Hæstiréttur íslands
Mál nr. 143/2000
Lykilorð
- Stjórnarskrá
- Eignarréttur
- Vátryggingarfélag
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 2. nóvember 2000. |
|
Nr. 143/2000. |
Dánarbú Sveinbjörns Guðmundssonar (Karl Axelsson hrl. Hlöðver Kjartansson hdl.) gegn Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands (Hákon Árnason hrl. Einar Baldvin Axelsson hdl.) |
Stjórnarskrá. Eignarréttur. Vátryggingarfélag. Sératkvæði.
S átti hlut í E (áður B) á grundvelli 1. tl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 68/1994. D krafðist viðurkenningar á því að eignarhluturinn hefði færst yfir til dánarbúsins við andlát S, þrátt fyrir ákvæði 15. gr. laganna. Talið var, að eignarréttindi félagsmanna í B hefðu samkvæmt lögum sem um B giltu, verið óvirk og óviss og hafi ekki verið unnt að framselja þau. Með hliðsjón af ákvæðum þeirra laga um félagsaðild var álitið, að réttindin erfðust ekki, enda voru þau takmörkuð við þá eina, sem höfðu viðskipti við félagið á hverjum tíma. Í lögum um B, síðast lögum nr. 9/1955, voru engin ákvæði um slit félagsins. Í ljósi nýrra viðhorfa kaus löggjafinn að breyta félaginu í eignarhaldsfélag og ákvað jafnframt að það hætti beinni vátryggingastarfsemi, sbr. 1. gr. laga nr. 68/1994. Var löggjafanum þessi breyting heimil, enda var tilhögun á eignarráðum sameigenda E í aðalatriðum hin sama og áður gilti hjá B. Hún byggði og á þeim meginsjónarmiðum sem hin eldri lög höfðu mótast af. Var ekki talið, að í ákvæðum laga nr. 68/1994 hefði falist skerðing á réttindum sameigenda skv. 1. og 2. tl. 5. gr. laganna, frá því sem áður var. Ákvæðin næðu og jafnt til þeirra allra. Litið var svo á, að þau hvíldu á eðlilegum og málefnalegum grunni og þótti löggjafinn ekki hafa farið út fyrir stjórnskipulegar heimildir sínar með setningu 15. gr. laganna. Var kröfu D því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. apríl 2000 og krefst þess að viðurkennt verði að eignarhlutur Sveinbjörns Guðmundssonar í Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands hafi við andlát hans hinn 5. júlí 1998 yfirfærst til áfrýjanda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Í héraðsdómi er gerð grein fyrir löggjöf um Brunabótafélag Íslands til þess tíma er lög nr. 68/1994 um Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands tóku gildi. Er þar greint frá starfssviði og tilgangi félagsins, skipulagi og stjórn, svo og hvernig háttað var eignarráðum yfir félaginu. Félagið var frá upphafi gagnkvæmt vátryggingafélag, en félagsmenn voru allir þeir, sem höfðu vátryggingar hjá félaginu á meðan þeir höfðu tryggingarskipti við það, sbr. 12. gr. laga nr. 9/1955 um Brunabótafélag Íslands, sem voru síðustu lögin, sem giltu um félagið áður en því var breytt með lögum nr. 68/1994. Ljóst er og af ákvæðum þessara laga og eldri laga um félagið að gildur þáttur í starfsemi þess skyldi vera stuðningur við sveitarfélögin á sviði brunamála og verklegra framkvæmda. Nutu þau og ágóðaúthlutunar frá félaginu á þeim grundvelli meðal annars að þau hefðu almenn útgjöld af brunavörnum, sem kæmu vátryggjendum til góða. Frá gildistöku laga nr. 9/1955 var félaginu stjórnað af fulltrúaráði, skipuðu fulltrúum sveitarfélaganna, þótt yfirumsjón með starfi þess skyldi vera í höndum ríkisstjórnarinnar og forstjóri skipaður af ráðherra, sbr. 3. og 4. gr. laganna. Gátu félagar samkvæmt 12. gr. laganna engin áhrif haft á stjórn félagsins og rekstur.
II.
Með lögum nr. 68/1994 var Brunabótafélagi Íslands breytt í eignarhaldsfélag og skyldi jafnframt hætta beinni vátryggingastarfsemi, en eignarhaldsfélagið átti að yfirtaka öll réttindi og skyldur Brunabótafélagsins, sbr. 1. gr. laganna. Í 3. gr. þeirra segir um tilgang Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands, að hann sé einkum að taka þátt í vátryggingastarfsemi með eignaraðild að vátryggingafélögum, að stunda lánastarfsemi, meðal annars til verklegra framkvæmda sveitarfélaga og að stuðla að þróun vátrygginga með fræðslu og menntun á því sviði og að taka þátt í eða veita styrki til slíkrar starfsemi. Samkvæmt 4. gr. laganna skyldi flytja vátryggingastofn Brunabótafélags Íslands í brunatryggingum fasteigna við gildistöku laganna til Vátryggingafélags Íslands hf. Í 5. gr. laganna er kveðið á um það, hverjir skyldu teljast sameigendur félagsins. Voru það í fyrsta lagi þeir, sem höfðu brunatryggingu fasteignar hjá Brunabótafélagi Íslands þegar lögin tóku gildi og fluttir voru til Vátryggingafélags Íslands hf., í öðru lagi þeir sem vátryggðu hjá fyrrgreindu félagi 31. desember 1988 og færðir voru með leyfi ráðherra til Vátryggingafélags Íslands hf. 1. janúar 1989 og loks sameignarsjóður eignarhaldsfélagsins, sem stofnaður var samkvæmt III. kafla laganna. Í 6. gr. laganna segir að eignarréttindi sameigenda séu óvirk nema til slita á félaginu komi, sbr. 16. gr. Þar er einnig kveðið á um það, hvernig eignarréttindi sameigenda skuli ákveðin.
