Hæstiréttur íslands
Mál nr. 38/2007
Lykilorð
- Frávísun frá Hæstarétti að hluta
- Frávísun frá héraðsdómi
- Aðild
- Einkahlutafélag
- Vanreifun
- Tryggingarbréf
|
|
Fimmtudaginn 13. september 2007. |
|
Nr. 38/2007. |
Sláturfélagið Ferskar afurðir ehf. og Sigfús Leví Jónsson (Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Sparisjóði Húnaþings og Stranda (Sveinn Sveinsson hrl.) |
Frávísun frá Hæstarétti að hluta. Frávísun frá héraðsdómi. Tryggingarbréf. Aðild. Einkahlutafélög. Vanreifun.
Sparisjóðurinn SHS stefndi SF ehf. til greiðslu yfirdráttarskuldar á reikningi, sem félagið var með hjá sparisjóðnum. Þá krafðist sparisjóðurinn einnig viðurkenningar á því að hann nyti 1. veðréttar í fasteign í eigu S samkvæmt tryggingarbréfi að fjárhæð 6.000.000 króna auk dráttarvaxta. Fallist var á kröfur sparisjóðsins í héraði og áfrýjuðu SF ehf. og S málinu til Hæstaréttar. Fyrir lá að SF ehf. hafði verið afskráð úr hlutafélagaskrá eftir áfrýjun málsins. Við það missti félagið aðildarhæfi, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og var kröfum þess því vísað frá Hæstarétti. Í dómi réttarins var ennfremur vísað til þess að S hefði borið fyrir sig fyrningarvörn og vísað um hana til 2. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Er þar gert ráð fyrir að fyrningartími vaxtakrafna sé styttri en á kröfum um endurgreiðslu peningalána. Hefði sparisjóðurinn því þurft að gera skýra grein fyrir sundurgreiningu fjárkröfu sinnar í höfuðstól og vexti. Þar sem það hafði ekki verið gert var krafan á hendur S talin vanreifuð, sbr. d. og e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þeirri kröfu var því vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson og Hrafn Bragason fyrrverandi hæstaréttardómari.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 16. janúar 2007. Þeir krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara sýknu af kröfum stefnda.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt vottorð úr fyrirtækjaskrá, þar sem fram kemur, að hlutafélagaskrá hafi á grundvelli 83. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög afskráð áfrýjanda Sláturfélagið Ferskar afurðir ehf. úr hlutafélagaskrá 7. mars 2007. Við þetta missti félagið aðildarhæfi, sbr. 1. mgr. 10. gr. sömu laga, og verður kröfum þess vísað frá Hæstarétti.
Krafa stefnda á hendur áfrýjanda Sigfúsi Leví Jónssyni felur það í sér að veitt verði viðurkenning fyrir veðrétti í fasteign hans Lindarbrekku, Laugarbakka, Ytri-Torfustaðahreppi, nú Smáragrund 6, Laugarbakka, Húnaþingi vestra, fyrir höfuðstól að fjárhæð 6.000.000 krónur auk dráttarvaxta í samræmi við þá dráttarvexti sem krafa stefnda á hendur Sláturfélaginu Ferskar afurðir ehf. ber. Eins og stefndi hefur lagt málið fyrir dómstóla er það skilyrði fyrir viðurkenningardómi um þetta að hann reifi á fullnægjandi hátt fjárkröfuna sem veðið á að tryggja. Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi byggir stefndi kröfuna á yfirliti um hreyfingar á bankareikningi þeim sem um ræðir í málinu. Nemur höfuðstóll kröfu hans þeirri fjárhæð sem hann segir að verið hafi skuld Sláturfélagsins Ferskra afurða ehf. á reikningi þessum 29. desember 2000 eða 9.368.240 krónum.
