Hæstiréttur íslands

Mál nr. 606/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðför
  • Áfrýjunarfjárhæð
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


         

Fimmtudaginn 22. nóvember 2007.

Nr. 606/2007.

Hópbílar hf.

(Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.)

gegn

Ríkisútvarpinu ohf.

(enginn)

 

Kærumál. Aðför. Áfrýjunarfjárhæð. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Máli H hf. gegn R ohf. var vísað frá Hæstarétti án kröfu þar sem höfuðstóll kröfu H náði ekki áfrýjunarfjárhæð, sbr. 1. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

    

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. nóvember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. október 2007, þar sem staðfest var aðfarargerð sýslumannsins í Hafnarfirði 30. mars 2007 hjá sóknaraðila, sem fram fór að ósk varnaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind aðfarargerð verði felld úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Höfuðstóll kröfunnar, sem aðför var gerð fyrir 30. mars 2007, nam 87.035 krónum. Skilyrði um áfrýjunarfjárhæð í 1. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verður beitt um kæru sem þessa, sbr. 4. mgr. 150. gr. sömu laga og 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989, svo sem gert hefur verið í fyrri dómum Hæstaréttar. Krafa sóknaraðila nær ekki áfrýjunarfjárhæð samkvæmt fyrstnefnda lagaákvæðinu. Verður málinu því vísað frá Hæstarétti án kröfu.

Kröfu sóknaraðila um kærumálskostnað er hafnað.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. október 2007.

I.

Málið barst dóminum 22. maí sl. og var þingfest 13. júní sl. Það var tekið til úrskurðar 9. október sl. að loknum munnlegum málflutningi.

Sóknaraðili er Hópbílar hf., Melabraut 18, Hafnarfirði.

Varnaraðili er Ríkisútvarpið ohf., Efstaleiti 1, Reykjavík.

Sóknaraðili krefst þess að fjárnámsgerð sýslumannsins í Hafnarfirði nr. 36/2007/01157, sem gert var í bifreið sóknaraðila VA-177 30. mars sl. verði ógilt. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að fjárnámið verði staðfest og krefst jafnframt málskostnaðar.

II.

Samkvæmt gögnum málsins sendi varnaraðili sóknaraðila innheimtubréf dagsett 13. september 2006 og krafði hann um greiðslu gjaldfallinna afnotagjalda Ríkisútvarpsins fyrir tímabilin 1. janúar til 31. mars, 1. apríl til 30. júní og 1. júlí til 30. september 2006, samtals að fjárhæð 87.035 krónur að meðtöldu álagi. Var um að ræða afnotagjöld vegna útvarpstækja í 18 atvinnubifreiðum sóknaraðila. Varnaraðili sendi varnaraðila greiðsluáskorun 18. janúar 2007 en krafðist fjárnáms hjá sóknaraðila með aðfararbeiðni dagsettri 28. febrúar sl. Málið var tekið fyrir hjá sýslumanni 30. mars sl. og kvaðst sóknaraðili þá hafa það við kröfu varnaraðila að athuga að hún styddist ekki við lög auk þess sem framkvæmd innheimtunnar væri brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og varð ekki við að greiða hana. Að ábendingu sóknaraðila, sem varnaraðili gerði ekki athugasemdir við, var gert fjárnám fyrir kröfu varnaraðila í bifreiðinni VA-177 sem er í eigu sóknaraðila. Var því lýst yfir af hálfu sóknaraðila að málið yrði borið undir héraðsdóm Reykjaness og var það gert eins og áður er lýst.

III.

