Hæstiréttur íslands
Mál nr. 291/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. maí 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. maí 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. maí 2017 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og honum ekki gert að sæta einangrun.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 28. apríl 2017 hefur kærði sætt gæsluvarðhaldi samkvæmt a. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 frá 28. apríl 2017, en með hinum kærða úrskurði var honum gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi eins og nánar greinir hér að framan. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á að fullnægt sé skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um að varnaraðili sæti áfram gæsluvarðhaldi og einangrun meðan á því stendur, sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga eins og krafist er. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. maí 2017.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, fd. [...], verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. maí nk. kl. 16. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Krafan er byggð á a lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og b lið 1. mgr. 99. gr., sbr. 2. mgr. 98. gr. laganna.
Krafan er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot á 173 gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað en til vara að kærði verði ekki látinn sæta einangrun meðan á gæsluvarhaldi stendur.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að embættið hafi nú til rannsóknar mál er varði innflutning fíkniefna hingað til lands. Lögreglu hafi borist upplýsingar þess efnis að til stæði að flytja inn til landsins mikið magn af sterkum fíkniefnum með ferjunni Norrænu. Lögreglan hafi því verið með eftirlit á tollsvæðinu á Seyðisfirði þegar ferjan kom til landsins 25. apríl sl.
Bifreiðin [...] hafi vakið athygli lögreglu og tollvarða og hafi hún verið tekin til frekari skoðunar. Ökumaður bifreiðarinnar hafi verið kærði A og hafi afskipti lögreglu og tollvarða af honum og bifreiðinni leitt til þess að grunsemdir vöknuðu um að í bifreiðinni væru falin fíkniefni. Lögregla hafi í kjölfarið fengið heimild í dómsúrskurði til að koma fyrir eftirfararbúnaði og hljóðupptöku í bifreiðinni sem og hlustun á farsíma A.
Bifreiðinni hafi síðan verið fylgt eftir til Reykjavíkur og hafi A ekið sem leið liggur til Keflavíkur þar sem hann hafi sótt X á flugvöllinn. Þeir hafi síðan ekið að gistiheimilinu [...] fyrir austan fjall þar sem þeir hafi átt pantað herbergi.
Þann 27. apríl hafi þeir A og X farið í verslunina [...] og keypt þar topplyklasett, sexkanta, nælonhanska, skrúfjárn og vigt. Lögregla telji að ætlunin hafi verið að nota þessi verkfæri til að ná fíkniefnum úr bifreiðinni. Kærði A og X hafi verið handteknir á gistiheimilinu [...] með rúmlega eitt kíló af sterkum fíkniefnum. Þegar þeir hafi verið handteknir hafi X verið búinn að setja um helming efnanna inn á vasa á yfirhöfn sinni. Við leit í bifreiðinni [...] hafi fundist um 2 kg af sterkum fíkniefnum en þau fíkniefni hafi verið í eins pakkningum og fíkniefnin sem áður höfðu fundist í herberginu á gistiheimilinu. Það sé ætlun lögreglu að þeir hafi ætlað að afhenda efnin einhverjum óþekktum aðila.
Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi A verið spurður um hvort hann þekkti einhvern á Íslandi. Hann kvaðst vera að heimsækja X vin sinn en þar eigi hann við X. Hann hafi kynnst honum í gegnum netið í gegnum auglýsingu þar sem verið var að auglýsa eftir vinnu. Kvaðst hann hafa keyrt frá Póllandi til Hollands. Bremsurnar á bílnum hafi bilað og hafi hann hringt í X. Þeir hafi ákveðið að hittast í Hollandi. Kvaðst hann hafa stoppað á Hótel Bastion, rétt fyrir utan Haag. Kvað hann B vin sinn hafa farið með bílinn og verið nokkra klukkutíma í burtu. Samkvæmt sms samskiptum sem A hafi átt við X þá vissi A af fíkniefnunum í bílnum. Í farsíma hans hafi fundist sms samskipti milli hans og X frá 23. apríl þar sem A hafi spurt X hverju hann megi búast við ef hann yrði tekin til hliðar er hann kæmi úr ferjunni. Hann hafi síðan fengið svar til baka frá X um að hann eigi að vera slakur og rólegur því að hundur og röntgen eigi ekki séns í þetta og að hundur finni þetta ekki. A kvaðst hafa hringt í X þegar hann kom til Íslands og þá hafi X sagt honum að hann væri að koma með flugvél og að A ætti að sækja hann. Þegar X hafi lent hafi hann hringt í hann, sagt honum að hann væri kominn í gegn og að A ætti að koma að sækja hann.
A hafi verið kynnt að lögregla hafi verið með herbergishlustun á hótelherbergi hans og X í [...]. Í þeirri hlustun heyrist A spyrja X hvort að X hafi sett þetta í sokka svo það kæmu engin fingraför. A kvaðst ekki getað svara þessu. A kveðst vera alveg saklaus. Hann kvaðst ekki hafa vitað um þetta, það gæti verið að einhver hafi sett efnin í bílinn í Hollandi.
X hafi að mestu neitað að tjá sig við skýrslutöku hjá lögreglu. Kvaðst hann hafa komið hingað til lands vegna byggingarmála. Við skoðun á síma hans megi sjá að hann hafi leitað að Opel bíl í janúar. Þá hafi hann einnig leitað að því hvernig eigi að fjarlægja mælaborð úr Opel bifreiðum og upplýsingum um efnið MDMA. Fram komi í eftirliti lögreglu að X hafi hitt mann sem hann hafi rætt við í dágóða stund. Hann hafi ekki viljað tjá sig um það.
Lögregla hafi óskað eftir því við hollensk yfirvöld að fá upplýsingar um hótelið sem A segir að þeir hafi hist á í Hollandi, myndir og símagögn til að sjá staðsetningu þeirra og símtöl frá því að þeir voru í Hollandi í þeim tilgangi að varpa ljósi á það hver pakkaði fíkniefnunum áður en þau komu til Íslands, rekja ferðir þeirra og finna meinta samverkamenn. Beðið sé eftir þessum gögnum.
Í ljósi ofangreinds og þeirra gagna sem lögreglan hafi aflað sé kærði undir rökstuddum grun um aðild að innflutningi á miklu magni af sterkum fíkniefnum hingað til lands. Ljóst sé að fíkniefnin hafi verið ætluð til sölu og dreifingar hér á landi og sé það grunur lögreglu að fleiri aðilar tengist málinu. Telji lögregla því brýna nauðsyn á því á þessu stigi málsins að kærði sæti gæsluvarðhaldi og verði hafður í einangrun þar sem ljóst sé að gangi kærði laus geti hann sett sig í samband við meinta samverkamenn eða þeir sett sig í samband við hann. Þá geti kærði einnig komið undan gögnum með sönnunargildi sem lögreglan hafi ekki lagt hald á nú þegar.
Með hliðsjón af framangreindu og gögnum málsins er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um refsiverðan verknað sem fangelsisrefsing er lögð við. Rannsókn málsins á innflutningi á töluverðu magni af sterkum fíkniefnum stendur yfir og má ætla að kærði muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni, fari hann frjáls ferða sinna. Er því fullnægt skilyrðum a liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að taka megi til greina kröfu lögreglustjóra um áframhaldandi gæsluvarðhals kærða allt til 19. maí nk. kl. 16:00. Með vísan til umfangs málsins og rannsóknarhagsmuna verður einnig fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur, sbr. b lið 99. gr., sbr. 2. gr. 98. gr. laga nr. 88/2008.
Gunnar Aðalssteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kærði, X, sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. maí nk. klukkan 16. Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.