Hæstiréttur íslands

Mál nr. 366/2009


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 28. janúar 2010.

Nr. 366/2009.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir

vararíkissaksóknari)

gegn

Tryggva Óla Þorfinnssyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.

Ástríður Gísladóttir hdl.)

(Hjördís E. Harðardóttir hrl.

réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur.

T var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn A, fæddri 1992, með því að hafa í nokkur skipti á árunum 2004 fram til í apríl 2007 við nánar tilgreindar aðstæður káfað utan klæða á brjóstum, lærum og kynfærum hennar og látið hana snerta kynfæri T utan klæða. Voru brot hans sem framin voru fram að því að stúlkan varð 14 ára talin varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot hans eftir að hún náði þeim aldri við 209. gr. sömu laga. Með héraðsdómi var T jafnframt sakfelldur fyrir að hafa tvívegis í júní 2007 tælt stúlkuna til annarra kynferðismaka en samræðis með því að hafa notfært tilteknar aðstæður hennar, aldurs- og þroskamun. Fyrir héraðsdómi játaði hann þessi brot að því undanskildu að hann neitaði að hafa sett gervilim í leggöng stúlkunnar og látið hana hafa við sig munnmök. Ekki var talið sannað að hann hefði sett gervilim í leggöng A. Með vísan til forsendna héraðsdóms var staðfest niðurstaða hans um sakfellingu fyrir aðra háttsemi T, sem lýst var í síðari kafla ákærunnar. Voru brot hans talin varða við 3. mgr. 202. gr., 199. gr. og 209. gr. almennra hegningarlaga. Var T gert að sæta fangelsi í 18 mánuði og voru miskabætur A til handa ákveðnar 800.000 krónur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. júní 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða en refsing hans þyngd.

A krefst þess að ákvæði héraðsdóms um bætur verði staðfest.

Ákærði krefst sýknu af I. kafla ákæru og þeim hluta II. kafla er lýtur að því að hann hafi sett gervilim í leggöng A og látið hana hafa við sig munnmök. Án tillits til niðurstöðu um þá kröfu krefst hann þess að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess að bætur til A verði lækkaðar.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn A, fæddri [...] 1992, með því að hafa í nokkur skipti á árunum 2004 fram til apríl 2007 við nánar tilgreindar aðstæður káfað utan klæða á brjóstum, lærum og kynfærum hennar og látið hana snerta kynfæri ákærða utan klæða, eins og lýst er í I. kafla ákæru. Ákærði hefur neitað þessum sakargiftum. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sakfelling ákærða varðandi þennan kafla ákæru. Brot hans sem framin voru fram að því að stúlkan varð 14 ára varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eins og ákvæðið hljóðaði áður en því var breytt með lögum nr. 61/2007, en brot hans eftir að hún náði þeim aldri við 209. gr. fyrrnefndu laganna.

Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði jafnframt sakfelldur samkvæmt II. kafla ákæru fyrir að hafa tvívegis í júní 2007 tælt stúlkuna til annarra kynferðismaka en samræðis með því að hafa notfært tilteknar aðstæður hennar, aldurs- og þroskamun. Í fyrra sinnið hafi hann káfað utan klæða á brjóstum og lærum stúlkunnar, fengið hana til að setja fingur í leggöng og fróað sjálfum sér fyrir framan hana, sbr. 1. tölulið, en í það síðara káfað á brjóstum stúlkunnar utan klæða, nuddað kynfæri hennar, sett fingur og gervilim í leggöng hennar, látið stúlkuna hafa við sig munnmök og fróa sér, sbr. 2. tölulið. Fyrir héraðsdómi játaði ákærði þessi brot að því undanskildu að hann neitaði að hafa sett gervilim í leggöng stúlkunnar og að hafa látið hana hafa við sig munnmök. Stúlkan hefur borið í tveimur skýrslum, sem hún gaf fyrir héraðsdómi, að ákærði hafi sett gervilim í leggöng hennar. Hins vegar hefur vætti hennar um aðdraganda þess tekið miklum breytingum í skýrslum hennar fyrir dómi, svo og um það hvenær ákærði gaf henni tækið. Ýmist kveður hún ákærða hafa notað tækið seinni hluta sumars 2009, um haustið eftir að hún var byrjuð í skóla sama ár eða rétt fyrir jól. Þegar þetta er virt og gegn staðfastri neitun ákærða allt frá upphafi verður ekki talið sannað að hann hafi gerst sekur um þessa háttsemi. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu fyrir aðra háttsemi ákærða, sem lýst er í þessum kafla ákæru. Þau brot hans að setja fingur upp í leggöng stúlkunnar, láta hana hafa við sig munnmök og fróa sér varða við 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum. Sú háttsemi hans að káfa á stúlkunni utan klæða á brjóstum og lærum og að nudda kynfæri hennar er heimfærð undir 199. gr. laganna og það brot að fróa sér fyrir framan stúlkuna varðar við 209. gr. laganna.

Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til 77. gr. almennra hegningarlaga og þess að brot hans samkvæmt II. kafla voru framin eftir 3. apríl 2007, þegar lög nr. 61/2007 tóku gildi, en með þeim var breytt til hækkunar refsimörkum 2. og 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um refsingu ákærða og sakarkostnað.

Að virtum atvikum málsins og þeim afleiðingum, sem brot ákærða hefur haft á stúlkuna eru miskabætur henni til handa ákveðnar 800.000 krónur, sem bera vexti eins og í dómsorði greinir.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, Tryggva Óla Þorfinnssonar, og sakarkostnað.

Ákærði greiði A 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júlí 2007 til 22. ágúst 2008, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 593.339 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Hjördísar E. Harðardóttur hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. maí 2009.

 Mál þetta, sem dómtekið var 11. maí 2009, er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 26. febrúar 2009 á hendur Tryggva Óla Þorfinnssyni, kennitala […], fyrir kynferðisbrot á þáverandi heimili ákærða að […] gegn A, sem ákærði hafði umgengist mikið, en faðir stúlkunnar er æskuvinur ákærða, með því að hafa, er stúlkan var sem oftar að gæta barna ákærða:

I

            Í nokkur skipti á árunum 2004-2007 káfað utan klæða á brjóstum, lærum og kynfærum A og látið hana snerta kynfæri ákærða utan klæða.

            Er þetta talið varða við 2. mgr. 202. gr., 199. gr. og 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

II

            Í júní 2007 tælt hana til annarra kynferðismaka en samræðis með því að notfæra sér ofangreindar aðstæður og þann aldurs- og þroskamun sem á þeim var, er hann:

1)      Káfaði utan og innan klæða á brjóstum, lærum og kynfærum A, setti fingur í leggöng hennar, fékk stúlkuna til að setja fingur inn í leggöng sín og fróaði sjálfum sér fyrir framan hana.

2)      Káfaði á brjóstum stúlkunnar utan og innan klæða, nuddaði kynfæri hennar setti fingur og gervilim í leggöng hennar, lét stúlkuna hafa við sig munnmök og fróa sér.

            Er þetta talið varða við 3. mgr. 202. gr. laga nr. 19/1940 en til vara við 199. gr. og 209. gr. laga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 88/2008.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakar­kostnaðar.

