Hæstiréttur íslands

Mál nr. 540/2008


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Akstur án ökuréttar
  • Reynslulausn


Fimmtudaginn 7

 

Miðvikudaginn 6. maí 2009.

Nr. 540/2008.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir, settur saksóknari)

gegn

Ragnari Davíð Bjarnasyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Ávana- og fíkniefni. Akstur án ökuréttar. Reynslulausn.

X var ákærður fyrir tvö fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot, með því að hafa ekið án þess að hafa endurnýjað ökuréttindi. Voru brotin talin varða við lög um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Þegar refsing X var ákveðin var tekin upp reynslulausn á eftirstöðvum refsingar, 450 dagar, sem hann hafði áður fengið og nú rofið skilorð reynslulausnarinnar. Að viðbættri þeirri refsingu var refsing hans talin hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði, sem í ljósi sakaferils ákærða þótti ekki fært að skilorðsbinda að neinu leyti. Þá voru gerð upptæk til ríkissjóðs 51,78 g af amfetamíni, 1,96 g af maríhúana og 13,71 g af kókaíni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 16. september 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst þess að refsing verði milduð og hún skilorðsbundin

Í lýsingu héraðsdóms á sakarferli ákærða eru nokkrar misfellur. Hann var 25. janúar 2000 dæmdur í tíu mánaða fangelsi, þar af átta mánuði skilorðsbundna í þrjú ár, fyrir brot gegn 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hinn 21. september 2000 var honum dæmdur hegningarauki við þann dóm, eins og greinir í héraðsdómi. Þá var hann 19. desember 2000 dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Þá var honum 22. desember 2005 veitt reynslulausn, sem var skilorðsbundin í tvö ár, á 450 daga eftirstöðvum refsingar samkvæmt dómi 6. mars 2003. Að öðru leyti er sakarferlinum réttilega lýst.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi rauf ákærði með brotum þeim, sem ákæra 25. mars 2008 tekur til, skilorð reynslulausnarinnar frá 22. desember 2005. Er fallist á með héraðsdómi að ákvarða ákærða refsingu í einu lagi fyrir þau brot sem hann er nú sakfelldur fyrir og þær eftirstöðvar refsivistar sem reynslulausnin tók til, sbr. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Telst fangelsisrefsing sú, sem dæmd er í héraðsdómi, hæfileg og verður hún ekki bundin skilorði.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað verða staðfest.

Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Ragnar Davíð Bjarnason, greiði áfrýjunarkostnað málsins 199.880 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júlí 2008.

 

                Mál þetta, sem dómtekið var 23. júlí sl. er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 25. mars 2008 á hendur ákærða, Ragnari Davíð Bjarnasyni, kt. 151182-5429, Meðalholti 4, Reykjavík fyrir eftirtalin brot framin á árinu 2007:

I.

Fíkniefnalagabrot:

1. Aðfaranótt miðvikudagsins 25. júlí, í bifreiðinni BR-125 á Linnetstíg til móts við Héraðsdóm Reykjaness í Hafnarfirði, haft í vörslum sínum 1,96 g af maríhúana, sem lögregla fann við leit.

M. 007-2007-56793

2. Þriðjudaginn 23. október, að [...] í Reykjavík, haft í vörslum sínum 51,78 g af amfetamíni.

M. 007-2007-81772

 

                Eru þessi brot talin varða við 2. gr., sbr. 5. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. og 6. gr. sömu laga, að því er varðar meðferð ákærða á maríhúana, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

II.

                Umferðarlagabrot, með því að hafa á sama tíma og greinir í ákærulið I.1, ekið bifreiðinni BR-125 án þess að hafa endurnýjað ökuréttindi, suður Reykjavíkurveg í Hafnarfirði þar til lögregla stöðvaði akstur bifreiðarinnar á Linnetstíg.

M. 007-2007-56793

                Er þetta brot talið varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

                                III.

                Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og jafnframt að 51,78 g af amfetamíni og 1,96 g af maríhúana, sem lögregla lagði hald á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

                Hinn 23. júlí sl. var sakamálið nr. 962/2008 sameinað þessu máli en þar er ákærða gefið að sök með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 8. júlí sl., fíkniefnalagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 12. júní 2008 í fangageymslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að Hverfisgötu 113 í Reykjavík, haft í vörslum sínum 13,71 g af kókaíni, sem lögregla fann við leit á ákærða.

                Er brot þetta talið varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

   Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og jafnframt að framangreind fíkniefni, sem lögregla lagði hald á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

                Af hálfu verjanda ákærða er krafist vægustu refsingar er lög leyfa.

                Farið var með mál þetta samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. 

                Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærum.

                Ákærði er fæddur í nóvember 1982. Þann 23. júní 1999 var ákærði dæmdur í 2 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár, fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Hinn 25. janúar sl. var ákærði dæmdur í 10 mánaða fangelsi, þar af 8 mánuði skilorðsbundna í 3 ár, fyrir brot gegn 252. gr. almennra hegningarlaga. Var skilorðsdómurinn frá 23. júní 1999 tekinn upp og ákærða gerð refsing í einu lagi fyrir bæði brotin. Hinn 21. september 2000 var ákærða gert að sæta fangelsi í 3 ár og 6 mánuði fyrir brot gegn brot gegn 1. mgr. 106. gr., 211. gr., sbr. 20. gr. og 217. gr. almennra hegningarlaga. Um hegningarauka við dóminn frá 25. janúar sl. var að ræða og var skilorðshluti þess dóms tekinn upp og ákærða gerð refsing í einu lagi fyrir bæði málin. Þann 19. nóvember 2000 var ákærði dæmdur í 6 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940. Ákærði gekkst undir viðurlagaákvörðun 3. desember 2002 fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Ákærði var 6. mars 2003 dæmdur í 2ja ára og 6 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 248. gr., sbr. 20. gr. og 155. gr. laga nr. 19/1940. Var þá tekin upp reynslulausn ákærða frá 26. desember 2001. Ákærða var veitt reynslulausn af dóminum frá 6. mars þann 22. desember 2005 í tvö ár á eftirstöðvum refsingar 450 dögum. Þá gekkst ákærði undir viðurlagaákvörðun 31. júlí 2006 fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Ákærði hefur með brotum sínum samkvæmt ákæru 25. mars 2008 rofið skilorð reynslulausnarinnar frá 22. desember 2005. Refsing sú sem ákærði hefur nú til unnið fer fram úr sektum. Verður því að taka reynslulausnina upp og dæma ákærða refsingu í einu lagi, sbr. 77. gr. laga nr. 19/1940. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði, sem í ljósi sakaferils ákærða þykir ekki fært að skilorðsbinda að neinu leyti.

                Með vísan til lagaákvæða í ákæru eru upptæk gerð til ríkissjóðs 51,78 g af amfetamíni, 1,96 g af maríhúana og 13,71 g af kókaíni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

                Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt yfirlitum um sakarkostnað og málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, að viðbættum virðisaukaskatti, með þeim hætti er í dómsorði greinir.

                Af hálfu ákæruvalds flutti málið Dröfn Kærnested fulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð :

                Ákærði, Ragnar Davíð Bjarnason, sæti fangelsi í 18 mánuði.

                Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 51,78 g af amfetamíni, 1,96 g af maríhúana og 13,71 g af kókaíni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

                Ákærði greiði 428.663 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarþóknun skipaðs verjanda ákærða, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 198.702 krónur.