Hæstiréttur íslands
Mál nr. 15/2004
Lykilorð
- Samfélagsþjónusta
- Vararefsing
|
|
Fimmtudaginn 27. maí 2004. |
|
Nr. 15/2004. |
Guðmundur Teitur Guðbjörnsson(Jóhann H. Níelsson hrl. Guðjón Ólafur Jónsson hdl.) gegn íslenska ríkinu (Guðrún Margrét Árnadóttir hrl. Stefán Bj. Gunnlaugsson hdl.) |
Samfélagsþjónusta. Vararefsing.
G hafði á árunum 1998 til 2000 hlotið fjóra sektardóma og gengist undir tvö sektarboð, þar af í fjögur skipti vegna aksturs undir áhrifum áfengis. G sótti um að vararefsing þessara fésekta yrði fullnustuð með samfélagsþjónustu og var fallist á umsókn hans eftir að hann hafði gengist undir áfengismeðferð. Skömmu síðar þurfti lögregla tvívegis að hafa afskipti af G vegna ölvunar og afturkallaði fangelsismálastofnun ákvörðun sína um samfélagsþjónustu í kjölfarið. G taldi afturköllunina hafa verið ólögmæta. Talið var að umrædd afturköllun hafi verið lögmæt, enda sé það skilyrði þess að samfélagsþjónusta komi til álita, að dómþoli eigi ekki mál til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum, þar sem hann sé kærður fyrir refsiverðan verknað. Nægi í því sambandi að upp hafi komið mál þar sem viðkomandi sé grunaður um refsiverðan verknað. Þá var einnig talið að ákvörðun fangelsismálastofnunar um að afplánun G á vararefsingunni skyldi hefjast 11. apríl 2001 en ekki 18. sama mánaðar, líkt og tilkynnt hafði verið með bréfi stofnunarinnar, væri lögmæt. Þótti ekki varhugavert að leggja framburð starfsmanns stofnunarinnar til grundvallar um það, að G hafi sjálfur óskað eftir því að hefja afplánun þegar í stað. Var Í því sýknað af bótakröfu G.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 12. janúar 2004. Hann gerir þær dómkröfur, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér skaðabætur að fjárhæð 15.200.000 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 25. júní 2001 til 1. júlí sama ár, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður fyrir Hæstarétti verði látinn niður falla.
I.
Málavöxtum er lýst í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram hafði áfrýjandi á árunum 1998 til 2000 hlotið fjóra sektardóma og gengist undir tvö sektarboð, sem árituð voru af dómara, þar af í fjögur skipti vegna aksturs undir áhrifum áfengis. Vararefsing þessara fésekta var samtals 77 daga fangelsi. Með umsóknum 15. nóvember 2000 og 16. janúar 2001 sótti áfrýjandi um að vararefsingin yrði fullnustuð með samfélagsþjónustu samkvæmt IV. kafla A laga nr. 48/1988 um fangelsi og fangavist, sbr. lög nr. 22/1999. Eftir að starfsmaður fangelsismálastofnunar hafði kannað persónulega hagi áfrýjanda, sbr. 2. mgr. 23. gr. laganna með áorðnum breytingum, var ákveðið að fresta erindi hans þar til hann hefði farið í áfengismeðferð. Að henni lokinni ákvað fangelsismálastofnun 4. apríl 2001 að verða við umsókn áfrýjanda að því tilskildu, að hann féllist á þau skilyrði, sem sett yrðu fyrir samfélagsþjónustunni. Samkvæmt þeirri ákvörðun átti áfrýjandi að inna af hendi 100 klukkustunda samfélagsþjónustu á þremur til fjórum mánuðum. Fáum dögum síðar, eða 9. og 10. apríl, þurfti lögregla tvívegis að hafa afskipti af áfrýjanda vegna ölvunar og var hann í bæði skiptin handtekinn og færður í fangageymslur. Er þetta gerðist var áfrýjandi ekki búinn að undirrita samfélagsþjónustuskírteini, sbr. 3. mgr. 25. gr. laga nr. 48/1988, þar sem fram koma öll þau skilyrði, sem menn gangast undir, enda hafði ekki enn verið ákveðið hvaða vinnu hann skyldi inna af hendi. Hinn 11. apríl 2001 afturkallaði fangelsismálastofnun ákvörðun sína frá 4. apríl um samfélagsþjónustu með vísan til 2. mgr. 26. gr. laga nr. 48/1988 og tók þá ákvörðun að áfrýjandi skyldi afplána vararefsinguna með refsivist. Í öðru bréfi sama dag tilkynnti stofnunin að afplánun skyldi hefjast 18. apríl, en í báðum tilvikum var áfrýjanda veittur andmælafrestur til 17. apríl. Áfrýjandi telur, að framangreind afturköllun fangelsismálastofnunar hafi verið ólögmæt. Einnig hafi það verið ólögmætt að láta hann hefja afplánun þegar 11. apríl í stað 18. apríl sem ákveðið hafði verið.
II.
Samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 23. gr. laga nr. 48/1988 er það skilyrði þess að samfélagsþjónusta komi til álita, að dómþoli eigi ekki mál til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum, þar sem hann er kærður fyrir refsiverðan verknað. Þá er það einnig skilyrði samkvæmt 3. tölulið sömu greinar, að dómþoli sé hæfur til samfélagsþjónustu. Eins og að framan greinir hafði fangelsismálastofnun metið áfrýjanda hæfan til samfélagsþjónustu eftir að hann hafði gengist undir áfengismeðferð. Í þeim tveimur viðtölum, sem starfsmaður stofnunarinnar átti við áfrýjanda, var honum gerð ítarleg grein fyrir því skilyrði, að hann neytti ekki áfengis, það væri grundvallarskilyrði þess að hann væri hæfur til samfélagsþjónustu.
Fangelsismálastofnun reisti afturköllun sína á 2. mgr. 26. gr. laga nr. 48/1988 þar sem segir, að stofnunin geti afturkallað ákvörðun sína um samfélagsþjónustu, ef dómþoli er kærður fyrir að hafa framið refsiverðan verknað eftir að ákveðið er að fullnusta fangelsisrefsingu með samfélagsþjónustu. Áfrýjandi telur, að ekki sé unnt að líta svo á, að hann hafi verið kærður fyrir refsiverðan verknað í skilningi þessa ákvæðis. Það þurfi að liggja fyrir sterkar vísbendingar í formi gagna og upplýsinga um að háttsemi brotaþola hafi falið í sér verknað sem að lögum teljist refsinæmur. Telur hann að háttsemi hans 9. og 10. apríl hafi ekki fallið undir verknaðarlýsingu 21. gr. áfengislaga nr. 75/1998. Jafnframt telur hann, að það hefði átt að veita honum áminningu, sbr. 3. mgr. 26. gr. laga nr. 48/1988, áður en tekin var ákvörðun um afturköllunina.
