr. skuli beitt þegar sönnunargagna er aflað í héraði í tengslum við rekstur máls fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt 131. gr. laga nr. 88/2008 getur aðili krafist yfirmats þar sem tekin verði til endurmats þau atriði sem áður hafa verið metin. Samkvæmt ákvæðinu skulu yfirmatsmenn vera fleiri en matsmenn voru en að öðru leyti gildi ákvæði 128.-130. gr. laganna um yfirmat. Ótvírætt er að ákærandi og ákærði geta hvor um sig beiðst yfirmats. Þá á ákærði rétt á að afla sönnunargagna í sakamáli, telji hann ástæðu til þess, samkvæmt 1. mgr. 110. gr. laganna. Er að meginreglu hvorki á valdi ákæranda né dómstóla að takmarka þann rétt umfram það sem leiðir af ákvæðum laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Óháð álitaefnum um sönnunargildi þeirra matsgerða yfirmatsmannanna sem þegar hefur verið aflað við rekstur máls Hæstaréttar Íslands númer [...], sem ekki verður tekin afstaða til í úrskurði þessum, er ekki í lögum nr. 88/2008 lagðar sérstakar hömlur við því að dómkvaddir verði yfirmatsmenn til að framkvæma endurmat á atriðum sem áður hafa sætt samskonar endurmati dómkvaddra yfirmatsmanna. Þá verður því ekki slegið föstu nú, svo sem mál þetta liggur fyrir dóminum, að það yfirmat sem sóknaraðili óskar eftir sé bersýnilega tilgangslaust til sönnunar í því sakamáli sem rekið er gegn honum fyrir Hæstarétti Íslands, sbr. 3. mgr. 110. gr. laganna. Þá er ennfremur til þess að líta að kostnaður við matsgerðina, þó greiddur yrði úr hendi varnaraðila, telst til sakarkostnaðar samkvæmt c. lið 1. mgr. 216. gr. laganna. Ber ákærði því fjárhagslega áhættu af því að hið umbeðna yfirmat hafi þýðingu eða sönnunargildi í málinu. Eru samkvæmt því ekki skilyrði til að meina sóknaraðila að fá dómkvadda matsmenn til að framkvæma hið umbeðna yfirmat.
Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Krafa sóknaraðila, X, um að dómkvaddir verði yfirmatsmenn til að framkvæma hið umbeðna mat, er tekin til greina.