Hæstiréttur íslands

Mál nr. 728/2016

Ákæruvaldið (Elimar Hauksson fulltrúi)
gegn
X (Þorsteinn Einarsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður staðfestur

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem máli ákæruvaldsins á hendur X var vísað frá dómi sökum þess að ákæra uppfyllti ekki áskilnað c. liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.  

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. október 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 20. október 2016, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í t. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Það varðar ekki frávísun máls þessa frá héraðsdómi að hvorki komi fram í ákæru „hve stór hluti hafi farið til ákærða og hve stór hluti til einkahlutafélagsins, ...“ né að ósamræmi sé á milli þeirrar fjárhæðar sem ákærða er gefið að sök að hafa dregið sér og samtölu einkaréttarkrafna. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann veg sem í dómsorði greinir.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um sakarkostnað verða staðfest.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Þorsteins Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 248.000 krónur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 20. október 2016.

            Lögreglustjórinn á Suðurlandi höfðaði mál þetta með ákæru útgefinni 27. apríl 2016, á hendur ákærða X, kt. [...], til heimilis að [...], [...],

„fyrir fjárdrátt

með því að hafa á tímabilinu frá 14. apríl 2011 fram til 2. janúar 2012, í starfi sínu sem framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi einkahlutafélagsins [...] ehf. kt. [...], dregið sjálfum sér eða einkahlutafélaginu fjármuni með úttektum og millifærslum af framangreindum bankareikningi samtals að fjárhæð kr. 1.408.206,- en umræddir fjármunir voru tryggingargreiðslur sem sjö einstaklingar höfðu lagt inn á umræddan bankareikning til tryggingar á leigugreiðslum vegna leigu þeirra á íbúðum við [...] og [...], svo sem hér að neðan greinir; í samræmi við efni húsaleigusamninga um íbúðirnar sem voru í eigu framangreinds félags sem ákærði var í forsvari fyrir og annaðist því vörslur fjárins á framangreindu tímabili, en ráðstöfun tryggingarfjárins var ákærða með öllu óheimil samkvæmt 4. tl. 1. mgr. 40. gr. húsaleigulaga nr. 36, 1994 og varð þess valdandi að umrætt tryggingarfé auk lögbundinna vaxta stóð eigendum þess ekki til reiðu þegar eftir því var leitað af þeirra hálfu. Um er að ræða tryggingagreiðslur neðangreindra sjö einstaklinga samtals að þeirri heildarfjárhæð sem að ofan greinir, en stefna var árituð þann [...]. desember 2011 í Héraðsdómi Norðurlands Eystra í máli nr. E-[...] varðandi greiðsluskyldu félagsins gagnvart aðilunum að nefndri fjárhæð, auk verðbóta.

A             ([...])                                                                                                                     kr. 110.000

B             ([...])                                                                                                                     kr. 110.000

C             ([...])                                                                                                                     kr. 110.000

D             ([...])                                                                                                                     kr. 187.500

E             ([...])                                                                                                                     kr. 381.000

F             ([...])                                                                                                                     kr. 164.706

G             ([...])                                                                                                                     kr. 345.000

                                                                                                                                             _______________

samtals:                                                                                                                              1.408.206,-

            Telst brot ákærða varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

            Einkaréttarkröfur:

            Í málinu gerir Jón Stefán Hjaltalín hdl. kröfu f.h. F, kt. [...], um að ákærði verði dæmdur til að greiða henni bætur að fjárhæð kr. 217.151,- auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001, frá 1. ágúst 2011 til greiðsludags.

            Í málinu gerir Jón Stefán Hjaltalín hdl. kröfu f.h. G, kt. [...], um að ákærði verði dæmdur til að greiða henni bætur að fjárhæð kr. 383.292,- auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001, frá 1. ágúst 2011 til greiðsludags.

            Í málinu gerir Jón Stefán Hjaltalín hdl. kröfu f.h. C, kt. [...], um að ákærði verði dæmdur til að greiða honum bætur að fjárhæð kr. 135.617,- auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001, frá 1. ágúst 2011 til greiðsludags.

            Í málinu gerir Jón Stefán Hjaltalín hdl. kröfu f.h. D, kt. [...], um að ákærði verði dæmdur til að greiða honum bætur að fjárhæð kr. 230.133,- auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001, frá 1. ágúst 2011 til greiðsludags.

