Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-330

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Bjarni Hauksson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.

2. Með beiðni 17. nóvember 2021, sem barst réttinum 21. desember sama ár, leitar X leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 15. október 2021 í máli nr. 9/2021: Ákæruvaldið gegn X á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærða var birtur dómurinn 21. október 2021. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.

3. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn stjúpbarnabarni sínu, sbr. 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var staðfest sakfelling hans fyrir brot gegn 1. og 2. mgr. 210. gr. a. sömu laga með því að hafa haft í vörslu sinni og ítrekað skoðað ljósmyndir og myndskeið sem sýndu börn á kynferðislegan hátt. Var refsing hans ákveðin fangelsi í þrjú ár auk þess sem ákvæði héraðsdóms um upptöku á myndefni, farsímum og tölvubúnaði, miskabótum til brotaþola og sakarkostnað voru staðfest.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni til. Í þeim efnum vísar hann til þess að margvíslegir annmarkar hafi verið á rökstuðningi héraðsdóms og þeirri aðferð við sönnunarmat sem þar birtist. Landsréttur hafi hins vegar hafnað kröfu um ómerkingu dóms héraðsdóms. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að málið hafi verulega almenna þýðingu enda feli niðurstaða Landsréttar í sér að slakað hafi verið á sönnunarkröfum og vikið frá grundvallarreglunni um að sakborningur eigi að njóta alls skynsamlegs vafa.

5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðninni er því hafnað.