Sem fyrr segir var með III. kafla laganna stofnaður sameignarsjóður eignarhaldsfélagsins og var tilgangur hans hinn sami og tilgreindur er í 3. gr. laganna, en fulltrúaráð skyldi setja sjóðnum samþykktir með fyllri ákvæðum um útfærslu lagaákvæða um hann. Samkvæmt 8. gr. laganna eiga metin eignarréttindi sameigenda að falla til sjóðsins eftir reglum í 15. gr. Þar segir að við andlát sameiganda og þegar lögaðili, sem er sameigandi, sé ekki lengur skráður sem lögaðili, falli eignarréttindi sameiganda samkvæmt 5. gr. niður og falli þau þá til sameignarsjóðs félagsins. Í athugasemdum við 8. gr. í frumvarpi að lögum nr. 68/1994 sagði, að fyrirkomulag sameignarsjóðsins gerði það að verkum er fram líða stundir, að sveitarfélög, er fulltrúa eiga í fulltrúaráði félagsins, öðlist í raun öll ráð yfir eignarhaldsfélaginu.
Í málinu liggja fyrir reglur fyrir sameignarsjóð Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands. Auk þeirra markmiða, sem tiltekin eru í 3. gr. laga nr. 68/1994, segir þar meðal annars um markmið sjóðsins, að hann skuli stuðla að ráðgjöf til handa sveitarfélögum á sviði vátrygginga, svo sem við áhættumat, forvarnir og stjórnun vátryggingatöku í því skyni að ná fram sem hagstæðastri vátryggingavernd fyrir sveitarfélögin í samræmi við fyrri reglur Brunabótafélagsins um arð af viðskiptum og ágóðahlut. Jafnframt sé það hlutverk sjóðsins að stuðla að eflingu brunavarna og slökkviliða í sveitarfélögum landsins, að aukinni og virkari áhættustjórnun sveitarfélaga og að eflingu alhliða forvarnarstarfs þeirra.
Í IV. kafla laga nr. 68/1994 er mælt fyrir um fulltrúaráð og stjórn eignarhaldsfélagsins, en fulltrúaráð þess er skipað fulltrúum sveitarfélaganna eftir nánari ákvæðum laganna og kýs það félaginu stjórn á aðalfundum, sem halda skal fjórða hvert ár. Samkvæmt 16. gr. laganna skal ákvörðun um slit á félaginu tekin á lögmætum aðalfundi eða aukafundi fulltrúaráðsins og þarf atkvæði minnst ¾ hluta fulltrúaráðsmanna til að slík samþykkt sé gild. Að greiddum öllum skuldbindingum félagsins eða eftir að tryggingar hafa verið settar fyrir greiðslu þeirra, skal greiða þeim, sem eiga réttindi hjá félaginu á grundvelli 5. gr., en það sem eftir er rennur til sameignarsjóðs. Taki annað félag ekki við hlutverki eignarhaldsfélagsins við slit þess skal hrein eign sameignarsjóðsins renna til þeirra sveitarfélaga, sem eiga aðild að fulltrúaráðinu í hlutfalli við brunatryggingariðgjöld fasteigna samkvæmt samningum sveitarfélaganna á tilteknu tímabili.
III.
Með skírskotun til raka héraðsdóms er fallist á þá niðurstöðu hans að eignarréttindi félagsmanna Brunabótafélags Íslands hafi samkvæmt lögum þeim, sem um það giltu, verið óvirk og óviss og hafi ekki verið unnt að framselja þau. Þegar litið er til ákvæða laganna um félagsaðild verður og fallist á þá niðurstöðu dómsins að eignarréttindi í félaginu erfðust ekki, enda voru þau takmörkuð við þá eina, sem höfðu viðskipti við félagið á hverjum tíma. Er þetta og í samræmi við það, sem fram hefur komið undir rekstri málsins um lagaframkvæmdina frá fyrrverandi aðstoðarforstjóra Brunabótafélags Íslands og endurskoðanda þess og ekki hefur verið hnekkt.
Í lögum um Brunabótafélag Íslands, síðast lögum nr. 9/1955, voru engin ákvæði um slit félagsins. Hvorki ríkisstjórnin, fulltrúaráð né félagsmenn gátu tekið ákvörðun um slíkt og var það á færi löggjafans eins. Við þær aðstæður að lögin hefðu verið felld úr gildi án ákvæða um aðrar ráðstafanir hefði það jafngilt félagsslitum og eignarráð félagsmanna þá orðið virk og eignir félagsins komið til skipta milli þeirra. Löggjafinn kaus hins vegar í ljósi nýrra viðhorfa að breyta félaginu í eignarhaldsfélag og ákvað jafnframt að það hætti beinni vátryggingastarfsemi, sbr. 1. gr. laga nr. 68/1994. Sú grundvallarbreyting varð þannig með lögunum að Brunabótafélagið hætti að vera gagnkvæmt tryggingafélag, en varð eignarhaldsfélag eins og áður er lýst. Á hinn bóginn var eignarhaldsfélaginu ákveðinn tilgangur, sem samrýmdist markmiðum, sem sett voru fram í lögum nr. 9/1955 og eru þau enn frekar áréttuð í reglum um sameignarsjóð félagsins, sem settar eru samkvæmt lögunum. Ákvæði um skipulag og stjórnun eignarhaldsfélagsins eru og með svipuðu móti og áður gilti um Brunabótafélag Íslands. Þegar þannig er horft til tilgangs og skipulags eignarhaldsfélagsins verður ekki litið öðruvísi á en að löggjafanum hafi verið heimil þessi breyting á Brunabótafélagi Íslands, að því tilskildu að við hana væri gætt lögmætra réttinda félagsmanna þess.
Sveinbjörn Guðmundsson, sem lést 5. júlí 1998, var eigandi hlutar í Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands á grundvelli 1. tl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 68/1994. Kröfugerð áfrýjanda beinist eingöngu að því að hann eignist hlut Sveinbjörns heitins fyrir erfðir, þrátt fyrir ákvæði 15. gr. laganna. Við úrlausn á þessari kröfu er engu að síður nauðsynlegt að hafa til hliðsjónar ákvæði laganna í heild um eignarráð í félaginu.
Samkvæmt hinum nýju lögum urðu félagsmenn fyrrgreinds félags sameigendur í eignarhaldsfélaginu, eins og áður er lýst. Af eðli félagsins samkvæmt lögunum leiðir að eignaraðild að því er ekki lengur tengd vátryggingaviðskiptum og ekki verður um það að ræða að aðrir einstaklingar og lögaðilar en þeir, sem nefndir eru í 1. og 2. tl. 1. mgr. 5. gr. laganna, verði sameigendur. Lögin eru og frábrugðin lögum 9/1955 að því leyti að þar er mælt fyrir um hvernig eignarhluti sameigenda skuli skilgreindur. Hins vegar er skýrt kveðið á um að eignarréttindin séu óvirk nema til slita á félaginu komi, en fari svo fái sameigendur greiðslu af eignum þess með tilteknum hætti. Jafnframt er sagt að eignarréttindi falli til sameignarsjóðs félagsins við andlát sameiganda eða þegar lögaðilar eru ekki lengur skráðir.
