Hæstiréttur íslands

Mál nr. 386/2011


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Sératkvæði


                                     

Fimmtudaginn 19. janúar 2012.

Nr. 386/2011.

Henryk Leniec

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf.

Gunnari Valbirni Jónssyni og

(Einar Baldvin Axelsson hrl.)

Verði tryggingum hf.

(Björn L. Bergsson hrl.)

Vinnuslys. Líkamstjón. Skaðabætur. Sératkvæði.

H krafði VÍ hf., G og V hf. um bætur vegna vinnuslyss sem hann varð fyrir við hífingu járngrindar. Í niðurstöðu héraðsdóms sem staðfest var í Hæstarétti með vísan til forsendna, sagði að ekki yrði annað ráðið en að verklag tiltekið sinn hefði verið með venjulegum hætti. Þótti H ekki hafa sýnt fram á að slys hans yrði rakið til ófullnægjandi verkstjórnar eða skorts á leiðbeiningum um framkvæmd verksins á vinnustað, saknæmra mistaka stjórnanda krana eða meints réttindaleysis hans eða þess að brotið hefði verið gegn ákvæðum laga nr. 46/1980 á vinnusvæðinu að því er varðaði öryggisatriði við verkframkvæmdir eða starfsöryggi starfsmanna. Voru VÍ hf., G og V hf. því sýknaðir af kröfu H.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. júní 2011. Hann krefst þess að stefndu verði óskipt gert að greiða honum 5.071.379 krónur með 4,5% vöxtum, af 1.681.018 krónum frá 7. apríl 2006 til 7. apríl 2007, en af 5.071.379 krónum frá þeim degi til 1. desember 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð til greiðsludags, allt að frádreginni greiðslu 17. september 2010 að fjárhæð 562.615 krónur og greiðslu 28. júlí 2009 að fjárhæð 1.092.555 krónur gagnvart stefnda Verði tryggingum hf. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Stefndu, Vátryggingafélag Íslands og Gunnar Valbjörn Jónsson, krefjast aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Stefndi Vörður tryggingar hf. krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, sbr. 3. mgr. 130. gr., sbr. og 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 500.000 krónur.

Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Slys áfrýjanda varð með þeim hætti að járnagrind sem hallaðist upp að svonefndum járnabindingarrekka fór af stað þegar áfrýjandi hafði klifrað upp grindina til að festa á hana stroffu úr krana sem átti að lyfta grindinni af rekkanum. Miðað við augljósan þunga grindarinnar og stöðu hennar við rekkann er yfirgnæfandi líklegt að hún hafi færst af rekkanum fyrir tilverknað afls frá umræddum krana. Óumdeilt er að aðalverktakinn Atafl ehf. sá um að flytja járnagrindurnar frá rekkanum og yfir í bygginguna, þar sem nota átti grindurnar, og bar ábyrgð á þeim hluta vinnunnar. Stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. var ábyrgðartryggjandi aðalverktakans.

Í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins um slysið segir meðal annars að ekki sé til staðar vitneskja hjá Vinnueftirlitinu um réttindi stjórnanda kranans til að stjórna byggingarkrana. Telur eftirlitið að „meðvirkandi orsök gæti verið að stjórnandi krana hafi ekki réttindi til að stjórna byggingakrana og því ekki þjálfun og reynslu til að stjórna slíku tæki af fullu öryggi“. Tel ég að leggja verði til grundvallar dómi í málinu að maðurinn sem stjórnaði krananum hafi ekki haft tilskilin leyfi til þess, enda hefðu stefndu átt auðvelt með að afla gagna um slík réttindi ef þau hefðu verið til staðar.

Við þessar aðstæður verður að leggja sönnunarbyrði á stefnda Vátryggingafélag Íslands hf., sem kemur í stað aðalverktakans, fyrir því að orsaka slyssins sé ekki að leita í mistökum kranastjórans við stjórntök kranans. Slík sönnun liggur ekki fyrir í málinu. Leiðir þetta til þess að mínum dómi taka beri til greina kröfu áfrýjanda á hendur þessum stefnda.

Áfrýjandi hefur ekki leitt viðhlítandi rök að kröfu sinni á hendur byggingarstjóra verksins, stefnda Gunnari Valbirni Jónssyni, og tel ég því að staðfesta beri hinn áfrýjaða dóm að því er hann varðar.

Stefndi Vörður trygging hf. var ábyrgðartryggjandi undirverktakans Aflbindinga ehf. sem var vinnuveitandi áfrýjanda þegar slysið varð. Óumdeilt er að undirverktakinn átti ekki hlut að þeim verkþætti sem samkvæmt framansögðu olli slysi áfrýjanda og ber því að staðfesta héraðsdóm um að sýkna Vörð vátryggingar hf. af kröfu áfrýjanda.

Áfrýjandi hefur ekki gert kröfu fyrir Hæstarétti um endurskoðun á ákvæði hins áfrýjaða dóms um máls- og gjafsóknarkostnað.

Ég geri ekki ágreining við meirihlutann um ákvörðun gjafsóknarkostnaðar fyrir Hæstarétti, en tel að dæma ætti stefnda Vátryggingafélag Íslands hf. til að greiða samsvarandi fjárhæð í ríkissjóð. Þá er ég sammála því að fella málskostnað fyrir Hæstarétti að öðru leyti niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. apríl 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var 24. febrúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Henryk Leniec, búsettum í Póllandi, gegn Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík; Verði tryggingum hf., Borgartúni 25, Reykjavík og Gunnari Valbirni Jónssyni, Heiðarbraut 23, Reykjanesbæ, með stefnu birtri 19. og 24. nóvember 2009.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu Vátryggingafélag Íslands hf., Vörður tryggingar hf. og Gunnar Valbjörn Jónsson, verði dæmd in solidum til að greiða stefnanda 5.071.379 kr. með 4,5% vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, af 3.162.904 kr. frá 7. apríl 2006 til 7. apríl 2007, en af 5.071.379 kr. frá þeim degi til 1. desember 2009, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð til greiðsludags, allt að frádreginni greiðslu að fjárhæð 562.615 kr., þann 17. september 2010, og frádreginni greiðslu að fjárhæð kr. 1.092.555,- þann 28. júlí 2009, gagnvart stefnda Verði tryggingum hf.

Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Dómkröfur stefndu, Vátryggingafélags Íslands og Gunnars Valbjarnar Jónssonar, í málinu eru aðallega að sýknað verði af öllum kröfum stefnanda, en til vara er krafist lækkunar.

Í aðalkröfu er gerð krafa um málskostnað að mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti en í varakröfu er þess krafist að málskostnaður verði felldur niður.

Dómkröfur, stefnda Varðar trygginga hf., eru að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.

Málsatvik

Mál þetta er höfðað af stefnanda til greiðslu bóta vegna slyss sem hann varð fyrir 7. apríl 2006. Stefndi starfaði þá við járnbindingar hjá Aflbindingum ehf. sem var undirverktaki verkframkvæmda við Sléttuveg 19-23, Reykjavík. Aðalverktaki verksins var Atafl hf. og byggingarstjóri verksins var Gunnar Valbjörn Jónsson.

Í lögregluskýrslu kemur fram að stefnandi hafi ásamt samstarfsmanni sínum hjá Aflbindingum ehf., Frosta Richardssyni, unnið við að færa járngrindur úr rekka sem notaður er við járnabindingar þegar slysið varð. Þeir hafi staðið uppi í rekkanum og verið að húkka krók frá byggingarkrana í grindina er skyndilega hafi komið slinkur á vírinn sem krókurinn er tengdur í. Við það hafi þeir báðir misst takið og jafnvægið og fallið úr rekkanum. Frosti sagðist hafa komið niður á pall sem rekkinn stóð á, en stefnandi hefði lent á jörðinni við hliðina á rekkanum. Stefnandi telur að fall sitt úr grindinni hafi verið um 1,5 metrar. Við fallið ökklabrotnaði stefnandi á vinstri fæti.

Í málinu liggur einnig fyrir skýrsla Vinnueftirlits ríkisins um slysið, en eftirlitsmaður á vegum þess kom á vettvang samdægurs. Þar segir svo:

 „Slasaði stóð á járnteini sem er hluti af forbindingarrekka og var að krækja keðju frá byggingarkrana í járnagrind til að lyfta henni úr rekkanum. Er slasaði hafði fest krókinn í járnagrind kom slinkur á keðjuna og reif járngrindina úr rekkanum þannig að slasaði missti jafnvægið og stökk til jarðar um 1,7 m.“

Þá kemur fram í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins að samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu hafi jafnaðarvindhraði í Fossvogi að morgni 7. apríl 2006 verið á bilinu 7,7-10,3 m/sek. og hæsti toppur hafi mælst 13,4 m/sek.

Samkvæmt matsgerð þeirra Guðmundar Björnssonar læknis og Sigurðar B. Halldórssonar hdl., dags. 15. maí 2009, er varanleg örorka stefnanda vegna slyssins metin 15% og varanlegur miski 15 stig. Tímabundið atvinnutjón telst vera 100% frá slysdegi til 7. apríl 2007.

Á slysdegi höfðu Aflbindingar ehf. ábyrgðartryggingu hjá stefnda Verði tryggingum hf. og Atafl hf. hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. Bæði félögin höfnuðu bótaskyldu í málinu. Málinu var vísað til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum sem kvað upp úrskurð 1. júlí 2008 þess efnis að bótaskylda væri ekki fyrir hendi samkvæmt umræddum ábyrgðartryggingum. Vörður tryggingar hf. viðurkenndi þó rétt stefnanda til bóta úr slysatryggingu launþega og fékk stefnandi greiddar 1.092.555 krónur þann 28. júlí 2009. Sjúkratryggingar Íslands mátu varanlega slysaörorku stefnanda vegna slyssins 15% , m.a. á grundvelli fyrrgreindrar matsgerðar, og greiddu stefnanda 562.615 krónur í örorkubætur 17. september 2010.

Í málinu er fyrst og fremst deilt um bótaskyldu vegna slyss stefnanda.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því að slysið megi rekja til óforsvaranlegra vinnuaðstæðna og gáleysis starfsmanna félaganna sem beri ábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttar. Á því verði byggt að Aflbinding. ehf., Atafl ehf. og Gunnar Valbjörn Jónsson beri ábyrgð á ófullnægjandi vinnuaðstæðum og jafnframt því að réttindalaus maður stýrði krana á vegum Atafls ehf. og Aflbindinga ehf. Stefnandi telji í því samhengi engu máli skipta um ábyrgð þeirra á stjórn kranans að kraninn kunni að hafa verið í eigu annarra aðila. Slys stefnanda megi rekja til óviðunandi aðstæðna á vinnustað og þess að stjórnandi kranans hafi ekki haft tilskilin réttindi. Þá hafi verkstjórn augljóslega verið ábótavant.

Þar sem tryggingafélögin hafi hafnað bótaskyldu, Vátryggingafélag Íslands hf. með bréfi dags. 6. júní 2007 og Vörður tryggingar hf. með bréfi, dags. 30. janúar 2007, hafi afstöðu þeirra verið skotið til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum þann 26. maí 2008. Með úrskurði dags. 1. júlí 2008 í máli nr. 95/2008 hafi nefndin komist að því að bótaskylda væri ekki fyrir hendi. Sú afstaða sé rökstudd með þeim hætti að ekki hafi verið sýnt fram á að rekja megi slysið til vanrækslu aðila þ.á m. stjórnanda kranans, vanbúnaðar á byggingarstað eða annarra aðstæðna sem tryggingarfélögin bæru ábyrgð á. Það hafi verið afstaða nefndarinnar að um óhappatilvik hafi verið að ræða. Stefnandi geti með engu móti sætt sig við þá afstöðu og sé nauðugur sá kostur að höfða mál til heimtu skaðabóta vegna slyssins.

