Hæstiréttur íslands

Mál nr. 269/1998


Lykilorð

  • Opinberir starfsmenn
  • Kjarasamningur
  • Vinnusamningur


Prentsm

Fimmtudaginn 21. janúar 1999.

Nr. 269/1998:

Jóhann Líndal Jóhannsson

(Gestur Jónsson hrl.)

gegn

Hitaveitu Suðurnesja

(Magnús Guðlaugsson hrl.)

Opinberir starfsmenn. Kjarasamningur. Vinnusamningur.

J krafði H, fyrrverandi vinnuveitanda sinn, um vangoldin laun og orlofslaun, sem hann taldi vera mismun greiðslna sem honum báru samkvæmt kjarasamningi og þeirra greiðslna sem hann hafði fengið. Tekið var til þess að við undirritun samkomulags um starfslok bar J ekki fram umrædda kröfu sína og samkomulagið var orðað þannig að verið væri að semja um fullnaðargreiðslur vegna starfslokanna. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest um að þetta orðalag samkomulagsins bæri ekki að skýra þannig að það veitti J rétt til að gera nú kröfu vegna launa á þeim tíma, sem vinnusamband málsaðila stóð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. júní 1998. Eru aðal- og varakröfur hans fyrir Hæstarétti þær sömu og endanlegar kröfur hans í héraði að því viðbættu að hann krefst málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst stefndi lækkunar á kröfum áfrýjanda og að málskostnaður verði felldur niður.

I.

Áfrýjandi var rekstrarstjóri háspennudeildar stefnda frá 1. október 1985 til 1. nóvember 1996. Áður hafði hann gegnt starfi rafveitustjóra í Njarðvík um árabil. Í máli þessu krefur áfrýjandi stefnda um vangoldin laun og orlofslaun vegna svonefndrar kerfisgæslu á tímabilinu frá júlí 1993 til og með október 1996. Kveður hann stefnufjárhæð vera mismun greiðslna, sem honum bar að fá samkvæmt kjarasamningi og þeirra greiðslna, sem hann fékk í raun á tímabilinu.

Í ársbyrjun 1986 var komið á svonefndri kerfisgæslu í nýstofnaðri rafmagnsdeild stefnda. Kerfisgæslan var falin Sævari Sörenssyni rekstrarstjóra lágspennudeildar og áfrýjanda, sem var eins og fyrr segir rekstrarstjóri háspennudeildar. Gegndi áfrýjandi gæslunni til 1. nóvember 1996, er hann lét af störfum hjá stefnda, þá tæplega 66 ára að aldri.

II.

Áfrýjandi og Sævar Sörensson leituðu seint á árinu 1993 til forstöðumanns rafmagnsdeildar stefnda og óskuðu eftir hækkun á greiðslum til sín vegna bakvakta. Sýndu þeir honum bréf dagsett 9. desember 1993, þar sem þeir fóru fram á “leiðréttingu á bakvaktarlaunum”, sem reiknuð yrðu aftur í tímann. Bréfið undirrituðu þeir ekki, en nöfn þeirra voru vélrituð undir það. Forstöðumaðurinn skýrði svo frá fyrir dómi, að hann hafi minnst á þessa kröfu áfrýjanda og Sævars við yfirmenn stefnda, en ekkert hafi verið frekar gert í málinu. Hvorki verður séð, að af hálfu áfrýjanda hafi bréf þetta verið ítrekað né formlega verið krafist breytinga á greiðslum fyrir kerfisgæslu eða bakvaktir fyrr en með bréfi Starfsmannafélags Suðurnesjabyggða til stefnda 8. október 1996, en þar segir að áfrýjandi hafi aðeins fengið 40% af bakvaktargreiðslum eins og þær séu samkvæmt kjarasamningi.

Áfrýjandi kveður þá félaga hafa leitað til starfsmannafélagsins í árslok 1995, en ekki liggur fyrir hvers vegna starfsmannafélagið gerði kröfuna ekki fyrr en í október 1996.

III.

Málsaðilar gerðu 16. apríl 1996 skriflegt samkomulag um að áfrýjandi lyki störfum hjá stefnda 1. nóvember 1996. Er aðalefni samkomulagsins tekið upp orðrétt í héraðsdómi.

Fyrir Hæstarétti heldur áfrýjandi fram, að með því að gangast undir samkomulagið hafi hann ekki afsalað sér hinum umdeildu greiðslum, sem hann hafi átt rétt á samkvæmt ákvæðum laga og kjarasamnings, enda hafi þær verið að miklum mun hærri en greiðslur, sem samkomulagið veitti honum. Í kjarasamningi hafi verið kveðið á um að reglur þágildandi laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins giltu um réttarstöðu félagsmanna í Starfsmannafélagi Suðurnesjabyggða eftir því sem við geti átt. Greiðslur samkvæmt samkomulaginu 16. apríl 1996 hafi verið lítið sem ekkert hærri en biðlaun, sem hann hefði hvort eð er átt kröfu til að fá eftir kjarasamningi, sbr. 14. gr. laga nr. 38/1954, ef staða hans hefði verið lögð niður.

