Hæstiréttur íslands
Mál nr. 2/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Börn
- Bráðabirgðaforsjá
|
|
Þriðjudaginn 21. janúar 2014. |
|
Nr. 2/2014. |
K (Þuríður Halldórsdóttir hdl.) gegn M (Sveinn Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Börn. Bráðabirgðaforsjá.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu M um að fella niður sameiginlega forsjá hans og K með þremur börnum þeirra. Fallist var á kröfu M um að lögheimili barnanna yrði hjá honum og K gert að greiða meðlag með hverju barni fyrir sig auk þess sem kveðið var á um umgengni með börnunum þar til endanlegur dómur gengi í málinu.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. desember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. janúar 2014. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2013 þar sem meðal annars var leyst var úr ágreiningi um forsjá þriggja barna málsaðila til bráðabirgða. Kæruheimild er í 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og hafnað kröfu varnaraðila um „að ákveðið verði með úrskurði að lögheimili dætra aðila verði hjá [varnaraðila] til bráðabirgða eða þar til endanlegur dómur liggur fyrir í forsjármáli aðila“ og kröfu hans um „greiðslu meðlags með börnunum úr hendi [sóknaraðila] til bráðabirgða frá 1. ágúst 2013 þar til endanlegur dómur liggur fyrir í forsjármáli aðila.“ Einnig krefst sóknaraðili þess að fallist verði á að börnin skuli áfram eiga lögheimili hjá henni og að varnaraðili „greiði lágmarksmeðlag með hverju barni til 18 aldurs til [sóknaraðila] þar til endanlegur dómur gengur í forsjármáli aðila.“ Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurður verður hann staðfestur.
Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af kærumáli þessu.
Sóknaraðili hefur ekki fengið gjafsókn vegna reksturs málsins fyrir Hæstarétti og verður henni því ekki dæmdur gjafsóknarkostnaður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2013.
Mál þetta, sem var höfðað 24. september sl., var tekið til úrskurðar 26. nóvember sl. Sóknaraðili er M, [...], [...], og höfðaði hann forsjármál á hendur varnaraðila sem var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 3. október 2013. Áður hafði verið leitað sátta með aðilum hjá sýslumanni samkvæmt 33. gr. a. barnalaga nr. 76/2003 en án árangurs.
Varnaraðili er K, [...], [...].
Sóknaraðili krefst úrskurðar um að honum verði til bráðabirgða falin forsjá dætra aðila, A fæddri 2009, B 2010 og C 2012, þar til endanlegur dómur verður kveðinn upp í forsjármálinu. Til vara krefst hann þess að sameiginleg forsjá aðilanna standi áfram en lögheimili telpnanna verði hjá honum þar til dómur gengur í forsjármálinu. Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að greiða einfalt meðlag frá 1. ágúst 2013 til 1. október 2013 og frá uppkvaðningu úrskurðar þar til endanlegur dómur fellur. Enn fremur krefst sóknaraðili þess að reglulegri umgengni telpnanna við varnaraðila verði þannig háttað í báðum tilvikum: Telpurnar dvelji hjá varnaraðila aðra hverja helgi frá föstudegi til mánudags. Um jól og áramót dvelji þær hjá sóknaraðila á aðfangadegi jóla og jóladag en hjá varnaraðila á annan í jólum. Um páskana 2014 dvelji þær hjá varnaraðila um bænadagana frá föstudeginum langa til annars í páskum. Að öðru leyti haldist helgarumgengni þar til endanlegur dómur gangi í málinu. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að sameiginleg forsjá málsaðila með dætrum þeirra standi áfram á meðan forsjármálið sé óútkljáð og að lögheimili þeirra verði áfram hjá varnaraðila. Telji dómari þörf á að fella niður til bráðabirgða sameiginlega forsjá aðila yfir þeim krefst varnaraðili þess að henni verði með úrskurði einni falin forsjá telpnanna til bráðabirgða. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar og að þessi þáttur málsins verði sameinaður forsjármálinu og málskostnaður vegna þessa máls verði ákvarðaður við lok þess máls og þá eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
I.
Aðilar máls þessa gengu í hjónaband í [...] [...]. Þau eignuðust dætur sínar, A árið 2009, B árið 2010 og C árið 2012. Þann [...]. [...] 2012 var sambúð aðila endanlega lokið en fram að því höfðu þau nokkrum sinnum slitið samvistum. Þann [...].[...] 2012 gaf sýslumaðurinn í Reykjavík út leyfi til skilnaðar að borði og sæng. Urðu þau ásátt um að fara áfram sameiginlega með forsjá dætra sinna sem eiga skyldu lögheimili hjá varnaraðila, sem þá var að [...] í [...]. Sóknaraðila var gert að greiða með þeim einfalt meðlag frá 1. ágúst 2012 til 18 ára aldurs.
