Hæstiréttur íslands
Mál nr. 94/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Opinber skipti
- Fjárslit milli hjóna
|
|
Þriðjudaginn 23. mars 1999. |
|
Nr. 94/1999: |
Ágústa S. Björnsdóttir (Guðni Á. Haraldsson hrl.) gegn Magnúsi Inga Hannessyni (Helgi Birgisson hrl.) |
Kærumál. Opinber skipti. Fjárslit milli hjóna.
Á og M slitu hjúskap og fóru fram opinber skipti til fjárslita milli þeirra. Við upphaf opinberra skipta átti M 64 nautgripi en við nauðungarsölu sem fram fór tæplega tveimur árum síðar voru einungis 28 gripir eftir í eigu hans. Taldi Á að andvirði þeirra gripa, sem M hafði ráðstafað með sölu, ætti að koma til skipta. Talið var, með hliðsjón af málatilbúnaði aðila, að leggja ætti til grundvallar að þeir hefðu í reynd sammælst um að miða fjárslit sín við það tímamark þegar fyrsti skiptafundur var haldinn. Heimild M til varslna nautgripanna þótti ekki hafa haggað því að þeir voru andlag fjárskipta hans og Á. Að virtum ráðstöfunum M, sem gerðar voru án samþykkis skiptastjóra og öðrum atvikum málsins, þótti M ekki hafa sýnt fram á að bústofninn hefði rýrnað vegna atvika sem undanþegin væru ábyrgð hans. Var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að undir skiptin ætti að koma andvirði nautgripanna. Þar sem M hafði ekki hreyft við mótmælum við útreikningi Á á verðmæti gripanna var hann lagður til grundvallar en ekki þóttu efni til að verða við kröfu M um lækkun frá þessum útreikningi vegna kostnaðar sem hann hafði haft af eldi og sölu þeirra. Var því viðurkennt að helmingur andvirðis gripanna skyldi við opinberu skiptin teljast 715.575 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. febrúar 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. mars sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 10. febrúar 1999, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að við opinber skipti til fjárslita vegna hjónaskilnaðar aðilanna skyldi andvirði nánar tiltekins búpenings koma til skipta og að varnaraðili skyldi greiða henni 715.575 krónur sem helming andvirðis búpeningsins. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um annað en málskostnað, sem varnaraðili verði dæmdur til að greiða henni ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti 1. mars 1999. Hann krefst þess aðallega að kröfum sóknaraðila fyrir héraðsdómi verði hafnað, en til vara að krafa hennar um endurgjald verði lækkuð. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
I.
Eins og nánar greinir í úrskurði héraðsdómara krafðist varnaraðili skilnaðar við sóknaraðila fyrir sýslumanninum í Borgarnesi 7. desember 1995. Opinber skipti fara fram til fjárslita milli málsaðilanna samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Vesturlands 6. júní 1996. Á skiptafundi 3. júlí 1996 leitaði skiptastjóri upplýsinga um þær eignir, sem koma skyldu til skipta við fjárslit aðilanna. Samkvæmt fundargerð skiptastjórans voru meðal slíkra eigna varnaraðila 25 mjólkurkýr, 6 kvígur fengnar, 7 kvígur ófengnar, 5 kálfar (kvígur), 9 naut eldri en ársgömul og 12 naut yngri en ársgömul. Við nauðungarsölu, sem fór fram 11. maí 1998 að beiðni skiptastjóra, voru seldar 28 kýr, en hermt er að aðrir nautgripir hafi þá ekki verið í eigu varnaraðila. Af gögnum málsins verður ráðið að varnaraðili hafi á tímabilinu 3. júlí 1996 til 11. maí 1998 selt 31 nautgrip til slátrunar hjá Sláturfélagi Suðurlands svf. og Ferskum afurðum ehf. Þá kemur fram í greinargerð varnaraðila í héraði að tveir gripir hafi verið seldir lifandi, en þrír hafi drepist.
II.
