Hæstiréttur íslands

Mál nr. 597/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Útivist
  • Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi


Föstudaginn 6

 

Föstudaginn 6. nóvember 2009.

 

Nr. 597/2009.

Jakob Adolf  Traustason

(sjálfur)

gegn

Gísla Guðfinnssyni

(Erla S. Árnadóttir hrl.)

 

Kærumál. Útivist. Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.

 

J kærði úrskurð héraðsdóms um að veita G frest til að skila greinargerð í máli sem hann höfðaði gegn honum. Talið var að héraðsdómara hafi borið að taka málið til dóms í þeim búningi sem það hafi verið þegar þingsókn hafi fallið niður af hálfu G, sbr. 2. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. október 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2009, þar sem varnaraðila var veittur frestur til 20. október 2009 kl. 10 til að skila greinargerð í máli, sem sóknaraðili höfðaði gegn honum. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Hann krefst þess einnig að málið „verði dómtekið í héraði í samræmi við 2. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála“. Jafnframt krefst hann þess „að Hæstiréttur ógildi úrskurð ... frá 9. júlí 2009“ og „að rétturinn dæmi kærða til að endurgreiða til kæranda málskostnað vegna kærumáls nr. 433/2009, kr. 100.000, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 15. september 2009 til greiðsludags.“ Til vara krefst sóknaraðili þess „að málið verði í héraði endurupptekið frá og með þinghaldi 6. júlí sl.“ en að því frágengnu „frá þingfestingu.“ Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar, en til vara að málskostnaður verði látinn falla niður.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Sóknaraðili höfðaði mál þetta 25. júní 2009. Krafðist hann þess aðallega að viðurkenndur yrði eignarréttur sinn að fasteigninni „Hróarsholt 2, spilda, Flóahreppi“ fasteignanúmer 186-037, en til vara að tveimur þriðju hlutum hennar og að því frágengnu einum þriðja hluta. Hann hafði uppi margvíslegar aðrar kröfur, meðal annars kröfu um að stefnu í málinu yrði þinglýst á fasteignina. Málið var þingfest 30. júní 2009 og var þá sótt þing af hálfu varnaraðila, sem mótmælti kröfunni um þinglýsingu. Dómari ákvað að málið yrði tekið fyrir 6. júlí 2009 „til þess að gefa stefnanda og lögmanni stefnda kost á að tjá sig um þessa kröfu stefnanda.“ Þann dag sótti sóknaraðili þing og er bókað að dómari gæti leiðbeiningarskyldu sinnar, en sóknaraðili er ólöglærður. Af hálfu varnaraðila var ekki sótt þing. Bókað var í þingbók að krafa sóknaraðila um þinglýsingu yrði tekin til úrskurðar og úrskurður kveðinn upp 9. júlí 2009. Síðan er bókað: „Stefnandi leitar eftir afstöðu dómsins til þess hvort taka megi málið til dóms. Dómari féllst ekki á það en bókað var í þingbók í síðasta þinghaldi að málið væri tekið fyrir í dag til að gefa málsaðilum kost á að tjá sig um kröfu stefnanda um þinglýsingu stefnu. Útivist stefnda yrði að túlka þannig að ekki væri haldið uppi frekari vörnum um þá kröfu. Stefnandi krefst þess engu að síður að málið verði dómtekið en gerir ekki kröfu um að dómari taki frekari afstöðu til þess í þinghaldinu.“

 Málið var aftur tekið fyrir 9. sama mánaðar og þá kveðinn upp úrskurður þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um þinglýsingu stefnu. Sóknaraðili sótti sjálfur þing og er þrívegis bókað í þinghaldinu að dómari gæti leiðbeiningarskyldu sinnar. Af hálfu varnaraðila var ekki sótt þing, en ekki verður ráðið af gögnum málsins að hann hafi verið boðaður til þinghaldsins. Málinu var frestað með vísan til 1. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 til næsta reglulegs dómþings 1. september 2009. Síðan er bókað: „Stefnandi ítrekar kröfu um að málið verði dómtekið vegna útivistar stefnda. Dómari hafnar því með vísan til framangreindrar lagagreinar. Stefnandi óskar eftir að dómari kveði upp úrskurð um kröfu hans um að málið verði dómtekið. Dómari telur að nægjanlegt sé að taka ákvörðun um kröfu stefnanda og vísar til þess sem áður er fram komið. Stefnandi ítrekar að útivist hafi orðið af hálfu stefnda í málinu.“