Fram kemur í gögnum málsins að barnaverndarnefnd D hafi haft afskipti af málefnum fjölskyldunnar frá því í ágúst 2012 en þá hafi aðilar verið að skilja og hafi það reynst varnaraðila sérlega þungbært. Á tímabilinu október 2012 til apríl 2013 bárust lögreglu tilkynningar vegna harðvítugra deilna aðila, m.a. þegar dætur þeirra voru nærstaddar. Þá tilkynntu ýmsir aðilar, sem sumir vildu ekki láta nafns síns getið, að þeir hefðu áhyggjur af velferð telpnanna. Barnaverndarnefnd ráðgerði í apríl 2012 að vista þær utan heimilis hjá stuðningsfjölskyldu með umgengni þeirra við aðila til skiptis. Tillögur þess efnis voru fyrst og fremst byggðar á því að nauðsyn krefði að aðilar næðu tökum á sjálfum sér og leystu úr ágreiningi og deilum sínum. Var efast um að þeir hefðu næga innsýn í þarfir telpnanna og væru ófær um að halda þeim utan við deilurnar. Var talið nauðsynlegt að forsjárhæfnismat færi fram. Horfið var frá þessum fyrirætlunum og var tekin sú ákvörðun að veita varnaraðila frekari stuðning með ýmsum hætti með velferð telpnanna í huga. Þá hafði barnaverndarnefndin frumkvæði að því að reyna að sætta aðila og veita þeim stuðning og leiðsögn með það í huga að þau gætu afhent telpurnar án þess að til átaka kæmi á milli þeirra. Mun það hafa borið lítinn árangur. Þá tókst ekki að ná sáttum hjá sýslumanni og ganga frá ítarlegum umgengnissamningi. Að beiðni barnaverndarnefndar gengust aðilar undir forsjárhæfnismat og samhliða var þeim veitt margháttuð aðstoð er laut að umönnun dætra þeirra auk þess sem reynt var að tryggja þeim umgengni við báða foreldra sína.
Þann 13. mars 2013 féllst lögreglan á [...] á beiðni sóknaraðila um að lagt yrði nálgunarbann á varnaraðila í sex mánuði en staðfestingu þeirrar ákvörðunar var hafnað með úrskurði Héraðsdóms [...] þann 20. mars 2013. Í úrskurðinum segir að ljóst sé að miklir samskiptaerfiðleikar séu á milli aðila sem eigi þrjú börn saman. Þyki brýnt að þau leiti sér aðstoðar við að bæta samskipti sín, en þau hljóti óhjákvæmilega að þurfa að eiga samskipti í framtíðinni vegna telpnanna. Að mati dómsins þóttu ekki skilyrði, eins og málið var vaxið, til að úrskurða varnaraðila til að sæta nálgunarbanni enda ljóst að gæta yrði varúðar þegar slíku íþyngjandi réttarúrræði yrði beitt.
Með úrskurði 22. júlí 2013 ákvað barnaverndarnefnd að vista telpurnar utan heimilis varnaraðila í tvo mánuði með vísan til b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og fela sóknaraðila umsjá þeirra um tíma, sbr. b-lið 67. gr. sömu laga. Mun sú ákvörðun hafa verið tekin þar sem úrræði fram að þessu voru ekki talin hafa skilað nægilegum árangri og þar sem uppeldisskilyrði telpnanna voru ekki talin viðhlítandi. Samhliða var tekin sú ákvörðun að veita aðilum báðum persónulegan stuðning, sálfræðiviðtöl og ráðgjöf, auk þess sem varnaraðili undirritaði tvo samninga, annars vegar um umgengni hennar við telpurnar, þ.e. aðra hverja helgi frá föstudegi og fram á mánudag og hins vegar um að láta af óæskilegri hegðun í garð sóknaraðila. Til grundvallar ákvörðun um vistun telpnanna hjá sóknaraðila lá m.a. ítarlegt forsjárhæfnismat á aðilum báðum en það annaðist E sálfræðingur. Vegna ungs aldurs telpnanna taldi sálfræðingurinn sig ekki hafa forsendur til að eiga viðtal við þær eða leggja fyrir þær tengslapróf eða aðra matslista. Hann reyndi hins vegar að skoða hegðun þeirra og samskipti í vitjunum á heimili aðila. Þá var rætt við starfsmenn leikskólans [...], þar sem eldri telpurnar voru vistaðar, auk þess sem matslistar voru fylltir út af leikskólastjóra.
Hvað varðar aðila málsins var niðurstaða sálfræðingsins sú að þeir væru báðir almennt hæfir til að sinna líkamlegum og daglegum grunnþörfum telpnanna. Hins vegar taldi hann hæfni varnaraðila ónóga um þær mundir sem matið var framkvæmt þegar horft væri til tilfinningalegra hagsmuna og velferðar telpnanna í ljósi markalausrar hegðunar hennar gagnvart sóknaraðila oft að þeim ásjáandi og meðvitandi um aðstæður og samskipti þeirra. Talsvert hafi vantað upp á svo unnt væri að kalla uppeldishætti varnaraðila eðlilega. Hún virtist afneita þeim áhrifum sem hegðun hennar hefði á telpurnar eða hafi ekki innsæi til að meta það. Margvísleg frávik eldri telpnanna í samskiptum og líðan beri þess glöggt vitni að þær hafi búið við tilfinningalegt óöryggi og vanlíðan og sé varnaraðili alls ekki góð fyrirmynd hvað þetta varði. Hún verði að teljast fyrst og fremst ábyrg fyrir að hafa skapað þessar aðstæður þeirra. Eftir því sem best verði séð hafi sóknaraðili nokkuð betra innsæi en móðirin á eigið tilfinningalíf og þarfir og hagsmuni telpnanna. Hann væri auk þess mun friðsamari en varnaraðili og virtist, að mati sálfræðingsins, geta haldið eðlilegum samskiptum í skorðum.
