Hæstiréttur íslands

Mál nr. 333/2001


Lykilorð

  • Vinnusamningur
  • Uppsögn
  • Orlof
  • Trúnaðarskylda


Fimmtudaginn 7

 

Fimmtudaginn 7. febrúar 2002.

Nr. 333/2001.

Sápugerðin Frigg ehf.

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

gegn

Axel Gíslasyni

(Guðni Haraldsson hrl.)

 

Vinnusamningur. Uppsögn. Orlof. Trúnaðarskylda.

A, sem hóf störf hjá S ehf. á árinu 1992 og gegndi starfi framleiðslustjóra frá árinu 1998, sagði upp starfi sínu með þriggja mánaða uppsagnarfresti frá 1. apríl 2000. Í lok apríl hafnaði S ehf. frekara vinnuframlagi A og gaf framkvæmdastjóri S ehf. þá skýringu á þessu fyrir dómi að hann hefði frétt hjá starfsmanni sínum að A hefði ráðið sig til starfa hjá keppinaut S ehf., T ehf., og taldi S ehf. að með því hefði A brotið trúnað við sig. Deilt var um hvort S ehf. bæri að greiða A laun fyrir mánuðina maí og júní 2000 auk nánar tiltekins orlofs og hluta desemberuppbótar. Með hliðsjón af atvikum málsins og þess að ekkert var fram komið um að A hefði látið forsvarsmönnum eða starfsmönnum T ehf. í té upplýsingar um starfsemi fyrrum vinnuveitanda síns, sem leynt áttu að fara, var ekki á það fallist með S ehf. að A hefði brotið trúnaðarskyldur sínar við hann með því að ráða sig hjá T ehf. frá 1. júlí 2000 áður en uppsagnarfrestur hans var á enda. Þótti jafnframt ósönnuð sú fullyrðing S ehf. að A hefði eytt tölvugögnum S ehf. úr tölvu þeirri er A hafði afnot af í starfi sínu.  Voru kröfur A samkvæmt þessu teknar til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. september 2001 og krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi, sem kveðinn var upp 14. júní 2001, hóf stefndi störf hjá áfrýjanda á árinu 1992 og gegndi hann starfi framleiðslustjóra frá árinu 1998. Sagði hann starfi sínu upp með bréfi 8. mars 2000 með þriggja mánaða uppsagnarfresti frá 1. apríl sama árs. Í lok apríl hafnaði áfrýjandi frekara vinnuframlagi stefnda. Gaf framkvæmdastjóri áfrýjanda þá skýringu á þessu fyrir dómi að hann hafi frétt hjá starfsmanni sínum að stefndi hafi ráðið sig til starfa hjá keppinaut áfrýjanda, Takk hreinlæti ehf., og telur áfrýjandi að með því hafi hann brotið trúnað við sig. Er ekki um það deilt í málinu að réttur hans til launa hafi miðast við þriggja mánaða uppsagnarfrest og að á þeim fresti hafi ríkt gagnkvæm trúnaðarskylda milli aðila málsins. Þá er ekki tölulegur ágreiningur um kröfur stefnda, en þær lúta að greiðslu launa fyrir mánuðina maí og júní 2000 auk nánar tiltekins orlofs og hluta desemberuppbótar, eins og nánar er fjallað um í héraðsdómi. Ágreiningur málsins snýst um það hvort áfrýjanda beri að greiða stefnda þessar kröfur.

II.

