Hæstiréttur íslands

Mál nr. 308/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta
  • Höfundarréttur


Þriðjudaginn 20

 

Þriðjudaginn 20. september 2005.

Nr. 308/2005.

Auður Sveinsdóttir Laxness

(Halldór H. Backman hrl.)

gegn

Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni

(Karl Axelsson hrl.)

 

Kærumál. Frávísunarúrskurður héraðsdóms felldur úr gildi að hluta. Höfundaréttur.

 

Í máli sem A höfðaði á hendur H krafðist hún refsingar og miskabóta vegna ætlaðra brota H á höfundarétti látins eiginmanns A, en hún sat í óskiptu búi eftir hann. Héraðsdómari vísaði málinu frá í heild sinni vegna vanreifunar. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að málið væri einkarefsimál og ekki yrðu í slíku máli gerðar sambærilegar kröfur til málatilbúnaðar í stefnu og gerðar væru til ákæru í opinberu máli. Þótt fallist væri á með héraðsdómara að lýsing málsástæðna í stefnu væri ágripskennd var talið að stefnan væri ekki haldin þeim annmörkum að leiða ætti til frávísunar, enda yrði ekki séð að ætlaður óskýrleiki í kröfugerð A væri þess  eðlis að H gæti ekki tekið til varna með eðlilegum hætti. A krafðist einnig miskabóta úr hendi H á grundvelli 2. mgr. 56. gr. höfundalaga nr. 73/1972, en jafnframt krafðist hún bóta samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar. Í síðastnefndri lagagrein er kveðið á um heimild til að krefjast bóta þótt réttarröskun hafi verið framin í grandleysi. A byggði á því í málinu að ætluð brot H hefðu verið framin af ásetningi eða í það minnsta af stórfelldu gáleysi. Varð ekki séð að A hefði gert neinar tilraun til að renna stoðum undir bótakröfu sína samkvæmt nefndri 3. mgr. 56. gr. höfundarlaga, enda gæti sama háttsemi ekki verið samtímis grandsöm og grandlaus. Krafa A um bætur samkvæmt 3. mgr. 56. gr. höfundalaga þótti því vanreifuð og var henni vísað frá dómi, en lagt fyrir héraðsdómara að taka aðrar kröfur A til efnismeðferðar. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. júní 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. júlí 2005. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2005, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að lagt verði fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar, en til vara að málskostnaður á báðum dómstigum verði felldur niður.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Málsatvikum er lýst í hinum kærða úrskurði. Í stefnu í héraði eru rakin 120 tölusett tilvik þar sem sóknaraðili telur að varnaraðili hafi brotið gegn höfundarétti Halldórs Kiljan Laxness, en sóknaraðili er ekkja skáldsins og situr í óskiptu búi eftir hann. Háttsemi varnaraðila er lýst þannig í stefnu að hann hafi við ritun bókar sinnar Halldór brotið gegn höfundarétti skáldsins með því í fyrsta lagi, að nota texta skáldsins án aðgreiningar frá eigin texta, í öðru lagi að geta ekki heimilda, í þriðja lagi að geta heimilda með villandi og ófullnægjandi hætti, í fjórða lagi að breyta frumtexta höfundar og í fimmta lagi að birta áður óbirtan texta án heimildar höfundar. Í stefnu eru talin upp áðurnefnd 120 tilvik og þau heimfærð undir þá fimm liði, sem að framan eru raktir, einn eða fleiri, en vísað um innihald textans til fylgiskjala þar sem annars vegar er merkt við viðeigandi frumtexta og hins vegar við texta úr bók varnaraðila. Heimfærsla til lagaákvæða kemur fram síðar í stefnunni með almennum hætti þar sem í einu lagi eru taldir upp töluliðir og þeir í einu lagi sagðir fela í sér brot á tilgreindum ákvæðum höfundalaga nr. 73/1972.