Á nefndu yfirliti um bankareikninginn kemur meðal annars fram að gjaldfærðir hafa verið mánaðarlega vextir af skuldinni eins og hún hefur staðið á hverjum tíma. Það er því ljóst að áfallnir vextir mynda hluta þeirrar fjárhæðar sem höfuðstóll kröfu stefnda hljóðar um. Áfrýjandi Sigfús Leví hefur borið fram fyrningarvörn gegn kröfunni og auk annars vísað um hana til 2. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Í þessu lagaákvæði er meðal annars kveðið á um fyrningu á vaxtakröfum og er fyrningartími þeirra styttri en á kröfum um endurgreiðslu peningalána samkvæmt 4. gr. sömu laga. Til þess að unnt sé að leggja dóm á viðurkenningarkröfu stefnda er nauðsynlegt að hann geri skýra grein fyrir sundurgreiningu fjárkröfu sinnar í höfuðstól og vexti. Það hefur hann ekki gert og telst krafan því vanreifuð, sbr. d. og e. liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður kröfu hans á hendur áfrýjanda Sigfúsi Leví því vísað frá héraðsdómi, en málskostnaður í héraði milli þeirra felldur niður.
Samkvæmt þessum málsúrslitum verður stefnda gert að greiða áfrýjanda Sigfúsi Leví Jónssyni málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Kröfu áfrýjanda, Sláturfélagsins Ferskra afurða ehf., er vísað frá Hæstarétti.
Kröfu stefnda, Sparisjóðs Húnaþings og Stranda, á hendur áfrýjanda, Sigfúsi Leví Jónssyni, er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði milli áfrýjanda og stefnda, Sigfúsar Leví Jónssonar, fellur niður.
Stefndi greiði áfrýjanda, Sigfúsi Leví Jónssyni, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2006.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 6. desember sl., höfðaði Sparisjóður Húnaþings og Stranda, Hvammstangabraut 4, Hvammstanga gegn Sláturfélaginu Ferskum afurðum ehf., Brekkugötu 4, Hvammstanga, og Sigfúsi Jónssyni, Smáragrund 6, Laugarbakka, Vestur Húnavatnssýslu, með stefnu birtri 11. apríl 2006.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi, Sláturfélagið Ferskar afurðir ehf., verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 9.368.240 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 28.2.2005 til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi þess að stefndi, Sigfús Jónsson, verði dæmdur til að þola viðurkenningu á 1. veðrétti stefnanda í fasteigninni Lindarbrekku, Laugarbakka, Ytri-Torfustaðahreppi, nú Smáragrund 6, Húnaþingi vestra, sem þinglýstur eigandi fasteignarinnar samkvæmt tryggingabréfi, útgefnu 30. september 1996, að fjárhæð kr. 6.000.000, auk dráttarvaxta samkvæmt vaxtalögum til greiðsludags til tryggingar greiðslu kröfunnar á hendur stefnda, Sláturfélaginu Ferskum afurðum ehf.
Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir til þess að greiða honum málskostnað með virðisaukaskatti.
Dómkröfur stefndu eru þær að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnanda. Þá krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt málskostnaðaryfirliti.
Stefndu gerðu kröfu um frávísun málsins. Kröfunni var hafnað með úrskurði sem kveðinn var upp 23. október sl.
II
Stefnandi lýsir umkrafðri skuld á þann veg að hún sé samkvæmt yfirliti af ávísanareikningi, nr. 1105-26-001170, sem stefndi, Sláturfélagið Ferskar afurðir ehf., hafi stofnað hjá stefnda 13. september 1988. Reikninginn stofnaði stefndi, Sigfús, f.h. félagsins. Notkun reikningsins hafi verið stöðug frá því að hann var stofnaður og 28.2.2005 hafi staða reikningsins, þ.e. í skuld, verið kr. 19.170.111. Stefnandi miðar þó kröfu sína við stöðu reikningsins eins og hún var 29. desember 2000, en þá nam skuld á reikningnum kr. 9.368.240. Stefnandi hefur lagt fram yfirlit um allar færslur á reikningnum á tímabilinu frá 5. janúar til 29. desember 2000 og reyndar allt til dagsins 29. september 2006. Af yfirlitunum sést að greiðslur út af reikningnum hafa verið bæði í formi millifærslna og ávísana. Innistæða á reikningnum í árslok 1998 segir stefnandi að hafi verið kr. 2.166.914.