   Í skýrslu stefnda við aðalmeðferð málsins kom fram að hann hafi ráðið sig til starfa sem framkvæmdastjóri hjá Takk hreinlæti ehf. í byrjun apríl 2000, en félagið var stofnað 18. desember 1997. Skýrði hann jafnframt svo frá að hann hafi haft í hyggju að standa að stofnun félagsins en úr því hafi ekki orðið. Ekkert er fram komið í málinu sem hrekur þessa fullyrðingu stefnda. Samkvæmt skráningu í hlutafélagaskrá er hlutverk Takk hreinlætis ehf. meðal annars að selja og framleiða hreinlætisvörur, en eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi hefur félagið ekki framleitt hreinsiefni, sem er helsta framleiðsluvara áfrýjanda. Stefndi skýrði svo frá í framangreindri skýrslu sinni að starfsemi Takk hreinlætis ehf. hafi aðallega falist í sölu og framleiðslu klúta og ýmissa áhalda, sem notuð eru til þrifa, og innflutningi ýmiss konar plastvara og svo væri enn. Er sú frásögn í samræmi við framburð Sigrúnar Hauksdóttur, starfsmanns Takk hreinlætis ehf. og fyrrverandi starfsmanns áfrýjanda, sem vísað er til í héraðsdómi. Kom fram í skýrslum framkvæmdastjóra áfrýjanda og Péturs Péturssonar, sem var starfsmaður áfrýjanda frá árinu 1997 til loka árs 2000, að á þeim tíma sem stefndi réði sig til starfa hjá Takk hreinlæti ehf. hafi sala áfrýjanda á slíkum vörum aðeins verið lítill en þó vaxandi hluti heildarveltu hans. Eins og lýst er í héraðsdómi keypti áfrýjandi svokallaðar stoðvörur af Takk hreinlæti ehf. allt til ársloka 1999 og endurseldi þær. Áfrýjandi hóf hins vegar sjálfur innflutning og sölu á slíkum vörum í ársbyrjun 2000 og hefur frá þeim tíma selt þær í samkeppni við Takk hreinlæti ehf. og aðra, sem selja sams konar vöru. Ekkert er fram komið í málinu um að stefndi hafi látið forsvarsmönnum eða starfsmönnum Takk hreinlætis ehf. í té upplýsingar um starfsemi fyrrum vinnuveitanda síns, sem leynt áttu að fara. Að virtu því sem að framan er rakið og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður ekki á það fallist með áfrýjanda að stefndi hafi brotið trúnaðarskyldur sínar við hann með því að ráða sig hjá Takk hreinlæti ehf. frá 1. júlí 2000 áður en uppsagnarfrestur hans var á enda. Með vísan til niðurstöðu héraðsdóms telst einnig ósannað að stefndi hafi eytt tölvugögnum áfrýjanda úr tölvu þeirri er hinn fyrrnefndi hafði afnot af í starfi sínu. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

   Áfrýjandi skal greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Sápugerðin Frigg ehf., greiði stefnda, Axel Gíslasyni, samtals 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júní 2001.

Mál þetta sem dómtekið var 23. maí sl. er höfðað með stefnu, áritaðri um birtingu 9. október 2000, af Axel Gíslasyni, Rauðási 19, Reykjavík, gegn Sápugerðinni Frigg ehf., Lyngási 1, Garðabæ

Dómkröfur

Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 997.047 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 1. júní 2000 til greiðsludags, þannig að dráttarvextir taki breytingum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 auk málskostnaðar að mati réttarins auk lögmælts virðisaukaskatts samkvæmt 1. 50/1988.

Stefndi gerir þær dómkröfur aðallega að stefndi verði alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað.

Málavextir

Málavextir eru þeir að stefnandi, sem er aðili að Verkstjórasambandi Íslands, starfaði hjá stefnda frá árinu 1992 til og með apríl 2000.  Stefndi er efnaverksmiðja sem framleiðir og flytur inn sápur, þvottaefni og hreinlæitisvörur.  Stefnandi gegndi starfi framleiðslustjóra frá árinu 1998 til þess er hann lét af störfum hjá fyrirtækinu.  Á verksviði hans voru öll innlend hráefnisinnkaup og samskipti við birgja, gerð framleiðsluáætlana, afstemming á birgðabókhaldi, samskipti við ýmsa viðskiptamenn stefnda, stjórnun á framleiðslu og þáttaka í ákvörðunum um innflutning, framleiðslu og markaðssetningu á nýjum vörum

Hinn 8. mars 2000 sagði stefnandi starfi sínu lausu með miðað við næstu mánaðarmót á eftir með umsömdum fyrirvara, en uppsagnarfrestur var þrír mánuðir. Um ástæður uppsagnarinnar sagði að þær væru af persónulegum ástæðum. 