Úrskurður héraðsdóms 9. júlí 2009 var kærður til Hæstaréttar, sem staðfesti að hafna bæri kröfu sóknaraðila um að þinglýsa stefnu í málinu á umrædda fasteign með dómi 31. ágúst 2009 í máli nr. 433/2009. Í dómi Hæstaréttar er tekið fram að líta verði svo á að í kröfu sóknaraðila um dómtöku málsins hafi falist mótmæli við því að varnaraðila yrði veittur frestur til að skila greinargerð í málinu. Hafi héraðsdómara borið að kveða upp úrskurð um hvort fresta ætti málinu. Það hafi hann ekki gert heldur hafnað því með ákvörðun að taka skyldi málið til dóms. Væri réttmæti þeirrar ákvörðunar ekki til úrlausnar í dóminum.

Þegar málið var næst tekið fyrir í héraðsdómi 1. september 2009 sótti sóknaraðili þing. Þá var þing sótt af hálfu varnaraðila. Sóknaraðili mótmælti að varnaraðila yrði leyfð þingsókn sökum útivistar og krafðist þess að afstaða yrði tekin án tafar til þessarar kröfu. Lögmaður varnaraðila mótmælti þessu. Héraðsdómari ákvað að fresta málinu til 18. sama mánaðar en þá gæfist aðilum kostur á að tjá sig um þessa kröfu. Í þinghaldi þann dag ítrekuðu aðilar fyrri afstöðu sína. Héraðsdómari ákvað síðan með vísan til fyrrnefnds dóm Hæstaréttar að taka til úrskurðar kröfu sóknaraðila um að málið yrði dómtekið vegna útivistar varnaraðila. Með hinum kærða úrskurði var kröfu sóknaraðila hafnað og varnaraðila veittur frestur til að skila greinargerð í málinu.

II

Samkvæmt 2. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. sömu greinar, skal mál tekið til dóms í þeim búningi sem það er ef stefndi sækir ekki þing við fyrirtöku máls eftir þingfestingu þess og hann hefur ekki lagt fram greinargerð. Verður ákvæðið ekki skilið svo að það taki ekki til þinghalds sem boðað er í því skyni að gefa aðilum kost á að tjá sig um afmarkaða þætti í kröfugerð stefnanda, svo sem kröfu um þinglýsingu stefnu. Bar héraðsdómara því að taka málið til dóms í þeim búningi sem það var þegar þingsókn féll niður af hálfu varnaraðila 6. júlí 2009. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

 Krafa sóknaraðila um að málið verði dómtekið er málsástæða fyrir kröfu hans um að hinn kærði úrskurður verði úr gildi felldur og verður henni því vísað frá Hæstarétti. Engar heimildir eru í lögum til að beina öðrum kröfum sóknaraðila til Hæstaréttar og er þeim einnig vísað frá Hæstarétti.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er úr gildi felldur.

Öðrum kröfum sóknaraðila, Jakobs Adolfs Traustasonar, en þeirri er lýtur að ógildingu hins kærða úrskurðar er vísað frá Hæstarétti.

Varnaraðili, Gísli Guðfinnsson, greiði sóknaraðila samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2009.

Mál þetta sem höfðað var  25. júní s.l., var tekið til úrskurðar 18. september s.l. um kröfu stefnanda um að málið yrði dómtekið á grundvelli 2. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefnandi er Jakob Adolf Traustason en stefndi er Gísli Guðfinnsson.

Í stefnu er þess m.a. krafist að dómurinn úrskurði svo fljótt sem verða megi að stefnu málsins eða útdrætti úr henni megi þinglýsa á fasteignina Hróarsholt 2 spildu, Flóa-hreppi, landsnúmer 186-037, með vísan til 1. mgr. 28. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Af hálfu stefnda var þessari kröfu mótmælt og var kveðinn upp úrskurður um ágreininginn 9. júlí s.l., þar sem kröfunni var hafnað.