Stefndi, Sigfús, sagðist ekki kannast við neinar færslur á yfirliti yfir reikninginn eftir janúar 1999. Hann sagðist hafa haft heimild til þess að ávísa á reikninginn eða láta ávísa á hann. Hið stefnda félag hafi verið stofnað árið 1988. Árið 1999 kvaðst Sigfús hafa leigt félagið og síðan selt það, líklega í apríl árið 2000.
Stefnandi segir að til tryggingar greiðslu ofangreindrar skuldar hafi stefndi, Sigfús, gefið út tryggingabréf hinn 30. september 1996 að fjárhæð kr. 6.000.000 til að tryggja skilvísa og skaðlausa greiðslu á hvers konar skuldum er stefndu báðir kynnu að skulda stefnanda eða ábyrgjast á hverjum tíma. Í þessu skyni hafi stefndi, Sigfús, sett að veði fasteign sína, þá sem lýst er í dómkröfum stefnanda, tryggða með 1. veðrétti fyrir kr. 6.000.000 auk dráttarvaxta og alls kostnaðar. Maki stefnda, Sigfúsar, Valgerður Þorvarðardóttir, samþykkti veðsetningu fasteignarinnar. Samkvæmt þinglýsingarvottorði er stefndi, Sigfús, einn eigandi fasteignarinnar. Tryggingabréfið hefur verið lagt fram í málinu.
III
Stefnandi byggir á því að á milli stefnanda og stefnda, Sláturfélagsins Ferskra afurða ehf., hafi stofnast samningur, í formi hlaupareiknings, um það að stefnandi láni stefnda fé með því að millifæra af reikningnum eða ávísa á hann. Stefndi hafi síðan lagt inn fé til þess að greiða útborganir af reikningnum og geti stefndi þannig verið í skuld á reikningnum á einum tíma en átt innstæðu á öðrum. Þetta fyrirkomulag, yfirdráttur á hlaupareikningi, sé alkunna og verði æ algengara. Stefndu hafi báðir fengið send reikningsyfirlit mánaðarlega og því verið kunn staðan á reikningnum á hverjum tíma. Reikningsyfirlitið sé næg sönnun fyrir umkrafðri skuld. Um sé að ræða samfelld viðskipti og um kröfur af þessu tagi gildi 10 ára fyrningarfrestur, sbr. 4. gr. laga nr. 14/1905. Krafan sé ekki fyrnd og veðrétturinn fyrnist ekki.
Stefndi, Sigfús, hafi veðsett eign sína með tryggingabréfi sem tryggi skuldir stefnda, Sláturfélagsins Ferskra afurða ehf., við stefnanda. Stefndi hafi þannig lánað veð en ekki gengist í ábyrgð fyrir greiðslu skuldarinnar. Ekki skipti máli þótt rekstur Sláturfélagsins Ferskra afurða ehf. hafi verið leigður. Félagið sé áfram skuldari og stefndi, Sigfús, veðþoli engu að síður.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að engin gögn hafi verið lögð fram sem styðji yfirlit það sem stefnandi byggi kröfur sínar á og séu kröfur hans þannig ekki nægilega rökstuddar. Yfirlitið sjálft sé ekki gilt kröfuskjal. Stefnandi hefði þurft að sýna fram á hvernig hver einasta ávísun væri til komin til þess að stefndu gætu gripið til varna. Stefndi, Sigfús, kannist ekki við neinar greiðslur á yfirlitinu, nema þær sem gerðar hafi verið í janúar 1999. Hann hafi aldrei nein reikningsyfirlit fengið, en hann hafi leigt félagið árið 1999 og selt það á árinu 2000. Óumdeilt sé að umkrafin skuld sé vegna tékkareiknings og fyrnist því kröfurnar samkvæmt 52. gr. tékkalaga nr. 94/1933, eða á 6 mánuðum. Verði ekki fallist á þann fyrningarfrest eigi að byggja á því að krafan fyrnist á 4 árum samkvæmt 3. gr. laga nr. 14/1905, en í því tilviki verði að líta svo á að um venjulegan viðskiptareikning sé að ræða. Engar færslur séu á reikningnum eftir 12. desember 2000 og hafi skuldin því verið fyrnd þegar stefna var birt í málinu 11. apríl 2006. Ekkert komi fram um það að skuldin hafi verið gjaldfelld. Greiðsla inn á reikninginn 14. mars 2001 skipti þannig ekki máli, enda hafi hún þá ekki haft annað í för með sér en að nýr fyrningafrestur hafi byrjað að líða. Ekki hafi verið gerður neinn lánssamningur á milli aðila heldur aðeins verið sótt um að opna reikning. Engin krafa sé því á bak við tryggingabréfið og það því ekki virkt. Stefndi, Sigfús, hafi tekið að sér ábyrgð á greiðslu skuldarinnar og sé sú ábyrgð fyrnd samkvæmt 4. mgr. 3. gr. fyrningarlaga.