Í málinu liggja ekki fyrir ótvíræðar upplýsingar um kjör þau, sem áfrýjandi hefði notið eftir kjarasamningi og lögum, ef starfslok hefði borið að með öðrum hætti en gerð samkomulagsins 16. apríl 1996. Þá liggur ekki heldur ljóst fyrir, hvernig störfum, sem hann gegndi var sinnt eftir 1. nóvember 1996. Þegar af framangreindum ástæðum er ókleift við úrlausn málsins að bera saman greiðslur eftir samkomulaginu og réttindi, sem áfrýjandi hefði átt án þess.

Í apríl 1996 voru liðin meira en tvö ár frá því að áfrýjandi og starfsfélagi hans hreyfðu í samræðum við forstöðumann rafmagnsdeildar stefnda kröfum um hækkun á launum fyrir kerfisgæslu eða bakvaktir. Svo sem áður greinir verður ekki séð að þeir hafi ítrekað þetta við stefnda á því tímabili.

Er samkomulagið var gert 16. apríl 1996 höfðu þeir félagarnir þegar leitað til stéttarfélags síns með ósk um aðstoð við innheimtu launa, sem þeir töldu vera vangreidd vegna bakvaktanna. Ekki er leitt í ljós, að stefnda hafi þegar samkomulagið var undirbúið, verið eða mátt vera kunnugt um að áfrýjandi hygðist krefjast greiðslna vegna vakta, en stefnda barst ekki krafa þess efnis fyrr en um sex mánuðum síðar í fyrrnefndu bréfi Starfsmannafélags Suðurnesjabyggða. Þar var fjárhæðar kröfu áfrýjanda ekki getið og lá hún ekki fyrir fyrr en í bréfi lögmanns hans til stefnda 30. janúar 1997.

Leggja verður til grundvallar að hin umdeilda krafa áfrýjanda hafi ekki borið á góma við undirritun samkomulagsins og hefur áfrýjandi sjálfur skýrt svo frá að hann hafi ekkert minnst á hana. Stefndi hafði því ekki tilefni til að orða samkomulagið öðru vísi en að með því væri verið að semja um “fullnaðargreiðslur vegna starfslokanna”. Er ekki fallist á með áfrýjanda að það orðalag samkomulagsins veiti honum rétt til að gera nú kröfu vegna launa á þeim tíma, sem vinnusamband málsaðila stóð.

Áfrýjandi ritaði undir samkomulagið án nokkurs fyrirvara um frekari kröfugerð. Mátti stefndi treysta því að með greiðslum í samræmi við samkomulagið væri lokið að fullu fjárhagslegu uppgjöri vegna starfa áfrýjanda hjá stefnda.

Ekki er dregið í efa af áfrýjanda að gilt samkomulag hafi stofnast 16. apríl 1996. Hann hefur ekki heldur borið fyrir sig að 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga verði beitt um samkomulagið í heild eða að hluta.

Samkvæmt framangreindu verður héraðsdómur staðfestur.

Rétt þykir að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.

D ó m s o r ð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 3. apríl 1998.

Ár 1998, föstudaginn 3.apríl, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness sem háð er að Brekkugötu 2, Hafnarfirði af Gunnari Aðalsteinssyni héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr. E-918/1997: Jóhann Líndal Jóhannsson gegn Hitaveitu Suðurnesja

Mál þetta, sem dómtekið var 18. mars sl., var þingfest 24. september 1997. Stefnandi er Jóhann Líndal Jóhannsson, kt. 251130-3969, Vallarbraut 6, Njarðvík. Stefndi er Hitaveita Suðurnesja, kt. 680475-0169, Brekkustíg 36, Njarðvík.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru aðallega þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda vangoldin laun og orlof að fjárhæð kr. 2.202.023,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtarlaga nr. 25/1987 af kr. 41.429,- frá 15.07.93 til 15.08.93 en af kr. 87.807,- frá þ.d. til 15.09.93 en af kr. 138.478,- frá þ.d. til 15.10.93 en af kr. 182.827,- frá þ.d. til 15.11.93 en af kr. 222.648,- frá þ.d. til 15.12.93 en af kr. 262.469,- frá þ.d. til 31.12.93 en af kr. 296.113,- frá þ.d. til 15.02.94 en af kr.352.642,- frá þ.d. til 15.03.94 en af kr. 393.689,- frá þ.d. til 15.04.94 en af kr. 443.358,- frá þ.d. til 01.05.94 en af kr. 506.524,- frá þ.d. til 15.05.94 en af kr. 547.571,- frá þ.d. til 15.06.94 en af kr. 602.432,- frá þ.d. til 15.07.94 en af kr. 633.462,- frá þ.d. til 15.08.94 en af kr. 685.695,- frá þ.d. til 15.09.94 en af kr. 734.180,- frá þ.d. til 15.10.94 en af kr. 779.219,- frá þ.d. til 15.11.94 en af kr. 816.624,- frá þ.d. til 15.12.94 en af kr. 857.671,- frá þ.d. til 31.12.94 en af kr. 897.496,- frá þ.d. til 15.02.95 en af kr. 953.007,- frá þ.d. til 15.03.95 en af kr. 994.054,- frá þ.d. til 15.04.95 en af kr. 1.019.324,- frá þ.d. til 01.05.95 en af kr. 1.085.608,- frá þ.d. til 15.05.95 en af kr. 1.130.826,- frá þ.d. til 15.06.95 en af kr. 1.176.044,- frá þ.d. til 15.07.95 en af kr. 1.241.111,- frá þ.d. til 15.08.95 en af kr. 1.294.882,- frá þ.d. til 15.09.95 en af kr. 1.346.673,- frá þ.d. til 15.10.95 en af kr. 1.390.903,- frá þ.d. til 15.11.95 en af kr. 1.435.133,- frá þ.d. til 15.12.95 en af kr. 1.479.363,- frá þ.d. til 31.12.95 en af kr. 1.537.942,- frá þ.d. til 15.02.96 en af kr. 1.602.121,- frá þ.d. til 15.03.96 en af kr. 1.649.941,- frá þ.d. til 15.04.96 en af kr. 1.692.733,- frá þ.d. til 01.05.96 en af kr. 1.773.311,- frá þ.d. til 15.05.96 en af kr. 1.829.337,- frá þ.d. til 15.06.96 en af kr. 1.878.445,- frá þ.d. til 15.07.96 en af kr. 1.952.225,- frá þ.d. til 15.08.96 en af kr. 2.008.220,- frá þ.d. til 15.09.96 en af kr. 2.060.365,- frá þ.d. til 15.10.96 en af kr. 2.109.699,- frá þ.d. til 15.11.96 en af stefnufjárhæð frá þ.d. til greiðsludags.

Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda vangoldin laun og orlof að fjárhæð kr. 2.032.493,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 36.621,- frá 15.07.93 til 15.08.93 en af kr. 77.406,- frá þ.d. til 15.09.93 en af kr. 121.979,- frá þ.d. til 15.10.93 en af kr. 160.964,- frá þ.d. til 15.11.93 en af kr. 195.977,- frá þ.d. til 15.12.93 en af kr. 230.990,- frá þ.d. til 31.12.93 en af kr. 259.071,- frá þ.d. til 15.02.94 en af kr. 313.314,- frá þ.d. til 15.03.94 en af kr. 353.233,- frá þ.d. til 15.04.94 en af kr. 401.548,- frá þ.d. til 01.05.94 en af kr. 466.012,- frá þ.d. til 15.05.94 en af kr. 505.931,- frá þ.d. til 15.06.94 en af kr. 558.844,- frá þ.d. til 15.07.94 en af kr. 587.813,- frá þ.d. til 15.08.94 en af kr. 638.805,- frá þ.d. til 15.09.94 en af kr. 685.936 frá þ.d. til 15.10.94 en af kr. 729.733,- frá þ.d. til 15.11.94 en af kr. 766.010,- frá þ.d. til 15.12.94 en af kr. 805.929,- frá þ.d. til 31.12.94 en af kr. 843.990,- frá þ.d. til 15.02.95 en af kr. 897.103,- frá þ.d. til 15.03.95 en af kr. 937.022,- frá þ.d. til 15.04.95 en af kr. 980.202,- frá þ.d. til 01.05.95 en af kr. 1.045.579,- frá þ.d. til 15.05.95 en af kr. 1.085.582,- frá þ.d. til 15.06.95 en af kr. 1.125.585,- frá þ.d. til 15.07.95 en af kr. 1.184.099,- frá þ.d. til 15.08.95 en af kr. 1.231.729,- frá þ.d. til 15.09.95 en af kr. 1.277.677,- frá þ.d. til 15.10.95 en af kr. 1.316.928 frá þ.d. til 15.11.95 en af kr. 1.356.179,- frá þ.d. til 15.12.95 en af kr. 1.395.430,- frá þ.d. til 31.12.95 en af kr. 1.447.430,- frá þ.d. til 15.02.96 en af  kr. 1.504.830,- frá þ.d. til 15.03.96 en af kr. 1.547.382,- frá þ.d. til 15.04.96 en af kr. 1.585.195,- frá þ.d. til 01.05.96 en af kr. 1.657.217,- frá þ.d. til 15.05.96 en af kr. 1.706.606,- frá þ.d. til 15.06.96 en af kr. 1.749.924,- frá þ.d. til 15.07.96 en af kr. 1.816.242,- frá þ.d. til 15.08.96 en af kr. 1.865.813,- frá þ.d. til 15.09.96 en af kr.1.912.168,- frá þ.d. til 15.10.96 en af kr. 1.956.032,- frá þ.d. til 15.11.96 en af stefnufjárhæð frá þ.d. til greiðsludags.

Bæði í aðalkröfu og varakröfu er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður og honum dæmdur málskostnaður en til vara að kröfur verði lækkaðar og í því tilfelli að málskostnaður verði látinn niður falla.

I.