Þegar stefnandi hafði unnið einn mánuð af uppsagnarfrestinum hafnaði stefndi frekari vinnuframlagi stefnanda á starfsstöð fyrirtækisins. 

Í bréfi lögmanns stefnda, dags. 22. maí 2000, var stefnandi sakaður um að hafa eytt göllum gögnum úr tölvu sem tilheyrði starfi hans sem verksmiðjustjóra, án vitundar forsvarsmanna stefnda.  Kemur fram í bréfinu að starfsmenn Tæknivals hf. hafi reynt að kalla fram í tölvunni að nýju þau gögn en það hafi ekki tekist.  Þá er hann einnig sakaður um að hafa, í samráði við Indriða Björnsson efnaverkfræðing, sem lét af störfum skömmu eftir stefnanda, fengið Indriða til þess að senda sér gögn frá stefnda sem leynt hafi átt að fara og ekki hafi verið ætlast til að óviðkomandi aðilar hefðu undir höndum.  Með vísan til þessa var í bréfinu gerð sú krafa á hendur stefnanda að hann greiddi allan kostnað sem stefndi hefði orðið fyrir vegna skemmda á tölvugögnum félagsins.  Var stefnanda jafnframt tilkynnt að kostnaðurinn yrði dreginn frá launum hans sem enn væru ógreidd.

Stefnandi mótmælti ásökunum stefnda sem röngum.  Hinn 1. júlí 2000 hóf stefnandi störf hjá nýjum vinnuveitnada, í fyrirtækinu Takk hreinlæti ehf.

Málsástæður stefnanda og lagarök

 Krafa stefnanda á hendur stefnda er sú að hann greiði stefnanda umsamin laun fyrir maí og júní 2000, ásamt eftirstöðvum af áunnu orlofi fyrir orlofsárið maí 1999 til og með apríl 2000, samtals 24 orlofsdagar.  Ennfremur er gerð krafa um orlof vegna maí til og með júní 2000, samtals 4,5 daga, ásamt samningsbundinni orlofsuppbót fyrir sama tímabil og hluta desemberuppbótar vegna tímabilsins janúar til júní 2000. 

Stefnufjárhæðin 997.047 krónur sundurliðast á eftirfarandi hátt:

1. Laun maí - júní  329.617 kr. pr. mánuð x 2

659.234 kr.

2. Orlof maí 1999 - apríl 2000 10.987 kr. x 24 dagar  

263.688 kr.

3. Orlof v/ maí - júní 2000, 4,5 dagar x 10.987 kr.

49.442 kr.

4. Orlofsuppbót v/ 1999 - 2000.

9.200 kr.

5. Orlofsuppbót, hlutfall v/ maí - júní 2000,

     766,50 kr.x 2

1.533 kr.

6. Desemberuppbót, hlutfall v/ janúar - júní 2000

13.950 kr.

    samtals

997.047 kr.

Til stuðning kröfu sinni vísar stefnandi til laga nr. 55/1980 um starfskjör launþega svo og til kjarasamnings Verkstjórasambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands. Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við III. kafla laga nr 25/1987, og kröfu um lögmannsþóknunn og annan málskostnað er reist á XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um virðisaukaskatt á málflutninsþóknunn er vísað til laga nr. 50/1998.

Málsástæður stefnda og lagarök

Stefndi  byggir sýknukröfu sína á því að með því að ráða sig til starfa sem framkvæmdastjóri hjá samkeppnisaðila, til að stýra fyrirtæki í beinni samkeppni við stefnda, hafi forsenda fyrir áframhaldandi starfi stefnanda hjá stefnda brostið.  Eðli málsins samkvæmt hafi stefnandi búið yfir víðtækri þekkingu á allri starfsemi stefnda. Hafi stefnandi haft aðgang að öllum kostnaðartölum hjá stefnda, öllum viðskiptamannalistum, vöruþróunargögnum og markaðsáætlunum. Stefnandi hafi því búið yfir vitneskju um mikilvægar staðreyndir í starfsemi stefnda sem flokkist sem viðskiptaleyndarmál stefnda.