Enda þótt fallist verði á með héraðsdómara að í stefnu sé lýsing málsástæðna ágripskennd er þess að gæta, að krafa sóknaraðila er einkarefsikrafa. Verður í því ljósi að telja sóknaraðila hafa með framangreindum hætti sett fram nægilega skýrlega í hverju ætluð brot varnaraðila felist að hans mati, en hafa verður í huga að ekki verða gerðar sömu kröfur um framsetningu stefnu í einkarefsimáli og gerðar verða til ákæru í opinberu máli samkvæmt 116. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þykja því ekki næg efni til að vísa frá dómi refsikröfu sóknaraðila, enda verður ekki fallist á með varnaraðila að ætlaður óskýrleiki í kröfugerð sóknaraðila sé þess eðlis að varnaraðili fái ekki tekið til varna með eðlilegum hætti.

Sóknaraðili krefur varnaraðila miskabóta með heimild í 2. mgr. 56. gr. laga nr. 73/1972 og gerir jafnframt kröfu um greiðslu bóta samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar. Í 1. mgr. 56. gr. segir að hafi saknæmt brot á lögunum haft fétjón í för með sér beri að bæta það eftir almennum reglum fébótaréttar. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar skal dæma höfundi eða listflytjanda miskabætur úr hendi þess sem raskað hefur rétti þeirra með ólögmætri háttsemi. Loks er í 3. mgr. kveðið á um að heimilt sé að dæma þeim sem misgert er við bætur úr hendi þess sem réttarröskun olli, þó að hann hafi gert það í grandleysi, en bæturnar megi ekki nema hærri fjárhæð en ávinningi hans af brotinu. Í 1. mgr. lagagreinarinnar er því kveðið á um heimild til að krefjast bóta fyrir fjártjón og í 2. mgr. er veitt heimild til að krefjast miskabóta. Í báðum tilvikum er það skilyrði að um saknæma háttsemi sé að ræða. Hins vegar veitir 3. mgr. heimild til að krefjast bóta enda þótt saknæmisskilyrði sé ekki fullnægt, en jafnframt er kveðið á um að bætur geti ekki orðið hærri en sem nemur ávinningi þess sem í grandleysi olli réttarröskun. Sóknaraðili reisir málsókn sína á því að varnaraðili hafi brotið gegn höfundarétti Halldórs Kiljan Laxness af ásetningi eða í það minnsta stórfelldu gáleysi. Krafa um bætur samkvæmt 3. mgr. 56. gr. höfundalaga byggist á því að tjóni hafi verið valdið í grandleysi. Engin tilraun er gerð í stefnu til að rökstyðja grundvöll þessarar kröfu, en sama háttsemi getur ekki samtímis verið grandsöm og grandlaus. Telst krafan því vanreifuð og er óhjákvæmilegt að vísa henni frá héraðsdómi. Hins vegar eru ekki efni til að fallast á kröfu varnaraðila um frávísun á kröfu sóknaraðila um miskabætur samkvæmt 2. mgr. 56. gr. höfundalaga.

Með vísan til þess sem að framan greinir verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi nema að því er varðar frávísun á kröfu um bætur samkvæmt 3. mgr. 56. gr. höfundalaga, eins og nánar greinir í dómsorði.

Málskostnaður í héraði bíður efnisdóms.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Kröfu sóknaraðila, Auðar Sveinsdóttur Laxness, um bætur samkvæmt 3. mgr. 56. gr. höfundalaga nr. 73/1972 úr hendi varnaraðila, Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, er vísað frá héraðsdómi.

Að öðru leyti er hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka aðrar kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðila til efnismeðferðar.

Málskostnaður í héraði bíður efnisdóms.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2005.

Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 1. júní sl. er höfðað með stefnu birtri 23. nóvember 2004.

Stefnandi er Auður Sveinsdóttir Laxness, Hlaðhömrum 2, Mosfellsbæ.

Stefndi er Hannes Hólmsteinn Gissurarson, Hringbraut 24, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til refsingar samkvæmt 54. gr. laga um höfundarétt nr. 73/1972. Að stefndi verði dæmdur til greiðslu miskabóta, skv. 2. mgr. 56. gr. laga um höfundarétt nr. 73/1972, að fjárhæð kr. 2.500.000,00 auk dráttarvaxta af fjárhæðinni skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 23.12.2004 til greiðsludags. Að stefndi verði dæmdur til greiðslu bóta skv. 3. mgr. 56. gr. laga um höfundarétt nr. 73/1972, að fjárhæð kr. 5.000.000,00 auk dráttarvaxta af fjárhæðinni skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 23.12.2004 til greiðsludags.