Samkvæmt 1. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1991 koma til skipta við fjárslit milli hjóna eignir og réttindi, sem ekki verða taldar séreignir annars þeirra og tilheyrðu þeim þegar yfirvald tók fyrst fyrir umsókn um leyfi til skilnaðar, ef ekki verða sammæli um annað. Í greinargerð varnaraðila fyrir Hæstarétti komu fyrst fram í málinu upplýsingar um fjölda nautgripa í eigu hans þegar krafa um skilnað var tekin fyrir af sýslumanni. Eins og aðilarnir höfðu hagað málatilbúnaði sínum fram að því verður að leggja til grundvallar að þeir hafi í reynd sammælst um að miða fjárslit sín við síðara tímamark, eða 3. júlí 1996, þegar skiptafundur var fyrst haldinn og upplýsinga leitað um eignir. Ágreiningslaust er að varnaraðili átti á því tímamarki þá 64 nautgripi, sem nánar eru tilgreindir í fundargerð skiptastjóra.
Vörslur varnaraðila á umræddum nautgripum eftir að opinber skipti til fjárslita hófust áttu stoð í 1. mgr. 107. gr. laga nr. 20/1991. Var varnaraðila samkvæmt þessu heimil nýting gripanna að því leyti, sem afnotin rýrðu ekki verðgildi þeirra óeðlilega og skiptastjóri svipti hann ekki vörslum þeirra. Þessi heimild varnaraðila haggaði því ekki að nautgripirnir ásamt arði, sem kynni að myndast af þeim, var andlag fjárskipta hans og sóknaraðila, sem beið viðeigandi ákvörðunar skiptafundar. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að aðilarnir hafi ætlast til að litið yrði svo á að þau stæðu sameiginlega að búrekstri eftir upphaf opinberra skipta. Verður því að leggja til grundvallar að búreksturinn hafi með öllu verið á vegum varnaraðila, enda hefur sóknaraðili ekki krafist hlutdeildar í arði af rekstrinum. Af þessu leiðir að fallist verður á með sóknaraðila að nautgripirnir, sem voru til við upphaf opinberra skipta eða verðmæti sem kom í þeirra stað, hafi átt að koma til skipta milli aðilanna samkvæmt meginreglu 1. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1991.
III.
Af málatilbúnaði varnaraðila verður ráðið að eftir upphaf opinberra skipta hafi hann ráðstafað 33 af þeim nautgripum, sem þá voru til, ýmist lífs eða til slátrunar. Voru þessar ráðstafanir augljóslega umfram það, sem gat talist eðlilegt við búreksturinn. Hvorki hefur verið sýnt fram á að skiptastjóri hafi gefið samþykki sitt til þessara ráðstafana né að hann hafi tekið við andvirði þeirra gripa, sem var ráðstafað. Þá eru staðhæfingar varnaraðila um að andvirði gripanna hafi runnið til þess að auka einhverjar aðrar þær eignir, sem eiga undir skiptin, engum gögnum studdar eða nánar skýrðar. Varnaraðili bar ábyrgð eftir almennum reglum á vörslum nautgripanna eftir að opinberu skiptin hófust. Hann hefur ekki sýnt fram á að bústofninn hafi rýrnað vegna atvika, sem gætu verið undanþegin þeirri ábyrgð hans. Samkvæmt þessu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um að andvirði þeirra gripa, sem þar eru nánar tilgreindir, eigi að koma nú undir skiptin.
IV.
Krafa sóknaraðila um greiðslu úr hendi varnaraðila verður ekki reist á ákvæði 107. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, enda gerðust atvikin, sem hún telur kröfuna leiða af, eftir að yfirvald tók fyrir umsókn um skilnað þeirra. Verður því að líta svo á að sóknaraðili krefjist viðurkenningar á rétti sínum til að fá úthlutað við opinberu skiptin á kostnað varnaraðila hlutfalli sínu samkvæmt 103. gr. hjúskaparlaga af andvirði þeirra nautgripa, sem hann ráðstafaði eftir upphaf skiptanna. Hvorugur aðilanna hefur krafist mats samkvæmt fyrirmælum 3. mgr. 105. gr. laga nr. 20/1991 til að staðreyna hvert hafi hinn 3. júlí 1996 verið verðmæti nautgripanna, sem varnaraðili ráðstafaði eftir þann dag. Hefur sóknaraðili þess í stað reiknað andvirði gripanna eftir gögnum um söluverð þeirra. Varnaraðili hefur ekki hreyft mótmælum við þessum útreikningi, en telur hins vegar að til frádráttar eigi að koma ýmiss kostnaður vegna eldis og ráðstöfunar nautgripanna. Ekki verður fallist á þetta með varnaraðila, enda bar hann samkvæmt áðursögðu alla áhættu af búrekstrinum eftir upphaf opinberra skipta. Varnaraðili hefur ekki leitt að því líkur að andvirði nautgripanna við upphaf skipta hafi í reynd verið minna en sóknaraðili miðar útreikning sinn við. Eru því ekki efni til að verða við varakröfu varnaraðila.