IV
Stefndi, Sigfús Jónsson, kom fyrir dóm og lýsti því að hann hefði leigt Sláturfélagið Ferskar afurðir árið 1999 og selt það á árinu 2000. Ekkert kemur fram í gögnum málsins, og því var ekki haldið fram í munnlegum flutningi þess, hvorki um form né efni, að Sigfúsi Jónssyni væri ekki réttilega stefnt fyrir hönd sláturfélagsins. Var sérstaklega tekið fram í úrskurði um frávísunarkröfu stefndu að ekki væri annað upplýst en stefndi, Sigfús, væri enn forsvarsmaður sláturfélagsins. Verður óhjákvæmilega á því að byggja að stefnu á hendur félaginu hafi réttilega verið beint að stefnda, Sigfúsi.
Stefndi, Sigfús, gerði á sínum tíma samning við stefnanda f.h. stefnda, Sláturfélagsins Ferskra afurða ehf., um stofnun tékkareiknings. Í umsókninni skrifar stefndi, Sigfús, undir yfirlýsingar í nokkrum greinum, þ.á m. að hann skuldbindi sig til þess að afhenda stefnanda öll ónotuð tékkaeyðublöð, þegar reikningnum sé lokað, eða krefjist stefnandi þess af öðrum ástæðum. Af gögnum málsins kemur ekki fram að stefndu hafi sérstaklega krafist lokunar tékkareikningsins og raunar er ekki ljóst hvort stefnandi hefur gert það með formlegum hætti, öðrum þá en þeim að birta stefndu stefnu hinn 11. apríl 2006 og krefjast þess að greidd yrði skuld á reikningnum að fjárhæð kr. 19.170.111. Af reikningsyfirlitinu sést að frá ársbyrjun 1999, þ.e. frá þeim tíma sem yfirlitið nær til, hefur ýmist verið innstæða eða skuld á reikningnum og verður að draga af því þá ályktun að samningur aðila hafi náð til þess að sláturfélagið hefði yfirdráttarheimild, en því var lýst yfir af lögmanni stefnanda í munnlegum málflutningi að svo hefði verið.
Það er reyndar svo að stefnandi hefur breytt kröfu sinni til lækkunar og krefst nú þeirrar fjárhæðar sem var í skuld á reikningnum 29. desember árið 2000. Reikningsyfirlit, sem stefnandi byggir kröfu sína á, verður að telja nægjanlegan grundvöll kröfugerðarinnar, en sú var og niðurstaða dómsins þegar frávísunarkröfu stefndu var hafnað í úrskurði 23. október sl.
Stefndu halda fram þeirri málsástæðu að krafa stefnanda sé fyrnd, en um fyrningu hennar fari samkvæmt 52. gr. laga nr. 94/1933. Þeirri málsástæðu verður að hafna þar sem stefnandi krefst ekki greiðslu á einstökum tékkum heldur er um reikningsskuld að ræða samkvæmt samningi stefnanda og Sláturfélagsins ferskra afurða ehf.
