Hæstiréttur íslands

Mál nr. 131/2005


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skaðabætur
  • Skilorð


Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. október 2005.

Nr. 131/2005.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari)

gegn

Rúnari Guðjóni Einarssyni

(Bjarni G. Björgvinsson hdl.)

 

Líkamsárás. Skaðabætur. Skilorð.

R var sakfelldur fyrir líkamsárás samkvæmt 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa slegið A með krepptum hnefa á hægra gagnaugað en við það hlaut hann m.a. beinbrot á kinnkjálkaboga. Þar sem ljóst þótti að R framdi brotið í ákafri geðshræringu, sbr. 75. gr. almennra hegningarlaga, þótti refsing hans hæfilega ákveðin 30 daga fangelsi en rétt þótti að fresta fullnustu hennar skilorðsbundið í tvö ár. Þá var R dæmdur til að greiða A þjáninga- og miskabætur en bótakrafa vegna tapaðra vinnulauna var vísað frá dómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Guðrún Erlendsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 16. mars 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsiákvörðun verði staðfest en skaðabætur hækkaðar í 544.802 krónur.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði felld niður eða ákvörðun um hana frestað. Verði refsing dæmd verði hún lágmarksrefsing og skilorðsbundin. Hann krefst þess og að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi en til vara að henni verði hafnað eða hún lækkuð.

Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms ber að staðfesta hann.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en sakarkostnað.

Ákærði, Rúnar Guðjón Einarsson, greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, 474.843 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns á báðum dómstigum, Bjarna G. Björgvinssonar héraðsdómslögmanns, samtals 435.750 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 17. janúar 2005.

             Málið, sem dómtekið var 14. desember 2004, er höfðað með ákæru sýslumannsins á Eskifirði, dagsettri 18. október 2004, á hendur Rúnari Guðjóni Einarssyni, [...], til heimils að Fjarðarbraut [...], Stöðvarfirði, Austurbyggð „fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfararnótt laugardagsins 26. júní 2004, að Fjarðarbraut [...] á Stöðvarfirði, veist að A, [...], og slegið hann hnefahöggi á hægra gagnaugað, með þeim afleiðingum að hann hlaut brot á kinnkjálkaboga hægra megin og tilfærslu á neðri hluta af hliðarvegg kinnholunnar.“

             Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

             Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða A skaðabætur að fjárhæð kr. 544.802.- auk vaxta samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993 frá 26. júní 2004 til 6. september s.á. en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 30/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Verjandi ákærða gerir aðallega þá kröfu að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara að refsing ákærða verði svo væg sem lög leyfa eða felld niður. Þá er þess krafist að bótakröfu verði vísað frá eða að henni verði hafnað eða hún lækkuð verulega. Loks krefst verjandinn málsvarnarlauna að mati réttarins.

I.

             Í skýrslu lögreglunnar á Eskifirði er málavöxtum lýst þannig að A hafi kl. 05:00 þann 26. júní 2004 haft samband í gegnum Neyðarlínuna og óskað eftir aðstoð þar sem hann hefði orðið fyrir líkamsárás. Kvaðst A, sem sagðist vera staddur var að Fjarðarbraut [...] á Stöðvarfirði, hafa verið laminn í húsi sem hann var gestkomandi í og síðan hent út.

Lögregla fór að Fjarðarbraut [...] og hitti A, sem ekki var áberandi ölvaður, berfættan fyrir utan húsið. Var A með smá skurði yfir hægra kinnbeini og hélt poka með köldu vatni við hægri kinn. Kvaðst A hafa verið í heimsókn hjá B að Fjarðabraut [...], og hefðu þau drukkið áfengi. Þau hafi verið að ræða saman inni í stofu þegar Rúnar sambýlismaður hennar hafi komið heim af sjónum og ráðist beint á hann og lamið með krepptum hnefa í andlitið og hent honum út úr húsinu. Hann hafi farið þaðan að Fjarðabraut [...] þar sem hann hafi fengið að hringja á lögreglu.