Báðir aðilar eiga að mati sálfræðingsins við sálrænan vanda að stríða, þó af ólíkum toga sé, en uppeldisár þeirra beggja voru erfið og sjálfsmynd þeirra brotin. Taldi hann ljóst að báðir aðilar þyrftu að vera í sálfræði-/geðmeðferð sem drægi úr persónulegum röskunum og efldi þá í foreldrahlutverkinu. Greind þeirra beggja mældist í meðallagi. Tvenns konar persónuleikapróf voru lögð fyrir aðila, MMPI-persónuleikaprófið og PAI- persónuleikaprófið sem sýndu ólíkar niðurstöður hvað varnaraðila varðar. Hið fyrra var mjög afgerandi hvað varðar neikvæð persónueinkenni varnaraðila og taldi sálfræðingur niðurstöðu samsvara að mörgu leyti einkennum sem eiga við „hambrigðapersónuleikaröskun“. Niðurstöður mats á foreldraálagi aðila var áþekkt og niðurstöður mats á tengslum við telpurnar voru jákvæð hjá þeim báðum.
Í ofangreindum úrskurði barnaverndarnefndar um tímabundna vistun telpnanna hjá sóknaraðila er jafnframt vísað til greinargerðar F sálfræðings en beiðni um sálfræðiaðstoð hennar við varnaraðila barst í gegnum [...] á [...]. Í greinargerðinni kom fram gagnrýni á mat E sálfræðings á persónuleikaröskun varnaraðila og færði hún rök fyrir því að ályktun hans um „hambrigðapersónuleikaröskun“ samkvæmt MMPI prófinu byggðist ekki á sterkum forsendum. Taldi hún varnaraðila hafa sýnt einlæga löngun til að hafa betri stjórn á líðan sinni og hafi hún greint fúslega frá því að hún hefði farið út yfir öll mörk í reiði, hvatvísi. Auk þess hafi hún verið í andlegu ójafnvægi sem því miður hafi bitnað á telpunum. Þá lýsti sálfræðingurinn þeim úrræðum sem varnaraðili hefði nýtt til þess að ná markmiðum sínum.
Í niðurstöðu úrskurðar barnaverndarnefndar er á því byggt að gögn málsins beri með sér að telpurnar búi við tilfinningalegt óöryggi og hlúa verði að tilfinningalífi þeirra. Mikilvægt sé að tryggja þeim öryggi og stöðugleika og foreldar nái að vinna úr tilfinningum sínum og vanlíðan. Nefndin telji að telpurnar búi ekki við vernd og umönnun í skilningi 1. mgr. barnaverndarlaga. Þá telji barnaverndarnefnd aðstæður hjá föður frekar geta mætt þessum þörfum telpnanna að svo stöddu að því gefnu að faðir og telpurnar fái frið fyrir áreiti varnaraðila.
Varnaraðili krafðist þess fyrir Héraðsdómi [...] að ofangreindur úrskurður barnaverndarnefndar yrði felldur úr gildi en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði dómsins 13. september 2013 og fallist á að telpurnar yrðu vistaðar utan heimilis til 22. september 2013. Í úrskurðinum segir svo að varnaraðili hafi ekki náð að hemja tilfinningar sínar og á meðan svo væri muni telpurnar búa við skapsveiflur hennar og ofsaköst sem skapi óstöðugleika í umhverfi þeirra og valdi þeim vanlíðan.
Þann 16. september 2013 kvað Barnavernd D upp úrskurð að nýju um að telpurnar yrðu vistaðar áfram utan heimilis, í allt að tvo mánuði, og að föður yrði falin umsjá þeirra en í framhaldi þeirrar ráðstöfunar fari nefndin fram á það fyrir Héraðsdómi [...] að telpurnar verði vistaðar áfram utan heimilis samkvæmt 28. gr. laga nr. 80/2002 í tólf mánuði. Í úrskurðinum segir m.a. að varnaraðili hafi ekki virt þá samninga sem gerðir hafi verið við hana í tengslum við úrskurð nefndarinnar frá 22. júlí 2013. Skortur hafi verið á samstarfsvilja hennar, m.a. þegar afhenda átti telpurnar í umgengni og fylgja eftir því sem lögð hafi verið áhersla á í úrskurðinum. Þá hafi verið ráðgert að aðilar gengjust undir nýtt forsjárhæfnismat en það hafi varnaraðili ekki samþykkt. Þá segir í niðurstöðu nefndarinnar að gögn málsins beri með sér að telpurnar búi við mun meira tilfinningalegt öryggi og stöðugleika hjá sóknaraðila og hafi honum tekist að hlúa að tilfinningalífi þeirra og veita þeim vernd og umönnun. Telji nefndin hagsmunum telpnanna best borgið í umsjá hans.
Ofangreindum úrskurði var framfylgt með aðstoð lögreglu þann 14. október 2013 en þá voru telpurnar sóttar á leikskólann [...] í [...] og færðar sóknaraðila.