Sóknaraðili byggir kröfur sínar í máli þessu á því að krafa varnaraðila sé ólögmæt en hún sé byggð á skyldu sóknaraðila til greiðslu afnotagjalda vegna útvarpa í atvinnubifreiðum hans. Ljóst sé af gögnum málsins að á árinu 2005 hafi einungis verið innheimt afnotagjald vegna eins útvarpstækis hjá sóknaraðila en á árinu 2006 hafi sóknaraðili hins vegar fengið kröfu frá varnaraðila um greiðslu afnotagjalds af 18 útvarpstækjum. Engin skýring á innheimtunni hefði fylgt greiðsluseðlinum og þá hafi þar ekki komið fram aðgreining útvarpstækja í bílaútvörp og önnur útvörp. Á greiðsluseðlinum hafi heldur ekki komið fram skráningarnúmer atvinnubifreiða í eigu sóknaraðila. Eftir samtöl við innheimtudeild varnaraðila hafi komið í ljós að um var að ræða nýja framkvæmd varnaraðila á innheimtu afnotagjalda vegna útvarpa í bifreiðum hans.

Bendir sóknaraðili á að útvarpstæki sé nú almennur fylgihlutur með atvinnubifreiðum ólíkt því sem hafi verið á upphafsdögum útvarps. Á fyrstu áratugum Ríkisútvarpsins hafi viðtæki verið staðsett í fasteignum en ekki í bifreiðum. Hins vegar hafi lögum um Ríkisútvarpið ekki verið breytt í samræmi við þessa staðreynd og því skorti viðhlítandi lagastoð fyrir innheimtu afnotagjalda vegna útvarpstækja í fyrirtækjabifreiðum. Þá vísar sóknaraðili til þess að það skorti skýra lagastoð fyrir innheimtunni sbr. kröfu 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands um skýrleika skattheimilda.

Heimild varnaraðila til að innheimta afnotagjöld af viðtækjum sé að finna í 12. gr. laga nr. 122/2000 um Ríkisútvarpið. Sé sú lagagrein óbreytt frá eldri útgáfu laganna, þ.e. frá ákvæðum 24. gr. útvarpslaga nr. 68/1985. Samkvæmt 13. gr. laga nr. 6/2007 um Ríkisútvarpið ohf. muni framangreind 12. gr. laga nr. 122/2000 falla úr gildi 1. janúar 2009. Hvorki sé í 12. gr. núgildandi laga né í eldri útgáfu þeirra að finna nokkra tilvísun til greiðslu útvarpsgjalds vegna viðtækja í bifreiðum, hvorki einkabifreiðum né fyrirtækjabifreiðum.

Í lögum um Ríkisútvarpið segi að nánari ákvæði um afslátt og skilgreiningu á heimili skuli setja í reglugerð en enga tilvísun er að finna í lögunum til tiltekinnar reglugerðar. Í reglugerð um Ríkisútvarpið nr. 357/1986, sem sett var með lagastoð í útvarpslögum nr. 68/1985, sem ekki eru lengur í gildi, sé hins vegar að finna ákvæði sem segi að viðtæki í einkabifreiðum teljist heimilisviðtæki notanda en að af viðtækjum í öðrum bifreiðum og vélknúnum ökutækjum skuli greiða fullt gjald. Þannig hafi verið ákveðið með reglugerðarákvæði að aðeins útvarpstæki í atvinnubifreiðum skyldu gjaldsskyld en ekki útvörp í einkabifreiðum.

Sóknaraðili vísar einnig til þess að í núgildandi útvarpslögum nr. 53/2000 sé ekki fjallað um afnotagjöld að öðru leyti en því að þar segi í 15. gr. að útvarpsstöðvum sé heimilt að afla tekna með afnotagjaldi, áskriftargjaldi, auglýsingum, fjarsöluinnskotum, kostun og sölu eða leigu á vörum sem tengjast dagskrárefni þeirra. Þá segi í útvarpslögunum að reglugerðir samkvæmt útvarpslögum nr. 68/1985 skuli halda gildi sínu að svo miklu leyti sem við geti átt þar til sett hafi verið reglugerð eða reglugerðir um framkvæmd laganna. Sé staðan því sú að hvergi í lögum sé minnst á afnotagjöld útvarpstækja í bifreiðum og eina reglugerðin sem minnist á afnotagjöld sé sett með stoð í útvarpslögum en ekki í lögum um Ríkisútvarpið. 