             Lögreglan fór að Fjarðarbraut [...] til að sækja fatnað og húslykla A. Þar kom til dyra Rúnar, ákærði í máli þessu, og var hann ber að ofan og nokkuð æstur. Kvaðst hann ekki ætla að þræta fyrir að hafa lamið A. Óskaði hann eftir að lögreglan kæmi inn svo hann gæti sýnt hvernig þar væri umhorfs. Rúnar, sem sagðist vera vélstjóri á Álftafelli SU, kvaðst hafa verið að koma heim af sjónum. Þegar hann hafi rætt við B sambýliskonu um þremur klukkustundum áður hafi verið útlit fyrir að hann kæmi ekki í land fyrr en um hádegi en það hefði síðan breyst. Kvaðst hann hafa ætlað að læðast inn til að vekja B ekki. Þegar hann hafi komið inn hafi B og A blasað við honum í samförum í stofunni. Hann hafi orðið mjög reiður og gengið að A, sem hafi verið sestur í stól, lamið hann með krepptum hnefa í andlitið og hent honum út. Síðan hafi hann hent B út og sagt henni að hún gæti verið hjá A fyrst að svona væri komið.

             Hendi Rúnars var bólgin fram við hnúa og á henni voru smá sár.

             Lögregla fann B í bílskúr austan við íbúðarhúsið. Greindi hún lögreglu frá því að Rúnar hefði lamið hana og hent henni út. Hún kvaðst skilja það og hafa átt það skilið þar sem hún og A hefðu verið í samförum þegar Rúnar kom heim. Fékk B húsaskjól hjá A og fékk að gista hjá honum.

              Skoðun á A á heilsugæslustöðinni á Fáskrúðsfirði laugardaginn 26. júní 2004 leiddi í ljós að hægra kinnbein hans var brotið og var honum vísað til frekari rannsókna á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri.

              Í læknisvottorði Friðriks Páls Jónssonar, háls- nef- og eyrnalæknis við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, dags. 30. ágúst 2004, segir að vitnið A hafi komið til skoðunar 30. júní s.á. Lýsir hann áverkanum þannig: „...veruleg skekkja  í andliti og er hægra kinnbeinið verulega innkýlt og greinilega stallur í kinnkjálkabogann (arcus zygomaticus) og verður hann vart þreifanlegur þegar framar dregur. Það er nokkur dofi í svæðinu fyrir neðan augað og segir A að dofinn hafi minnkað mikið. Fengin var tölvusneiðmynd af andlitsbeininu sem sýnir brot á kinnkjálkaboganum, sem er talsvert innkýldur. Einnig er neðri hlutinn af hliðarvegg kinnholunnar verulega innkýldur.“ Í vottorðinu kemur fram að læknirinn taldi að laga mætti brotið með því að draga það út og var sú aðgerð gerð daginn eftir. Hafi aðgerðin virst hafa heppnast og samsvörun virst með vinstri og hægri hluta andlitsins. Síðar sama dag hafi svo komið í ljós við skoðun að brotið hafði að öllum líkindum sigið inn aftur. Var þá ljóst að gera þyrfti frekari og stærri aðgerð og var haft samband við viðeigandi deild við Landspítala háskólasjúkrahúss í Fossvogi og var A sendur þangað í skoðun á göngudeild næsta morgun.

             Í aðgerðarlýsingu Hannesar Petersen, frá Landspítala háskólasjúkrahúsi, háls- nef- og eyrnadeild, dags. 05.07. 2004, kemur fram að gert hafi verið að brotinu og m.a. komið fyrir títanplötu í „lateral“ augntóttar umgjörð. Hafi verið góð lega á brotinu.

             Í þágu rannsóknar málsins var aflað upplýsinga frá símanum um hringingar úr  farsímanúmeri A og í heimasíma og gsm síma B frá klukkan 21:00 þann 25. júní 2004 til klukkan 06:00 þann 26. júní. Í ljós kom að hringt hafði verið 15 sinnum úr farsíma A í síma B.

Ákærði kveðst hafa verið búinn að láta B sambýliskonu sína vita að von væri á honum heim af sjónum og hafa komið heim á milli klukkan hálf fjögur og hálf fimm umrædda nótt. Þegar hann hafi opnað útidyrahurðina á heimili þeirra hafi blasað við honum glerbrot og öskubakki í eldhúsinu. Þegar hann hafi litið betur í kringum sig hafi hann séð aftan á mann sem var bograndi yfir stól í stofunni. Hann hafi heyrt snökt og hafi honum virst maðurinn vera að nauðga B. Hann hafi ekki verið viss um að konan væri B og því spurt hvað gengi á en maðurinn þá sagt honum að skipta sér ekki af þessu og koma sér út. Hann hafi þá gengið að manninum, A, og rifið í öxlina á honum en ekki náð honum frá B því hann hafi ríghaldið í hana. Hann hafi þá tekið A hálstaki og skellt honum í nærliggjandi stól. Hann hafi síðan fært stólinn sem B sat í aðeins frá en A þá staðið upp og slegið til hans og hafi hann þá lamið Asennilega í bringspalirnar. Hann hafi síðan flogið á A og tekið hann hálstaki og dregið hann eftir ganginum en sleppt honum til að opna útidyrnar. A hafi þá staðið upp og ráðist á hann eins og villidýr hvað eftir annað. Þeir hafi báðir dottið. Hann hafi slegið til A, sem hafi snúið andlitinu beint að honum, og fundist eins og hann hefði slegið úr honum tönn þar sem skurður sem hann var með við vísifingur vinstri handar hafi rifnað upp. Það sé því alveg möguleiki á að hann hafi kýlt A í andlitið en útilokað að hann hafi hitt hann á annan hvorn vangann. Hann hafi ætlað að slá A beint framan á hökuna en ekki hitt og höggið lent í gólfinu. Hann hafi síðan náð að koma A út úr húsinu en það hafi tekið 2 til 3 mínútur. Hann hafi séð A hrasa þegar hann fór yfir limgerðið á lóðarmörkunum.

Þegar Óskar lögreglumaður hafi síðan komið og sagt honum að A héldi því fram að hann hefði slegið hann hafi hann svarað því til að það gæti vel verið. Hann hafi spurt Óskar hvort að tönn hefði brotnað í A en Óskar svarað því neitandi og sagt að hann væri með einhverja sprettu á vanganum. Hann hafi þá sagt við Óskar að það gæti ekki staðist að hann hefði veitt A áverka á hægri vanga þar sem A hafi snúið vinstri vanganum að honum þegar hann kom inn. Hann hafi ekki kýlt A í andlitið allavega ekki þarna. Hins vegar kvaðst hann ekki þora að fara með það hvort hafi kýlt hann í andlitið eða hvað en hann hafi lamið hann mjög fast í bringspalirnar þegar hann sló hann niður í stólinn. Ákærði kvað það alveg mögulegt að hann hafi slegið A en útilokað sé að hann hafi slegið hann á annan hvorn vangann.

Hann hafi verið bólginn á hnúa í umrætt sinn vegna þess að hann sé oft bólginn á höndum þegar hann komi heim úr kolaaðgerð, en það kunni einnig að einhverju leiti að hafa orsakast af áflogunum við A.

Við skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst ákærði hafa ætlað að slá A í andlitið þar sem hann var sestur í stól í stofunni en ekki hafa hitt og slegið í gólfið.

              Vitnið B kveðst hafa lagt sig umrætt kvöld en vaknað um miðnætti til að taka þátt í spilakeppni á netinu sem byrji venjulega á milli miðnættis og klukkan þrjú og standi í einn til einn og hálfan tíma. Hún hafi átt von á manni sínum Rúnari, ákærða í máli þessu, heim seinna um nóttina. Hún hafi verið búin að ræða nokkrum sinnum við A í síma og biðja hann um að skila bílnum hennar. A hafi síðan komið einhvern tímann um nóttina til að skila lyklinum, en bílnum hafi hann verið búinn að skila fyrr um kvöldið. Hún hafi boðið honum inn og þar sem hann hafi verið með blóð í andlitinu hafi hún látið hann hafa bómull til að þurrka það. A hafi sagt henni að hann hefði lent í smá veseni. A hafi verið með tvo bjóra og hafi hann sjálfur drukkið annan en gefið henni hinn. Hún hafi haldið áfram að spila en A hafi sest inn í stofu og verið að skrifa eitthvað. Hún muni síðan ekkert fyrr en hún rankaði við sér við öskur í Rúnari manni sínum og A. Hafi maður hennar tekið í hnakkadrambið á A, sem var “riðlast á henni”, og dregið hann í burtu. Hún hafi ekki verið mjög drukkin þar sem hún hafi ekkert verið búin að drekka nema u.þ.b. 1-2 bjóra áður en hún sofnaði um kvöldið og síðan bjórinn sem A gaf henni. Hún geti því ekki skýrt óminni sitt og aldrei áður hafa lent í öðru eins. Minni hennar um það sem gerðist eftir að hún rankaði við sér sé hins vegar skýrt þó að hún hafi verið eins og kærulaus. Hún hafi fylgst með því úr sæti sínu þegar Rúnar hálfpartinn dró A, sem á meðan hysjaði upp um sig buxurnar, fram á ganginn. Hún hafi ekki séð Rúnar slá til A né sparka í hann og enga áverka hafa séð á A af hans völdum.

