Hæstiréttur íslands
Mál nr. 351/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárnám
- Börn
- Dagsektir
- Umgengni
|
|
Föstudaginn 22. september 2000. |
|
Nr. 351/2000. |
M(Helgi Birgisson hrl.) gegn sýslumanninum í Reykjavík (enginn) |
Kærumál. Fjárnám. Börn. Dagsektir. Umgengnisréttur.
M kærði úrskurð héraðsdóms þar sem staðfest var fjárnám, sem gert var hjá M fyrir kröfu sýslumanns um dagsektir. Var fjárnámið reist á tveimur úrskurðum sýslumanns, en annar þeirra hafði verið staðfestur af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Voru dagsektirnar lagðar á M til að knýja á um að hann léti af tálmunum við rétti sem móðurforeldrum og hálfbróður sonar hans var veittur til umgengni við barnið með úrskurði sýslumanns. Í úrskurðunum um dagsektir var vísað til 38. gr. barnalaga nr. 20/1992 sem stoð fyrir álagningu þeirra. Talið var að af ákvæðum barnalaga mætti ráða að löggjafinn hefði takmarkað mjög heimildir til þvingunarúrræða á þessu sviði. Fyrir ákvörðun stjórnvalds um álagningu dagsekta til að knýja á um efndir skyldu þyrfti skýlausa lagastoð. Í 38. gr. barnalaga væri aðeins kveðið á um álagningu dagsekta að kröfu foreldris, sem ekki fær notið umgengnisréttar, á það foreldri, sem fer með forsjá barns og tálmar umgengni, en ekki væri vikið þar að því hvort sama leið yrði farin þegar foreldri stæði í vegi fyrir umgengni annarra en foreldris við barn. Var því talið að viðhlítandi lagaheimild skorti fyrir ákvörðunum sýslumanns og ráðuneytisins um dagsektir úr hendi M, og var fjárnám sýslumanns fellt úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. september 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. ágúst 2000, sem sóknaraðili kveður sér fyrst hafa orðið kunnugt um 29. sama mánaðar, en þar var staðfest fjárnám, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hjá sóknaraðila 26. júní 2000 fyrir kröfu sýslumannsins um dagsektir að fjárhæð 360.000 krónur auk vaxta og kostnaðar. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að fjárnámið verði fellt úr gildi og sér dæmdur málskostnaður í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.
Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði er krafan um dagsektir, sem áðurnefnt fjárnám var gert fyrir, reist á úrskurði sýslumannsins í Reykjavík 12. ágúst 1999, svo og úrskurði þess sama 18. maí 2000, sem staðfestur var af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 22. júní sama árs. Voru dagsektir þessar lagðar á sóknaraðila til að knýja á um að hann léti af tálmunum við rétti, sem móðurforeldrum og hálfbróður sonar sóknaraðila var veittur til umgengni við hann með úrskurði sýslumannsins í Reykjavík 5. janúar 1999. Var í umræddum úrskurðum um dagsektir vísað til 38. gr. barnalaga nr. 20/1992 sem stoð fyrir álagningu þeirra.
Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. barnalaga njóta barn og foreldri, sem fer ekki með forsjá þess, gagnkvæms réttar til umgengni hvort við annað. Sé foreldrið látið eða ófært um að rækja umgengni geta nánir vandamenn þess krafist umgengnisréttar við barnið, sbr. 5. mgr. 37. gr. barnalaga, en svo er ástatt í þessu máli. Í 38. gr. barnalaga eru ákvæði um heimild sýslumanns til að verða við kröfu foreldris, sem fær ekki notið umgengnisréttar, um að leggja dagsektir á foreldrið, sem með forsjá fer og tálmar umgengni. Er þar í engu vikið að því hvort sama leið verði farin þegar foreldri stendur í vegi umgengni annarra en foreldris við barn. Samkvæmt niðurlagsorðum 38. gr. barnalaga verður ekki öðrum úrræðum en dagsektum beitt til framdráttar umgengnisrétti. Af því er ljóst að löggjafinn hefur með tilliti til eðlis mála sem þessara takmarkað mjög heimildir til þvingunarúrræða á þessu sviði. Er einnig til þess að líta að fyrir ákvörðun stjórnvalds um að leggja á dagsektir til að knýja á um efndir skyldu þarf skýlausa lagastoð. Þegar þetta er virt verður ekki komist hjá að fallast á með sóknaraðila að viðhlítandi lagaheimild skorti fyrir þeim ákvörðunum, sem áðurnefnd stjórnvöld hafa tekið um dagsektir úr hendi hans. Samkvæmt þessu verður fjárnám sýslumannsins í Reykjavík hjá sóknaraðila 26. júní 2000 fellt úr gildi.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Fellt er úr gildi fjárnám, sem varnaraðili, sýslumaðurinn í Reykjavík, gerði 26. júní 2000 fyrir kröfu sinni á hendur sóknaraðila, M.
Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 200.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. ágúst 2000.
Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 31. júlí sl.
Sóknaraðili er M, [...].
Varnaraðili er sýslumaðurinn í Reykjavík, 640692-2199, Skógarhlíð 6, Reykjavík.
