Hæstiréttur íslands
Mál nr. 859/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Miðvikudaginn 30. desember 2015. |
|
Nr. 859/2015.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Einar Laxness aðstoðarsaksóknari) gegn X (Jóhannes Ásgeirsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. desember 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. desember 2015 þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 15. janúar 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. desember 2015.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess fyrir dóminum í dag að X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 15. janúar nk. kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að 22. október sl. hafi verið kallað eftir aðstoð lögreglu í [...] að [...] í Hafnarfirði vegna ráns. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi gerendur verið farnir á brott en starfsmaður verslunarinnar hafi skýrt lögreglu frá því að hann hafi verið við vinnu í herbergi sem sé inn af versluninni þegar hann hafi séð mann með hettu yfir andlitinu nálgast sig og hafi annar árásarmannanna öskrað á starfsmanninn að leggjast niður. Því næst hafi starfsmaðurinn séð hvar hann lyfti öxi eins og hann væri að reiða hana til höggs til að slá sig með henni. Starfsmaðurinn hafi komist út úr versluninni á hlaupum, en þá tekið eftir að annar maður var einnig inni í versluninni að hreinsa út úr skartgripaskápum. Þegar starfsmaðurinn hafi verið staddur fyrir utan húsið eftir ránið hafi hann séð hvar hvítum jeppling hafi verið ekið upp [...] og hafi tveir menn með hettur fyrir andlitum verið í framsætum bifreiðarinnar.
Að kvöldi 22. október sl. hafi lögreglumenn farið að [...] í Keflavík, en grunur hafi leikið á að kærði væri þar. Hafi lögreglu borist upplýsingar þess efnis að kærði væri vopnaður skammbyssu. Er lögreglumenn hafi staðið fyrir utan [...] hafi þeir séð mann koma gangandi frá [...] inn á [...] og hafi lögreglumenn borið kennsl á manninn sem kærða X. Lögreglumenn hafi gengið á móti honum og tilkynnt að þeir væru vopnaðir og gefið honum fyrirmæli um að fara niður á hnén og hafa hendur sýnilegar. Hafi fyrirmælin verið ítrekuð. Kærði hafi þá lagt á flótta austur [...] og að [...] og lögreglumenn hlaupið á eftir honum. Á flóttanum hafi hann snúið sér við, beint byssu að lögreglumönnunum og skotið að þeim þremur skotum í röð. Lögreglumennirnir hafi þá kallað upp að verið væri að skjóta á þá úr skotvopni svo allir í nágrenninu gætu heyrt og komið sér í skjól. Kærði hafi verið eltur þar sem hann hafi hlaupið yfir [...] að [...] og hafi honum ítrekað verið gefin fyrirmæli um að stöðva og látinn vita að lögregla væri vopnuð. Á flóttanum hafi kærði skotið fjórum til fimm skotum upp í loftið, hverju fætur á öðru. Kærði hafi svo hent frá sér byssunni og hafi hann þá verið hlaupinn uppi af lögreglumönnum og yfirbugaður.
Á vettvangi hafi verið rætt við tvö vitni sem hafi verið í bifreið sem hafði verið lagt við [...] í Keflavík. Hafi vitnin séð mann hlaupa frá gatnamótum [...] og [...] í átt að sér og á eftir manninum hafi verið hópur af lögreglumönnum. Þá hafi þau heyrt lögreglumenn kalla „byssa“ og séð manninn miða skammbyssu upp í loftið og hafi hann skotið úr byssunni. Einnig hafi þau heyrt lögreglu gefa manninum skipanir um að stöðva og leggja byssuna frá sér. Hafi vitnin búist við skotárás á milli lögreglu og mannsins þar sem maðurinn hafi verið byrjaður að skjóta úr byssu að lögreglu.
Í framhaldi af handtöku kærða hafi hann verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. R-[...]/2015. Hinn 6. nóvember sl. hafi kærða síðan með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. R-[...]/2015 verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna til 4. desember, en úrskurðurinn hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar í máli nr. 761/2015. Hinn 4. desember sl. hafi kærða með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. R-[...]/2015 verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna til 1. janúar nk., en úrskurðurinn hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar í máli nr. 820/2015.
Í fyrstu skýrslutökum hjá lögreglu hafi kærði neitað sök. Hafi hann skýrt frá því að þegar hann hafi komið á [...] umrætt kvöld hafi hann séð einhverja menn hlaupa á eftir sér, en hann hafi ekki vitað hverjir þetta væru og reynt að hlaupa frá þeim. Þegar hann hafi heyrt að þetta væru lögreglumenn hafi hann hent byssunni frá sér, en hann hafi einungis skotið þremur til fjórum skotum úr byssunni upp í loftið. Hann hafi verið með byssuna á sér í þeim tilgangi að verja sig. Í skýrslutöku 30. nóvember sl. hafi kærði játað að hafa framið ránið í félagi við þá Y og Z.
