Hæstiréttur íslands

Mál nr. 17/2006


Lykilorð

  • Akstur sviptur ökurétti


Fimmtudaginn 11

 

Fimmtudaginn 11. maí 2006.

Nr. 17/2006.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

Einari Inga Kristinssyni

(Óskar Sigurðsson hrl.)

 

Akstur án ökuréttar.

E var gefið að sök að hafa ekið bifreið sviptur ökuréttindum ævilangt. E neitaði að hafa ekið bifreiðinni umrætt sinn og fékk framburður hans stoð í framburði eiginkonu hans fyrir dómi. Héraðsdómur mat framburð hennar með hliðsjón af tengslum hennar við E. Með hliðsjón af framburði tveggja lögreglumanna þótti ekki varhugavert að telja sannað að E hafi ekið bifreiðinni sviptur ökurétti umrætt sinn, og þótti ekkert fram komið í málinu sem drægi úr trúverðugleika þessa framburðar þeirra. Með hliðsjón af sakaferli E og dómvenju var refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Hjördís Björk Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. desember 2005 að ósk ákærða, en jafnframt af hálfu ákæruvalds til staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms en þyngingar á refsingu ákærða.

Ákærði krefst sýknu af kröfu ákæruvalds.

Með ákæru sýslumannsins á Selfossi 10. júní 2005 var ákærða gefið að sök að hafa aðfaranótt laugardagsins 9. apríl sama ár ekið bifreiðinni KK 543 sviptur ökuréttindum ævilangt norður Breiðumörk í Hvergerði og niður Laufskóga að húsi nr. 34. Sakarferill ákærða er réttilega rakinn í héraðsdómi að öðru leyti en því að ekki er getið dóms Hæstaréttar á bls. 1220 í dómasafni réttarins árið 1999 þar sem staðfestur var dómur Héraðsdóms Suðurlands 29. október 1998.

Með þessari athugasemd verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Einar Ingi Kristinsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins samtals 207.417 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 28. nóvember 2005.

Mál þetta, sem dómtekið var 25. október sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi, dagsettri 10. júní 2005, á hendur Einari Inga Kristinssyni, kt. 08073-3609, Laufskógum 34, Hveragerði, fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 9. apríl 2005 ekið bifreiðinni KK 543 sviptur ökuréttindum ævilangt norður Breiðumörk, Hveragerði, þaðan niður Laufskóga, inn í innkeyrslu við hús nr. 34 þar sem ákærði hljóp út úr bifreiðinni og inn í hús. 

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, og þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins og verjandi gerir kröfu um greiðslu málsvarnarlauna úr ríkissjóði.

Málsatvik.

Í frumskýrslu lögreglunnar á Selfossi segir að lögreglumenn hafi verið á bifreiðastæði við Breiðumörk í Hveragerði þegar þeir veittu athygli bifreiðinni KK 543 sem ekið var norður Breiðumörk. Hafi henni verið ekið allhratt og þeir tekið ákvörðun um að athuga ástand ökumannsins og réttindi. Þegar lögreglumennirnir héldu af stað á eftir bifreiðinni jók ökumaðurinn hraðann, beygði niður Laufskóga og inn innkeyrslu við Laufskóga 34. Hlupu ökumaður og farþegi inn í húsið en lögreglumenn veittu þeim eftirför. Í skýrslunni segir að lögregluennirnir hafi séð greinilega hvor var ökumaður og hvor var farþegi þegar „mennirnir“ stigu út úr bifreiðinni. Báðu þeir ökumanninn, eftir að hann var kominn inn í íbúðarhúsið, að koma með sér út í lögreglubifreiðina til viðræðna. Neitaði ákærði því í fyrstu að hafa ekið bifreiðinni en játaði svo, þegar honum var kynnt að lögreglumennirnir hefðu séð greinilega hver stjórnaði bifreiðarinni. Öndunarmælir sýndi 0,3‰, og ákærði kvaðst vera með gild ökuréttindi, var honum þá frjálst að fara. Er lögreglumennirnir komu á lögreglustöð kom í ljós að ákærði var sviptur ökurétti.

Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglu 10. maí sl., og kvað hann eiginkonu sína A hafa ekið bifreiðinni umrætt sinn, en 24. maí sl. skoraðist A undan vitnaskyldu hjá lögreglu.

