Hæstiréttur íslands
Mál nr. 200/2004
Lykilorð
- Verksamningur
- Kröfugerð
- Févíti
|
|
Fimmtudaginn 28. október 2004. |
|
Nr. 200/2004. |
Tækja-Tækni ehf. (Björgvin Þorsteinsson hrl.) gegn Keflavíkurverktökum hf. (Þórunn Guðmundsdóttir hrl.) |
Verksamningur. Kröfugerð. Févíti.
Verktakinn K hf. tók að sér með þremur verksamningum vinnu við raforkuvirki, vatnsúðalagnir og neyslu- og hitavatnslagnir í vörugeymslu T ehf. Ágreiningur var um uppgjör vegna verksins. Í stefnu krafðist K hf. í einu lagi mismunar á samanlagðri fjárhæð nánar tilgreindra reikninga annars vegar og innborgana T ehf. hins vegar að teknu tilliti til reiknaðra dráttarvaxta miðað við tiltekna gjalddaga reikninganna og innborgunardaga. Af þessari nettófjárhæð var síðan krafist dráttarvaxta frá 9. janúar 2003. T ehf. krafðist sýknu á þeim grundvelli að hann ætti gagnkröfu á hendur K hf. vegna tafa á verkinu. Talið var að þótt fallast yrði á það með T ehf. að K hf. hafi ekki á skiladegi að fullu verið búinn að ljúka þeim verkum sem hann tók að sér væru engin efni til að líta svo á að hlutfall óunninna verka á þessu tímamarki hafi verið slíkt að réttur til dagsekta, óháð öðrum skilyrðum sem hann væri bundinn, hafi stofnast. Þá var ekki talið unnt að slá því föstu að lagnakerfin sem um væri að ræða hefðu ekki komið T ehf. að tilætluðum notum frá og með umsömdum skiladegi. Var T ehf. gert að greiða K hf. samanlagða fjárhæð þeirra reikninga, sem taldir voru réttmætir og komast að í málinu, með dráttarvöxtum miðað við niðurstöðu um gjalddaga einstakra reikninga, en að frádregnum einstökum innborgunum. Talið var að þótt höfuðstóll tildæmdrar kröfu yrði þannig hærri en sú höfuðstólsfjárhæð, sem K hf. krafðist endanlega í héraði, þá væri hún í heild í þessari mynd lægri 9. janúar 2003, en stefnukrafan þegar tillit hefði verið tekið til áfallinna vaxta og innborgana. Samkvæmt því stæði 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 því ekki í vegi að dómur yrði lagður með þessum hætti á kröfu K hf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. mars 2004. Málið var fellt niður 21. apríl 2004 en áfrýjað á ný 18. maí 2004 með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994. Jafnframt var leitað endurskoðunar á úrskurði uppkveðnum 27. júní 2003 þar sem frávísunarkröfu áfrýjanda var hafnað. Áfrýjandi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hann verði sýknaður af kröfu stefnda. Að því frágengnu krefst áfrýjandi að hann verði sýknaður að svo stöddu en verði ekki á þá kröfu fallist að krafa stefnda verði lækkuð og dráttarvextir dæmdir frá uppsögu dóms Hæstaréttar. Í öllum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi styður frávísunarkröfu sína þeim rökum að kröfugerð stefnda sé afar ruglingsleg og sett fram í stefnu með þeim hætti að málið sé ekki dómtækt. Þá hafi stefndi undir rekstri málsins í héraði tvívegis breytt kröfugerð sinni, sem síst hafi orðið til að gera hana gleggri. Loks hafi héraðsdómur að eigin frumkvæði breytt framsetningu dómkrafna stefnda en slíkt sé ekki í verkahring héraðsdóms. Hafi héraðsdómur með þessu farið út fyrir kröfugerð stefnda.
Þótt nokkuð skorti á að nægilega skýr grein hafi verið gerð fyrir einstökum liðum kröfugerðar í stefnu verður að taka undir það með héraðsdómi að ekki verði séð að vandkvæðum hafi verið bundið fyrir áfrýjanda að taka með viðhlítandi hætti til varna. Þá sýnast kröfur stefnda hafa skýrst svo undir rekstri málsins að héraðsdómi hafi verið fært að leggja á þær efnisdóm.
Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi voru dómkröfur stefnda settar þannig fram í héraði að krafist var í einu lagi mismunar á samanlagðri fjárhæð nánar tilgreindra reikninga annar vegar og innborgana áfrýjanda hins vegar að teknu tilliti til reiknaðra dráttarvaxta miðað við tiltekna gjalddaga reikninganna og innborgunardaga. Af þessari nettótölu var síðan krafist dráttarvaxta frá 9. janúar 2003. Héraðsdómur lagði dóm á þessa kröfu með þeim hætti að hann dæmdi áfrýjanda til greiðslu samanlagðrar fjárhæðar þeirra reikninga, sem dómurinn taldi réttmæta og komast að í málinu, með dráttarvöxtum miðað við niðurstöðu dómsins um gjalddaga einstakra reikninga, en að frádregnum einstökum innborgunum. Þótt höfuðstóll tildæmdrar kröfu yrði þannig hærri en sú höfuðstólsfjárhæð, sem stefndi krafðist endanlega í héraði, taldi héraðsdómur sýnilegt að krafan í heild í þessari mynd væri lægri 9. janúar 2003, en stefnukrafan þegar tillit hefði verið tekið til áfallinna vaxta og innborgana. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti taldi lögmaður áfrýjanda sér ekki fært að draga þessa staðhæfingu í efa enda þótt hann tæki fram að hann hefði ekki staðreynt það með eigin útreikningum. Þar sem fallast verður á þá niðurstöðu héraðsdóms að krafa stefnda sé í heild lægri í þessari mynd verður ekki talið að 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 standi því í vegi að dómur verði lagður með þessum hætti á kröfu stefnda, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 19. september 2002 í máli nr. 20/2002.
Eins og rakið er í héraðsdómi gerðu aðilar með sér fjóra verksamninga um vörugeymslu áfrýjanda að Móhellu 1 Hafnarfirði. Fjallaði héraðsdómur efnislega um þrjá þeirra en taldi kröfu stefnda um greiðslu vegna hins fjórða ekki komast að í málinu, en með honum tók stefndi að sér byggingarstjórn við húsið. Er sá samningur ekki til efnislegrar umfjöllunar fyrir Hæstarétti enda hefur stefndi ekki áfrýjað héraðsdómi fyrir sitt leyti. Fyrir liggur að stefndi óskaði eftir því að nafngreindur maður yrði skráður byggingarstjóri hússins hjá byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar. Með bréfi 21. mars 2003 tilkynnti byggingarfulltrúi hins vegar að þar sem uppáskrift húsasmíðameistara hafi vantað, og úr því hafi ekki verið bætt þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar, hafi ekki verið unnt að verða við beiðninni. Þar sem ekki verður séð að þessi skortur á skráningu byggingarstjóra hafi haft áhrif á raunverulegan framgang verksins eða stöðu þess á umsömdum skiladegi hefur hann ekki þýðingu fyrir niðurstöðu þessa máls. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Tækja-Tækni ehf., greiði stefnda, Keflavíkurverktökum hf., 380.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 3. febrúar 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var 14. f.m., er höfðað 10. desember 2002.
Stefnandi er Keflavíkurverktakar hf. á Keflavíkurflugvelli.
Stefndi er Tækja-Tækni ehf., Smiðjuvegi 44D, Kópavogi.
Stefnandi gerir þá kröfu að stefnda verði gert að greiða stefnanda 9.920.313 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 39/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. janúar 2003 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi hefur aðallega krafist sýknu af kröfum stefnanda. Til vara krefst hann sýknu að svo stöddu. Í aðal- og varakröfu er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda. Að þessu frágengnu er þess krafist að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Stefndi krafðist þessi í greinargerð sinni að málinu yrði vísað frá dómi. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði 27. júní 2003.
I.
Málið á rætur sínar að rekja til fjögurra verksamninga sem aðilar þess gerðu sín á milli 4. febrúar 2002. Með þremur þeirra tók stefnandi að sér sem verktaki vinnu við raforkuvirki, vatnsúðalagnir og neyslu- og hitavatnslagnir í vörugeymslu stefnda að Móhellu 1 í Hafnarfirði. Samkvæmt fjórða samningnum tók stefnandi að sér að hafa með höndum byggingarstjórn á þeim verkþáttum sem samningar aðila um raforkuvirki og neyslu- og hitavatnslagnir tóku til. Heildargreiðsla til stefnanda samkvæmt þessum fjórum samningum skyldi nema 36.575.309 krónum. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að stefndi hafi ekki að fullu staðið skil á greiðslum til stefnanda fyrir samningsverk. Hefur stefnandi höfðað málið til heimtu á umræddum eftirstöðvum og greiðslu fyrir aukaverk sem hann telur sig eiga rétt til úr hendi stefnda. Loks tekur krafa stefnanda til inneignar vegna skila á vörum sem hann hafði keypt af stefnda og ekki hafi verið tekið tillit til í uppgjöri á milli þeirra.