Þessi tilhögun á eignarráðum sameigenda eignarhaldsfélagsins er þannig í aðalatriðum hin sama og áður gilti hjá Brunabótafélagi Íslands. Hún byggir og á þeim meginsjónarmiðum, sem telja verður að hin eldri lög hafi mótast af. Þótt fyrrgreindar breytingar hafi orðið á félaginu og eignarráðum yfir því í framtíðinni verður ekki talið að í ákvæðum laganna felist skerðing á réttindum þeirra sameigenda, sem hér um ræðir, frá því sem áður var. Ná þessi ákvæði og jafnt til þeirra allra. Þegar haft er í huga það, sem áður hefur verið sagt um sögu og löggjöf um Brunabótafélag Íslands, verður að líta svo á að þau hvíli á eðlilegum og málefnalegum grunni. Samkvæmt þessu þykir löggjafinn ekki hafa farið út fyrir stjórnskipulegar heimildir sínar með setningu 15. gr. fyrrgreindra laga, eins og áfrýjandi heldur fram.
Að þessu athuguðu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er staðfestur um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Sératkvæði
Hjartar Torfasonar
Ég er sammála I. og II. kafla í atkvæði annarra dómenda.
Þegar ákveðið var með lögum nr. 68/1994, að Brunabótafélag Íslands skyldi hætta beinni vátryggingastarfsemi, var numinn brott sá grundvöllur, er skipulag þess sem gagnkvæms vátryggingarfélags var á reist, og skorið á þau tengsl manna við starfsemi, er ráðið höfðu aðild að félaginu. Með ákvörðun laganna um framhald á starfsemi þess í öðrum tilgangi var í raun verið að ákveða ráðstöfun á eignum félagsins, eins og hið breytta nafn þess gefur til kynna. Verður að telja, að þessar róttæku aðgerðir hafi þannig verið ígildi slita á félaginu og löggjafanum borið að haga þeim samkvæmt því. Það var og gert að vissu marki, þar sem tekið var tillit til þess, að aðild manna að félaginu gat ekki lengur orðið breytileg eftir viðskiptum um vátryggingar, og ákvörðun tekin um skilgreiningu á því, hverja telja bæri eigendur að félaginu og hverjir hlutir þeirra og réttindi væru. Hins vegar verður ekki á það fallist, að sú skipan á réttindum aðila að félaginu og meðferð eigna þess, sem upp var tekin, fái staðist að öllu leyti miðað við hinar sögulegu forsendur að stöðu félagsins við þessi tímamót, þannig að skipulag félagsins og starfsgrundvöllur geti nú talist lögmæt í öllum greinum.
Telja verður vafalaust, að löggjafanum hafi verið heimilt að ákveða, að eignum félagsins yrði ekki skipt upp þegar í stað, og að tiltekið framhald yrði á rekstri þeirra og forsjá. Telja verður einnig, að löggjafanum hefði verið heimilt að ákveða, að þeir tryggingartakar hjá félaginu, er talist gætu félagsmenn, væru ekki einir eigendur að öllu því eigin fé, sem félagið hafði yfir að ráða. Hefði ótvírætt verið heimilt að ákvarða þeim sveitarfélögum, sem störfuðu með félaginu og fóru í raun með stjórn þess, tiltekinn og verulegan eignarhlut í eiginfénu eða félaginu sjálfu, meðal annars þegar af þeirri ástæðu, að sveitarfélögunum hafði lögum samkvæmt verið ætluð hlutdeild í ágóða af starfseminni. Þetta var ekki gert, heldur var svo um búið, að allar eignir félagsins gætu með tímanum fallið til sveitarfélaganna, eftir því, hvenær ákvörðun yrði tekin um slit þess fyrir atbeina þeirra sjálfra.
Lykillinn að þessu var sú ákvörðun í 15. gr. laga nr. 68/1994, að hlutir einstakra manna í félaginu skyldu vera persónubundnir og ekki ganga að erfðum eftir þeirra dag, og hlutir lögaðila, annarra en sveitarfélaga, falla niður með hliðstæðum hætti, þegar tilveru þeirra lyki. Þetta fór þó ekki aðeins í bága við hagsmuni félagsaðilanna sjálfra, heldur einnig lánardrottna þeirra og erfingja að lögum.
Um þessa grein laganna er það álit mitt, að hún samrýmist ekki grundvallarreglum laga, og þá einkum vegna þeirrar staðreyndar, að eignarhlutur sá, sem félagsmönnum var ætlaður eftir ákvæðum laganna, var ekki lengur óviss eða breytilegur. Það sjónarmið áfrýjanda, að sá hlutur í félaginu, sem Sveinbjörn Guðmundsson gat átt tilkall til, eigi að ganga að erfðum og renna í dánarbú hans, er því lögmætt. Á hinn bóginn er ekki þar með sagt, að þetta sé sá hlutur, sem telja megi Sveinbirni til eignar eftir ákvæðum laga nr. 68/1994, þar sem tengsl umræddrar lagagreinar við önnur ákvæði laganna eru svo náin, að ekki er unnt að raska henni án þess að raska þeim um leið.
Krafa áfrýjanda hljóðar þó ekki með beinum hætti um staðfestingu á því, hver hlutur Sveinbjarnar í félaginu sé að umfangi, né heldur hitt, að tími sé kominn til útborgunar á honum, en hvorugu þessu væri unnt að gera skil, eins og málið liggur fyrir, og yrði í raun réttri að vísa því til löggjafans. Má líta svo á, að efnislega sé hún einvörðungu krafa um viðurkenningu á því, að hluturinn geti gengið að erfðum eftir hinn látna. Á þeim grundvelli er rétt og skylt að fallast á hana, með þeim fyrirvara, sem hér var lýst.
