Hæstiréttur íslands

Mál nr. 219/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbússkipti
  • Erfðaskrá


                                     

Föstudaginn 27. apríl 2012.

Nr. 219/2012.

A og

B

(Valtýr Sigurðsson hrl.)

gegn

C

D

E og

F

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

Kærumál. Dánarbúskipti. Erfðaskrá.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að við skipti á dánarbúi G skyldi lögð til grundvallar sameiginleg erfðaskrá hennar og H frá 8. júlí 1997, sökum þess að G hefði ekki verið heimilt eftir þann tíma að afturkalla einhliða að H látnum þær ráðstafanir sem þau gerðu með áðurgreindri erfðaskrá.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Ingibjörg Benediktsdóttir og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 21. mars 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 12. mars 2012 þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að við skipti á dánarbúi G skyldi lögð til grundvallar sameiginleg erfðaskrá hennar og H frá 8. júlí 1997. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o. fl. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að við skipti dánarbúsins verði lögð til grundvallar erfðaskrá hinnar látnu frá 9. ágúst 2005. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Varnaraðilar hafa ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur því ekki til álita krafa þeirra um málskostnað í héraði. Sóknaraðilum verður aftur á móti gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, A og B, greiði óskipt varnaraðilum, C, D, E og F, hverjum fyrir sig 50.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 12. mars 2012.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 16. janúar, er komið til dómsins með bréfi Björns Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, skiptastjóra dánarbús G, kt. [...], síðast til heimilis á [...], [...], dagsettu 6. júní 2011, þar sem skiptastjóri vísaði til dómsins ágreiningi sem risið hafði við skipti búsins. Sóknaraðilar eru C, kt. [...], [...], [...], D, kt. [...], [...], [...], E, kt. [...], [...],[...] og F, kt. [...], [...], [...]. Varnaraðilar eru A, kt. [...], [...], [...] og B, kt. [...], [...], [...]. Dánarbúið á ekki aðild að ágreiningi málsins.

Dómkröfur

Sóknaraðilar krefjast þess að viðurkennt verði að erfðaskrá H og G, sem gerð hafi verið hinn 8. júlí 1997, verði lögð til grundvallar í búskiptum þeirra og að sóknaraðilum verði afhent búið til einkaskipta. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðilar krefjast aðallega sýknu af kröfum sóknaraðila og að dánarbúi G verði skipt eftir arfleiðslugerð hennar sem hafi verið gerð 9. ágúst 2005.  Til vara krefjast varnaraðilar sýknu af kröfum sóknaraðila.  Loks krefjast varnaraðilar málskostnaðar úr hendi sóknaraðila in solidum.

Málavextir

G og H, kt. [...], gengu í hjónaband hinn 26. júní 1997.  Átti H fyrir börnin F, E, D og C, sóknaraðila máls þessa, en G var barnlaus.  Hinn 8. júlí 1997 gerðu G og H sameiginlega erfðaskrá.  Segir þar að G arfleiði stjúpbörn sín fjögur að öllum eigum sínum eftir sinn dag.  Þá skuli það hjónanna sem lengur lifi sitja í óskiptu búi með börnunum svo lengi sem það kjósi, og „koma eignir okkar því ekki til skipta fyrr en við erum bæði fallin frá“. Í 4. gr. erfðaskrárinnar stendur svo: „Erfðaskrá þessari getur hvorugt okkar breytt án samþykkis hins.  Erfðaskrá þessi fellur niður ef við skiljum að borði og sæng eða lögskilnaði.“  Tveir arfleiðsluvottar rita nafn sitt á erfðaskrána, annar þeirra Svala Thorlacius hæstaréttarlögmaður.  Er stimpill lögmannsins einnig á erfðaskránni og þá er þess getið í erfðaskránni að eitt eintak hennar skuli varðveitt á skrifstofu lögmannsins.

Hinn [...]. marz 2001 lézt H.  Fékk G leyfi sýslumanns til setu í óskiptu búi hinn 3. maí 2001.