Dómkröfur stefnanda sundurliðist með eftirfarandi hætti:

1.               Bætur skv. 2. gr. skbl.                                                         1.481.886 kr.

2.               Bætur skv. 3. gr. skbl.:

360 x (700 x (6709/3282))                                                                     514.800 kr.

5 x (1300 x (6709/3282))                                                                         13.300 kr.

3.               Bætur skv. 4. gr. skbl.:

3.760.000 x (6709/3282) x 15%                                                       1.152.918 kr.     

4.               Bætur skv. 5.- 7. gr. skbl.:

1.200.000 x (5274/3282) x 6,598 x 15%                                        1.908.475 kr.

                                                                  SAMTALS.....................     5.071.379 kr.

Frádráttur vegna greiðslu frá Sjúkratryggingum Íslands 17/9 2010:

(gagnvart öllum stefndu)                                                                        -562.615 kr.

Frádráttur vegna greiðslu úr launþegatryggingu 28/7 2009         -1.092.555 kr.

(gagnvart stefnda Verði tryggingum hf.)

Útreikningurinn taki mið af matsgerð Sigurðar B. Halldórssonar hrl. og Guðmundar Björnssonar læknis, dags. 15. maí 2009. Samkvæmt henni hafi stöðugleikatímapunktur stefnanda verið 7. apríl 2007.

Samkvæmt matsgerð hafi tímabundið atvinnutjón stefnanda verið frá 7. apríl 2006 til 7. apríl 2007, þ.e. 365 dagar.

Samkvæmt matsgerð hafi þjáningatímabil stefnanda verið frá 7. apríl 2006 til 7. apríl 2007, þ.e. 365 dagar. Þar af hafi stefnandi verið rúmliggjandi í 5 daga. Útreikningur bótanna taki mið af 3. gr. skbl. en fjárhæðirnar séu uppreiknaðar í samræmi við lánskjaravísitölu í júlí 2009.

Samkvæmt matsgerð sé varanlegur miski stefnanda 15%. Útreikningur stefnanda taki mið af 4. gr. skbl. Samkvæmt ákvæðinu beri að styðjast við aldur tjónþola á tjónsdegi. Í framangreindum útreikningi sé hins vegar stuðst við aldur stefnanda á stöðugleikatímapunkti, þ.e. 55 ára og nemi grunnfjárhæð því 3.760.000 sem sé svo uppreiknuð í samræmi við lánskjaravísitölu í júlí 2009. Enda þótt framangreindur útreikningur vegna miska geri ráð fyrir lægri bótum en stefnandi eigi í raun rétt á, hyggist stefnandi engu að síður una þessum útreikningi.

Samkvæmt matsgerð sé varanleg örorka stefnanda 15%. Útreikningurinn taki mið af 5.-7. gr. skbl. Í ljósi þess hversu lágar tekjur stefnandi hafði þrjú ár fyrir slys sé stuðst við lágmarkstekjur sbr. 3. mgr. 7. gr. skbl., þ.e. 1.200.000 kr. sem séu svo uppreiknaðar í samræmi við lánskjaravísitölu á stöðugleikatímapunkti, þ.e. í apríl 2007. Stefnandi hafi verið 55 ára og 97 daga gamall á stöðugleikatímapunkti og stuðull hans því 6,598.

Til frádráttar kröfu á hendur stefnda, Verði tryggingum hf., komi svo innborgun félagsins vegna launþegatryggingar þann 28. júlí 2009 að fjárhæð 1.092.555 kr.

Þá hafi stefnandi loks verið metinn til 15% örorku hjá Sjúkratryggingum Íslands þann 15. september 2010 og hafi hann því fengið eingreiðslu skv. 5. mgr. 34. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 562.615 kr. þann 17. september 2010 sem komi til frádráttar kröfum hans á hendur öllum stefndu.

Krafist sé 4,5% vaxta skv. 16. gr. skbl. vegna tímabundins atvinnutjóns, þjáningabóta og varanlegs miska frá slysdegi, þann 7. apríl 2006, fram að stöðugleikatímapunkti, þann 7. júlí 2007, en frá þeim degi einnig af bótum vegna varanlegrar örorku skv. 16. gr. skbl., fram til þingfestingadags, þ.e. 1. desember 2009, en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð frá þeim degi og fram til greiðsludags að frádregnum innborgunum.

Stefnandi byggir á því að slysið megi rekja til óforsvaranlegrar verkstjórnar Aflbindinga ehf. og Atafls hf. á verkstað. Jafnframt telji stefnandi að fyrirskipað verklag hafi ekki verið í neinu samræmi við þær öryggisreglur sem beri að viðhafa við þær aðstæður sem uppi voru. Í því sambandi vísar stefnandi til 1. mgr. 13. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, þar sem fram komi að vinnuveitanda sé skylt að tryggja að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað, þ.á m. að tryggja að við framkvæmd vinnu skuli gætt fyllsta öryggis og aðbúnaðar og hollustuhátta, sbr. 37. gr. laganna.

Í 42. gr. laga nr. 46/1980 komi einnig fram að vinnustaður skuli vera þannig úr garði gerður að þar sé gætt fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Stefnandi byggi á því að stefndu hafi með öllu vanrækt þessar skyldur sínar, enda segi í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins:

„Megin orsök slyssins má helst rekja til þess að engar ráðstafanir voru gerðar til að slasaði gæti staðið á öruggan hátt við vinnuna.“

Stefnandi leggi áherslu á að á verkstjóra á verkstað hvíli rík skylda að tryggja starfsöryggi þeirra starfsmanna sem við mannvirkjagerð starfa. Telur stefnandi það með öllu ótækt að þær öryggiskröfur, sem kveðið sé á um í fyrrnefndum ákvæðum, séu að engu hafðar. Slík háttsemi hljóti í öllum tilvikum að vera metin verkstjóra byggingaframkvæmda til sakar, enda um vítavert gáleysi að ræða af hans/þeirra hálfu.