Höfuðstóll stefnukröfu nam 19.287.962 krónum. Áður en málið var flutt um frávísunarkröfu stefnda lækkaði stefnandi dómkröfu sína í 10.911.419 krónur og í 9.920.313 krónur við upphaf aðalmeðferðar. Er nú við það miðað að hann hafi með réttu átt kröfu á hendur stefnda að fjárhæð 42.760.755 krónur fyrir samningsverk, aukaverk og vegna inneignar. Sundurliðast sú fjárhæð svo að 35.857.540 krónur eru vegna samningsverka, 5.964.033 krónur vegna aukaverka og 939.182 krónur vegna inneignar. Inn á kröfuna hafi stefndi greitt samtals 34.388.474 krónur á tímabilinu 31. maí 2002 til 9. janúar 2003. Að því gefnu að innborgunum hafi verið ráðstafað að fullu til lækkunar á höfuðstól kröfunnar standi þannig eftir 8.372.281 króna. Stefnandi hafi hins vegar ráðstafað 1.548.032 krónum til greiðslu á áföllnum dráttarvöxtum fram til 9. janúar 2003. Endanleg dómkrafa stefnanda nemi því samkvæmt þessu 9.920.313 krónum.
Aðalkrafa stefnda um sýknu er á því byggð að félagið eigi gagnkröfu til skuldajafnaðar á hendur stefnanda vegna áfallinna dagsekta á grundvelli samningsákvæða þar um. Sú krafa stefnda sé umtalsvert hærri en dómkrafa stefnanda í málinu.
II.
Í endanlegri kröfugerð stefnanda samkvæmt framansögðu eru innifaldar kröfur samkvæmt tveimur reikningum, samtals að fjárhæð 403.363 krónur, sem kröfugerð samkvæmt stefnu tók ekki til og ekki hefur verið framhaldsstefnt fyrir. Er þar annars vegar um að ræða framvindureikning útgefinn 16. desember 2002 að fjárhæð 303.363 krónur og reikning á grundvelli samnings um byggingarstjórn að fjárhæð 100.000 krónur. Af hálfu stefnda hefur því verið andmælt að krafa vegna þessara tveggja reikninga fái komist að í málinu. Að svo komnu brestur lagaskilyrði fyrir því að krafa stefnanda að þessu leyti sæti efnislegri úrlausn í þessu máli.
III.
Samkvæmt verksamningi 4. febrúar 2002 tók stefnandi að sér að leggja vatnsúðalagnir í húsnæði stefnda á Móhellu 1 í Hafnarfirði, sem 3.100 m² vörugeymsla á einni hæð. Fyrir verkið skyldi stefndi greiða stefnanda 20.871.530 krónur. Með verksamningi sama dag tók stefnandi að sér að leggja neyslu- og hitavatnslagnir í húsnæði og skyldi endurgjald fyrir það verk nema 6.438.576 krónum. Samningsupphæð samkvæmt þeim samningi aðila, sem tók til raflagna, hljóðaði upp á 9.165.203 krónur. Í öllum samningunum var ákvæði þess efnis að umsamið verk skyldi unnið í samræmi við teikningar og verklýsingar, sem verktaki hefði kynnt sér og ekki gert athugasemdir við, útboðsgögn, tilboð verktaka og verk-, tíma- og greiðsluáætlun frá febrúar 2002. Var tekið fram að þessi gögn og íslenskur staðall um almenna útboðs- og samningsskilmála um verkframkvæmdir, ÍST-30, væru, eftir því sem við gæti átt, hluti verksamnings. Þá var kveðið á um það í öllum samningunum að yrði um einhver aukaverk að ræða skyldi samið sérstaklega um þau áður en vinna við þau hæfist. Samhljóða ákvæði, sem bar yfirskriftina „dagsetningar-tafabætur“ hljóðaði svo: „Verktaki getur hafið framkvæmdir við verkið 20. febrúar 2002 og skal verkinu vera að fullu lokið 15. maí 2002. Í áætlun þessari er greint frá helstu áföngum verksins, vélakosti, mannafla og