Hinn 9. ágúst 2005 undirritaði G nýja erfðaskrá í viðurvist notarii publici.  Í 1. gr. hennar vísar hún til sameiginlegrar erfðaskrár þeirra hjóna og segir svo:  „Þar sem eiginmaður minn er nú fallinn frá tel ég mig hafa fullan rétt til að breyta ákvörðun minni um erfingja mína svo lengi sem ég ráðstafa ekki nema helmingshlut mínum af eignum búsins. Styð ég þá skoðun mína m.a. við hæstaréttardóm frá 1983:381.  Samkvæmt því er það ákvörðun mín nú að systkini mín skulu taka allan arf þ.e. helmingshluta af heildareign búsins eftir mig en þau eru þessi: B kt. [...], [...], I f. [...]. júní 1926, [...] A kt. [...], [...]. Skulu þessir erfingjar skipta með sér arfi að jöfnu.  Látist eitthvert þeirra á undan mér skulu niðjar þeirra B og A taka arf eftir þau en látist I á undan mér skal arfshluti hans ganga til B og A ellegar barna þeirra verði þau látin.“  Þá segir í erfðaskránni:  „Með erfðaskrá þessari er því ógild og niður fallin hvað mig varðar erfðaskrá mín frá 8. júlí 1997.“  Segir í skránni að eitt eintak hennar undirriti arfleifandi „í viðurvist lögmanns og verður það varðveitt á Lögmannsstofunni Fortis ehf. Laugavegi 7, Reykjavík.“  Erfðaskrá þessi ber stimpil sama lögmanns og hin fyrri.

Hinn 11. apríl 2008 skrifar þáverandi lögmaður sóknaraðila G bréf og segir í því að komið hafi fram að hún hyggist óska eftir skiptum á dánarbúi H. Vísar lögmaðurinn í gagnkvæma erfðaskrá þeirra hjóna og segir svo: „Samkvæmt frásögn þinni og staðfestingu Svölu Thorlacius hrl. munt þú hafa útbúið nýja og breytta erfðaskrá fyrir fáum árum.  Samkvæmt upplýsingum umbj.m. (allra barna H heitins) mun mikill meirihluti eigna búsins hafa komið frá H, bæði eftir hans fyrra hjónaband auk verðmæts arfshluta, sem honum hlotnaðist vorið 1997 og að tilgangur ykkar hafi verið sá að eignir búsins færu til barna H að ykkur báðum látnum sbr. niðurlag 2. gr. erfðaskrárinnar en þar segir:  „Koma eignir okkar því ekki til skipta fyrr en við erum bæði fallin frá.“  Því kemur það umbj.m. á óvart að þú hafir gert aðra og breytta erfðaskrá (efni þeirrar erfðaskrár er mér ekki kunnugt um) og hafa þeir falið undirrituðum að kanna lögmæti/réttmæti þeirrar breyttu ráðstöfunar.  Áður en lengra er haldið eða til frekari ágreinings er stofnað er það tillaga undirritaðs að skiptum á db. H verði lokið hið fyrsta og að um helmingaskipti verði að ræða milli þín annars vegar og umb.m. hins vegar, sem hefur það í för með sér að þú afsalar þínum erfðarétti eftir H heitinn.“

Hinn 18. marz 2009 veitti sýslumaðurinn á [...] G og sóknaraðilum heimild til einkaskipta á búi H. Sama dag staðfesti sýslumaðurinn einkaskiptagerð dánarbúsins. Segir í henni að aðaleign búsins hafi verið íbúð á [...] í [...], sem hafi verið seld og fyrir andvirðið keypt önnur á [...].  Sú íbúð hafi einnig verið seld, og andvirði hennar, um tólf og hálf milljón króna, lagt á reikning í Sparisjóði [...] og hafi reikningurinn verið óhreyfður síðan.  Alls séu eignir hins óskipta bús 19.007.698 krónur og þar af sé 17.440.921 króna á tilteknum reikningi í Sparisjóði [...].  Engar skuldir séu í búinu. Búshelmingur G nemi 9.503.849 krónum og samkvæmt því nemi hrein eign dánarbús H sömu fjárhæð.  Sé henni skipt þannig að G fái þriðjung, 3.167.823 krónur, en hver sóknaraðila 1.584.007 krónur.  Samkomulag hafi orðið um skipting innbús. Sé einkaskiptum lokið með þessum hætti. Á einkaskiptagerðinni er stimpill lögmannsstofunnar Fortis.