Stefndi starfi á miklum samkeppnismarkaði.  Annarsvegar sé stefndi í samkeppni við innlenda framleiðendur á hreinsivörum og hinsvegar séu ýmsir að flytja inn vörur í beinni samkeppni við stefnda.  Öll vöruþróun stefnda sé afar kostnaðarsöm.  Sá hluti þróunarvinnunar sem endi sem söluvara svo og innflutt framleiðsla verði að bera uppi allan rekstrarkostnað og arð stefnda.  Eigi stefndi því verulega undir að samkeppnisaðilar komist ekki í leyndarupplýsingar um innflutning og framleiðslu stefnda og grafi þannig undan starfsemi stefnda með ólögmætri samkeppni.  Helgist samkeppnis- og markaðsstaða stefnda einvörðungu af því að getað haldið haldið viðskiptaleyndarupplýsingum frá þeim sem geti misnotað þær til tjóns fyrir stefnda.

Hafi stefnandi þannig brotið trúnaðarskyldur gagnvart stefnda samkvæmt gildandi vinnusamningi aðila málsins.  Stefnandi hafi starfað sem framleiðslustjóri hjá stefnda og hafi sem slíkur haft aðgang að öllum upplýsingum um rekstur stefnda. Stefnandi hafi haft mikilsverðar trúnaðarupplýsingar með höndum um starfsemi stefnda, þ.m.t. um áform stefnda um nýja framleiðslu, innflutning og sölu, og myndi hafa öðlast frekari upplýsingar hefði hann unnið út ráðningartímann.  Telju stefndi víst að stefnandi hefði nýtt sér slíkar upplýsingar sem framkvæmdastjóri hjá samkeppnisaðila.  Allar upplýsingar um ný áform stefnda í framleiðslu og sölumálum hefðu því borist yfir til samkeppnisaðilans ef stefnandi hefði starfað áfram hjá stefnda út uppsagnartímann.

Ákvörðun stefnanda hafi leitt til þess að stefndi hafi ekki getað nýtt starfskrafta hans frekar þar sem hagsmunir stefnda og væntanlegs vinnuveitanda stefnanda hafi rekist saman.  Hafi stefndi staðið í þeirri trú að stefnandi hefði fallist á að frekari störf í þágu stefnda samrýmdust ekki fyrirhuguðu stjórnunarstarfi hjá samkeppnisaðila og að samkomulag væri um að stefnandi léti þegar af störfum hjá stefnda.

Verði ekki fallist á að samkomulag hafi orðið með aðilum um að stefnandi viki úr starfi í lok apríl heldur stefndi því fram, til viðbótar ofangreindum sjónarmiðum, að þar sem stefnandi hafi ráðið sig sem stjórnanda til samkeppnisaðila hafi stefnda verið rétt að halda stefnanda frá öllum upplýsingum sem telja beri til leyndar- og trúnaðarupplýsinga hjá stefnda.  Í ljósi starfsskyldna stefnanda hafi honum ekki verið unnt, við slíkar aðstæður, að efna skyldur sínar skv. samningnum og stefnda því rétt að rifta vinnusamninginn.  Með ákvörðun sinni hefði stefnandi í reynd rift vinnusamningnum við stefnda.

Þá heldur stefndi því fram að stefnandi hafið brotið trúnaðarskyldu sína gagnvart stefnda með þeim afleiðingum að stefnda hafi verið heimilt að víkja honum úr starfi fyrirvara- og bótalaust.  Stefndi bendir á að trúnaðarskylda haldist óbreytt í uppsagnarfresti.  Séu sömu skyldur á stefnanda sem starfsmanni í uppsagnafrestinum og gildi alla jafnan á starfstímanum.  Felist í reglunni að starfsmaður verði að haga sér á uppsagnarfresti þannig að vinnuveitandi megi ætla að starfsmaður vinni hagsmunum vinnuveitanda gagn en ekki hið gagnstæða ella missi hann hæfi til að sinna starfanum og vinnuveitanda rétt að rifta samningnum fyrirvaralaust á þeim forsendum að um sé að ræða athafnir sem séu ósamrýmanlegar trúnaðarskyldum stefnanda gagnvart stefnda.  Eigi stefnandi því ekki rétt til frekari launa úr hendi stefnanda og gildi þá einu hvort launin eru skilgreind sem venjuleg laun eða orlof.