Stefnandi kveður málavexti þá að hann hafi starfað hjá stefnda allt frá því að stefndi tók yfir öll veitukerfi og dreifingu rafmagns á Suðurnesjum á árinu 1985 þar til hann lét af störfum 1. nóvember 1996. Stefnandi var við sameiningu veitnanna starfsmaður stærstu veitnanna á Suðurnesjum og ábyrgðarmaður þeirra allra ásamt öðrum starfsmanni, Sævari Sörenssyni. Um var að ræða Keflavíkur-, Njarðvíkur-, Garðs-, Sandgerðir- og Vogaveitu. Við sameiningu var stefnandi ráðinn rekstrarstjóri háspennudeildar enda með tilskilin réttindi. Vegna tíðra rafmagnsbilana hafi þótt nauðsynlegt að hafa menn til taks allan sólarhringinn, a.m.k. yfir vetrarmánuðina. Gengið hafi verið frá samkomulagi við stefnanda og Sævar Sörensson, rekstrarstjóra lágspennudeildar, um að sinna bakvöktum á háspennukerfi 6 mánuði á ári en greiðslum hafi átt að dreifa jafnt yfir árið. Að liðnum 6 mánuðum hafi þótt ljóst að full þörf væri á bakvöktum allt árið um kring og hafi þeim verið skipt jafnt milli stefnanda og Sævars Sörenssonar. Breyting hafi hins vegar ekki verið gerð á launagreiðslum til stefnanda vegna bakvaktanna.

Stefnandi kveður að þrátt fyrir nokkuð tíðar bilanir á veitukerfinu og fjölda útkalla þeim tengdum hafi stefnandi ekki fengið greitt fyrir aukavinnu vegna útkalla á bakvöktum og hafi ekki krafist þess sérstaklega. Hann hafi hins vegar ítrekað farið fram á leiðréttingu á launagreiðslum vegna bakvaktanna en ávallt fengið þau svör að breytingar væru yfirvofandi og nýtt skipulag væntanlegt. Breytingar hafi hins vegar látið á sér standa og þann 9. desember 1993 hafi stefnandi og Sævar Sörensson farið á fund Hreins Jónassonar, forstöðumanns rafmagnsdeildar, og sett fram kröfu um að laun vegna bakvakta yrði leiðrétt aftur í tímann. Enn hafi stefnanda verið ráðlagt að draga slíkar kröfur til baka þar sem skipulagsbreytingar stæðu fyrir dyrum.

Með bréfi 8. október 1996 fór starfsmannafélag Suðurnesjabyggða þess á leit við stefnda að stefnandi fengi greitt fyrir bakvaktir samkvæmt ákvæðum kjarasamninga. Stefndi hafnaði þeirri kröfu á þeirri forsendu að ekki væri um bakvaktir að ræða. Með innheimtubréfi 30. janúar 1997 var sett fram krafa af hálfu stefnanda. Þeirri kröfu var hafnað með bréfi 11. mars 1997.

Stefnandi kom fyrir dóm. Hann sagði að það hefði verið að frumkvæði Þorsteins Sigurjónssonar, forstöðumanns yfir rafmagnsdeildum og Alberts Albertssonar yfirverkfræðings, að vöktum var komið á. Þær hefðu verið kallaðar kerfisvaktir til aðgreiningar frá öðrum bakvöktum. Hann og Sævar Sörensson hefðu sinnt þessum vöktum þar sem þeir höfðu tilskilin leyfi til þess að vinna við háspennukerfið. Tíðar bilanir hefðu verið á flutningslínu í háspennukerfinu og hafi það verið ástæðan fyrir því að bakvöktum var komið á. Í fyrstu hefði verið rætt um að þessar vaktir stæðu aðeins í 6 mánuði, frá því í október 1986. Þegar sá tími var liðinn hefðu Albert og Þorsteinn mælst til þess við þá að þeir stæðu áfram þessar vaktir, því annað væri ófært vegna tíðra bilanna. Þorsteinn hefði útbúið starfslýsingu fyrir kerfisvaktir og hvernig skyldi staðið að þeim. Hefðu þeir Sævar unnið eftir þessari lýsingu. Skjal þetta er dagsett 28. mars 1986 og ber yfirskriftina: “Kerfisgæsla Hitaveitu Suðurnesja.” Í því segir m.a.

“ Tilgangur:

Hann er sá, að ætíð sé staðsettur starfsmaður á veitusvæði Hitaveitu Suðurnesja, sem þekkir aðveitukerfi rafmagns nægilega vel til að geta stjórnað aðgerðum, ef bilanir eða útsláttur verður í aðveitukerfinu.

Framkvæmd

Rekstrarstjóri háspennudeildar er ábyrgur fyrir daglegum rekstri aðveitukerfis og stjórnar aðgerðum í bilanatilfellum í venjulegum vinnutíma. Utan venjulegs vinnutíma tekur kerfisgæslan við. Hana skal hver maður annast eina viku í senn, nema sérstakar ástæður komi til. Skipti milli vikna skulu fara fram kl. 13,00 á hverjum föstudegi og skulu menn þá hafa samband sín á milli þannig að framhald kerfisgæslu sé tryggt. Kerfisgæslumaður, sem tekur við, skal hafa samband við Svartsengi fyrir kl. 14,00 sama dag.

Verði bilum eða útsláttur í aðveitukerfinu utan venjulegs vinnutíma skal sá sem þá annast kerfisgæslu, enn stjórna aðgerðum og skulu öll samskipti fara í gegnum hann. Hann skal leita eftir ástæðu fyrir útslætti eða straumrofi, fá upplýsingar um stöðu varnarliða á þeim stöðum sem þurfa þykir og haga síðan aðgerðum í samræmi við það. Spennu skal ekki setja á hugsanlegan bilunarstað, nema fullkannað sé að línan sé óslitin og engin hlutur fastur við hana.

