Hæstiréttur íslands
Mál nr. 533/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Aðildarhæfi
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 7. september 2015. |
|
Nr. 533/2015.
|
Karl Steingrímsson (Hróbjartur Jónatansson hrl.) gegn þrotabúi Eignarhaldsfélagsins Vindasúlna ehf. (Ástráður Haraldsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Aðildarhæfi. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli K gegn þb. E ehf. var vísað frá dómi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að skiptum á þb. E ehf. hefði lokið í nóvember 2014 og nyti það því ekki lengur hæfis til að eiga aðild að dómsmáli, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var úrskurður héraðsdóms þegar af þeirri ástæðu staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. ágúst 2015 en kærumálsgögn bárust réttinum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júlí 2015, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði var bú Eignarhaldsfélagsins Vindasúlna ehf. tekið til gjaldþrotaskipta 25. janúar 2011, en þeim var lokið 28. nóvember 2014. Með hinum kærða úrskurði var vísað frá dómi kröfu sóknaraðila um afhendingu tiltekinna gagna sem munu vera í vörslum hæstaréttarlögmanns sem var skiptastjóri í þrotabúinu.
Með því að skiptum hefur samkvæmt framansögðu verið lokið á þrotabúi Eignarhaldsfélagsins Vindasúlna ehf. nýtur það ekki lengur hæfis til að eiga aðild að dómsmáli, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þegar af þeirri ástæðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júlí 2015.
I
Mál þetta var tekið til úrskurðar 30. júní sl. Sóknaraðili er Karl Steingrímsson, Laugarásvegi 35, Reykjavík. Varnaraðili er þrotabú Eignarhaldsfélagsins Vindasúlna ehf., Ránargötu 18, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert skylt að afhenda sóknaraðila eftirfarandi gögn:
- Tölvupóstsamskipti og bréfaskipti skiptastjóra og fulltrúa hans við Íslandsbanka hf. um endurútreikninga lánssamninga nr. 103861 og 103862.
- Fundargerðir af öllum skiptafundum sem haldnir voru sem fundargerðir af fundum skiptastjóra og fulltrúa hans við starfsmenn Íslandsbanka hf. þar sem fjallað er um endurútreikninga lánssamninga nr. 103861 og 103862.
- Samning þrotabús Eignarhaldsfélagsins Vindasúlna ehf. og Íslandsbanka hf. um endurútreikninga lánssamninga nr. 103861 og 103862.
- Greiðslukvittun Íslandsbanka hf. vegna endurgreiðslu ofgreidds fjár sökum ólögmætrar gengistryggingar lánssamninga nr. 103861 og 103862.
- Bókhald og reikninga búsins.
- Yfirlit og reikninga yfir allar greiðslur þrotabúsins til skiptastjóra og lögmannsstofunnar Mandat og sundurliðaða tímaskráningu lögmannanna.
- Úthlutunargerð þrotabúsins.
- Gögn er varðar jörðina Kollafjarðarnes, landnúmer 142122, fasteignanúmer 212-9016 til og með 9034.
Þá krefst hann þess að varnaraðila og Ástráði Haraldssyni, skiptastjóra varnaraðila, verði óskipt (in solidum) gert skylt að greiða sóknaraðila málskostnað.
Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði vísað frá dómi. Til vara að varnaraðili verði sýknaður af kröfum sóknaraðila. Þá er gerð krafa um að varnaraðila verði tildæmdur málskostnaður úr hendi sóknaraðila en að málskostnaðarkröfu á hendur Ástráði Haraldssyni verði vísað frá dómi.
Í þessum þætti málsins er til úrlausnar frávísunarkrafa varnaraðila en sóknaraðili krefst þess að henni verið hafnað.
II
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 25. janúar 2011 var bú Eignarhaldsfélagsins Vindasúlna ehf. tekið til gjaldþrotaskipta og var Ástráður Haraldsson hrl. skipaður skiptastjóri búsins. Skiptum á búinu lauk 28. nóvember 2014. Auglýsing um skiptalokin birtist í Lögbirtingablaðinu 8. desember 2014 og hefur félagið verið afmáð af fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.
