Hæstiréttur íslands

Mál nr. 488/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Föstudaginn 10

 

Föstudaginn 10. desember 2004.

Nr. 488/2004.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Jón Magnússon hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. desember 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. desember 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 19. janúar 2005 kl. 16.00. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Fallist er á að fyrir hendi sé sterkur grunur um að varnaraðili hafi framið brot, sem að lögum geta varðað allt að 12 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Brotin eru þess eðlis að telja verður gæsluvarðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Er því fullnægt skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til gæsluvarðhalds yfir varnaraðila. Samkvæmt því verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. desember 2004.

Lögreglustjórinn í  Reykjavík hefur krafist þess að X verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan máli hans er ekki lokið, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 19. janúar 2005, kl. 16:00.

             Í greinargerð lögreglu segir að ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans í Reykjavík rannsaki ætluð brot gegn almennum hegningarlögum er varði stórfelldan innflutning sterkra fíkniefna til landsins.  Málið hafi sætt rannsókn um nokkra mánaða skeið, símar sakborninga hafi verið hlustaðir og fylgst með ferðum þeirra.  Á rann­sókna­rtímabilinu hafi verið lagt hald á mikið magn fíkniefna í mismunandi sendingum.  Málið sé umfangsmikið og þáttur einstakra sakborninga sé talinn vera mismunandi umfangsmikill og í einhverjum tilvikum talinn vera afmarkaður við einstaka sendingar.

             Kærði hafi viðurkennt að hafa tekið að sér að flytja mikið magn fíkniefna til landsins fyrir einstaklinga hér á landi gegn þóknun.  Um hafi verið að ræða tvær sendingar tveggja ótengdra aðila (hópa) hér á landi.  [...] Kærði hafi viðurkennt að hafa tekið við fíkniefnum í Hollandi og flutt þau þaðan til Þýskalands þar sem efnunum var komið um borð í flutningaskip á leið Íslands.  Lögreglan hafi lagt hald á umrædd fíkniefni þann 21. júlí sl. en þau hafi reynst vera 7.694,98 g af amfetamíni.  Kærði hafi enn fremur viðurkennt að hafa í samráði við vitorðsmann keypt 2000 skammta af fíkniefninu LSD og sent efnið með pósti til Íslands í september sl. en tollgæsla í Reykjavík hafi lagt hald á fíkniefnin þann 15. sama mánaðar.

             Kærði hafi verið handtekinn þann 17. september sl. í Hollandi og þar hafi hann verið í gæsluvarðhaldi þar til hann var framseldur til Íslands þann 5. október sl.  Með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur þann 6. október sl. hafi kærða verið gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli rannsóknar­hagsmuna, til 27. sama mánar, sbr. mál héraðsdóms nr. [...].  Þann 27. október sl. hafi gæsluvarðhaldið verið framlengt til dagsins í dag, á grundvelli almannahagsmuna, sbr. mál héraðsdóms nr. [...].  Hæstiréttur hafi staðfest úrskurð héraðsdóms þann 28. sama mánaðar, sbr. mál réttarins nr. 429/2004. 

             Rannsókn málsins sé langt á veg komin en að henni lokinni verði rannsóknargögn send ríkissaksóknara til ákærumeðferðar.  Að mati lögreglu þyki kærði vera undir sterkum rökstuddum grun um að hafa framið brot sem geti varðað fangelsi allt að 12 árum, sbr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga.  Brot kærða þyki mjög alvarleg en þau lúti að innflutningi á miklu magni af amfetamíni og fíkniefninu LSD og sé þáttur kærða að brotastarfseminni talinn vera verulegur.  Hvað varði hin haldlögðu fíkniefni þá sé kærði talinn hafa annast kaup og viðtöku fíkniefnanna erlendis, skipulagningu og samskipti við vitorðsmenn hér á landi og erlendis og pökkun og sendingu efnanna hingað til lands.  Fíkniefnin séu talin hafa verið ætluð til sölu og dreifingar í ágóðaskyni hér á landi til ótilgreinds fjölda fólks.

             Hagsmunir almennings krefjist þess að maður sem eigi slíkan þátt í jafn stórum og alvarlegum brotum og hér um ræði, þ.e. beinan þátt í stórfelldum innflutningi sterkra og hættulegra fíkniefna, gangi ekki laus meðal almennings heldur sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gangi í málinu.  Þetta sé í samræmi við réttarvitund almennings og þyki eiga við um mál kærða þar sem um sé að ræða mjög mikið magn fíkniefna og megi þannig gera ráð fyrir að það myndi vekja athygli og andúð almennings ef hann yrði látinn laus.

             Umrædd krafa um gæsluvarðhald sé gerð með hliðsjón af dómaframkvæmd síðustu ára, sbr. dómar Hæstaréttar í málum nr.: 423/2004, 269/2004, 452/1999, 471/1999, 417/2000, 352/1997, 158/2001, 294/1997, 283/1997 og 284/1997.  Í framangreindum gæsluvarðhaldsmálum hafi legið fyrir sterkur rökstuddur grunur um verulega aðild sakborninga að innflutningi á miklu magni fíkniefna í ágóðaskyni og hafi kærðu verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna.  Að mati lögreglu þyki mál kærða vera sambærilegt og sé ekki ástæða til að ætla að refsimat og réttarvitund almennings hafi breyst svo mikið frá því umræddir dómar gengu í réttinum, að skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 sé ekki fullnægt í því máli sem hér um ræði.  Að mati lögreglu verði þannig að telja áframhaldandi gæsluvarðhald nauðsynlegt vegna almannahagsmuna.  Meint brot kærða varði fangelsi allt að 12 árum.

             Sakarefnið sé talið varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001.  Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

 

             Kærði er grunaður um brot sem kann að varða allt að 12 ára fangelsisrefsingu skv. 173. gr. a l. nr. 19/1940. Kærði var handtekinn þann 17. september sl. og hefur sætt gæsluvarðhaldi síðan. Á gæsluvarðhaldstímabilinu hefur hann játað að hafa átt aðild að innflutningi á fíkniefnum eins og rakið er í kröfu um gæsluvarðhald. Telja verður samkvæmt því sem fram hefur komið að rökstuddur grunur sé kominn fram um að kærði hafi framið brot sem varðað getur fangelsi allt að 12 árum. Jafnframt verður að telja aðild hans að málinu slíka að skilyrði séu fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. l. nr. 19/1991 og sé ekki ástæða til að marka því skemmri tíma en krafist er. Er því fallist á framkomna kröfu um áframhaldandi gæsluvarðhald eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi meðan máli hans er ekki lokið, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 19. janúar 2005, kl. 16:00.