Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-48
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Fasteign
- Viðurkenningarkrafa
- Vátrygging
- Sönnun
- Matsgerð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 29. mars 2024 leitar Runólfur Oddsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 1. sama mánaðar í máli nr. 812/2022: Runólfur Oddsson gegn TM Tryggingum hf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Málið varðar kröfu leyfisbeiðanda um að viðurkennd verði skylda gagnaðila til að greiða honum bætur úr fasteignatryggingu vegna tjóns sem orðið hafi á fasteign hans vegna leka frá gólfhitalögn í baðherbergi. Ágreiningur er einkum milli aðila um hvort lekinn hafi verið til staðar árið 2008 þegar tilkynnt var um rakaskemmdir til gagnaðila eða hvort hann hafi komið til síðar.
4. Með dómi Landsréttar var staðfestur dómur héraðsdóms um sýknu gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Landsréttur taldi að ekki væri unnt að líta svo á að rakamæling með snertirakamæli frá árinu 2009 sýndi fram á að lekið hefði frá gólfhitalögn frá árinu 2008. Þá þótti Landsrétti viðbótarmat, með þeim mörgu óvissuþáttum sem uppi voru og fyrirvörum sem gerðir voru vegna þeirra, ekki hnekkja niðurstöðu annarra matsgerða í málinu eða renna stoðum undir þann málatilbúnað leyfisbeiðanda að skemmdir á fasteign væri að rekja til leka á gólfhitalögn sem staðið hefði frá árinu 2008.
5. Leyfisbeiðandi byggir í fyrsta lagi á því að sakarefnið sé mikilvægt almennt séð. Í málinu reyni meðal annars á þær kröfur sem gera megi til vátryggingafélaga um tjónaskoðanir, afgreiðslu þeirra og varðveislu gagna. Þá telur leyfisbeiðandi að málið hafi almennt gildi um mat á mögulegum tjónsorsökum og sönnunarbyrði við sérstakar aðstæður. Í öðru lagi byggir leyfisbeiðandi á því að sakarefnið varði hann miklu þar sem húsið hans sé ónýtt. Í þriðja lagi byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til og telur brýnt að fá endurskoðun Hæstaréttar á því hvernig metinn var vitnaframburður, framlögð skjöl og matsgerðir. Í fjórða lagi byggir hann á því að umtalsverðir réttarfarsannmarkar séu á dómi Landsréttar. Sérfróður meðdómsmaður í héraði hafi ekki haft nauðsynlega sérfræðiþekkingu til að dæma í málinu og því hafi Landsrétti borið að ómerkja dóm héraðsdóms. Þá telur hann að skipan meðdómsmanns í Landsrétti hafi farið gegn 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Að endingu vísar leyfisbeiðandi til þess að meðdómsmaður fyrir Landsrétti hafi verið vanhæfur.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.