Eftir umfangi bilana skal hafa samband við lögreglu, bakvaktarmenn, Svartsengi, Landsvirkjun, verktaka og aðra þá, sem þátt taka í aðgerðum. Hann skal í öllum tilfellum einn sjá um eða samþykkja að rofi sé settur inn eða sleginn út og er ábyrgur fyrir framkvæmd aðgerða.

Kvaðir:

a)             Kerfisgæslumaður sé tiltækur á veitusvæði Hitaveitu Suðurnesja.

b)            Hann er ekki skyldugur til að vera tiltækur í síma, en hafi með sér VHF handstöð stillta á tíðni HS og með réttum Squels.

c)             Hann sé tilbúinn að hefja aðgerðir, þegar honum er tilkynnt um rafmagnsleysi eða hann verður var við það.

d)            Hann skal hafa samband við Svartsengi eins oft og þurfa þykir. Sérstaklega ef álag er mikið, eða veðurútlit gefur tilefni til að vera á verðbergi.”

Í kerfisvaktinni hefði falist að annar hvor þeirra Sævars skyldi ávallt vera til taks á veitusvæðinu. Þá hefði Bjarni Ingvarsson, skipulags og vinnusálfræðingur samið starfslýsingu fyrir rekstrarstjóra háspennudeildar. Þar segir að stefnandi sé á “stanslausum bakvöktum” á móti rekstrarstjóra lágspennudeildar og að engir aðrir megi setja í gang eftir rafmagnsleysi eða slá inn háspennurofa. Stefnandi segist ekki hafa samið þetta skjal sjálfur en hins vegar hefði hann svarað ýmsum spurningum Bjarna þegar hann samdi skjalið. Undir þetta skjal hefði síðan Júlíus Jónsson forstjóri stefnda skrifað ásamt stefnanda.

Þeir Sævar hefðu útbúið vaktatöflu fyrir árið þar sem gefnir hefðu verið upp heimasími og farsími. Þessum vaktatöflum hefðu þeir komið til lögreglu, Landsvirkjunar og til starfsmanna Svartsengis.  Stefndi sagði að þann 16. apríl 1996 hefði hann gert sérstakan starfslokasamning. Var gert samkomulag að hann héldi störfum til 1. nóvember 1996, en fengi greitt kaup til ársloka 1997.

II.

Í málavaxtalýsingu stefnda segir m.a: “ Þegar stefndi yfirtók rekstur sex rafveitna á Suðurnesjum ásamt því að kaupa allar eignir RARIK á svæðinu þá var lögð rík áhersla á það af hálfu sveitarstjórnar, eigendum rafveitnanna á svæðinu, að allir fastráðnir starfsmenn rafveitnanna ættu rétt á starfi hjá stefnda eftir sameininguna og á sambærilegum kjörum og þeir höfðu haft. Þetta leiddi til talsverðra erfiðleika þar sem sníða þurfti skipulag rafmagnsdeildar og að hluta til skrifstofu stefnda að þörfum þeirra starfsmanna sem áttu rétt á vinnu, frekar en að þeim verkefnum sem þurfti að vinna hjá stefnda. Stefnandi máls þessa ásamt Sævari Sörenssyni höfðu báðir starfað sem rafveitustjórar hvor í sínu byggðarlagi með ábyrgð á nærliggjandi sveitarfélögum. Tekin var sú ákvörðun, til að ná fram ofangreindum markmiðum að laga skipulag rafmagnsdeildar að öllum þeim starfsmönnum sem taka varð við, að skipta rafmagnsdeildinni í tvennt þ.e. í háspennu- og lágspennudeild. Stefnandi var ráðinn rekstrarstjóri háspennudeildar og fyrrgreindur Sævar yfirmaður lágspennudeildar.

Við yfirtökuna var eins og áður segir rík áhersla lög á það að starfsmenn héldu eftir breytinguna sambærilegum launakjörum og verið hafði. Þar sem röðun í launaflokka þurfti að vera sem frekast var kostur, innan þess ramma er kjarasamningur við Starfsmannafélag Suðurnesjabyggða kvað á um komu upp nokkur vandkvæði í þessari samræmisvinnu. Til að brúa það bil sem var á milli þess launaflokks sem stefnandi var settur í og þeirra launa sem hann hafði notið áður sem rafveitustjóri var því samið um aukagreiðslur honum til handa. Greiðslur þessar voru í formi afnots af bifreið, 50 stunda fastrar yfirvinnu á mánuði auk greiðslna fyrir svokallaða kerfisgæslu. Með þessu náðist fram markmið um “sambærileg” kjör. Um annað var ekki samið og markmiðið var þetta eitt. Hugtakið “kerfisgæsla” var þannig í raun “fundið upp” í tengslum við þessa vinnu til að ná þessu markmiði, enda hugtakið ekki til í gildandi kjarasamningum þeim er giltu um kjör starfsmannsins.

