Hæstiréttur íslands

Mál nr. 441/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Þriðjudaginn 13. júlí 2010.

Nr. 441/2010.

Lögreglustjórinn

á höfuðborgarsvæðinu

(Stefán Eiríksson lögreglustjóri)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur, en einangrun í gæsluvarðhaldinu var stytt.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júlí 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júlí 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til föstudagsins 30. júlí 2010 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi í einangrun frá 18. júní 2010. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um að varnaraðili skuli sæta gæsluvarðhaldi þann tíma sem greinir í úrskurðinum. Í 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008 eru lagðar takmarkanir á heimild til að úrskurða sakborning til þess að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi og lagt bann við að einangrun standi samfleytt lengur en í fjórar vikur nema að uppfylltum tilgreindum skilyrðum. Þó að þeim skilyrðum sé í sjálfum sér fullnægt í málinu þykir sóknaraðili ekki hafa fært fram fullnægjandi rök fyrir nauðsyn þess að varnaraðili sæti einangrun allan gæsluvarðhaldstímann. Verður einangruninni því markaður sá tími sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um að varnaraðili, X, skuli sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 30. júlí 2010 klukkan 16. Hún skal sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu til þriðjudagsins 20. júlí 2010 klukkan 16.

                                                                           

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 9. júlí 2010.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X f. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 30. júlí 2010 kl. 16:00.

Þá er þess krafist að kærðu verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi til rannsóknar stórfellt fíkniefnabrot. Við tolleftirlit 17. júní sl. hafi tollverðir og lögregla fundið um 20 lítra af amfetamínvökva í eldsneytistanki  bifreiðar við komuna til landsins. Samkvæmt áliti lyfjafræðistofnunnar sé unnt að útbúa um 250 kíló af neysluhæfu amfetamíni úr hinum haldlagða vökva.

Kærða, sem hafi verið farþegi bifreiðarinnar, neiti allri aðild að málinu.  Hún hafi skýrt frá því að hún hafi komið hingað til lands í boði meðkærðu, sem sé eigandi bifreiðarinnar og ökumaður hennar. Þær hafi verið vinkonur og nágrannar til margra ára og tilgangur ferðarinnar sé að heimsækja Bláa lónið.

Rannsókn málsins miði vel áfram. En málið hafi m.a. verið unnið með aðstoð þýskra lögregluyfirvalda, sjá nánar réttarbeiðnir, dags. 25. júní sl. og 2. júlí sl. Teknar hafa verið skýrslur af aðilum búsettum í Þýskalandi, jafnframt er framkvæmdar hafa verið húsleitir þar í landi.

Við rannsókn málsins hafi komið fram að meðkærða hafi ekið ofangreindri bifreið sinni, ásamt vinkonu sinni, frá Þýskalandi til Litháen 5. júní sl.  Þar hafi nafngreindur maður, tekið á móti þeim.  Á hann að hafa tekið við umræddri bifreið og ferðapappírum kærðu hingað til lands og skilað tveimur dögum seinna og þá með þeim fyrirmælum að ekki mætti aka bifreiðinni meira en 300 kílómetra án þess að taka eldsneyti.

Meðkærða hafi skýrt frá því að maðurinn hafi greitt fyrir ofangreinda bifreið um miðjan maí sl. svo og fyrir ferð hennar og X hingað til lands.  Um hafi verið að ræða vinargreiða.

Lögregla, vinni með aðstoð Europol, nú hörðum höndum að því að hafa uppi á manninum í því skyni að handtaka hann og yfirheyra í þágu málsins.  Þá vinni lögregla að því að kanna hugsanleg tengsl hans við aðila hér á landi.  Þá liggi og fyrir lögreglu að taka frekari skýrslur af aðilum búsettum í Þýskalandi.

Kærða sé undir sterkum rökstuddum grun um að eiga aðild að innflutningi á gífurlegu magni hættulegra fíkniefna þannig að varði við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Þá sé rannsókn málsins á viðkvæmu stigi og því sé afar brýnt að krafa lögreglustjóra verði tekin til greina, þannig að kærða fái ekki tækifæri til að torvelda rannsóknina, s.s. með því að koma undan munum, hafa áhrif á aðra samseka eða vitni. 

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a.liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Samkvæmt framansögðu er kærða undir rökstuddum grun um að hafa framið brot, sem varðað getur allt að 12 ára fangelsi. Verður fallist á það með lögreglu að ætla megi að kærða muni torvelda rannsókn málsins, s.s. með því að hafa áhrif á samseka eða vitni, verði henni sleppt úr gæslu. Verður krafa lögreglustjóra því tekin til greina eins og hún er sett fram með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.  Kærða er erlendur ríkisborgari og samkvæmt gögnum málsins er rannsókn þess unnin í samvinnu við erlend lögregluyfirvöld.  Með vísan til þessa eru ekki efni til að verða við kröfu kærðu um að marka varðhaldinu skemmri tíma en krafist er.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Kærða, X f. [...], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. júlí 2010, kl. 16:00.

Kærða skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.