Vitnið A kveðst umrætt kvöld hafa farið á Kútterinn á Stöðvarfirði og fengið sér 2-3 bjóra. Þegar hann hafi komið heim einhvern tímann um nóttina hafi verið „missed calls“ á símanum hans. Þegar hann hafi hringt í númerið sem hringt hafði verið úr hafi B svarað og spurt hvort hann vildi ekki koma og fá sér í glas með þeim. Hann hafi því búist við að þau hjónin væru við drykkju og ákveðið að þiggja boðið. Ekki sé rétt að hann hafi haft bíl B að láni og að hann hafi verið að skila lyklunum að honum. Þegar hann hafi komið þangað hafi B komið til dyra í næfurþunnum svörtum, gagnsæjum náttkjól einum fata og boðið honum inn. Hann hafi sest niður og opnað tvo bjóra. Ekki sé rétt að hann hafi verið með blæðandi sár á andlitinu. Þau hafi bæði verið hlæjandi og eitthvað að gantast án þess að nokkuð kynferðislegt væri í gangi á milli þeirra. Hann hafi bara verið búinn að stoppa í nokkrar mínútur og verið með hendurnar á lærum B þegar ákærði hafi komið heim. Það sé rangt að hann hafi verið að hafa samfarir við B. Ákærði hafi umsvifalaust án þess að segja orð svifið á hann og kýlt hann í andlitið á gagnaugað hægra megin. Hann hafi kastast í gólfið við höggið og eins og hálfrotast. Ákærði hafi síðan sparkað í hann og hent honum út. Hann hafi ekki getað brugðist við með nokkrum hætti þar sem hann hafi verið svo vankaður eftir höggið.  Hann hafi síðan gengið í nærliggjandi hús þar sem hann eigi skyldmenni og fengið að hringja á lögregluna.

Daginn eftir hafi hann leitað læknis á heilsugæslustöðinni á Fáskrúðsfirði og hafi komið í ljós við skoðun að hann var brotinn í andliti. Lýsti vitnið síðan sjúkraferli sínum þar á eftir eins og rakið er hér að ofan í læknisskýrslum. Kvað hann líðan sína hafa verið mjög slæma eftir áverkann og honum hafa fylgt doði í andliti sem standi ennþá. Hann hafi verið frá vinnu í 6 vikur að læknisráði og orðið fyrir miklum kostnaði vegna meðferðar.

Óskar Þór Guðmundsson, lögregluvarðstjóri kveður ákærða bæði um nóttina og daginn eftir hafa viðurkennt og lýst fyrir lögreglunni hvernig hann hefði lamið A og hent honum út. Þá hafi ákærði verið að velta því fyrir sér hvort sár á hendi hans væri vegna þess að hann hefði slegið tönn úr A. Hvorki B né ákærði hafi haft orð á því að A hefði verið með áverka áður.

II.

Ákærði kveðst hafa reiðst mjög er hann kom heim og að A og eiginkonu sinni B, að hann taldi í samförum, umrædda nótt og hefur viðurkennt að til átaka hafi komið á milli hans og A. 

Vitnið A hefur staðfastlega haldið því fram að ákærði hafi undireins og hann kom inn svifið á hann og kýlt hann á gagnaugað hægra megin. Fyrir liggur að A reyndist vera með brot á kinnkjálkaboga hægra megin og tilfærslu á neðri hluta af hliðarvegg kinnholunnar er hann leitaði læknis daginn eftir. 