Eins og að framan greinir er það skilyrði þess að samfélagsþjónusta komi til álita, að dómþoli eigi ekki mál til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum þar sem hann er kærður fyrir refsiverðan verknað. Það nægir því til að útiloka samfélagsþjónustu, að upp hafi komið mál þar sem viðkomandi er grunaður um refsiverðan verknað. Telja verður, að lögregluskýrslurnar 9. og 10. apríl um ölvun áfrýjanda hafi veitt fangelsismálastofnun nægar upplýsingar um brot hans og ekki hafi verið þörf á að kanna málið frekar af stofnunarinnar hálfu, en ósannað er annað en að lögregluskýrslurnar hafi legið fyrir áður en ákvörðun var tekin um afturköllun. Lögregla hafði tvívegis verið kölluð til að hafa afskipti af áfrýjanda vegna ölvunar hans á almannafæri og háttsemi hans gat varðað við 21. gr. áfengislaga og 3. gr. og 17. gr., sbr. 2. gr., lögreglusamþykktar fyrir Reykjavík nr. 625/1987. Þar sem vararefsing sú, sem áfrýjandi hafði fengið heimild til að afplána með samfélagsþjónustu, var að mestu leyti tilkomin vegna refsiverðra brota hans undir áhrifum áfengis og honum var ljóst, að hann fengi ekki að gegna samfélagsþjónustu nema að undangenginni áfengismeðferð, verður að líta svo á að brot hans hafi verið alvarleg. Var því ekki skylt að veita áfrýjanda áminningu áður en ákveðið var að hann skyldi afplána fangelsisrefsinguna. Með ölvun sinni 9. og 10. apríl hafði áfrýjandi brotið gegn því grundvallarskilyrði að neyta ekki áfengis til að teljast hæfur til að gegna samfélagsþjónustu, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 23. gr. laga nr. 48/1988. Er fallist á það með héraðsdómi, að afturköllun fangelsismálastofnunar á ákvörðun sinni um samfélagsþjónustu hafi verið lögmæt.
III.
Fram er komið, að forvarnarfulltrúi lögreglu hafði samband við starfsmann fangelsismálastofnunar 11. apríl 2001 og tilkynnti að áfrýjandi óskaði eftir að hefja afplánun strax og myndi ekki nýta sér andmælarétt sinn. Að morgni 11. apríl var áfrýjanda birt bréf fangelsismálastofnunar dagsett sama dag þess efnis, að fyrri ákvörðun um samfélagsþjónustu væri afturkölluð og var honum veittur frestur til 17. apríl til að koma fram andmælum. Áfrýjandi undirritaði bréfið um móttöku og var ritað á bréfið, að hann félli strax frá andmælum. Áfrýjanda var einnig birt 11. apríl 2001 ákvörðun fangelsismálastofnunar, sem dagsett var sama dag, þess efnis að afplánun 77 daga vararefsingar skyldi hefjast 18. apríl. Áfrýjandi undirritaði bréf þetta um móttöku þess. Starfsmaður fangelsismálastofnunar, sem birti honum framangreind bréf, fullyrti fyrir dómi, að áfrýjandi hafi verið hæfur til að meta aðstæður og falla frá andmælum og það hafi verið eindregin ósk hans sjálfs að fara strax í afplánun, enda hafi hann verið húsnæðislaus. Áfrýjandi bar fyrir dómi, að það væri ekki rétt að hann hefði óskað eftir því að hefja afplánun strax 11. apríl og taldi sig hafa verið í mjög slæmu ástandi, hann myndi ekki einu sinni eftir því hvað hann hefði sagt. Í kæru sinni til dómsmálaráðuneytis 18. apríl 2001 gerði áfrýjandi enga athugasemd við það að hann hafi verið settur í afplánun fyrr en staðið hafi til, og kom það fyrst fram í kæru lögmanns hans 8. maí 2001. Þykir ekki varhugavert að leggja framburð starfsmanns fangelsismálastofnunar til grundvallar um það, að áfrýjandi hafi sjálfur óskað eftir því að hefja afplánun þegar í stað. Telst ákvörðunin því vera lögmæt.
Samkvæmt framansögðu verður héraðsdómur staðfestur.
Rétt þykir að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október 2003.
Mál þetta, sem dómtekið var 8. október s.l., er höfðað með stefnu birtri 26. febrúar s.l.
Stefnandi er Guðmundur Teitur Guðbjörnsson, kt. 220556-2399, Grettisgötu 43, Reykjavík.
Stefndi er íslenska ríkið og fyrir þess hönd er stefnt dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra.
Dómkröfur stefnanda eru þær í fyrsta lagi að viðurkennt verði með dómi að ákvörðun fangelsismálastofnunar ríkisins frá 11. apríl 2001, sem staðfest var með úrskurði dómsmálaráðherra 17. maí sama ár, um að afturkalla ákvörðun stofnunarinnar frá 4. apríl 2001 um að heimila stefnanda að afplána vararefsingu með samfélagsþjónustu, hafi verið ólögmæt. Í öðru lagi að viðurkennt verði með dómi að ákvörðun fangelsismálastofnunar ríkisins frá 11. apríl 2001, sem staðfest var með úrskurði dómsmálaráðherra 17. maí sama ár, um að gera stefnanda að hefja þá þegar hinn 11. apríl 2001 afplánun vararefsingar, sem ekki átti að hefjast fyrr en 18. apríl sama ár, hafi verið ólögmæt. Í þriðja lagi að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð kr. 15.200.000 auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 25. júní 2001 til 1. júlí sama ár, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu samkvæmt málskostnaðarreikningi eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati dómsins. Til vara er krafist stórkostlegrar lækkunar á stefnukröfum og málskostnaður í því tilviki verði látinn niður falla. Stefndi telur að vísa beri frá dómi ex officio ofangreindum viðurkenningarkröfum stefnanda.
Stefnanda var veitt gjafsókn í máli þessu með leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis dagsettu 24. mars sl.
Málavextir.
Málavextir eru þeir að með umsóknum dagsettum 15. nóvember 2000 og 16. janúar 2001 sótti stefnandi, með vísan til IV. kafla laga nr. 48/1988 um fangelsi og fangavist með síðari breytingum, um að afplána með ólaunaðri samfélagsþjónustu samtals 77 daga vararefsingu fésekta samkvæmt sex ákvörðunum dómstóla frá 19. febrúar 1998 til 27. júlí 2000. Munu fjórir dómanna til komnir vegna aksturs stefnanda undir áhrifum áfengis en tvö sektarboð munu vera vegna annarra umferðarlagabrota. Stefnanda mun hafa verið birt ákvörðun 16. janúar 2001 um að hann ætti að afplána 53 daga af umræddum vararefsingum og segir í umsögn lögreglustjórans í Reykjavík vegna þessarar umsóknar að stefnandi segist vera nýbúinn að ljúka meðferð gegn áfengissýki á sjúkrastöðinni Vogi og stundi fundi hjá AA samtökunum auk funda með ráðgjöfum gegn áfengissýki. Daginn eftir tók Margrét Sæmundsdóttir, starfsmaður fangelsismálastofnunar, svonefnda persónuskýrslu af stefnanda. Þar kemur fram að hann hafi verið í sambúð frá því í janúar en hafi verið hent út fyrir tveimur dögum. Hann eigi hvergi heimili en sé að leita sér að samastað og kveðst myndu kanna aðstöðu hjá systur sinni. Hann segir áfengisvanda sinn hafa byrjað árið 1987 og hafi hann verið í túraneyslu. Stefnandi segir í skýrslunni að hann hafi farið fjórum sinnum í meðferð og eina heila meðferð. Hann hafi verið á Vogi frá 2. desember til 10. desember og stundi prógramm með M-hópnum í Síðumúla. Ákveðið mun hafa verið að fresta afgreiðslu erindis stefnanda þar til hann hefði lokið áfengismeðferð í Hlaðgerðarkoti og samkvæmt gögnum málsins dvaldi hann þar frá 27. janúar til 2. mars 2001 og frá 13. mars til 16. mars sama ár. Í skýrslu áðurgreindrar Margrétar dagsettri 31. mars sama ár segir svo meðal annars að stefnandi hafi verið í símasambandi við hana og tvívegis mætt í viðtal eftir meðferðina og verið edrú og snyrtilegur í bæði skiptin. Hann leigi herbergi að Leifsgötu 16 en sé að leita sér að betra húsnæði. Þá er sagt að honum hafi verið gerð grein fyrir alvarleikanum haldi hann ekki edrúmennsku.