Þann 23. október 2013 var tekin til úrskurðar krafa varnaraðila um að ofangreindur úrskurður yrði felldur úr gildi en barnaverndarnefnd D krafðist staðfestingar úrskurðarins og að dómurinn úrskurðaði um áframhaldandi vistun telpnanna hjá sóknaraðila í allt að 12 mánuði, sbr. 28. gr. og b-lið 67. gr. barnaverndarlaga. Með úrskurði þann 30. október 2013 var felldur úr gildi úrskurður barnaverndarnefndar D auk þess sem hafnað var kröfu um vistun telpnanna utan heimilis. Röksemdir dómsins voru þær að varnaraðili hefði flutt heimili sitt til Reykjavíkur þann 31. ágúst 2013 en gögn í málinu sýndu að barnaverndarnefnd D hefði verið upplýst um það. Taldi dómurinn að úrskurð barnaverndarnefndar hefði skort lagastoð þar sem nefndinni bar að gera sjálfstæða kröfu um úrskurð héraðsdóms um vistun stúlknanna með vísan til 28. gr. laga nr. 80/2002. Auk þess hefði barnaverndarnefndin ekki haft vald til að úrskurða í málinu eftir að varnaraðili flutti með dætur aðila í annað umdæmi. Þar sem forsjármál væri rekið á milli aðila fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur væri ekki lengur á valdsviði Barnaverndar D að úrskurða í málinu nema því aðeins að samið hefði verið sérstaklega um það við Barnavernd Reykjavíkur.
Eins og áður segir höfðaði sóknaraðili mál á hendur varnaraðila, sem þingfest var fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 3. október sl. Í stefnu gerir hann aðallega þær kröfur á hendur stefndu, varnaraðila í þessum þætti málsins, að honum verði einum með dómi falin forsjá dætra aðila. Til vara er þess krafist að ákveðið verði með dómi að aðilar fari áfram sameiginlega með forsjá dætra sinna og að lögheimili þeirra verði hjá stefnanda, sóknaraðila í þessum þætti málsins, og að kveðið verði á um umgengni barnanna við stefndu. Í báðum tilvikum er þess krafist að áfrýjun fresti ekki réttaráhrifum dóms verði krafa stefnanda tekin til greina. Þá er þess krafist að stefndu verði gert að greiða kostnað við umgengnina og jafnframt að henni verði gert að greiða stefnanda meðlag til framfærslu dætra aðila eins og barnalífeyrir er ákveðinn hverju sinni til 18 ára aldurs þeirra frá 1. ágúst að telja. Þá er krafist málskostnaðar.
II.
Sóknaraðili byggir kröfu sína um bráðabirgðaforsjá í fyrsta lagi á því að varnaraðili teljist ekki vera hæf til að gæta hagsmuna telpnanna um þessar mundir, hugsanlega vegna ójafnvægis eða alvarlegri heilsubrests. Í þessu sambandi sé vísað til álitsgerðar um hæfi foreldra sem gerð hafi verið af E. Í öðru lagi til að tryggja stöðugleika telpnanna á meðan á rekstri forsjármáls standi. Varnaraðili hafi ekki virt ákvarðanir D og hafi tilkynnt starfsmanni nefndarinnar að hún hygðist ekki skila telpunum. Þess í stað hafi hún flutt búferlum úr [...] og látið innrita þær í nýjan leikskóla og hafið aðlögun þeirra þar. Á þessu sjáist að varnaraðili geri sér enga grein fyrir líðan og tilfinningum telpnanna sem hafi áður þurft að ganga í gengum öldurót með varnaraðila, en það hafi m.a. verið ástæða vistunar þeirra utan heimilis hennar. Í þriðja lagi byggi sóknaraðili á því að varnaraðili virðist vera í slíku sálrænu ástandi að hún taki hvorki ábendingum, stuðningi né fyrirmælum. Með því séu litlar sem engar líkur til þess að unnt verði að draga úr vanlíðan og óöryggi barnanna á heimili varnaraðili meðan forsjármálið sé til meðferðar hjá héraðsdómi.
Krafa sóknaraðila styðjist við 2. mgr. 35. gr. barnaverndarlaga en þar sé kveðið á um heimild til handa dómara að ákvarða lögheimili barna í þeim tilvikum sem kröfu um forsjá sé hafnað. Eins og þegar hafi komið fram séu líkur til þess að sameiginleg forsjá miði ekki að því að vernda hagsmuni telpnanna meðan forsjármálið sé fyrir dómstólum en það sé með réttu tilgangur ákvæðisins. Hafni dómari því þrátt fyrir það að fella niður sameiginlega forsjá aðila sé þess krafist að dómari ákveði með úrskurði sínum að lögheimili telpnanna skuli vera hjá sóknaraðila.
Krafa um að dómari ákvarði um umgengni telpnanna við varnaraðila sé reist á 1. og 2. mgr. 35. gr. barnaverndarlaga. Í athugasemdum við greinina komi fram að tilgangur með heimild dómara til að ákvarða umgengni sé einkum sá að tryggja tengsl milli barns og þess foreldris sem barnið búi ekki hjá þann tíma sem forsjármálið sé rekið. Jafnframt sé tekið fram að tengslin séu mikilvægur þáttur þegar komi að ákvörðun um forsjá. Sóknaraðili haldi því fram að ákvörðun um umgengni verði fyrst og fremst að miða við þarfir barnanna og verði hún að vera innan þeirra marka sem þau ráði við með tilliti til aldurs og þroska þeirra.