Af hálfu stefndu hafi því verið borið við að framkvæmd verksins hafi verið „að öllu leyti með sama hætti og venja sé að framkvæma sambærileg verk“. Stefnandi hafni þessu alfarið. Í þessu sambandi vilji stefnandi minna á að engu breyti þótt verk hafi verið unnið í samræmi við venju ef sýnt þyki að hætta skapist fyrir starfsmenn við verkframkvæmd, enda séu dómstólar ekki bundnir við að bera háttsemina saman við venjubundna framkvæmd ef sýnt þyki að vinnubrögðin séu ekki forsvaranleg, sbr. dóm héraðsdóms Reykjavíkur frá 14. maí 2009 (E-8645/2008). Í dóminum sagði orðrétt:

„Það liggur í augum uppi að sú aðferð sem [G] notaði við að reyna losa niðurlímda stólaboltana var til þess fallin að skapa töluverða hættu á því að stálflísar flísuðust úr boltunum og því líkleg til þess að valda slysi. Breytir þar engu þótt slík vinnubrögð hafi tíðkast þarna…“

Stefnandi byggir á því að ströng skylda hvíli á atvinnurekanda að gera starfsmönnum sínum ljósa slysa- og sjúkdómshættu sem kann að vera bundin við starf þeirra. Þar að auki skuli atvinnurekandi sjá til þess að starfsmenn fái nauðsynlega þjálfun í að framkvæma störf sín á þann hátt að ekki stafi hætta af, sbr. 14. gr. laga nr. 46/1980. Stefnandi telji að þessi skylda vinnuveitanda sé sérstaklega brýn þegar á verkstað starfi erlent starfsfólk sem ekki sé íslenskumælandi. Þar sem stefnandi tali ekki íslensku hafi yfirmönnum hans borið að gæta þess að leiðbeiningar vegna verksins kæmust örugglega til skila.

Eins og fram sé komið megi rekja fall stefnanda til þess að slinkur kom á keðju, sem hékk á byggingakrana, þegar verið var að krækja henni í járngrind til að lyfta henni frá rekkanum. Í málinu liggi fyrir að stjórnandi vinnukranans, Bilyk Wieslaw, hafi ekki haft tilskilin réttindi til þess að stjórna vinnuvél af þessu tagi. Í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins segi um þetta:

 „Meðvirkandi orsök [slyssins] gæti verið að stjórnandi krana hafi ekki réttindi til að stjórna byggingakrana og því ekki þjálfun og reynslu til að stjórna slíku tæki af fullu öryggi.“

Stefnandi telji að verkstjóra á verkstað hafi borið að ganga úr skugga um að á verkstað ynnu aðeins menn við vinnuvélar sem hefðu til þess réttindi, sbr. 2. gr. reglna nr. 189/1983, um réttindi til að stjórna vinnuvélum, enda sé verkstjóri fulltrúi atvinnurekanda og beri að sjá til þess að allur búnaður sé góður og öruggt skipulag sé ríkjandi á þeim vinnustað sem hann hafi umsjón með, sbr. 21. gr. laga nr. 46/1980.

Þá byggir stefnandi á því að samkvæmt 22. gr. laga nr. 46/1980 beri verkstjóra að taka þátt í samstarfi er miði að auknu öryggi og betri aðbúnaði og hollustuháttum á vinnustað, sbr. II. kafla laganna. Stefnandi telji að ákvæðið verði ekki túlkað með öðrum hætti en svo að verkstjóra/um Aflbindinga ehf. og Atafls hf. hafi borið að tryggja samhæfingu og öryggi við verkframkvæmdir á vinnustað en slíkt hafi algjörlega brugðist í tilviki stefnanda og ekki verði annað séð en skipulag og öryggismál á verkstað hafi verið í miklum ólestri.

Í 1. mgr. 23. gr. laga nr. 46/1980 sé einnig kveðið á um að verkstjóri skuli beita sér fyrir því að starfsskilyrði innan þess starfssviðs sem hann stjórnar séu fullnægjandi að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Hann skuli sjá um að þeim ráðstöfunum sem gerðar séu til þess að auka öryggi og bæta aðbúnað og hollustuhætti sé framfylgt. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skuli verkstjóri jafnframt tryggja að hættu sé afstýrt verði hann var við einhver þau atriði, sem leitt geti til hættu á slysum eða sjúkdómum. Ekki verði betur séð en að verkstjóri/ar á verkstað hafi með öllu brugðist þeim skyldum sem á honum/þeim hvíldu samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum laga nr. 46/1980.

Af framangreindu telji stefnandi ljóst að verkstjóri/verkstjórar Aflbindingar ehf. og Atafls hf. hafi vanrækt þær skyldur sem á þeim hvíldu varðandi öryggi á byggingarvinnustað, enda sé um að ræða afar skýrt brot á framangreindum hátternisreglum. Stefnandi telji því að um saknæma og ólögmæta háttsemi sé að ræða af hálfu verkstjóranna sem framangreind félög beri skaðabótaábyrgð á á grundvelli hinnar ólögfestu meginreglu íslensks skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð. Stefnandi krefjist þess því að viðurkenndur verði að fullu réttur hans til skaðabóta úr hendi stefndu, Vátryggingafélagi Íslands hf. og Verði tryggingum hf., sbr. 44. og 45. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingasamninga.