            Einkaréttarkrafa:

            Af hálfu A, kennitala […], er krafist miskabóta að fjárhæð 1.000.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. maí 2002 til 22. ágúst 2008 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. s.l. frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar og að dráttarvextir leggist við höfuðstól miskabóta á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta í samræmi við 12. gr. laga nr. 38/2001.

            Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa, sýknu af skaðabótakröfu og þess að málskostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

            Með bréfi 31. janúar 2008 til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu tilkynnti Barnaverndarnefnd […]um ætluð brot Tryggva Óla Þorfinnssonar, ákærða í máli þessu, gagnvart A. Í bréfinu er gerð grein fyrir því að málið hafi borist Barnaverndarnefnd […] með bréfi skólastjóra […] 8. nóvember 2007, en hann hafi tilkynnt um hugsanlega kynferðislega misnotkun á stúlkunni. Í bréfi Barnaverndar­nefndar er gerð grein fyrir því að málið hafi verið kannað með viðtölum við móður stúlkunnar og stjúpföður.

            Þriðjudaginn 26. febrúar 2008 ræddi lögreglumaður símleiðis við B, móður A. Staðfesti B það sem fram kom í bréfi Barna­verndarnefndar til lögreglu um atvik málsins. Í niðurlagi símtalsins lagði B fram kæru á hendur ákærða fyrir brot gagnvart dóttur sinni.

            Fimmtudaginn 13. mars 2008 var tekin skýrsla fyrir dómi af A á grundvelli 1. mgr. a liðar 74. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Greindi hún þá frá atvikum málsins. Aftur var tekin skýrsla af A fyrir dómi mánudaginn 24. nóvember 2008. 

            Ákærði var fyrst yfirheyrður um sakarefnið hjá lögreglu föstudaginn 29. febrúar 2008. Ákærði kvaðst vera æskuvinur föður A. Hafi hann því þekkt börn föður ákærða mjög vel eftir að þau hafi farið að eldast. Kvaðst hann hafa átt nánar samræður við A um kynlíf frá því hún hafi verið að gæta barna hans heima hjá ákærða. Hafi það verið eftir að A hafi verið orðin 15 ára gömul. Hafi A sagt ákærða náið frá ástarlífi sínu með strákum bæði fyrir norðan þar sem hún ætti heima sem og fyrir sunnan í Reykjavík. Hafi ákærði bent henni á að fara ekki að stunda kynlíf strax og að hún ætti að hjálpa sér sjálf í kynlífinu. Hafi A verið mjög opinská í samræðum við ákærða. Hafi hann þá gert þau mistök að kaupa handa henni gervilim á stærð við penna. Ákærði kvað það hafa gerst í tvígang á heimili hans að hann hafi leitað á A. Í þessum tilvikum hafi hún verið að gæta barna ákærða á heimili hans. Væri ákærði með sófa á heimili sínu sem hann sæti í. Við sófann hafi hann oft farið í ,,gamnislag“ við börnin, þ. á m. A. Í fyrstu hafi þetta byrjað sem stríðni. Hafi hann verið að nudda axlir stúlkunnar og hlutir þróast þannig að hann hafi þreifað á brjóstum hennar utan klæða. Hann hafi síðan fært sig neðar og verið farinn að þreifa á innanverðum lærum hennar þegar hann hafi hætt. Hafi hann sagt A að gera þetta sjálf. Hafi hún gert það og káfað á sjálfri sér. Hafi hún síðan fróað sér fyrir framan hann. A hafi ekki fækkað fötum þegar hún hafi farið undir föt sín. Ákærði hafi fróað sálfum sér á sama tíma og orðið sáðfall. Í annað sinn sem þetta hafi gerst hafi hlutirnir verið grófari en byrjað á sama hátt. Þeir hafi átt sér stað í herbergi sonar ákærða. Hafi hann þá farið inn undir klæði hennar og þreifað á brjóstum hennar utan yfir brjóstahaldara og síðan farið í kynfæri hennar og nuddað á henni snípinn. Ákærði kvaðst hafa kysst brjóst hennar en hún hafi verið á brjóstahaldara. Ákærði hafi hætt og sagt A að gera þetta sjálf. Hafi hún þá fróað sér sjálf. Á sama tíma hafi ákærði fróað sér. A hafi einnig káfað á ákærða og fróað honum með höndum. Hafi ákærða orðið sáðfall. Hún hafi ekki fækkað fötum en bolur hennar þó verið færður upp að háls. Hún hafi þó verið á brjóstahaldara. Atburðirnir hafi gerst haustið 2007. Hafi hann tekið hana á eintal eftir það og sagt að það sem gerst hafi á milli þeirra hafi ekki átt að gerast og myndi ekki gerast aftur.  

            Ákærði var aftur yfirheyrður um atvikin hjá lögreglu þriðjudaginn 22. júlí 2008. Var hann í upphafi spurður að því hvort hann vildi í einhverju breyta fyrri framburði sínum hjá lögreglu og kvað ákærði svo ekki vera fyrir utan að ákærði kvaðst vilja viðurkenna að hafa sett fingur inn í leggöng stúlkunnar. Þá kvað ákærði sér ekki hafa orðið sáðfall í síðara skiptið sem til kynferðislegra samskipta hafi komið á milli þeirra. Að öðru leyti lýsti ákærði kynferðislegum samskiptum sínum og stúlkunnar eins og í fyrri skýrslu sinni hjá lögreglu. Ákærði kvaðst eftir síðara skiptið hafa sagt stúlkunni að ef hún segði föður sínum frá atvikunum myndi það örugglega ,,rústa okkar samband“. Ákærði kvaðst telja að hin kynferðislegu samskipti hafi átt sér stað í júní 2007, en þau hafi gerst um svipað leyti. Ákærði kvaðst aldrei hafa átt að koma stúlkunni í þá stöðu að eiga við hann kynferðisleg samskipti. Er undir ákærða var borinn framburður A hjá lögreglu kvaðst ákærði hafa kennt A leik í  júní 2007 sem hafi gengið út á hve langt upp læri aðili þyrði að strjúka hendi. Leikurinn bæri nafnið ,,sannleikur“ eða ,,kontor“ og hafi gengið út á að setja hönd á hné á hvoru öðru og sá sem þyrði að fara hærra myndi vinna leikinn. Er ákærði hafi kennt henni leikinn hafi hann sett hönd sína í eigið klof til að hún færi ekki alla leið. Ákærði kvaðst ekki hafa káfað á stúlkunni fyrir þessi tvö atvik í júní 2007. Hann hafi hins vegar slegist við hana fyrir þann tíma. Er borin var undir ákærða frásögn A um að ákærði hafi notað gervilim á hana kvaðst ákærði ekki kannast við að hafa séð hann frá því að hann hafi sent henni hann eða hún tekið hann. Gerviliminn hafi hún farið með norður. Ákærði hafi nefnt við stúlkuna að hún ætti að kaupa sér ,,ástaráhald“. Hún hafi sagt að hún þyrði því ekki og hafi ákærði þá keypt handa henni gervilim. Í næsta skipti er hún hafi verið að passa heima hjá ákærða hafi hún verið búin að finna hann í skúffu í svefnherbergi á heimili ákærða er ákærði hafi komið heim. Hafi ákærði sagt henni að taka hann með sér heim. 