Með bréfi fangelsismálastofnunar til stefnanda dagsettu 4. apríl 2001 var honum tilkynnt að samkvæmt 1. mgr. 26. gr. b laga nr. 48/1988 og með heimild í 1. mgr. 24. gr. laganna, hefði verið ákveðið, með hliðsjón af breyttum persónulegum aðstæðum hans, að verða við umsókn hans um að afplána umræddar vararefsingar með ólaunaðri samfélagsþjónustu, enda féllist hann á þau skilyrði sem sett séu. Var lagt fyrir stefnanda að inna af hendi 100 klst. samfélagsþjónustu á 3-4 mánuðum.
Mánudaginn 9. apríl 2001 kl. 16:14 var óskað eftir lögreglu að Flókagötu 5 vegna ölvaðs manns er væri þar til vandræða. Segir í lögregluskýrslu að stefnandi hafi verið á vettvangi áberandi ölvaður og til vandræða. Hafi hann því verið handtekinn og færður í fangageymslur. Þá segir að sökum ölvunar stefnanda hafi ekki verið hægt að kynna honum rétt sinn. Daginn eftir kl. 19:23 var lögreglu tilkynnt um mann í annarlegu ástandi inni á Bílaleigunni ALP við Vatnsmýrarveg. Var lögreglu vísað á stefnanda og virtist þeim hann ölvaður og þar sem hann hefði ekki í hús að venda var hann fluttur á lögreglustöðina. Var stefnanda kynnt að hann væri handtekinn vegna ölvunarástands hans en ekki hafi verið unnt að kynna honum réttarstöðu handtekinna manna vegna þessa ástands. Stefnandi var færður í fangaklefa.
Í málinu liggja frammi tvö bréf fangelsismálastofnunar ríkisins til stefnanda, bæði dagsett 11. apríl 2001. Kemur þar fram að stofnuninni hafi borist upplýsingar frá lögreglustjóranum í Reykjavík um að stefnandi hafi verið kærður fyrir ölvun á almannafæri 9. og 10. apríl sama ár, sbr. 21. gr. áfengislaga, og verið vistaður í fangageymslu lögreglunnar. Í bréfunum er vísað til 2. mgr. 26. gr. laga um fangelsi og fangavist þar sem segir að hafi dómþoli verið kærður fyrir að hafa framið refsiverðan verknað eftir að ákveðið er að fullnusta refsivist með samfélagsþjónustu, geti fangelsismálastofnun þá ákveðið að ákvörðun um fullnustu refsingar með samfélagsþjónustu verði afturkölluð og dómþoli afpláni refsivistina. Er því lýst í bréfunum að fangelsismálastofnun telji í ljós leitt að stefnandi hafi brotið gegn ofangreindri lagagrein og verði að líta svo á að forsendur séu brostnar ef dómþoli fremur refsiverðan verknað eftir að ákvörðun um samfélagsþjónustu hefur verið tekin og með öllu óásættanlegt að samfélagsþjónusta hefjist eða haldi áfram í slíkum tilvikum. Öðru bréfinu lýkur með því að stefnanda er veittur frestur til 17. apríl sama ár til að koma fram andmælum vegna ofangreindrar ákvörðunar. Bréf þetta er áritað um móttöku af stefnanda að því er virðist sama dag og það er ritað og samkvæmt því fellur hann strax frá andmælum. Í hinu bréfinu segir að stefnanda hafi verið gefinn kostur á að koma fram andmælum til 17. apríl 2001 en engin andmæli hafi borist. Var lagt fyrir stefnanda að mæta í Hegningarhúsið við Skólavörðustíg 18. apríl sama ár til að hefja afplánun dómsins (svo). Þá var stefnanda bent á kæruheimild til dóms- og kirkjumálaráðuneytis. Bréf þetta er einnig áritað um móttöku af stefnanda. Óumdeilt er að stefnandi hóf þrátt fyrir þetta afplánun vararefsingar strax 11. apríl sama ár og segir stefnandi að mótmæli hans gegn því hafi verið að engu höfð. Stefndi heldur því hins vegar fram að stefnandi hafi sjálfur óskað eftir því að hefja afplánun strax til þess að honum yrði unnt að takast á við stjórnlausa áfengisneyslu sína.
Með bréfi dagsettu 18. apríl 2001 lagði stefnandi fram kæru á hendur fangelsismálastofnun til dóms- og kirkjumálaráðuneytis og virðist kæra hans snúast um það að stofnunin hafi verið búin að samþykkja afplánun vararefsingar með samfélagsþjónustu en sú ákvörðun hafi verið dregin til baka vegna áfengisneyslu hans áður en skrifað hafi verið undir og áður en hann vissi hvað hann ætti að vinna við. Lögmaður stefnanda sendi ráðuneytinu kröfugerð og frekari rökstuðning með kæru stefnanda með bréfi dagsettu 8. maí sama ár. Laut kæran þá annars vegar að þeirri ákvörðun fangelsismálastofnunar að afturkalla þá ákvörðun að heimila kæranda að afplána vararefsingu með samfélagsþjónustu og hins vegar að þeirri ákvörðun stofnunarinnar frá 11. apríl sama ár að gera stefnanda að hefja þá þegar afplánun vararefsingar sem ekki hafi átt að hefjast fyrr en 18. apríl sama ár. Var þess krafist annars vegar að ákvörðun fangelsismálastofnunar um að afturkalla ákvörðun um að heimila stefnanda að afplána vararefsingu með samfélagsþjónustu yrði felld úr gildi og hins vegar að viðurkennt yrði að ákvörðun stofnunarinnar um að gera stefnanda að hefja þegar afplánun vararefsingar 11. apríl 2001 hafi verið ólögmæt. Var sú sérstaka krafa gerð að þegar yrði mælt fyrir um lausn stefnanda úr fangelsi og að hann fengi að halda óskertu frelsi sínu, a.m.k. þar til úrskurður ráðuneytisins lægi fyrir. Með úrskurði dómsmálaráðherra dagsettum 17. maí 2001 voru fyrrgreindar ákvarðanir fangelsismálastofnunar staðfestar.