Við þingfestinguna var málinu frestað til 6. júlí sl. til að gefa málsaðilum kost á að gera grein fyrir kröfum sínum í þeim þætti málsins er varðaði kröfu um þinglýsingu stefnu. Af hálfu stefnda var þá ekki sótt þing og var málið tekið til úrskurðar varðandi kröfu stefnanda um að stefnu mætti þinglýsa á fasteignina. Stefnandi óskaði jafnframt eftir því að málið yrði dómtekið. Dómurinn hafnaði því með vísan til þess að sú fyrirtaka í málinu hefði aðeins verið til að fjalla um þann þátt málsins er snýr að kröfu um þinglýsingu stefnu. Samkvæmt 1. mgr. 99. gr. laga um meðferð einkamála á stefnandi rétt á hæfilegum fresti til að taka afstöðu til krafna stefnanda ef hann hefur sótt þing við þingfestingu málsins. Á dómþingi 9. júlí, eftir að kveðinn hafði verið upp úrskurður varðandi kröfu um þinglýsingu stefnu, er eftirfarandi bókað:

„Málinu er frestað samkvæmt 1. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 til næsta reglulega dómþings Héraðsdóms Reykjavíkur sem haldið verður 1. september 2009 kl. 9:30 í dómsal 102. Dómari gætti leiðbeiningarskyldu og brýndi fyrir stefnanda hverju það varði falli þingsókn niður.

Stefnandi ítrekar kröfu um að málið verði dómtekið vegna útivistar stefnda. Dómari hafnar því með vísan til framangreindrar lagagreinar. Stefnandi óskar eftir að dómari kveði upp úrskurð um kröfu hans um að málið verði dómtekið. Dómari telur að nægjanlegt sé að taka ákvörðun um kröfu stefnanda og vísar til þess sem áður er fram komið. Stefnandi ítrekar að útivist hafi orðið af hálfu stefnda í málinu.“

Stefnandi kærði ekki ákvörðun þessa til Hæstaréttar. Hann kærði hins vegar ofangreindan úrskurð um synjun kröfu um þinglýsingu stefnu í málinu. Hæstiréttur kvað þann 31. ágúst 2009 upp dóm í því máli og staðfesti niðurstöðu héraðsdóms, en tók ekki afstöðu til kröfu stefnanda um dómtöku málsins. Í dóminum segir m.a.:

„Líta verður svo á að í kröfu sóknaraðila um dómtöku málsins hafi falist mótmæli við því að varnaraðila yrði veittur frestur til að skila greinargerð í málinu. Bar héraðsdómara að kveða upp úrskurð um hvort fresta ætti málinu sbr. h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991. Hann gerði það ekki heldur hafnaði því með ákvörðun að málið skyldi dómtaka. Er réttmæti þeirrar ákvörðunar ekki til úrlausnar hér sbr. 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991.“

Á reglulegu dómþingi 1. september s.l. mótmælti stefnandi því að stefnda væri leyfð þingsókn sökum útivistar hans á fyrri stigum málsins og krafðist þess að tekin yrði afstaða til krafna hans. Af hálfu stefnda var framkomnum kröfum mótmælt, en málinu frestað til fyrirtöku til þess að gefa aðilum kost á að tjá sig um þessa kröfu stefnanda.

Stefnandi byggir kröfu sína um dómtöku málsins á því að ekki hafi verið mætt af hálfu stefnda þegar fjallað var um kröfu hans um þinglýsingu stefnu og heldur ekki þegar úrskurður var kveðinn upp um þá kröfu. Stefnandi hefur vísað til 2. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 til stuðnings kröfum sínum.

Stefndi mótmælir því að málið verði dómtekið og krefst þess að málið fari í áfram­haldandi meðferð og honum verði veittur frestur til að skila greinargerð í málinu. Stefndi vísar til stuðnings kröfum sínum til bókunar í þingbók málsins í þinghaldi 9. júlí s.l.

Það liggur fyrir að ekki var mætt af hálfu stefnda þegar fjalla átti um kröfu stefnanda um þinglýsingu stefnu þann 6. júlí, en sú fyrirtaka hafði verið ákveðin við þingfestingu málsins sem mætt var til af hálfu stefnda. Af bókun í þingbók þann dag er helst að skilja að stefnandi hafi krafist bæði dómtöku málsins og einnig að tekin yrði til úrskurðar krafa hans um þinglýsingu stefnu. Ekki verður séð af gögnum málsins að stefndi hafi verið boðaður til þinghalds 9. júlí þegar kveða skyldi upp úrskurð um kröfu stefnanda um þinglýsingu og eru því ekki efni til að líta á fjarveru hans í því þinghaldi, sem útivist í skilningi 1. sbr. 2. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991. Verður það því niðurstaða þessa hluta málsins, að eins og hér háttar til verði að synja um dómtöku málsins á þessu stigi þess og veita stefnda frest til að skila greinargerð í málinu á reglulegu dómþingi þriðjudaginn 20. október n.k. kl. 10 í dómsal 102.

Anna M. Karlsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Stefnda er veittur frestur til að skila greinargerð í málinu til 20. október 2009 kl. 10.