            Fyrir dómi við aðalmeðferð málsins greindi ákærði þannig frá atvikum að hann hafi kynnst A mjög ungri en hann og faðir stúlkunnar væru nánir vinir. Hafi verið samgangur á milli heimilanna og ákærði einu sinni gætt barna fyrir föður A. Á árinu 2007 hafi A komið mikið á heimili ákærða og oft gætt barna ákærða. Bróðir hennar hafi áður gætt barna fyrir ákærða en hún þá stundum fylgt með. Ákærði kvað það geta staðist að hann hafi um tíu sinnum á árunum 2004 til 2007 hitt A. Í þeim tilvikum hafi hann stundum gantast við stúlkuna eins og alla krakkana. Þau hafi m.a. farið í ,,gamnislag“. Ákærði kvað það ekki geta staðist að A hafi gætt barna fyrir ákærða nánast aðra hverja helgi á árinu 2007. Í júní 2007 hafi þeir atburðir gerst sem séu sakarefni málsins en tilvikin séu tvö. Hafi ákærði komið heim til sín og einhver slagsmál átt sér stað. Hafi ákærði sest í sófa eða stól í stofu. A hafi gert hið sama og verið opinská. Hafi hún sagt sögur af sér og kynlífsháttsemi með tveim drengjum. Hafi ákærði sagt henni að fara varlega. Hafi hún lýst því að hún hafi kysst drengina og gert eitthvað fleira. Ákærði kvaðst hafa nuddað axlir hennar þar sem hann hafi setið í 2ja sæta sófa í stofu. Hafi hún sest þétt upp að honum. Eftir að hafa strokið um axlir stúlkunnar hafi hann strokið brjóst hennar utan klæða. Síðan hafi hann rennt höndum eftir lærum hennar. Hafi hann ætlað að hætta en hún farið að eiga við sig sjálf og farið að fróa sér utan klæða. Ákærði kvaðst hafa orðið æstur og fróað sjálfum sér þar sem hann hafi staðið fyrir framan hana. Hafi honum orðið sáðfall. Ákærði kvaðst ekki hafa sett fingur í leggöng hennar í þetta skipti. Kvaðst ákærði ekki hafa áttað sig á þessu við þingfestingu málsins þar sem hann hafi viðurkennt háttsemi samkvæmt 1. tl. II. kafla ákæru.

            Hitt tilvikið hafi einnig átt sér stað í júní 2007. Hafi stúlkan ætlað að gista á heimili ákærða og verið komin inn í herbergi. Hafi ákærði sest á rúmgafl hjá henni og strokið henni um kálfa. Í framhaldi hafi hann strokið henni upp lærin og strokið um nærbuxurnar utan klæða. Ákærði hafi haldið áfram og farið inn fyrir nærbuxurnar og nuddað á henni kynfærin. Hafi hann sett fingur inn í leggöng hennar einu sinni eða tvisvar. Hafi hann káfað á brjóstum hennar og sennilega sleikt brjóstahaldarann. Hafi ákærði spurt hana að því hvort hún ætlaði að gera eitthvað og hafi hún strokið pung ákærða nokkrum sinnum utan klæða. Hafi hún ekki haft munnmök við ákærða.

            Ákærði kvaðst hafa gefið stúlkunni gervilim. Hafi stúlkan verið á milli steins og sleggju gagnvart foreldrum sínum en þau hafi ekki viljað að hún eignaðist slíkt tæki. Hafi ákærði viljað að hún stundaði eigið kynlíf í stað þess að vera með drengjum. Af þessum ástæðum hafi ákærði ákveðið að gefa henni gervilim en þá hafi hún verið að passa hjá ákærða. Hafi stúlkan reyndar verið búin að finna gerviliminn sjálf er ákærði hafi komið á heimilið en hann hafi verið geymdur í skúffu í hjónaherberginu. Væri í raun merkilegt að stúlkan skyldi hafa leitað að honum þar. Ákærði kvaðst aldrei hafa verið viðstaddur er hún hafi notað gerviliminn. Ákærði kvað því rangt er fram kæmi í framburði hennar að hann hafi notað á hana gerviliminn, auk þess sem það væri rangt að hún hafi haft við hann munnmök. Að því er varðaði framburð A og bróður hennar, C, um að ákærði hafi verið að strjúka stúlkunni einu sinni er C hafi gengið framhjá herbergi sem þau hafi verið í kvaðst ákærði sennilega hafa verið að kitla A í það skipti. Ákærði kvaðst hafa hitt stúlkuna tvisvar sinnum eftir síðara tilvikið. Í síðara skiptið hafi hún verið með föður sínum og systkinum uppi á Akranesi. Hafi ákærði ekið í bæinn og hún verið ákærða samferða. Á leið í bæinn hafi ákærði sagt að hlutirnir hafi ekki átt að gerast og myndu ekki gerast aftur. Hafi hann tjáð henni að ef hún segði frá myndi samband hans og föður hennar rústast. Ákærði kvað A ekki hafa gætt barna fyrir sig fyrr en á árinu 2007. Allt hafi breyst eftir að málið hafi komið upp. Það hafi leitt til skilnaðar ákærða við eiginkonuna. Hann væri þó áfram í góðu sambandi við börnin sín sem væru hjá móður. Ákærði kvaðst ekki hafa átt að koma stúlkunni í þá stöðu sem hún hafi komist í og væru samskiptin á ábyrgð ákærða.    

            A greindi frá því í fyrstu skýrslutöku fyrir dómi að ákærði væri besti vinur föður hennar. Þegar A hafi verið um 10 ára aldurinn hafi byrjað leikur á milli hennar og ákærða sem í upphafi hafi gengið út á að ákærði hafi verið að kenna henni að verja sig. Leikurinn hafi þróast og ákærði síðar farið að koma við A en þá hafi hún verið orðin 12 ára. Í síðasta sinnið sem ákærði hafi komið við A með þeim hætti hafi verið haustið 2007, en hún hafi þá verið nýlega byrjuð í skólanum. Þegar ákærði hafi verið að koma við hana hafi hann verið að koma við brjóst hennar og strjúka henni eftir læri og alveg upp undir kynfærin. Í upphafi hafi strokurnar einungis verið utan klæða en síðar hafi ákærði farið að strjúka henni innan klæða og hann strokið henni um kynfærin. Hafi ákærði stungið fingri inn í leggöng hennar. Bar hún að ákærði hafi keypt gervilim handa henni sem hann hafi stungið inn í leggöng hennar. Atburðirnir hafi átt sér stað á heimili ákærða en í þessum tilvikum hafi hún verið að gæta barna fyrir ákærða. Ákærði ætti fjögur börn. Á þessum tíma hafi hún búið fyrir norðan hjá móður sinni og stjúpföður, en farið suður um það bil aðra hverja helgi en þá hafi hún oft gætt barna fyrir ákærða. Er liðið hafi á þessi tilvik hafi ákærði sagt að hann kynni einhverja leiki sem hann hafi oft farið í þegar hann hafi verið yngri. Hafi leikurinn gengið út á að leggja hönd á hné. Síðan skyldi höndin dregin upp eftir lærinu til að athuga hve langt viðkomandi þyrði. Í þennan leik hafi hún farið tvisvar eða þrisvar sinnum með ákærða, en hún ekki þorað að leggja höndina á hné ákærða. Hafi ákærði tekið í hönd hennar og lagt á hné sér og sagt henni að fara ofar og ofar. Það hafi hún ekki þorað. Á þennan veg hafi hlutirnir þróast uns ákærði hafi farið að strjúka henni utan klæða. Hafi atvik oft verið með þeim hætti að hún hafi setið og horft á sjónvarpið. Þá hafi ákærði sest við hlið hennar. Þá hafi ákærði lagt hönd sína á læri A en hún hafi fjarlægt hana. Ákærði hafi oft látið hana koma við sig. Í þeim tilvikum hafi hann sagt henni að leggja hönd utan yfir nærbuxur ákærða yfir getnaðarlim hans. Það hafi hún ekki viljað og ákærði tekið í hönd hennar, lagt hana þar og haldið henni. Er hann hafi sleppt hafi hún alltaf farið inn á baðherbergi til að þvo sér um hendurnar.

            Í eitt sinn hafi A legið uppi í sófa. Hafi ákærði þá komið að og sagt henni að setjast upp. Hafi ákærði sest niður hjá henni. Skyndilega hafi lítil dóttir ákærða komið að og látið A leggjast niður. Hafi A m.a. legið með höfuð ofan á fótum ákærða. Eftir að dóttir ákærða hafi farið hafi hún legið þannig áfram og horft á sjónvarpið. Þá hafi ákærði lagt hönd á brjóst hennar og farið inn fyrir fötin. Síðan hafi hann tekið út á sér getnaðarliminn og fróað sér. Þá hafi A verið á fimmtánda ári.

            Í annað skipti hafi hún verið heima hjá ákærða og verið að horfa á sjónvarpið. Hafi ákærði fróað sér við hlið hennar. Hafi ákærði fengið hana til að fara með hönd inn fyrir nærbuxur sínar og fróa sjálfri sér á sama tíma og stinga fingri í eigin leggöng. Atburðir þessir hafi verið þegar hún hafi verið á fimmtánda ári. A kvað ákærða í tvígang hafa sett fingur inn í leggöng hennar. Hafi hún í báðum tilvikum verið á 15. ári. Hann hafi byrjað að snerta kynfæri hennar utan klæða er hún hafi 12 til 13 ára en innan klæða er hún hafi verið 14 til 15 ára.

            A kvað ákærða hafa keypt handa sér gervilim sumarið 2007. Hafi hún verið heima hjá ákærða sem oftar og ákærði sagt henni að fara inn í herbergi til ákærða. Ákærði hafi þá verið inni í eldhúsi ásamt börnum sínum. A hafi farið inn í herbergið og sest þar á rúmið. Ákærði hafi komið og afhent henni gervilim. Um leið hafi hann sagt ,,þú hefur ekki átt svona, er það.“ Hafi hún neitað því og ákærði sagt ,,þetta er handa þér“. Hafi ákærði sagt henni að fara úr buxunum en hún hafi verið hrædd við ákærða. Hafi hún sett buxurnar niður á hné sér. Hafi ákærði stungið gervilimnum inn í leggöng hennar. Ákærði hafi tekið hann út og sett hann inn í nokkur skipti. Síðan hafi hann lagt hönd á brjóst hennar og strokið það. Í framhaldi hafi hann rennt niður buxnaklaufinni og um leið spurt hvort hún hafi haft munnmök við strák áður. Því hafi hún neitað. Hafi ákærði þá tekið um höfuð hennar og stungið getnaðarlim sínum inn í munn hennar. Hafi A legið á bakinu í rúminu við þær aðstæður. Ákærði hafi staðið við hliðina á rúminu. A hafi verið með lokuð augu allan tímann því hún hafi ekki viljað upplifa það sem fram fór. Hafi hún fundið sterka pissulykt á meðan á þessu hafi staðið. Skyndilega hafi heyrst grátur frá dóttur ákærða en við það hafi ákærði hætt og farið fram. Hafi það verið í síðasta skiptið sem hún hafi farið heim til hans.

            Henni hafi liðið mjög illa á meðan á þessu stóð og verið mjög reið inni í sér. Hún hafi ekki þorað að hætta af því að hún hafi verið hrædd um að ákærði myndi berja sig. Þau hafi áður verið búin að vera í ,,gamnislag“ og ákærði alltaf verið sterkari. Hafi hún stundum verið marin eftir hann. A kvaðst hafa reynt að koma í veg fyrir að atburðir þessir ættu sér stað. Hafi hún verið farin að sjá hvernig hlutirnir þróuðust og hún því sem mest forðast að vera hjá honum og að vera ein í húsinu hjá honum. Hafi hún reynt að biðja föður sinn um leyfi til að fara á einhvern annan stað en til ákærða. Þá hafi hún reynt að fá bróður sinn með í að gæta barna á heimili ákærða til að vera ekki ein með ákærða. Í tvö skipti hafi bróðir hennar verið á heimilinu er ákærði hafi verið að strjúka henni. Þá hafi hún og ákærði verið inni í hjónaherbergi heima hjá ákærða. Rifa hafi verið á hurðinni er bróðir hennar hafi gengið fram hjá.  Hann hafi þó ekki áttað sig á hvað hafi verið í gangi. Það hafi síðan oft verið þannig að bróðir hennar hafi komið með en síðan farið út með vinum sínum. Hafi  hann ekki verið kominn til baka í tæka tíð þegar ákærði hafi komið heim. Á fyrstu stigum í samskiptum A og ákærða hafi henni fundist þessir hlutir meira í lagi af því að hún hafi litið á ákærða sem hægri hönd föður síns. Hafi ákærði aðstoðað hana að mörgu leyti og oft skutlað henni á milli staða. Síðan hafi hlutirnir þróast og henni þá byrjað að finnast þeir ekki í lagi. A kvað atburði þessa hafa haft mjög mikil áhrif á líf hennar. Í hvert skipti sem þessir hlutir hafi átt sér stað hafi henni liðið mjög illa. Hafi henni farið að ganga illa í skóla og þetta hrjáð hana mikið í prófum. Hafi einkunnir hennar lækkað vegna þessa. Hafi hún auk þess misst mikið af vinum vegna þessa en ákærði hafi sagt henni að hún mætti engum segja frá þessu. Að lokum hafi hún sagt foreldrum sínum frá þessu en þá hafi hún og faðir hennar farið norður vegna afmælis systur A. Hafi foreldrar hennar farið að spyrja hana út í atburðina. Hafi það verið vegna þess að þau hafi farið að inna hana eftir gervilimnum sem ákærði hafi gefið henni. Þau hafi komist á snoðir um hann með því að lesa sms skilaboð af síma hennar.

