Hæstiréttur íslands

Mál nr. 315/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðför


Miðvikudaginn 16. júní 2010.

Nr. 315/2010.

Sigurður Pálmason

(Árni Pálsson hrl.)

gegn

Lýsingu hf.

(Árni Ármann Árnason hrl.)

Kærumál. Aðför.

S kærði úrskurð héraðsdóms um að L hf. yrði með beinni aðfarargerð afhent torfæruhjól og vélsleða í vörslum S. Hafði L hf. rift tveimur bílasamningum milli aðila þar sem S hafði ekki staðið skil á leigugreiðslum. Í málinu hélt S því fram að L hf. gæti ekki byggt á því að skuldbindingar samkvæmt samningunum væru bundnar við gengi erlendra gjaldmiðla. Í dómi Hæstaréttar kom fram að S hefði fellt niður afborganir af samningunum í júní 2009 og ekki innt þær af hendi síðan. Ef S hefði ekki talið sig skuldbundinn til að greiða umræddar afborganir hefði hann átt þess kost að gera L hf. grein fyrir afstöðu sinni um hverjar afborganirnar ættu að vera og bjóða fram greiðslu á þeim. Þar sem S hafði ekki gert það var L hf. heimilt að rifta samningunum og krefjast afhendingar á lausafjármununum. Var niðurstaða héraðsdóms því staðfest.  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. maí 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. apríl 2010, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að honum yrði heimilað að fá torfæruhjól og vélsleða tekna með beinni aðfarargerð úr vörslum sóknaraðila. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný og að varnaraðila verði gert að greiða honum kærumálskostnað. Til vara krefst hann þess að synjað verði um aðför og að varnaraðili verði dæmdur til að greiða honum málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og málskostnaðar í héraði auk kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili byggir aðalkröfu sína um heimvísun málsins á því að héraðsdómur hafi ekki tekið afstöðu til þeirra málsástæðna sóknaraðila sem lutu að því að riftun samninga málsaðila hafi verið ólögmæt. Í hinum kærða úrskurði er komist að þeirri niðurstöðu að varnaraðila hafi verið heimilt að rifta samningunum. Verður því ekki fallist á aðalkröfu sóknaraðila.

Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði mótmælir sóknaraðili því ekki að hann sé skuldbundinn varnaraðila samkvæmt tveimur svonefndum bílasamningum sem grein er gerð fyrir í úrskurðinum. Hann telur hins vegar að varnaraðili geti ekki byggt á því að skuldbindingar samkvæmt þessum samningum séu bundnar við gengi erlendra gjaldmiðla á þann hátt sem lýst er í úrskurðinum. Sóknaraðili felldi niður afborganir af samningunum í júní 2009 og hefur ekki innt þær af hendi síðan. Ef hann taldi sig ekki skuldbundinn til að greiða umræddar afborganir samkvæmt útreikningi varnaraðila á þeim, sem ekki er umdeilt að hafi verið í samræmi við ákvæði samninganna, átti hann þess kost að gera varnaraðila grein fyrir afstöðu sinni um hverjar afborganirnar ættu að vera og bjóða fram greiðslu á þeim. Þetta gerði hann ekki og verður fallist á með héraðsdómi að varnaraðila hafi vegna greiðslufalls sóknaraðila verið heimilt að rifta samningunum og krefjast afhendingar torfæruhjólsins og vélsleðans sem samningarnir tóku til. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur og sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Sigurður Pálmason, greiði varnaraðila, Lýsingu hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. apríl 2010.

I.

Mál þetta var þingfest 19. febrúar 2010 og tekið til úrskurðar 16. apríl sama ár.

Gerðarbeiðandi er Lýsing hf., Ármúla 3, Reykjavík.

Gerðarþoli er Sigurður Pálmason, Álfholti 12, Hafnarfirði.

Dómkröfur gerðarbeiðanda eru þær, að torfæruhjól af gerðinni Polaris Sportsman, með fastanúmer IX-B96, og vélsleði af gerðinni Polaris IQ, með fastanúmer UR-830, verði með beinni aðfarargerð tekin úr vörslum gerðarþola og fengin gerðarbeiðanda. Krefst gerðarbeiðandi þess að gerðin fari fram á ábyrgð gerðarbeiðanda en á kostnað gerðarþola.

Gerðarþoli krefst þess að kröfu gerðarbeiðanda um aðför verði synjað og að gerðarbeiðandi verði úrskurðaður til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins.

II.