Stefnandi byggir á því að byggingarstjóri verksins við Sléttuveg 19-23 í Reykjavík, Gunnar Valbjörn Jónsson, hafi með öllu brugðist hlutverki því sem honum sé markað í 36. gr. laga nr. 46/1980, en þar segi:

„Ef fleiri en einn verktaki starfa við mannvirkjagerð samtímis, skal byggingarstjóri, ef hann er til staðar, en annars byggingarmeistari, sjá um, að samhæfðar séu ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir slys eða óhollustu.“

Eins og að framan hafi verið rakið megi vera ljóst að öryggisatriðum við verkframkvæmdir hafi verið verulega áfátt og starfsöryggi starfsmanna afar slæmt. Í aðstæðum sem þessum, þ.e. þegar fleiri en einn verktaki séu við störf á verkstað, hefði það átt að koma í hlut byggingarstjóra að tryggja að öryggiskröfum væri fullnægt og gera viðeigandi ráðstafanir þar að lútandi. Í þessu samhengi vísi stefnandi til Hrd. 2005, bls. 3641. Í forsendum Hæstaréttar segi m.a.:

„Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum bar [byggingarstjóra] af þessum sökum að sjá um að samhæfðar væru ráðstafanir til að koma í veg fyrir slys í húsinu, sem margir verktakar voru að starfa við.“

Í ljósi þess að byggingarstjóri, Gunnar Valbjörn, hafi vanrækt með öllu þessa skyldu sína telji stefnandi það yfir allan vafa hafið að byggingarstjórinn beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda, enda sé um að ræða saknæma og ólögmæta háttsemi.

Kröfur stefnanda styðjist við skaðabótalög nr. 50/1993, með síðari breytingum og almennar ólögfestar reglur íslensks réttar um skaðabætur, þ.á m. sakarregluna og regluna um vinnuveitendaábyrgð. Einnig vísi stefnandi kröfum sínum til stuðnings til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglna nr. 189/1983 um réttindi til að stjórna vinnuvélum.

Um málskostnað sé vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili skv. lögum nr. 50/1988 og ber því nauðsyn til að tekið verði tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar.

Málsástæður og lagarök stefndu, Vátryggingafélags Íslands hf. og Gunnars Valbjarnar Jónssonar

Stefndu telja að engar þær réttarreglur sem stefnandi nefni máli sínu til stuðnings hafi verið brotnar af hálfu Atafls hf. né heldur hafi stefndi Gunnar vanrækt skyldur sínar sem byggingarstjóri.

Telji stefndu því að af gögnum málsins verði ekki dregin sú ályktun að slysið verði rakið til einhverra þeirra atvika sem bakað gætu stefndu skaðabótaábyrgð. Þvert á móti telji stefndu að slysið verði vart flokkað sem annað en óhappatilvik og sé sú ekki raunin verði vart öðru um kennt en gáleysi stefnanda sjálfs.

Þannig telji stefndu, eins og hafi orðið niðurstaða hjá Úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum, að stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á að slysið verði rakið til vanrækslu, þ.á m. stjórnanda krana, vanbúnaðar á byggingarstað eða annarra aðstæðna sem hinir stefndu gætu borið skaðabótaábyrgð á. Bendi stefndu á í þessu sambandi að á morgni slysdags hafi verið töluverður vindur á byggingarstaðnum, þ.e. upp í 13,4 m/sek. í kviðum. Telji stefndu líklegast miðað við frásögn af tildrögum slyssins í frumgögnum málsins að slinkur sá sem hafi komið á vírinn sem krókurinn er tengdur í verði frekast rakinn til veðurfars á staðnum, nokkurs sem erfitt sé að ráða við.

Stefndu mótmæli sérstaklega þeirri fullyrðingu í stefnu að slysið verði rakið til skorts á verkstjórn af hálfu Atafls hf. Í fyrsta lagi liggi ljóst fyrir að stefnandi hafi verið starfsmaður Aflbindinga ehf. en ekki Atafls hf. Stefnandi hafi því verið undir verkstjórn starfsmanna Aflbindinga ehf. en ekki Atafls hf. en Aflbindingar ehf. hafi séð um alla járnabindingarvinnu á umræddum verkstað sem undirverktaki hjá Atafli hf. Því hafni stefndu því að til greina geti komið að fella skaðabótaábyrgð á stefndu vegna meintrar vanrækslu á verkstjórn af hálfu Atafls hf.

Í öðru lagi bendi stefndu á að aðstæður á umræddum vinnustað hafi verið hefðbundnar, það verk sem stefnandi vann hafi einfalt og hættulítið og verklag í samræmi við venju við sambærileg verk. Verkið hafi því ekki kallað á frekari öryggisráðstafanir en raun varð á. Þá hafi því verklagi sem viðhaft hafi verið við framkvæmd verksins ekki verið mótmælt. Þá benda stefndu á að Vinnueftirlit ríkisins hafi ekki gert almennar athugasemdir við aðstæður á vinnustaðnum sjálfum heldur sagst telja að orsök slyssins mætti helst rekja til þess að engar ráðstafanir hafi verið gerðar til að slasaði gæti staðið á öruggan hátt við vinnuna en eins og komið hafi fram hafi stefnandi verið starfsmaður Aflbindinga ehf. og lotið verkstjórn starfsmanna þess félags en ekki Atafls hf.

Stefndu telja að gögn málsins bendi ekki til þess að slysið verði rakið til meints réttindaleysis stjórnanda kranans. Bendi stefndu þar m.a. á skýrslu stefnanda sjálfs. Þar komi fram að kraninn hafi ekki verið á hreyfingu er slysið varð heldur hafi kranastjórinn beðið eftir því að króknum væri húkkað í járngrindina. Í lögregluskýrslu og tilkynningu um slysið til Vinnueftirlits ríkisins frá Aflbindingum ehf. sé ekki heldur minnst á að kraninn hafi verið á hreyfingu er slysið varð. Sú athugasemd í niðurstöðu skýrslu Vinnueftirlit ríkisins að það gæti verið meðvirkandi orsök slyssins að stjórnandi krana hafi ekki haft réttindi til að stjórna byggingarkrana eigi því ekki við rök að styðjast.

Ef hins vegar dómurinn telji að slys stefnanda verði með einhverjum hætti rakið til notkunar byggingarkranans bendi stefndu á að sá krani hafi verið í eigu Silfursteins ehf. og kranastjórinn því starfsmaður þess fyrirtækis. Því telji stefndu að ekki undir neinum kringumstæðum geti komið til þess að skaðabótaábyrgð verði felld á þá vegna meints réttindaleysis stjórnanda krana og hugsanlegs gáleysis af hans hálfu.

