Hæstiréttur íslands
Mál nr. 254/2003
Lykilorð
- Lausafjárkaup
- Bifreið
- Tómlæti
|
|
Fimmtudaginn 5. febrúar 2004. |
|
Nr. 254/2003. |
Valgarð Sigmarsson (Gunnar Sæmundsson hrl.) gegn Sigurdóri Sigurðssyni (Sveinn Skúlason hdl.) |
Lausafjárkaup. Bifreiðir. Tómlæti.
V krafði S um afslátt af kaupverði bifreiðar. Samkomulag var gert um kaupin 15. október 1999 og afsal gefið út 15. nóvember sama ár. V lét framkvæma ástandsskoðun á bifreiðinni 22. nóvember og sendi S niðurstöðu hennar. Var talið að samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup, hafi V borið að skýra S frá því án ástæðulauss dráttar ef hann vildi bera fyrir sig galla á bifreiðinni. Það hafi hann gert með bréfi 9. október 2000 og krafist afsláttar, en sending niðurstöðu ástandsskoðunar gat ekki jafngilt slíkri tilkynningu. Hann hafi hins vegar ekki fylgt kröfu sinni eftir fyrr en með matsbeiðni 28. janúar 2002. Þar sem þessi mikli dráttur hafði ekki verið réttlættur taldist V hafa misst rétt til að hafa uppi kröfu vegna kaupanna og var S sýknaður.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Garðar Gíslason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. júní 2003 og krefst þess að stefndi greiði sér 3.432.526 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. september 2002 til greiðsludags og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi reisir kröfu sína um afslátt af kaupverði bifreiðar, sem hann keypti af stefnda með samkomulagi 15. október 1999 og afsali 15. nóvember sama ár, á því að ástand hennar hafi við kaupin verið annað og lakara en hann hafi mátt vænta miðað við útlit og verð. Ástandsskoðun á bifreiðinni fór fram 22. nóvember sama ár hjá Krafti ehf. Áfrýjandi sendi stefnda niðurstöðu skoðunarinnar sama dag. Hann ritaði stefnda bréf 9. október 2000 með kröfu um afslátt og bauð að málinu lyki með því að stefndi endurgreiddi sér 1.500.000 krónur af kaupverði bifreiðarinnar, sem hafði í kaupunum verið ákveðið 7.000.000 krónur, en kvaðst tilbúinn til samninga. Ella myndi hann biðja um mat á hæfilegum afslætti og fylgja niðurstöðu þess eftir með málssókn. Áfrýjandi fór fram á dómkvaðningu matsmanns með bréfi 28. janúar 2002 og skilaði hann matsgerð sinni 13. mars sama ár.
Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup, sem í gildi voru þegar kaup aðila voru gerð, sbr. 99. gr. laga nr. 50/2000 um sama efni, skyldi áfrýjandi skýra stefnda frá því án ástæðulauss dráttar ef hann vildi bera fyrir sig galla á bifreiðinni en missa rétt sinn ella. Það gerði áfrýjandi með bréfi sínu 9. október 2000, en sendingu ástandsskoðunar 22. nóvember 1999 verður ekki jafnað til slíkrar tilkynningar. Hann fylgdi kröfu sinni ekki eftir fyrr en með matsbeiðni 28. janúar 2002. Þessi mikli dráttur hefur ekki verið réttlættur og telst áfrýjandi því hafa misst rétt til að hafa uppi kröfu vegna kaupanna. Þegar af þessari ástæðu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu stefnda.
Áfrýjandi greiði stefnda 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Valgarð Sigmarsson, greiði stefnda, Sigurdóri Sigurðssyni, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 4. apríl 2003.
Mál þetta, sem tekið var til dóms 10. mars sl., er höfðað 29. ágúst 2002.
Stefnandi er Valgarð Sigmarsson, Sævangi 11, Hafnarfirði.