Með bréfi dagsettu 27. febrúar 2002 bar lögmaður stefnanda fram kvörtun við umboðsmann Alþingis vegna úrlausnar ráðuneytisins og í áliti sínu nr. 3461/2002 dagsettu 10. október sama ár komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að úrskurður ráðuneytisins, þar sem staðfest er ákvörðun fangelsismálastofnunar um að afturkalla ákvörðun stofnunarinnar um að veita stefnanda heimild til samfélagsþjónustu, hafi ekki verið í samræmi við lög. Þá var það niðurstaða umboðsmanns að fangelsismálastofnun hafi ekki verið heimilt að lögum að gera stefnanda að hefja afplánun vararefsingar fésektar strax 11. apríl 2001. Loks var það niðurstaða umboðsmanns að ráðuneytinu hafi verið skylt að taka kröfu lögmanns stefnanda um að fresta réttaráhrifum ákvörðunar fangelsismálastofnunar til efnislegrar meðferðar eins fljótt og því varð við komið. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til ráðuneytisins að það tæki mál stefnanda til endurskoðunar í samræmi við ofangreind sjónarmið, kæmi fram beiðni þess efnis frá honum, og leitaði þá leiða til að rétta hlut hans.
Að fengnu áliti umboðsmanns beindi lögmaður stefnanda þeirri fyrirspurn til dóms- og kirkjumálaráðherra hvort unnt væri að ná samkomulagi um bætur til handa stefnanda. Í svarbréfi ráðuneytisins dagsettu 23. október 2002 sagði að ráðuneytið væri ekki sammála áliti umboðsmanns í öllum efnum. Var þar m.a. vísað til skilyrðis sem stefnanda hafi verið fullkunnugt um að gilti fyrir hann eins og alla þá sem fái að gegna samfélagsþjónustu, en það sé bann við því að neyta áfengis eða fíkniefna á samfélagsþjónustutímabilinu, en eigi verði séð að fjallað sé nema lauslega um það í álitinu. Þá var ráðuneytið ósammála þeirri túlkun sem fram kom í álitinu að dvöl stefnanda í bílaleigu ALP geti hvorki talist ölvun á almannafæri né að verknaðarlýsing 21. gr. ætti við. Meðal annars af þessum sökum sá ráðuneytið sér ekki fært að taka upp samningaviðræður um bætur til handa stefnanda. Með vísan til þessarar afstöðu ráðuneytisins segir stefnandi að sér hafi verið nauðugur einn kostur að höfða mál þetta.
Samkvæmt vottorði fangelsismálastofnunar var afplánun stefnanda með eftirfarandi hætti árið 2001: Afplánun í Hegningarhúsinu frá 11. apríl til 26. apríl, á Litla Hrauni frá þeim degi til 27. apríl, á sjúkrahúsi frá þeim degi til 29. apríl, á Litla Hrauni frá þeim degi til 28. maí og á áfangaheimili Verndar frá þeim degi til 25. júní, en þann dag var hann látinn laus.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir á því að umræddar ákvarðanir fangelsismálastofnunar, sem staðfestar hafi verið með úrskurði dómsmálaráðherra hafi verið ólögmætar. Hafi stefnandi á grundvelli þessara ákvarðana og ólögmæts úrskurðar ráðherra verið ófyrirsynju sviptur frelsi í 76 daga. Hafi þetta valdið honum margvíslegu tjóni á líkama og sál og krefst hann af þeim sökum miskabóta vegna þeirrar ólögmætu frelsisskerðingar sem hann hafi þurft að sæta vegna úrskurðar dómsmálaráðherra.
Að því er ákvörðun um afturköllun fyrri ákvörðunar um afplánun vararefsingar með samfélagsþjónustu varðar byggir stefnandi á því í fyrsta lagi að lagaskilyrðum um afturköllun ákvörðunar hafi ekki verið fullnægt. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. b laga um fangelsi og fangavist gildi ákvæði 23.-26. gr. laganna um fullnustu vararefsingar með samfélagsþjónustu. Í 2. mgr. 26. gr. laganna sé mælt svo fyrir að fangelsismálastofnun geti tekið ákvörðun um afturköllun ákvörðunar um fullnustu með samfélagsþjónustu hafi dómþoli verið kærður fyrir að hafa framið refsiverðan verknað og að dómþoli afpláni þá fangelsisrefsingu. Hafi ákvörðun stofnunarinnar byggst á þessu ákvæði en ekki 1. mgr. 26. gr. laganna þar sem mælt sé fyrir um heimild til afturköllunar ákvörðunar um samfélagsþjónustu þegar einhver skilyrði hennar séu rofin. Hafi ákvörðun um afturköllun verið byggð á því að stefnandi hefði verið kærður fyrir refsiverðan verknað og í því skyni hafi verið vísað til 21. gr. áfengislaga.
Í öðru lagi er á því byggt að gögn um ætlað áfengislagabrot hafi ekki legið fyrir þegar umræddar ákvarðanir hafi verið teknar. Hafi lögmaður stefnanda fengið gögn málsins frá fangelsismálastofnun með bréfi dagsettu 2. maí 2001 og sé þar hvergi minnst á lögregluskýrslur og þær hafi ekki fylgt öðrum gögnum málsins. Þá hafi stefnandi ekki verið inntur eftir afstöðu sinni til sakarefnisins og honum ekki gefinn kostur á að tjá sig um ætlað brot sitt, hvorki við meðferð málsins hjá fangelsismálastofnun né hjá dómsmálaráðuneyti. Skorti því verulega á að mál stefnanda hafi verið nægilega upplýst áður en ákvörðun hafi verið tekin, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga. Hafi þó verið brýn ástæða til þess þar sem ákvörðunin hafi falið í sér afturköllun fyrri ívilnandi ákvörðunar og haft í för með sér frelsissviptingu fyrir stefnanda.
Í þriðja lagi er á því byggt að 2. mgr. 26. gr. laga um fangelsi og fangavist verði ekki skilin þannig að eingöngu nægi að fyrir liggi formleg kæra um refsiverða háttsemi. Verði litið svo á að lögregluskýrslur hefðu legið fyrir þegar fangelsismálastofnun tók umrædda ákvörðun, hafi þær einar sér ekki getað verið grundvöllur slíkrar ákvörðunar. Megi draga þá ályktun af áliti umboðsmanns Alþingis, lögskýringargögnum og skoðunum fræðimanna að til þess að skilyrði 2. mgr. 26. gr. laganna séu uppfyllt þurfi að liggja fyrir nokkuð sterkar vísbendingar í formi gagna og upplýsinga um að háttsemi varði við refsilög. Hafi ekki farið fram fullnægjandi rannsókn á ætlaðri refsiverðri háttsemi megi ganga út frá því að skilyrði 2. mgr. 26. gr. laganna séu ekki uppfyllt. Beri enn fremur að hafa í huga þá meginreglu að allan vafa beri að skýra sakborningi í hag og jafnframt að um afturköllun verulega ívilnandi ákvörðunar sé að ræða, en það geri kröfur um að mál sé vel rannsakað og upplýst áður en ákvörðun sé tekin.
