Hæstiréttur íslands

Mál nr. 111/2016

Útgerðarfélagið Dvergur hf. (Magnús Helgi Árnason hdl.)
gegn
Landsbankanum hf. (Andri Árnason hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu Ú hf. um dómkvaðningu matsmanna. Í dómi Hæstaréttar var rakið að Ú hf. héldi því fram að tilgreindur samningur hans við LÍ hf. hafi verið um lán í íslenskum krónum sem hafi verið bundið gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við 14. gr., sbr. 13. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Ú hf. hefði óskað dómkvaðningar matsmanna til þess að meta hvort LÍ hf. hafi aflað sér erlendra gjaldmiðla til jafns við það sem greiðslukvittanir lánsins bæru með sér. Tilgangur matsgerðarinnar væri sá að sýna fram á að innstæður svokallaðra IG reikninga væru í reynd skuldbindingar sem tækju mið af gengi annarra gjaldmiðla en íslenskrar krónu. Hæstiréttur taldi ekki unnt að fullyrða að matsgerð dómkvaddra manna, sem hefði að geyma svör við fyrstu þremur spurningum í matsbeiðni Ú hf., yrði bersýnilega tilgangslaus til sönnunar um atriði sem félagið teldi þörf á að sanna. Á hinn bóginn var talið að fjórða og fimmta matsspurning Ú hf. lyti að túlkun á reglum, sem væri viðfangsefni dómara málsins. Samkvæmt þessu var fallist á kröfu Ú hf. um dómkvaðningu matsmanna til að svara þremur fyrstu spurningunum í matsbeiðni félagsins.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Helgi I. Jónsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. febrúar 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. janúar 2016, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að umbeðin dómkvaðning fari fram. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var málið höfðað af sóknaraðila til viðurkenningar á því að tilgreindur samningur hans 17. febrúar 2004 við Landsbanka Íslands hf., sem varnaraðili leiðir rétt sinn frá, hafi verið um lán í íslenskum krónum að fjárhæð 104.000.000 krónur sem hafi verið bundið gengi erlendra gjaldmiðla þannig að í bága hafi farið við 14. gr., sbr. 13. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Varnaraðili krefst sýknu og reisir málsvörn sína meðal annars á því að margir dómar hafi gengið um sambærilega lánssamninga þar sem niðurstaðan hafi orðið á þann veg að um hafi verið að ræða lán í erlendum gjaldmiðli. Lánið hafi, samkvæmt framlögðum skjölum í málinu, verið greitt út 18. febrúar 2004 með 528.712 evrum, 189.298 svissneskum frönkum, 25.866.626 japönskum jenum og 459.635 bandaríkjadölum. Greiðslan í hverjum gjaldmiðli fyrir sig hafi verið lögð inn á innlendan gjaldeyrisreikning í þeirri mynt, allt samkvæmt fyrirmælum sóknaraðila.

Sóknaraðili hefur óskað dómkvaðningar matsmanna í því skyni að sanna að þegar Landsbanki Íslands hf. efndi aðalskyldu sína samkvæmt lánssamningnum í febrúar 2004 ,,hafi engar færslur erlendra gjaldmiðla átt sér stað, hvorki innan reikninga forvera matsþola á Íslandi, né á nostro reikningum forvera matsþola á viðkomandi myntsvæði.“ Felst í þessari afstöðu að Landsbanki Íslands hf. hafi ekki aflað sér erlendra gjaldmiðla til jafns við það sem greiðslukvittanir lánsins bera með sér. Telur sóknaraðili að Landsbanki Íslands hf. hafi efnt aðalskyldu sína samkvæmt lánssamningnum með afhendingu eða skuldbindingu til að afhenda íslenskar krónur, sem bundnar hafi verið við gengi erlendra gjaldmiðla. Af þessu leiði ,,að innstæður IG reikninga eru í reynd skuldbinding matsþola í íslenskum krónum, sem tekur mið af gengi annarra gjaldmiðla en íslenskrar krónu.“

Í matsbeiðni 15. október 2015 leitar sóknaraðili mats á fimm atriðum og eru matsspurningarnar tíundaðar í hinum kærða úrskurði. Í fyrstu spurningu er óskað svars við því hvort greiðslukerfi íslenskra banka hafi 2004 eða síðar getað millifært inn á bankareikninga á Íslandi annan gjaldmiðil en íslenskar krónur. Í annarri spurningu er leitað svars við því hvort við greiðslu Landsbanka Íslands hf. á lánsfjárhæð sem greidd hafi verið ,,inn á IG reikning höfuðbók 38“ hafi sama fjárhæð færst af öðrum reikningi í eigu bankans. Í þriðju spurningu, sem er háð því að annarri spurningunni sé svarað játandi, er leitað svars við því í hvaða mynt sá reikningur hafi verið sem útborgunin var skuldfærð á.

Játa verður aðila máls ríkan rétt til þess að afla og leggja fram þau sönnunargögn sem hann telur þörf á. Meðal slíkra gagna eru matsgerðir dómkvaddra manna. Almennt eiga hvorki gagnaðili né dómstólar að standa þeirri gagnaöflun í vegi. Ekki verður fullyrt að matsgerð dómkvaddra manna, sem hefði að geyma svör við framangreindum þremur spurningum, yrði bersýnilega tilgangslaus til sönnunar um atriði sem sóknaraðli telur þörf á að sanna, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Ber hann enda sjálfur hallann af því hvort þau atriði hafi þýðingu við úrlausn á sakarefni málsins eða ekki.

Á hinn bóginn er fallist á með héraðsdómi að matsspurningar fjögur og fimm lúti að túlkun á reglum, sem samkvæmt 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991 er viðfangsefni dómara málsins.

Samkvæmt framansögðu verður fallist á kröfu sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna til þess að svara spurningum eitt, tvö og þrjú í matsbeiðni hans 15. október 2015.

Varnaraðili greiði sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Fallist er á kröfu sóknaraðila, Útgerðarfélagsins Hauks hf., um dómkvaðningu matsmanna til að svara þremur fyrstu spurningum í matsbeiðni hans 15. október 2015.

Varnaraðili, Landsbankinn hf., greiði sóknaraðila 250.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. janúar 2016.

                Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 14. desember sl., var höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 12. júní sl., af Útgerðarfélaginu Hauki hf., Ennisbraut 8, Ólafsvík, á hendur Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík.

                Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennt verði með dómi að lánssamningur milli stefnanda og Landsbanka Íslands hf., nr. 455 frá 17. febrúar 2004, að fjárhæð 104.000.000 króna, sé bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. 

                Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda.

                Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.  Þá krefst stefndi málskostnaðar, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun, úr hendi stefnanda.

                Í þinghaldi þann 15. október sl. lagði stefnandi fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna.  Stefndi mótmælti dómkvaðningunni.  Ágreiningurinn var tekinn til úrskurðar 14. desember sl. að loknum munnlegum málflutningi.

                Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en úrskurður var kveðinn upp.

II

                Stefnandi er útgerðarfyrirtæki í Ólafsvík.  Þann 17. febrúar 2004 gerði stefnandi samning við Útgerðarfélagið Tjald um kaup stefnanda á aflahlutdeild skipsins Tjalds SH-270.  Kaupverðið var ákveðið 108.000.000 krónur og bar stefnanda að leggja fjárhæðina inn á fjárvörslureikning Magnúsar Helga Árnasonar hdl., nr. 0101-26-27175, en honum bar svo að flytja fjárhæðina inn á reikning Útgerðarfélagsins Tjalds, nr. 190-26-200058, þegar Fiskistofa hefði staðfest að flutningur aflahlutdeildanna og aflamarksins hefði farið fram.

                Stefnandi kveður að vegna framangreindra kaupa hafi hann óskað eftir því að Landsbanki Íslands lánaði honum íslenskar krónur, sem bundnar væru gengi erlendra gjaldmiðla.

                Sama dag, eða þann 17. febrúar 2004, gerðu stefnandi og Landsbanki Íslands hf. með sér lánssamning nr. 445 að fjárhæð 104.000.000 króna.  Umdeilt lán er í lánssamningi aðila sagt vera fjölmyntalán að jafnvirði 104.000.000 króna í þar tilgreindum myntum og eru hlutföll myntanna tilgreind.  Í útborgunarbeiðni stefnanda fór hann fram á að lánið yrði greitt út í þeim myntum sem það var tekið í og að greitt yrði beint til Útgerðarfélagsins Tjalds ehf. inn á reikninga sem félagið tilgreinir.  Útgerðarfélagið Tjaldur ehf. tilgreindi gjaldeyrisreikninga sína í þeim myntum og var lánið greitt inn á þá reikninga.