Sóknaraðili krefst ekki endurskoðunar á þeirri niðurstöðu héraðsdómara að til frádráttar útreikningi hennar eigi að koma andvirði þriggja nautgripa, sem drápust eftir upphaf opinberra skipta. Verður því staðfest niðurstaða héraðsdómara um að andvirði þeirra nautgripa, sem nánar greinir í dómsorði, eigi að koma til skipta á milli aðilanna, svo og að helmingur þess andvirðis skuli teljast 715.575 krónur.
Eftir þessum úrslitum verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem er ákveðinn í einu lagi eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Við opinber skipti til fjárslita vegna hjónaskilnaðar sóknaraðila, Ágústu S. Björnsdóttur, og varnaraðila, Magnúsar Inga Hannessonar, kemur til skipta andvirði 4 kvígna kelfdra, 7 kvígna ókelfdra, 5 kálfa (kvígna), 9 nauta eldri en ársgamalla og 12 nauta yngri en ársgamalla. Við skiptin skal helmingur þessa andvirðis talinn nema 715.575 krónum.
Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 10. febrúar 1999
Mál þetta barst dómnum til meðferðar með bréfi Péturs Kristjánssonar, héraðsdómslögmanns og skiptastjóra í félagsbúi aðilja máls þessa, dagsettu 13. nóvember 1998. Með bréfinu vísaði skiptastjórinn því ágreiningsefni til úrlausnar dómsins, hvort nautgripir eða andvirði þeirra, er voru í félagsbúi málsaðilja við upphaf skipta, en ekki við nauðungaruppboð á lausafé búsins, skyldu koma til skipta. Með bréfi dagsettu 19. nóvember 1998 kynnti dómarinn málsaðiljum þá ákvörðun sína, að Ágústa S. Björnsdóttir skyldi vera sóknaraðili málsins, en Magnús Ingi Hannesson varnaraðili þess, sbr. 3. mgr. 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.
Málið var þingfest 25. nóvember 1998. Það var tekið til úrskurðar 14. janúar 1999 að aðalmeðferð lokinni.
I.
Endanlegar dómkröfur sóknaraðilja eru þessar:
1. Að úrskurðað verði að andvirði eftirtalins búpenings eigi að koma til skipta við opinber skipti á félagsbúi aðilja: 4 kvígur fengnar, 7 kvígur ófengnar, 5 kálfar (kvígur), 9 naut eldri en ársgömul, 12 naut yngri en ársgömul.
2. Að úrskurðað verði að við opinber skipti á félagsbúi aðila verði varnaraðilja gert að endurgjalda sóknaraðila kr. 802.189.
3. Að sóknaraðilja verði úrskurðaður málskostnaður úr hendi varnaraðila að mati réttarins.
Varnaraðili krefst þess
1. Aðallega að héraðsdómur hafni kröfum sóknaraðilja en til vara krefst hann þess að endurgjaldskrafa sóknaraðilja verði verulega lækkuð.
2. Að sóknaraðili verði úrskurðaður til þess að greiða varnaraðilja málskostnað.
II.
Málsaðiljar gengu í hjónaband 29. ágúst 1976. Þau ráku saman bú í Eystri-Leirárgörðum Leirársveit. Í desember 1993 skildu þau að borði og sæng og gerðu þá með sér samning um skilnaðarkjör, þannig að varnaraðili greiddi sóknaraðila kr. 3.800.000 með húsbréfum, er sóknaraðili nýtti sér til að kaupa á íbúð að Bárugötu 19 á Akranesi. Til lögskilnaðar kom þó ekki, þar sem aðiljarnir tóku upp sambúð að nýju. Féllu því réttaráhrif skilnaðar að borði og sæng niður. Málsaðiljar slitu á ný samvistir í október 1995. Fór sóknaraðili þá brott frá Eystri-Leirárgörðum, en varnaraðili hélt þar áfram heimili ásamt börnum hans og sóknaraðilja. Hafði hann upp frá því vörslur þess hluta félagsbús aðilja sem hér er um deilt. Hinn 7. desember 1995 krafðist varnaraðili skilnaðar hjá sýslumanninum í Borgarnesi. Við meðferð skilnaðarmálsins náðist ekki samkomulag um fjárskipti, og með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands 6. júní 1996 var félagsbú aðilja tekið til opinberra skipta. Samdægurs var Pétur Kristinsson, héraðsdómslögmaður, skipaður skiptastjóri í búinu.