            Í málinu gerir Jón Stefán Hjaltalín hdl. kröfu f.h. B, kt. [...], um að ákærði verði dæmdur til að greiða honum bætur að fjárhæð kr. 135.617,- auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001, frá 1. ágúst 2011 til greiðsludags.

            Í málinu gerir Jón Stefán Hjaltalín hdl. kröfu f.h. E, kt. [...], um að ákærði verði dæmdur til að greiða henni bætur að fjárhæð kr. 428.482,- auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001, frá 1. ágúst 2011 til greiðsludags.

            Í málinu gerir Jón Stefán Hjaltalín hdl. kröfu f.h. A, kt. [...], um að ákærði verði dæmdur til að greiða honum bætur að fjárhæð kr. 124.115,- auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001, frá 1. ágúst 2011 til greiðsludags.“

                Mál þetta var þingfest þann 12. maí 2016. Mætti ákærði þar sjálfur ásamt Þorsteini Einarssyni hrl., sem var skipaður verjandi ákærða að hans ósk. Neitaði ákærði sök og hafnaði bótakröfum. Greinargerð ákærða var lögð fram í þinghaldi 25. maí 2016 og fór fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu ákærða þann 27. september 2016 og var hún tekin til úrskurðar að honum loknum.

                Krafa ákærða um frávísun

                Kröfu sinni til stuðnings vísar ákærði til þess að fjárdráttur sé skilgreindur sem einhliða og ólögmæt tileinkun sérgreindra fjárverðmæta og peninga sem eru að nokkru leyti eða öllu eign annars manns en er í vörslu hins brotlega að einhverju leyti. Í þessu felist því tileinkun á fjárverðmætum annarra sem hinn brotlegi hefur í vörslum sínum.

                Við málshöfðun vegna fjárdráttar þurfi að lýsa því í ákæru í hverju hann felst, þ.e. hver eru nákvæmlega þau fjárverðmæti sem um ræðir, hvenær nákvæmlega hin ætlaða tileinkun fjármunanna á að hafa átt sér stað, hvernig nákvæmlega ætlaður fjárdráttur fór fram og hver er hinn réttmæti eigandi fjármunanna. Að mati ákærða skortir á að framangreind skilyrði séu uppfyllt í ákæru og sé því framsetning ákæru ótæk og ekki í samræmi við 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Til stuðnings frávísunarkröfu vísar ákærði m.a. til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 155/2016 er varðar sama ákæruefni og leggur ákærði áherslu á að ákæra lögreglustjóra sé haldin sömu annmörkum og áður.

                Þá leggur ákærði áherslu á að í ákæru sé þess ekki getið hvernig fjárhæð hins ætlaða fjárdráttar er fengin. Aðeins sé fullyrt að ákærði hafi dregið sér tilgreinda fjármuni tilgreindra einstaklinga en hvergi sé á það minnst hvenær og hvernig þeir fjármunir hafi verið færðir með ólögmætum hætti til ákærða. Af ákæru verði ekki ráðið hvort ákært sé fyrir einhverjar einstakar færslur af bankareikningi eða fyrir einhverja samtölu fjárhæða sem nemi greiðslu leigutaka á ætluðu tryggingafé inn á bankareikning. Ákæra sé vanreifuð hvað þetta varðar og beri þegar af þeirri ástæðu að vísa málinu frá dómi.

                Þá bendir ákærði á að í ákæru segi að ákærði hafi dregið sjálfum sér eða einkahlutafélaginu fjármuni en ekkert komi fram í ákæru um það hver stór hluti hafi farið til ákærða og hve stór hluti hafi runnið til félagsins, eða jafnvel hvort allt féð hafi runnið til annars hvors.

                Kveður ákærði að framsetning í ákæru fullnægi með engu móti c og d-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 enda verði ákærði með lestri ákæru að geta áttað sig á hvað ákært er fyrir. Ákærða sé ómögulegt að átta sig á hvenær hann eigi að hafa dregið sér fjármuni sem tilgreindir séu í ákæru og hvert ætlað umfang fjárdráttar hafi verið í hvert sinn. Í ákæru sé einungis tilgreint að hið ætlaða brot eigi að hafa átt sér stað á tæplega átta mánaða tímabil, þ.e. 14. apríl 2011 til 2. janúar 2012, án þess að það sé útskýrt frekar. Tileinkun fjármuna sé eitt grundvallaratriðið í skilgreiningu fjárdráttar og af þeim sökum sé augljóst að í ákæru þurfi að tilgreina nákvæmlega hvenær tileinkunin eigi að hafa átt sér stað og nákvæmlega með hvaða hætti. Ekki sé nægilegt að tilgreina tiltekið tímabil án þess að greina í ákæru hvenær og hve mikið ákærði sé sagður hafa dregið sér fjármuni. Sé því hvort tveggja andlag, sem og tímasetning hins ætlaða brots, á reiki í ákæru. 