Hvað varði meinta vanrækslu stefnda Gunnars þá telji stefndu með vísan til þess sem að framan sé rakið að slys stefnanda verði ekki rakið til gálausrar eða ólögmætrar háttsemi af hans hálfu.

Verði ekki fallist á aðalkröfu stefndu sé þess krafist til vara að stefnukröfur verði lækkaðar vegna eigin sakar stefnanda. Stefndu telji að ef slysið verði ekki talið vera óhappatilvik verði það fyrst og fremst rakið til gáleysis stefnanda sjálfs. Um það vísa stefndu auk þess sem að framan greinir til eigin frásagnar stefnanda. Af þeirri frásögn virðist mega ráða að stefnandi hafi farið óvarlega þegar hann klifraði upp í netið til að losa krókinn úr byggingakrananum sem stefnandi segi að hafi vafist um standandi stangirnar á forbindingarrekkanum. Þegar svo slinkur hafi komið á vírinn sem krókurinn hafi verið tengdur, líklega vegna áhrifa frá vindi, hafi stefnandi því ekki verið viðbúinn en það sé nokkuð sem stefndu telji að hann hefði átt að vera.

Endanlegri kröfugerð er ekki mótmælt að öðru leyti en hér segir:

Stefnandi krefjist 4,5% vaxta á 1.481.886 kr. vegna tímabundins atvinnutjóns frá slysdegi 7. apríl 2006. Stefndu mótmæli þeirri vaxtakröfu og bendi á að bætur vegna tímabundins atvinnutjóns beri 4,5% vexti frá því tjónið varð. Þar sem ljóst sé að tímabundið atvinnutjón vegna tímabilsins 7. apríl 2006 til 7. apríl 2007 hafi ekki allt orðið á slysdegi 7. apríl 2006 eins og vaxtakrafa stefnanda byggir á séu ekki lagalegar forsendur til að fallast á vaxtakröfu stefnanda vegna tímabundins atvinnutjóns.

Stefndu mótmæli dráttarvaxtakröfu stefnanda og telja með vísan í 9. gr. laga nr. 38/2001 að ekki eigi að reikna dráttarvexti fyrr en frá og með dómsuppsögu ef um áfellisdóm verði að ræða. Í því sambandi bendi stefndu á að jafnvel þótt fallist yrði á að stefndu beri að greiða stefnanda skaðabætur þá telji stefndu ekki forsendur til að miða dráttarvaxtakröfu við það tímamark sem gert sé í stefnu. Bendi stefndu á að matsgerð sú sem dómkrafan byggði á hafi verið unnin án samráðs við stefndu og hefðu stefndu ekki séð hana fyrr en mál þetta var höfðað og ekki móttekið kröfu byggða á matsgerðinni fyrr en með móttöku stefnu. Þá liggi jafnframt fyrir að við þingfestingu málsins skorti verulega á að stefnandi hafi lagt fram þau gögn sem þurfti til þess að stefndu gætu tekið afstöðu til útreiknings bótakröfunnar. Í því sambandi bendi stefndu á að krafa stefnanda fyrir tímabundið atvinnutjón hafi verið ranglega reiknuð í stefnu og því ekki möguleiki fyrir stefndu að taka afstöðu til hennar. Auk þessa liggi fyrir að þjáninga- og miskabótakröfur stefnanda séu ekki uppreiknaðar miðað við lánskjaravísitölu maímánaðar 2009 eins og raunin hefði átt að vera miðað við dráttarvaxtakröfu stefnanda. Því virðist ljóst að krafa stefnanda vegna þessara kröfuliða miðist við að hún hækki bæði í takt við breytingu á lánskjaravísitölu frá 15. júní 2009 til júlí sama ár, í það minnsta hvað varðar þjáningabótakröfu og beri jafnframt dráttarvexti fyrir sama tímabil, þ.e. frá 16. júní 2009. Ekki sé lagaheimild fyrir slíkri kröfugerð.

Málskostnaður. Málskostnaðarkröfur stefnda, bæði í aðalkröfu og varakröfu, séu reistar á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefnda, Varðar trygginga hf.

Af hálfu stefnda er tekið fram um málavexti að stefnandi hafi, þegar slysið varð, verið að störfum sem járnabindingarmaður hjá Aflbindingum ehf. sem keypt hafði kjarasamningsbundna slysatryggingu launþega hjá stefnda, Verði tryggingum hf. Auk þess voru Aflbindingar ehf. með ábyrgðartryggingu hjá stefnda vegna hugsanlegrar skaðabótaskyldu sem kynni að falla á félagið vegna starfsemi þess. Þá liggi fyrir að þann 28. júlí 2009 hafi stefndi greitt stefnanda bætur vegna varanlegs líkamstjóns í samræmi við skilmála slysatryggingar launþega, að fjárhæð 1.092.555, kr. sem komi tvímælalaust til frádráttar fjárkröfum stefnanda á hendur stefnda, Verði tryggingum hf.

Í máli þessu krefji stefnandi stefndu um greiðslu bóta vegna metins líkamstjóns á sakargrundvelli. Annars vegar vegna óforsvaranlegra vinnuaðstæðna og hins vegar gáleysis starfsmanna stefndu. Engri slíkri saknæmri háttsemi Aflbindinga ehf. sé til að dreifa sem leitt geti til ábyrgðar á þeim fjárkröfum sem stefnandi heldur fram.

Í raun séu tildrög slyss stefnanda ósönnuð að mati stefnda, Varðar tryggingar hf. Ekkert sé upplýst um ástæðu þess að slinkur kom á vír byggingakranans sem stefnandi og Frosti munu hafa verið að krækja netinu í, hafi slíkum slink verið til að dreifa. Þá liggur heldur ekkert fyrir hvað átt er við með „slink“ og hvers eðlis hann er og því í raun útilokað fyrir stefndu að átta sig á eðli þeirrar hreyfingar og hver hugsanlega verður dreginn til ábyrgðar vegna hans – sé slíkri ábyrgð til að dreifa. Sönnunarbyrði á tildrögum slyssins hvíli á stefnanda sem slíkum en við stefnda, Vörð tryggingar hf. verði ekki sakast um skort á upplýsingum enda bæði Vinnueftirlit og lögregla kölluð á staðinn.