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að lánssamningurinn sé verðtryggður við gengi erlendra mynta og að slík verðtrygging fari í bága við lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 13. og 14. gr. laganna, eins og dómstólar hafi margsinnis staðfest. Stefnandi heldur því fram að samningur þessi sé sams konar og fjallað var um í dómi Hæstaréttar Íslands 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011, þar sem staðfest hafi verið að samhljóða samningur sé um lán í íslenskum krónum, bundinn með ólögmætum hætti við gengi erlendra gjaldmiðla.

Stefndi hefur hafnað ítrekuðum óskum stefnanda um að áðurnefnt lán sem hann tók hjá forvera stefnda verði leiðrétt í samræmi við þá niðurstöðu Hæstaréttar.

Stefndi byggir á því að með undirritun lánssamningsins hafi stefnandi skuldbundið sig til að taka lán í erlendum gjaldmiðlum.  Stefnanda beri að efna gerða samninga og virða skuldbindingar sínar.  Stefndi telur að krafa hans á hendur stefnanda samkvæmt umdeildum lánssamningi sé skuldbinding í erlendri mynt og falli þess vegna utan gildissviðs VI. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 13. gr. sömu laga.  Stefndi byggir á því að lánssamningurinn og framkvæmd lánveitingarinnar, m.a. útgreiðsla lánsins, beri það með sér að um skuldbindingu í erlendri mynt sé að ræða og vísar m.a. til dómaframkvæmdar Hæstaréttar. 

Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008 heimildar í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., víkja stjórn félagsins frá og setja yfir það skilanefnd.  Í framhaldi af því var stofnaður Nýi Landsbanki Íslands hf. sem nú ber heiti stefnda.  Tók stefndi við ýmsum réttindum og skyldum eldri bankans og er óumdeilt að hann hafi þar á meðal tekið yfir kröfu á hendur stefnanda samkvæmt lánssamningnum frá 17. febrúar 2004.

III

                Í matsbeiðni stefnanda er óskað eftir því að dómkvaddir verði tveir óvilhallir matsmenn sem hafi þekkingu á íslenskum reglum um gjaldeyrisjöfnuð fjármálafyrirtækja, þekkingu á alþjóðlegum bankaviðskiptum og þar með reikningsskilum svonefndra nostro- og vosto-bankareikninga í gjaldeyrisjöfnuði.

                Tilgang matsins kveður stefnandi vera að afla sér sönnunar þess að þegar stefndi hafi efnt aðalskyldu sína í árslok 2004 hafi engar færslur erlendra gjaldmiðla átt sér stað, hvorki innan reikninga forvera stefnda á Íslandi né á nostro reikningum forvera stefnda á viðkomandi myntsvæði.  Forveri stefnda, sem stefndi leiði rétt sinn af hafi efnt aðalskyldu sína samkvæmt lánssamningnum með afhendingu eða skuldbindingu til að afhenda íslenskar krónur, sem bundnar voru við gengi erlendra gjaldmiðla.  Af þessu leiði að innistæður IG-reikninga séu í reynd skuldbinding stefnda í íslenskum krónum, sem taki mið af gengi annarra gjaldmiðla en íslenskrar krónu.

                Stefnandi kveðst í stefnu m.a. byggja á því að umþrættur lánssamningur sé að formi og efni samhljóða lánssamningi sem fjallað hafi verið um í dómi Hæstaréttar í máli nr. 155/2011.  Í þeim dómi hafi verið komist að þeirri niðurstöðu, samkvæmt því sem fram komi í útskýringum dómsins sjálfs á málinu í máli réttarins nr. 3/2012, að vísun til erlendra gjaldmiðla ein og sér nægði ekki til þess að lán það, sem þar var deilt um, teldist vera í þeim erlenda gjaldmiðli og yrði því að gæta að því hvernig skyldur samningsaðila hefðu verið efndar.  Í fyrrgreindu máli Hæstaréttar nr. 155/2011, hafi svo háttað til að efndir beggja aðila hafi farið fram með millifærslum á íslenskum krónum.

                Í þessu máli sé deilt um lánssamning, sem að formi og efni sé samhljóða lánssamningi sem deilt hafi verið um í hæstaréttarmáli nr. 155/2011.  Efndir aðalskyldna stefnanda séu óumdeildar, en þær hafi farið fram með afhendingu á íslenskum krónum.  Stefnandi fullyrðir í stefnu að efndir stefnda á aðalskyldu sinni hafi farið þannig fram að stefndi hafi afhent íslenskar krónur sem bundnar hafi verið gengi annarra gjaldmiðla.  Hann kveður stefnda hins vegar fullyrða í greinargerð sinni að hann hafi afhent erlendan gjaldeyri með innborgun inn á IG-reikninga.  Í greinargerð stefnda komi einnig fram að það sé fráleitt af stefnanda að halda því fram, í ljósi dómaframkvæmdar, að á IG-reikningum „hvíli ekki raunverulegur gjaldeyrir“, auk þess sem því sé mótmælt að Seðlabanki Íslands líti á skuldbindingar á IG-reikningum sem skuldbindingu í íslenskum krónum með gengisviðmiði.