            Aftur var tekin skýrsla af A fyrir dómi mánudaginn 24. nóvember 2008. A kvaðst ekki vita nákvæmlega hve oft kynferðisleg samskipti hafi verið á milli hennar og ákærða. Það hafi verið í nokkuð mörg skipti. Allt hafi byrjað um svipað leyti og móðir hennar hafi flutt í burtu en þá hafi hinn svonefndi ,,gamnislagur“ byrjað. Þá hafi hún verið um 10 ára aldurinn. Samskiptin hafi orðið grófari eftir því sem hún hafi orðið eldri og grófustu skiptin þau síðustu. Hin grófustu hafi byrjað er hún hafi verið þrettán eða fjórtán ára. Grófustu tilvikin hafi verið þannig að ákærði hafi strokið henni og stungið fingri inn í leggöng hennar. Atvikin hafi verið inni í svefnherbergi á heimili ákærða. Hún hafi þá verið að gæta barna fyrir hann. Hafi hún yfirleitt setið fyrir framan tölvu á heimili ákærða og verið á samskiptaforritinu msn. Þá hafi ákærði komið og farið að strjúka henni. Hafi hann því næst beðið hana um að fara upp í rúm. Í framhaldinu hafi hann byrjað að koma við hana. Hafi hann komið við hana og farið inn fyrir buxurnar. Hann hafi komið við brjóst hennar, strokið henni um maga, andlit og um fætur. Hafi hann farið inn undir buxurnar og stungið fingri inn í leggöng. A kvaðst ekki viss hvenær þetta hafi gerst en hún hafi verið orðin nokkuð eldri en er ákærði hafi fyrst byrjað að koma við hana. Dágóður tími hafi liðið frá því ákærði hafi verið að strjúka henni og losa um brjóstahaldara hennar þar til atburðir hafi orðið grófari. Kvaðst A telja að hún hafi verið orðin þrettán ára þegar atburðir hafi orðið grófari og tengi hún það við það að hún hafi verið mikið hjá móður sinni er hún hafi verið tólf ára. A kvaðst oft hafa farið að gæta barna hjá ákærða er hún hafi verið yngri. Hafi faðir hennar yfirleitt beðið hana um að gæta barna fyrir ákærða. Síðasta atvikið hafi síðan verið sumarið 2007. Síðla það sumar hafi ákærði gefið henni gerviliminn og hafi hún ekki farið mikið suður eftir það atvik. Þegar ákærði hafi gefið henni gerviliminn hafi hún verið heima hjá honum. Hafi ákærði sagt ,,Þú hefur aldrei átt svona, er það?“. Hafi hún sagt svo ekki vera og að hún væri of ung til þess og hafi ákærði þá sagt ,,hérna eigðu þetta, ég keypti þetta fyrir þig“. Hafi hún tekið við limnum en stuttu síðar hafi faðir hennar komið og náð í hana. Hafi hún ekki notað gerviliminn. Hafi ákærði sagt henni að hún skyldi koma með hann næst þegar hún kæmi að gæta barna. Hafi hún komið aftur suður rétt fyrir jól og þá farið að gæta barna hjá ákærða. Hafi hún þá tekið gerviliminn með sér á heimili ákærða. Hafi hann notað hann á hana. Hafi þetta verið í síðasta skiptið sem ákærði hafi komið við hana. Í fyrri samskiptum hafi ákærði látið hana koma við getnaðarlim sinn utan klæða á meðan ákærði hafi strokið henni. Í það skipti sem ákærði hafi notað gerviliminn á A hafi hún legið uppi í rúmi. Hafi ákærði staðið við hlið hennar og látið hana koma við sig. Hafi hann klætt sig úr og látið hana koma við getnaðarlim sinn. Hafi hann stungið getnaðarlim sínum upp í hana. Stuttu síðar hafi heyrst í krökkunum frammi og ákærði hætt.

            B móðir A bar að mikil samskipti hafa verið á milli fjölskyldu A og fjölskyldu ákærða í gegnum tíðina þar sem faðir stúlkunnar og ákærði væru æskuvinir. Foreldrar hennar hafi slitið samvistir á árinu 1999 og skilið lögskilnaði á árinu 2000 og stúlkan verið hjá föður. B hafi síðar flutt norður í land og stúlkan flutt til móður norður 2004 til 2005. Stúlkan hafi farið reglulega suður til föður en umgengni hafi verið nánast aðra hverja helgi í mánuði. B kvað dóttur sína hafa gætt barna fyrir ákærða alla tíð. Hafi hún vitað til þess að það hafi verið á árunum 2004 til 2007. Hafi það ekki verið einskorðað við árið 2007. Málið gagnvart ákærða hafi komið upp í kjölfar tilkynningar frá skóla stúlkunnar en fram hafi komið grunsemdir um misnotkun á henni. Annað mál hafi verið til skoðunar en þá hafi verið upplýst að stúlkan ætti gervilim. Þá hafi málefni ákærða komið upp á yfirborðið. Hafi stúlkan tjáð móður sinni að ákærði hafi gefið henni gerviliminn. Í kjölfarið hafi stúlkan sagt upp og ofan af samskiptum sínum við ákærða í gegnum tíðina. Ekki hafi hún lýst athöfnum nákvæmlega þar sem stúlkan hafi ekki viljað það. Hafi hún einungis rætt um káf á brjóstum og rass. Stúlkunni hafi greinilega liðið illa er hún hafi sagt frá atvikum. Hafi hún m.a. brostið í grát og fyrst á eftir verið mjög þung. Síðar hafi henni farið að líða betur. B kvaðst ekki hafa merkt neitt sérstakt í fari stúlkunnar á árinu 2007 er gefið hafi til kynna að eitthvað væri að. Þó hafi oft verið þungt yfir stúlkunni. Hafi B talið það tengjast nýjum skóla er stúlkan hafi farið í. Hafi hún átt erfitt uppdráttar þar. Hafi stúlkan farið að ræða mikið um stráka og verið gróf inni á msn samskiptaforritinu. Málið hafi síðan legið nokkuð þungt á stúlkunni um þær mundir er það hafi átt að vera til meðferðar fyrir dóm­stólum. Sé stúlkan nú í framhaldsskóla og gangi henni bærilega.

            D faðir A kvaðst vera æskuvinur ákærða. Eftir að báðir hafi eignast fjölskyldur hafi áfram verið töluverð samskipti á milli þeirra og fjölskyldn­anna. Ákærði hafi nánast verið faðir númer tvö fyrir öll börn ákærða. D kvaðst hafa tekið eftir því í tölvu A er hún hafi verið orðin 14 ára gömul að stúlkan hafi haft áhuga á klámi og kynlífi. Kvaðst D hafa rætt þessi mál við dóttur sína, sem og önnur börn, en það væri hluti af uppeldinu. Móðir stúlkunnar  hafi flutt norður í land á árinu 2004. Eftir að stúlkan hafi flutt til móður 11 til 12 ára gömul hafi hún komið suður á umgengnistímum. Hafi allt gengið vel. Eftir að stúlkan hafi orðið 13 ára hafi hún farið að gæta barna fyrir ákærða yfir nótt og hafi það verið af og til upp frá því. Fyrir þann tíma hafi verið mikil sam­skipti á milli fjölskyldnanna en fjölskyldurnar hafi búið mjög nálægt hvorri annarri. Sonur D, C, hafi einnig gætt barna á heimili ákærða. Hafi það verið eftir hentugleikum. Ekki hafi borið á neinu í samskiptum A og ákærða fyrr en eftir að málið hafi komið upp. D kvaðst hafa farið norður í land 14. nóvember 2007 en D hafi verið búinn að heyra að stúlkan hafi verið að segja frá einhverju í skólanum. Foreldrarnir hafi rætt við hana og málið þá komið upp. Hafi komið fram að samneyti stúlkunnar og ákærða hafi verið meira en góðu hófi gegnir. Hafi hún lýst því að ákærði hafi káfað á henni og að hún hafi káfað á honum. Ekki hafi hún lýst því neitt nánar. Þá hafi hún lýst því að þau hafi verið komin nærri munnmökum, en stúlkan hafi ekki getað klárað þá sögu. Samskipti við stúlkuna væru almennt góð í dag og kæmi hún af og til til föður síns. Samskiptin við ákærða væru hins vegar breytt. Hafi stúlkan sennilega einu sinni hitt ákærða eftir að málið hafi komið upp. Hafi hún ekki viljað hitta hann.