Að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að máli þessu verði vísað frá dómi.

Til vara að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Til þrautavara að stefndi verði sýknaður að svo stöddu af kröfum stefnanda.

Í öllum tilfellum er krafist málskostnaðar.

Frávísunarkrafa stefnda er til úrlausnar hér.

Frávísunarkrafa stefnda er á því reist, að kröfur og málatilbúnaður stefnanda sé vanreifaður á þann hátt að varði frávísun málsins í heild frá dómi, sbr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði skuli greina svo glöggt sem verða má, meðal annars málsástæður sem málsókn sé byggð á, svo og önnur atvik sem þurfi að greina til að samhengi málsástæðna verði ljóst, sbr. e-lið 1. mgr. 80. gr. laganna.  Ljóst sé að stefnuhættir stefnanda uppfylli ekki þetta skilyrði.  Í raun skorti algerlega á, að í stefnu sé að finna heildstæða lýsingu á þeim ætluðu brotum sem stefndi á að hafa framið gegn rétti stefnanda.  Enga sjálfstæða verknaðarlýsingu sé að finna í stefnu né aðra reifun á þeirri háttsemi stefnda sem talin sé andstæð lögum.  Þess í stað sé vísað til tölusettra dómsskjala sem lögð hafi verið fram við þingfestingu málsins.  Þetta fái ekki staðist að mati stefnda.  Ekki sé unnt að fallast á, að stefnandi komi sér undan því að lýsa málsatvikum og málsástæðum sínum með fullnægjandi hætti í stefnu en vísi þess í stað til fjölda dómsskjala sem ekki séu birt fyrir stefnda á sama hátt og stefna og ekki eru samin sem hluti af stefnu í málinu.  Slíkt sé raunar í beinni andstöðu við tilvitnað ákvæði laga um meðferð einkamála.

Jafnframt sé krafa stefnda um frávísun málsins í heild frá héraðsdómi byggð á því, að honum beri samaðild með BF-útgáfu ehf. (BF) og Almenna bókafélaginu - Eddu útgáfu hf. (AB) en skortur á slíkri samaðild varði frávísun frá héraðsdómi, sbr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Af stefnu verður ekki glögglega ráðið hvort stefnandi telji stefnda bera ábyrgð á útgáfu og birtingu bókarinnar Halldór eða hvort stefnandi geri hreinlega ekki greinarmun á höfundi og útgefanda bókar. Eins og stefnandi geri mál þetta úr garði og með því að enginn greinarmunur sé gerður á þætti stefnda annars vegar og þætti útgefanda og handhafa útgáfuréttar bókarinnar hins vegar, í þeim meintu brotum sem í málinu greinir, sé útilokað að komast að efnislegri niðurstöðu um brot stefnda gegn höfundarrétti stefnanda, öðruvísi en að slá því föstu um leið, að AB og BF hafi einnig brotið gegn þeim rétti.

Stefnandi krefjist þess að stefndi verði dæmdur til refsingar samkvæmt 54. gr. höfundalaga.  Samkvæmt 24. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 skuli sérhver refsiverður verknaður sæta opinberri ákæru, nema annað sé sérstaklega ákveðið í lögum.  Um þetta sé fjallað í 59. gr. höfundalaga en í 1. mgr. segi, að brot gegn lögunum sæti opinberri ákæru, en jafnan skuli málshöfðun heimil þeim sem misgert er við.  Í 2. mgr. 59. gr. sé nokkru takmarkaðri heimild veitt tilteknum aðilum ef höfundur sé látinn.  Ljóst sé að stefnandi byggi heimild sína til að hafa uppi refsikröfu á þessu lagaákvæði.  Í höfundalögum sé að öðru leyti ekki fjallað um skilyrði slíkrar kröfugerðar og gildi því hinar almennu reglur almennra hegningarlaga þar um, sbr. einkum 29. gr. þeirra laga.  Þar segi að heimild til þess að höfða einkamál til refsingar falli niður sé mál ekki höfðað áður en 6 mánuðir eru liðnir frá því sá, sem heimildina hefur, fékk vitneskju um hinn seka. Fyrir liggi að vitneskju um meint brot stefnda gegn höfundarrétti stefnanda hafi hann haft þegar eftir að bókin var komin út.  Meint brot stefnda hafi margsinnis verið til ítarlegrar umfjöllunar í fjölmiðlum vikurnar eftir útgáfu bókarinnar og raunar reglulega eftir það. Aðstandendur stefnanda hafi tjáð sig í fjölmiðlum í lok árs 2003 og byrjun árs 2004 um meint brot stefnda og þjófkennt hann vegna þeirra.  Mál þetta hafi verið þingfest þann 25. nóvember 2004 en stefna verið birt þann 23. nóvember sama árs.  Framangreindur 6 mánaða fyrningarfrestur 29. gr. almennra hegningarlaga hafi þá verið löngu liðinn. 