áætluðum afköstum hans á hverjum tíma svo og efnisútvegun verktaka og verkkaupa á hverjum tíma. Áætlun þessi er gerð í samráði við verkkaupa og telst hún hluti af samningi þessum. Er verkkaupa heimilt að taka verkið í heild af verktaka, ef meðfylgjandi áætlun er ekki fylgt, sbr. grein 0.2.2. í almennum verkskilmálum. Ljúki verktaki ekki verkinu á tilskildum tíma skal hann greiða verkkaupa tafabætur kr. 30.000 fyrir hvern almanaksdag sem verkið dregst á langinn og hefst talningin 16. maí 2002.“
Óumdeilt er að tafir urðu á framvindu hinna umsömdu verka vegna atvika er vörðuðu stefnda. Þannig var verklokum frestað til 13. júní 2002 strax á fyrsta verkfundi og um það samið að það yrði lokadagur verksins. Verklokadegi var síðan af sömu ástæðum frestað til 30. júní 2002 og loks til 12. júlí sama árs.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að hann hafi lokið umsömdum verkum að fullu í júlí 2002. Lokafrágangur við vörugeymsluna hafi hins vegar tafist vegna breytinga sem gerðar hefðu verið á samningsverkum að beiðni stefnda meðan á þeim stóð. Fyrir þau verk sem hér um ræðir hafi stefnandi gert stefnda fjóra framvindureikninga, sem eru dagsettir 6. maí, 18. júní, 31. ágúst og 16. október 2002, samtals að fjárhæð 35.454.177 krónur. Taki hver framvindureikningur til allra þeirra verka sem stefnandi hafði með höndum samkvæmt framangreindum þremur verksamningnum. Hverjum framvindureikningi fylgi hins vegar ítarleg sundurliðun fyrir hvert samningsverk. Framvindureikningar hafi ekki sætt athugasemdum af hálfu stefnda og félagið hafi reyndar viðurkennt skyldu sína til að greiða þá. Hið sama sé að segja um reikninga fyrir aukaverk, en þau hafi öll verið unnin að beiðni stefnda og reikningar fyrir þau samþykktir af VSB-verkfræðistofu ehf., sem verið hafi umsjónaraðili byggingarframkvæmda. Hafi stefnandi krafið stefnda um endurgjald fyrir aukaverk með þremur reikningum, sem dagsettir eru 31. ágúst 2002, samtals að fjárhæð 5.019.940 krónur, en að auki sé krafa um aukaverk að fjárhæð 944.093 króur innifalin í framvindureikningi 18. júní 2002. Samtals nemi því krafa vegna aukaverka 5.964.033 krónum. Loks taki krafa stefnanda til inneignar vegna skila á vörum sem hann hafði keypt af stefnda og ekki hafi verið tekið tillit til í uppgjöri á milli þeirra. Nemi sú krafa stefnanda 939.182 krónum og hafi stefndi í engu andmælt henni. Þrátt fyrir afstöðu stefnda til krafna stefnanda samkvæmt framansögðu hafi stefndi ekki verið fáanlegur til að greiða reikninga stefnanda og sé málssókn þessi því nauðsynleg.
Svo sem fram er komið er gengið út frá því að stefndi hafi greitt inn á framangreinda kröfu stefnanda samtals 34.388.474 krónur á tímabilinu 31. maí 2002 til 9. janúar 2003. Þannig greiddi stefndi 24.127 krónur 31. maí 2002, 11.229.893 krónur 14. júní sama árs, 8.500.000 krónur 4. júlí sama árs, 3.515.036 krónur 22. sama mánaðar, 579.501 krónu 22. ágúst sama árs, 160.516 krónur 1. september sama árs, 14.103 krónur 11. sama mánaðar, 1.219 krónur 24. sama mánaðar, 10.000.000 krónur 30. desember sama árs, 264.079 krónur 31. sama mánaðar og 100.000 krónur 9. janúar 2003.
IV.