Í fjórða lagi byggir stefnandi á því að háttsemi hans hafi ekki fallið undir 21. gr. áfengislaga, en refsinæmi slíks verknaðar sé háð því að sökum ölvunar hafi verið valdið óspektum, hættu eða hneyksli á almannafæri, á opinberum samkomum, í bifreiðum eða öðrum farartækjum eða skipum. Það sé því ekki refsivert eitt og sér að vera ölvaður á almannafæri, en skýra verði refsiákvæði þröngt. Stefnandi byggir á því að hvorug lögregluskýrslan hafi gefið tilefni til að ætla að stefnandi hafi brotið gegn 21. gr. áfengislaga.
Í fimmta lagi byggir stefnandi á því að jafnvel þótt talið yrði að stefnandi hefði gerst brotlegur við 21. gr. áfengislaga hafi fangelsismálastofnun verið óheimilt að afturkalla ákvörðun sína án þess að veita honum áður lögbundna áminningu samkvæmt 3. mgr. 26. gr. laga um fangelsi og fangavist, en ætlað áfengislagabrot stefnanda, þótt sannað væri, gæti ekki talist alvarlegt í skilningi lagagreinarinnar.
Í sjötta lagi er á því byggt að meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga hafi verið brotin, en samkvæmt 1. mgr. 26. gr., sbr. 1. mgr. 26. gr. b laga um fangelsi og fangavist geti fangelsismálastofnun gripið til þriggja úrræða rjúfi dómþoli skilyrði samfélagsþjónustu. Í fyrsta lagi geti stofnunin ákveðið að skilyrðum samfélagsþjónustu skuli breytt, í öðru lagi geti hún lengt samfélagsþjónustutímann og í þriðja lagi geti hún ákveðið að fangelsisrefsing skuli afplánuð. Sé ljóst að stofnunin hafi gripið til harðasta úrræðisins og því gengið mun lengra en nauðsyn hafi borið til.
Í sjöunda lagi er á því byggt að andmæla- og upplýsingaréttur hafi verið brotinn á stefnanda, sbr. 13. gr. og 15. gr. stjórnsýslulaga. Hafi stefnandi verið staddur í fangageymslum lögreglu þegar honum hafi verið birt bréf fangelsismálastofnunar, en hann hafi verið nývaknaður og illa haldinn af áfengisneyslu undanfarinna daga. Hafi hann því ekki verið í nokkru ástandi til annars en að láta undan þrýstingi starfsmanns stofnunarinnar og falla frá lögbundnum andmælarétti sínum. Hafi stefnanda verið gefinn frestur til 17. apríl 2001 til að koma á framfæri athugasemdum sínum og engin þörf hafi verið á að stytta þann frest. Hafi stefnanda enginn kostur gefist á því að kynna sér gögn málsins eða réttarstöðu sína. Þá hafi honum ekki gefist færi á að ráðfæra sig við lögmann og verði því að telja að andmælaréttur sá er stofnunin teldi sig hafa veitt stefnanda hafi verið hjóm eitt og geti ekki talist uppfylla ákvæði 13. gr. stjórnsýslulaga. Hafi í ljósi fyrirhugaðrar frelsisskerðingar stefnanda verið sérstaklega brýnt að vönduðum stjórnsýsluháttum yrði fylgt í hvívetna og sé ákvörðun stofnunarinnar því enn fremur ólögmæt af þessum ástæðum.
Að því er varðar ákvörðun fangelsismálastofnunar um að afplánun refsingar skyldi hefjast þegar í stað 11. apríl 2001 í stað 18. apríl sama ár er á því byggt í fyrsta lagi að um bindandi ákvörðun hafi verið að ræða. Í öðru lagi er á því byggt að ákvörðunin hafi verið ólögmæt að formi og efni til, en stofnunin hafi enga heimild haft að lögum til að gera stefnanda að hefja þá þegar afplánun sem hann átti að hefja sjö dögum síðar. Þá er á því byggt að um nýja efnislega ákvörðun hafi verið að ræða og hafi stofnunin þurft að leita samþykkis stefnanda fyrir henni. Vísar stefnandi til 25. gr. stjórnsýslulaga í þessu samhengi. Stefnandi byggir einnig á því að í stjórnsýslurétti hafi verið talið að gera verði þeim mun strangari kröfur til lagaheimildar því meiri skerðingu eða röskun sem ákvörðun stjórnvalds hefur í för með sér á persónulega hagsmuni borgaranna. Sé í þessu sambandi talað um styrkleikasjónarmiðið. Sé ekki hægt að líta öðru vísi á en að stefnandi hafi sætt ólögmætri frelsisskerðingu frá 11.-18. apríl 2001 og breyti engu þótt sá tími teljist til afplánunartíma stefnanda.
Stefnandi rökstyður fjárkröfu sína þannig að í stað þess að afplána vararefsingu sína með rúmlega 100 klukkustunda samfélagsþjónustu eins og honum hafi verið heimilað hafi honum verið gert að afplána 76 sólarhringa í fangelsi en það svari til rúmlega 1800 klukkustunda. Megi af ákvæðum 23. gr. laga um fangelsi og fangavist ráða að unnt sé að fullnusta hvern mánuð í fangelsisrefsingu með 40 klukkustunda ólaunaðri samfélagsþjónustu. Stefnandi byggir á 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar þar sem mælt sé fyrir um að maður skuli eiga rétt til skaðabóta hafi hann verið sviptur frelsi að ósekju. Þá er á því byggt að stefndi beri ábyrgð gagnvart stefnanda samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar á því tjóni sem hlotist hafi af fyrrgreindum ólögmætum stjórnsýsluákvörðunum. Sé ljóst að fyrirvaralaus og langvarandi frelsissvipting stefnanda hafi valdið honum verulegum miska. Er á því byggt af hálfu stefnanda að hinar ólögmætu ákvarðanir hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn frelsi stefnanda, sbr. 26. gr. skaðabótalaga og eigi hann því rétt á miskabótum úr hendi stefnda.
Stefnandi byggir á því að hann hafi orðið fyrir miklum andlegum þjáningum meðan á fangelsisvist hans hafi staðið. Hann hafi aldrei áður setið í fangelsi og verið bugaður af vanlíðan. Hann hafi verið hræddur, átt bágt með svefn og þá hafi hann þjáðst að kvíða, eirðarleysi og þunglyndi. Eftir að hann hafi orðið fyrir líkamsárás á Litla Hrauni hafi hann vart þorað út úr klefa sínum og svo rammt hafi kveðið að andlegum þjáningum hans að hann hafi fengið mikið magasár og verið fluttur á sjúkrahús. Sé líklegt að hann hafi beðið varanlegt líkamstjón vegna þessa og segist hann ekki hafa treyst sér til nokkurrar vinnu eftir að fangavistinni lauk. Stefnandi gerir kröfu um að fá greiddar kr. 200.000 í miskabætur fyrir hvern dag sem hann var sviptur frelsi og telur þeirri kröfu í hóf stillt miðað við aðdraganda og afleiðingar umræddra stjórnsýsluákvarðana.