Við upphaf skipta voru helstu eignir félagsbúsins þessar: Hjúskapareignir sóknaraðilja töldust húseign á Akranesi og bifreið, en hjúskapareignir varnaraðilja voru taldar 1/3 hluti lögbýlisins Eystri-Leirárgarða ásamt því sem jörðinni fylgdi auk bifreiðar. Síðar kom í ljós að eignir sóknaraðilja nægðu ekki til fullnustu skulda hennar og voru fasteign hennar og bifreið seld nauðungarsölu og er eignastaða hennar við fjárskiptin neikvæð. Af þeim sökum eru það einungis hjúskapareignir varnaraðilja sem til skipta koma við fjárskipti vegna hjúskaparslitanna.
Þann 3. júlí 1996 hélt skiptastjóri skiptafund að Eystri-Leirárgörðum, þar sem eignir félagsbús málsaðilja voru skrifaðar upp. Meðal eigna búsins voru þá tilgreindar 25 mjólkurkýr, 6 kvígur fengnar, 7 kvígur ófengnar, 5 kálfar, 9 naut eldri en ársgömul en 12 naut yngri en ársgömul.
Með bréfi, dagsettu 23. apríl 1997, fór skiptastjóri fram á það við sýslumanninn í Borgarnesi, að fram færi uppboð til slita á fjárfélagi málsaðila á 1/3 Eystri-Leirárgarða ásamt spildu úr landi Eystri-Leirárgarða auk tilheyrandi lausafjár, þ.á m. ofangreindra nautgripa.
Með bréfi til sýslumannsins í Borgarnesi, dagsettu 6. júní 1997, reyndi varnaraðili að koma að leiðréttingum á nauðungarsölubeiðni skiptastjóra vegna villna sem hann taldi að þar væru. Í bréfinu kemur fram að mjólkurkýr búsins hafi þá verið 24, en ekki 25 eins og við uppskrift, enda hafi 2 þeirra drepist en 8 verið slátrað. Ennfremur upplýsti varnaraðili sýslumann um að kvígur í eigu búsins væru 9, en ekki 13 eins og við uppskrift, þar sem 9 þeirra hefðu borið og 5 geldneyti orðið kvígur. Þá tjáði varnaraðili sýslumanni að geldneyti og naut væru 16, en ekki 21 eins og við uppskrift. Þrjú þeirra hefðu farið í sláturhús, tvö verið seld til lífs og 5 kálfar væru orðnir geldneyti. Loks upplýsti varnaraðili sýslumann um að búið ætti þá um stundir engan kálf, þar sem þeir hefðu ýmist verið seldir til lífs eða þeim fargað í sláturhús nýfæddum.
Á skiptafundi 25. ágúst 1997 kom upp ágreiningur milli aðilja um það hversu mikill mjólkurkvóti og fullvirðisréttur í sauðfé fylgi jörðinni Eystri-Leirárgörðum og til skipta ætti að koma, auk þess sem ágreiningur reis um það hverjar skyldu teljast skuldir varnaraðilja. Ákvað skiptastjóri að óska úrlausnar Héraðsdóms Vesturlands á þessum ágreiningsefnum auk þess sem ákveðið var að fresta uppboðsmeðferð eigna félagsbúsins uns sú úrlausn væri fengin.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands um ofangreind ágreiningsefni gekk 19. mars 1998, og var uppboðsmeðferð þá áfram haldið. Með bréfi skiptastjóra til sýslumannsins í Borgarnesi, dagsettu 30. apríl 1998, leiðrétti skiptastjóri fyrri uppboðsbeiðni sína sökum þess að breyting hefði orðið á því lausafé sem beiðnin tæki til, enda nokkur tími liðinn síðan hún var sett fram. Í því bréfi taldi skiptastjórinn upp 28 kýr einar nautgripa auk annars lausafjár sem andlag uppboðsins og byggði hann þá tilgreiningu sína á upplýsingum frá varnaraðilja. Þann 11. maí 1998 framkvæmdi sýslumaður hina umbeðnu nauðungarsölu og voru þar, ásamt öðru lausafé, seldar fyrrgreindar 28 mjólkurkýr fyrir samtals kr. 1.721.000.