Samkvæmt þessu er það niðurstaða mín, að taka beri kröfu áfrýjanda til greina með þeim hætti, að viðurkennt verði, að eignarhlutur Sveinbjarnar Guðmundssonar í Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélagi Íslands skuli ganga að erfðum til erfingja hans og renna þannig í dánarbú hans. Jafnframt greiði stefndi áfrýjanda hæfilegan málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. mars 2000.
Mál þetta sem dómtekið var 1. febrúar sl. er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 2. mars 1998, af dánarbúi Sveinbjörns Guðmundssonar á hendur Eignarhaldsfélagi Brunabótafélags Íslands, Hlíðarsmára 8, 200 Kópavogi.
Dómkröfur
Stefnandi gerir þær dómkröfur að viðurkennt verði að eignarhlutur Sveinbjörns Guðmundssonar í Eignarhaldsfélagi Brunabótafélags Íslands hafi við andlát hans þann 5. júlí 1998 yfirfærst til dánarbús hans. Þá að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu ásamt virðisaukaskatti.
Dómkröfur stefnda eru þær að viðurkenningarkröfu stefnanda verði hafnað og honum gert að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.
Málavextir
Brunabótafélag Íslands var stofnað með lögum nr. 58/1907. Upphaflega var félagið stofnað sem iðgjaldasjóður sem færði sveitarfélögum tekjur af iðgjaldi í réttri tiltölu við áhættu þeirra. Árið 1917 hóf það starfsemi sem gagnkvæmt vátryggingarfélag.
Félaginu var frá öndverðu gert skylt að brunatryggja húseignir eftir því sem fyrir var mælt í lögum. Með lögum nr. 26/1932 var lögfest að allir þeir sem vátryggðu húseignir hjá BÍ væru félagsmenn þess. Upphafleg hlutdeild sveitarfélaga á ábyrgð á skuldbindingum vegna brunatrygginga var felld niður og tekin upp gagnkvæm ábyrgð félagsmanna á skilum iðgjaldasjóðs.
Lögum um Brunabótafélag Íslands var breytt með lögum nr. 73/1942. Í þeim lögum var tekið fram að allir þeir sem skyldir væru til vátryggingar hjá félaginu, væru félagsmenn. Samkvæmt lögum nr. 59/1954 um brunatryggingar utan Reykjavíkur var skylt að tryggja gegn eldsvoða allar fasteignir utan Reykjavíkur og skyldi hver sveitarstjórn semja við eitt vátryggingarfélag eða fleiri um tryggingarnar. Fram að gildistöku laganna hafði eigendum fasteigna utan Reykjavíkur verið skylt að brunatryggja fasteignir hjá Brunabótafélagi Íslands. Flest sveitarfélögin í landinu gerðu samninga við Brunabótafélagið um brunatryggingu fasteigna í sveitarfélaginu í kjölfar gildistöku laganna.
Tilgangur og starfssvið Brunabótafélags Íslands var frá öndverðu fyrst og fremst að taka í brunatryggingu hús og lausafé í sveitum og bæjum utan Reykjavíkur. Með lögum 73/1942 var tekin upp deildaskipting í Brunabótafélaginu, þar sem hvert bæjarfélag og sveitarfélag, er brunatryggði húseignir hjá BÍ, varð sérstök deild í félaginu. Var deildaskiptingin tekin upp til að fá grundvöll fyrir úthlutun ágóða úr félaginu til bæjar-og sveitarfélaganna. Segir í greinargerð með lögunum frá 1942 að vegna þess að möguleikinn til ágóðaúthlutunar byggist að mestu eða öllu á vöxtunum af því fé, sem safnast hefur, og safnast væntanlega áfram, þá þyki rétt, að hann falli til deilda félagsins, sveitar- og bæjarfélaga, en ekki beint til vátryggjenda, enda eiga að miklu leyti aðrir einstaklingar hluta í fjársöfnuninni en núverandi eigendur. Þá sé þess að gæta, að félagsdeildirnar hafi nokkur almenn útgjöld til brunavarna. Ágóðaúthlutunin gefi þeim nokkrar tekjur á móti en vátryggjendum komi úthlutunin til góða á þann hátt, að bæjar- og sveitarfélög þurfi þá tilsvarandi minna úr vasa þeirra. Hafa bæjar- og sveitarfélög alla tíð, en ekki einstakir félagsmenn BÍ, fengið ágóðahlut frá BÍ.
Réttur sameigenda BÍ, félagsmannanna, til stjórnunar á félaginu eða til ráðstöfunar á eignarhlut sínum í félaginu var heldur enginn. Hann var lögum samkvæmt í höndum fulltrúa sveitarfélaganna og hjá löggjafanum. Aðeins löggjafinn gat breytt þeirri skipan.
Með stjórn félagsins fóru fulltrúar þeirra sveitarfélaga (deildanna), sem gerðu samninga við félagið um brunatryggingar húseigna. Mynduðu þeir fulltrúaráð félagsins. Kaus fulltrúaráðið félaginu framkvæmdastjórn, en ráðherraskipaður forstjóri sá um daglegan rekstur þess, sbr. 4. - 6. gr. 1. nr. 9/1955. Loks hafði ríkisstjórnin yfirumsjón með starfsemi félagsins og setti því reglugerðir, sbr. 3. gr. laganna.
Næst tóku gildi lög nr. 9/1955 um Brunabótafélag Íslands. Tilgangur og starfssvið félagsins samkvæmt lögunum var að taka að sér brunatryggingar á húsum og lausafé, fylgjast með nýjungum í slökkvitækni og gera bæjar- og sveitarfélögum kleift að eignast slökkvibúnað með hagkvæmum greiðsluskilmálum, lána fé til veitustofnana og vera ráðunautur ríkisstjórnarinnar um brunamál.
Samkvæmt lögunum skyldi hvert sveitarfélag, sem tryggði hjá BÍ, áfram vera sérstök deild í félaginu og útnefna menn í fulltrúaráð, sem kaus framkvæmdastjórn félagsins. Ráðherra skipaði forstjóra félagsins og ríkisstjórnin skyldi hafa yfirumsjón með rekstri þess.