Þetta undirstrikar enn frekar aðalatriði þessa máls sem er að ekki var ætlast til þess að stefnandi sinnti “kerfisgæslu” (eða stæði “kerfisvaktir”) umfram aðra yfirmenn stefnda og engar kröfur voru gerðar af hálfu stefnda í þá veru enda þá í raun algjörlega óskilgreint í hverju sú gæsla væri þá efnislega fólgin.

Bakvaktir hafa á hinn bóginn, eðli málsins samkvæmt, ætíð verið við líði hjá stefnda allt frá því að hann yfirtók rekstur rafveitnanna bæði í rafmagns- og vatnsdeild en þær bakvaktir sem voru unnar af öðru starfsfólki stefnda en stefnanda, voru nákvæmlega skilgreindar og áttu sér jafnframt stoð í kjarasamningum og greitt fyrir þær samkvæmt þeim. Það stóð aldrei til að hafa tvöfalt bakvaktakerfi enda slíkt algjörlega óþarft og þekkist ekki í samskonar rekstri. Þannig er því alfarið mótmælt að gert hafi verið eitthvert sérstakt samkomulag við stefnanda um að hann væri ráðinn til að sinna bakvöktum eins og byggt er á að hálfu stefnanda.”

Stefndi heldur því fram að skjal það sem stefnandi segir samið af Bjarna Ingvasyni sé í raun samið af stefnanda sjálfum. Hafi það verið gert til þess að fá hækkað starfsmat hjá launanefnd sveitarfélaga. Tillögur Þorsteins Sigurjónssonar um kerfisvaktir hafi ekki heldur þýðingu. Tillögur hafi aldrei verið formlega samþykktar af forsvarsmönnum stefnda.

Júlíus Jónsson byrjaði að vinna hjá stefnda 1982 sem fjármála- og skrifstofustjóri. Frá 1992 hefur hann gegnt starfi forstjóra. Á sínum tíma sá hann um starfsmannahald og samninga í því sambandi. Júlíus kom fyrir dóm og sagði að stefnandi hefði verið vel launaður í fyrra starfi og því verið erfitt að fella starfskjör hans inn í launaramma stefnda. Búið hafi verið að hækka óunna yfirvinnu úr 35 tímum á mánuði í 50 tíma á mánuði og bílastyrk úr 1200 km í 1500 km á mánuði. Því hefði hinum svokölluðu kerfisvöktum verið komið á í því augnamiði að gera stefnanda eins settan launalega og er hann gegndi fyrra starfi. Stefnandi hefði verið yfirmaður hjá fyrirtækinu og þegið fasta óunna yfirvinnu. Aðrir yfirmenn stefnda fengu einnig slíkar greiðslur en væru ekki á bakvöktum. Þeir sinntu þó útköllum ef svo bar undir. Taldi Júlíus að það fælist í starfskyldum stefnanda sem yfirmanns að sinna útköllum enda hefði hann fengið  50 tíma í yfirvinnu á mánuði.

III.

Vitnið Gunnlaugur Óskarsson hefur verið verkstjóri í rafmagnsdeild frá 1985. Hann hefur verið á bakvöktum frá þeim tíma. Hann sagðist hafa leitað til stefnanda eða Sævars Sörenssonar ef bilun varð á háspennukerfi. Það hefði þó ekki verið regla, en hann litið svo á að stefnanda og Sævari væri skylt að sinna þessum vöktum. Þeir hefðu ávallt komið ef þess hefði verið óskað og náðst hefði í þá.

Þorsteinn Sigurjónsson starfaði hjá stefnda á árunum 1985-1987. Hann kvaðst hafa samið tillögur að kerfisvöktun. Það hefði verið talið nauðsynlegt að sérstakar vaktir væru í háspennukerfinu. Stefnandi og Sævar Sörensson hefðu farið eftir þessum tillögum í öllum aðalatriðum. Fyrst hefði verið talað um að kerfisvaktir stæðu aðeins yfir veturinn en vegna tíðra bilanna hefði verið ákveðið að þær yrðu allt árið. Þessar tillögur hefðu aldrei verið samþykktar formlega af hálfu stefnda en tilefnið hefði verið að stefnandi og Sævar hefðu viljað fá leiðbeiningar um hvernig vaktirnar skyldu vera. Þess vegna hefðu þessar tillögur verið samdar. Þorsteinn sagði að hann hefði ekki haft heimild til þess að semja um greiðslur fyrir bakvaktir og þess vegna hefði það verið lítið rætt.

Hreinn Jónasson er forstöðumaður rafmagnsdeildar og næsti yfirmaður stefnanda og Sævars. Hreinn sagði að þeir hefðu komið á hans fund í desember 1993 með bréf þar sem þess var farið á leit við hann að hann hlutaðist til um að laun þeirra vegna bakvakta yrðu leiðrétt og reiknuð aftur í tímann. Hann sagðist hafa ráðlagt þeim að draga bréfið til baka vegna þess að skipulagsbreytingar stæðu fyrir dyrum hjá stefnda í þessum málum og hefðu þeir gert það. Hreinn sagði að hann hefði alltaf litið svo á að þeim bæri að sinna þessum vöktum og vera til staðar.