Í greinargerð varnaraðilja kemur fram að á þeim tíma, er leið frá uppskrift eigna búsins og þangað til lausafé þess var boðið upp, hafi 31 grip verið slátrað í sláturhúsi, tveir hafi verið seldir lífs, en þrír gripir hafi drepist. Þar segir og að fljótlega eftir uppskrift hafi nokkrum mjólkurkúm verið slátrað vegna júgurbólgu. Engar upplýsingar liggja hins vegar fyrir í málinu um burð kálfa. Varnaraðili segir að skiptastjóra hafi verið tilkynnt um förgun nautgripa, en hann ekki hreyft neinum andmælum við henni.
Á skiptafundi sem haldinn var 5. nóvember 1998 lýstu málsaðiljar því yfir að þeir hefðu komist að samkomulagi um skiptingu innbús, en það væri þó enn í vörslum varnaraðilja. Þá lýstu aðiljar því yfir, að ekki væri uppi ágreiningur um annað við búskiptin en það hvort koma skyldu til skipta þeir kálfar, eða andvirði þeirra, sem í búi voru við upphaf skipta samkvæmt uppskrift þeirri er fram fór 3. júlí 1996, en voru ekki til staðar er lausafé búsins var selt nauðungarsölu. Var þá bókað að sóknaraðili héldi því fram fram að eignir þessar tilheyrðu búinu og ættu því að koma til skipta, en varnaraðili héldi því fram að framangreindir nautgripir væru arður af rekstri búsins sem ekki ætti að koma til skipta.
Ekki tókst að jafna ágreining aðilja að þessu leyti og með bréfi dagsettu 13. nóvember fór skiptastjóri þess á leit við héraðsdóm með vísan til 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., að dómurinn úrskurðaði um álitamál þetta.
III.
Kröfur sínar styður sóknaraðili þeim rökum að 3. júlí 1996 hafi farið fram uppskrift á eignum félagsbúsins og hafi ofangreindir nautgripir þá verið taldir til eigna búsins. Telur sóknaraðili af þeim sökum og með vísan til 104. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., að nautgripirnir tilheyri félagsbúinu. Stefnandi telur, og vísar til 108. gr. skiptalaga., að skiptastjóri sé einn bær til þess að ráðstafa þeim eignum sem koma eiga til skipta, skv. 104. gr. sömu laga, á meðan skiptum stendur, sem og að taka við greiðslu fyrir þær eignir úr hendi þriðja manns.
Bendir stefnandi á að við ofangreinda uppskrift hafi nautgripir verið 64 að tölu, þar af 25 mjólkurkýr, en einungis 28 gripir hafi verið boðnir upp, allt mjólkurkýr. Nautgripum hafi því fækkað um 36 á þeim tíma er varnaraðili rak búið.Telur varnaraðili að slíkt geti ekki talist arður, heldur rýrnun sem varnaraðili beri einn ábyrgð á.
Sóknaraðili kveðst styðja endurgjaldskröfu sína við 107. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Telur hann að varnaraðili hafi með framferði sínu og án heimildar, rýrt eignir félagsbúsins meðan hann hafði vörslur þess. Telur sóknaraðili að þessi háttsemi varnaraðilja hafi leitt til verulegrar skerðingar á fjárhluta þeim er koma ætti í hlut sóknaraðilja.
Kröfufjárhæð sóknaraðilja á hendur varnaraðilja er þannig fundin: Samkvæmt upplýsingum sem fyrir liggja frá „innlagnaraðilum“ sé heildarsöluverð nautgripa sem seldir hafi verið úr búinu, kr. 1.790.045. Frá þessari tölu beri að draga verð þriggja mjólkurkúa (28-25). Á uppboði að Eystri Leirárgörðum, sem fram fór 11. maí 1998 hafi 28 mjólkurkýr selst fyrir kr. 1.671.000 eða kr. 61.889 að meðaltali hver kú. Frá kr. 1.790.045 dragist því kr. 185.667 (þ.e. 3x61.889) = kr. 1.604.378, en helmingur af þeirri fjárhæð er fjárkrafa sóknaraðilja.
Varnaraðili hafnar alfarið endurgjaldskröfu sóknaraðilja. Varnaraðili telur að sér hafi verið fullkomlega heimilt við rekstur búsins að Eystri-Leirárgörðum að ráðstafa nautgripum í sláturhús og það hafi í engu rýrt hjúskapareign sóknaraðilja. Því til stuðnings vísar varnaraðili til þess að fjárhlutur sóknaraðilja hafi þvert á móti aukist þann tíma sem uppboðsmeðferð frestaðist vegna úrlausnar ágreiningsefna.