Ákærði neitar að hafa slegið A hnefahögg á hægra gagnaugað. Hins vegar viðurkennir hann að hafa slegið A í bringspalirnar inn í stofu og að hann hafi ætlað að slá hann í hökuna á ganginum en kveður höggið hafa geigað og lent í gólfinu. Þá viðurkennir hann að hann hafi haldið sig hafa slegið tönn úr A þar sem skurður á hendi hans rifnaði upp. Hefur lögreglumaðurinn Óskar staðfest að ákærði hafi velt því fyrir sér hvort sár á hendi hans væri af þeim völdum. Ákærði kveður því alveg vera möguleika á því að hann hafi kýlt A í andlitið en útilokað sé að hann hafi slegið hann á annan hvorn vangann. Ákærði kveður bólgu á hnúum hans kunna að einhverju leiti að hafa stafað af átökum hans við A.

Ekki er öðrum vitnum til að dreifa að átökunum en B eiginkonu ákærða. Hún ber við óminni um atvik næturinnar þar til ákærði kom heim og að henni og A í samförum inni í stofu en kveðst muna atvik skýrt eftir það. Hún kveðst ekki hafa séð ákærða slá A. Hins vegar kveður hún A hafa verið með blóð á andliti þegar hann kom til hennar. A neitar því hins vegar. Er því ekki við annað að styðjast en framburð vitnisins B um að A hafi verið með áverka fyrir átökin. Þar sem framburður vitnisins þykir einkar ótrúverðugur og þar sem telja verður fjarstæðukennt að A hafi farið í heimsókn til vitnisins með þá áverka sem lýst er í ákæru verður að telja ósannað að ákærði hafi verið með áverka fyrir átökin.

Ljóst er að til átaka kom umrædda nótt á milli ákærða og A. Þykir framburður ákærða um að útilokað sé að hann hafi slegið A hnefahögg á hægra gagnaugað ekki trúverðugur í ljósi framburðar hans um átökin að öðru leiti. Þá er á það að líta að lögreglumaðurinn Óskar Þór Guðmundsson hefur borið að ákærði hafi bæði um nóttina og daginn eftir viðurkennt fyrir honum að hafa slegið A með krepptum hnefa í andlitið. Þykir því ekki varhugavert að leggja framburð vitnisins A um atvik til grundvallar. Verður því að telja nægilega sannað með samkvæmt framanröktu og læknisvottorðum að ákærði hafi í umrætt sinn slegið vitnið A hnefahögg í hægra gagnaugað eins og honum er gefið að sök í ákæru og að A hafi við það fengið þá áverka sem lýst er í ákæru. Hefur ákærði með því gerst brotlegur við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

III.

Í málinu gerir brotaþoli, A, bótakröfu á hendur ákærða að fjárhæð samtals kr. 544.802 auk vaxta skv. 16. gr. skaðabótalaga frá 26. júní 2004 til 6. september sama ár en frá þeim degi dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags. Við meðferð málsins var fallið frá fyrirvara í bótakröfu um breytta miskabótakröfu, komi til þess að tjón bótakrefjanda líti út fyrir að verða varanlegt og hann muni þurfa að undirgangast örorkumat. Krafan, sem er dagsett 6. ágúst 2004, barst lögreglunni á Fáskrúðsfirði sama dag og var kynnt ákærða 19. sama mánaðar. Krafan sundurliðast þannig:

1.                    Útlagður kostnaður skv. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993                                          kr.   36.410

2.                    Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr. sömu laga                                                              kr. 127.759

3.                    Þjáningarbætur skv. 3. gr. sömu laga                                                                              kr.   46.110

4.                    Miskabætur skv. 26. gr. sömu laga                                                                                 kr. 250.000

5.                    Lögmannsþóknun skv. gjaldskrá Regula lögmannsstofu ehf                                    kr.   67.890

6.                    Virðisaukaskattur af lögmannsþóknun 24,5 %                                                              kr.   16.633

                                                                                                                        Samtals                        kr. 544.802

 

Ákærði, sem sakfelldur er fyrir brot það sem honum er gefið að sök í ákæru, ber skaðabótaábyrgð á því tjóni brotaþola sem rekja má til hinnar refsiverðu háttsemi hans.

Verjandi ákærða gerir ekki athugasemd við 1. lið kröfunnar, sem er studd gögnum og verður hún tekin til greina.