Hinn 9. nóvember 2010 lézt G. Með úrskurði héraðsdóms Norðurlands eystra, upp kveðnum hinn 20. apríl 2011, var dánarbú hennar tekið til opinberra skipta að kröfu sýslumannsins á [...] og var Björn Jóhannesson hæstaréttarlögmaður skipaður skiptastjóri.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðilar segjast gera kröfu um að bú G og H verði afhent þeim til einkaskipta.  H hafi með samþykki sóknaraðila setið í óskiptu búi eftir látna eiginkonu sína. Í júlí 1997 hafi H og G ákveðið að ganga í hjúskap og af því tilefni gert sérstaka erfðaskrá, dagsetta 8. júlí 1997.  Hafi erfðaskráin verið gerð með vitund og samþykki sóknaraðila enda hafi verið tryggt að arfur að H og G látnum gengi að öllu leyti til sóknaraðila.  Tilefni erfðaskrárinnar hafi verið að eignir þær, sem verið hafi til staðar á þeim tíma, fyrst og fremst fasteign við [...] í [...], hafi verið komin frá H, en G engar eignir lagt í búið.  Erfðaskráin hafi því verið hugsuð til þess að tryggja að sóknaraðilar tækju allan arf eftir bæði, en einnig til þess að G gæti haldið heimili ef H félli fyrr frá.  Hafi því verið um erfðasamning að ræða til að tryggja hag beggja að þessu leyti og einnig til að tryggja rétt sóknaraðila til arfs eftir föður sinn.  Í samræmi við ákvæði erfðaskrárinnar hafi G setið í óskiptu búi, en sóknaraðilar hafi óskað eftir því að hún greiddi þeim út hluta arfsins og hafi svo verið gert árið 2009.  Þegar sú ráðstöfun hafi verið gerð hafi sóknaraðilar ekki vitað af erfðaskrá þeirri sem „lögmaður G hafði gert“ árið 2005, en lögmaðurinn hafi leynt þeim gerningi fyrir sóknaraðilum.  Segjast sóknaraðilar aldrei myndu hafa fallizt á gerð erfðaskrár sem hefði gert þau arflaus eða skert arf þeirra, enda hafi það verið eindreginn vilji H og G við gerð erfðaskrárinnar 1997 að svo færi ekki.  Sé því fortakslaust samkvæmt erfðaskránni frá 1997 að skipta beri samkvæmt vilja beggja arfláta, sem hafi með afdráttarlausum hætti skuldbundið sig til að afturkalla hvorki né breyta erfðaskrá sinni án samþykkis hins.  Þá segja sóknaraðilar að þeir hefðu aldrei samþykkt að lögmaðurinn Svala Thorlacius „annaðist neina skjalagerð eða hagsmunagæslu fyrir búið ef þeim hefði verið ljós framganga lögmannsins m.a. við gerð erfðaskrár árið 2005 sem haldið [hafi verið] leyndri fyrir sóknaraðilum.“

Sóknaraðilar segja að erfðaskráin sem gerð hafi verið árið 1997 hafi í reynd verið ígildi kaupmála til þess að tryggja að allar eignir búsins gengju til barna H.  Ákvæði erfðaskrárinnar um heimild til setu í óskiptu búi hafi verið þarflegt á þeim tíma, en 8. gr. erfðalaga geymi heimild til setu í óskiptu búi með stjúpniðjum sé svo mælt fyrir í erfðaskrá.

Sóknaraðilar segja að leggja beri erfðaskrána frá 1997 til grundvallar við skiptin. Efni hennar sé skýrt og afdráttarlaust.  Aðilar ráðstafi eignum sínum með þeim hætti að sóknaraðilar en ekki aðrir verði erfingjar.  Ráðstöfun sú sé óafturkallanleg og óbreytanleg og sé á þeim grundvelli mótmælt að G hafi verið heimilt að ráðstafa eignum búsins með nýrri erfðaskrá eins og gert hafi verið með gerningi dagsettum 9. ágúst 2005.  Liggi fyrir skýlaus fyrirmæli í erfðaskránni frá 1997 um hvernig fara skuli um arf eftir andlát arfleifanda og jafnframt skuldbinding beggja aðila um að breyta ekki erfðaskránni.  Beri hér að líta til dóms Hæstaréttar Íslands frá árinu 1961, blaðsíðu 283.  Kunni að valda álitum sé ekkert tekið fram um heimild til afturköllunar eða til ráðstöfunar með nýrri erfðaskrá.  Hér liggi hins vegar allt fyrir um skuldbindingu beggja til að breyta ekki erfðaskránni nema með samþykki beggja.  Eigi hér einnig við dómur U1960/241 en þar hafi ákvörðun beggja arfláta samkvæmt erfðaskrá haft gildi til frambúðar.  Atvik séu með öðrum hætti í dómi Hæstaréttar Íslands frá árinu 1983, blaðsíðu 381 og eigi sá dómur ekki við hér.  Hins vegar sé rétt að líta til dóms Hæstaréttar Íslands frá árinu 1984, blaðsíðu 1311 og einnig dóms U 1934/1000.

