Hæstiréttur íslands
Mál nr. 253/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Ákæra
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. apríl 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. mars 2016, þar sem vísað var frá dómi 2. lið ákæru 22. desember 2015 í máli sem sóknaraðili hefur höfðað gegn varnaraðila. Kæruheimild er í t. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili hefur ekki látið máli til sín taka fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt c. lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 skal í ákæru greina svo glöggt sem verða má hver sú háttsemi er sem ákært er út af, hvar og hvenær brotið er talið framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu og loks heimfærslu þess til laga. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hafa fyrirmæli þessa lagaákvæðis verið skýrð svo að verknaðarlýsing í ákæru verði að vera það greinargóð og skýr að ákærði geti ráðið af henni hvaða refsiverð háttsemi honum gefin að sök og hvaða lagaákvæði hann er talinn hafa gerst brotlegur við.
Verknaðarlýsing framangreinds ákæruliðar er skýr. Þá er þar tilgreint hvar og hvenær brot eru talin hafa verið framin og við hvaða refsiákvæði þau varða. Formskilyrðum ákæru er því fullnægt. Það heyrir síðan undir efnishlið málsins hvort hótanir þær, sem ákært er fyrir, séu refsiverðar eftir 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka 2. lið ákærunnar til efnismeðferðar.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka 2. lið ákæru 22. desember 2015 til efnismeðferðar.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. mars 2016.
Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 22. desember 2015, á hendur:
,,X, kt. [...]
[...], Reykjavík,
fyrir eftirgreind hegningarlagabrot á árinu 2015:
1. Líkamsárás, með því að hafa þriðjudaginn 3. febrúar veist að þáverandi eiginkonu sinni og barnsmóður A, kt. [...], á heimili þeirra að [...], með því að kýla hana með krepptum hnefa í andlitið, gripið um handleggi hennar og snúið niður í gólf og haldið henni þar ásamt því að þrýsta framhandlegg að hálsi hennar, allt með þeim afleiðingum að A hlaut yfirborðsáverka á andlit, mar á brjóstkassa og öðrum ótilgreindum hlutum framarms og yfirborðsáverka á fótlegg.
2. Hótanir, með því að hafa á tímabilinu frá 10. maí til 14 júní 2015, ítrekað sent barnsmóður og þáverandi eiginkonu sinni, A, hótanir með tölvupóstskeytum úr netfanginu [...] og valdið með skilaboðunum ótta hjá henni um líf, heilbrigði og velferð sína.
Hótanirnar sem ákærði sendi voru ritaðar á [...] og sendar frá ofangreindu netfangi á neðangreindum dögum:
- Sent 10. maí: Þú skilur mig eftir í rusli til fjandans með líf þitt allt, ég held þessu áfram dag og nótt þangað til þú gengur af göflunum.
- Sent 10. maí: þú skalt fá að þjást eins og ég dag og nótt.
- Sent 29. maí: Ég skal gera líf þitt að hreinu helvíti, hrekja þig út í sjálfsmorð, bannsett druslan þín og þegar þú lætur verða af því tek ég af þér stærðarinnar mynd svo þú getir notið þess þegar þú mætir í Víti að vera merkileg persóna.
- Sent 29. maí: Ég er á götunni, atvinnulaus, fæ ekki að hitta strákana mína, á ekki grænan eyri þökk sé þér og þú skalt fá það borgað þótt seinna verði eða bara strax 100 %.
- Sent 14. júní: Frábært, haltu þér þá fast, ég ætla að gera þér lífið enn leiðara.
Telst brot í 1. lið varða við 1. mgr. 217. gr. og brot í 2. lið við 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.“
Verjandi ákærða krefst frávísunar 2. töluliðar ákærunnar. Verjandinn tekur fram að samkvæmt 2. tölulið ákærunnar sé ákært fyrir ótilgreinar hótanir. Áskilið sé í 233. gr. almennra hegningarlaga að hótun feli í sér hótun um að fremja refsiverðan verknað. Í ákæru sé enginn reki gerður að því að upplýsa hvaða refsiverða verknað ákærði hafi hótað að framkvæma. Vísað er til c-liðar 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til rökstuðnings kröfunni um frávísun þessa ákæruliðar.
Ákæruvaldið mótmælir frávísunarkröfunni og krefst efnisdóms um báða kafla ákærunnar.
Niðurstaða
Í 233. gr. almennra hegningarlaga segir að hver, sem hefur í frammi hótun um að fremja refsiverðan verknað, og hótunin sé til þess fallin að vekja hjá öðrum manni ótta um líf, heilbrigði eða velferð sína eða annarra, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Ekki er ljóst af ákærunni hvaða refsiverðan verknað ákærða er gefið að sök að hóta að fremja. Samkvæmt þessu eru ekki uppfyllt skilyrði c-liðar 152 gr. laga nr. 88/2008 og er ljóst að erfitt er að koma við vörnum þar sem ekki liggur fyrir hvaða brot ákærða er gefið að sök að hafa hótað að fremja.
Ber samkvæmt þessu að vísa 2. tölulið ákærunnar frá dómi.
Þóknun verjandans bíður efnisdóms í málinu.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn:
Úrskurðarorð:
Vísað er frá dómi 2. tölulið ákæru máls þessa.