            C bróðir A kvaðst hafa átt góð samskipti við ákærða og fjölskyldu hans. Ákærði hafi nánast verið faðir númer tvö. Hafi C öðru hvoru gætt barna fyrir ákærða og það sama hafi systir hans A gert. Þá hafi þau í einhverjum tilvikum gætt barna sameiginlega á heimili ákærða. Dæmi hafi verið um að A hafi beðið C um að koma með sér að gæta barnanna. Eftir að A hafi flutt norður hafi hún haldið áfram að gæta barna fyrir ákærða er hún hafi komið í bæinn. C kvaðst aldrei hafa séð neitt kynferðislegt í samskiptum ákærða og A. Hann hafi einu sinni séð ákærða og A saman á heimili ákærða þar sem ákærði hafi verið með hönd á læri A. Er undir C var borið að í lögregluskýrslu hafi hann greint frá því að hann hafi séð ákærða með hönd á lærum A, öxl og maga kvað hann það vera rétt. Ákærði hafi verið að strjúka stúlkunni en hann hafi hreyft hönd um læri hennar. Það atvik hafi átt sér stað á árinu 2006 en C væri öruggur á því. Hann hafi fengið bílpróf 24. apríl 2007 en þetta hafi verið fyrir þann tíma. C kvaðst ekki hafa tekið þátt í neinum ,,gamnislag“ við ákærða. Þá kvaðst C ekki kannast við neinn læraleik er ákærði hafi farið í.   

            E kvaðst hafa verið umsjónarkennari A í […] í tvö ár er hún hafi verið í 6. og 7. bekk á sama tíma og E hafi starfað sem námsráðgjafi við skólann. Er A hafi flutt norður hafi hún byrjað í 6. bekk. Þá hafi hún verið 11 til 12 ára. Er A hafi komið í skólann hafi hún verið búin að taka út líkamlegan þroska og stúlkan því verið mjög þroskuð. Hún hafi hins vegar verið nokkuð á eftir í andlegum þroska. Hafi hún átt erfitt með aðlögun gagnvart jafnöldrum. Hafi hún af þeim sökum leitað í félagsleg samskipti við yngri nemendur skólans. Stúlkan hafi yfirleitt verið opin. Hafi hún verið í skólanum er hún hafi sagt frá einhverju kynferðislegu er hún hafi lent í. Hafi hún talað um strák í sveit og vin bróður síns. Hafi E fundist sem A væri að reyna að fanga athygli með þessum sögum sínum. E hafi rætt þessi mál við A. Í þeim viðræðum hafi A lýst kynferðislegum athöfnum með fullorðnum. Hafi hún átt að vera að gæta barna fyrir viðkomandi. Er stúlkan hafi lýst þessu hafi hún orðið öðruvísi. Hafi hún átt erfitt með að lýsa hlutunum og brotnað niður. Hafi hún átt erfitt með svefn og á hana leitað illar hugsanir. Hún hafi lýst kynfærastrokum á sér sjálfri og manni. Tekin var símaskýrsla af E hjá lögreglu 12. júní 2008. Lýsti hún því þá að A hafi nefnt manninn Tryggva og að Tryggvi hafi verið að strjúka á henni brjóstin og kynfæri. Hafi hann fengið hana til að hafa við sig munnmök og gefið henni hjálpartæki ástarlífsins sem hann hafi notað á A. Fyrir dómi staðfesti E að þessi lýsing hennar í lögregluskýrslu væri rétt. Þessir atburðir hafi verið skráðir niður á miða sem E hafi lesið upp af þegar hún hafi gefið símaskýrsluna. Í símaskýrslu sem tekin var af E lýsir hún því að ætlunin sé að fylgja A vel eftir enda sé nauðsyn að henni verði veittur góður stuðningur. Fyrir dómi lýsti E því að stúlkan væri nú komin í framhaldsskóla. Rækist hún stundum á hana á förnum vegi og tjáði stúlkan henni þá það sem henni lægi á hjarta. Vissi hún ekki hvernig henni vegnaði í dag. 

            Jón Brynjólfsson geðlæknir staðfesti læknisvottorð sitt á dskj. nr. 6 og gerði grein fyrir efni þess. Fram kom að þroski A hafi ekki verið formlega rannsakaður. Fundist hafi misþroski og athyglisbrestur. Hafi verið uppi grunur um að stúlkan gengi ekki heil til skógar og það allt frá æsku. Í viðtölum komi stúlkan þannig fyrir að málfar, skilningur og framkoma hafi verið í samræmi við aldur. Hafi afstaða hennar til föður síns litast af því að sá maður sem unnið hafi henni mein hafi verið vinur föður hennar. Hafi faðirinn því óbeint verið sekur. Hafi hún talað um vin föður hennar sem barnaníðing sem hún hafi talað illa um.

            Þóra Sigfríður Einarsdóttir sálfræðingur í Barnahúsi staðfesti vottorð sitt á dskj. nr. 5. Kvaðst Þóra ekki hafa framkvæmt greindarpróf á stúlkunni en í klínísku mati hafi komið fram greinileg þroskahömlun. Ætti hún erfitt með að móttaka efni og vildi gjarnan gera umhverfi sínu til hæfis. Grípi hún gjarnan efni úr umhverfinu og notaði það á rangan hátt. Væri ljóst að þroski, þ.m.t. málþroski, væri ekki eðlilegur. Væri vitsmunaþroski undir meðallagi. Mætti reikna með að sá þroskamunur myndi aukast eftir því sem hún yrði eldri. Í viðtölum hafi komið fram að stúlkan hafi litið á ákærða sem fjölskylduvin og ígildi föður. Hafi henni fundist hún illa svikin í ljósi þess sem fyrir hana hafi komið. Hafi komið fram að stúlkan væri hrædd við ákærða. Hafi það m.a. komið fram í óraunhæfum hugmyndum hennar um aðstæður sem hann myndi birtast henni í. Að því er varði batahorfur þá byggi stúlkan við vantraust á umhverfið. Væri hún alltaf á varðbergi og hafi henni fundist umhverfið bregðast sér. Fengi hún martraðir um ákærða og ætti erfitt með að vera ein úti. Byggi hún við depurð og hömluleysi í hegðun. Þá væri kynferðislegur undirtónn áberandi. Ætti stúlkan erfitt með kynlíf í dag. Væri erfitt með framtíðarhorfur vegna þroskahömlunar og þeirra brota sem hún hafi orðið fyrir. Væri það mat Þóru að stúlkuna skorti rökhugsun. Notaði hún flott orð í samræðum en ekki á réttan hátt.