Verði ekki fallist á ofangreindar málsástæður er því haldið fram að með því að eyða gögnum af tölvu verksmiðjustjóra stefnda með þeim afleiðingum að öll samskiptagögn verksmiðjustjórans við birgja, viðskiptamenn og aðra í þágu stefnda eyðilögðust og tjón hlaust af hafi stefnandi brotið starfsskyldur sínar samkvæmt samningi við stefnda og stefnda því heimilt að rifta vinnusamningnum án fyrirvara. 

Er stefnandi hætti störfum hafi næstráðandi stefnanda verði gerður að verksmiðjustjóra.  Er hann hugðist nýta sér tölvu þá sem stefnandi hafði haft yfir að ráða hafi komið í ljós að búið hafi verið að eyða öllum samskiptagögnum úr tölvunni með þeim afleiðingum að engar upplýsingar hafi verið tiltækar er vörðuðu starf stefnanda í þágu stefnda.  Við skoðun hafi komið í ljós að búið var að eyða tölvupósti allnokkuð aftur í tímann.  Allar upplýsingar um birgja og einstaka starfsmenn þeirra svo og viðskiptamenn, sem stefndi hafði átt samskipti við í starfi sínu, hafi ekki til staðar í tölvunni.  Hið sama hafi gilt um pantanir og fleira.  Öllu þessu hafi meira og minna verið eytt af stefnanda, að sjálfsögðu án vitneskju og heimildar stefnda.

Í framhaldi þessa, í byrjun maí 2000, hafi stefndi óskað eftir því við Tæknival hf. að reynt yrðí að endurheimta þau gögn sem eytt hafi verið af tölvunni.  Hafi það ekk reynst mögulegt.

Verknaður sá sem hér um ræði sé brot á 257.gr. alm. hgl. og sé athöfnin því sem slík sjálfstæð riftunarforsenda vinnusamningsins.  Stefndi telji upplýst, m.t.t. tölvuskeytis stefnanda dags. 24. mars 2000 og skýrslu Tæknivals hf., að stefnandi hafi af ásetningi eytt gögnum af tölvunni áður en hann vék af starfsstöð sinni.

Verði ekki fallist á framangreindar málsástæður stefnda byggir stefndi sýknukröfuna á því að stefnandi hefði getað komist hjá fjártjóni með því að hefja störf strax hjá Takk hreinlæti hf.  Sú skylda hvíldi á stefnanda að takmarka tjón sitt eftir því sem unnt var.  Stefnandi hafi tilkynnt stefnda að hann myndi hefja störf hjá Takk hreinlæti ehf. eftir að vinnusamningi við stefnda lyki  Í málinu liggur því ekki fyrir annað en að stefnandi hæfi störf hjá Takk hreinlæti ehf. strax og hann yrði laus frá stefnda, að loknum hefðbundnum uppsagnarfresti.  Stefnandi hafi því getað hafið störf hjá nýjum vinnuveitanda strax og hann var laus undan skyldum sínum hjá stefnda og firrt sig öllu fjártjóni.  Á grundvelli meginreglunnar um takmörkun tjóns eigi stefnandi ekki rétt á að krefja stefnda um bætur vegna rofa á vinnusamningi þar sem honum hafi staið starf til boða á sambærilegum kjörum.

Með hliðsjón af framgreindu ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Niðurstaða

Af hálfu stefnda er á því byggt að stefnandi hafi brotið trúnaðarskyldu með því að ráða sig til starfa hjá samkeppnisaðila stefnda.

Ekki liggur fyrir að gerður hafi verið sérstakur samningur milli málsaðila þar sem kveðið er á um trúnaðrskyldu eða bann við að stefnandi hæfi störf hjá sambærilegu fyritæki ef hann léti af störfum hjá stefnda.  Þá liggur ekki fyrir að samkomulag hafi verið milli aðila um að stefnandi viki úr starfi í lok apríl 2000.