Varnaraðili fullyrðir að það fylgi óhjákvæmilega landbúnaðarrekstri að breytingar eða endurnýjun verði á bústofni. Vísar hann til þess að við uppskrift á félagsbúi aðilja hafi mjólkurkýr verið 25 og unggripir 39. Við uppboð það sem síðar fór fram hafi mjólkurkúm fjölgað um 3 verið 28, en öðrum gripum hafi fækkað. Á þeim tíma er þarna leið á milli hafi þrír gripir drepist, tveir verið seldir til lífs en 31 grip verið slátrað.
Þá vísar varnaraðili til þess að skiptastjóra hafi verið tilkynnt um ýmsar þær ráðstafanir er gripið var til við rekstur búsins, og hafi hvorki hann né sóknaraðili hreyft neinum mótmælum við þeim, fyrr en sóknaraðili hafi léð máls á slíku á skiptafundi 5. nóvember 1998.
Varnaraðili telur ennfremur að krafa sóknaraðilja sé í eðli sínu bótakrafa, en skv. hjúskaparlögum verði slík krafa því aðeins höfð uppi að hann hafi rýrt hjúskapareign sína þannig að sóknaraðili beri verulega skarðan hlut frá borði. Er varnaraðili þeirrar skoðunar að ekki sé unnt að ganga úr skugga um það hvort þessu skilyrði sé fullnægt, nema með því að leggja heildstætt mat á ráðstafanir hans við rekstur búsins og heildarverðmæti þess við uppskrift annars vegar og uppboð hins vegar. Telur varnaraðili að í ljós komi, þegar slík mælistika er lögð á ráðstafanir hans á umræddu tímabili, að hann hafi alls ekki rýrt hjúskapareign sína, heldur þvert á móti aukið hana og því sé enginn grundvöllur fyrir endurgjaldskröfu þeirri er sóknaraðili gerir í málinu og byggir á 107. gr. hjúskaparlaga.
Þessu til stuðnings vísar varnaraðili til þess að löggiltur fasteignasali var fenginn til þess 5. nóvember 1996 að verðmeta hjúskapareign varnaraðila, þ.e. 1/3 hluta Eystri-Leirárgarða, þ.m.t. íbúðarhús, bílskúr, viðbyggingar og ýmsan búnað við fjós auk framleiðsluréttar jarðarinnar. Hafi niðurstaða fasteignasalans orðið sú, að matsverð jarðarinnar væri kr. 17.000.000, miðað við að heildarverð væri greitt á 10-12 mánuðum frá samþykki kauptilboðs og hluti lánað með skuldabréfi til 5-10 ára. Þegar þessar eignir hafi verið seldar nauðungarsölu 11. maí 1998 hafi hins vegar fengist fyrir þær kr. 20.015.622.
Varnaraðili bendir ennfremur á að 8. mars 1997 hafi skiptastjóri sett fram tillögu að frumvarpi til slita á fjárfélagi aðilja málsins. Þar var lagt til að í hlut sóknaraðilja kæmu kr. 3.781.720 og var þá miðað við að skír hjúskapareign sóknaraðilja væri kr. 386.145. Skv. frumvarpi skiptastjóra, dagsettu 23. nóvember 1998 [svo] komi í hlut sóknaraðilja kr. 3.652.875 þrátt fyrir að eignastaða hennar sé þá orðin neikvæð um kr. 473.855.
Þá styður varnaraðili kröfur sínar við það, að skiptastjóri og sóknaraðili samþykktu að varnaraðili annaðist rekstur búsins við skiptin. Telur varnaraðili að þeim hafi verið ljóst að hann varð bæði að reikna sér laun af tekjum búsins og taka ýmsar ákvarðanir sem lutu að rekstri og hagsmunum búsins. Árið 1997 kveðst varnaraðili hafa reiknað sér í endurgjald kr. 702.768, eða að meðaltali kr. 58.564 í laun á mánuði. Á sama tíma hafi hreinar tekjur af búrekstri numið kr. 292.422 Hins vegar hafi verið taprekstur síðustu tvö árin á undan og hafi uppsafnað tap þeirra ára numið kr. 1.569.015. Telur varnaraðili að allar ráðstafanir sínar á þessu tímabili, þ.á m. slátrun 31 nautgrips á tímabilinu frá 3. júlí 1996 til 11. maí 1998, hafi verið fullkomlega eðlilegar og nauðsynlegar til þess að skapa búinu tekjur, er aftur héldu rekstri þess gangandi. Hafi þessar ráðstafanir enda ekki sætt neinum athugasemdum af hálfu skiptastjóra.
