Hæstiréttur íslands
Mál nr. 613/2017
Lykilorð
- Skuldabréf
- Gengistrygging
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari, Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari og Stefán Már Stefánsson prófessor.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 16. ágúst 2017. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 27. september sama ár og áfrýjaði hún öðru sinni degi síðar. Hún krefst þess að viðurkennt verði að lán, sem hún tók hjá Landsbanka Íslands hf. samkvæmt veðskuldabréfi 30. desember 2005, hafi verið í íslenskum krónum og bundið óheimilli gengistryggingu í skilningi þágildandi 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Áfrýjandi gaf út veðskuldabréf til Landsbanka Íslands hf. 30. desember 2005. Þar kom fram í fyrirsögn að um væri að ræða „fasteignalán í erlendri mynt“, en neðan við hana sagði þó einnig: „Skuldabréfið er gengistryggt, með breytilegum vöxtum og jöfnum afborgunum“. Í skuldabréfinu viðurkenndi áfrýjandi „að skulda Landsbanka Íslands hf. jafnvirði“ 26.000.000 króna „í eftirtöldum myntum og hlutföllum: JPY 100,0%“, en með þeirri skammstöfun var átt við japönsk jen. Tekið var fram að lánið væri „bundið kaupgengi Landsbanka Íslands hf. á ofangreindum myntum tveimur virkum dögum fyrir útborgunardag“, en hann yrði tveimur virkum dögum eftir að bankanum bærist veðskuldabréfið með athugasemdalausri þinglýsingu. Átti áfrýjandi að endurgreiða þetta lán með mánaðarlegum afborgunum á 40 árum, í fyrsta sinn 1. mars 2006, og skyldi hún jafnframt hverju sinni greiða áfallna vexti, sem yrðu „breytilegir LIBOR“ með 1,3% álagi. Til tryggingar skuldinni var nánar tilgreind fasteign sett að veði. