Hæstiréttur íslands

Mál nr. 654/2016

Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari)
gegn
X (Stefán Karl Kristjánsson hrl.)

Lykilorð

  • Útivist í héraði
  • Skriflegur málflutningur
  • Frávísun frá Hæstarétti

Reifun

X var gefið að sök umferðarlagabrot með því að hafa ekið undir áhrifum áfengis. Með dómi héraðsdóms var X sakfelldur og dómur lagður á málið að honum fjarstöddum eftir 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Samkvæmt 2. mgr. 161. gr. sömu laga gat X ekki áfrýjað slíkum dómi, en þess í stað yrði leitað endurupptöku eftir reglum XXIX. kafla laganna. Var málinu því vísað frá Hæstarétti án kröfu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 16. september 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.

Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og ákæru vísað frá dómi eða til nýrrar löglegrar málsmeðferðar fyrir héraðsdómi, en til vara að refsing verði milduð og ökuréttarsvipting dæmd tímabundin.

Málið var flutt skriflega eftir ákvörðun Hæstaréttar samkvæmt 1. mgr. 205. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Með ákæru 6. október 2015 var ákærða gefið að sök umferðalagabrot með því að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis. Ákærði sótti ekki þing við meðferð málsins í héraði. Var dómur lagður á málið að honum fjarstöddum eftir 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008, en með honum var ákærða gert að sæta fangelsi í 30 daga og sviptingu ökuréttar ævilangt. Ákærði lýsti yfir áfrýjun með tilkynningu 14. september 2016 og sem áður segir var málinu áfrýjað 16. þess mánaðar. Samkvæmt 2. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 getur ákærði ekki áfrýjað slíkum dómi, en þess í stað leitað endurupptöku eftir reglum XXIX. kafla laganna, sbr. dóm Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 89/2010 og dóm Hæstaréttar 23. mars 2017 í máli nr. 864/2016. Samkvæmt þessu ber að vísa málinu frá Hæstarétti án kröfu.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talinn málsvarnarlaun verjanda ákærða, Stefáns Karls Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, 124.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. maí 2016.

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglu­stjóranum á höfuðborgarsvæðinu 6. október 2015, á hendur X, kennitala [...], [...], [...], fyrir umferðarlagabrot með því að hafa, laugardaginn 1. ágúst 2015, ekið bifreiðinni [...] undir áhrifum áfengis (í blóði mældist vínandi 1,38 ‰) norður Norðurgötu á Akureyri uns aksturinn var stöðvaður.

Telst brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.

         Ákærði sótti ekki þing við þingfestingu málsins og hafði ekki boðað forföll en hafði verið birt ákæra og fyrirkall í Lögbirtingablaði [...] 2016.  Verður málið dæmt samkvæmt heimild í a-lið 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála enda var þess getið í fyrirkallinu að þannig gæti farið um meðferð málsins.

         Með vísan til framanritaðs og til rannsóknargagna málsins telst framangreind háttsemi sönnuð og er hún rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

         Ákærði er fæddur í mars [...].  Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 29. september 2015, hefur ákærði nú í þriðja sinn, eftir að hann varð fullra 18 ára og innan ítrekunartíma, sbr. 1. og 3. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, verið fundinn sekur um að aka undir áhrifum áfengis.  Með hliðsjón af sakarefni þessa máls þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga.

         Með vísan til lagaákvæða í ákæru er ákærði sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dóms þessa að telja.

         Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl., 177.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og 40.673 krónur í annan sakarkostnað.

         Valborg Steingrímsdóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

D Ó M S O R Ð:

         Ákærði, X, sæti fangelsi í 30 daga.

         Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dóms þessa að telja.

         Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl., 177.000 krónur og 40.673 krónur í annan sakarkostnað.