Stefndu byggja og á því að um kröfu stefnanda gildi 4 ára fyrningarfrestur samkvæmt 3. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905. Fyrningarfrestur hefði byrjað að líða 12. desember 2000, en þá væri síðast ávísað á reikninginn. Fresturinn hafi því verið liðinn þegar stefna í málinu var birt 11. apríl 2006. Stefnandi byggir hins vegar á því að um skuldina gildi 10 ára fyrningarfrestur samkvæmt 4. gr. fyrningarlaga, en ekki komu fram skýr andmæli gegn því að upphaf fyrningarfrests væri 12. desember 2000, en bent á að lagt hefði verið inn á reikninginn 14. mars 2001.
Viðskipti aðila voru í raun þannig að stefndi, Sláturfélagið Ferskar afurðir ehf., lagði fé inn á reikning sinn hjá stefnanda og stefnandi lánaði félaginu fé með skuldfærslu á reikninginn, gerðist þess þörf, og var lán þetta mishátt frá einum tíma til annars. Sú skuld sem stefnandi krefst að stefndi greiði verður því að skoða sem peningalán. Um fyrningu krafna af því tagi fer eftir ákvæðum 4. gr. laga nr. 14/1905, þ.e. fyrningarfresturinn er 10 ár. Líta verður svo á að fyrningarfrestur á kröfu stefnanda hafi verið rofinn með birtingu stefnu í þessu máli 1. apríl 2006. Stefnandi hefur lagt fram gögn um það að innstæða á ávísanareikningnum hafi verið kr. 2.166.914 í árslok 1998. Sú skuld sem stefnandi krefur stefnda nú um stofnaðist eftir þann tíma. Skiptir ekki máli hver skuldin var á hverjum tíma því að ekki voru liðin 10 ár frá því að ávísanareikningurinn var með framangreindri innstæðu þar til fyrningarfresturinn var rofinn með birtingu stefnu í málinu. Krafa stefnanda er því ófyrnd og ber að dæma stefnda, Sláturfélagið Ferskar afurðir ehf., til að greiða hana.
Stefndi, Sigfús, gaf út tryggingabréf hinn 30. september 1996 að fjárhæð kr. 6.000.000 til að tryggja skilvísa og skaðlausa greiðslu á hvers konar skuldum er stefndu báðir kynnu að skulda stefnanda eða ábyrgjast á hverjum tíma. Í þessu skyni veðsetti stefndi, Sigfús, með 1. veðrétti fasteign sína, Lindarbrekku, Laugarbakka, Ytri-Torfustaðahreppi, nú Smáragrund 6, Laugarbakka, Húnaþingi vestra, sem þinglýstur eigandi fasteignarinnar. Veðsetningin var til þess að tryggja greiðslu hvers konar skulda Sláturfélagsins Ferskra afurða allt að fjárhæð kr. 6.000.000 auk dráttarvaxta, verðbóta og alls kostnaðar. Stefnandi hefur krafist staðfestingar á veðrétti fyrir kr. 6.000.000 auk dráttarvaxta.
Ekki er hægt að fallast á þá málsástæðu stefndu að hér sé um að ræða ábyrgðaryfirlýsingu stefnda, Sigfúsar, sem fallin sé niður fyrir fyrningu. Um er að ræða veðsetningu sem er í fullu gildi. Ber því að dæma stefnda, Sigfús, til þess að þola viðurkenningu á veðskuldinni.
Málskostnaður sem stefndi, Sláturfélagið Ferskar afurðir ehf., greiði stefnanda telst hæfilega ákveðinn kr. 375.000.
Að öðru leyti skal hver aðili bera sinn kostnað af málinu.
Friðgeir Björnsson héraðsdómari kvað upp þennan dóm.
Dómsorð.
Stefndi, Sláturfélagið Ferskar afurðir ehf., greiði stefnanda, Sparisjóði Húnaþings og Stranda, kr. 9.368.240 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 28. febrúar 2005 til greiðsludags og kr. 375.000 í málskostnað.
Staðfestur er veðréttur stefnanda í fasteign stefnda, Sigfúsar Jónssonar, Smáragrund 6, Laugarbakka, Húnaþingi vestra, fyrir kr. 6.000.000 af framangreindri fjárhæð auk dráttarvaxta.