Stefndi er Sigurdór Sigurðsson, Heiðmörk 50, Hveragerði.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 3.432.526 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. september 2002 til greiðsludags og málskostnað að mati dómsins.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega að mati dómsins. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu.
Málsatvik.
Með afsali dags. 15. nóvember 1999 seldi stefndi stefnanda bifreiðina AI 770, Man SR 362, hópferðabifreið, árgerð 1987, en undanfari afsalsins var samkomulag sem aðilar gerðu með sér 15. október 1999. Í samkomulaginu kemur fram að veðtryggða kröfu samkvæmt dómsátt dags. 8. mars 1994, greiði stefndi að fullu með því að stefnandi fái sem greiðslu fólksflutningabifreiðina AI-770. Í samkomulaginu segir að bifreiðinni fylgi ný snjódekk með nöglum og með viðgerðum bitum á undirvagni og verði hún skoðuð fullnaðarskoðun bifreiðaskoðunar. Bifreiðin verði afhent í síðasta lagi 10.nóvember 1999. Þá segir í samkomulaginu að aðilar séu sammála um að bifreiðin sé í uppgjöri þessu metin á 7.000.000 króna. Ennfremur að stefndi greiði stefnanda 700.000 króna við undirritun samningsins og að með uppgjöri þessu eigi hvorugur aðila nokkra frekari kröfu á hendur hinum vegna tilgreindrar dómsáttar.
Óumdeilt er að þegar fyrst kom til tals að stefnandi keypti bifreiðina stóð hún á verkstæði Allrahanda við Gylfaflöt, Reykjavík, með brotna vél. Stefnanda var þá sýnd vél sem honum var tjáð að væri yfirfarin og yrði sett í bifreiðina. Eftir það reynsluók stefndi bifreiðinni ásamt stefnanda, en í reynsluakstrinum hitnaði vélin mjög, allt að suðu. Stefndi ók þá bifreiðinni að verkstæði Allrahanda. Bifreiðin fór að viðgerð lokinni í skoðun og liggur frammi skoðunarvottorð Frumherja hf. dags. 9. nóvember 1999. Bifreiðinni hafði þá verið ekið 675.360 km. Í skoðunarvottorði er aðeins ein athugasemd varðandi framrúðu, án skýringa.
Stefnandi óskaði eftir því við Kraft ehf. að ástand bifreiðarinnar yrði skoðað og fór sú skoðun fram 22. nóvember 1999. Kom þá í ljós að klafafóðringar hægra megin að framan hafi reynst ónýtar, hjólahalli hafi verið vitlaus, báðir framdemparar hafi lekið, olíusmit hafi verið ofan á vél, bremsuborðar að aftan slitnir, slag í báðum bremsuöxlum að aftan, slökunargromur í vinstri bremsuskál að aftan ónýtur, gírskipting stirð og að nauðsyn hafi verið að smyrja þyrfti gírstöng og athuga um leið upphengjurnar og prófa síðan. Ennfremur að slag sé í hjóllegum að aftan beggja vegna, athuga þurfi smurkopp á aftari hjörulið, tegundarmerki vanti á vél, og aldur og gerð hennar óþekkt, festa þurfi hosuklemmu á öndunarrör og athuga uppherslu á heddum. Þá séu mörg inniljós biluð og ekki sé hægt að slökkva á flúrljósum.
Niðurstöður ástandsskoðunar voru kynntar lögmanni stefnda sama dag og hún fór fram.
Með beiðni dags. 28. janúar 2002 óskaði stefnandi eftir því við Héraðsdóm Suðurlands að dómkvaddur yrði matsmaður til að meta hvort bifreiðin hafi verið haldin verulegum leyndum göllum, sem ekki hafi sést við venjulega skoðun, þegar stefnandi festi kaup á henni, hvort ástand bifreiðarinnar hafi verið í samræmi við það sem stefnandi mátti vænta miðað við verð hennar og útlit þegar hann festi kaup á henni og ef svo var ekki, hver sé þá eðlilegur afsláttur af kaupverði hennar samkvæmt því sem ráðið verði um ástand hennar af fyrirliggjandi gögnum og skoðun matsmanns á henni nú.