Umgengnissamningur sem starfsmenn barnaverndarnefndar D hafi gert við varnaraðila kvað á um helgarumgengni aðra hverja helgi frá föstudegi til mánudagsmorguns. Sóknaraðili leggi til að telpurnar verði hjá móður sinni aðra hverja helgi frá föstudegi til mánudagsmorguns. Um jól og áramót dvelji telpurnar hjá föður sínum á aðfangadegi jóla og jóladegi en hjá móður sinni á annan í jólum, um páskana 2014 dvelji telpurnar hjá móður sinni um bænadagana frá föstudeginum langa til annars í páskum. Að öðru leyti haldist helgarumgengni þar til endanlegur dómur gangi í málinu.
III.
Varnaraðili telji telpunum fyrir bestu að vera áfram hjá sér og mikilvægt sé að ekki verði raskað núverandi fyrirkomulagi meðan aðstæður aðila verði kannaðar nánar. Ekki geti talist að skilyrði ákvörðunar um bráðabirgðaforsjá séu fyrir hendi þar sem dómafordæmi sýna að slík ákvörðun eigi ekki við nema börnum teljist hætta búin. Varnaraðili telji mikilvægt að leyst verði úr forsjárdeilunni á grundvelli mats óvilhalls sérfróðs matsmanns.
Varnaraðili mótmæli því að litið verði til gagna frá barnavernd og barnaverndarnefnd D í máli þessu þar sem staðfest hafi verið af héraðsdómi að úrskurður barnaverndarnefndar D hafði ekki lagastoð, auk þess sem nefndin hafi farið út fyrir sitt valdsvið. Telji varnaraðili ljóst að ekki hafi verið gætt hlutleysis við vinnslu málsins af hálfu barnaverndar og barnaverndarnefndar D og vinnubrögðin hafi verið óvönduð.
Varnaraðili hafi kappkostað að koma dætrunum í rólegt umhverfi og forðast árekstra við sóknaraðila. Telpurnar hafa aðlagast vel á leikskólanum [...] þar sem þær séu nú og sé til staðfestingar á því vísað til gagna málsins. Jafnframt sé staðfest að stúlkurnar eru alltaf hreinar og vel til hafðar þegar þær koma í leikskólann og í töskum þeirra hafi verið allt sem þarf hverju sinn i. Einnig sé staðfest að varnaraðili sýni þeim natni. Það hefði tvímælalaust slæm áhrif á stúlkurnar ef þær yrðu teknar úr leikskólanum nú því þær hafi aðlagast vel og séu í góðu jafnvægi og finni til öryggis gagnvart starfsfólkinu og umhverfinu.
Varðandi áhrif brottnáms stúlknanna af leikskólanum 14. október af starfsmönnum Barnaverndar D sé talið að það hafi einkum haft alvarleg áhrif á elstu stúlkuna því hún leiti að systrum sínum og mömmu og sæki í að fara inn á deildir hjá systrum sínum til að vera nálægt þeim.
Þetta sé einnig staðfest af F sálfræðingi en hún hafi eftir frásögn varnaraðila í tölvubréfi dags. 20. nóvember sl. um að elsta stúlkan hafi ekki viljað sofa í sínu rúmi síðan hún var tekin af leikskólanum og vakni upp grátandi og öskri upp á nóttunni „ekki taka mig, ég vil ekki fara“ og hún geti ekki sofnað nema móðir hennar haldi í höndina á henni. Jafnframt staðfesti sálfræðingurinn að varnaraðili hafi komið í sálfræðiviðtöl til sín á tveggja vikna fresti undanfarið og að hún hafi ekki orðið vör við neitt í fari varnaraðila sem bendir til þess að dætrum hennar geti verið hætta búin hjá henni og ekkert bendi til annars en að hún sé vel fær um að hugsa um þær.
Í ljósi framangreinds verður að teljast upplýst og staðfest að hagsmunum stúlknanna sé best borgið hjá varnaraðila þar sem þær eru nú. Varhugavert sé að hrófla við núverandi fyrirkomulagi og taka verði tillit til alls þess róts sem orðið hafi á aðstæðum þeirra í kjölfar þess að faðir þeirra hafi gengið út af heimilinu í sjötta sinn og krafist skilnaðar. Ekki geti talist börnunum fyrir bestu að raska ró þeirra frekar. Aðilum máls beri frekar að sameinast um að skapa frið í kringum dætur sínar með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Varnaraðili hafi boðið sóknaraðila umgengni sem sé á sömu nótum og hann sjálfur bauð og hafi hann fallist á það fyrirkomulag. Varnaraðili hefur flutt í annað bæjarfélag til að forðast árekstra við sóknaraðila og gert allt sem hún hefur getað til að skapa ró og frið í kringum börnin.
Ljóst sé því að skilyrði úrskurðar um ákvörðun forsjár eða breytingu lögheimilis til bráðabirgða eru ekki fyrir hendi og því beri að hafna kröfum sóknaraðila.