Sóknaraðilar segjast ítreka að G hafi ekki verið heimilt að ráðstafa eignum búsins með nýjum arfleiðslugerningi.  Í úrlausnum dómstóla hafi verið litið til þess hvort eignir hafi aukizt frá andláti þess sem fyrr hafi fallið frá.  Komi þá til álita að eftirlifandi maka sé heimilt að ráðstafa hluta þeirrar aukningar sem orðið hafi. Hér liggi hins vegar fyrir að ekki hafi verið um neina eignaaukningu að ræða heldur hafi fasteignin við [...] verið seld og andvirði hennar notað til kaupa á annarri, sem síðar hafi verið seld þannig að allt andvirði hinnar upphaflegu fasteignar hafi verið á bankareikningi búsins.  G hafi ekki aflað tekna til þess að auka við eignir búsins með neinum hætti og komi þetta sjónarmið því ekki til álita við skipti búsins.

Sóknaraðilar segjast vísa til ákvæða erfðalaga nr. 8/1962, einkum 48. og 49. gr. laganna.  Vegna málskostnaðar vísi þeir til 130. gr. laga nr. 91/1991 og ennfremur til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en sóknaraðilar séu ekki virðisaukaskattskyldir og beri því nauðsyn til að fá virðisaukaskatt á tildæmdan málskostnað.  Loks segjast sóknaraðilar vísa til erinda sinna til sýslumannsins á [...] og bókaðra krafna sinna hjá skiptastjóra búsins.  Séu rök, málsástæður og dómatilvitnanir sem þar greini hluti málatilbúnaðar sóknaraðila.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðilar segja að eignastaða G hafi verið mjög góð þegar hún hafi gengið í hjónaband með H.  Hún hafi átt peninga í banka og mjög gott innbú. Hún hafi erft fósturforeldra sína og vinkonu.  Þá hafi hún alla tíð unnið mikið og aflað tekna, en hún hafi ekki haft fyrir neinum að sjá nema sjálfri sér. Við hjónabandið hafi hún lagt til allt innbú heimilisins en H gefið sóknaraðilum allt sitt innbú.  Þá hafi þau marglánað sóknaraðilum fjármuni án þess að þeir hafi verið greiddir til baka og einnig hafi þau þurft að greiða ábyrgðarskuldbindingu vegna eins sóknaraðila.  Eftir lát H hafi hún lánað einum sóknaraðila fjármuni án þess að hafa fengið þá aftur.

Varnaraðilar segja megintilgang erfðaskrár þeirra hjóna frá 8. júlí 1997 hafa verið þann að tryggja G heimild til setu í óskiptu búi með börnum H, létist hann á undan henni.

Varnaraðilar krefjast sýknu af öllum kröfum sóknaraðila.  Sú krafa sóknaraðila að erfðaskrá frá 8. júlí 1997 verði lögð til grundvallar við skipti bús H og G geti ekki náð fram að ganga þar sem skiptum á búi H hafi lokið með einkaskiptagerð sem sóknaraðilar hafi ritað undir hinn 18. marz 2009.  Þegar af þeirri ástæðu geti krafa sóknaraðila ekki náð til skipta á því búi heldur aðeins búi G.

Þá segjast varnaraðilar hafna því að skipti á búi G eigi að fara eftir erfðaskrá sem gerð hafi verið 8. júlí 1997.  Sú erfðaskrá hafi verið felld úr gildi með erfðaskrá hennar 9. ágúst 2005, en þar segi berlega að fyrri erfðaskrá sé niður fallin að því er arfsvilja G varði.  Öllum formskilyrðum laga nr. 8/1962 hafi auk þess verið fullnægt.