Dómkvaddur matsmaður var Kristján G. Tryggvason bifvélavirkjameistari og er matsgerð hans dagsett 13. mars 2002. Í matsgerð hans kemur fram að hann hafi hitt að máli verkstjóra á verkstæði MAN umboðsins á Íslandi, Jóhann Pétursson 25. febrúar 2002 og farið yfir alla viðgerðasögu bílsins, sem unnin var hjá Krafti ehf. Þá hafi hann einnig talað við skoðunarmann þann sem skoðaði bifreiðina hjá Frumherja 9. nóvember 1999. Í matsgerðinni er vísað til skoðunar Krafts ehf. á bifreiðinni og matsspurningum svarað. Matsmaður kemst að þeirri niðurstöðu að bifreiðin hafi verið haldin verulegum göllum, verðið allt of hátt og lagt til að til frádráttar kaupverði bifreiðarinnar komi 1.832.526 krónur vegna viðgerða og varahluta. Þá segir í matsgerð að skipta þurfi um sveifarás, og sé verð á honum 240.000-250.000 krónur. Einnig beri að bæta afnotamissi meðan á viðgerð standi.
Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort ofangreind bifreið hafi verið haldin verulegum göllum og hvort stefnandi eigi rétt til afsláttar af kaupverði.
Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslur aðilar málsins, svo og dómkvaddur matsmaður.
Við aðalmeðferð féll stefndi frá þeirri málsástæðu sinni stefndi hafi ekki verið eigandi umdeildrar bifreiðar.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi kveður að þegar hann hafi skipt um hjólbarða bifreiðarinnar hafi komið í ljós að undir hana hafi verið settir ósamstæður felgur í stað þeirra sem á henni voru þegar kaupin voru gerð. Felgurnar hafi verið slitnar og hjólkoppar passi ekki á þær. Ennfremur hafi afturdemparar reynst óvirkir, gler í vinstra framljósi verið brotið, tvo öskubakka hafi vantað, slit hafi verið í þurrkuörmum, annað tveggja slökkvitækja hafi vantað og slit verið í hjöruliðskrossi í skiptistöng. Þá hafi komið í ljós að afstaða á olíuverki hafi breyst er skipt var um vél í bifreiðinni þannig að breytingar hafi orðið á olíugjöf. Þegar stefndi hafi sýnt stefnanda bifreiðina áður en kaup hafi farið fram, hafi stefnandi vakið athygli hans á því að salerni í henni hafi ekki virkað og að inniljós væru biluð og hefði stefndi lofað að það yrði lagfært, en ekki staðið við það. Einnig hafi komið í ljós að mikill leki hafi verið úr loftpúða við vinstra framhjól og að nokkrar lakkskemmdir voru á bifreiðinni. Stefnandi hafi sjálfur skipt um púðann og demparana og hafi kaupverð þeirra hluta verið 87.138 krónur. Í janúar 2000 hafi verið skipt um klafafóðringar hægra megin að framan á verkstæði Krafts ehf., en töluverðar aðgerðir hafi þurft til þess. Þá hafi bremsur og hjólnöf að aftan einnig verið tekin í sundur og komið í ljós að ástand þeirra var slæmt. Bremsuborðar hafi verið slitnir og skipt um þá og rúllur á þeim losaðar og skipt um tvær rúllur vegna slits. Við athugun á hjóllegum hafi komið í ljós að þær voru ónýtar og voru því nýjar settar í ásamt pakkdósum og pakkdósasætum. Mikið slag hafi reynst á aftari hjörulið á drifskafti og hafi verið skipt um hann. Slökunargormur í bremsukút hafi reynst brotinn og skipt um hann ásamt fleiru, hjólabil að framan stillt. Þá hafi gírstöng verið liðkuð og smurð. Kostnaður vegna viðgerðar þessarar hafi verið 604.6032 krónur.
Í apríl 2000 hafi þurrkumótor verið orðinn óvirkur. Hann hafi reynst ónýtur og verið skipt um hann á verkstæði Krafts ehf. Kostnaður við þá viðgerð hafi numið 45. 733 krónum.
Í júnímánuði 2000 hafi farið að leka með tveimur heddum á vél bifreiðarinnar og hafi þau verið tekin upp á verkstæði Krafts ehf. Jafnframt hafi þá verið skipt um þurrkuarma. Kostnaður við þessa viðgerð hafi numið 196.670 krónum. Síðsumars 2000 hafi komið fram mikill kælivatnsleki í vél bifreiðarinnar. Við athugun hafi komið í ljós að tvær slífar í vélinni hafi verið signar og hafi viðgerð farið fram í september 2000 á verkstæði Krafts ehf. og nam kostnaður við viðgerð 596.791 krónu.
Þá hafi rafall bifreiðarinnar reynst í ólagi og hafi orðið að framkvæma viðgerð á honum á verkstæði Bræðranna Ormsson í nóvember 200. Kostnaður við þá viðgerð hafi numið 16.803 krónum. Blásarar í miðstöðvakerfi hafi reynst óvirkir að mestu og hafi stefnandi endurnýjað einn þeirra í desember 2000. Kaupverð hans hafi numið 14.250 krónum.
Viðgerðin sem fram fór á verkstæði Krafts ehf. í september 2000 hafi ekki nægt til að stöðva vatnslekann í vélinni og hafi því verið ákveðið að lagfæra tvö fremstu heddin og skipta um stimpla og slífar og fór sú viðgerð fram í desember 2000. Kostnaður við hana nam 300.633 krónum.
Stefnandi kveður að með ábyrgðarbréfi dags. 9. október 2000 hafi verið kvartað formlega til stefnda yfir þeim göllum sem þá voru komnir í ljós og varpað fram þeirri hugmynd að málinu yrði lokið með því að stefndi endurgreiddi 1.500.000 krónur af kaupverði bifreiðarinnar, en ekki reyndist samningsvilji fyrir hendi og fór þá stefnandi fram á dómkvaðningu matsmanns. Samkvæmt matsgerð telji matsmaður hæfilegt til lækkunar kaupverði bifreiðarinnar 1.832.526 krónur, en auk þess sé ómetinn afsláttur vegna sveifarásskipta 250.000 krónur. Stefnandi krefst og bóta vegna afnotamissis 1.350.000 krónur.
Stefnandi byggir á því að miðað við kaupverð bifreiðarinnar og útlit hennar hafi stefnandi mátt vænta þess að ástand hennar væri gott og þá sérstaklega vél hennar, sem samkvæmt upplýsingum stefnanda hafi verið nýyfirfarin.
Um lagarök vísar stefnandi til 42. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup, sbr. nú 30. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, og reglna kauparéttar um bætur fyrir afnotamissi.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi kveður ekki rétt að viðskipti aðila fjalli um kaup í eiginlegri merkingu þess orðs, eins og fram komi í samkomulagi aðila frá 15. október 1999. Það hafi falið í sér að stefndi gerði upp fjárnámskröfu samkvæmt dómsátt með því að stefnandi fengi sem greiðslu umrædda bifreið ásamt 700.000 krónum. Afhending hafi farið fram 15. október 1999.
Þá bendir stefndi á að í samkomulaginu komi skýrt fram að um endanlegt uppgjör sé að ræða milli aðila og að stefndi hafi ekki ábyrgst ástand bifreiðarinnar umfram það sem nákvæmlega sé tilgreint í samkomulaginu. Við það hafi stefndi fullkomlega staðið, eins og áritun lögmanns stefnanda 15. nóvember 1999 staðfesti.