Varnaraðili byggir kröfu sína um að kröfu sóknaraðila um bráðabirgðaforsjá og lögheimilisbreytingu verði hafnað á því að skilyrði 35. gr. laga nr. 76/2003 geti ekki talist vera fyrir hendi.
Málskostnaðarkrafan styðjist við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 130. gr. laganna. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum er gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni.
IV.
Niðurstaða
Í máli þessu gerir sóknaraðili þá kröfu að honum verði falin forsjá dætra aðila til bráðabirgða, þeirra A fæddri 2009, B fæddri 2010 og C fæddri 2012, þar til niðurstaða fæst í forsjármáli aðila sem var þingfest 3. október sl. Aðilar fara sameiginlega með forsjá telpnanna samkvæmt samkomulagi sem undirritað var hjá sýslumanninum í Reykjavík í tengslum við skilnað þeirra að borði og sæng.
Í þessum þætti málsins var ekki leitað eftir afstöðu telpnanna til kröfu sóknaraðila. Vegna ungs aldurs þeirra kann það þó einkum að hafa þýðingu hvað þá elstu varðar.
Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003 hefur dómari heimild til þess að úrskurða til bráðabirgða hvernig fara skuli um forsjá barns eða lögheimili eftir því sem er barni fyrir bestu. Í sama úrskurði getur dómari kveðið á um umgengni og meðlag til bráðabirgða. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins getur dómari, sem hafnar niðurfellingu sameiginlegrar forsjár meðan forsjármál er til meðferðar fyrir dómi, eigi að síður kveðið á um lögheimili barns, umgengni og meðlag til bráðabirgða.
Sóknaraðili byggir kröfu sína um bráðabirgðaforsjá á því að varnaraðili teljist ekki vera hæf til að gæta hagsmuna telpnanna um þessar mundir, hugsanlega vegna ójafnvægis eða alvarlegri heilsubrests. Í öðru lagi sé nauðsynlegt að tryggja stöðugleika telpnanna á meðan á rekstri forsjármáls standi. Í þriðja lagi byggir sóknaraðili á því að varnaraðili virðist vera í slíku sálrænu ástandi að hún taki hvorki ábendingum, stuðningi né fyrirmælum.
Varnaraðili byggir á því að hagsmunum telpnanna sé best borgið hjá varnaraðila þar sem þær séu nú. Varhugavert sé að hrófla við núverandi fyrirkomulagi og verði að taka tillit til alls þess róts sem orðið hafi á aðstæðum þeirra fram til þessa. Ekki geti talist börnunum fyrir bestu að raska ró þeirra á meðan aðstæður hafa ekki verið kannaðar frekar.
Eins og rakið hefur verið í málavaxtalýsingu höfðu barnaverndaryfirvöld í D afskipti af málefnum fjölskyldunnar og þá sér í lagi eftir að aðilar skildu á árinu 2012. Varnaraðili telur málsmeðferð barnaverndaryfirvalda á D hafa verið ábótavant og hlutleysis ekki gætt. Sé því ekki byggjandi á þeim gögnum sem frá þeim stafi.
Af gögnum málsins verður ekki annað séð en að barnaverndaryfirvöld hafi lagt sig fram við að aðstoða aðila báða eftir fremsta megni með hagsmuni telpnanna að leiðarljósi. Ágreiningur þeirra á milli átti sér langan aðdraganda og hafði ágerst í kjölfar skilnaðar. Var því knýjandi þörf á að styrkja báða aðila og efla forsjárhæfni þeirra, enda bitnuðu árekstrar þeirra á milli á telpunum og gerðu uppeldisskilyrði þeirra óviðunandi. Þá verður ráðið af gögnum málsins að varnaraðili hafi átt erfitt með að hemja tilfinningar sínar og því einkenndust athafnir hennar af hvatvísi og örvæntingu. Að mati dómsins eru engin haldbær rök fyrir því að dómurinn líti fram hjá gögnum barnaverndarnefndar enda lýsa þau vel aðdraganda þess máls sem nú er rekið á milli aðila og þeim erfiðleikum sem þeir og telpurnar hafa gengið í gegnum. Er eðlilegt og nauðsynlegt að dómari horfi til þessara gagna.
Þá er til þess að líta að til grundvallar niðurstöðu Héraðsdóms [...] frá 13. september 2013, þar sem fallist var á tímabundna vistun telpnanna hjá sóknaraðila, lágu þau gögn barnaverndarnefndar sem hér er vísað til en auk þess gaf F sálfræðingur skýrslu fyrir dóminum í tilefni gagnrýni sinnar á sálfræðimat E sálfræðings varðandi ætlaða persónuleikaröskun varnaraðila.
Af lögskýringagögnum með barnalögunum nr. 76/2003 og síðari breytingum má ráða, að bráðabirgðaákvörðunum dómara í tengslum við forsjármál, sem rekin eru fyrir dómi, skuli beita af varfærni. Grundvallarsjónarmið við slíka ákvörðun er ávallt hvað barni er fyrir bestu en í því felst nauðsyn þess að tryggja því þroskavænleg skilyrði. Slíkt mat er heildstætt og oftar en ekki er staðan sú á þessu stigi máls að ekkert mat hefur farið fram á þeim atriðum sem líta ber til, sbr. 34. gr. barnalaga. Því skiptir máli að raska högum barns sem allra minnst þar til endanleg niðurstaða er fengin án þess þó að það komi niður á öryggi þess og stöðugleika.