Beiðni sóknaraðila um aðgang að tilteknum gögnum búsins barst dóminum 25. nóvember 2014. Málið var þingfest 4. febrúar 2015. Í þinghaldi 24. mars sama ár lagði sóknaraðili fram greinargerð. Í greinargerðinni kemur fram að sóknaraðili hafi verið eigandi hins gjaldþrota félags. Lán frá Íslandbanka hf. hvíli á fasteigninni Austurvegi 1-5, Selfossi, eignarhluta 01-0201, fnr. 21. Lánin hafi verið bundin ólögmætri gengistryggingu. Einkahlutafélagið Kjarnafasteignir, sem sé í eigu sóknaraðila, hafi keypt fasteignina af varnaraðila 31. mars 2009 og hafi verið samið um að félagið yfirtæki lánin. Íslandbanki hf. hafi hafnað að leiðrétta höfuðstól lánanna hvað félagið varðar. Til þess að sóknaraðili geti gert eigin útreikninga og kannað réttarstöðu sína, m.a. f.h. félagsins, sé honum nauðsynlegt að fá afhent umrædd gögn þrotabúsins. Sóknaraðili óskar jafnframt eftir gögnum búsins er varða jörðina Kollafjarðarnes í Strandabyggð á Ströndum. Þau þurfi hann að nota í tengslum við uppgjör á riftunarmáli sem varnaraðili hafi höfðað á hendur einkahlutafélaginu Kolli 2009, sem sé jafnframt í eigu sóknaraðila. Sóknaraðili vísar til þess að skiptastjóri hafi synjað ítrekuðum beiðnum hans um aðgang að umbeðnum gögnum. Hafi sóknaraðili því séð sig knúinn til að leggja inn beiðni til héraðsdóms um að sér yrði veittur aðgangur að gögnunum.
III
Af hálfu varnaraðila er til stuðnings frávísunarkröfu vísað til þess að hann sé ekki lengur til. Tilvist þrotabús Eignarhaldsfélagsins Vindasúlna ehf. sé lokið að lögum og verði mál á hendur þeim aðila því ekki rekin framar. Skiptum á félaginu sé lokið og hafi það verið afskráð. Þar sem þrotabúið sé ekki til lengur skorti á frumskilyrði aðildarhæfis að dómsmálum, tilvist málsaðilans. Varnaraðili vísar enn fremur til þess að málsóknin sé í andstöðu við 116. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá séu ekki lagaskilyrði til þess að reka málið á grundvelli XXIV. kafla sömu laga.
Sóknaraðili hafnar því að varnaraðila skorti aðildarhæfi í máli þessu. Ekki sé um venjulegt einkahlutafélag að ræða heldur þrotabú sem sé sérstakt félag. Ákvæði 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 heimili þeim sem hafi lögvarinna hagsmuna að gæta að fá aðgang að skjölum þrotabús meðan skiptastjóri hafi þau í vörslum sínum. Telur sóknaraðili að ákvæðið beri að túlka með þeim hætti að réttur sá er tilgreindur er í ákvæðinu falli ekki niður þrátt fyrir skiptalok, enda hafi skiptastjóri umbeðin gögn enn í vörslum sínum. Hafi skiptastjóra verið óheimilt að ljúka skiptum á búinu, þar sem honum hafi borið að vísa ágreiningnum um aðgang að gögnum til héraðsdóms á grundvelli 171. gr. laga nr. 21/1991. Réttur manna til aðgangs að dómstólum sé tryggður af 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og verði því að skýra allar takmarkanir á þeim rétti þröngt. Hafi málinu því réttilega verið vísað til héraðsdóms af hálfu sóknaraðila og sé það því rekið á grundvelli XXIV. kafla laga nr. 21/1991.
IV
Niðurstaða
Mál þetta varðar kröfu sóknaraðila um afhendingu á gögnum þrotabús Eignarhaldsfélagsins Vindasúlna ehf. Eins og fram hefur komið var búið tekið til gjaldþrotaskipta 25. janúar 2011 og var Ástráður Haraldsson hrl. skipaður skiptastjóri þess. Skiptum á búinu lauk 28. nóvember 2014.
Í kröfu sóknaraðila, sem barst dóminum 25. nóvember 2014, er þess krafist að varnaraðili afhendi honum tiltekin gögn og er um lagagrundvöll fyrir kröfunni vísað til 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Samkvæmt ákvæðinu getur sá, sem sýnir skiptastjóra fram á að hann hafi lögvarinna hagsmuna að gæta, krafist þess að fá aðgang að skjölum þrotabúsins til skoðunar og eftirrit af þeim á eigin kostnað meðan skiptastjóri hefur þau í vörslum sínum.