Eins og í eldri lögum var í þessum lögunum tekið fram að allir þeir sem hefðu vátryggingar hjá félaginu væru félagsmenn í Brunabótafélaginu á meðan þeir hefðu tryggingarskipti við félagið og óbreytt ákvæði voru um ábyrgð félagsmanna. Allt frá stofnun Brunabótafélagsins hafði það verið tekið fram í lögum, að félagið væri vátryggingarfélag með gagnkvæmri ábyrgð. Engin breyting varð á þessu með lögum nr. 9/1955. Í 20. gr. var að finna reglur um heimild sveitarfélaga til að segja sig úr Brunabótafélaginu með því að flytja brunatryggingar félaga yfir í annað tryggingarfélag. Sú ákvörðun var talin binda eigendur fasteigna í sveitarfélaginu.
Með lögum nr. 68/1994 er Brunabótafélagi Íslands hinsvegar breytt í eignarhaldsfélag og í kjölfar lagasetningarinnar hætti félagið beinni vátryggingarstarfsemi, svo sem fram kemur í 1. gr. laganna. Er tilgangur og starfssvið félagsins einkum þátttaka í vátryggingarstarfsemi með eignaraðild að vátryggingarfélögum og lánastarfsemi til verklegra framkvæmda sveitarfélaga eftir því sem ástæður félagsins leyfa, sbr. 3. gr. laganna.
Í 5. gr. laganna eru reglur um það, hverjir skulu teljast sameigendur félagsins. Það eru í fyrsta lagi þeir, sem vátryggðu hjá Brunabótafélagi Íslands, þegar lögin tóku gildi og fluttir voru til Vátryggingafélags Íslands hf. samkvæmt 4. gr. laganna, sbr. 1. tl. 1. mgr. 5. gr. Í öðru lagi þeir, sem vátryggðu hjá Brunabótafélagi Íslands 31. desember 1988 og færðir voru með leyfi tryggingarmálaráðherra til Vátryggingafélags Íslands hf. 1. janúar 1989, sbr. 2. tl. 1. mgr. 5. gr. Í þriðja lagi sameignarsjóður eignarhaldsfélagsins samkvæmt III. kafla laganna, sbr. 3. tl. 1. mgr. 5. gr.
Í 3. mgr. 5. gr. laganna segir að ábyrgð sameigenda félagsins takmarkist við eignarréttindi þeirra í því.
Samkvæmt IV. kafla laganna fara sveitarfélögin eða fulltrúar þeirra með alla stjórn félagsins og hefur fulltrúaráðið æðsta vald í málefnum þess. Kýs fulltrúaráðið félaginu stjórn, sem ræður félaginu forstjóra. Eigendur félagsins hafa ekki frekar en áður neitt með stjórn félagsins að gera.
Með lögum nr. 68/1994 var komið á sérstökum sjóði innan félagsins, sbr. III. kafli laganna. Nefnist hann sameignarsjóður Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands. Til sameignarsjóðsins skyldi falla eignarhlutur látinna sameigenda og sameigenda, sem ekki voru skráðir lögaðilar við gildistöku laganna, sbr. 4. mgr. 6. gr. laganna.
Í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 68/1994 segir, að eignarréttindi sameigenda séu óvirk, nema til slita komi á félaginu. Enn fremur að ákveða skuli slitaverðmæti hvers og eins sameiganda á þeim degi, þegar lögin taki gildi. Í 2, mgr. 6. gr. laganna kemur fram, að eignarhlutur hvers og eins sameiganda skuli ákvarðast sem hlutfall af hreinni eign félagsins í árslok 1992 og miðast við iðgjaldagreiðslur hans til Brunabótafélags Íslands tvö undangengin almanaksár fyrir gildistöku laganna. Þetta gilti þó ekki um þá sameigendur, sem getið er í 2. tl. 1. mgr. 5. gr., því að þeirra eignarhlutur var reiknaður út með nokkuð annarri viðmiðun.
Þá er svo fyrir mælt í 15. gr. laganna, að við andlát sameiganda í EBÍ og þegar lögaðili, sem er sameigandi, er ekki lengur skráður sem lögaðili, falli eignarréttindi þeirra niður og hverfi til sameignarsjóðs félagsins. Munu þannig öll eignarréttindi núverandi eigenda EBÍ að lokum renna til sameignarsjóðs EBÍ, verði félaginu ekki áður slitið. Til að slíta félaginu þarf hins vegar atkvæði minnst 3/4 fulltrúaráðsmanna, sbr. 16. gr. l. nr. 68/1994.
Sveinbjörn Guðmundsson var með brunatryggingu fasteignar hjá Brunabótafélagi Íslands þegar félaginu var breytt í eignarhaldsfélag með lögum nr. 68/1994. Hann var því eigandi að félaginu, sbr. nánari fyrirmæli 1. tl. 1. mgr. 5. gr. laganna. Þegar Sveinbjörn andaðist 5. júlí 1998 féll eignarhlutur hans til sameignarsjóðs, sbr. 15. gr. laga nr. 68/1994. Eignarhlutur hans í Eignarhaldsfélagi Brunabótafélagsins nam 0,000001513% af bókfærðu fé félagsins við breytinguna eða 519 krónum samkvæmt yfirlýsingu endurskoðenda Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands á dskj. nr. 6.
Mál þetta er höfðað af dánarbúi Sveinbjörns en ekkja hans og eini skylduerfingi, Ingibjörg Kristjánsdóttir, kt. 131119-3729, fékk þann 13. janúar sl. heimild til að skipta búi hans einkaskiptum. Er mál þetta rekið samkvæmt sérstöku umboði hennar f.h. dánarbúsins.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi kveður mál þetta varða eignarréttindi dánarbús Sveinbjörns Guðmundssonar í Eignarhaldsfélagi Brunabótafélags Íslands, sem starfi samkvæmt lögum nr. 68/1994.
Af hálfu stefnanda eru í málinu ekki gerðar sjálfstæðar kröfur vegna þeirrar tilhögunar laga nr. 68/1994 að umrædd eignarréttindi séu óvirk og ófénýtanleg meðan félaginu ekki er slitið. Stefnandi kveður þó enga viðurkenningu felast í því á lögmæti slíkrar tilhögunar. Dómkröfur stefnanda lúti hinsvegar að því að viðurkennt verði að eignarhlutur Sveinbjörns hafi yfirfærst til dánarbús hans, enda standist tilhögun 15. gr. laganna ekki ákvæði stjórnarskrár. Það er að segja að eignarréttindi einstakra eigenda erfist ekki, heldur flytjist til sameignarsjóðs félagsins.