Í því tilviki sem hér um ræðir liggja fyrir gögn barnaverndarnefndar D, auk þess sem fram hefur farið forsjárhæfnismat aðila þar sem foreldrahæfni þeirra var m.a. metin. Dætur aðila eru ungar að árum en þær eldri eru taldar bera augljós merki vanlíðunar og öryggisleysis. Ástæðan var eins og áður segir vangeta varnaraðila til sjálfstjórnar og til að halda telpunum utan við deilur sínar við sóknaraðila með fyrrgreindum afleiðingum. Þá hafi varnaraðili verið treg til samstarfs og ekki virt með viðunandi hætti samninga sem hún gerði við barnaverndarnefnd.
Fyrir liggur að barnaverndarnefnd D var kunnugt um það er varnaraðili flutti lögheimili sitt til Reykjavíkur í lok ágúst sl. Eftir að úrskurður barnaverndarnefndar frá 22. júlí sl. um vistun telpnanna hjá sóknaraðila rann út þann 22. september sl. skilaði varnaraðili telpunum ekki úr umgengni. Þá var hins vegar í gildi úrskurður barnaverndarnefndar D frá 16. september sl. þar sem vistun telpnanna hjá sóknaraðila var framlengd og var þessi ákvörðun varnaraðila í trássi við hann. Telpurnar fengu vistunarpláss í leikskólanum [...] í Reykjavík 1. október sl. en þangað voru þær sóttar 14. október sl. er ofangreindum úrskurði barnaverndarnefndar var framfylgt. Telpurnar voru hjá sóknaraðila þar til Héraðsdómur [...] felldi úr gildi ofangreindan úrskurð af þeim ástæðum sem lýst er í málavaxtalýsingu. Telpurnar hafa síðan þá verið hjá varnaraðila en regluleg umgengni við sóknaraðila hófst samkvæmt tillögu lögmanns varnaraðila þann 8. nóvember sl. frá föstudegi eftir leikskóla til mánudagsmorguns en miðað er við að hann sæki og skili þeim á leikskólann.
Fram kemur í gögnum málsins að aðilar slitu samvistum fimm sinnum á árunum 2007-2012 en þá mun sóknaraðili hafa farið af heimilinu. Þau voru samvistum samfellt frá ágúst 2010 til júní 2012. Þau hafa flutt afar oft og búið í D, [...], Reykjavík og í [...] í tæpt ár en þaðan komu þau í janúar 2012. Elsta telpan A byrjaði á leikskólanum [...] í D vorið 2012, B í ágúst en sú yngsta var síðar hjá dagmömmu þar í bæ.
Þegar litið er til þess sem að ofan er rakið er ljóst að stöðugleiki telpnanna að þessu leyti hefur verið nánast enginn og eftir skilnaðinn voru þær ýmist hjá sóknaraðila eða varnaraðila. Lítið er vitað um hagi þeirra nú en engar upplýsingar liggja frammi í málinu frá barnaverndarnefnd Reykjavíkur. Sú áætlun sem var í vinnslu hjá Barnavernd D hefur sjálfkrafa fallið niður en varnaraðili óskaði eftir því að gögn yrðu send Barnavernd Reykjavíkur. Gögn frá leikskólanum [...] í Reykjavík bera ekki annað með sér en að þeim líði vel á leikskólanum og að vel sé um þær hugsað af varnaraðila. Lýst er neikvæðri upplifun þeirra af þeim degi er þær voru sóttar á leikskólann. Fram kom fyrir dóminum við flutning málsins að til einhvers konar uppnáms hafi komið en varnaraðili var á staðnum svo og lögmaður sóknaraðila. Þá liggja fyrir upplýsingar frá F sálfræðingi en varnaraðili mun enn sækja tíma hjá henni á tveggja vikna fresti og er að hennar mati á réttri leið. Mat hennar sé að börnunum stafi ekki hætta af varnaraðila. Það sé klínískt mat hennar að ekkert óeðlilegt sé á ferðinni í skapferli hennar eða hegðun sem ekki megi skýra í ljósi tímabundinna aðstæðna. Hafa verður í huga að sálfræðingurinn byggir mat sitt á viðtölum við varnaraðila eingöngu og ber því að skoða það í því ljósi.
Ljóst er af gögnum málsins að varnaraðili hefur sinnt telpunum vel og sýnt þeim væntumþykju. Hún er þannig hæf til að sinna grunnþörfum þeirra. Vanhæfni hennar hefur hins vegar, eins og fram hefur komið og hún hefur viðurkennt, endurspeglast í vangetu til að halda sig innan marka eðlilegra samskipta við sóknaraðila með hagsmuni telpnanna í huga. Hefur þetta reynst henni erfitt þrátt fyrir þann stuðning sem henni stóð til boða af hálfu barnaverndarnefndar. Þó er ljóst að varnaraðili hefur reynt að halda aftur af sér og hefur beinum átökum á milli aðila linnt en skýringin kann að vera sú að þau búa ekki lengur í sama sveitarfélagi. Til stóð að aðilar gengjust undir nýtt forsjárhæfnismat á vegum barnaverndarnefndar D í ljósi fram kominnar gagnrýni á fyrra mat en sóknaraðili reyndist ekki fús til samstarfs um það. Þykir sýnt að undir rekstri forsjármálsins verði aflað slíks mats. Það er því mat dómsins að óvarlegt sé að fella niður sameiginlega forsjá málsaðila nú. Því er aðalkröfu stefnanda hafnað.