Að því er málsatvik varðar er vísað til þess í greinargerð að á 7. verkfundi 4. júlí 2002 hafi verið samið um að verklok yrðu 12. sama mánaðar. Á 8. og síðasta verkfundi hafi síðan verið skráð í fundargerð að verktaki myndi boða til lokaúttektar 22. júlí 2002. Jafnframt hafi verið bókað að unnið væri að lokauppgjöri og boðað yrði til fundar vegna uppgjörsmála. Stefnandi hafi ekki efnt skyldu sína um að ljúka verkinu þann dag sem samið hefði verið um. Mikill dráttur hefði orðið á verkinu eftir þetta. Þá hafi engin úttekt farið fram á boðuðum tíma og uppgjörsfundur hafi ekki verið boðaður, enda sé samningsverkum enn ólokið. Stefnandi hafi boðað til úttektar á vatnsúðakerfi 17. september 2002 en ákveðið sjálfur að fresta henni um tvo daga. Við úttekt þann dag hafi komið í ljós að verkinu væri langt í frá lokið. Gerðar hafi verið athugasemdir í 17 liðum. Samkvæmt tilkynningu stefnanda 23. október 2002 hafi þann dag verið búið að framkvæma lagfæringar í samræmi við athugasemdirnar að einhverju leyti. Frá þessum tíma hafi ekkert verið aðhafst af hálfu stefnanda og lokaúttekt á verkum hans samkvæmt verksamningum hafi ekki farið fram. Enn sé eftir að vinna eftirtalin verk: 1. Ganga frá vatnsúðakerfi þannig að það uppfylli kröfur Brunamálastofnunar. 2. Lagfæra þjófavarnarkerfi. 3. Gefa út handbækur vegna rafmagns- og öryggiskerfa. 4. Láta fara fram úttektir á verkunum samkvæmt verksamningunum.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að hann hafi orðið fyrir verulegu tjóni vegna vanefnda stefnanda. Sem dæmi megi nefna að starfsmaður stefnanda, sem litið hafi verið á sem byggingarstjóra með á verkinu stóð, hafi margsinnis lofað að tilkynna verklok við raflagnir til skoðunarstofu raflagna. Það hafi ítrekað verið svikið og ekki gert fyrr en í desember 2002. Hafi þetta spillt nýtingu stefnda á húsnæðinu, meðal annars hafi hann ekki átt þess kost að nýta hlaupakött. Þá hafi lyklum að húsinu ekki verið skilað til stefnda fyrr en 4. desember 2002. Umsamdar dagsektir samkvæmt samningum aðila hafi numið 30.000 krónum fyrir hvern dag sem verklok drægjust, eða alls 90.000 krónur. Stefnandi hafi enn ekki lokið umsömdum verkum. Nemi áfallnar dagsektir fyrir þá 237 daga sem liðu frá umsömdum verklokum og til 7. mars 2003, en þann dag var greinargerð stefnda rituð, 21.330.000 krónum. Gerir stefndi kröfu til þess að dagsektirnar komi til skuldajafnaðar á móti kröfum stefnanda. Þar sem skuldajafnaðarkrafa stefnda sé mun hærri en dómkrafa stefnanda sé ljóst að sýkna beri hann af dómkröfunni.
Varakröfu sína um sýknu að svo stöddu styður stefndi þeim rökum að stefnandi hafi ekki lokið verkum sínum og úttektir á þeim hafi ekki farið fram. Telur stefndi að greiðsluskylda geti þá fyrst skapast þegar stefnandi hafi lokið verkum sínum með þeim hætti að úttektir, sem sýni að þau séu faglega unnin, hafi farið fram. Í þessu sambandi sé rétt að taka fram að einungis einn reikningur frá stefnanda hafi verið gjaldkræfur 12. júlí 2002, það er við umsamin verklok. Þá hafi stefnandi ekki gætt þeirrar skyldu sinnar að fá alla reikninga sína staðfesta af eftirlitsmanni. Ennfremur sé það svo að ekki hafi verið gengið frá samningum um aukaverk áður en ráðist var í þau. Loks hafi verið um það samið að haldinn yrði sérstakur uppgjörsfundur, en til hans hafi ekki enn verið boðað, enda ekki ástæða til þar sem stefnandi hafi ekki lokið hinum umsömdu verkum. Þegar þessi atriði séu virt sé ljóst að skuldi stefndi stefnanda eitthvað á annað borð sé greiðsluskylda ekki orðin virk vegna atvika sem varði stefnanda. Því beri að sýkna stefnda að svo stöddu af kröfum stefnanda.
V.
Samkvæmt þeim þremur verksamningum málaðila, sem hér eru til umfjöllunar, átti endurgjald til stefnanda að nema samtals 36.475.309 krónum. Af hálfu stefnanda er á því byggt að hann hafi að fullu efnt skyldur sínar samkvæmt samningunum. Í samræmi við það, en að teknu tilliti til magnbreytinga, hafi hann átt kröfu á hendur stefnda fyrir samningsverk að fjárhæð 35.757.540 krónur. Sú krafa stefnanda sem hann telst í máli þessu gera á hendur stefnda fyrir samningsverk nemur 35.454.177 krónum, sbr. það sem greinir í kafla II hér að framan, og styðst hún við fjóra reikninga. Þá nemur krafa stefnanda fyrir aukaverk samtals 5.964.033 krónum og styðst hún við þrjá sjálfstæða reikninga, en að auki er krafa um greiðslu fyrir aukaverk að fjárhæð 944.093 krónur innifalin í framvindureikningi númer tvö, útgefnum 18. júní 2002.