Dómkröfur sóknaraðila eru þær að fjárnámsgerð sýslumannsins í Reykjavík, nr. [...], sem fór fram að Skógarhlíð 6, Reykjavík, 26. júní sl., að kröfu sýslumannsins í Reykjavík, verði úrskurðuð ógild.
Þá krefst sóknaraðili þess að varnaraðili verði úrskurðaður til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins.
Við þingfestingu málsins 31. júlí sl. var ekki mætt af hálfu varnaraðila en málinu var frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu sóknaraðila til 9. ágúst sl. Þá var heldur ekki mætt af hálfu varnaraðila og málið tekið til úrskurðar að kröfu sóknaraðila.
Málavextir.
Sóknaraðili kveður málavexti vera þá að varnaraðili hafi 5. janúar 1999 úrskurðað um umgengni A, [...], S, [...], beggja til heimilis að [...] og F, [...], fyrir hönd B, [...], við barnið D, [...], á grundvelli 5. mgr. 37. gr. barnalaga nr. 20/1992. Krefjendur hafi leitt rétt sinn af rétti látins foreldris, L, [...], er látist hafi af slysförum [...] 1996.
Vegna deilna sóknaraðila, föður barnsins, við A og S hafi hann tálmað þeim að njóta umgengnisréttar þess sem sýslumaðurinn í Reykjavík hafi úrskurðað um 5. janúar 1999. Þetta hafi orðið til þess að sýslumaður hafi úrskurðað, fyrst 12. ágúst 1999 og síðan að nýju 18. maí 2000, að sóknaraðili skyldi greiða dagsektir í ríkissjóð, kr. 4.000, samkvæmt úrskurði, dags. 12. ágúst 1999, en kr. 4.350, samkvæmt úrskurði, dags. 18. maí sl. frá dagsetningu úrskurðanna, þar til látið hafi verið af tálmunum á umgengni.
Þar sem sóknaraðili hafi ekki talið að um lögmætar forsendur væri að ræða við ákvörðun dagsekta, 12. ágúst 1999 og 18. maí 2000, vegna skorts á lagastoð hafi úrskurðir sýslumannsins í Reykjavík um dagsektir verið kærðir til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, 13. mars og 29. maí sl., á grundvelli kæruheimildar 26. gr. stjórnsýslulaganna nr. 37/1993, með síðari breytingum og 74. gr. barnalaga nr. 20/1992. Kærurnar hafi verið teknar til efnismeðferðar hjá ráðuneytinu og úrskurðað í málunum annarsvegar 21. júní sl. og hins vegar 22. júní sl. Kæru sóknaraðila frá 13. mars sl. hafi verið vísað frá ráðuneytinu þar sem kæran hafi borist of seint og ekki verið fallist á röksemdir sóknaraðila á grundvelli kæru, dags. 29. maí sl., og kærður úrskurður því staðfestur.
Úrskurður sýslumannsins í Reykjavík um greiðslu dagsekta, sé byggður á 38. gr. barnalaga nr. 20/1992. Þar segi m.a.: „Nú tálmar foreldri, sem hefur forsjá barns, hinu foreldrinu að njóta umgengnisréttar við barnið, er úrskurðaður hefur verið, getur sýslumaður þá að kröfu þess skyldað þann sem með forsjá barnsins fer til að láta af tálmunum að viðlögðum dagsektum....”. Í úrskurðum sýslumanns um ákvörðun dagsekta segi að telja verði að hin almenna regla gildi einnig þegar úrskurðað hafi verið um umgengni þeirra er leiði rétt af rétti látins foreldris.
Sóknaraðili vilji ekki fallast á þessa túlkun sýslumanns á ákvæðum barnalaga. Mótmælt sé þeirri túlkun að með orðunum „hinu foreldrinu” í 38. gr. barnalaga sé einnig verið að vísa til þeirra sem leiði rétt af rétti látins foreldris. Barnaverndarlög nr. 58/1992 hafi verið túlkuð þannig að þar sem talað sé um foreldri sé einnig átt við aðra en kynforeldra. Slíkri túlkun hafi hins vegar aldrei verið beitt um barnalögin. Í því sambandi þyki rétt að benda á ummæli Davíðs Þórs Björgvinssonar lagaprófessors í bókinni „Barnaréttur” á bls. 75. Þar segi orðrétt: „Þar sem orðið foreldri (eða foreldrar) kemur fram í barnalögum er ávallt miðað við að um kynforeldri sé að ræða. Með því er átt við foreldra barns í líffræðilegri merkingu. Teljast þeir jafnframt foreldri að lögum nema barn sé ættleitt.” Davíð Þór komist að sömu niðurstöðu á bls. 32 í riti sínu „Lögskýringar” frá árinu 1995 sem notað hafi verið við kennslu í Lagadeild Háskóla Íslands. Þyki í þessu sambandi rétt að benda á að dagsektir séu í eðli sínu þvingunarúrræði. Samkvæmt meginreglum refsiréttar og opinbers réttar skuli skýra slík úrræði þröngt. Þá leiði af lögmætisreglu stjórnsýsluréttar að stjórnvaldsákvörðun skuli vera í samræmi við lög og eiga sér viðhlítandi stoð í þeim.
