Hæstiréttur íslands

Mál nr. 320/2008


Lykilorð

  • Biðlaun


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. febrúar 2009.

Nr. 320/2008.

Hjartavernd

(Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.)

gegn

Guðfinnu Jónu Eggertsdóttur

(Gísli Guðni Hall hrl.)

 

Biðlaun.

G starfaði hjá H frá 1991 til 2005 þegar henni var sagt upp störfum vegna samdráttar í rekstri. Var starf hennar lagt niður. G, sem var félagsmaður í SFR, krafði H um laun í sex mánuði að frádregnum launum sem hún aflaði í öðru starfi á tímabilinu. Byggði hún kröfu sína á 3. gr. kjarasamnings H og SFR frá 29. mars 2001 um að réttindi og skyldur félagsmanna skyldu vera hliðstæð ákvæðum laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis þeirra laga sem kvað á um rétt til launa í sex mánuði fyrir starfsmann sem hefði verið í þjónustu ríkisins skemur en í 15 ár. Héraðsdómur taldi að orðið „hliðstæð“ í 3. gr. kjarasamningsins gæfi ótvíræða vísbendingu um að félagsmenn H í SFR nytu sambærilegrar réttarstöðu og þeir starfsmenn ríkisins sem lög nr. 70/1996 tækju beinlínis til, að svo miklu leyti sem fært þótti. Tilvitnuð lög hefðu öðlast gildi 1. júlí 1996. Eftir það hefðu kjarasamningar tvívegis verið gerðir milli H og SFR. Ætla yrði að H, sem viðsemjanda gagnvart SFR, hefði verið í lófa lagið að tilgreina nánar hvaða réttindi eða skyldur fælust í ákvæðinu eða eftir atvikum semja sig undan einhverjum ákvæðum umræddra laga. Það hefði H ekki gert og yrði því að bera ábyrgð á því. Var fallist á það með G að hún hefði á grundvelli 3. gr. kjarasamnings H og SFR átt rétt til hliðstæðra bóta og mælt væri fyrir um í 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 70/1996. Var þessi niðurstaða héraðsdóms staðfest með vísan til forsendna hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. júní 2008 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst sýknu af kröfum stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Hjartavernd, greiði stefndu, Guðfinnu Jónu Eggertsdóttur, 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. febrúar 2008.

Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 5. febrúar sl., er höfðað með stefnu, birtri 12. mars 2007.

Stefnandi er Guðfinna Jóna Eggertsdóttir, Fljótaseli 6, Reykjavík, en stefndi er Hjartavernd, Holtasmára 1, Kópavogi.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða henni bætur að fjárhæð 271.486 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 72.359 krónum frá 30. september 2005, af 36.891 krónu frá 31. október 2005, af 36.891 krónu frá 30. nóvember 2005, af 36.891 krónu frá 31. desember 2005, af 37.812 krónum frá 31. janúar 2006 og af 50.642 krónum frá 28. febrúar 2006, í hverju tilviki til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu, að mati dómsins.  

Stefndi krefst sýknu af  öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi, að skaðlausu.

Málsatvik og ágreiningsefni

Stefndi er frjáls félagasamtök, stofnuð árið 1964 af svæðisbundnum hjarta- og æðasjúkdómavarnafélögum á Íslandi. Samkvæmt stofnsamþykktum er heiti samtakanna Hjartavernd, samtök hjarta- og æðasjúkdómavarnafélaga á Íslandi, og er tilgangur þeirra barátta við hjarta- og æðasjúkdóma, útbreiðslu þeirra og afleiðingar. Samþykktum samtakanna var breytt á aðalfundi 14. júní 2005 og heita þau nú Hjartavernd sjálfseignarstofnun, skrifað Hjartavernd ses.

Stefnandi var ráðin til skrifstofustarfa hjá stefnda með munnlegum, ótímabundnum ráðningarsamningi 20. mars 1991. Vegna samdráttar í rekstri var henni sagt upp störfum 31. maí 2005, með þriggja mánaða fyrirvara. Vann hún út uppsagnarfrestinn og lét af störfum 31. ágúst 2005. Ekki er um það deilt að starf hennar var þá lagt niður. Þá er og óumdeilt að stefnandi var allan starfstímann félagsmaður í SFR, Stéttarfélagi í almannaþágu.

Eftir uppsögn stefnanda ritaði framkvæmdastjóri SFR framkvæmdastjóra stefnda bréf, þar sem vakin var athygli á rétti stefnanda til biðlauna í sex mánuði eftir að starf hennar var lagt niður. Vísað var til 3. gr. kjarasamnings stefnda og SFR frá 29. mars 2001, svohljóðandi: „Réttindi og skyldur félagsmanna skulu vera hliðstæð ákvæðum laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.“ Bréfi þessu var ekki svarað. Leitaði stefnandi þá til lögmanns, er ritaði stefnda bréf í maí 2006, og setti þar fram bótakröfu á hendur stefnda á grundvelli 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis í lögum nr. 70/1996. Fjárhæð kröfunnar byggðist á útreikningi hagfræðings SFR, að frádregnum launum sem stefnandi hafði aflað sér annars staðar á tímabilinu. Bréfi þessu var ekki svarað skriflega, en þeirri afstöðu þó komið munnlega á framfæri að ekki yrði fallist á kröfur stefnanda. Er mál þetta risið af ágreiningi aðila um greiðsluskyldu.

Við aðalmeðferð gaf skýrslu fyrir dóminum Hjördís Haraldsdóttir Kröyer, fyrrum framkvæmdastjóri Hjartaverndar. Kvaðst hún hafa ráðið stefnanda til starfa á árinu 1991. Hafi ráðningarsamningurinn verið munnlegur og ráðningin ótímabundin, en með gagnkvæmum þriggja mánaða uppsagnarfresti. Hafi stefnandi þá þegar óskað eftir því að vera félagi í Starfsmannafélagi ríkisstofnana og hafi stefndi þurft að leita eftir samþykki starfsmannafélagsins til þess að verða við þeirri beiðni. Á starfstíma sínum kvaðst hún oft hafa þurft að segja upp starfsfólki, en aldrei hafi biðlaun komið til tals. 

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi kveðst byggja kröfu sína á samningi stefnda og SFR frá 29. mars 2001, og eldri samningum sama efnis, en í 3. gr. samningsins segi að réttindi félagsmanna, sem starfi hjá stefnda, skuli vera hliðstæð ákvæðum laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis þeirra laga segi orðrétt: „Sé starf lagt niður á starfsmaður, sem skipaður hefur verið eða ráðinn í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku laga þessara og fallið hefur undir lög nr. 38/1954, en telst ekki embættismaður skv. 22. gr. laga þessara, rétt til bóta er nemi launum í sex mánuði, ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins skemur en í 15 ár, en ella í tólf mánuði. Að öðru leyti gilda um bótarétt og bótafjárhæð ákvæði 34. gr.“

Þar sem stefnandi hafi starfað óslitið hjá stefnda allt frá því á árinu 1991 til ágústloka 2005, eigi hún rétt til bóta samkvæmt orðalagi brábirgðaákvæðisins, svo og ákvæði 3. gr. samnings stefnda og SFR.

Við munnlegan flutning málsins mótmælti stefnandi þeirri málsástæðu stefnda að samningur stefnda og SFR frá 29. mars 2001 hefði ekkert eða takmarkað gildi í máli þessu, þar sem honum hefði verið sagt upp af SFR og fallið úr gildi í árslok 2004, en benti þess í stað á að samningurinn héldi gildi sínu þar til nýr hefði verið gerður. Í tilviki stefnanda hefði samningurinn því verið í gildi. Við sama tækifæri mótmælti stefndi einnig þeim rökum stefnda að 3. gr. samnings stefnda og SFR veitti stefnanda ekki öll þau réttindi sem ríkisstarfsmenn nytu, enda sé ekki kveðið fortakslaust á um það í ákvæðinu. Taldi stefnandi að ákvæði 3. gr. yrði ekki skilið á þann hátt að það veitti stefnda val um það hvaða réttinda félagsmenn nytu og hvaða ekki.