Fyrir liggur að fyrsti framvindureikningur að fjárhæð 15.227.302 krónur var samþykktur af eftirlitsaðila verkkaupa, VSB verkfræðistofu ehf., á verkfundi 17. maí 2002. Þá kemur fram í fundargerð verkfundar 15. júlí 2002 að eftirlitsaðili væri búinn að samþykkja framvindureikning númer tvö, sem að teknu tilliti til kröfu fyrir aukaverk nemur 17.548.484 krónum. Með vitnisburði Björns Gústafssonar verkfræðings, sem starfar hjá eftirlitsaðilanum, er í ljós leitt að eftirlitið samþykkti þriðja framvindureikning, að fjárhæð 2.647.580 krónur, þann 9. september 2002 og fjórða framvindureikning, að fjárhæð 974.904 krónur, 23. október sama árs. Samkvæmt vitnisburði Björns voru þrír reikningar fyrir aukaverk, að fjárhæð samtals 5.019.940 krónur, samþykktir af eftirlitsaðila 9. september 2002. Miða ber við að reikningarnir hafi verið afhentir stefnda þann sama dag og þeir voru samþykktir af eftirlitsaðila. Samkvæmt grein 0.1.8 í útboðs- og verklýsingu fyrir vatnsúðalagnir bar verkkaupa að greiða reikninga eigi síðar en tveimur vikum eftir að þeir bárust honum samþykktir af eftirlitsaðila. Verður ekki séð að annað hafi átt við um önnur samningsverk, né heldur að greinarmunur hafi að þessu leyti verið gerður að því er varðar samningsverk annars vegar og aukaverk hins vegar. Samkvæmt þessu var gjalddagi fyrsta framvindureiknings 31. maí 2002, annars framvindureiknings 29. júlí sama árs, þriðja framvindureiknings og þriggja reikninga fyrir aukaverk 23. september sama árs og fjórða framvindureiknings 6. nóvember sama árs.
Málatilbúnaður stefnda hefur í engu beinst að framangreindum reikningum stefnanda. Hið sama á við um kröfu stefnanda að fjárhæð 939.182 krónur, sem tekur svo sem fram er komið til inneignar hans hjá stefnda vegna skila á vörum sem hann hafði keypt af stefnda og ekki hafi verið tekið tillit til í uppgjöri á milli þeirra. Samkvæmt þessu eru engin efni til annars en að fallast á það með stefnanda að réttmæt heildarkrafa hans á hendur stefnda fyrir þann hluta samningsverka, sem hér er krafið um, aukaverk og vegna inneignar samkvæmt framansögðu hafi numið 42.357.392 krónum.
Stefndi styður sýknukröfu sína, eins og að framan er rakið, við það að hann eigi gagnkröfu til skuldajafnaðar vegna dagsekta, sem í reynd sé hærri en dómkrafa stefnanda. Að því er þessa gagnkröfu stefnda varðar er fyrst til þess að líta að aðilar sömdu um framlengingu á verktíma til 12. júlí 2002, en í verksamningum var kveðið á um það að umsömdum verkum stefnanda yrði lokið 15. maí 2002. Til stuðnings kröfu sinni um dagsektir hefur stefndi vísað til þess að úttektir á verkum stefnanda samkvæmt verksamningum um raforkuvirki og neyslu- og hitavatnslagnir hafi ekki farið fram og bráðabirgðaúttekt hafi einungis verið framkvæmd á vatnsúðakerfi 26. september 2002. Þá er að auki á því byggt að umsömdum verkum hafi ekki að fullu verið lokið 12. júlí 2002 og reyndar sé það svo að vissum verkum sé enn ólokið. Ekki verður séð að ágreiningur sé um fyrra atriðið, en af hálfu stefnanda hefur því verið andmælt að hann hafi ekki lokið á umsömdum tíma þeim verkum sem verksamningar aðilar tóku til. Samhljóða ákvæði samninganna um dagsektir er áður rakið. Af því og gögnum, sem teljast samkvæmt hverjum verksamningi hluti hans, verður ekki dregin sú ályktun að réttur stefnda til dagsekta samkvæmt þeim sé víðtækari en almennt gerist. Það að úttekt fari ekki fram getur við þessar aðstæður ekki eitt og sér leitt til þess að réttur til dagsekta stofnist. Sú aðstaða kann á hinn bóginn að veita viss líkindi fyrir því að verki sé ekki að fullu lokið.