Í málinu liggja frammi tveir svonefndir bílasamningar. Annars vegar er um að ræða samning nr. 70064838, dagsettan 14. janúar 2008, vegna torfæruhjóls af gerðinni Polaris Sportsman með fastanúmeri IX-B96 og hins vegar er samningur nr. 70000641, dagsettur 30. desember 2005, vegna snjósleða af gerðinni Polaris IQ með fastanúmeri UR-830.

Leigusali samkvæmt báðum framangreindum samningum er gerðarbeiðandi í máli þessu. Lántaki að fyrrnefndum samningi um torfæruhjólið er gerðarbeiðandi leigusali en Flugvélaverkstæði Reykjavíkur ehf. leigutaki. Með yfirtökusamningi dagsettum 16. janúar 2008 tók gerðarþoli bílasamninginn yfir og varð nýr leigutaki hans. Leigutaki samkvæmt leigusamningnum um snjósleðann er gerðarþoli. Með bílasamningunum voru umrædd ökutæki tekin á leigu hjá gerðarbeiðanda í tiltekinn tíma, torfæruhjólið frá 10. janúar 2008 til 5. febrúar 2013 en snjósleðann frá 19. desember 2005 til 5. febrúar 2013.

Samningsfjárhæð í samningnum um torfæruhjólið nemur 1.294.585 krónum, sem skyldu greiðast með mánaðarlegum leigugreiðslum með seðilgjaldi á tímabilinu frá 5. mars 2008 til 5. febrúar 2013 í 60 skipti. Er mánaðarleg greiðsla sögð nema 24.512 krónum. Í samningnum er að finna svohljóðandi ákvæði: „Samningur þessi er gengistryggður og eru allar fjárhæðir bundnar erlendum/innlendum myntum í eftirfarandi hlutföllum og taka mið af þeim á hverjum tíma: JPY 50%, CHF 50%. Gengi/vísitala gjaldmiðla miðast við útborgunardag samnings. Leigugjald tekur breytingum á gengi og vöxtum skv. 7. gr. samnings þessa“.

Samningsfjárhæð í samningnum um snjósleðann nemur 1.386.577 krónum, sem skyldu greiðast með mánaðarlegum leigugreiðslum með seðilgjaldi á tímabilinu frá 5. mars 2008 til 5. febrúar 2013 í 84 skipti. Er mánaðarleg greiðsla sögð nema 18.315 krónum. Í samningnum er að finna svohljóðandi ákvæði: „Samningur þessi er gengistryggður og eru allar fjárhæðir bundnar erlendum/innlendum myntum í eftirfarandi hlutföllum og taka mið af þeim á hverjum tíma: JPY 100%. Gengi/vísitala gjaldmiðla miðast við útborgunardag samnings. Leigugjald tekur breytingum á gengi og vöxtum skv. 7. gr. samnings þessa“.

Samkvæmt framlagðri útprentun úr ökutækjaskrá er gerðarbeiðandi skráður eigandi framangreindra ökutækja en gerðarþoli skráður umráðamaður þeirra. Gerðarbeiðandi lýsti yfir riftun framangreindra samninga með skeyti 8. september 2009 sem gerðarþoli kvittaði fyrir móttöku á sama dag.

III.

Gerðarbeiðandi byggir kröfur sínar á því, að gerðarþoli hafi ekki greitt gerðarbeiðanda umsamin mánaðarleg leigugjöld eins og honum bar að gera, síðan í júní 2009. Heildarvanskil við útgáfu aðfararbeiðninnar hafi numið 680.015 krónum að meðtöldum vöxtum, vörslusviptingar- og innheimtukostnaði. Þar sem gerðarþoli hafi ekki staðið í skilum samkvæmt samningunum og hafi ávallt neitað að afhenda gerðarbeiðanda framangreind ökutæki, sé krafist umráða yfir þeim.

Um lagarök vísar gerðarbeiðandi til 78. gr. aðfararlaga nr. 90/1989.

IV.

                Af hálfu gerðarþola er á því byggt að skilyrði til riftunar hafi ekki verið fyrir hendi. Samkvæmt 21. gr. samninganna sé heimilt að rifta þeim ef vanskil verði á greiðslum. Þar sem ákvæði samninganna um gengistryggingu sé ólögmæt, verði ekki byggt á því að vanskil hafi orðið á greiðslum samkvæmt samningunum, sem heimili gerðarbeiðanda riftun þeirra og innsetningar í kjölfarið.