 Bótakrafa stefnanda nemur þeim launum sem hún hefði haft hjá stefnda á næstu sex mánuðum eftir að staða hennar var lögð niður, þ.e. á tímabilinu frá 1. september 2005 til og með 28. febrúar 2006, og miðast við útreikning hagfræðings SFR. Laun sem hún aflaði í öðru starfi á tímabilinu koma til frádráttar bótakröfunni samkvæmt 34. gr. laga nr. 70/1996. Krafan er sundurliðuð í stefnu og sætir fjárhæð hennar ekki ágreiningi.

Kröfu um dráttarvexti frá og með gjalddaga launa hverju sinni byggir stefnandi á III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Um málskostnað vísar stefnandi til 130. gr. laga um meðferð einkamála. Þá er gerð krafa um að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til skyldu stefnanda til greiðslu virðisaukaskatts af lögmannsþóknun, þar sem hún njóti ekki frádráttar vegna skattsins.

Málsástæður stefnda og lagarök

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi að fullu gert upp laun við stefnanda á grundvelli samningsbundins uppsagnarfrests, og því eigi stefnandi engar frekari kröfur á hendur honum. Því til stuðnings er á það bent að stefnandi hafi verið ráðin til starfa hjá stefnda árið 1991 og hafi ráðningin verið ótímabundin með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Ráðning stefnanda og ráðningarkjör hafi síðar verið staðfest með skriflegum ráðningarsamningi 16. október 2002 og hafi þá verið áréttað að ráðningin væri ótímabundin og uppsagnarfrestur samkvæmt kjarasamningi. Stefndi sé frjáls félagasamtök, rekin fyrir sjálfsaflafé, og falli því ekki undir lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, né lög nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Hins vegar sé stefndi vinnuveitandi á almennum vinnumarkaði.

Til frekari stuðnings kröfu sinni tekur stefndi fram að hann hafi í mars 2001 undirritað kjarasamning við stéttarfélag stefnanda, SFR. Um einhliða, staðlaðan samning hafi verið að ræða, sem SFR hafi lagt fyrir stefnda til samþykktar. Samningurinn hafi ekki verið borinn undir félagsmenn SFR hjá stefnda í leynilegri atkvæðagreiðslu. SFR hafi sagt þeim samningi upp 28. september 2004 með þriggja mánaða uppsagnarfresti og hafi samningurinn því fallið úr gildi fyrir uppsögn í árslok 2004. Af þeim sökum telur stefndi að samningurinn hafi ekkert eða mjög takmarkað gildi. Um leið mótmælir stefndi því að réttur hans til segja upp ráðningarsamningi við stefnanda hafi verið takmarkaður með gerð kjarasamnings stefnda og SFR árið 2001. Áréttar hann að samningurinn hafi ekki verið ræddur eða kynntur sem breyting á réttarstöðu félagsmanna SFR hjá stefnda og aldrei hafi verið um það rætt að veita ætti starfsmönnum stefnda biðlaunarétt eða önnur réttindi ríkisstarfsmanna. Þá hafi stefndi ekki notið aðstoðar sérfræðinga og því ekki haft kunnáttu til að meta þýðingu tilvísana til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eða kjarasamninga opinberra starfsmanna. Hins vegar hafi eftir gerð þessa kjarasamnings verið áréttað við stefnanda, með skriflegum ráðningarsamningi, að ráðning væri ótímabundin með uppsagnarfresti samkvæmt kjarasamningi.

Fallist dómurinn á þau sjónarmið stefnanda að stefndi hafi með gerð kjarasamnings við SFR árið 2001 veitt starfsmönnum sínum hliðstæð réttindi og ríkisstarfsmenn njóti, byggir stefndi á því að stefnandi njóti samt sem áður ekki biðlaunaréttar hjá stefnda. Þannig sé ekki fortaklaust kveðið á um það í 3. gr. kjarasamnings milli stefnda og SFR að starfsmenn stefnda njóti allra þeirra réttinda sem ríkisstarfsmenn njóti. Einungis sé vísað til þess að réttindi starfsmanna stefnda skuli vera „hliðstæð“ ákvæðum laga nr. 70/1996. Þar sem í biðlaunarétti felist mjög sértæk réttindi, þ.e. skaðabætur til ríkisstarfsmanns vegna niðurlagningar stöðu, verði biðlaunarétturinn ekki færður yfir á starfsmenn á almennum vinnumarkaði, nema fyrir liggi afdráttarlaus ákvæði þar um.

