Hæstiréttur íslands

Mál nr. 787/2017

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Halldór Rósmundur Guðjónsson saksóknarfulltrúi)
gegn
X (Halldóra Aðalsteinsdóttir hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. desember 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. desember 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 18. desember 2017 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.                

                                              

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness miðvikudaginn 13. desember 2017

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 18. desember 2017, kl. 16:00 og að honum verði gert að sæta einangrun á meðan á því stendur.

Varnaraðili mótmælir kröfunni og krefst þess að kröfu lögreglustjóra verði hafnað.

Í greinargerð með kröfunni kemur fram að Lögreglustjóranum á Suðurnesjum hafi borist kæra frá Íslandsbanka í gær um að varnaraðili hefði misfarið með fundið fé. Varnaraðili hafði sem framkvæmdastjóri [...] kt. [...], óskað eftir framlengingu á yfirdrætti á bankareikningi nr. [...], sem félagið sé með hjá [...], að fjárhæð 2,6 milljónum kóna. Fyrir mistök hafi [...] sett inn heimild á reikninginn að fjárhæð 26 milljónir króna. Hafi varnaraðili hagnýtt sér þetta og millifært í tveimur færslum 22 milljónir þann 8. desember sl. yfir á  persónulegan reikning sinn sem sé í [...]. Sama dag hafi varnaraðili farið í [...] og tekið út 22 milljónir króna í reiðufé.

Varnaraðili hafi verið handtekinn 12. desember síðastliðinn og tekin af honum skýrsla sama dag, þar sem varnaraðili játi verknaðinn. Þar komi fram að hann hafi millifært fjárhæðina og tekið hana út. Einnig komi fram að hann hafi síðan lagt inn umtalsverðar fjárhæðir á að minnsta kosti tvo aðila

Húsleit hafi verið gerð á heimili varnaraðila þar sem hafi verið haldlagðar ein milljón og 50 þúsund krónur. Næstu skref í málinu séu þó nokkrar aðgerðir í þágu rannsóknar málsins.

Samkvæmt framansögðu og með vísan til gagna málsins telji lögreglustjóri miklar líkur á því að varnaraðili hafi gerst sekur um að misnota aðstöðu sína og hagnýtt sér þessa fjármuni. Sé því fram kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi með ætlaðri refsiverðri háttsemi sinni gerst sekur um brot gegn 246. og 247. gr.  almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Telji lögreglustjóri nauðsynlegt að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til rannsóknar hjá lögreglu.

Rannsókn málsins sé á frumstigi. Lögregla vinni nú að því í fyrsta lagi að rannsaka þá aðila sem kærði millifærði fjármunina til og að finna þá til að yfirheyra vegna málsins.  Einnig til að varpa ljósi á það hvort þeir aðilar sem varnaraðili millifærði fjármunina til séu samskekir varnaraðila í máli þessu eða hafi verið að hylma yfir með honum. Í því skyni hyggist lögregla meðal annars afla upplýsinga frá fjarskiptafyrirtækjum og fjármálastofnunum, auk annarra atriða sem lögregla telji að séu mikilvæg vegna rannsóknar málsins. Í öðru lagi telji lögregla sig þurfa svigrúm til að rannsaka nánar, áður en varnaraðili verði látinn laus úr haldi lögreglu, hvort að hægt sé að endurheimta fjármunina. Lögreglustjóri telji einsýnt að ætla að varnaraðili kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus. Að sama skapi telji lögregla hættu á að varnaraðili verði beittur þrýstingi af hugsanlegum samverkamönnum og að reynt verði að hafa áhrif á hann.

Með vísan til alls framangreinds a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og 246. og 247. gr.a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 18. desember 2017.

Þess er einnig krafist að varnaraðila verði gert að sæta einangrun á meðan gæsluvarðhaldi stendur, sbr. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, með vísan til framangreindra rannsóknarhagsmuna. 

Samkvæmt framangreindu og rannsóknargögnum málsins er fallist á það með lögreglustjóra að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Rannsókn málsins er skammt á veg komin og því ljóst að varnaraðili getur, haldi hann óskertu frelsi sínu, torveldað rannsókn málsins með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni. Er þannig fullnægt skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Að virtum rannsóknarhagsmunum ber að fallast á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Samkvæmt þessu verður fallist á kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

                Úrskurð þennan kveður upp Jón Höskuldsson héraðsdómari. 

Úrskurðarorð:

Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 18. desember 2017, kl. 16:00.

Varnaraðili sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.