Varakröfu sína styður varnaraðili þeim rökum að sóknaraðili taki í kröfugerð sinni ekki mið af því að mjólkurkúm fjölgaði á tímabilinu frá uppskrift að uppboði og þess að þrír gripir drápust á þessum tíma. Þá telur varnaraðili að sóknaraðili ofmeti verðmæti bústofns stórlega. Felist ofmatið í því að miðað sé við innleggsverð auk uppeldiskostnaðar, en varnaraðili telur nær að draga uppeldiskostnað frá. Réttast telur varnaraðili þó að miða við skattverð þeirra nautgripa er um ræðir. Þannig myndi verðmæti þeirra nema kr. 686.070, eftir að tekið hefði verið tillit til ofangreindra leiðréttingar vegna fjölgunar mjólkurkúa og þess að þrír gripir drápust á tímabilinu. Telur varnaraðili að endurgjaldskrafa sóknaraðila geti aldrei numið hærri fjárhæð en helmingi ofangreindrar samtölu.
Skiptastjóri, Pétur Kristinsson hdl., gaf skýrslu fyrir dómi. Hann sagði aðspurður að varnaraðili hefði ekki fargað nautgripunum úr búinu með sínu samþykki. Varnaraðili hefði látið hann vita að nautgripum hefði fækkað, en hann hefði ekki gert sér grein fyrir að fækkunin hefði orðið svo mikil sem upplýst væri. Skiptastjóri var spurður hvort andvirði gripanna hefði verið haldið aðskildu frá rekstri búsins. Hann kvaðst ekki vita það. Þetta hefði ekki komið til sín, og búið hefði verið í vörslu varnaraðilja eins og lögin gerðu ráð fyrir. Skiptastjóri hefði ekkert haft að þessum peningum að segja.
IV.
Í 1.mgr. 104. gr laga um skipti á dánarbúum o.fl. er mælt svo fyrir, að þær eignir einar skuli koma til skipta við fjárslit milli hjóna, er fyrir hendi voru í félagsbúi þeirra er yfirvald tók fyrst umsókn um leyfi til skilnaðar. Auk þess skulu arður, vextir og annars konar tekjur sem fást frá ofangreindu tímamarki af þeim eignum og réttindum er þar um ræðir, koma til skipta.
Varnaraðili máls þessa sótti um skilnað frá sóknaraðilja hjá sýslumanninum í Borgarnesi 7. desember 1995. Ber því að miða eignir og skuldir félagsbúsins er til skipta koma við það tímamark. Í máli þessu er eingöngu deilt um það hvort og þá með hverjum hætti nautgripaeign búsins eða andvirði hennar skuli koma til skipta. Ekkert er hins vegar upplýst í málinu um hvernig þeirri eign félagsbúsins var háttað á þeim tíma er sóknaraðili sótti um skilnað hjá sýslumanni. Verður því við úrlausn málsins að leggja til grundvallar fyrstu fyrirliggjandi upplýsingar um eignir búsins, þ.e. talningu skiptastjóra á nautpeningi félagsbúsins við uppskrift eigna þess 3. júlí 1996. Samkvæmt þessu eiga að koma til skipta þeir nautgripir, eða andvirði þeirra, er félagsbúið átti á þeim tíma. Sú niðurstaða er þó ekki einhlít. Í 1. mgr 107. gr. skiptalaganna segir að aðiljar eigi rétt á því að hafa í vörslum sínum þær eignir félagsbúsins er til skipta komi og þeir höfðu í vörslum sínum er opinber skipti hófust, allt til þess er skiptastjóri ákveður að hafa þar annan hátt á. Einnig er aðiljum heimilað að hafa afnot af þeim eignum er til skipta eiga að koma og þeir hafa í vörslum sínum, svo fremi sem afnotin rýra ekki verðgildi eignanna óeðlilega. Verður þannig að telja að í lagagreininni felist heimild aðilja til slíkrar meðferðar á hjúskapareign hans, er til skipta á að koma, sem ekki veldur óeðlilegri rýrnun.