Loks byggir stefndi á því að stefnandi hafi ekki verið ráðin árið 1991 með réttarstöðu ríkisstarfsmanns og því ekki notið biðlaunaréttar eða annarra réttinda ríkisstarfsmanns. Biðlaunaréttur ríkisstarfsmanna hafi verið felldur niður árið 1996 með lögum nr. 70/1996, og hafi þá aðeins þeir sem verið hafi í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku laganna haldið rétti sínum til biðlauna, sbr. bráðabirgðaákvæðið sem stefnandi byggir kröfu sína á.

Í greinargerð mótmælti stefndi sérstaklega dráttarvaxtakröfu stefnanda, en féll frá þeim mótmælum í málflutningi. Krafa hans um málskostnað er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, aðallega 130. og 131. gr. þeirra laga.

Niðurstaða

Fram er komið að stefnandi hóf störf hjá stefnda í marsmánuði 1991, en var sagt upp störfum 31. maí 2005 með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Starfaði hún út uppsagnarfrestinn og lét af störfum 31. ágúst sama ár. Ekki er um það ágreiningur að starf hennar var þá lagt niður. Allan starfstímann var hún félagi í Starfsmannafélagi ríkisstofnana, nú Stéttarfélagi í almannaþágu, skammstafað SFR. Ráðningarsamningur hennar og stefnda var í upphafi munnlegur, en fyrrum framkvæmdastjóri stefnda hefur borið fyrir dómi að ráðningin hafi verið ótímabundin með þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti. Í máli framkvæmdastjórans kom einnig fram að ekki hafi tíðkast að gera skriflega ráðningarsamninga við starfsfólk fyrr en á árinu 2001. Skriflegur ráðningarsamningur var gerður við stefnanda 16. október 2002. Kemur þar fram að ráðningartími sé ótímabundinn, en um uppsagnarfrest er vísað til kjarasamnings SFR, sem jafnframt er skráð sem stéttarfélag stefnanda.

Meðal gagna málsins er samkomulag um réttarstöðu félagsmanna Starfsmannafélags ríkisstofnana sem starfa hjá Hjartavernd. Samkomulagið er dagsett 10. október 1977 og undirritað af  Hjördísi Kröyer f.h. Hjartaverndar, Kristjáni Thorlacius f.h. BSRB og  Einari Ólafssyni f.h. SFR. Í 1. gr. þessa samkomulags segir: „Um kjör ofangreindra starfsmanna skal farið eftir aðalkjarasamningi BSRB eins og hann er á hverjum tíma og l. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.“ 

Í málinu liggur einnig fyrir samningur milli stefnda og Starfsmannafélags ríkisstofnana um réttarstöðu félagsmanna SFR, dagsettur 16. september 1997. Í meginatriðum er sá samningur samhljóða samningi milli sömu aðila frá 29. mars 2001. Samkvæmt 3. gr. hans skulu réttindi og skyldur félagsmanna vera hliðstæð ákvæðum laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í 7. gr. eldri samnings, er svarar til 6. gr. samningsins frá 29. mars 2001, kemur fram að segi annar hvor aðili samningnum upp, skuli það gert með a.m.k. þriggja mánaða fyrirvara og gildi um þá uppsögn ákvæði 12. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Taka má undir þau sjónarmið stefnda að Hjartavernd sé nú félagasamtök sem rekin eru fyrir sjálfsaflafé og falli starfsmenn samtakanna því ekki undir gildissvið laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. 1. gr. þeirra laga. Það fær þó ekki haggað þeirri staðreynd að stefnda var heimilt að semja um að starfsmenn samtakanna væru félagar í Starfsmannafélagi ríkisstofnana og nytu sömu eða sambærilegra starfskjara og réttinda og aðrir félagsmenn í því stéttarfélagi. Hér að ofan  er rakið að stefndi gerði slíka samninga við SFR fyrir hönd starfsmanna sinna, þ.á m. stefnanda, og er síðasti samningur þessa efnis frá 29. mars 2001. Þótt stefndi hafi við þá samningsgerð ekki notið sérfræðiaðstoðar og ekki haft þekkingu til að meta þýðingu þeirra ákvæða sem þar var vísað til, eða ekki borið samninginn undir atkvæði félagsmanna SFR hjá stefnda, eins og stefndi hefur haldið fram, verður stefndi sjálfur að bera hallann af því. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að kjarasamningurinn var stefnda tæpast nokkur nýlunda þar eð fyrri samningar við SFR um réttarstöðu starfsmanna stefnda voru nánast samhljóða þeim sem undirritaður var 29. mars 2001. Ekki verður heldur séð að skriflegur ráðningarsamningur sem stefnandi undirritaði rúmu ári síðar, 16. október 2002, hafi nokkru breytt um réttarstöðu stefnanda, enda var þar ekki mælt fyrir um neitt annað en áður hafði verið samið um.