Málsástæða um óforsvaranlega verkstjórn sé ósönnuð enda sé engin tilraun gerð til þess af hálfu stefnanda að tengja þau almennu varúðarsjónarmið sem rakin séu af hans hálfu, bæði lögbundin og þau sem draga megi lærdóm af í dómaframkvæmd, við málavexti máls þessa. Á hvern hátt óforsvaranleg verkstjórn hafi leitt til slyss stefnanda liggi ekki fyrir. Þá liggi ekki fyrir í hverju slík óforsvaranleg verkstjórn af hálfu Aflbindingar ehf. geti hafa falist enda upplýst að starfsmenn Atafls hf. höfðu með höndum verkstjórn og byggingarstjórn á verkstað.

Á hvern hátt vinnustaðnum hafi verið áfátt sé ekki fjölyrt um af hálfu stefnanda heldur látið nægja að rekja almenn sjónarmið í þessum efnum án tengsla við sakarefni máls þessa. Tilvísun til skýrslu Vinnueftirlits ríkisins þjóni ekki sönnunarmarkmiðum stefnanda í þessum efnum. Annars vegar sökum þess að ekki liggi fyrir hvers vegna stefnandi féll niður, hvort honum varð fótaskortur, hvort hann missti jafnvægið, hvort netið sporðreistist undir þeim Frosta eða féll sökum þess að þeir hafi af einhverjum sökum spyrnt því frá rekkanum sem netið stóð í. Hins vegar sé sú ályktun Vinnueftirlitsins að engar ráðstafanir hafi verið gerðar til að tryggja örugga fótfestu í andstöðu við framburð stefnda Gunnars sem gefinn hafi verið á vettvangi þessi efnis að stigar væru til staðar en val starfsmanna væri oftar en ekki að standa í netinu sjálfu. Rétt sé í þessum efnum að árétta að stefnandi sé ekki nýgræðingur á vinnumarkaði heldur megi ætla að hann hafi aldur og reynslu til að leggja mat á hættueiginleika umhverfis síns og hvernig hann geti best gengið fram á öruggan hátt í vinnunni. Loks liggi ekkert fyrir um það á hvern hátt Aflbindingar ehf. geti borið saknæma og bótaskylda ábyrgð í þessum efnum enda hafi félagið lagt til mannskap til verka en ráði ekki fyrir húsum um vinnuaðstæður á vinnustaðnum.

Þeirri staðhæfingu stefnanda sé mótmælt sem rangri og ósannaðri að skipulag og öryggismál á vinnustað hafi verið í miklum ólestri. Þessi fullyrðing sé ekki studd neinum rökum með vísan til málavaxta máls þessa heldur lestri ákvæða laga nr. 46/1980 sem heimfærð séu upp á málið, mest án efnislegra tenginga.

Þá sé því mótmælt að það hafi nokkra þýðingu í máli þessu að Bilyk Wieslaw, sagður stjórnandi byggingarkranans, hafi ekki haft réttindi til að nota slíkan krana, sé sú raunin. Það sé óupplýst hvort kraninn hafi verið á hreyfingu þegar slysið átti sér stað, hvort verið var að færa hann til hliðanna eða hífa eða slaka eða hvort kraninn hafi verið aðgerðarlaus. Óupplýst sé því á hvern hátt það geti haft þýðingu að Bilyk Wieslaw hafi verið án stjórnandaréttinda. Upplýsingar um þetta liggi ekki fyrir en svo virðist sem nefndur Bilyk hafi ekki gefið skýrslu við könnun Vinnueftirlitsins eða lögreglu. Af þessum sönnunarskorti verði ekki dregin önnur ályktun en sú að allt er lúti að krananum sem slíkum, ástandi hans og notkun, sé ósannað. Breyti vangaveltur starfsmanns Vinnueftirlitsins engu í þessum efnum enda ekki um ályktanir byggðar á staðreyndum að tefla heldur hreinar getgátur. Loks skuli einnig áréttað í þessu sambandi að stjórnandi kranans hafi verið starfsmaður annars félags, Silfursteins ehf., sem hafi átt kranann eftir því sem næst verði komist. Aflbinding ehf. eða tryggingafélag þess verði ekki dregin til ábyrgðar vegna hugsanlegrar háttsemi starfsmanns sem lúti á engan hátt boðvaldi Aflbindingar ehf. en starfsmenn Silfursteins ehf. muni hafa verið undir verkstjórn á vegum þess félags. Aflbinding ehf. hafi þannig einfaldlega ekki verið þess umkomið að hafa áhrif á framgöngu kranamannsins í starfi. Hann hafi hvorki lotið aga- né húsbóndavaldi Aflbindingar ehf. og því engar forsendur til áfellis gagnvart Verði tryggingum hf. af þessum sökum.

Komi til þess að stefndi Aflbindingar ehf. eigi að bera einhvern hluta ábyrgðarinnar, sé á því byggt að frá slíkri dómkröfu beri að draga þegar greiddar bætur vegna slysatryggingar launþega, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993.

Þá sé einnig til öryggis mótmælt dráttarvaxtakröfu stefnanda

Stefndi vísi til áðurgreindra lagaraka er varða sýknukröfu sem og ákvæða laga nr. 50/1993.

Krafa um málskostnað styðjist við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 en jafnframt sé krafist álags á málskostnað er nemi virðisaukaskatti, stefndi reki ekki virðisaukaskattskylda starfsemi og beri því nauðsyn á að fá dæmt álag er þeim skatti nemur á hendi stefnanda.