Varnaraðilar segja það gildandi rétt að arfleifendur geti breytt erfðaskrám eða fellt þær niður.  Vísi þeir meðal annars til 48. gr. erfðalaga að því er það varði.  Eigi þetta bæði við um einfalda erfðaskrá og gagnkvæma, sbr. 2. mgr. 48. gr. laganna.  Eftir andlát H hafi G eðli málsins samkvæmt ekki getað aflað samþykkis hans í skilningi ákvæðisins og því hafi hún haft fulla heimild til þess að gera nýja erfðaskrá að honum látnum, að virtum rétti barna hans.  Þá sé til þess að líta að þróun erfðaréttar norrænna ríkja hafi verið sú að hörfa frá þeim takmörkunum sem áður hafi verið á breytingar- eða niðurfellingarheimild langlífari maka, og eigi það einkum við um búshluta hans.  Í þessu máli liggi fyrir að G hafi einungis ráðstafað eigin hluta og hafi auk þess gert dánarbú H upp við börn hans.  Sé því vandséð á hvaða reglum það grundvallist að erfingjar hennar ættu að vera réttlausir og að eignir hennar gangi að öllu leyti til sóknaraðila.  Hafa verði í huga að sóknaraðilar séu börn H en ekki G. Hún eigi lögum samkvæmt rétt til að arfleiða systkini sín.

Þá verði ekki fram hjá því litið að sóknaraðilar hafi staðið að gerð einkaskiptagerðar dánarbús föður þeirra, vitandi um nýja erfðaskrá G. Með því hafi sóknaraðilar samþykkt að skipti færu fram þrátt fyrir að G væri þá enn á lífi.  Þannig hafi sóknaraðilar fallið frá þeim meinta rétti sem þeir telji erfðaskrána frá 1997 hafa veitt sér.

Þá segjast varnaraðilar mótmæla því að erfðaskráin frá 8. júlí 1997 hafi í raun verið kaupmáli.  Þau H og G hafi vel getað gert kaupmála en kosið að gera hann ekki.  Það sýni og sanni að ekki hafi vakað fyrir H að koma í veg fyrir að G nyti eigna búsins.  Megintilgangur erfðaskrárinnar hafi verið að koma í veg fyrir að sóknaraðilar gætu krafizt skipta búsins að H látnum.

Varnaraðilar segjast byggja á því að eftir gerð erfðaskrárinnar 8. júlí 1997 hafi G aldrei lofað sóknaraðilum að breyta ekki erfðaskránni.  Þá sé til þess að líta að meginregla sé í erfðarétti að langlífari maki geti ráðstafað helming búseignar við andlát hins.  Eins og fram komi í erfðaskrá G árið 2005 hafi vilji hennar aðeins staðið til að ráðstafa hennar hluta af eign búsins til systkina sinna. Þannig hafi hún virt erfðarétt sóknaraðila eftir föður þeirra.

Þá segja varnaraðilar andmæli sóknaraðila við erfðaskránni frá 2005 of seint fram komin.  Strax á árinu 2008 hafi sóknaraðilum og lögmanni þeirra verið kunnugt um erfðaskrána.  Engu að síður gangi þeir frá einkaskiptum dánarbús föður þeirra.  Telja verði að þá hefðu átt að koma fram athugasemdir því þá þegar hafi legið fyrir að G hefði fellt erfðaskrána frá 1997 úr gildi.  Sé um þetta vísað til 47. gr. erfðalaga og dómvenju um niðurfall réttinda vegna tómlætis.  Þá segjast varnaraðilar vísa til þeirra sjónarmiða sem fram komi í dómi Hæstaréttar Íslands í máli 1983:381.  Sé þar fjallað um réttinn til þess að ráðstafa helmingi þess sem erfðaskrána geri.  Komi þetta fram í áliti bæði meirihluta og minnihluta réttarins.

Varnaraðilar segja að í sýknukröfu sinni felist að fara eigi með skipti dánarbús G eftir erfðaskrá hennar frá 9. ágúst 2005, en ekki erfðaskránni sem gerð hafi verið milli hennar og H hinn 8. júlí 1997.  Verði það niðurstaðan leiði það til sýknu af kröfum sóknaraðila. Þá segjast varnaraðilar byggja á því að í norrænum rétti sé almennt litið svo á að gerð nýrrar erfðaskrár feli í sér niðurfellingu eldri erfðaskrár.  Þá hafi Hæstiréttur litið svo á að jafnvel þótt formgallar séu á hinni nýju erfðaskrá falli sú fyrri niður, og vísi varnaraðilar þar til dóms frá árinu 1960, blaðsíðu 420.