                Umræddir samningar séu gerðir  á þeim grunni að gerðarþoli semji við seljanda tækjanna um kaup þeirra en leiti síðan til gerðarbeiðanda um fjármögnun kaupanna. Í framhaldi af því hafi framlagðir samningar síðan verið gerðir. Ekki fái staðist að kalla samningana kaupleigusamninga, eins og gerðarbeiðandi gerir þar sem hann telur um leigu að ræða. Báðir samningarnir tilgreini hins vegar höfuðstól lánsins og hvernig beri að greiða hann með mánaðarlegum greiðslum. Í samningunum séu ákvæði í 7. gr. um vexti auk ákvæða um gengistryggingu en samkvæmt 8. gr. verður hið leigða eign gerðarþola við lok samningsins. Samningarnir beri öll einkenni venjulegra lánssamninga og beri að túlka þá þannig, að um lán hafi verið að ræða. Ef vafi sé um þessa túlkun, beri að skýra hann gerðarþola í hag. Þá séu samningarnir einhliða samdir af gerðarbeiðanda sem sé fjármálafyrirtæki. Loks sé í samningnum m.a. talað um að hið leigða sé bifreið, sem alls ekki eigi við um samningssamband aðila.

                Af framangreindu leiði að gerðarbeiðandi geti ekki krafist innsetningar heldur verði hann að höfða venjulegt einkamál og fá þannig úr því skorið, hvers konar réttindi hann eigi yfir þeim munum, sem samningarnir taka til, ef þau á annað borð eru einhver.

                Gerðarþoli byggir á því að skilmálar lánasamninganna hafi verið ólögmætir. Þeir hafi að geyma ákvæði um gengistryggingu á láni í íslenskum krónum. Kaupverð umræddra muna hafi verið greitt seljanda þeirra í íslenskum krónum og þá séu lánasamningarnir settir upp með þeim hætti, bæði í yfirskrift þeirra og meginmáli, að um sé að ræða gengistryggð lán. Heimildir, sem áður voru í 20. og 21. gr. laga nr. 25/1987 til að gengistryggja lán í íslenskum krónum, hafi verið felldar niður við gildistöku laga nr. 38/2001. Samkvæmt 1. gr. síðarnefndra laga gildi þau um vexti og annað endurgjald, sem tekið er við lánveitingar. Þá segi í 2. mgr. 1. gr. að lögin gildi einnig um verðtryggingu lánsfjár. Í 2. gr. laganna komi fram að ákvæði í II. og IV. kafla þeirra séu undanþæg, auk ákvæða sem hafa að geyma bein ákvæði um að þau séu undanþæg. Í VI. kafla laganna séu reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár og séu þær ekki undanþægar. Í 13. og 14. gr. séu lögbundnar heimildir til verðtryggingar og sé heimild samkvæmt 14. gr. bundin við vísitölu neysluverðs. Framangreind ákvæði verði að túlka þannig að óheimilt sé að verðtryggja lánsfé í íslenskum krónum með öðrum hætti en lögin tilgreina. Verði því verðtrygging lána að byggjast á lagaheimild eða t.d. reglugerð. Ekki sé því unnt að semja um annað form verðtryggingar en heimilað sé í lögunum. Gengistrygging hafi verið talin eitt form verðtryggingar og með vísan til framanritaðs sé gengistrygging óheimil.

                Gerðarþoli vísar til þess að gerðarbeiðandi hafi ekki lagt fram sundurliðun yfir greiðslur, sem gerðarþoli hefur greitt samkvæmt lánasamningunum, en fullyrði hins vegar að samningarnir séu í vanskilum frá því í júní 2009. Gerðarþoli mótmæli því að hann sé í vanskilum með greiðslur frá þeim tíma. Þar sem verðtrygging lánasamninganna sé ólögmæt, sé alls óvíst hvort um vanskil hafi verið að ræða. Það leiði af ólögmæti gengistryggingarinnar að það beri að miða við fjárhæð samninganna eins og hún var í íslenskum krónum þegar þeir voru undirritaðir og sé því útilokað að halda því fram að gerðarþoli sé í vanskilum með greiðslur. Af þessum sökum liggi ekki fyrir hvort heimilt hafi verið að rifta samningunum eins og gerðarbeiðandi gerði en lögmæt riftun verði að liggja fyrir svo unnt sé að taka afstöðu til kröfu hans. Í 78. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 segi að heimilt sé að leggja fyrir héraðsdóm beiðni um innsetningu ef gerðarbeiðanda sé með ólögmætum hætti aftrað frá því að neyta réttinda, sem séu svo augljós að sönnur verði færðar á þau með þeim gögnum sem aflað verður samkvæmt 83. gr. laganna. Eins og málið liggi fyrir verði ekki séð að gerðarbeiðandi hafi lagt fram viðhlítandi gögn til stuðnings kröfu sinni og beri því að hafna henni.