Auk framangreindra lagaákvæða vísar stefnandi til ákvæða Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. auglýsingu nr. 10/1979. Dráttarvaxtakrafa er reist á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Málskostnaðarkrafa er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi telur að vísa beri frá dómi ex officio viðurkenningarkröfum stefnanda og er sú skoðun á því byggð að málsástæður og lagarök verði ekki gerðar að sjálfstæðum dómkröfuliðum. Bótakrafa stefnanda sé reist á því að á grundvelli framangreindra ákvarðana fangelsismálastofnunar ríkisins hafi stefnandi á ólögmætan hátt verið sviptur frelsi og gert að afplána vararefsingu með fangelsisvist í stað samfélagsþjónustu. Hafi hann verið sviptur frelsi að ósekju í 76 daga og beri bætur samkvæmt 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar og almennum reglum skaðabótaréttar og hafi hinar ólögmætu ákvarðanir falið í sér ólögmæta meingerð gegn frelsi hans, sbr. 26. gr. skaðabótalaga og eigi hann því rétt til miskabóta úr hendi stefnda. Telur stefndi að í viðurkenningarkröfu stefnanda felist þannig þær málsástæður sem liggi til grundvallar bótakröfunni og beri því að vísa þeim frá dómi.
Sýknukrafa stefnda er á því byggð að ákvörðun fangelsismálastofnunar um að afturkalla þá ákvörðun sína að heimila stefnanda að afplána vararefsingu með samfélagsþjónustu hafi í einu og öllu verið lögmæt. Þá hafi afplánun stefnanda sem hófst þegar 11. apríl 2001 í stað 18. apríl sama ár komið til að ósk stefnanda sjálfs og því í einu og öllu lögmæt.
Stefndi byggir á því að meðal þeirra skilyrða að samfélagsþjónusta komi til álita, sbr. 2. tl. 1. mgr. 23. gr. laga um fangelsi og fangavist, séu að dómþoli eigi ekki mál til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum þar sem hann sé kærður fyrir refsiverðan verknað. Þá segi í 25. gr. laganna að samfélagsþjónusta skuli m.a. bundin þeim skilyrðum að dómþoli gerist ekki sekur um refsiverðan verknað á þeim tíma sem samfélagsþjónusta er innt af hendi, sbr. 1. tl. 1. mgr. og þá megi samkvæmt 2. mgr. binda samfélagsþjónustu þeim skilyrðum er geinir í 2.-6. tl. 3. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga, þar á meðal að viðkomandi neyti hvorki áfengis né deyfilyfja, sbr. 3. tl. 3. mgr. 57. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga um fangelsi og fangavist ákveði fangelsismálastofnun hvort skilyrðum samfélagsþjónustu skuli breytt, tími sem samfélagsþjónusta er innt af hendi skuli lengdur eða hvort fangelsisrefsing skuli afplánuð, rjúfi dómþoli skilyrði samfélagsþjónustu eða sinni henni ekki með fullnægjandi hætti. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. geti stofnunin ákveðið að ákvörðun um fullnustu með samfélagsþjónustu verði afturkölluð og að dómþoli afpláni fangelsisrefsingu ef dómþoli er kærður fyrir að hafa framið refsiverðan verknað eftir að ákveðið er að fullnusta fangelsisrefsingu með samfélagsþjónustu. Í 3. mgr. 26. gr. laganna sé kveðið á um það að sé rof á skilyrðum samfélagsþjónustu eða meint brot ekki alvarlegt eða ítrekað, skuli veita áminningu áður en ákveðið sé að fangelsisrefsing skuli afplánuð. Samkvæmt þessu sé því ljóst að skilyrði þess að samfélagsþjónusta komi til álita sé að dómþoli eigi ekki mál til meðferðar hjá ofangreindum aðilum þar sem hann sé kærður fyrir refsiverðan verknað. Telur stefndi nægilegt að viðkomandi sé grunaður um refsiverðan verknað og hafnar túlkun stefnda á 2. mgr. 26. gr. laganna.
Stefndi byggir á því að hugtakið almannafæri í 21. gr. áfengislaga feli í sér tilvísun til sömu viðmiðunar og byggt sé á í lögreglusamþykktum. Í 2. gr. lögreglusamþykktar fyrir Reykjavík nr. 625/1987 sé almannafæri þannig skilgreint að um sé að ræða götur og svæði, ætluð til almannanota. Gildi ákvæðið um almannafæri einnig eftir því sem við eigi um aðra staði sem opnir séu almenningi, verslanir, veitingastaði, bifreiðastöðvar, biðskýli, söfn o.fl.
Stefndi byggir á því að af þeirri 77 daga vararefsingu fésekta sem stefnandi hafi óskað eftir að fá að afplána með samfélagsþjónustu, hafi alls 73 dagar verið tilkomnir á grundvelli fjögurra dóma vegna aksturs undir áhrifum áfengis en 4 dagar vegna annarra umferðarlagabrota. Í ljósi þessa og ítrekaðra afskipta lögreglu af stefnanda vegna ölvunar á almannafæri á árunum 2000 og 2001 hafi það verið mat fangelsismálastofnunar að vafasamt væri að stefnandi stæðist hæfisskilyrði þau er gildi um samfélagsþjónustu, þar á meðal um áfengisneyslu á samfélagsþjónustutímabilinu. Í stað þess að synja stefnanda þegar um samfélagsþjónustu hafi verið ákveðið að fresta afgreiðslu málsins meðan stefnandi gengist undir áfengismeðferð. Eftir að meðferðinni lauk hafi starfsmaður fangelsismálastofnunar tvívegis tekið fram við stefnanda að áfengisneysla á samfélagsþjónustutímabilinu yrði litin mjög alvarlegum augum og metið sem gróft brot á skilyrðum þeim er um samfélagsþjónustu gilda. Með hliðsjón af breyttum högum stefnanda hafi umsókn hans um afplánun vararefsingar fésekta með samfélagsþjónustu verið samþykkt en þegar í ljós hafi komið nokkrum dögum síðar að stefnandi hafi tvívegis verið kærður fyrir brot gegn 21. gr. áfengislaga á rúmum sólarhring hafi ekki verið annað fært en að afturkalla umrædda ákvörðun.
Stefndi byggir á því að ekki fái staðist þau sjónarmið stefnanda að beita hafi átt áminningu áður en ákveðið hafi verið að fangelsisrefsing skyldi afplánuð né að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu. Þau skilyrði að aðili neyti ekki áfengis eða deyfilyfja séu grundvallarskilyrði fyrir því að viðkomandi teljist hæfur til að gegna samfélagsþjónustu og brot gegn því skilyrði sé því eitt sér alvarlegt. Hafi áfengismeðferð sú sem stefnanda hafi verið gefinn kostur á að gangast undir til að teljast hæfur til að gegna samfélagsþjónustu því greinilega ekki borið árangur.