                Með matsgerð sé það ætlun stefnanda að afla sönnunar þess sem hann telji rétt og byggi á gögnum sem hann vísi til.  Hann sé að leita þekkingar hjá sérfróðum dómkvöddum matsmönnum, sem sé utan almennrar þekkingar og almennrar menntunar eða lagaþekkingar.

                Matsmönnum sé ætlað að svara eftirgreindum spurningum:

                „1.  Gátu greiðslukerfi íslenskra banka á árinu 2004 eða síðar millifært inn á bankareikninga á Íslandi, á rafrænan hátt eða á annan hátt, annan gjaldmiðil en íslenskar krónur?

                2.  Við útgreiðslu matsþola (væntanlega eignafærsla í bókum matsþola, kreditfærsla, útgáfa skuldbindingar) á lánsfjárhæð, sem greidd var inn á IG reikning höfuðbók 38, færist sama fjárhæð (að frádregnum lánskostnaði) af öðrum reikningi í eigu matsþola?

                3.  Ef svar við spurningu 2 er að fjárhæð færist af öðrum reikningi í eigu matsþola við útgreiðslu, er þess óskað að matsmenn svari því í hvaða mynt sá reikningur er sem útgreiðslan skuldfærist (debitfærist) af?

                4.  Í desember 2004 voru í gildi reglur Seðlabanka Íslands, númer 387/2002 um gjaldeyrisjöfnuð bindiskyldra lánastofnana og annarra sem leyfi hafa til milligöngu um gjaldeyrisviðskipti.  Hvernig skilgreina dómkvaddir matsmenn innstæður á innlendum gjaldeyrisreikningum (IG reikningum, höfuðbók 38), innan skilgreininga Seðlabanka á reglum um gjaldeyrisjöfnuð, sem koma fram í 1. mgr. (gengisbundnir liðir), 2. mgr. (nústaða í gjaldmiðli), 4. mgr. (opin gjaldeyrisstaða, gjaldeyrisáhætta stofnunar) 2. greinar ofangreindra reglna?

                5.  Hvernig skilgreina matsmenn innstæður forvera matsþola á nostro reikningum matsþola samkvæmt skilgreiningum 1. mgr., 2. mgr., 4. mgr. 2. gr. ofangreindra reglna?“

                Þá segir í matsbeiðni að matsins sé óskað í þeim tilgangi að færa sönnur á fullyrðingu matsbeiðanda í stefnu, sem stefndi mótmæli í greinargerð sem ósönnuðum, að efndir matsþola á aðalskyldu samkvæmt umdeildum lánssamningi, hafi falist í því að afhenda inn á reikninga, sem tegundartilgreindir hafi verið af stefnda sem innlendir gjaldeyrisreikningar, skuldbindingar í formi innstæðna í íslenskum krónum, sem hafi verið bundnar tilgreindu skráðu dagsgengi annarra gjaldmiðla en íslenskrar krónu.

                Eins og áður greinir andmælti stefndi því að dómkvaddir yrðu matsmenn í málinu.  Í munnlegum málflutningi um þann ágreining aðila vísaði stefndi m.a. til 3. mgr. 46. gr. og 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.  Þá vísaði stefndi til dóma Hæstaréttar m.a. í málum nr. 577/2014, 3/2012, þar sem reynt hefði á túlkun sams konar samninga.  Þá hefði sams konar málsástæðu verið teflt fram í hæstaréttarmáli nr. 90/2014, en þar hefði því verið haldið fram að gjaldeyrisreikningar væru í raun gengistryggðir reikningar og því hefði enginn gjaldeyrir í raun verið afhentur.  Því lægi fullnægjandi sönnun fyrir um réttmæti útgreiðslu láns í því formi sem á reyni í þessu máli.  Óþarft væri því að afla frekari sönnunar eða mats.

                Stefndi mótmælti sérstaklega matsspurningu nr. 1 og taldi hana of víðtæka, einnig að spurningar 4-5 væru of víðtækar og fælu í raun í sér lögspurningu.  Þá taldi hann að spurningar 2 og 3 væru alls óþarfar.