                Þá bendir ákærði á að einkaréttarkröfur ætlaðra brotaþola í ákæru nemi mun hærri fjárhæð en fjárhæð ætlaðs fjárdráttar samkvæmt ákæru. Einkaréttarkröfur nemi alls kr. 1.654.407.- en tryggingarfjárhæðir skv. ákæru kr. 1.435.000.- Þá stemmi ekki framlögð gögn og styðji ekki fjárhæð ætlaðs fjárdráttar.

                Þá telur ákærði hvað sem öðru líður að ætluð háttsemi varði ekki við 247. gr. laga nr. 19/1940, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 22/1999, og því beri m.a. að vísa málinu frá dómi.

Forsendur og niðurstaða

Í c lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 segir að í ákæru skuli greina hver sú  háttsemi er sem ákært er út af, hvar og hvenær brotið er talið framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu og loks heimfærslu þess til laga og stjórnvaldsfyrirmæla, ef því er að skipta. Þá segir í d lið ákvæðisins að í ákæru skuli jafnframt, ef þörf krefur, greina röksemdir sem málsóknin er byggð á, svo sem ef mál er flókið eða umfangsmikið, en röksemdafærslan skuli þá vera gagnorð og svo skýr að ekki fari á milli mála hverjar sakargiftir eru.

Í ákæru í máli þessu er því ekki lýst hvernig ákærði á að hafa dregið sér umrætt fé, að öðru leyti en því að fram kemur að þetta hafi verið gert „með úttektum og millifærslum af framangreindum bankareikningi“. Engum úttektum eða millifærslum er þó lýst og kemur ekkert fram um þær frekar. Þá er ekki getið um neinn bankareikning í ákærunni, sem þó er vísað til í meginmáli ákærunnar. Þá kemur ekkert fram um það hvort um sé að ræða fá eða mörg tilfelli og þá hversu mörg. Mismunandi tilvikum er ekkert lýst í ákæru og engin nánari grein gerð fyrir þeim. Þá kemur ekkert fram um það hve stór hluti hafi farið til ákærða og hve stór hluti til einkahlutafélagsins, eða jafnvel hvort allt féð hafi farið til annars hvors. Þá er tímasetning ætlaðs brots ákærða ekki tiltekin öðruvísi en með því að vísa til tímabilsins frá 14. apríl 2011  til 2. janúar 2012. Þá er örðugt er að glöggva sig á því hvernig fjárhæð hins ætlaða fjárdráttar er fengin, en ósamræmi er milli þeirrar fjárhæðar sem ákærða er gefið að sök að hafa dregið sér og samtölu einkaréttarkrafnanna.

Er allt framangreint til þess fallið að gera ákærða örðugt um varnir og dómara að glöggva sig á sakargiftum.

Það er þess vegna álit dómsins að ákæran standist ekki þær kröfur sem gera verður til hennar skv. c lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 og verður ekki bætt úr þessu undir rekstri málsins, en ákærði verður ekki dæmdur fyrir aðra háttsemi en þá sem greinir í ákæruskjalinu sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 og dóm Hæstaréttar í málinu nr. 420/2005, en jafnframt má vísa til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 155/2016. 

Verður ákæru í máli þessu því vísað frá dómi. Ber þá jafnframt að vísa frá dómi öllum einkaréttarkröfum sbr. 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008.

Samkvæmt þessum úrslitum verður ákærða ekki gert að greiða sakarkostnað málsins og greiðist hann því úr ríkissjóði sbr. 217. og 218. gr. laga nr. 88/2008, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda ákærða, Þorsteins Einarssonar hrl., kr. 521.730 að meðtöldum virðisaukaskatti, auk aksturskostnaðar verjandans kr. 26.400.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

                Ákæru í máli þessu er vísað frá dómi.

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda ákærða, Þorsteins Einarssonar hrl., kr. 521.730 auk aksturskostnaðar verjandans kr. 26.400.