Fyrirhugað var að úttekt á vatnsúðakerfi færi fram 22. júlí 2002. Af því varð ekki. Úttekt var hins vegar svo sem fram er komið framkvæmd 26. september 2002 og annaðist Ástvaldur Eiríksson, starfsmaður hjá Eldvarnaþjónustunni ehf., hana. Skilaði hann greinargerð um úttektina 30. sama mánaðar, þar sem gerðar voru vissar athugasemdir við kerfið. Flestar voru þær smávægilegar. Af vitnisburði Ástvaldar og Björns Gústafssonar verkfræðings fyrir dómi við aðalmeðferð málsins verður helst ráðið að athugasemdirnar hafi alfarið snúið að atriðum sem ekki voru á ábyrgð stefnanda sem verktaka. Ekkert annað er fram komið í málinu sem virt verður á þann veg að vinna stefnanda við vatnsúðakerfi hafi, vegna atvika sem talist geta á ábyrgð hans, dregist fram yfir umsaminn skiladag.
Í greinargerð stefnda er því haldið fram að verk sem stefnandi eigi enn eftir að vinna að fullu samkvæmt verksamningi um raforkuvirki lúti annars vegar að þjófavarnarkerfi og hins vegar að handbók vegna rafmagns- og öryggiskerfa. Ekki er á því byggt að ólokið sé verkum samkvæmt verksamningi um neyslu- og hitavatnslagnir. Þá hefur af hálfu stefnda ekki verið leitast við að færa sönnur fyrir því að samningsverkum hafi umfram þetta verið ólokið á umsömdum skiladegi 12. júlí 2002.
Rétt verkkaupa til dagsekta verður almennt séð að meta í ljósi þess hvert sé hlutfall ólokinna samningsverka við umsamin verklok. Má um þetta vísa til dóms Hæstaréttar frá 1. nóvember 2001 í máli nr. 122/2001. Í því máli var það niðurstaða héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, að með tilliti til breytinga sem orðið hefðu á því verki sem málið snerist um hefði 98,8% þess verið lokið 12. september 1997. Var í dómi Hæstaréttar litið svo á að í ljósi þessa yrðu tafabætur ekki dæmdar lengur en til þess dags. Þótt fallist yrði á það með stefnda í máli þessu að hinn 12. júlí 2002 hafi stefnandi ekki að fullu verið búinn að ljúka þeim verkum sem hann tók að sér að vinna með verksamningum um raforkuvirki og neyslu- og hitavatnslagnir eru engin efni til að líta svo á að hlutfall óunninna verka á þessu tímamarki hafi verið slíkt að réttur til dagsekta, óháð öðrum skilyrðum sem hann er bundinn, hafi stofnast. Er þá einnig horft til þess að með vissu verður engu slegið föstu um það að þau lagnakerfi sem hér um ræðir hafi ekki komið stefnda að tilætluðum notum frá og með umsömdum skiladegi.
Með vísan til framanritaðs er kröfu stefnda um dagsektir alfarið hafnað. Sýknukröfu stefnda er því hrundið. Af þessu leiðir jafnframt að dómkrafa stefnanda sætir ekki lækkun vegna dagsekta.
Svo sem fram er komið er það niðurstaða dómsins að réttmæt heildarkrafa stefnanda á hendur stefnda fyrir þann hluta samningsverka, sem hér er krafið um, aukaverk og vegna inneignar sem myndaðist vegna skila á vörum sem keyptar höfðu verið af stefnda hafi numið 42.357.392 krónum. Styðst krafa um samnings- og aukaverk við reikninga, sem allir hafa verið samþykktir til greiðslu af eftirlitsaðila stefnda. Voru þeir samkvæmt ákvæði í verk- og útboðslýsingu gjaldkræfir tveimur vikum seinna og svo sem nánar hefur verið gerð grein fyrir í forsendum dóms þessa. Að svo komnu eru engin efni til að fallast á þá varakröfu stefnda að hann skuli að svo stöddu vera sýkn af kröfum stefnanda.
