Hæstiréttur íslands
Mál nr. 446/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júní 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. maí 2016 þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar, verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. maí 2016.
Með beiðni, dags. 10. desember 2015, sem barst dóminum sama dag, krafðist sóknaraðili, Tollstjóri, kt. [...], Tryggvagötu 19, Reykjavík, þess að bú varnaraðila, Byggingafélagsins Byggðavík ehf., kt. [...], Lækjasmára 17, Kópavogi, yrði tekið til gjaldþrotaskipta með vísan til 1. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Við fyrirtöku gjaldþrotaskiptabeiðninnar 17. mars 2016 var sótt þing af hálfu sóknaraðila og varnaraðila. Varnaraðili mótmælti kröfunni og var þá þingfest ágreiningsmál þetta, sbr. 1. mgr. 168. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 18. maí 2016.
Sóknaraðili krefst þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Varnaraðili krefst þess að hafnað veðri kröfu sóknaraðila um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
I.
Í beiðni sóknaraðila kemur fram að varnaraðili eigi ógreidd opinber gjöld samkvæmt framlögðu greiðslustöðuyfirliti. Hinn 24. september 2015 hafi verið gert fjárnám hjá honum sem hafi lokið án árangurs. Skuldastaða hans við embættið sé nú eftirfarandi, auk 15.000 kr. gjalds í ríkissjóð vegna kröfu þessarar:
Höfuðstóll 1.203.001 kr.
Dráttarvextir 2.294.036 kr.
Kostnaður 19.100 kr.
Samtals krafa 3.516.137 kr.
Krafa sóknaraðila um gjaldþrotaskipti sé studd við 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en ekkert gefi til kynna að varnaraðili sé fær um að standa í skilum við sóknaraðila nú þegar eða innan skamms tíma.
Sóknaraðili kveðst ábyrgjast greiðslu alls kostnaðar af meðferð þessarar kröfu og af gjaldþrotaskiptum ef til þeirra kemur.
II.
Í greinargerð varnaraðila segir að varnaraðili hafi sætt skattrannsókn hjá hinu opinbera frá árinu 2007 til ársins 2009. Málið hafi byrjað hjá skattstofu Hafnarfjarðar þar sem starfsmaður hafi gert mistök í starfi þegar varnaraðili hafi óskað eftir vsk númeri. Yfirmaður skattstofunnar hafi hótað varnaraðila skattrannsókn og hún farið fram. Áður en rannsókn hafi lokið hafi fyrirsvarsmaður varnaraðila verið kærður. Varnaraðili telur að „yfirvaldið“ hafi brotið gegn meginreglum stjórnsýsluréttar. Málsmeðferð hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins hafi endanlega lokið 21. júní 2010. Varnaraðili hafi verið afskráður úr hlutafélagskrá með bréfi 14. júní 2010 og verið afskráð í marga mánuði en félagið verið opnað aftur. Varnaraðili hafi ekki getað vegna ágreinings við ríkisskattstjóra starfað sem skyldi, en um sé að ræða margþætt brot yfirvaldsins. Varnaraðili kveðst áskilja sér rétt til skaðabóta og gera kröfu um niðurfellingu krafna á hendur varnaraðila.
III.
Samkvæmt 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. getur lánardrottinn krafist þess að bú skuldarans verði tekið til gjaldþrotaskipta, hafi fjárnám verið gert hjá skuldaranum án árangurs að einhverju leyti eða öllu á síðustu þremur mánuðum fyrir frestdag, enda sýni skuldarinn ekki fram á að hann sé allt að einu fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær koma í gjalddaga eða verði það innan skamms tíma.
Árangurslaust fjárnám var gert hjá varnaraðila 24. september 2015 vegna ógreiddra opinberra gjalda. Fullyrðingar varnaraðila um að brotið hafi verið á honum við skattrannsókn eru með öllu órökstuddar og fá því ekki hnekkt að árangurslaust fjárnám var gert hjá varnaraðila 24. september 2015. Varnaraðili hefur ekki sýnt fram á að honum sé kleift að standa við skuldbindingar sínar við sóknaraðila og ber því samkvæmt 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að fallast á kröfu sóknaraðila, um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Að kröfu sóknaraðila, Tollstjóra, er bú varnaraðila, Byggingafélagsins Byggðavík ehf., kt. [...], tekið til gjaldþrotaskipta.