Varnaraðili hafði vörslur þeirra gripa sem mál þetta snýst um, skv. 107 gr. skiptalaga. Þær hafði hann með samþykki skiptastjóra og sóknaraðilja. Dómari fellst á það með varnaraðilja, að það fylgi óhjákvæmilega landbúnaðarrekstri að breytingar verði á bústofni. Heimild hans skv. nefndri lagagrein gat þó ekki náð til svo mikillar förgunar nautgripa, sem raun varð á á tímabilinu frá uppskrift til uppboðs, enda er upplýst að hún varð ekki með samþykki skiptastjóra, sbr. 108. gr. sömu laga. Á þessum tíma fækkaði nautgripum um 36, en mjólkurkúm fjölgaði að vísu um þrjár. Verður að telja þessa meðferð varnaraðilja á þessari hjúskapareign sinni óhæfilega, og telur dómari að ákvæði 107. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 eigi hér við.
Samkvæmt því sem nú var ritað telur dómari að fallast beri á endurgjaldskröfu sóknaraðilja, þó þannig að taka verði tillit til þeirrar rýrnunar á nautpeningseigninni sem telja má eðlilega og varnaraðili hefur gert grein fyrir.
Dómari telur ekki efni til að fallast á það með varnaraðilja að verðmat fasteignasala á jörð og búi aðilja verði lagt til grundvallar niðurstöðu í máli þessu. Í málflutningi var því mati mótmælt af hálfu sóknaraðilja sem of lágu, og eru ekki rök til að fallast á matið sem rétt gegn þeim mótmælum. Ekki verður heldur á það fallist að skattmat geti orðið grundvöllur úrskurðar í málinu, og er því varakröfu varnaraðilja hafnað.
Dómari fellst á þá kröfu sóknaraðilja að við opinber skipti á félagsbúi aðilja komi til skipta andvirði þeirra ungneyta, sem talin eru upp í 1. tölulið kröfugerðar sóknaraðilja.
Fyrir liggur í málinu frumvarp skiptastjóra til úthlutunar vegna fjárslita aðilja, dagsett 23. nóvember 1998. Þar kemur fram að skiptastjóri heldur eftir kr. 850.000 af hlut varnaraðilja vegna þeirra krafna sem sóknaraðili hefur uppi í máli þessu.
Sóknaraðili byggir endurgjaldskröfu sína á framlögðum innleggsreikningum yfir innlegg varnaraðilja á 31 nautgrip hjá Sláturfélagi Suðurlands og Sláturhúsinu Ferskum afurðum ehf. Samkvæmt þeim reikningum hefur varnaraðili lagt inn hjá þessum fyrirtækjum fyrir kr. 1.790.045. Frá þeirri fjárhæð ber að draga, svo sem sóknaraðili gerir, verð þriggja kúa, samtals kr. 185.667. Standa þá eftir kr. 1.604.378. Varnaraðili upplýsir í greinargerð sinni að við uppskrift hafi mjólkurkýr verið 25, en unggripir 39. Fram að uppboði hafi kúm fjölgað um þrjár, þrír gripir hafi drepist, tveir verið seldir lífs, en 31 grip verið slátrað. Samkvæmt þessu hefur varnaraðili selt 33 gripi, en fyrir liggur söluverð 31 grips, og er ekki annað tækt en að reikna meðalverð þeirra þannig: kr. 1.790.045 : 31 = kr. 57.743. Frá fjárhæðinni kr. 1.604.378 ber að draga verðmæti þriggja nautgripa sem drápust: kr. 1.604.378 - 3x57.743 = kr. 1.431.149. Verður endurgjaldskrafa sóknaraðilja tekin til greina með helmingi þeirrar fjárhæðar, kr. 715.575.
Rétt er eftir úrslitum máls að varnaraðili greiði sóknaraðilja málskostnað, og skal hann vera 40.000 krónur.
Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Við opinber skipti á félagsbúi aðilja, Ágústu S. Björnsdóttur og Magnúsar Inga Hannessonar, skal andvirði eftirtalins búpenings koma til skipta: 4 kvígur fengnar, 7 kvígur ófengnar, 5 kálfar (kvígur), 9 naut eldri en ársgömul, 12 naut yngri en ársgömul. Við búskiptin greiði varnaraðili sóknaraðilja kr. 715.575 sem helming andvirðis framantalinna gripa.
Varnaraðili greiði sóknaraðilja 40.000 krónur í málskostnað.