Af lögum nr. 68/1994 og lögskýringargögnum með þeim verði ráðið að umdeild tilhögun 15. gr. laganna sé rökstudd með tilvísun til almennra heimilda löggjafans til þess að setja eignarréttindum bótalausar takmarkanir, að nánari skilyrðum uppfylltum. Virðist þá m.a. hafa verið höfð hliðsjón af því að tilkall félagsmanna Brunabótafélags Íslands til eigna félagsins væri óvirkt og óvisst og því yrði að telja að löggjafinn gæti, án þess að það færi í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrár, mælt fyrir um ráðstöfun á eignum Brunabótafélagsins í þágu þeirra markmiða sem lög um Brunabótafélagið hafi verið byggð á, enda væru uppfyllt ýmis almenn skilyrði slíkrar lagasetningar. Þessa tilhögun telur stefnandi ekki standast. Vissulega séu umrædd eignarréttindi, þ.m.t. tilurð þeirra, með sérstökum hætti. Eftir sem áður sé um stjórnskrárvarin eignarréttindi að ræða sem njóti því verndar 72. gr. hennar. Einn meginþáttur eða aðild eignarréttarins sem slíks felist í því að eign erfist. Umrædd fyrirmæli 15. gr. laganna feli því ekkert minna í sér en afnám umræddra réttinda, sem eignarréttinda viðkomandi aðila og erfingja hans, en ekki það að þau sæti takmörkunum í þeim almenna skilningi sem talið hafi verið heimilt að setja eignarréttindum bótalaust, þrátt fyrir skorður 72. gr. stjórnarskrár. Endanleg og algjör tilfærsla eignarréttinda frá einum aðila til annars geti aldrei skoðast sem takmörkun í þessum framangreinda skilningi, heldur feli slíkt í sér eignarnám, sem útheimti lagaheimild, grundvallaða á almenningsþörf og því að eignarnámsþola séu greiddar fullar bætur. Þá telur stefnandi að líta verði til þess að raunverulegur tilgangur með umræddu lagaákvæði feli það endanlega og eina markmið í sér að flytja eignarréttindi eigenda til sérstakrar lögpersónu, þ.e. sameignarsjóðs félagsins, sbr. III. kafli. Engin málaefnaleg sjónarmið, hvað þá almenningsþörf í skilningi 72. gr., réttlæti slíkan tilflutning eignarréttinda. Enn fremur telur stefnandi að þó svo ólíklega færi að umrætt afnám eignarréttinda yrði talið falla í flokk almennra lögbundinna takmarkana eignarráða, svo sem fyrr greini, þá fái tilhögun þessi ekki staðist. Feli hún m.a. í sér mismunun gagnvart einstökum eigendum félagsins sem ekki fái staðist þá jafnræðiskröfu sem slíkar almennar takmarkanir verði að uppfylla eigi þær að standast bótalaust.
Stefnandi krefst því viðurkenningar á því að eignarhlutur Sveinbjörns Guðmundssonar hafi við andlát hans fallið til dánarbúsins en ekki yfirfærst til sameignarsjóðs svo sem 15. gr. laganna mæli fyrir um, enda standist sú tilhögun ekki fyrirmæli 72. gr. stjórnarskrár. Þá brjóti sú mismunun sem felist í þessari tilhögun enn fremur í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar.
Kröfu um viðurkenningu á eignarrétti styður stefnandi við 72. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944. Auk þess felist í lögum nr. 68/1994 brot á jafnræðisreglu stjórnarskrár þ.e 65. gr. hennar. Um málskostnaðarkröfu er vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Málsástæður stefnda og lagarök
Dómkröfur stefnda eru byggðar á því að ákvæði 15. gr. laga nr. 68/1994, þess efnis að við andlát sameiganda falli eignarréttindi hans niður og hverfi til sameignarsjóðs félagsins, séu lögmæt og brjóti hvorki á bága við eignarverndarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar né fari í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar.
Sú tilhögun 15. gr. laga nr. 68/1994 að eignarréttindi látins sameiganda í EBÍ falli niður og erfist ekki við andlát hans sé sama tilhögun og gilt hafi fyrir breytingu félagsins í eignarhaldsfélag. Eignarhlutir sameigenda í félaginu hafi ekki erfst áður og eignarréttur sameiganda hafi einnig falið niður við brotthvarf úr félaginu í lifanda lífi. Sé því ekki um það að ræða að með 15. gr. laga nr. 68/1994 hafi erfðaréttur verið afnuminn. Eignarhlutur sameiganda í félaginu, áður en því var breytt í eignarhaldsfélag, hafi aldrei komið til arfs, heldur hafi fallið til félagsins við andlát sameigandans. Hafi það verið föst og algild regla í félaginu og lögum samkvæmt. Sé því ekki og hafi ekki verið um neinn erfðarétt að ræða sem erfingi Sveinbjörns heitins hafi verið sviptur með lögum 68/1994, svo sem stefnandi haldi fram. Beri þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfum stefnanda.
Í annan stað byggir stefndi á því, að löggjafinn hafi í lögmætum tilgangi stofnað og breytt BÍ með lögum og stofnað eignarréttindi sameigenda í félaginu með lögum, en jafnframt takmarkað þessi eignarréttindi mjög verulega frá upphafi, bæði félagslega og fjárhagslega í þágu hagsmuna félagsins. Hafi löggjafinn því haft rúmar heimildir til áframhaldandi takmörkunar á eignarréttindum sameigendanna við setningu laga nr. 68/1994 án þess að brjóta gegn 72. og 65. gr. stjórnarskrárinnar. Sé tilhögun 15. gr. l. nr. 68/1994 augljóslega innan þeirra marka, einkum þegar litið sé til þess að eignarréttur sameigenda hafi áður verið jafn takmarkaður og erfðist ekki, og að félagið hafi verið og sé að fyrirmælum löggjafans rekið í þágu almannahagsmuna. Séu sameigendur í félaginu og réttartakar þeirra bundnir við lögákveðnar takmarkanir löggjafans á meðferð eignarréttinda í félaginu með sama hætti og félagsmenn í öðrum félögum við slíkar takmarkanir í félagssamþykktum eða í öðrum lögum um félög. Beri að hafna kröfum stefnanda einnig af þessum ástæðum.