Albert Albertsson var yfirverkfræðingur stefnda en aðstoðarforstjóri frá 1992. Hann sagðist aldrei hafa haft launamál fyrirtækisins á sinni könnu. Hins vegar hafi hann komið að samningum stefnanda þegar starfslok hans voru til umræðu. Þá hefði ekki verið minnst á kerfisvaktir. Bjarni Jónsson hefur verið vélstjóri hjá stefnda frá 1979. Hann sagði að hann hefði haft lista yfir kerfisvaktir og hringt í stefnanda eða Sævar Sörensson ef bilanir hefðu orðið í háspennukerfi. Sigurður Óli Kolbeinsson lögfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitafélaga kom fyrir dóm. Hann sagði það venju að miða við 5. þrep í kjarasamningi þegar greiða ætti laun fyrir bakvaktir.

IV.

Stefnandi byggir kröfur sínar á kjarasamningi starfsmannafélags Suðurnesjabyggða og launanefndar sveitarfélaga. Samkvæmt ákvæði 2.5.1. í kjarasamningi sé með bakvakt átt við að starfsmaður sé ekki við störf en reiðubúinn að sinna útkalli. Strax í upphafi hafi bakvaktir stefnanda verið skilgreindar og þær kallaðar “kerfisgæsla.”  Þorsteinn Sigurjónsson, þáverandi forstöðumaður rafmagnsdeildar, hafi lýst tilgangi kerfisgæslunnar og framkvæmd og eftir tillögum hans hafi verið unnið. Þá hafi Júlíus Jónsson, þáverandi fjármálastjóri stefnda, undirritað lýsingu á starfi stefnda þar sem segir að stefnandi sé á stöðugum bakvöktum. Bakvaktartöflur hafi verið afhentar hlutaðeiganda. Stefnandi telur að engu máli skipti hvort vaktir séu kallaðar bakvaktir eða kerfisvaktir. Stefnandi sé félagi í starfsmannafélagi Suðurnesjabyggða og eigi rétt til launa samkvæmt kjarasamningi starfsmannafélags og launanefndar sveitarfélaga. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks o.fl. séu samningar einstakra launamanna og atvinnurekanda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákvæða ógildir.

Af gögnum málsins megi sjá að greiðslur til stefnanda vegna svokallaðra kerfisvakta hafi numið 40% af greiðslum vegna þeirra vakta sem skilgreindar hafi verið sem bakvaktir af hálfu stefnda. Greiðslur stefnda til stefnanda vegna bakvakta hafi numið á tímabilinu frá júlí 1993 til og með október 1996 1.476.772 krónur. Mælt sé fyrir um greiðslur fyrir bakvaktir í kafla 1.6. í kjarasamningi Starfsmannafélags Suðurnesjabyggða og launanefndar sveitarfélaga. Af orðalagi greinar 1.6.1 í kjarasamningum og tilvísun þar til greinar 1.4.1 megi ráða að  bakvaktaálag beri að greiða miðað við þann launaflokk og það launaþrep sem stefnandi var í á hverjum tíma, enda hafi stefnandi verið í hærra launaþrepi en 5. þrepi á þeim tíma sem krafa stefnanda taki til. Stefnufjárhæð sé mismunur þeirra greiðslna sem stefnanda bar að fá skv. gildandi kjarasamningi á ofangreindum tímabilum og þeirra greiðslna sem hann fékk í reynd frá stefnda. Stefnandi segir aðalkröfuna vera reiknaða út frá 7. launaþrepi þess launaflokks sem stefnandi tók laun eftir en varakrafan sé miðuð við 5. launaþrep sama launaflokks.

Stefndi krefst sýknu á grundvelli þess að stefnandi og stefndi hafa gert með sér samning um starfslok dagsettan 16. apríl 1996 og í þeim samningi falli báðir aðilar frá frekari kröfum á hendur hvor öðrum vegna starfslokanna. Stefnandi hafi beinlínis með samningi aðilanna fallið frá kröfum sínum um frekari greiðslur úr hendi stefnda. Þegar af þessari ástæðu beri því að sýkna stefnda.

Stefndi byggir  sýknukröfu sína ennfremur á því að stefnandi hafi aldrei sinnt bakvöktum. Stefnandi hafi sinnt svokallaðri “kerfisgæslu” og þegið fyrir það laun samkvæmt samkomulagi og  auk þess fengið greiðslur fyrir fasta yfirvinnu. Um annað var hafi ekki samið. Til þess að gera stefnanda eins settan eftir sameiningu veitnanna hafi verið útbúin launaliður sem  kallaður var ,,kerfisgæsla”. Ekki hafi verið unnt að hækka eftirvinnukaup stefnda frekar vegna samanburðar við aðra starfsmenn. Í þessu ljósi beri að skýra hinar svokölluðu kerfisvaktir. Það sé ljóst að í þeirri starfsemi sem stefndi rekur, þ.e. rekstur rafveitna og veitukerfa, geti starfsmenn þurft að mæta í vinnu, sérstaklega yfirmenn, á hvaða tíma sólarhrings sem er og er þá litið til þess að þeir fái greidda fasta yfirvinnu. Stefndi hafi sjálfur skipt árinu niður í kerfisgæslu (vaktir) fyrir sig og Sævar Sörensson, rekstrarstjóra lágspennudeildar, til þess að annar hvor þeirra, einir yfirmanna, þyrftu ekki að mæta í útköll kæmu upp bilanir. Með því móti hefði annar þeirra getað verið í fríi. Bakvaktir í skilningi kjarasamnings Starfsmannafélags Suðurnesjabyggða og launanefndar sveitarfélaga  hafi ætíð verið til staðar bæði í rafmagns- og vatnsdeild stefnda. Þessum vöktum hafi stefnandi hins vegar aldrei sinnt enda ekki eftir því leitað. Með aukinni tækni hafi búnaður rafveitna orðið flóknari. Hafi þá verið ráðinn  rafmagnstæknifræðingur á árinu 1992 til stefnda, sem hafi leitt til breytinga á starfi stefnanda í þá veru að ekki var eins mikilvægt að til hans næðist þegar bilanir áttu sér stað. Stefndi telur að lýsing á störfum stefnanda og rekstrarstjóra lágspennudeildar frá 4. nóvember 1987 hafi verið samin af þeim sjálfum.