Skýrslur aðila fyrir dómi

Sóknaraðilinn E kvaðst þekkja erfðaskrá föður síns og G frá árinu 1997.  Faðir hans hefði greint honum frá henni, en H eldri hefði „viljað tryggja G búsetuöryggi í framtíðinni ef að hann félli frá, en jafnframt tryggja okkur börnum sínum arf eftir sig“.  Hefðu þau H eldri og G talið sig samræma þessi sjónarmið með erfðaskránni, svo sem hún hafi verið gerð.  Erfðaskráin og hjúskaparstofnunin hefðu „hangið saman“, en H eldri hefði þá setið í óskiptu búi eftir fyrri konu sína. H eldri hefði átt íbúð við [...] í [...] en G hefði ekkert átt í henni og þau ekki keypt hana saman. Hefði íbúðin verið keypt áður en þau hefðu gengið í hjúskap. Yfirgnæfandi hluti eigna þeirra hefði komið frá H eldra.  Erfðaskráin hefði verið kynnt börnum hans sem óafturkallanleg.

E yngri kvaðst fyrst hafa séð síðari erfðaskrá G um áramótin 2010 til 2011, eftir lát hennar.  Hins vegar hefði G sagt honum frá því í ársbyrjun 2008 að hún hefði gert nýja erfðaskrá, en sú skrá ekki verið sýnd fyrr en um áramótin 2010 til 2011.  Kvaðst hann hafa sagt systkinum sínum frá skránni, eftir að G hefði sagt honum af henni, og það komið þeim á óvart.

E sagði G hafa óskað eftir að borga systkinunum út „okkar hluta“, sem hún hefði kallað svo. Um þetta hefði séð Svala Thorlacius hæstaréttarlögmaður og hefði hún aldrei minnzt á að gerð hefði verið ný erfðaskrá.  Hefði E talið að G ætlaði sér að greiða þeim allar eignir búsins en svo hefði annað komið á daginn.  E hefði því litið svo á að erfðaskráin frá árinu 1997 væri enn í gildi.

E sagði að rangt væri sem segði í greinargerð varnaraðila að sóknaraðilar hefðu fengið peningalán hjá H eldra og G án þess að greiða til baka.  Einnig væri rangt að þau hefðu þurft að greiða ábyrgðarskuldbindingu vegna eins sóknaraðila.

C sagði G hafa verið hætta að vinna úti þegar þau H hefðu gengið í hjónaband, en áður hefði hún unnið hálfan daginn í álnavöruverzlun.

C sagði að faðir sinn hefði útskýrt erfðaskrána fyrir sér.  Væri hún einföld, G væri tryggð örugg búseta en að lokum myndu eignir beggja ganga til systkinanna.

C kvaðst fyrst hafa frétt af síðari erfðaskrá G þegar E bróðir hennar hefði árið 2008 sagt sér af samtali þeirra G, og hefði hann þá ekki vitað hvort rétt væri að hún hefði gert slíka skrá.  Hún hefði hins vegar ekki séð síðari erfðaskrána fyrr en að G látinni.

C kvaðst hafa litið svo á að greiðslur úr búinu væru hluti af arfi þeirra systkina.  Fyrst hefði hún talið að greiða ætti þeim út allan arfinn en svo hefði annað komið í ljós og þá hefði hún talið þetta vera hlutagreiðslu en afgangurinn kæmi að G látinni.

Niðurstaða

Skiptum dánarbús H lauk með einkaskiptagerð sem sýslumaðurinn á [...] staðfesti hinn 18. marz 2009.  Ekki er byggt á því að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 20/1991 til að einkaskiptin verði tekin upp á ný.  Sóknaraðilar stóðu að einkaskiptum á búi H og eiga því engar kröfur til þess bús umfram einkaskiptagerðina, en sú einkaskiptagerð útkljáir ekki hugsanlegar kröfur þeirra vegna skipta á búi G.

Af bréfi þáverandi lögmanns sóknaraðila til G, dagsettu 11. apríl 2008, er ljóst að sóknaraðilum hefur þá verið kunnugt um að hún hafi gert nýja erfðaskrá, en í bréfi lögmannsins er meðal annars vísað til þess að Svala Thorlacius hæstaréttarlögmaður hafi staðfest það.  Fær þetta einnig stoð í skýrslu sóknaraðilanna E og C fyrir dómi.  Hitt kemur einnig fram í bréfi lögmannsins að honum er ekki kunnugt um efni skrárinnar.  Hefur ekkert komið fram í málinu um að sóknaraðilum hafi orðið kunnugt um efni skrárinnar fyrr en þeir halda fram og þykja þeir ekki hafa glatað hugsanlegum réttindum fyrir tómlæti.