Viðurkennt sé að löggjafanum sé heimilt að mæla fyrir um að ýmiss konar takmörkuð eignarréttindi erfist ekki enda séu þess fjölmörg dæmi í löggjöf. Sé takmörkun á erfðarétti að réttindum í félögum, samkvæmt sérstökum lögum eða í félagssamþykktum, ekkert einsdæmi og varði ekki við stjórnarskrá. Megi t.d. nefna, að samkvæmt 17. gr. laga nr. 22/1991 um samvinnufélög erfist félagsréttindi í samvinnufélögum ekki. Sé og almenna reglan í gagnkvæmum félögum að eignarréttindi þeirra sameigenda sem andast, ganga úr félaginu eða hætti aðild að því með einhverjum hætti meðan félagið er við lýði, erfast ekki né komi til útgreiðslu í slíkum tilvikum heldur falli niður og hverfi til félagsins. Falli ábyrgð sameiganda á félagsskuldbindingum líka að sama skapi niður við andlát eða brotthvarf úr félaginu. Í Brunabótafélaginu hafi þetta verið gildandi regla alla tíð og helguð af áratuga framkvæmd.
Enn sé á það að líta að eignarréttindi í BÍ hafi að lögum verið takmörkuð við þá eina, sem höfðu viðskipti við félagið á hverjum tíma, sbr. 12. gr. l. nr. 9/1955 (.."meðan þeir hafa tryggingaviðskipti við félagið"). Hafi því verið afar óeðlilegt að réttindin, sem bundin voru við þá eina er voru með tryggingu hjá félaginu, gætu erfst og þannig fallið til manna sem ekki höfðu tryggt þar, höfðu ekki átt neinn hlut að eignamyndun í félaginu og höfðu jafnvel hagsmuni andstæða hagsmunum félagsins. Þá sé enginn eðlismunur á því fyrirkomulagi, sem verið hafi í BÍ fyrir breytingu félagsins í eignarhaldsfélag að eignarhlutur sameiganda féll við andlát hans til félagsins sjálfs og því fyrirkomulagi í eignarhaldsfélaginu, að eignarhluturinn falli til sameignarsjóðs félagsins. Í báðum tilvikum fari sveitarfélögin með eignirnar og tilgangur sameignarsjóðs sé hinn sami og félagsins.
Stefndi byggir enn fremur á því að burtséð frá því hvenær framangreind takmörkun á eignarréttindum félagsmanna hafi komið til, hafi löggjafanum ætíð verið heimilt að mæla fyrir um hana án þess að slíkt færi gegn eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar. Löggjafarvaldið hafi jafnan rétt til að mæla fyrir um takmarkanir á eignarréttindum manna, sé slík takmörkun almenn, taki til allra eigna af tilteknu tagi og framkvæmd af ástæðum sem séu almenns eðlis. Í máli þessu sé öllum framangreindum skilyrðum fullnægt. Þar við bætist hið sérstaka eðli félagsins en ljóst sé af áratuga sögu þess að tilgangur þess hafi aldrei verið að sjá til þess að félagsmenn gætu komið eignarréttindum sínum í verð með framsali heldur að stuðla að sameiginlegum vátryggingarhagsmunum félagsmanna og almannahag.
Einnig byggir stefndi á því að með því að eignarréttindi sameigenda í BÍ hafi verið óvirk með öllu og svo óvíst um, hvort þau yrðu nokkurn tíma virk, þá hafi löggjafinn, án þess að það stangaðist á við eignarréttarákvæði 72. gr. eða jafnréttisákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar, mátt ákveða með lögum nr. 68/1994, sbr. 8. og 15. gr., að eignarréttindi sameigenda í EBÍ sem látast erfist ekki og falli til sameignarsjóðs félagsins. Sé og á það að líta að þessi eignarréttindi hafi verið og séu persónubundin, þau hafi ekki mátt framselja eða veðsetja né verið heimilt að afhenda þau sameigendum, nema ef félaginu yrði slitið, en það hafi löggjafinn einn getað. Hafi sameigendur engu ráðið um stjórn þessara eignarréttinda sinna eða félagsins heldur opinberir aðilar, ríki og sveitarfélög. Þá hafi ágóði af félaginu verið greiddur sveitarfélögunum og þau hafi notið fjárhagslegrar fyrirgreiðslu félagsins, en ekki eigendur þess, allt í þágu almannahagsmuna. Eignarréttur félagsmanna hafi þannig verið aðeins í orði en ekki á borði og aðeins hafi verið fjarlæg von að rétturinn yrði einhvern tíma virkur fyrir einstaka sameigendur. Löggjafinn hafi líka ákveðið, með setningu laga nr. 68/1994, að slíta ekki BÍ, en breyta því í eignarhaldsfélag undir stjórn sveitarfélaganna, þar sem almanna hagsmunir, hagsmunir sveitarfélaganna, sitji áfram í fyrirrúmi, eignarréttindi sameigenda séu með sama hætti og áður, óvirk, og eignarhluti látinna sameigenda falli sem áður til félagsins eða nú í sameignarsjóð þess. Hafi þannig engin eðlisbreyting orðið á eignarréttindum sameigenda í félaginu með lögum nr. 68/1994. Þau hafi ekki verið afnumin heldur látin haldast með sömu takmörkunum og áður.
Loks sé ekki rétt, sem stefnandi heldur fram, að tilhögun 15. gr. laga nr. 68/1994 brjóti gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Felist engin mismunun í tilhögun 15. gr. gagnvart eigendum í félaginu. Í fyrsta lagi sé BÍ eða nú EBÍ einstakt félag í sinni röð og ekki líkt neinu öðru félagi. Hafi sérlög ávallt gilt um félagið sem gengið hafi framar almennum lögum, sbr. 3. mgr. 2. gr. 1 nr. 50/1978 um vátryggingarstarfsemi. Sé því ekki um sambærileg tilvik að ræða, fyrirkomulag eignarréttinda í BÍ eða EBÍ annars vegar og í öðrum félögum hins vegar. Sé tilhögun 15. gr. 1. nr. 68/1994 þegar af þeirri ástæðu ekki mismunun gagnvart eigendum í félaginu í skilningi 65. gr. stjórnarskrárinnar. Þá gildi sama regla samkvæmt 15. gr. l. nr. 68/1994 um alla eigendur í félaginu, þ.e. að við andlát einstaklings eða afskráningu lögpersónu falla eignarréttindi þeirra niður og hverfa til sameignarsjóðs EBÍ. Sú regla hafi og áður gilt í félaginu að eignarhlutir í því erfðust ekki og féllu til félagsins þegar einstaklingar og lögpersónur, sem töldust eigendur, hættu að vera til. Hafi þannig ekki með 15. gr. verið komið á neinni mismunun milli eigenda í félaginu innbyrðis. Fari því þannig fjarri að 15. gr. 1. nr. 68/1994 brjóti í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar.