Stefndi kveður umrædda bifreið hafa verið afhenta sem samningsgreiðslu, og hafi verið metin á 7.000.000 krónur, en með því mati hafi ekki verið tekin afstaða til þess hvert nákvæmt markaðsverð bifreiðarinnar hafi verið. Aðilar samningsins hafi orðið sammála um þessa fjárhæð og að stefndi greiddi að auki 700.000 krónur. Vegna hins langa aðdraganda að uppgjöri aðila hafi stefnandi haft sérstaklega góðan tíma til að vega og meta þá verðmiðviðun sem aðilar hafi orðið ásáttir um og afla sér upplýsinga. Um hafi verið að ræða 12 ára gamla bifreið, sem ekið hafi verið 4. október 1999 674.641 km og 9. október 2000 695.746 km. Um ekinn kílómetrafjölda hafi stefnanda verið fullkunnugt og stefnandi því ekki getað búist við öðru en að bifreiðin væri orðin talsvert slitin. Af skoðunarvottorði Frumherja sé hins vegar ljóst að bifreiðin hafi verið að áliti bifreiðaskoðunar í ágætis ástandi við afhendingu, þar sem aðeins ein athugasemd hafi verið gerð við ástand hennar, varðandi rúður.
Stefndi bendir á að matsbeiðni sé dagsett 28. janúar 2002 eða 15 ½ mánuði eftir að umrætt samkomulag hafi verið gert og hafi mat legið fyrir um miðjan mars 2002 eða 17 mánuðum eftir samkomulag aðila og frá þeim tíma er bifreiðin var afhent.
Stefndi kveður mat hins dómkvadda matsmanns mjög gagnrýnivert og beri þess merki að vera alls ekki unnið með frumrannsóknum og þar af leiðandi ekki á faglegum forsendum. Matsmaður geri enga tilraun til sjálfstæðrar greiningar á efnisinnihaldi reikninga þeirra sem hann telji að eiga að koma til frádráttar kaupverði bifreiðarinnar. Fjölmörg atriði sem upp eru talin á reikningunum geti alls ekki verið hluti af meintri bótakröfu vegna leyndra galla.
Varðandi þá matsspurningu hvort ástand bifreiðarinnar hafi verið í samræmi við það sem matsbeiðandi hafi mátt vænta miðað við verð hennar og útlit þegar hann festi kaup á henni, sé svarið það að verð hennar hafi verið allt of hátt, en þessi skoðun matsmanns virðist byggjast á gögnum sem matsbeiðandi lagði sjálfur fram, þ.e. sennilega fylgiskjali nr. 15. Matsmaður hafi því ekki framkvæmt neina sjálfstæða rannsókn. Þá fjalli matsmaður ekkert um í matsgerð sinni hvaða áhrif akstur stefnanda kynni að hafa haft á ástand bifreiðarinnar, og ekki komi þar fram hve mikið bifreiðin var ekin er hinar ýms viðgerðir voru framkvæmdar. Þá virðist matsmaður ekki hafa kynnt sér hverjir óku bifreiðinni á vegum stefnda, eða hvort nokkuð hafi komið fyrir hana á notkunartíma stefnanda.
Aðgerðir stefnanda miði í raun að því að endurbyggja bifreiðina, sem við sölu hafi verið 12 ára gömul og geti stefndi ekki borið ábyrgð á þeirri endurbyggingu.
Þá hafi stefnandi víðtaæka reynslu af útgerð, viðhaldi og rekstri sambærilegra bifreiða og við þá ítarlegu og rækilegu skoðun bifreiðarinnar er hann hafi framkvæmt hafi hann því sérstaklega búið að þeirri reynslu sinni og átt góða möguleika á því að gera sér grein fyrir ástandi hennar, enda hafi hann haft nægan tíma til að skoða bifreiðina. Það hafi hann og gert mjög gaumgæfilega, m.a. hafi hann skoðað undirvagn hennar er bifreiðin var á lyftu. Sama gildi um vélaskiptin í bifreiðinni.