Stefndi mótmælir því að brotið hafi verið á andmælarétti stefnanda og að honum hafi á ólögmætan hátt gegn andmælum sínum verið gert að hefja afplánun þegar í stað. Stefndi byggir á því að starfsmaður fangelsismálastofnunar hafi birt stefnanda umrædda ákvörðun um afturköllun í fangageymslu lögreglunnar. Hafi stefnanda verið gerð grein fyrir innihaldi bréfsins og þeim fresti sem hann hefði til að koma að andmælum. Stefnandi hafi hins vegar að eigin frumkvæði óskað eftir því að fá að hefja afplánun þegar í stað þannig að honum yrði unnt að takast á við stjórnlausa áfengisneyslu sína. Hafi stefnandi staðfest þessa ósk sína með undirritun á bréfið þar sem fram hafi komið að hann félli strax frá andmælum. Fái því ekki staðist þær fullyrðingar stefnanda að hann hafi verið þvingaður til að falla frá andmælum eða að hann hafi haft uppi mótmæli gegn því að hefja afplánun strax. Þá bendir stefndi á að í bréfi stefnanda til dómsmálaráðuneytis dagsettu 18. apríl 2001 hafi hann engar athugasemdir gert við það að afplánun hófst strax.
Stefndi vísar því eindregið á bug að stefnandi hafi verið sviptur frelsi að ósekju. Fangavistin sem stefnandi sætti hafi verið á grundvelli fjögurra dóma héraðsdóms. Stefnandi hafi ekki átt lögvarinn rétt til að afplána vararefsingu með samfélagsþjónustu og afturköllun á þeirri heimild hafi verið í einu og öllu að lögum. Hafi verið ljóst af gögnum málsins að stefnandi réði ekki við áfengisneyslu sína og því hafi hann verið óhæfur til að gegna samfélagsþjónustu.
Stefndi rökstyður varakröfu sína þannig að miskabótakrafa stefnanda sé allt of há. Afplánun stefnanda hafi byggst á tildæmdri refsingu og hafi hann sjálfur óskað eftir því að hefja afplánun 11. apríl 2001 og engar athugasemdir gert við afturköllun ákvörðunarinnar fyrr en 18. apríl sama ár. Þrátt fyrir brot stefnanda á reglum um samfélagsþjónustu hafi honum verið heimilað að afplána síðustu 28 daga vararefsingar sinnar á áfangaheimili Verndar. Sé föngum þar heimilt að sækja vinnu eða skóla en tiltekin viðveruskylda sé á heimilinu.
Stefndi segir rangt og ósannað að stefnandi hafi beðið heilsutjón og orðið óvinnufær vegna aðbúnaðar í fangavistinni. Sé ljóst af gögnum málsins að stefnandi hafi ekki gengið heill til skógar og þá hafi hann meðal annars átt við þunglyndi að stríða auk áfengisvandamála. Einnig hefði hann gengist undir aðgerð í marsmánuði. Hafi stefnandi engin gögn lagt fram um heilsufar sitt fyrir og eftir fangavistina né um harðræði er hann segist hafa orðið fyrir þar.
Stefndi mótmælir upphafstíma dráttarvaxta frá fyrri tíma en þingfestingu málsins.
Niðurstaða.
Stefndi hefur vakið athygli dómsins á því að viðurkenningarkröfur stefnanda ættu að sæta frávísun án kröfu á þeim grundvelli að málsástæður og lagarök verði ekki gerð að sjálfstæðum dómkröfuliðum, en í viðurkenningarkröfum stefnanda felist þær málsástæður sem liggi til grundvallar bótakröfu.
Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um greiðslu skaðabóta vegna þess tjóns sem hann telur að margumræddar ákvarðanir hafi valdið honum. Áður en hægt er að leysa úr því hvort stefnandi eigi rétt á skaðabótum verður fyrst að leysa úr því álitaefni hvort umræddar ákvarðanir hafi verið lögmætar. Fallast ber á það með stefnda að í viðurkenningarkröfum stefnanda felist þær málsástæður sem hann telur að leiða eigi til bótaskyldu stefnda. Þar sem lagarök og málsástæður verða ekki gerð að sjálfstæðum dómkröfum ber að vísa viðurkenningarkröfum stefnanda frá dómi.
Ágreiningur aðila málsins snýst um það annars vegar hvort sú ákvörðun fangelsismálastofnunar ríkisins að afturkalla þá ákvörðun sína frá 4. apríl 2001 að heimila stefnanda að afplána vararefsingu með samfélagsþjónustu hafi verið lögmæt og hins vegar hvort heimilt hafi verið að láta stefnanda hefja afplánun strax 11. apríl sama ár og er sérstaklega um það deilt hvort sú ráðstöfun hafi verið að beiðni stefnanda sjálfs. Er í þessu sambandi tekist á um skýringu á ákvæðum laga um fangelsi og fangavist um samfélagsþjónustu og skilyrði hennar, þá er ágreiningur um það hvort sú háttsemi stefnanda að vera tvívegis ölvaður á tilteknum stöðum 9. og 10. apríl sama ár teljist vera brot gegn 21. gr. áfengislaga sem hafi veitt stofnuninni heimild til áðurgreindrar afturköllunar. Er um það deilt hvort andmæla- og upplýsingaréttur stefnanda hafi verið virtur, hvort lögskylt hafi verið að veita honum áminningu áður en til afturköllunarinnar kom og einnig hvort stefndi hafi með háttsemi sinni brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.
Samkvæmt reglum IV. kafla laga nr. 48/1988 um fangelsi og fangavist er heimilt, hafi maður verið dæmdur í allt að sex mánaða óskilorðsbundið fangelsi, ef almannahagsmunir mæla ekki gegn því, að fullnusta refsinguna með ólaunaðri samfélagsþjónustu. Samkvæmt IV. kafla A laganna, sbr. 26. gr. a, sbr. 5. gr. laga nr. 22/1999, getur lögreglustjóri ákveðið að maður skuli afplána vararefsingu fésektar sem innheimtist ekki, og er þá heimilt, ef almannahagsmunir mæla ekki gegn því, að fullnusta vararefsinguna með ólaunaðri samfélagsþjónustu, minnst 20 klukkustundir og mest 480 klukkustundir. Samkvæmt 26. gr. b laganna gilda ákvæði 23.-26. gr. laganna um fullnustu vararefsingar samkvæmt þessum kafla að öðru leyti en því að í stað þess að umsókn um afplánun vararefsingar með samfélagsþjónustu sé send fangelsismálastofnun skal sektarþoli senda lögreglustjóra slíka beiðni skriflega eigi síðar en sjö dögum eftir að honum barst tilkynning um fyrirhugaða afplánun vararefsingar. Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. laganna eru meðal annars sett þau skilyrði fyrir því að samfélagsþjónusta komi til álita að dómþoli eigi ekki mál til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum, þar sem hann er kærður fyrir refsiverðan verknað. Þá er það skilyrði sett að dómþoli teljist hæfur til samfélagsþjónustu. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skal, áður en metið er hvort dómþoli teljist hæfur til samfélagsþjónustu og þar með hvort líklegt sé að hann geti innt hana af hendi, fara fram athugun á persónulegum högum hans.