Fram hefur komið að stefndi og fyrirtækið Takk hreinlæti ehf. áttu í samstarfi þar sem fyrirtækin keyptu vörur hvort af öðru og endurseldu.  Upp úr þessu samstarfi slitnaði á árinu 1999.  Fyrir liggur að ekki er um að ræða samkeppni milli þessara fyrirtækja í framleiðslu þar sem Takk hreinlæti ehf. framleiðir enga hreinlætisvöru, sbr. framburð Sigrúnar Hauksdóttur skrifstofumanns hjá Takk hreinlæti ehf., hér fyrir dómi.  Hins vegar selja bæði fyrirtækin hreinlætisvörur þar á meðal, efni til þvotta og áhöld til þrifa.

Lúther Guðmundsson, framkvæmdastjóri stefnda, bar fyrir dómi að í árslok 1999 hafi verið oriðið ljóst að framlegð í stoðvöru var ábótavant, en hjá stefnda eru ýmsar fylgivörur og áhöld til þrifa nefnd stoðvörur.  Hafi því orðið að grípa skjótt inn í þennan þátt því þetta hafi orsakað tap hjá fyrirtækinu.  Hafi verið stefnt að því að byggja upp stoðvörudeildina og hafi stefnanda verið gerð grein fyrir því.  Á þessum tíma hafi stoðvörusalan verið um það bil 25% af veltu fyrirtækisins en á ári seinna 80%.

Eftir að samstarfi milli stefnda og Takk hreinlætis ehf. lauk er ljóst að stoðvörursala stefnda jókst til muna.  Verður ekki séð að samkeppni þessara fyrirtækja felist í öðru en því að bæði fyrirtækin selja svipaða vöru.  Hefur stefndi ekki með neinum hætti getað sýnt fram á að stefnandi hafi brotið trúnaðarskyldu gagnvart stenda eða bakað honum tjón með því að segja upp störfum með umsömdum uppsagnarfresti og hefja störf hjá öðru fyritæki sem starfar á sambærilegum vettvangi.

Þá er því haldið fram af hálfu stefnda að stefnandi hafi eytt tölvugögnum úr tölvu veksmiðjustjóra með þeim afleiðingum að ýmis samskiptagögn hafi eyðilagst og tjón hlotist af.

Stefnandi bar fyrir dómi að áður en hann hætti hafi hann eytt úr tölvu þeirri er hann hafði til umráða persónulegum gögnum en kannaðist ekki við að hafa eytt gögnum er tilheyrðu stefnda.  Kvaðst hann hafa notað tölvupóst mjög lítið og alltaf notað fax til að hafa samband við sína birgja.  Þá hafi hann byggt á þeim gögnum er fyrir voru og forveri hans hafi stofnað á sínum tíma því þetta hafi alltaf verið sömu birgjarnir.

Pétur Pétursson, fyrrverandi sölumaður hjá stefnda, bar fyrir dómi að ekki hefðu komið upp nein vandamál varðandi sölu eftir að stefnandi hætti.

Þá bar Indriði Björnsson, fyrrverandi starfsmaður stefnda, að hann hefði aldrei heyrt minnst á að tölvugögnum hafi verið eytt.

Fyrir liggur að stefndi lagði aldrei fram kæru til lögreglu vegna meintra brota stefnanda við að eyða tölvugögnum.  Þá hefur stefndi ekki getað bent á nein þau gögn sem hann telur að eytt hafi verið.  Verður að telja fyllyrðingar hans að þessu leyti órökstuddar og er með öllu ósannað að stefnandi hafi eytt öðrum gögnum úr tölvu þeirrri er hann hafði til afnota en persónulegum gögnum sínum.

Samkvæmt framansögðu hefur stefndi ekki getað sýnt fram á að fyrir hafi legið ástæður er réttlættu fyrirvaralausa riftun hans á vinnusamningi aðila.  Samkvæmt samningi bar stefnanda að fá laun í þriggja mánaða uppsagnarfresti.  Ber því að taka kröfur stefnanda til greina en tölulegur ágreiningur er ekki í málinu.

Eftir þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst

250.000 krónur.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Sápugerðin Frigg ehf., greiði stefnanda, Axel Gíslasyni, 997.047 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. júní 2000 til greiðsludags og 250.000 krónur í málskostnað.