            Niðurstaða:

            Ákærða er í I. kafla ákæru gefið að sök kynferðisbrot gagnvart A með því að hafa í nokkur skipti á árunum 2004 til 2007 káfað utan klæða á brjóstum, lærum og kynfærum hennar og látið hana snerta kynfæri ákærða utan klæða. Eru brotin í ákæru talin varða við 2. mgr. 202. gr., 199. gr. og 209. gr.  laga nr. 19/1940. Ákærði neitar sök.

            Til grundvallar ákæruefni samkvæmt þessum kafla ákæru liggur framburður A. Um framburð stúlkunnar í heild sinni er það að segja að hann var ekki heildstæður. Fer hún talsvert fram og aftur í tíma er hún lýsir atburðum. Þegar skýrsla var tekin af stúlkunni fyrir dómi lá fyrir grunur um brot ákærða gegn henni. Sá sem skýrslutökuna annaðist átti ekki annars kost en að láta stúlkuna skýra sjálfstætt frá atvikum. Ber yfirheyrslan þess merki. Ákærði hefur frá upphafi staðhæft að hann hafi einungis í tvígang brotið gegn stúlkunni og bæði skiptin verið í júní 2007. Eru það brot samkvæmt II. kafla ákærunnar. Af framburði stúlkunnar er ljóst að hún lýsir þessum atvikum en einnig öðrum sem átt hafi sér stað fyrir þann tíma og þá þegar hún var yngri. Talar hún um að tilvikin hafi síðan orðið gróf er hún hafi verið orðin 13 ára. Hefur hún lýst því að ákærði hafi strokið henni oft er hún hafi komið á heimili hans til að gæta barna hans. Hafi ákærði þá strokið brjóst hennar og læri og kynfæri utan klæða. Þá nefnir  hún að ákærði hafi látið hana koma við kynfæri sín utan klæða. E námsráðgjafi og umsjónarkennari A lýsti því að stúlkan væri á eftir í andlegum þroska miðað við jafnaldra sína. Þóra Sigfríður Einarsdóttir sálfræðingur, sem tók viðtöl við stúlkuna, staðhæfir það sama. Er því óhætt að miða við að á stúlkuna hafi hallað nokkuð í andlegum þroska miðað við aldur. Þegar til þessara atriða er litið verður því ekki slegið föstu að stúlkan sé ótrúverðug í frásögn sinni þó svo frásögnin sé ekki heildstæð og á köflum samhengis­laus.      

            Svo sem áður var rakið hefur ákærði alfarið neitað sök samkvæmt þessum kafla ákærunnar. Kveður hann stúlkuna ekki hafa gætt barna á heimili sínu fyrr en á árinu 2007. Framburður ákærða um þetta efni gengur gegn eindregnum framburði A. Þá gengur hann einnig gegn framburði bróður hennar og föður, en þeir fullyrða báðir að A hafi gætt barna á heimili ákærða fyrir þann tíma. Ákærði hefur borið að C, bróðir A, hafi oft verið á heimili ákærða með öðrum börnum á sama tíma og A hafi verið þar. Hafi ákærði oft farið í svokallaðan ,,gamnislag“ við börnin. Þann leik hefur C ekki kannast við. Þá er til þess að líta að ákærði hefur verið reikull í framburði sínum og afstöðu til ákæruefnanna. Í fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu kvaðst ákærði kannast við að til kynferðislegra samskipta hafi komið á milli hans og A í tvígang í júní 2007. Lýsti hann þeim í skýrslutökunni. Þar greindi hann m.a. frá því að honum hafi orðið sáðfall í bæði skiptin. Þá hafi A hjálpað honum við að fróa honum með höndum. Í síðara skiptið sem ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu gerði hann grein fyrir því að hann hafi farið með fingur inn í leggöng stúlkunnar. Frá því greindi hann ekki í fyrri skýrslutökunni. Af síðari skýrslutökunni má ráða að ákærði hafi verið að vísa til síðara tilviksins. Við þingfestingu málsins játaði ákærði sök samkvæmt 1. tl. II. kafla ákæru og þar með að hafa sett fingur í leggöng stúlkunnar í fyrra tilvikinu. Við aðalmeðferð málsins dró hann þá játningu til baka og kvaðst einungis hafa farið með fingur í leggöng stúlkunnar í síðara skiptið. Við aðalmeðferð málsins dró ákærði úr því að stúlkan hafi fróað ákærða og lýsti því fremur þannig að hún hafi sett fingur yfir getnaðarlim ákærða utanklæða. Loks kvaðst ákærði við síðari skýrslutökuna hjá lögreglu vegna málsins ekki hafa fengið sáðfall í síðara skiptið. Því breytti hann aftur við aðalmeðferð málsins. Það sem þyngst vegur þó varðandi staðhæfingar ákærða tengt sakarefni samkvæmt I. kafla ákæru er að C hefur staðhæft að hann hafi á einhverjum tímapunkti fyrir apríl 2007 séð ákærða strjúka systur sinni utan klæða um læri, öxl og maga. Hafi ákærði og A þá verið inni í herbergi á heimili ákærða. C tengdi þetta tilvik afmælisdegi sínum sem er í apríl mánuði. Hafi tilvikið verið áður en C fékk bílprófi í apríl 2007. Með hliðsjón af þessu verður ekki öðru slegið föstu en að framburður ákærða hafi verið reikull og að mati dómsins ótrúverðugur varðandi mikilsverð atriði. Þegar til þessara atriða er litið þykir dóminum rétt að leggja framburð A til grundvallar, sem stuðnings nýtur í þeim atriðum er að framan voru rakin, og telja hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi í nokkur skipti á árunum 2004 fram til apríl 2007 káfað utan klæða á brjóstum, lærum og kynfærum A. 

            A lýsir leik er ákærði hafi kennt henni sem gengið hafi út á að annar aðili legði hönd á hné hins og renndi hönd upp læri eins langt og hann þyrði. Verður ráðið að takmarkið með leiknum hafi verið að komast með hönd nærri eða á kynfæri viðkomandi utan klæða. Ákærði hefur kannast við þennan leik og að hafa sýnt A hann. Þegar til þessa er litið verður miðað við framburð A í málinu um að ákærði hafi látið hana snerta kynfæri sín utan klæða. Með hliðsjón af þessu verður ákærði sakfelldur samkvæmt I. kafla ákæru hvað þetta atriði varðar. Á háttsemi ákærða samkvæmt I. kafla ákæru undir 2. mgr. 202. gr. laga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 61/2007, sbr. 2. gr. laga nr. 19/1940. Kynferðisbrotakafla laga nr. 19/1940 var breytt með lögum nr. 61/2007. Háttsemi sú er ákærði hefur verið sakfelldur fyrir hefur ávallt verið refsiverð samkvæmt lögum nr. 19/1940 og þykir af þeim sökum ekki ástæða til að greina hana frekar niður að því er varðar refsiákvæði en hér er gert.