Þá sé krafan vanreifuð í andstöðu við 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Algerlega skorti á, að gerð sé grein fyrir því hvernig saknæmisskilyrði séu uppfyllt.  Ekkert sé fjallað um ætlaðan ásetning eða stórkostlegt gáleysi stefnda, sem áskilið sé að sé fyrir hendi, sbr. 1. mgr. 54. gr. höfundalaga.  Þá sé ekki að finna neina eiginlega verknaðarlýsingu í stefnu né fullnægjandi heimfærslu til refsiákvæða.   Í því sambandi bendir stefndi einnig á, að stefnandi styðji kröfur sínar um ætluð lögbrot stefnda jöfnum höndum við ákvæði í höfundalögum sem falli utan sem innan málsóknarheimildar hans, samkvæmt 2. mgr. 59. gr. höfundalaga. Samkvæmt því ákvæði geti stefnandi höfðað mál vegna meintra brota gegn 1. og 2. mgr. 4. gr. höfundalaga og 2. og 3. mgr. 26. gr. laganna. Stefnandi vísi aðeins á tveimur stöðum sérstaklega til lagaákvæða sem eigi undir þessa málsóknarheimild hans, og þá án nokkurra nánari skýringa þar að lútandi, en jafnframt vísi stefnandi til meintra brota gegn öðrum ákvæðum höfundalaga sem hann hafi ekki heimild til að höfða mál vegna.  Þá leiði sú staðreynd, sem að framan er fjallað um, að enginn greinarmunur sé gerður í stefnu á stefnda sem höfundi eða útgefanda bókarinnar Halldór, til þess, að krafist sé refsingar gagnvart stefnda fyrir háttsemi sem hann eigi engan þátt í. Kröfuliður þessi sé því ekki tækur til efnismeðferðar og beri að vísa honum frá dómi.

Stefnandi krefjist miskabóta úr hendi stefnanda að fjárhæð 2.500.000 króna. Í stefnu sé engin tilraun gerð til rökstyðja fjárhæð miskabótakröfunnar.  Aðeins sé á því byggt að fjárhæðin sé hæfileg með hliðsjón af miklu umfangi meintra brota.  Þá sé ekki heldur gerð grein fyrir því í hverju ætlaður miski sé fólginn.  Ekki sýnist á því byggt, að stefndi hafi brotið gegn sæmdarrétti Halldórs Laxness eða öðrum ófjárhagslegum hagsmunum.  Engin dæmi séu nefnd um að stefndi hafi hallað réttu máli að Halldóri Laxness eða gert honum, eða minningu hans, nokkurn miska í raun í bók sinni.  Að mati stefnda sé miskabótakrafan að þessu leyti vanreifuð á þann hátt að varði frávísun hennar frá dómi.  Til viðbótar sé frávísunarkrafa stefnda hvað þennan kröfulið varðar á því reist, að stefnandi sé ekki réttur aðili kröfunnar en samkvæmt 2. mgr. 56. gr. höfundalaga sé það aðeins höfundur eða listflytjandi sem geti átt rétt til miskabóta úr hendi þess, sem raskað hefur rétti hans. 