Stefndi mótmælir vaxtakröfu stefnanda og kveður stefnanda ekki eiga rétt á vöxtum uns honum hafi takist að sanna að hann eigi rétt á bótum úr hendi stefnda.
Þá bendir stefndi á að ýmislegt sé athugavert við framlögð dómskjöl, svo sem beri framlagðir reikningar með sér að kaupandi eða verkkaupi sé annar aðili en stefnandi, t.d. Hópferðamiðstöðin hf., en engar skýringar sé að finna á þessu misræmi í skjölum málsins. Stefnda sé ókleift að taka afstöðu til reikninga sem af augljósum ástæðum séu alveg óviðkomandi málatilbúnaði stefnanda, sbr. d., e., og g. liði 1. mgr. 80. gr. einkamálalaga nr. 91/1991, sbr. og 1. mgr. 100. gr. sömu laga.
Ennfremur vísar stefndi til kaupalaga nr. 39/1922, en þau lög gildi um viðskipti aðila, þrátt fyrir setningu nýrra laga um lausafjárkaup, nr. 50/2000, en í 99. gr. þeirra sé tekið fram að nýju lögin gildi einvörðungu um þá samninga sem gerðir verða eftir gildistöku laganna.
Stefndi vísar m.a. til 1. mgr. 52. gr. laganna, en samkvæmt því ákvæði beri kaupanda að skýra seljanda frá því án ástæðulauss dráttar að söluhlut sé ábótavant og að kaupandi vilji bera það fyrir sig, en að öðrum kosti missi kaupandi rétt sinn.
Þá bendir stefndi á ákvæði 47. gr. kaupalaga er fjalli um rannsókn kaupanda á söluhlut fyrir kaup og missi kaupanda á rétti til að bera fyrir sig meinta galla, sé skoðunarskyldu ekki sinnt.
Niðurstaða.
Hópferðamiðstöðin hf. er greiðandi allra reikninga sem matsmaður hefur lagt til grundvallar að koma eigi til frádráttar kaupverði, nema þriggja reikninga, sem stafa frá Ósal ehf., dags. 16. júlí 2000, að fjárhæð 17.418 vegna loftpúða, og tveggja reikninga frá Krafti ehf., annars vegar dags. 7. apríl 2000 að fjárhæð 45.733 vegna þurrkumótors og hins vegar dags. 21. júní 2000 að fjárhæð 196.670 krónur vegna varahluta og vinnu.
Af hálfu stefnanda hafa ekki verið lögð fram nein gögn til stuðnings þeirri staðhæfingu sem fram kom við skýrslutöku af honum, að hann hafi greitt þá reikninga sem stílaðir eru á Hópferðamiðstöðina hf. Stefndi hefur krafist sýknu af kröfum þessum á þeim grundvelli að ekki hafi verið sýnt fram á aðild stefnanda að kröfum þessum. Samkvæmt því ber að sýkna stefnda af kröfum sem byggðar eru á reikningum þessum með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Í matsgerð dómkvadds matsmanns leggur matsmaður til grundvallar að reikningar vegna viðgerða og varahluta frá Krafti ehf. komi til frá frádráttar kaupverði umdeildrar bifreiðar, auk þess sem matsmaður tilgreinir ýmsa aðra kostnaðarliði vegna vinnu-og varahluta, sem koma eigi til frádráttar kaupverði. Matsgerðin er samkvæmt framangreindu ekki byggð á sjálfstæðri skoðun matsmanns á ástandi bifreiðarinnar áður en bætt var úr þeim göllum sem stefnandi telur að verið hafi á bifreiðinni við kaup, heldur lagði matsmaður til grundvallar niðurstöðum sínum reikninga frá viðgerðaverkstæði stefnanda um viðgerðir á bifreiðinni og keypta varahluta löngu eftir afhendingu hennar. Auk þessa hefur matsmaður tilgreint ýmsa kostnaðarliði, svo sem felgur, inniljós, mótora fyrir miðstöð og loftræstingu, framdempara, viðgerð á salerni o.fl., en rökstuðning fyrir þessu kostnaðarliðum skortir með öllu. Þá er í matsgerð tilgreint að reikningur sem matsmaður hafi ekki tekið með í útreikninga sína, sé reikningur vegna skiptingar á þurrkumótor, frá 7. apríl 2000, að fjárhæð 45.733, án þess að tilgreint sé hvort matsmaður telji að sá reikningur eigi einnig að koma til frádráttar kaupverði og þá hvers vegna. Matsmaður gerir ekki heldur grein fyrir því hvort til frádráttar kaupverði bifreiðarinnar eigi að koma verð nýs sveifaráss og með hvaða rökum. Samkvæmt framangreindu skortir mjög á að matsgerð sé rökstudd í samræmi við 1. mgr. 63. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og verður því sönnunargildi hennar metið eftir því, sbr. 2. mgr. 66. gr. sömu laga.