Framanrituðu til viðbótar byggir sóknaraðili kröfur sínar á því að með innheimtuaðferð sinni sé brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Í áðurnefndri 12. gr. laga um Ríkisútvarpið sé því heimilt að veita afslátt af útvarpsgjaldi vegna fjölda tækja „á sama stað“ en sams konar heimild sé ekki að finna varðandi afslátt vegna fjölda bifreiða enda séu engar tilvísanir í lögunum um innheimtu sérstakra afnotagjalda af útvarpstækjum í bifreiðum. Af þessu leiði að fyrirtækjum sé gróflega mismunað hvað varði innheimtu útvarpsgjalds eftir því hver rekstur þeirra sé. Þannig fái t.d. hótel með útvarpstæki í hverju herbergi afslátt af útvarpsgjaldi en ekki fyrirtæki sem geri út nokkurn fjölda hópbifreiða. Með hliðsjón af öryggishlutverki Ríkisútvarpsins og þörf bifreiðarstjóra á að fá upplýsingar um ýmis atriði, s.s. færð á vegum, sé þeim mikilvægara að hafa útvarpstæki í bifreiðum sínum en mörgum öðrum. Telur sóknaraðili vandséð á hverju slík mismunun á innheimtu og heimildum til afsláttar byggi.

Sóknaraðili bendir á að innheimta afnotagjalda vegna útvarpstækja í bifreiðum feli í sér nýja framkvæmd á lögunum en það hafi verið fyrst árið 2000 sem fáein fyrirtæki hafi orðið þess áskynja að útvörp í atvinnubifreiðum voru orðin að sérstökum skattstofni hjá varnaraðila. Síðan hefði slíkri gjaldtöku verið hætt að mestu vegna mótmæla Samtaka atvinnulífsins þar til varnaraðili hóf „herferð“ sína á nýjan leik á árinu 2006. Virtist sem það væri tilviljunum háð að hvaða fyrirtækjum skattheimtan beindist og þá liti út fyrir að innheimtan væri ekki í neinu samræmi við fjölda atvinnubifreiða þeirra fyrirtækja sem fyrir henni urðu. Þessi handahófskennda innheimta varnaraðila skekkti mjög samkeppnisstöðu fyrirtækja á sama markaði og samræmdist ekki góðum stjórnsýsluháttum. Þá hefði engin kynning af hálfu varnaraðila farið fram á hinni nýju innheimtuframkvæmd sem sóknaraðili telur að nauðsynlegt hefði verið að gera í ljósi þess að innheimta sérstaks afnotagjalds vegna útvarpa í atvinnubifreiðum hefði ekki farið fram allt frá því að byrjað var að setja útvörp í bifreiðar og þar til nú. Slík framkvæmd sé einnig brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.

IV.

Sóknaraðili byggir kröfur sínar á því að innheimta á afnotagjöldum vegna útvarpa í atvinnubifreiðum sóknaraðila sé grundvölluð á ákvæðum 12. gr. laga nr. 122/2000 um útvarpsgjald og innheimtu þess þar sem fram komi að eigandi viðtækis, sem nýta megi til móttöku á útsendingum Ríkisútvarpsins, skuli greiða afnotagjöld. Sams konar ákvæði hafi verið í eldri lögum nr. 68/1985 en samkvæmt þeim lögum hafi verið sett reglugerð nr. 357/1986 þar sem fram komi að viðtæki í einkabifreiðum teljist heimilistæki notanda og að af viðtækjum í öðrum bifreiðum og vélknúnum tækjum skuli greiða fullt gjald. Enginn vafi leiki á um gildi reglugerðarinnar þar sem í 37. gr. útvarpslaga nr. 53/2000, sem ekki er deilt um að hafi stjórnskipulegt gildi, komi fram að efnisatriði allra reglugerða settra með stoð í lögum nr. 68/1985 séu lögfest. 