                Stefndi vísaði og til þess að í málinu lægi fyrir að greitt hefði verið inn á reikninga í erlendri mynt og að stefnanda hefði boðist að fá lánið greitt í erlendri mynt.

IV

                Í einkamáli lýtur sönnun einkum að því að leiða í ljós hvort staðhæfing um umdeild atvik teljist sönnuð, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991.  Aðili að einkamáli á að meginstefnu rétt á því að afla og leggja fram þau sönnunargögn sem hann telur þörf á.  Það er því hvorki á valdi stefnda né dómstóla að aftra því nema með stoð í lögum.  Af þeim sökum ber dómara að verða við beiðni málsaðila um að dómkveðja matsmenn samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991 nema formskilyrði síðari málsliðar 1. mgr. 61. gr. séu ekki fyrir hendi, leitað sé mats um atriði, sem dómari telur bersýnilegt að ekki skipti máli, sbr. 3. mgr. 46. gr. laganna, eða matsbeiðni lúti einvörðungu að atriðum, sem dómara ber að leggja sjálfur mat á en ekki sérfróðum matsmönnum, sbr. 2. mgr. 60. gr. og fyrri málslið 1. mgr. 61. gr.  Í síðastnefnda tilvikinu yrði matsgerð ávallt tilgangslaus til sönnunar í skilningi 3. mgr. 46. gr. 

Matsbeiðni stefnanda lýtur að því að fá álit sérfróðra matsmanna á greiðslukerfum banka á árinu 2004 og síðar og hvort unnt hafi verið að millifæra á Íslandi annan gjaldmiðil en íslenskar krónur.  Þá er krafist skilgreiningar matsmanna á innlendum gjaldeyrisreikningum, IG-reikningum með höfuðbók 38, inna skilgreiningar Seðlabanka Íslands á reglum nr. 387/2002, um gjaldeyrisjöfnuð, sem og skilgreiningar á nostro-reikningum stefnda.  Stefnandi kveður tilgang matsins vera að sanna að fullyrðingar hans um að aðalskylda stefnda samkvæmt lánssamningi hafi falist í því að afhenda inn á reikninga sem voru tegundartilgreindir af stefnda sem innlendir gjaldeyrisreikningar, skuldbindingar í formi innstæðna í íslenskum krónum bundnar dagsgengi erlendra gjaldmiðla.

                Málsaðila greinir á um það í málinu hvort samningur stefnanda við Landsbanka Íslands hf. 17. febrúar 2004 sé um lán í íslenskum krónum, bundið gengi erlendra gjaldmiðla, þannig að skilmálar þess brjóti í bága við 14. gr., sbr. 13. gr., laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Í dómum Hæstaréttar hefur margsinnis reynt á túlkun sambærilegra samninga. Hefur Hæstiréttur í dómum sínum um hvort lán sé í erlendri mynt eða íslenskum krónum bundnum gengi erlendra gjaldmiðla, fyrst og fremst lagt til grundvallar skýringu á texta þeirrar skuldbindingar sem lántaki hefur gengist undir.  Þegar sú textaskýring tekur ekki af skarið um hvers efnis skuldbindingin er að þessu leyti hefur verið litið til atriða sem lúta að því hvernig hún hefur í raun verið efnd og framkvæmd að öðru leyti og hefur þá m.a. verið litið til aðferðar við útborgun lánsfjárins.  Í þeim fjölmörgu dómum Hæstaréttar þar sem reynt hefur á túlkun sambærilegs samnings og um er deilt í þessu máli hefur verið talið að útborgun inn á gjaldeyrisreikninga í samræmi við ákvæði samnings fæli í sér að fé í erlendum gjaldmiðlum skipti í reynd um hendur.  Að því virtu fæst ekki séð að þýðingu geti haft við úrlausn ágreinings sem deilt er um í málinu, að aflað verði mats á þeim atriðum sem tilgreind eru í matsbeiðni, en það getur hvorki verið hlutverk dómkvaddra matsmanna að túlka samning aðila né myndi slík matsgerð nokkru breyta um þær kröfur sem stefnandi hefur uppi í málinu.  Af þeim sökum er sú sönnunarfærsla sem stefnandi gerir kröfu um samkvæmt framangreindu bersýnilega þýðingarlaus fyrir mál þetta, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.  Verður því beiðni hans um dómkvaðningu matsmanna hafnað.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                Hafnað er kröfu stefnanda, Útgerðarfélagsins Hauks hf., um dómkvaðningu matsmanna.