Á hinn bóginn telur dómurinn nauðsynlegt að tryggja hagsmuni telpnanna sem best þar til forsjármálinu verður ráðið til lykta. Þrátt fyrir að telpurnar séu nú komnar til Reykjavíkur og hafi verið í leikskóla þar í liðlega mánuð er ekki unnt að líta fram hjá nýlegum gögnum frá barnaverndaryfirvöldum svo og úrskurði Héraðsdóms [...] frá 13. september sl. þar sem hagsmunum telpnanna var talið betur borgið hjá sóknaraðila. Með þeim gögnum sem varnaraðli hefur lagt fram er ekki sýnt fram á að það hafi breyst.
Fellst dómurinn því á kröfu sóknaraðila um að lögheimili telpnanna verði hjá sóknaraðila að [...], [...], sbr. 2. mgr. 35. gr. barnalaga á meðan forsjármál er til meðferðar hjá dómstólum. Til grundvallar þessari ákvörðun liggur hagsmunamat með það fyrir augum sem er telpunum fyrir bestu. Að mati dómsins hefur með vísan til alls þess sem rakið verið um lágmarksröskun á högum telpnanna að ræða en auk þess er litið til þess að þær flytja í umhverfi sem þær þekkja fyrir.
Dómurinn telur ekki forsendur til að úrskurða afturvirkt um meðlag með telpunum frá 1. ágúst 2013 til 1. október 2013 en þessi krafa er ekki rökstudd. Liggur m.a. ekkert fyrir um það hvort réttur til meðlagsgreiðslna hafi verið virkur á því tímabili sem um ræðir. Verður þessari kröfu því vísað frá dómi vegna vanreifunar. Varnaraðila verður hins vegar gert að greiða einfalt lágmarksmeðlag með telpunum hvorri fyrir sig, þar til endanlegur dómur gengur í forsjármáli milli aðila.
Fallist er á kröfu sóknaraðila um að telpurnar dvelji hjá varnaraðila aðra hverja helgi frá föstudegi til mánudags. Skilja ber kröfu sóknaraðila um umgengni um jól og áramót svo að á aðfangadegi jóla og jóladag dvelji þau hjá sóknaraðila en hjá varnaraðila annan í jólum. Um áramótin, þ.e. gamlársdag og nýársdag, dvelji þau hjá sóknaraðila. Um jól og áramótin komandi dvelji telpurnar hjá sóknaraðila á aðfangadegi jóla og jóladag en hjá varnaraðila á annan í jólum. Um páskana 2014 dvelji telpurnar hjá varnaraðila um bænadagana frá föstudeginum langa til annars í páskum. Að öðru leyti haldist helgarumgengni þar til endanlegur dómur gangi í málinu.
Við flutning fyrir dómi óskuðu lögmenn aðila þess að bókað yrði að þeir færu fram á að dómari úrskurðaði að kæra frestaði ekki réttaráhrifum úrskurðar. Í barnalögum stendur ekki heimild til þess. Í 5. mgr. 35. gr. er kveðið á um að heimilt sé að kæra úrskurð héraðsdómara skv. 1.-4. mgr. til Hæstaréttar eftir almennum reglum. Almennar reglur um kærur er að finna í XXIV. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Í 3. mgr. 144. gr. segir að kæra fresti frekari framkvæmdum á grundvelli úrskurðar þar til leyst er úr máli fyrir æðra dómi.
Rétt er að ákvörðun um málskostnað bíði dóms í forsjármáli því sem sóknaraðili hefur höfðað á hendur varnaraðila.
Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila um að fella niður sameiginlega forsjá málsaðila, meðan forsjármál aðila verður til lykta leitt.
Lögheimili barnanna skal vera hjá sóknaraðila á [...], [...] á meðan forsjármál er til meðferðar hjá dómstólum.
Kröfu sóknaraðila um greiðslu meðlags úr hendi varnaraðila frá 1. ágúst 2013 til 1. október 2013 er vísað frá dómi.
Varnaraðili greiði sóknaraðila einfalt lágmarksmeðlag með hverju barni fyrir sig, þar til endanlegur dómur gengur í forsjármáli milli aðila.
Umgengni barnanna við foreldra sína verði þannig að börnin skuli vera í umgengni hjá umgengnisforeldri aðra hverja helgi frá föstudegi til mánudags. Á aðfangadegi jóla og jóladag dvelji þau hjá sóknaraðila en hjá varnaraðila annan í jólum. Um áramótin, þ.e. gamlársdag og nýársdag, dvelji þau hjá sóknaraðila. Um páskana 2014 dvelji telpurnar hjá varnaraðila um bænadagana frá föstudeginum langa til annars í páskum. Að öðru leyti haldist helgarumgengni þar til endanlegur dómur gengur í málinu.