Niðurstaða

Stefnandi byggir á því að slysið megi rekja til óforsvaranlegrar verkstjórnar Aflbindinga ehf. og Atafls hf. á verkstað. Þá telur stefnandi að fyrirskipað verklag hafi ekki verið í neinu samræmi við þær öryggisreglur sem beri að viðhafa við þær aðstæður sem uppi voru. Í því sambandi vísar stefnandi til 1. mgr. 13. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, þar sem fram kemur að vinnuveitandi skuli tryggja að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað og við framkvæmd vinnu, sbr. 37. gr. og 42. gr. laganna. Stefnandi byggir á því að stefndu hafi með öllu vanrækt þessar skyldur sínar, og vísar í því efni til skýrslu Vinnueftirlits ríkisins en þar segir:

 „Megin orsök slyssins má helst rekja til þess að engar ráðstafanir voru gerðar til að slasaði gæti staðið á öruggan hátt við vinnuna.“

Stefnandi hafði unnið við járnabindingar hjá Aflbindingum ehf. í þrjá mánuði þegar slysið varð. Verkið var venjulega unnið þannig að grindurnar voru bundnar í rekka og þegar lokið var við að binda grindurnar voru þær hífðar burt af krana. Við skýrslutökur fyrir dómi kom fram að einnig væri mögulegt að binda grindurnar á jörðinni en það verklag væri sjaldnar notað því það gæti valdið álagi á bak.

Verklagi er lýst þannig að þegar hífa á burt tilbúnar grindur er tveimur krókum krækt í grindina, hvorum í sinn enda hennar (myndar eins konar V). Venjulega standa menn þá uppi í grindinni nógu hátt til að geta krækt krókunum í. Grindurnar eru venjulega um 2,5 metrar á lengd þannig að það nægir að standa í um 50-60 sm. hæð. Þegar krókarnir hafa verið festir stíga menn niður úr rekkanum og gefa kranastjóra merki um að hann megi hífa. Merkið sem notast er við er að láta þumal vísa upp þegar má hífa. Þessi þáttur verksins var framkvæmdur nokkrum sinnum á dag.

Vitnið Frosti Richardsson, sem var verkstjóri hjá Aflbindingum ehf. á slysdegi og var að störfum með stefnanda þegar slysið átti sér stað, bar fyrir dómi að verkið væri alltaf unnið með þessum hætti, aldrei væri stuðst við stiga þegar verið væri að festa krókana á grindurnar enda væru bundnar grindur það massívar og stutt á milli bila að þetta væri í raun eins og stigi. Hins vegar væri oft notaður stigi þegar verið væri að binda grindurnar.

Af gögnum máls verður ekki annað ráðið en verklag við undirbúning að hífingu járnagrindarinnar tiltekið sinn hafi verið framkvæmt með venjulegum hætti af hálfu stefnanda og samstarfsmanni hans. Tilgreind ákvæði laga nr. 46/1980, sem stefnandi vísar til, eru almenns eðlis um aðbúnað og öryggi á vinnustöðum, sem stefnandi hefur ekki sýnt fram á að hafi verið brotið gegn í tengslum við slys stefnanda. Þá hefur stefnandi ekki sýnt fram á með hvaða hætti slys stefnanda verði rakið til ófullnægjandi verkstjórnar eða skorts á leiðbeiningum um framkvæmd verksins á vinnustaðnum, sbr. 14. gr. laganna.

Þá byggir stefnandi á því að stjórnandi vinnukranans hafi ekki haft tilskilin réttindi til að stjórna honum. Hann var starfsmaður félagsins Silfursteins ehf., sem var undirverktaki á verkstað, og tók við stjórn kranans tiltekið sinn vegna forfalla kranastjóra. Engin skýrsla var tekin af stjórnanda kranans og ekki hefur verið sýnt fram á með hvaða hætti stjórntök hans leiddu til slyssins. Þannig er óupplýst hvort kraninn var á hreyfingu eða hvort verið var að hífa eða slaka þegar slysið varð. Bæði stefnandi og samstarfsmaður hans við verkið hafa borið að þeir hafi staðið upp í rekkanum þegar slinkur kom á vírinn sem krókur er tengdur í, grindin hafi losnað og þeir misst jafnvægið og fallið úr rekkanum. Hvorki er því upplýst með hvaða hætti slysið verði rakið til saknæmra mistaka stjórnanda kranans né meints réttindaleysis hans. Er þeim málsástæðum stefnanda er að þessu lúta hafnað.

Þá hefur ekki verið sýnt fram á að verkstjórnendur félaganna Aflbindingar ehf. og Atafls hf. hafi með vanrækslu á skyldum sínum brotið gegn ákvæðum 21., 22. og 23. gr. laga nr. 46/1980 sem leiði til bótaskyldu á grundvelli vinnuveitandaábyrgðar, eins og stefnandi byggir á. Er málsástæðum hans er að þessu lúta hafnað.

Stefnandi byggir á því að stefndi Gunnar Valbjörn Jónsson, byggingarstjóri verksins hafi með öllu brugðist hlutverki því sem honum sé markað í 36. gr. laga nr. 46/1980. Á þetta verður ekki fallist. Eins og fram er komið hefur ekki verið í ljós leitt að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga nr. 46/1980 á vinnusvæðinu að því er varðar öryggisatriði við verkframkvæmdir eða starfsöryggi starfsmanna. Verður því ekki talið að fyrir hendi sé bótagrundvöllur gagnvart stefnda samkvæmt 36. gr. laganna.

Samkvæmt framansögðu verða stefndu sýknaðir af kröfum stefnanda í málinu, en eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Stefnandi hefur gjafsókn í málinu samkvæmt gjafsóknarleyfi, dags. 16. september 2010. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans Halldórs Reynis Halldórssonar hdl., sem ákveðst 627.500 krónur með virðisaukaskatti.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Stefndu, Vátryggingafélag Íslands hf., Vörður tryggingar hf. og Gunnar Valbjörn Jónsson, skulu vera sýkn af kröfum stefnanda, Henryk Leniec, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Halldórs Reynis Halldórssonar hdl., 627.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.