Stefndi byggir jafnframt sýknukröfu sína á tómlæti. Samkomulag hafi verið gert  á milli aðila á árunum 1984-1985 um launakjör stefnanda. Stefnandi geri hins vegar engar athugasemdir við forsvarsmenn stefnda fyrr en með bréfi formanns Starfsmannafélags Suðurnesjabyggða dags. 8. október 1996. Því bréfi hafi verið  svarað þann 21. október s.á. af forstjóra stefnda. Það næsta sem gerist sé að stefndi fékk kröfubréf frá lögmanni stefnanda. Tilkynningum eða formlegum kvörtunum stefnanda vegna launakjara sinna fyrir ofangreindan tíma sé því mótmælt sem ósönnuðum. Engar athugasemdir hafi þannig verið gerðar vegna hinnar svokölluðu kerfisgæslu  sem stefnandi kjósi nú að kalla bakvaktir, fyrr en 11 árum og 6 mánuðum eftir að kjör stefnanda voru ákveðin og greiðslur hafnar í samræmi við þau. Hér sé um  stórkostlegt tómlæti að ræða hjá stefnanda við gæslu á meintum rétti sínum, sem leiði til sýknu að mati stefnda.

Varakröfu sína byggir stefndi á því að ekki hafi verið tekið tillit til þess að stefnandi fékk 50 tíma á mánuði í eftirvinnu. Þessum greiðslum hafi verið ætlað að mæta hugsanlegum útköllum yfirmanna. Varakrafan er einnig byggð á því að í aðalkröfu hafi stefnandi byggt útreikninga sína á 7. launaþrepi 64. launaflokks. Það sé óheimilt samkvæmt kjarasamningi 1.4.1. gr.

V.

Eins og framan er rakið gerðu aðilar máls þessa samkomulag um starfslok stefnanda. Samkomulag þetta var gert 16. apríl 1996 og er svohljóðandi:

“ Samkomulag er um það, að Jóhann Líndal láti af störfum sínum sem rekstrarstjóri háspennusviðs þann 1. nóvember 1996. Frá þeim tíma og til ársloka 1997 mun Jóhann þiggja föst mánaðarlaun (mánaðarlaun og fasta yfirvinnu, 50 st. mán) eins og þau eru í nóvember 1996 og með þeim breytingum sem almennir kjarasamningar gera ráð fyrir á tímabilinu.

Framangreindar greiðslur teljast fullnaðargreiðslur vegna starfslokanna, þ.m.t. orlof, og jafnframt lýsa aðila því yfir, að hvorugur eigi frekari kröfur á hinn vegna starfslokanna.”

Af hálfu beggja aðila kom fram fyrir dómi að við gerð þessa samkomulags hefði ekki verið rætt um greiðslur vegna hina svokölluðu kerfisvakta. Þá liggur fyrir í málinu að stefnandi hafði ekki gert formlega kröfu um greiðslur vegna vaktanna þegar hann undirritaði starfslokasamninginn. Það var ekki fyrr en 8. október 1996 sem krafa var sett fram með bréfi starfsmannafélags Suðurnesjabyggða.

Með starfslokasamninginum var af hálfu stefnda fallist á að stefnandi þyrfti ekki að sinna vinnuskyldu sinni síðustu 14 mánuðina. Stefndi samþykkti jafnframt að stefnandi héldi fullu mánaðarkaupi, yfirvinnu og orlofi. Telja verður að það hafi verið brýnt fyrir stefnanda er hann gekk til þessarar samningsgerðar að fyrir lægju allar kaupkröfur stefnanda. Niðurstaða samningsins, t.d. um vinnuskyldu stefnanda hlaut að ráðast af því hvaða kaupkröfur hann gerði.

Verður því talið að túlka beri samning aðila þannig að hvorugur eigi frekari kröfur á hendur hinum. Stefndi eigi ekki frekari kröfur á hendur stefnanda um vinnuframlag og stefndi ekki frekari kröfur um laun. Þykir því bera að sýkna stefnda þegar af þessari ástæðu. Rétt þykir að málskostnaður falli niður.  Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndi, Hitaveita Suðurnesja, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Jóhannesar Líndal Jóhannssonar, í máli þessu. Málskostnaður fellur niður.