Á þessum grunni hafi starfsmenn varnaraðila gert ítrekaðar leitir að óskráðum viðtækjum en slík tækjaleit og þær aðferðir sem notaðar séu við leitina, hafi m.a. verið viðurkenndar í ágreiningsmálum sem vísað var til Umboðsmanns Alþingis. Á árinu 2000 hafi varnaraðili hafið sérstakt átak til að freista þess að skrá viðtæki í atvinnubifreiðum og hafi sú vinna haldið áfram til þessa dags án hlés og því sé sérstaklega mótmælt fullyrðingu sóknaraðila um að átak varnaraðila hafi verið stöðvað um skeið vegna mótmæla Samtaka atvinnulífsins. Ekki hafi verið um handahófskennd vinnubrögð varnaraðila að ræða enda hefði öllum fyrirtækjum í landinu verið send bréf af þessu tilefni og óskað upplýsinga um skráðar bifreiðar sem útbúnar væru viðtækjum. Viðbrögð fyrirtækja hefðu verið ágæt og væru reglulegir greiðendur afnotagjalda m.a. fyrirtæki sem séu í samsvarandi starfsemi og sóknaraðili. Í lok ársins 2006 hefðu alls 2.926 fyrirtæki greitt afnotagjöld vegna fyrirtækjabifreiða.

Varnaraðili kveður sóknaraðila hafa neitað allri samvinnu og upplýsingagjöf um bifreiðaeign sína og hafi starfsmenn varnaraðila því flett bifreiðaskrá eftir bílnúmerum og fundið 18 númer sem tilheyrðu sóknaraðila. Hafi kröfugerð við fjárnámsgerðina verið miðuð við að tilgreindar bifreiðar væru í eigu sóknaraðila. Í raun eigi sóknaraðili mun fleiri bifreiðar.

V.

Ekki er deilt um fjárhæðir í máli þessu. Sóknaraðili byggir kröfur sínar annars vegar á því að lagastoð skorti fyrir innheimtu varnaraðila á afnotagjöldum vegna útvarpstækja í atvinnubifreiðum sóknaraðila en hins vegar telur sóknaraðili innheimtuaðgerðir varnaraðila ólögmætar þar sem þær brjóti í bága við jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 15. gr. útvarpslaga nr. 53/2000 er útvarpsstöðvum heimilt að afla tekna m.a. með afnotagjaldi. Í 12. gr. laga nr. 122/2000 um Ríkisútvarpið,sem nú heita lög um útvarpsgjald og innheimtu þess,kemur fram sú meginregla að eigandi viðtækis, sem nýta má til móttöku á útsendingum Ríkisútvarpsins, skuli greiða afnotagjald, útvarpsgjald, af hverju tæki. Þó kemur fram að eingöngu skuli greiða eitt útvarpsgjald fyrir einkaafnot fjölskyldu á heimili. Í 18. gr. reglugerðar nr. 357/1986 kemur fram að viðtæki í einkabifreiðum teljist heimilisviðtæki notanda en að af viðtækjum í öðrum bifreiðum og vélknúnum tækjum skuli greiða fullt gjald. Verður ekki fallist á það með sóknaraðila að reglugerðarákvæðið fari út fyrir ramma ákvæða áðurnefndrar 12. gr. Reglugerðin er sett með stoð í 38. gr. þágildandi útvarpslaga nr. 68/1985 en í 3. mgr. 37. gr. núgildandi útvarpslaga nr. 53/2000 er mælt fyrir um að reglugerðir samkvæmt lögum nr. 68/1985 haldi gildi sínu þar til sett hefur verið reglugerð eða reglugerðir um framkvæmd laganna. Ekki er í máli þessu deilt um stjórnskipulegt gildi laganna.