Við mat á því hvort þeir þrír reikningar sem stílaðir eru á stefnanda, vegna viðgerða á bifreiðinni, skuli koma til frádráttar kaupverði á grundvelli 42. gr. kaupalaga nr. 39/1922, sem gilda um viðskipti aðila máls þessa, ber að líta til þess að bifreiðin var 12 ára gömul er hún var seld og ekin tæpa 700.000 kílómetra. Stefnandi mátti því ætla að ástand bifreiðarinnar væri í samræmi við það. Við söluna lá frammi skoðunarvottorð Frumherja með aðeins einni athugasemd varðandi rúður, án útskýringa. Þá hafði stefnandi reynsluekið bifreiðinni eftir að í hana hafði verið sett önnur vél, en í reynsluakstrinum ofhitnaði vél bifreiðarinnar. Hafði því stefnandi ríka ástæðu til að skoða hina nýju vél bifreiðarinnar gaumgæfilega fyrir afhendingu og var einnig í lófa lagið að láta framkvæma ástandsskoðun á bifreiðinni allri áður en hann fékk hana afhenta, sbr. 47. gr. laga nr. 39/1922. Hvorki verður af gögnum málsins né framburði vitna ráðið að stefnandi hafi sinnt þeirri skoðunarskyldu sinni.
Auk þessa er með reikningi að fjárhæð 196.670 krónur, vegna viðgerðar á ,,heddum” bifreiðarinnar og þurrkuarma, verið að krefjast greiðslu á fjölmörgum varahlutum sem einungis eru nauðsynlegir til venjubundins viðhalds bifreiðar. Af hálfu stefnanda hefur ekki verið gerð grein fyrir því með hvaða hætti þeir hlutir tengjast kröfu hans um meinta galla á bifreiðinni.
Þegar allt framangreint er virt og höfð hliðsjón af takmörkuðu sönnunargildi framlagðrar matsgerðar telst alveg ósannað að hin selda bifreið hafi verið haldin þeim göllum sem stefnandi hefur haldið fram þegar kaup gerðust, sbr. 42. gr. laga nr. 39/1922, sbr. og 44. gr. sömu laga. Öllum kröfum stefnanda vegna meintra galla á bifreiðinni er því hafnað.
Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130.gr. laga nr. 91/1991 greiði stefnandi stefnda 150.000 krónur í málskostnað.
Ingveldur Einarsdóttir, héraðsdómari, ásamt meðdómsmönnunum Jan Jansen og Þórhalli Steinssyni, bifvélavirkjameisturum kveða upp dóm þennan.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Sigurdór Sigurðsson, er sýkn af kröfum stefnanda, Valgarðs Sigmarssonar.
Stefnandi greiði stefnda 150.000 krónur í málskostnað.