Samkvæmt gögnum málsins kannaði Margrét Sæmundsdóttir, starfsmaður fangelsismálastofnunar, persónulega hagi stefnanda eftir að umsókn hans um að afplána vararefsinguna með samfélagsþjónustu lá fyrir. Eftir þá athugun var það niðurstaða hennar að leggja til að erindinu yrði frestað þar til stefnandi hefði lokið áfengismeðferð í Hlaðgerðarkoti. Er upplýst að stefnandi lauk þessari meðferð og mætti hann tvívegis í viðtal hjá Margréti og að sögn hennar var hann edrú og snyrtilegur í bæði skiptin. Leiddi þetta til þess að fangelsismálastofnun tók þá ákvörðun 4. apríl 2001 að fallast á umsókn hans um að afplána vararefsinguna með 100 klst. samfélagsþjónustu á 3-4 mánuðum. Er tekið fram að þessi ákvörðun sé tekin með hliðsjón af breyttum persónulegum aðstæðum stefnanda. Var það skilyrði sett að stefnandi féllist á þau skilyrði sem sett yrðu fyrir samfélagsþjónustunni. Stefnandi mun ekki hafa verið búinn að gangast undir þau skilyrði sem setja átti enda brá svo við að lögregla þurfti nokkrum dögum síðar tvívegis að hafa afskipti af honum vegna ölvunar hér í borg. Með vísan til 2. mgr. 26. gr. laga um fangelsi og fangavist afturkallaði fangelsismálastofnun fyrri ákvörðun um samfélagsþjónustu og tók þá ákvörðun að stefnandi skyldi afplána vararefsinguna með refsivist. Ágreiningur aðila snýst um það hvort þessi afturköllun fangelsismálastofnunar, sem síðar var staðfest með úrskurði dómsmálaráðuneytis, stæðist lög.
Samkvæmt framansögðu eru það skilyrði þess að samfélagsþjónusta komi til álita meðal annars að dómþoli eigi ekki mál til meðferðar hjá lögreglu , ákæruvaldi eða dómstólum. Þá er það jafnframt skilyrði að dómþoli teljist hæfur til samfélagsþjónustu. Ljóst er af brotaferli stefnanda, sem varð tilefni til þeirra vararefsinga sem mál þetta snýst um, að hann á við verulegt áfengisvandamál að stríða. Hefur hann orðið sannur að sök um að aka bifreið undir áhrifum áfengis í sex skipti á árunum 1997-2000. Má því af þessum sökum draga verulega í efa hæfni hans til þess að gegna samfélagsþjónustu. Stefnandi lýsir því sjálfur í persónuskýrslu að hann hafi nokkrum sinnum farið í meðferð vegna áfengisvanda síns. Þá lýsti hann því yfir að hann hefði verið í túraneyslu. Þegar ljóst var að áfengismeðferð sú, sem stefnandi fór gagngert í til að teljast hæfur til þess að gegna samfélagsþjónustu, bar ekki árangur og ljóst var að fyrir lágu tvær kærur á hendur stefnanda fyrir ölvun á almannafæri, var fangelsismálastofnun bæði rétt og skylt að fella þegar úr gildi fyrri ákvörðun sína, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga um fangelsi og fangavist. Var eins og á stóð engin ástæða til að veita stefnanda áminningu enda hlaut honum að hafa verið ljóst hverju það varðaði ef hann léti ekki af áfengisneyslu sinni. Þá verður að telja fráleitt að andmælaréttur hafi verið brotinn á stefnanda, enda féll hann með undirritun sinni berum orðum strax frá andmælarétti. Hefur ekki verið sýnt fram á annað en að hann hafi gert það af fúsum og frjálsum vilja. Ber því að hafna þeirri málsástæðu stefnanda að umrædd ákvörðun fangelsismálastofnunar hafi verið ólögmæt.
Ágreiningur aðila snýst einnig um það hvort stefnandi hafi sjálfur óskað eftir því að hefja afplánun vararefsingarinnar samdægurs eftir að í ljós kom að fyrri ákvörðun fangelsismálastofnunar um samfélagsþjónustu hafði verið afturkölluð. Ekki nýtur skriflegra gagna um þetta atriði en ljóst er að upphaflega hafði verið ákveðið að stefnandi hæfi afplánun 7 dögum síðar eða 18. apríl 2001. Stefnandi kom fyrir dóm við aðalmeðferð málsins en hann mundi ekki tildrög þess að hann féll frá andmælarétti og var látinn hefja afplánun strax. Hann kannaðist þó ekki við að hafa óskað eftir því að hefja strax afplánun. Margrét Sæmundsdóttir, starfsmaður fangelsismálastofnunar, skýrði svo frá fyrir dómi að fangavörður hefði tjáð henni að stefnandi vildi hefja afplánun strax. Margrét kvað stefnanda hafa staðfest þessa ósk sína við sig og hefði verið fallist á hana. Margrét kvað stefnanda hafa verið fyllilega hæfan til að taka þessa ákvörðun og virtist henni ástand hans frekar vera slæmt líkamlega en andlega.
Á það ber að líta að í kæru stefnanda til dómsmálaráðuneytis dagsettri 18. apríl 2001 minnist hann ekkert á það að hann hafi verið settur í afplánun fyrr en staðið hafi til. Kemur athugasemd um það ekki fram fyrr en með kæru lögmanns hans til dómsmálaráðuneytis 8. maí 2001. Ekki hefur af hálfu stefnanda verið sýnt fram á það að fangelsismálastofnun hefði einhverja hagsmuni af því að láta stefnanda hefja afplánun fyrr en ákveðið hafði verið. Þegar framanritað er virt og það að stefnandi féll frá andmælarétti sínum, hliðsjón er höfð af framburði Margrétar fyrir dómi um vilja stefnanda sem eins og hér stendur á verður að leggja til grundvallar, þykir nægilega sannað að stefnandi hafi sjálfur óskað eftir því að hefja afplánun umræddrar vararefsingar þegar í stað. Verður því að hafna þeirri málsástæðu stefnanda að umrædd ákvörðun fangelsismálastofnunar hafi verið ólögmæt.
Samkvæmt framansögðu er því ljóst að stefnandi á ekki fjárkröfu á hendur stefnda enda ljóst að stefnandi var ekki sviptur frelsi að ósekju. Sú vararefsing, sem hann var látinn afplána, hafði verið ákveðin af þar til bærum dómstólum og ekki hefur verið sýnt fram á annað en að um framkvæmd refsivistarinnar hafi að öllu leyti farið að lögum. Sérstaklega ber að nefna að stefnandi hefur engum stoðum skotið undir þá staðhæfingu sína að refsivistin hafi leitt til heilsutjóns fyrir hann. Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður.
Stefnandi hefur gjafsókn í málinu samkvæmt a-lið 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, sbr. gjafsóknarleyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis dagsett 24. mars s.l. Allur gjafsóknarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Guðjóns Ólafs Jónssonar hdl., kr. 1.000.000. Hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Samkvæmt yfirliti lögmannsins nam útlagður kostnaður kr. 3.500.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Framangreindum viðurkenningarkröfum stefnanda er vísað frá dómi.
Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Guðmundar Teits Guðbjörnssonar í máli þessu.
Málskostnaður milli aðila fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Guðjóns Ólafs Jónssonar hdl., kr. 1.000.000.