Með bréfi 28. september 2004 frá framkvæmdastjóra SFR var kjarasamningi stefnda og SFR sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara. Í bréfinu var þess getið að fyrri samningur héldi gildi sínu þar til nýr hefði verið gerður. Var það í samræmi við ákvæði 6. gr. samnings aðila frá 29. mars 2001, sbr. og 2. mgr. 12. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Kjarasamningur stefnda og SFR var því í fullu gildi þegar stefnanda var sagt upp störfum 31. maí 2005.

Í 3. gr. títtnefnds samnings stefnda og SFR um réttarstöðu félagsmanna SFR segir að réttindi og skyldur félagsmanna skuli verða hliðstæð ákvæðum laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Engar nánari skýringar er að finna á því við hvaða réttindi og skyldur sé þar átt. Orðið „hliðstæð“ gefur engu að síður ótvíræða vísbendingu um að félagsmenn stefnda í SFR njóti sambærilegrar réttarstöðu og þeir starfsmenn ríkisins sem lög nr. 70/1996 taka beinlínis til, að svo miklu leyti sem fært þykir. Tilvitnuð lög öðluðust gildi 1. júlí 1996. Eftir það voru kjarasamningar tvívegis gerðir milli stefnda og SFR, þar sem mælt var fyrir um að starfsmenn stefnda skyldu njóta hliðstæðra réttinda og skyldna og kveðið var á um í lögum nr. 70/1996. Ætla verður að stefnda, sem viðsemjanda gagnvart SFR, hafi þá verið í lófa lagið að tilgreina nánar hvaða réttindi eða skyldur fælust í ákvæðinu, eða eftir atvikum semja sig undan einhverjum ákvæðum umræddra laga, ef honum þótti ástæða til. Það var þó ekki gert og verður stefndi að bera ábyrgð á því.

Með vísan til framanritaðs verður fallist á það með stefnanda að hún hafi á grundvelli 3. gr. kjarasamnings stefnda og SFR átt rétt til hliðstæðra bóta og mælt er fyrir um í 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Svara þær bætur til launa í sex mánuði frá starfslokum, að frádregnum launum sem stefnandi aflaði sér í öðru starfi á sama tíma, sbr. 34. gr. laga nr. 70/1996. Þar sem hvorki fjárhæð kröfunnar né dráttarvaxtakrafa sætir andmælum stefnda verða kröfur stefnanda teknar til greina eins og þær eru fram settar í stefnu.

Samkvæmt úrslitum málsins, sbr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, sem telst hæfilegur 350.000 krónur.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Hjartavernd, greiði stefnanda, Guðfinnu Jónu Eggertsdóttur, 271.486 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 72.359 krónum frá 30. september 2005, af 36.891 krónu frá 31. október 2005, af 36.891 krónu frá 30. nóvember 2005, af 36.891 krónu frá 31. desember 2005, af 37.812 krónum frá 31. janúar 2006 og af 50.642 krónum frá 28. febrúar 2006, í hverju tilviki til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda málskostnað að fjárhæð 350.000 krónur.