Fjárnám sýslumannsins í Reykjavík sem krafist sé ógildingar á byggist á úrskurðum sýslumanns um dagsektir. Þar sem lögmæta aðfararheimild, samkvæmt I kafla laga nr. 90/1989 um aðför, hafi skort gagnvart gerðarþola, vegna þeirra annmarka sem séu á úrskurðum sýslumannsins í Reykjavík um ákvörðun dagsekta, telji sóknaraðili að sýslumanni hafi borið að synja gerðarbeiðanda um aðför. Sé því krafist með vísan til 15. kafla afl. að aðfarargerð sýslumannsins í Reykjavík nr. 011-2000-06564, sem fram hafi farið hjá sýslumanninum í Reykjavík 26. júní 2000 að kröfu sýslumannsins í Reykjavík, verði úrskurðuð ógild.
Niðurstaða
Fjárnámsgerð sýslumanns, sú er sóknaraðili krefst að felld verði úr gildi, fór fram þann 26. júní 2000 og krafa sóknaraðila barst Héraðsdómi Reykjavíkur þann 13. júlí 2000. Krafan er því fram komin innan þeirra tímamarka sem sett eru í 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989.
Sóknaraðili byggir kröfu sína á því, að lagaheimild hafi skort fyrir úrskurðum sýslumannsins í Reykjavík frá 12. ágúst 1999 og 18. maí 2000 þess efnis að sóknaraðili skuli greiða dagsektir í ríkissjóð allt þar til sóknaraðili láti af tálmunum á umgengni samkvæmt úrskurði sýslumannsins í Reykjavík þann 5. janúar 1999. Sóknaraðili segir, að nefndir úrskurðir sýslumanns um dagsektir styðjist við 38. gr. laga nr. 20/1992 og segir að það ákvæði taki einungis til þess tilviks er forsjárforeldri tálmi hinu foreldri barns að njóta umgengnisréttar við barnið. Í þessu máli hátti hins vegar svo til, að tálmanir beinist eingöngu að aðilum sem leiði rétt sinn frá rétti látins foreldris og sé engin lagaheimild til að knýja umgengnisrétt slíkra aðila fram með dagsektum. Telur sóknaraðili að þetta leiði til þess að dagsektarúrskurðir sýslumanns eigi sér ekki lagastoð og séu því ekki gild aðfararheimild.
Í VI kafla barnalaga nr. 20/1992 er meðal annars kveðið á um umgengnisrétt. Segir þar í 1. mgr. 37. gr. að barn skuli eiga rétt til umgengni við það foreldri sitt er ekki fari með forsjá þess og gagnkvæmt. Löggjafinn hefur metið þennan rétt barnsins svo sterkan að í greininni er jafnframt kveðið á um að foreldri sé skylt að rækja umgengni og samneyti við barnið og hlíta nánari skilmálum er að því lúta. Þá segir í 2. mgr. 29. gr. að forsjárforeldri sé skylt að stuðla að því að barn njóti umgengni við hitt foreldri sitt. Í 38. gr. laganna segir svo að tálmi forsjárforeldri hinu foreldrinu að njóta úrskurðaðs umgengnisréttar, geti sýslumaður skyldað forsjárforeldrið til að láta af tálmununum að viðlögðum dagsektum. Í niðurlagi greinarinnar kemur fram að öðrum lagaúrræðum verði ekki beitt til framdráttar umgengnisrétti. Í 5. mgr. 37. gr. laganna er meðal annars kveðið á um það, að sé annað foreldri barns látið geti nánir vandamenn hins látna foreldris krafist þess að sýslumaður mæli fyrir um umgengni þeirra við barnið. Sama eigi við sé foreldri af öðrum orsökum ókleift að rækja umgengnisskyldur sínar. Þegar allt þetta er virt, þykir dóminum sem fyrir liggi skýrt álit löggjafans þess efnis að barni sé almennt fyrir bestu að njóta umgengni og tengsla við hvorttveggja foreldri sitt og þykir dóminum sem eðlilegt sé að sama gildi um þá sem koma í stað foreldris skv. 5. mgr. 37. gr. barnalaga. Ekki þykja efni til að skýra orðalag 38. gr. laganna þeirri þröngu skýringu sem sóknaraðili hefur krafist, en af slíkri skýringu leiddi að ekki yrði unnt að knýja fram þann umgengnisrétt sem greinin tekur til. Yrði úrskurður um slíkan umgengnisrétt því í raun marklaus ef forsjárforeldri kysi að hafa hann að engu.
Þegar á þetta er litið er það álit dómsins að í málinu sé ekkert það fram komið sem haggi aðfarargerð nr. 011-2000-06564 sem fram fór hjá sýslumanninum í Reykjavík þann 26. júní 2000. Beri því að staðfesta gerðina. Málskostnaður ákvarðast ekki. Allan V. Magnússon, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Aðfarargerð sýslumannsins í Reykjavík, nr. [...], sem fram fór þann 26. júní 2000, er staðfest. Málskostnaður ákvarðast ekki.