                Í 3. mgr. 83. gr. aðfararlaganna sé að finna reglu, sem mæli fyrir um að dómari skuli að jafnaði hafna aðfararbeiðni, telji hann það varhugavert á grundvelli þeirra gagna, sem heimilt sé að byggja á samkvæmt 1. og 2. mgr. sömu lagagreinar. Leiki minnsti vafi á túlkun um réttmæti kröfu gerðarbeiðanda, beri að hafna henni og megi það jafnframt sjá af dómaframkvæmd. Í þessu máli leiki verulegur vafi á því að lánasamningarnir séu lögmætir. Riftun, sem byggi á vanefndum samninganna, sé því ólögmæt og beri því að hafna kröfu gerðarbeiðanda.  

V.

                Gerðarbeiðandi byggir kröfu sína um innsetningu á ákvæðum 78. gr. aðfararlaga nr. 90/1989. Þar segir að heimilt sé að beina til héraðsdómara beiðni um að fullnægt verði með aðfarargerð skyldu gerðarþola til að veita gerðarbeiðanda umráð hlutar, ef gerðarbeiðanda er með ólögmætum hætti aftrað að neyta réttinda, sem hann telur sig eiga og vera svo ljós, að sönnur verðir færðar fyrir þeim með gögnum, sem aflað verður samkvæmt 83. gr. sömu laga. Samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 83. gr. laganna skal héraðsdómari að jafnaði hafna aðfararbeiðni, ef varhugavert verður talið að gerðin nái fram að ganga á grundvelli þeirra sönnunargagna sem heimilt er að afla.

Óumdeilt er og sýnt fram á með gögnum að gerðarbeiðandi er eigandi umræddra ökutækja en gerðarþoli er skráður umráðamaður þeirra. Byggjast umráð gerðarþola á svonefndum bílasamningum, þeim fyrri dagsettum 14. janúar 2008 vegna torfæruhjóls, og hinum seinni dagsettum 30. desember 2005 vegna snjósleða. Eins og ráða má af samningunum, voru ökutækin tekin á leigu hjá gerðarbeiðanda yfir tiltekið tímabil og gegn greiðslu leigu. Óumdeilt er að gerðarbeiðandi hefur síðan í júní 2009 ekki greitt gerðabeiðanda umkrafða leigu samkvæmt samningunum og rifti gerðarbeiðandi því þeim báðum 8. september 2009. Í málinu er uppi ágreiningur milli aðila um lögmæti samningsins, efndir hans og réttarsamband þeirra að öðru leyti. Ekki er heimilt að taka í máli þessu afstöðu til ágreinings aðila að öðru leyti en varðandi rétt til umráða yfir framangreindum ökutækjum og verður ekki úr öðrum ágreiningi aðila skorið í máli, sem rekið er á grundvelli 78. gr. aðfararlaga.

Hins vegar verður hér að líta til þess hvort gerðarþoli hefur vanefnt samninga sína við gerðarbeiðanda en í 1. mgr. 21. gr. beggja samninga segir að gerðarbeiðanda sé heimilt að rifta samningunum án fyrirvara ef leigutakar efna ekki skyldur sínar samkvæmt þeim, m.a. með því að inna ekki af hendi tilskildar greiðslur. Gögn málsins bera með sér að gerðarþoli hefur ekki greitt umkrafðar leigugreiðslur frá því í júní 2009 og er það óumdeilt. Samkvæmt ákvæðum samninganna var gerðarbeiðanda því heimilt að rifta samningum aðila, enda hafa engin gögn verið lögð fram til stuðnings því að útreikningur gerðarbeiðanda á vangreiddum leigugreiðslum stangist á við samningana. Verður því ekki fallist á það með gerðarþola að riftunin hafi verið ólögmæt. Að öllu framanrituðu virtu er það því niðurstaða dómsins að ekki sé óvarlegt að hinar umbeðnu gerðir fari fram.

Gerðarbeiðandi gerir í aðfararbeiðni sinni ekki kröfu um málskostnað og verður gerðarþoli því ekki úrskurðaður til greiðslu málskostnaðar, sbr. 3. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 84. gr. aðfararlaga nr. 90/1989.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Gerðarbeiðanda, Lýsingu hf., er heimil bein aðfarargerð til að fá hjá gerðarþola, Sigurði Pálmasyni, afhent torfæruhjól af gerðinni Polaris Sportsman, með fastanúmer IX-B96, og vélsleða af gerðinni Polaris IQ, með fastanúmer UR-830.

Málskostnaður úrskurðast ekki.