Við þingfestingu málsins, 4. febrúar 2015, mótmælti skiptastjóri því að málinu yrði fram haldið. Vísaði hann m.a. til þess að hann teldi að lagaheimild 174. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. stæði ekki til þess að mál eins og það sem hér er til umfjöllunar væri tekið til meðferðar á grundvelli XXIV. kafla sömu laga. Lögmaður sóknaraðila mótmælti sjónarmiðum varnaraðila og óskaði eftir því að fá að skila greinargerð sem hann gerði í þinghaldi 24. mars 2015. Í sama þinghaldi kom fram að umbeðin gögn væru enn í vörslu skiptastjóra. Gerði sóknaraðili þá kröfu um að skiptastjóri yrði talinn persónulega aðili máls við hlið þrotabúsins. Skiptastjóri mótmælti því og taldi aðstoðarmaður dómara ekki lagagrundvöll fyrir því að aðild málsins yrði breytt. Skoraði sóknaraðili á skiptastjóra að afhenda gögn þrotabúsins Þjóðskjalasafni Íslands og myndi sóknaraðili þá fella málið niður. Skipastjóri upplýsti að hann hygðist afhenda gögnin safninu í samræmi við lögbundna skyldu sína en ekki lægi fyrir hvenær það yrði gert. Í greinargerð sinni vísar sóknaraðili til þess að málið sé rekið á grundvelli XXIV. kafla laga nr. 21/1991. Virðist það enn fremur vera skilningur varnaraðila. Rétt er að geta þess að af málaskrá dómsins má ráða að málið hafi upphaflega átt að reka á grundvelli XII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Í 1. mgr. 171. gr. laga nr. 21/1991 er kveðið á um að ef ágreiningur rís um atriði við gjaldþrotaskipti sem mælt er fyrir um í lögunum að skiptastjóri skuli beina til héraðsdóms til úrlausnar, svo og ef skiptastjóri telur þörf úrlausnar héraðsdóms um önnur ágreiningsatriði sem koma upp við gjaldþrotaskipti, skuli hann beina skriflegri kröfu um það til þess héraðsdóms. Í 2. mgr. 171. gr. laganna er mælt fyrir um að héraðsdómur skuli fara með ágreiningsmál skv. 1. mgr. 171. gr. eftir ákvæðum XXIV. kafla þeirra. Í athugsemdum í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 21/1991 kemur fram að í 171. gr. sé á því byggt að skiptastjóri eigi alltaf frumkvæðið að því að ágreiningsefni komi til kasta dómstóla, en með því sé útilokað að t.d. lánardrottnar geti gripið til slíkra aðgerða upp á sitt eindæmi. Samkvæmt framangreindu er því ljóst að sóknaraðili getur ekki átt frumkvæði að því að leita úrlausnar dóms um ágreining um aðgang að gögnum á grundvelli nefnds ákvæðis. Þegar af þeirri ástæðu verður málið ekki rekið eftir XXIV. kafla laga nr. 21/1991.
Fyrir liggur að skiptum á búi varnaraðila lauk 28. nóvember 2014 og var félagið þá afskráð af fyrirtækjaskrá. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög getur óskráð einkahlutafélag ekki verið aðili að dómsmáli. Eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar frá 17. janúar 2012 í máli nr. 690/2011 er ekki á færi dómstóla að veita óskráðu einkahlutafélagi hæfi til að eiga aðild að dómsmáli gegn skýlausu skilyrði 1. mgr. 10. gr. laga nr. 138/1994. Er því ekki unnt að fallast á það með sóknaraðila að sérreglur gildi um aðildarhæfi einkahlutafélaga sem slitið hefur verið á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
Með vísan til framangreinds ber að vísa máli þessu frá dómi.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málarekstrinum.
Sóknaraðili gerir jafnframt kröfu um að Ástráði Haraldssyni hrl., skiptastjóra varnaraðila, verði gert að greiða sóknaraðila málskostnað og vísar um það til XXI. kafla laga nr. 91/1991. Skiptastjórinn á ekki aðild að máli þessu og brestur því heimild til að taka málskostnaðarkröfu á hendur honum til meðferðar. Ber því að vísa henni frá dómi.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Jón Þór Ólafsson hdl. vegna Hróbjartar Jónatanssonar hrl. en af hálfu varnaraðila Ástráður Haraldsson hrl.
Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan en hún tók við rekstri málsins 5. maí 2015.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.
Málskostnaðarkröfu sóknaraðila, Karls Steingrímssonar, á hendur Ástráði Haraldssyni, er vísað frá dómi.