Meðkærði í þessu máli, Z, hafi skýrt frá því að kærði X hafi skipulagt ránið. Þeir hafi farið í verslunina, X hlaupið á bak við vopnaður exi og skipað konunni að leggjast á gólfið. Konan hafi síðan hlaupið út úr versluninni, en Z brotið glugga í sýningarskáp og glugga í afgreiðsluborði. Í kjölfarið hafi þeir ekið að [...] þar sem Y hafi tekið á móti þeim. Þar hafi þeir skilið [...]-bifreiðina eftir og ekið heim til systur X. Hafi Y beðið úti í bíl á meðan hann og X hafi farið inn. X hafi svo farið út í bíl til Y með þýfið og komið til baka með pening og amfetamín.
Meðkærði í þessu máli, Y, hafi skýrt frá því kærði X skuldi honum mikinn pening. Hafi X hringt í hann daginn sem ránið var framið og sagt honum að vera á bifreiðastæðinu við [...] eftir hálftíma og ef hann sinnti því ekki fengi hann skuldina ekki greidda. X hafi komið þangað ásamt Z á stolnum jeppa hvítum að lit. Hafi þeir komið yfir í bifreiðina til Y, en X hafi sagt honum að bruna til Keflavíkur því hann hefði verið að fremja rán. Hafi Y ekið með þá til Keflavíkur til systur X. Þar hafi X boðið honum að taka við þýfinu en Y hafi neitað því. X hafi þá sagst ætla að útvega peninga og beðið hann að hafa samband við móður sína eftir nokkra daga. Eftir þetta hafi Y farið.
Við skoðun á byssunni eftir handtöku kærða hafi komið í ljós að um gasbyssu var að ræða. Byssan sé með gashylki í skefti og skjóti blýskotum. Í byssunni hafi verið rúlla/magasín sem taki átta skot/bolla. Frekari rannsókn á vopninu eigi eftir að fara fram.
Í greinargerð lögreglustjóra segir að kærði eigi nokkurn sakaferil að baki sem nái aftur til ársins 2004.
Rannsókn málsins sé lokið og verði það sent embætti héraðssaksóknara strax eftir áramót. Kærði liggi samkvæmt framansögðu undir sterkum grun um að hafa framið rán í félagi við Y og Z í verslun [...], [...], Hafnarfirði, fimmtudaginn 22. október 2015. Kærðu séu allir taldir hafa skipulagt verknaðinn, en X og Y hafi farið inn í verslunina með lambhúshettur fyrir andlitinu, X vopnaður exi og hafi hann skipað starfsmanni verslunarinnar, [...], að leggjast á gólfið og hlaupið á eftir henni með exi á lofti. Kærðu hafi haft á brott með sér skartgripi að áætluðu verðmæti 1.950.200 krónur og yfirgefið vettvang á bifreiðinni [...], sem X hafi ekið suður Reykjanesbraut að [...] þar sem Y hafi sótt X og Z og ekið þeim til Keflavíkur þar sem Y hafi tekið við þýfinu. Kærði X liggi einnig undir sterkum grun um valdstjórnarbrot og tilraun til stórfelldrar líkamsárásar, með því að hafa að kvöldi fimmtudagsins 22. október 2015, er lögregla hafði afskipti af honum í Keflavík, skotið þrisvar sinnum úr gasbyssu í átt að fimm lögreglumönnum sem veittu honum eftirför og að hafa skotið fjórum til fimm sinnum úr byssunni upp í loftið á meðan lögreglumennirnir hlupu á eftir honum austur [...], norður [...] og [...], þar sem X hafi verið yfirbugaður af lögreglu og framið þar brot sem varðað geti við 106. gr., 2. mgr. 218. gr., sbr. 20. gr., og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Framangreind brot geti varðað allt að 16 ára fangelsi. Ljóst sé að kærði sé hættulegur umhverfi sínu og sé það mat lögreglu að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Myndi það jafnframt særa réttarvitund almennings gengi kærði laus.
Með vísan til framangreinds, rannsóknargagna og 2. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram.
Kærði hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 23. október sl., fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna, en frá 6. nóvember sl. á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Kærði hefur játað fyrir lögreglu að hafa framið rán í verslun [...] í Hafnarfirði 22. október sl. í félagi við Y og Z. Kærði er undir sterkum grun að hafa brotið gegn 106. gr., 2. mgr. 218. gr., sbr. 20. gr., 4. mgr. 220. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Háttsemi kærða getur varðað allt að 16 ára fangelsi. Með tilliti til almannahagsmuna er á það fallist að brot kærða sé þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja að hann gangi ekki laus á meðan að mál hans er til meðferðar fyrir dómi. Er skilyrðum fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldi kærða því fullnægt og verður krafa lögreglustjórans tekin til greina svo sem í úrskurðarorði greinir en ekki þykir ástæða til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er.
Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 15. janúar 2015, klukkan 16.00.