Þá geri stefnandi kröfu um að stefndi verði dæmdur til greiðslu bóta samkvæmt 3. mgr. 56. gr. höfundalaga, að fjárhæð 5.000.000 króna. Krafa þessi sé algerlega vanreifuð af stefnanda hálfu.  Fjárhæð kröfunnar sé úr lausu lofti gripin og engin tilraun gerð til að sýna fram á, að meintur ólögmætur ávinningur nemi þeirri fjárhæð.  Fjárhæð kröfunnar sé sögð miða við áætlun, sem taki mið af fjölda seldra eintaka af bók stefnda samkvæmt upplýsingum útgefanda. Það fái ekki staðist, að stefnandi geri algerlega vanreifaða fjárkröfu á hendur stefnda með þessum hætti og skori síðan á hann að reifa kröfuna. Slíkir kröfuhættir séu í beinni andstöðu við ákvæði 80. gr. laga um meðferð einkamála, sbr. d- og e-lið ákvæðisins.  Tilvísanir stefnanda til 67. og 68. gr. laga um meðferð einkamála breyti engu í þessu sambandi og er þýðingu þeirra mótmælt. Stefndi bendir á, að mál þetta sé höfðað sem einkarefsimál á hendur stefnda. Stefnandi styðji refsikröfur sínar m.a. við hugleiðingar um ætlaðan ágóða stefnda af meintum brotum.  Samkvæmt 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 skuli hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi talinn saklaus þar til sekt hans hafi verið sönnuð.  Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. beri öllum réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð.  Í því felist m.a. að sá sem borinn sé sökum verði ekki þvingaður til að leggja fram gögn eða gefa upplýsingar um ætlaða sök sína.  Kröfuhættir og málatilbúnaður stefnanda sé augljós tilraun til að hafa þessi réttindi af stefnda.  Þau séu andstæð tilgreindum ákvæðum stjórnarskrár og ákvæðum laga um meðferð opinberra mála um réttindi sakborninga, sem og ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu, einkum 6. gr. hans, sbr. lög nr. 62/1994 um lögfestingu ákvæða hans hér á landi.

Af hálfu stefnanda er kröfu stefnda um frávísun mótmælt og er krafist málskostnaðar í þessum þætti málsins.

Málatilbúnaður eigi að vera gagnorður og forðast beri skriflegan málflutning í stefnu og séu málsgögn lesin í heild sinni sé samhengi málsástæðna ljóst og sýnt hvert sakarefnið sé. Er því mótmælt að málið sé vanreifað og að nauðsyn beri til samaðildar varnarmegin. Að öðru leyti lúti málsástæður þær, sem stefndi færi fram til stuðnings kröfum sínum um frávísun, að efni máls og ef fallist væri á þær leiddi það til sýknu en ekki frávísunar.

NIÐURSTAÐA

Stefnandi höfðar mál þetta á grundvelli 2. mgr. 59. gr. höfundalaga nr. 73/1972 en hún situr í óskiptu búi eftir mann sinn, Halldór Laxness rithöfund. Samkvæmt ákvæði þessu nær heimild stefnanda til þess að höfða einkarefsimál út af brotum á 1. og 2. mgr. 4. gr. höfundalaga, 2. og 3. mgr. 26. gr. sömu laga, 1. mgr. 28. gr. laganna og fyrirmæla höfundar skv. 2. mgr. 31. gr.

Í stefnu er vísað til 120 atriða sem stefnandi telur að feli í sér tilvik þar sem stefndi hafi gerst sekur um brot á höfundalögum. Í 84 atriðum, sem merkt eru nr. 1-5, 7-10, 12-18, 21, 23-36, 39-41, 46-50, 52-66, 68-69, 71, 73-83, 85-90, 93, 96, 100, 103-104, 106, 113-114, 118 og 120, er vitnað til bókar stefnda og blaðsíðutals í henni. Er síðan tilgreint heiti rits Halldórs Laxness og blaðsíðutal og segir síðan: „Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar.” Texti sá sem stefndi er sagður nota án aðgreiningar er ekki greindur í stefnu og ekki kemur fram þar í hverju breyting á frumtexta höfundar sé fólgin og hver heimild sú sé sem ógetið er.

Þá er í 26 atriðum, sem merkt eru 6, 11, 19-20, 22, 37, 42-45, 51, 70, 72, 84, 91-92, 94-95, 97-98, 102, 109-110, 115, 117 og 119, vitnað til bókar stefnda og blaðsíðutals í henni. Er síðan tilgreint heiti bókar eða ritverks Halldórs Laxness og blaðsíðutal og segir síðan: „Notkun á texta án aðgreiningar, heimildar getið með villandi og ófullnægjandi hætti, breyting á frumtexta höfundar.” Nefndur texti er ekki greindur í stefnu og ekki kemur fram í hverju breyting frumtexta höfundar sé fólgin og á hvern hátt heimildar sé getið með villandi og ófullnægjandi hætti.