            Að því er II. kafla ákæru varðar hefur ákærði játað sök að hluta. Í 1. tl. hefur hann viðurkennt að hafa káfað utan klæða á brjóstum og lærum A, fengið stúlkuna til að setja fingur inn í leggöng sín og að hafa fróað sjálfum sér fyrir framan hana. Ákærði neitar því að hafa káfað á brjóstum stúlkunnar innan klæða eða að hafa káfað á kynfærum hennar í þetta sinn. Þá neitar hann því að hafa sett fingur í leggöng hennar í þetta skipti. Eins og áður sagði játaði ákærði sök við þingfestingu málsins en í því fólst viðurkenning á því að hafa sett fingur í leggöng stúlkunnar. Þá játningu dró ákærði til baka við aðalmeðferð málsins. Ekkert er fram komið í málinu er sérstaklega styður þann framburð stúlkunnar að ákærði hafi í þetta sinn káfað á brjóstum hennar innan klæða, kynfæri hennar eða að hafa sett fingur í leggöng. Verður ákærði því sýknaður af þessari háttsemi. Verður ákærði sakfelldur í samræmi við játningu sína samkvæmt 1. tl. II. kafla ákæru.

            Í 2. tl. II. kafla ákæru hefur ákærði viðurkennt að hafa káfað á brjóstum A utan klæða, nuddað kynfæri hennar, sett fingur í leggöng hennar og að hafa látið stúlkuna fróa sér. Neitar hann því að hafa strokið brjóst stúlkunnar innan klæða, að hafa sett gervilim í leggöng hennar eða að hafa látið stúlkuna hafa við sig munnmök. Hér háttar einnig þannig til að ekkert sérstakt er fram komið í málinu er styður þann framburð stúlkunnar að ákærði hafi strokið brjóst hennar innan klæða. Verður ákærði því sýknaður af þeirri háttsemi. Að því er gerviliminn varðar þykir dóminum allur framburður ákærða um liminn og tilvist hans með miklum ólíkindum. Að ákærði skuli hafa keypt gervilim handa stúlku sem þá var nýlega orðin 15 ára og hann hafði ekki forsjá yfir eða hafði verið trúað þannig fyrir að honum hafi verið heimilt að uppfræða um kynlíf var einkar ámælisverð háttsemi. Geta ekki annað en kynferðislegar hvatir ákærða hafa búið að baki slíkri háttsemi hans. Tilraunir ákærða til að fegra hlut sinn í þessu sambandi eru að mati dómsins ótrúverðugar. Stúlkan hefur ítrekað lýst því að ákærði hafi sett gerviliminn inn í leggöng hennar og hafi það verið á heimili ákærða. Þegar litið er til staðfasts framburðar A um þetta atriði og kynferðislegra hvata ákærða að baki kaupunum telur dómurinn að leggja beri framburð stúlkunnar til grundvallar niðurstöðu og þar með telja sannað að ákærði hafi stungið gervilim í leggöng stúlkunnar. Að því er munnmökin varðar hefur frásögn stúlkunnar af því atviki verið sérstaklega trúverðug. Lýsti hún því hvernig hún hafi fundið sterka ,,pissulykt“ er ákærði hafi stungið getnaðarlim sínum inn í munn hennar. Með hliðsjón af þessu telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi látið stúlkuna hafa við sig munnmök.

            Áður var slegið föstu að A býr við skerta andlega greind. Er athafnir þær sem fram fóru í júní 2007 áttu sér stað var mikill aldurs- og þroskamunur á henni og ákærða. A, bróðir hennar og faðir, hafa öll lýst því að ákærði hafi verið sem faðir númer tvö fyrir A. Má því ljóst vera að stúlkan hafi trúað honum og treyst og verið honum háð. Miðað við það sem ákærði hefur viðurkennt hefur hann átt frumkvæði að hinum kynferðislegu athöfnum með stúlkunni. Með því tældi hann hana til annarra kynferðismaka en samræðis. Með hliðsjón af því og að gættri þeirri háttsemi er ákærði hefur verið sýknaður af, verður ákærði sakfelldur samkvæmt 2. tl. II. kafla ákæru. Á háttsemi samkvæmt 1. og 2. tl. II. kafla undir 3. mgr. 202. gr. laga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 61/2007.

            Ákærði er fæddur í janúar 1967. Hefur hann ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi svo kunnugt sé. Ákærði á sér þær málsbætur að hann hefur játað háttsemi sína að hluta til. Tældi hann unga stúlku sem honum hafði verið trúað fyrir til annarra kynferðismaka en samræðis, auk þess sem hann áreitti hana kynferðislega. Var brotið framið á stað þar sem stúlkan taldi sig vera örugg og af manni sem hún nánast leit á sem föður sinn. Miðað við það sem fram er komið í málinu býr stúlkan við alvarlegar afleiðinar kynferðisbrots og er óvíst hvort hún muni ná sér að fullu. Með hliðsjón því og 1., 2. og 7. tl. 2. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940 er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Engin efni eru til að skilorðsbinda refsinguna.   

            Réttargæslumaður hefur fyrir hönd brotaþola krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.000.000 króna, auk vaxta. Er vísað til þess að verknaðurinn hafi haft í för með sér alvarlegt tjón fyrir brotaþola sem lýsi sér í djúpstæðri vanlíðan sem hafi haft áhrif á allt hennar líf. Atburðirnir hafi átt sér stað yfir langt tímabil og brotaþoli orðið að byrgja vitneskjuna innra með sér. Um hafi verið að ræða gróft brot gegn persónu- og kynfrelsi brotaþola. Sé brotið sérstaklega alvarlegt með tilliti til ungs aldurs brotaþola og sé það til þess fallið að hafa áhrif á andlega og þar með líkamlega heilsu brotaþola um ókomna tíð. Um lagarök er vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í málinu liggur fyrir vottorð Þóru Sigfríðar Einarsdóttur sálfræðings er hefur verið með A í meðferð. Kemur fram að viðtöl við stúlkuna hafi leitt í ljós fjölmörg vandamál sem þekkt séu meðal barna sem sætt hafi endurtekinni kynferðislegri misnotkun. Uppfylli stúlkan greiningarskylmerki áfallastreitu. Jafnframt séu einkenni kvíða og þunglyndis yfir klínískum mörkum. Sjálfsmat hennar sé lágt og skapsveiflur og einbeitingarerfiðleikar áberandi. Megi ætla að stúlkan muni um langt skeið glíma við afleiðingar þeirrar kynferðislegu misnotkunar er hún hafi sætt. Í ljósi vottorðs Þóru Sigfríðar Einarsdóttur sálfræðings og atvika málsins telur dómurinn liggja fyrir að A hafi orðið fyrir miska af völdum háttsemi ákærða. Á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993 á hún rétt á skaðabótum af þeim sökum. Með hliðsjón af atvikum málsins eru bætur þessar hæfilega ákveðnar 1.000.000 krónur. Sú fjárhæð ber vexti eins og í dómsorði greinir.

            Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti. Þá greiði hann 13.450 krónur í aksturskostnað vitnis. Loks greiði hann málsvarnarlaun verjanda og þóknun réttargæslumanns brotaþola, hvorutveggja að viðbættum virðisaukaskatti, svo sem í dómsorði greinir.

            Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Sigríði J. Friðjónsdóttur sak­sóknara.

D ó m s o r ð:

            Ákærði, Tryggvi Óli Þorfinnsson, sæti fangelsi í 18 mánuði.

            Ákærði greiði A, 1.000.000 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. júlí 2007 til 22. ágúst 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.

            Ákærði greiði 980.580 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðrúnu Sesselju Arnardóttur héraðsdómslögmanns, 644.910 krónur, og þóknun til réttargæslumanns brotaþola, Margrétar Gunnlaugsdóttur héraðsdóms­lögmanns, 244.020 krónur.