Í 2. lið í bótakröfu er gerð er krafa um bætur vegna vinnutaps brotaþola, sem starfaði við beitingar, og er þess krafist að fjárhæðin verði miðuð við laun hans næstu þrjá mánuðina á undan. Verjandi ákærða mótmælir því að brotaþoli eigi rétt til bóta vegna tímabundins atvinnutjóns og hefur andmælt kröfunni sem of hárri með tilliti til eðlis vinnunnar. Þá mótmælir hann því að miðað verði við laun þriggja undanfarandi mánaða. Á því tímabili voru vinnulaun brotaþola með orlofi alls kr. 258.061, en launaseðill fyrir júnímánuð ber með sér að greidd laun frá áramótum hafi verið kr. 287.981. Samkvæmt því hafa laun brotaþola einungis numið kr. 29.920 frá ársbyrjun til loka marsmánaðar. Brotaþoli upplýsti fyrir dóminum að vinnan væri óregluleg “akkorðsvinna” og greitt væri fyrir afköst. Ráðningarsamningur liggur ekki fyrir og ekkert um að brotaþoli hefði haldið óslitinni vinnu hjá vinnuveitanda sínum á tímabili því sem hann var frá vinnu og að hann hafi getað vænst sömu mánaðarlauna og síðustu þrjá mánuði. Þykir því ekki verða hjá því komist að vísa kröfu brotaþola vegna launataps að fjárhæð kr. 127.759 frá dómi.

Í 3. lið kröfunnar er gerð krafa um þjáningarbætur samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, kr. 1.840 fyrir þrjá rúmliggjandi daga, þ.e.a.s. 1. júlí á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og 5. – 6. júlí á Landspítala háskólasjúkrahúsi og kr. 990 fyrir 41 dag sem brotaþoli var ekki rúmliggjandi eða samtals kr. 46.110. Kröfunni hefur ekki verið mótmælt og bæturnar þykja rétt ákveðnar og verður hún því tekin til greina.

Í 4. lið kröfunnar er gerð krafa um miskabætur að fjárhæð kr. 250.000. Hefur verjandi mótmælt þeirri kröfu á þeim grundvelli að hún sé óviðeigandi með tilliti til aðstæðna og að líta verði til eigin sakar bótakrefjanda. Brotaþoli á rétt á miskabótum úr hendi ákærða vegna árásarinnar á grundvelli 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sem þykja hæfilega ákveðnar 150.000 krónur.

Samkvæmt 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála á brotaþoli rétt til bóta vegna lögmannskostnaðar sem hann hefur haft af því að halda fram kröfu sinni í málinu. Verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola lögmannskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn að fjárhæð kr. 70.000 með virðisaukaskatti.

Með vísan til alls framangreinds dæmist ákærði til að greiða brotaþola kr. 317.043, auk vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga af  196.110  krónum frá 26. júní 2004 til 19. september 2004 en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af kr. 302.520 frá þeim degi til greiðsludags.

V.

Ákærði hefur ekki sætt refsingu sem hér skiptir máli. Það hvernig ákærði kom að konu sinni og A á heimilinu í umrætt sinn var mjög til þess fallið að reita hann til mikillar reiði. Þykir ljóst mega vera að ákærði hafi framið brotið í ákafri geðshræringu. Verður til þess litið við ákvörðun refsingar hans til refsilækkunar, sbr. 75. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 30 daga fangelsi. Rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar og ákveða að hún falli niður að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

             Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talið málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarna G. Björgvinssonar hdl., 150.000 krónur.

             Þorgerður Erlendsdóttir, dómsstjóri keður upp dóminn. Dómsuppsaga hefur dregist vegna anna dómara.

 

Dómsorð:

Ákærði Rúnar Guðjón Einarsson, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingar og hún niður falla að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði A, 302.520 krónur, auk vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga af 196.110 krónum frá 26. júní 2004 til 19. september 2004, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 302.520 krónum til greiðsludags.

Kröfu brotaþola vegna launataps að fjárhæð kr. 127.759 er vísað frá dómi.

Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar, þar með talið málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarna G Björgvinssonar hdl., 150.000 krónur.

 

                                                                                         Þorgerður Erlendsdóttir