Til lækkunar á höfuðstól þeirrar kröfu, sem stefnandi telst samkvæmt framansögðu hafa átt á hendur stefnda, kemur innborgun að fjárhæð 24.127 krónur, sem innt var af hendi á gjalddaga fyrsta framvindureiknings 31. maí 2002. Verður höfuðstóll kröfu stefnanda þannig 42.333.365 (42.357.392 24.127) krónur. Verður ekki litið svo á að ákvæði 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála standi því í vegi að stefnanda verði dæmd sú fjárhæð, þótt hún fari fram úr höfuðstól dómkröfu hans, 9.920.313 krónum, enda sýnilegt að í heild verði krafan lægri í þessari mynd 9. janúar 2003 þegar tillit hefur verið tekið til áfallinna vaxta og innborgana. Má um þetta vísa til dóms Hæstaréttar frá 19. september 2002 í máli nr. 20/2002. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að sú krafa sem hann gerir til þrautavara um lækkun á dómkröfu stefnanda geti náð fram að ganga umfram það sem í þessu felst. Verða stefnanda því dæmdar 42.333.365 krónur ásamt dráttarvöxtum eins og nánar greinir í dómsorði, allt að frádregnum eftirtöldum innborgunum: 11.229.893 krónur 14. júní sama árs, 8.500.000 krónur 4. júlí sama árs, 3.515.036 krónur 22. sama mánaðar, 579.501 króna 22. ágúst sama árs, 160.516 krónur 1. september sama árs, 14.103 krónur 11. sama mánaðar, 1.219 krónur 24. sama mánaðar, 10.000.000 krónur 30. desember sama árs, 264.079 krónur 31. sama mánaðar og 100.000 krónur 9. janúar 2003.
Í dómi þessum er ekki tekin afstaða til þess hvernig standa eigi að endanlegu uppgjöri á kröfu stefnanda. Þar um er til þess að líta að fyrir því er langvarandi venja að í dómi um peningakröfu, sem greidd hefur verið að hluta, sé látið við það sitja að kveða á um skyldu skuldara til að greiða upphaflegan höfuðstól kröfunnar með nánar tilgreindum vöxtum, án þess að mælt sé berum orðum fyrir um af hvaða fjárhæð þeir skuli reiknast á hverjum tíma, en að frádreginni einni eða fleiri innborgunum, sem hafi verið inntar af hendi á tilteknum dögum. Er þá gengið út frá því að við endanlegt uppgjör kröfunnar verði að öðru jöfnu farin sú leið að reikna út stöðu kröfunnar eins og hún var hverju sinni þegar innborganir voru inntar af hendi og þeim ráðstafað til að greiða fyrst áfallinn kostnað og vexti, en að þeim liðum frágengnum gangi þær til lækkunar á höfuðstól kröfunnar, sem borið geti vexti upp frá því. Má um þetta vísa til dóms Hæstaréttar frá 17. október 2002 í máli nr. 230/2002.
Eftir framangreindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 550.000 krónur.
Mál þetta dæma Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari og meðdómsmennirnir Ásmundur Ingvarsson byggingaverkfræðingur og Eymundur Sigurðsson rafmagns-verkfræðingur.
D ó m s o r ð :
Stefndi, Tækja-Tækni ehf., greiði stefnanda, Keflavíkurverktökum hf., 42.333.365 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 15.203.275 krónum frá 31. maí 2002 til 29. júlí sama árs, en af 32.751.759 krónum frá þeim degi til 23. september sama árs, en af 40.419.279 krónum frá þeim degi til 6. nóvember sama árs, en af 41.394.183 krónum frá þeim degi til 10. janúar 2003, en af 42.333.365 krónum frá þeim degi til greiðsludags, en að frádregnum innborgunum 14. júní 2002 að fjárhæð 11.229.893 krónur, 4. júlí sama árs að fjárhæð 8.500.000 krónur, 22. sama mánaðar að fjárhæð 3.515.036 krónur, 22. ágúst sama árs að fjárhæð 579.501 króna, 1. september sama árs að fjárhæð 160.516 krónur, 11. sama mánaðar að fjárhæð 14.103 krónur, 24. sama mánaðar að fjárhæð 1.219 krónur, 30. desember sama árs að fjárhæð 10.000.000 krónur, 31. sama mánaðar að fjárhæð 264.079 krónur og 9. janúar 2003 að fjárhæð 100.000 krónur.
Stefndi greiði stefnanda 550.000 krónur í málskostnað.