Þá sé það markmið löggjafans fyllilega rökrétt og málefnalegt, þegar saga félagsins sé skoðuð, að koma félaginu að öllu leyti í hendur sveitarfélaganna í fyllingu tímans. Hafi löggjafinn enda frá öndverðu ætlað félaginu hlutverk í þágu sveitarfélaganna og þeirra almannahagsmuna, sem sveitarfélögin gæti. Um lögmæti þess markmiðs þurfi ekki að efast.
Niðurstaða
Að tilstuðlan landsstjórnarinnar var Brunabótafélag Íslands stofnað með lögum sem voru nr. 58 frá 1907. Félagið var frá upphafi félag með gagnkvæmri ábyrgð. Tók félagið að sér brunatryggingu á húseignum á Íslandi utan Reykjavíkur, nema þeim húseignum er féllu undir lög nr. 26/1905 um brunabótasjóði, svo og brunabótatryggingu á lausafé á Íslandi. Hefur ramminn um starfsemi félagsins og réttindi félagsmanna frá upphafi verið ákvarðaður með lögum.
Í 6. gr. laga nr. 68/1994 um Brunabótafélag Íslands segir að eignarréttindi sameigenda séu óvirk nema til slita á félaginu komi. Í athugasemdum við 6. gr. frumvarps til laga nr. 68/1994 segir að með þessu ákvæði sé því slegið föstu að sameignin sé óvirk meðan félagið starfi. Hún lifni þá fyrst og verði virk ef og þegar félaginu er slitið. Þá segir að þetta sé lýsing á réttindum eins og þau almennt séu í gagnkvæmum félögum og eigi hún alveg við um BÍ eins og félagið er nú, þ.e. fyrir gildistöku lagaanna frá 1994. Meðan félagið starfar hafa vátryggingartakarnir ekki með stjórn félagsins og rekstur að gera og geta ekki gert tilkall til eignarhlutar. Þeir geta því ekki selt hann eða ráðstafað honum á annan hátt og hann erfist ekki. Við slit félagsins verður eignarhluturinn fyrst virkur og hægt er að reikna eignarhlut sameigenda út eftir ákvæðum laganna og ráðstafa slitaverðmætinu öllu á þeim grundvelli.
Telja verður að það leiði af ákvæðum laga um Brunabótafélag Íslands, eins og þau hafa verið í tímans rás og rakið er að nokkru hér að framan, að eignarréttindi félagsmanna hafa verið óvirk og óviss og samkvæmt ákvæðum laganna aðeins orðið virk ef til slita hefði komið á félaginu. Þótt engin ákvæði sé að finna í þeim lögum er gilt hafa um Brunabótafélag Íslands, er leggi bann við framsali á þessum takmörkuðu eignarréttindum, þykir það leiða af hinu sérstaka eðli félagsins eins og því var markaður sess með lagasetningunni, svo og þegar litið er til sögu þess, að tilgangur félagsins var aldrei sá að félagsmenn gætu komið eignarréttindum sínum í verð með framsali heldur að stuðla að sameiginlegum vátryggingarhagsmunum félagsmanna og almannahag.
Þegar litið er til 12. gr. laga nr. 9/1955 þykir af henni verða ráðið að eignarréttindi í félaginu erfðust ekki, en samkvæmt ákvæðinu eru þeir einir félagsmenn sem hafa vátryggingu hjá félaginu samkvæmt 7. gr. laganna og aðeins á meðan þeir hafa tryggingarskipti við félagið. Eignarréttindi í félaginu voru samkvæmt þessu takmörkuð að lögum við þá eina sem viðskipti höfðu við félagið á hverjum tíma. Er fallist á það með stefnda að órökrétt verði að telja að þrátt fyrir ákvæði 12. gr. laga nr. 9/1995 gætu slík eignarréttindi erfst og fallið til manna sem ekki höfðu tryggt hjá félaginu og ekki átt neinn hlut að eignamyndun í félaginu.
Samkvæmt framansögðu verður ekki annað séð en að sú tilhögun 15. gr. laga nr. 68/1994 að eignarréttindi látins sameiganda í Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands falli niður og erfist ekki við andlát hans sé sú sama tilhögun og gilti fyrir breytingu félagsins í eignarhaldsfélag. Er því ekki fallist á að erfðaréttur hafi verið afnuminn með 15. gr. laga nr. 68/1994. Var því ekki um neinn erfðarétt að ræða sem erfingi Sveinbjörns Guðmundssonar var sviptur með lögum nr. 68/1994.
Eins og rakið er hér að framan hefur lögum um Brunabótafélag Íslands verið breytt í tímans rás. Félagið var stofnað með lögum og var eignarréttur félagsmanna í félaginu takmörkunum háður frá upphafi, eins og fram hefur komið hér að framan. Viðurkenndur er réttur löggjafans til þess að mæla fyrir um að takmörkuð eignarréttindi erfist ekki. Þykir ekki hafa verið sýnt fram á það í máli þessu að ákvæði laga um eignarréttindi félagsmanna í Brunabótafélagi Íslands eða Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands brjóti í bága við 72. gr.stjórnarskrárinnar.
Þá hefur stefnandi ekki sýnt fram á að þessi tilhögun laganna varðandi eignarréttindin feli í sér mismunun er brjóti í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar.
Samkvæmt framansögðu ber að hafna kröfum stefnanda í máli þessu.
Eftir þessari niðurstöðu ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem ákveðst 200.000 krónur.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Hafnað er kröfu stefnanda, dánarbús Sveinbjörns Guðmundssonar, um að viðurkennt verði að eignarhlutur Sveinbjörns Guðmundssonar í Eignarhaldsfélagi Brunabótafélags Íslands hafi við andlát hans þann 5. júlí 1998 yfirfærst til dánarbús hans.
Stefnandi greiði stefnda 200.000 krónur í málskostnað.