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi..

Ákærði kvaðst hafa verið kominn heim umrætt kvöld þegar bankað var á útidyrahurðina og lögreglan kom inn. Ákærði kvaðst ekki hafa orðið var við lögregluna fyrr en lögreglumaður kom inn í eldhúsið. Hefði lögreglumaður beðið um að fá að tala við ökumann bifreiðarinnar og A sagt að það væri hún. Hefði lögreglumaðurinn neitað því og beðið ákærða um að koma út í lögreglubifreiðina þar sem ákærði var inntur eftir því hvort hann væri með ökuskírteini og hvort hann hefði verið að aka, en ákærði neitaði þessu. Ákærði kvaðst hafa verið í ljósum jakkafötum þetta kvöld. Ákærði kvað það rangt sem segir í frumskýrslu lögreglu, að hann hefði játað verknaðinn. Ákærði kvað hafa verið þungbúið, og slabb á götunum, hefði þetta verið að nóttu. Ákærði kvaðst hafa sagt lögreglumönnunum sem komu inn í eldhúsið að kona sín hefði ekið, en þeir hefðu ekki rætt við A. Ákærði kvað lögreglumennina hafa spurt hvort hann væri með skírteini, hefði hann neitað því en ekki þótt ástæða til að segja þeim að hann væri sviptur ökurétti.

Vitnið A, eiginkona ákærða, sagði svo frá að hún hefði ekið bifreiðinni umrætt sinn. Kvaðst hún ekki hafa orðið vör við lögregluna á leiðinni. Þegar þau voru komin inn hefði verið bankað, vitnið hefði opnað og lögreglumaður komið inn. Hefði hann spurt hver hefði verið bílstjóri, vitnið sagt að það hefði verið hún en lögreglumaðurinn hefði sagt nei, farið inn í húsið og beðið ákærða um að koma með sér út í bifreiðina. Vitnið kvað þau ekki hafa flýtt sér óeðlilega inn í húsið. Kvað hún hafa verið orðið dimmt þegar þetta var, sennilega hefði þetta verið klukkan tvö eða þrjú um nóttina. Hún kvað ákærða hafa verið í ljósdrapplitum jakkafötum, sjálf hefði hún verið í rauðum buxum og hvítum jakka. Vitnið kvað sig minna að ákærði hefði sagt að lögreglumennirnir hefðu talið ákærða hafa ekið bifreiðinni, kvað hún lögregluna þá hafa verið farna og hefði hún haldið að málinu væri lokið. Hún kvað lögregluna ekki hafa haft samband við sig eftir þetta kvöld. Kvað hún lögregluna ekki hafa athugað ökuréttindi sín. Hún kvaðst ekki hafa áttað sig á því hvort þeir teldu ákærða vera ökumanninn. A var innt eftir því hvers vegna hún hefði skorast undan að gefa skýrslu hjá lögreglu og kvaðst hún hafa sagt á lögreglustöðinni að hún hefði ekið. Kvaðst hún ekki hafa áttað sig á þessu með að skorast undan að gefa skýrslu. 