Þau H og G gerðu með sér sameiginlega erfðaskrá hinn 8. júlí 1997, tæpum hálfum mánuði eftir að þau gengu í hjónaband. Meginatriði erfðaskrárinnar, sem þau kalla „sameiginlega og gagnkvæma ráðstöfun eigna“ sinna, eru að það þeirra, sem lengur lifir, fær rétt til að sitja í óskiptu búi svo lengi sem það kýs; að G arfleiðir börn H að öllum eigum sínum eftir sinn dag og að hvorugt þeirra getur breytt erfðaskránni án samþykkis hins.  Verður að ætla að skráin hafi geymt hinzta sameiginlega vilja þeirra.

Erfðaskrá er almennt afturkallanleg enda er henni ætlað að geyma hinzta vilja arfláta.  Hér háttar hins vegar svo til að þau H og G skuldbundu sig bæði til þess að breyta ekki hinni sameiginlegu erfðaskrá sinni án samþykkis hins.

Með hinni gagnkvæmu erfðaskrá öðlaðist það hjónanna, sem lengur lifði, rétt til að sitja í óskiptu búi svo lengi sem það kysi, en ella til æviloka.  Þá arfleiddi G börn H að öllum eigum sínum eftir sinn dag.  Þykir verða að horfa á erfðaskrána frá 1997 sem eina heild.  Ekkert hefur komið fram í málinu að forsendur hinnar gagnkvæmu erfðaskrár hafi brostið eða annað það gerzt sem leysa hefði mátt hið langlífara undan ákvæðum hennar. Verður að álíta að með því ákvæði erfðaskrárinnar frá 1997, að hvorugu sé heimilt að breyta ákvæðum erfðaskrárinnar án samþykkis hins, hafi verið girt fyrir þá heimild sem langlífari maki hefði ella haft til að breyta erfðaskránni eða fella hana úr gildi.  Verður það því niðurstaða dómsins að G hafi ekki verið unnt með nýrri erfðaskrá að afturkalla einhliða að manni sínum látnum þær ráðstafanir sem þau höfðu gert með sameiginlegri og gagnkvæmri erfðaskrá sinni árið 1997.

Sóknaraðilar hafa gert kröfu um að viðurkennt verði að erfðaskráin frá 1997 verði lögð til grundvallar í búskiptum þeirra H og G.  Eins og áður segir er búskiptum H lokið en það þykir rúmast innan dómkrafna sóknaraðila að erfðaskráin verði lögð til grundvallar í búskiptum G.

Sóknaraðilar hafa krafizt þess að verða afhent búið til einkaskipta.  Veiting leyfis til einkaskipta er á hendi sýslumanns.  Búskiptum H er lokið en bú G hefur verið tekið til opinberra skipta samkvæmt dómsúrskurði, eftir að sýslumaður hafði hafnað kröfum bæði sóknaraðila og varnaraðila um heimild til einkaskipta.  Kröfu um að dómurinn afhendi sóknaraðilum nú búið til einkaskipta verður vísað frá dómi.

Eins og áður segir er það niðurstaða dómsins að G hafi ekki verið unnt með gildum hætti að afturkalla þá sameiginlegu erfðaskrá sem hún hafði gert með eiginmanni sínum H.  Þykir í því ljósi ekkert hafa komið fram í málinu sem hindrar að sú erfðaskrá verði lögð til grundvallar við skipti dánarbús hennar.  Í ljósi atvika allra þykir hins vegar mega ákveða að málskostnaður falli niður.

Fyrir sóknaraðila fór með málið Sigurður Sigurjónsson hæstaréttarlögmaður í Reykjavík en fyrir varnaraðila Guðni Á. Haraldsson hæstaréttarlögmaður.  Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

Þorsteinn Davíðsson kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Við skipti dánarbús G skal sameiginleg erfðaskrá hennar og H, gerð 8. júlí 1997, lögð til grundvallar.

Kröfu sóknaraðila um afhendingu dánarbús til einkaskipta er vísað frá dómi.

Málskostnaður milli aðila fellur niður.