Þegar litið er til orðalags meginreglunnar í 12. gr. laga nr. 122/2000 um að greiða beri afnotagjald af öllum viðtækjum sem og til þeirra ákvæða annarra, sem hér hafa verið rakin, verður ekki fallist á það með sóknaraðila að heimildin til töku afnotagjalda sé óskýr og brjóti í bága við kröfu 77. gr. stjórnarskrárinnar um skýrleika skattheimilda. Í ljósi skýrleika meginreglu ákvæðisins þykir það ekki valda óskýrleika heimildarinnar þótt atvinnubifreiðar séu ekki sérstaklega tilgreindar í lagaákvæðinu sjálfu enda er þar kveðið á um gjaldskyldu af öllum viðtækjum.

Ekki verður fallist á það með sóknaraðila að ákvæði 12. gr. laga 122/2000 um afslátt til fyrirtækja vegna fjölda tækja á sama stað mismuni fyrirtækjum eftir því hvaða rekstur þau stunda þótt ekki sé jafnframt veittur afsláttur vegna fjölda bifreiða. Í ákvæðinu er gert ráð fyrir því að fyrirtæki í sambærilegri stöðu fái sama afslátt og njóti þannig jafnræðis sín í milli. 

Sóknaraðili byggir á því að innheimta afnotagjalda vegna útvarpstækja í atvinnubifreiðum feli í sér nýja framkvæmd á lögum nr. 122/2000 sem ekki hafi verið kynnt og að skattheimtan virðist ekki vera almenn. Vísar sóknaraðili þar um til óformlegrar könnunar sinnar og framlagðs bréfs varnaraðila til Samtaka atvinnulífsins sem dagsett er 5. desember 2006. Þessu hefur varnaraðili mótmælt og við munnlegan málflutning upplýsti lögmaður varnaraðila að á árinu 2000 hefði verið ákveðið að ganga eftir greiðslum á afnotagjöldum vegna viðtækja í atvinnubifreiðum og hefði öllum eigendum slíkra bifreiða verið sent dreifibréf um þetta sama ár. Í framlögðu bréfi varnaraðila frá 5. desember 2006 er upplýst að við síðustu greiðslu afnotagjalda Ríkisútvarpsins hefðu tæplega þrjú þúsund fyrirtæki greitt afnotagjöld vegna viðtækja sem skráð eru í viðtækjaskrá varnaraðila og langflest vegna viðtækja í atvinnubifreiðum. Misjafnt hefði verið af hve mörgum tækjum greitt var en þau hefðu verið frá einu tæki í bifreið upp í 200 tæki í bifreiðum hjá sama fyrirtæki. Að þessu virtu er bæði ósannað að vinnubrögð varnaraðila við innheimtu afnotagjalda þessara hafi verið handahófskennd sem og að komist hafi á venja um að innheimta ekki afnotagjöldin.

Útvarpsgjald er lögum samkvæmt lagt á eigendur viðtækja og er að því leyti byggt á tilkynningum um kaup á nýjum tækjum eða um eigendaskipti. Ákvarðanir um gjaldtöku eru þá birtar eigendum viðtækja með innheimtuseðlum enda er gengið út frá því að þeim sé að lögum kunnugt um gjaldskylduna og þar með að ekki þurfi fyrir eða við upphaf gjaldtökunnar að koma til frekari tilkynninga af hálfu varnaraðila í samræmi við reglur stjórnsýsluréttarins. Verður ekki fallist á það með sóknaraðila að varnaraðili hafi með framangreindri innheimtu brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.

Með vísan til alls þess sem nú hefur verið rakið er öllum málsástæðum sóknaraðila hafnað og þar með kröfum hans um ógildingu á umræddri aðfarargerð. Af því leiðir að fallist er á kröfu varnaraðila um staðfestingu hennar.

Eftir framangreindum málsúrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 170.000 krónur.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Aðfarargerð nr. 036-2007-01157, sem framkvæmd var af sýslumanninum í Hafnarfirði 30. mars 2007, er staðfest.

Sóknaraðili, Hópbílar hf., greiði varnaraðila, Ríkisútvarpinu ohf., 170.000 krónur í málskostnað.