Vitnið Leifur Halldórsson lögreglumaður sagði þannig frá að hann hefði verið ásamt starfsfélaga sínum á bílastæði við Breiðumörk, er jeppabifreið hefði verið ekið hjá. Hefðu þeir ákveðið að fara á eftir jeppanum, en ökumaður hans hefði aukið hraðann allverulega þegar þeir beygðu út á Breiðumörkina. Kvað vitnið fjarlægðina þegar ákærði fór framhjá ef til vill hafa verið 10 til 15 metra. Kvaðst hann hafa séð að ökumaðurinn var dökkklæddur karlmaður. Vitnið kvað þá hafa sett blikkljósin á þegar þeir komu inn á Laufskóga. Kvað hann bifreiðina hafa horfið úr augsýn í nokkrar sekúndur þegar þeir voru á leið upp brekku á Breiðmörk. Hefðu þeir séð að bifreiðinni var ekið upp að húsi nr. 34. Hefðu þeir tveir sem voru í bifreiðinni hraðað sér inn í hús. Kvaðst vitnið hafa séð greinilega að ákærði fór út úr bifreiðinni ökumannsmegin, hefði hann verið klæddur í brún jakkaföt. Vitnið kvaðst hafa verið að beygja inn innkeyrsluna þegar fólkið fór úr bifreiðinni. Hefði athygli vitnisins beinst að ökumanninum og vitnið ekki tekið vel eftir þeim sem var farþegamegin. Hann kvað fjarlægðina í innkeyrslunni á milli bifreiðanna ef til vill hafa verið fimm til sex metra, þegar þau eða þeir voru að fara út úr bifreiðinni. Hann kvað hafa verið bjart og gott veður, vorveður að hann minnti. Það hefði þó verið myrkur, en þetta hefði verið að nóttu til. Hann kvað þá hafa farið á eftir fólkinu inn en dyrnar hefðu verið opnar. Hefðu þeir farið inn og vitnið fundið ökumanninn í eldhúsinu. Þegar vitnið kom inn hefði hann fyrst hitt fyrir konu og spurt hana hvar maðurinn væri sem hefði verið að keyra, hefði hún sagt að hún hefði verið að keyra. Vitnið sagði ökumanninn hafa verið í eldhúsinu. Kvað vitnið ákærða hafa viðurkennt aksturinn „eftir smá ströggl“. Kvað vitnið ákærða hafa sagst ekki vera með skírteini og spurt hvort það væri glæpur og svo sagt að hann væri að koma úr Reykjavík. Kvað hann þá ekki hafa leitað staðfestingar á því hvort ákærði væri með ökuréttindi í lagi fyrr en síðar, en talið að ástæðan fyrir feluleiknum væri áfengisneysla. Kvað vitnið sennilega vera rétt sem segir í lögregluskýrslu að það hefði verið blautt og myrkur, þótt hann minnti nú að það hefði verið bjart og gott veður. Minnti hann að það væru útiljós við húsið. Kvaðst vitnið hafa talið að sá sem var með ákærða í bifreiðinni hefði verið karlmaður en kvaðst ekki geta lýst þeirri manneskju neitt. Kvaðst hann ekki hafa rætt frekar við eiginkonu ákærða. Kvað hann þá hafa farið strax eftir að ákærði fór út úr bifreiðinni, hefðu þeir talið málið vera upplýst, en þeir hefðu ekki athugað með ökuréttindi á þessu stigi.

Vitnið Garðar Örn Tómasson, lögreglumaður, skýrði svo frá að þeir hefðu verið á bílastæði við Breiðumörk þegar bifreið var ekið framhjá, nokkuð greitt. Hefðu þeir ákveðið að athuga ástand og ökuréttindi ökumannsins. Vitnið kvaðst hafa séð að ökumaðurinn var karlmaður í jakkafötum. Hefði virst sem ökumaðurinn yki hraðann upp brekkuna, þegar þeir fóru á eftir bifreiðinni. Hefðu lögreglumennirnir þá einnig aukið hraðann. Ökumaðurinn hefði beygt niður Laufskóga og ekið þar upp að húsi. Hefðu lögreglumennirnir farið inn á planið á eftir ökumanninum, og sett viðvörunarljósin í gang þegar þeir voru að koma að heimkeyrslunni. Bifreið ákærða hefði verið lagt í heimkeyrslunni og ökumaður og farþegi hlaupið inn í húsið. Kvað vitnið hafa sést greinilega að sá sem fór út úr bifreiðinni var karlmaður, ákærði í málinu, og að hann hefði verið í jakkafötum. Kvaðst vitnið telja að fjarlægðin hefði verið 20 metrar um það bil. Hefðu lögreglumennirnir farið út úr lögreglubifreiðinni og bankað á hurð hússins, kona hefði komið til dyra og þeir fengið að fara inn að finna ökumanninn, hefði hann verið þarna inni og þeir beðið hann um að koma í lögreglubifreiðina til viðræðna. Hefði ákærði komið í lögreglubifreiðina, ekki viðurkennt aksturinn í fyrstu en gert það eftir einhverjar viðræður. Kvaðst vitnið ekki muna alveg hvað fór á milli þeirra og konu ákærða. Minnti hann að þeir hefðu spurt hvort þeir mættu tala við ökumann bifreiðarinnar, en mundi hann þetta ekki alveg. Minnti hann að hún hefði sagt að ákærði væri inni í húsinu. Kvað hann hafa verið rökkur eða myrkur, en kvaðst ekki muna alveg ástand vegar. Kvaðst vitnið hafa séð að ökumaðurinn var karlmaður í jakkafötum. Kvaðst hann ekki hafa séð farþegann. Vitnið kvað bifreiðinni ekki hafa verið ekið sérstaklega hratt framhjá þeim, ef til vill á 40 km hraða á klukkustund. Kvaðst hann aðspurður telja að hann hefði haft nokkrar sekúndur til að sjá ökumanninn, ef til vill tvær til þrjár. Kvað vitnið bilið á milli bifreiðanna hafa verið um 100 til 200 metrar þegar það var breiðast. Þegar þeir komu að húsinu að Laufskógum hefði bifreiðin verið kyrr við húsið. Frá horni Laufskóga að húsi ákærða væru tvö til þrjú hús. Þegar þeir komu inn á götuna sáu þeir að hann var að beygja inn að húsinu. Vitnið kvaðst ekki hafa séð hvort farþeginn var kona eða karl, eða hvernig manneskjan var klædd. 