Í einu atriði sem merkt er nr. 38 er vitnað til bókar stefnda og blaðsíðutals í henni. Er síðan tilgreint heiti bókar Halldórs Laxness og blaðsíðutal og segir síðan: „Notkun á texta án aðgreiningar, réttrar heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar.” Nefndur texti er ekki greindur í stefnu og ekki kemur fram í hverju breyting frumtexta höfundar sé fólgin og með hvaða hætti stefnda hafi skotist í tilgreiningu heimildar.

 Í atriði merktu nr. 67 er vitnað til bókar stefnda og blaðsíðutals í henni. Er síðan tilgreint heiti bókar Halldórs Laxness og blaðsíðutal og segir síðan: „Notkun texta án aðgreiningar, breyting á frumtexta höfundar.” Nefndur texti er ekki greindur í stefnu og ekki kemur fram í hverju breyting frumtexta höfundar sé fólgin.

Í atriðum merktum nr. 99, 101, 105 og 116 er vitnað til bókar stefnda og blaðsíðutals í henni. Eru síðan tilgreind bréf Halldórs Laxness til Erlends Guðmundssonar og dagsetning þeirra. Síðan segir: „Notkun texta án aðgreiningar, heimildar ekki getið, breyting á frumtexta höfundar, birting áður óbirts texta án heimildar höfundar.” Nefndur texti er ekki greindur í stefnu og ekki kemur fram í hverju breyting frumtexta höfundar sé fólgin. Ekki er fjallað um hvar nefnd bréf er að finna og hvers vegna stefnda er óheimil birting þeirra.

 Í atriðum merktum 107-108 og 111 er vitnað til bókar stefnda og blaðsíðutals í henni. Eru síðan tilgreind bréf Halldórs Laxness til Erlends Guðmundssonar og dagsetning þeirra. Síðan segir:  „Notkun texta án aðgreiningar, heimildar getið með villandi og ófullnægjandi hætti, breyting á frumtexta höfundar, birting áður óbirts texta án heimildar höfundar.” Nefndur texti er ekki greindur í stefnu og ekki kemur fram í hverju breyting frumtexta höfundar sé fólgin og með hvaða hætti stefnda hafi skotist í tilgreiningu heimildar og hvers vegna stefnda er óheimil birting þeirra.

Loks er í atriði merktu nr. 112 vitnað til bókar stefnda og blaðsíðutals í henni. Er síðan tilgreint bréf Halldórs Laxness til Erlends Guðmundssonar, dagsett 11. nóvember 1925. Síðan segir: „Breyting á frumtexta höfundar, birting áður óbirts texta án heimildar höfundar.”  Nefndur texti er ekki greindur í stefnu og ekki kemur fram í hverju breyting frumtexta höfundar sé fólgin og hvers vegna stefnda er óheimil birting þeirra.

Öll framangreind 120 atriði eiga það sammerkt að engin grein er gerð fyrir því við nokkurt þeirra til hvaða lagaákvæðis heimfæra beri ætlaða refsiverða hegðun stefnda eða hvert heiti ætlaðs brots hans sé að lögum svo sem rétt væri, sbr. 116. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, þar sem hér er gerð krafa um að stefndi verði sakfelldur fyrir háttsemi sem stefnandi telur refsiverða. Samhengi málsástæðna og atvika er ekki skýrt og ágripskennd lýsing málsástæðna í stefnu með öllu ófullnægjandi. Er gerð stefnu þannig ekki í samræmi við ákvæði e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála. Eru þessir annmarkar á máltilbúnaði stefnanda svo verulegir að ekki verður lagður efnisdómur á málið. Ber því að vísa máli þessu frá dómi í heild sinni. Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála verður stefnanda gert að greiða stefnda 500.000 krónur í málskostnað.

ÚRSKURÐARORÐ

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Auður Sveinsdóttir Laxness, greiði stefnda, Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, 500.000 krónur í málskostnað.