Niðurstaða.

Ákærði hefur neitað því að hafa ekið bifreiðinni umrætt sinn og fær framburður hans stoð í framburði eiginkonu hans fyrir dómi, en hún skoraðist undan vitanskyldu á rannsóknarstigi málsins.  Hún hefur hins vegar skýrt svo frá fyrir dómi að hún hafi ekið bifreiðinni en ekki ákærði.   Ber að meta framburð hennar með hliðsjón af tengslum hennar við ákærða.  Lögreglumaðurinn Leifur hefur skýrt svo frá fyrir dómi að karlmaður í dökkum jakkafötum hefði ekið bifreiðinni.  Þá hefði ákærði viðurkennt aksturinn er á hann var gengið.  Lögreglumaðurinn Garðar Örn tekur í sama streng.  Með hliðsjón af þessum framburði tveggja lögreglumanna þykir ekki varhugavert að telja sannað að ákærði hafi hafi ekið bifreiðinni sviptur ökurétti eins og honum er gefið að sök og þykir ekkert hafa fram komið í málinu sem dregur úr trúverðugleika þessa framburðar þeirra.  Brot ákærða er rétt fært til refsiákvæða í ákæruskjali.

Samkvæmt sakavottorði ákærða var hann árið 1992 dæmdur í 3 mánaða skilorðsbundið fangelsi og 100.000 króna sekt fyrir líkamsárás, ölvunarakstur og önnur umferðarlagabrot.  Þá var hann sviptur ökurétti í 20 mánuði.  Árið 1993 var hann dæmdur í 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir ölvunarakstur og brot gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga og jafnframt var hann sviptur ökurétti í 2 mánuði, en um hegningarauka á fyrrnefnda dóminn var að ræða og var skilorðshluti hans dæmdur með.  Sama ár var ákærði dæmdur til greiðslu 90.000 króna sektar fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga og ölvunarakstur og jafnframt var hann sviptur ökurétti í 3 ár.  Árið 1994 var ákærði dæmdur í 60 daga fangelsi fyrir brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga og árið 1995 var hann dæmdur í 45 daga fangelsi fyrir brot gegn 2., sbr. 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga.  Ári síðar var hann dæmdur í 6 mánaða fangelsi fyrir líkamsárás og árið 1998 var hann dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir ölvunarakstur og brot gegn fíkniefnalöggjöf.   Þá var hann einnig sviptur ökurétti ævilangt.  Þann 19. apríl 2000 var ákærði dæmdur í 60 daga fangelsi fyrir ölvunarakstur og brot gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga og jafnframt var ævilöng svipting ökuréttar áréttuð.  Sama ár var ákærði sektaður fyrir brot gegn áfengislögum og fíkniefnalöggjöf og þann 20. nóvember 2001 var ákærði sektaður um 100.000 krónur fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga.  Með hliðsjón af sakaferli ákærða og dómvenju þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga.

 Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðjóns Ægis Sigurjónssonar, hdl., 99.600 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

Dómsuppkvaðning hefur dregist vegna anna við embættið.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Einar Ingi Kristinsson, sæti fangelsi í 30 daga.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðjóns Ægis Sigurjónssonar, hdl., 99.600 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.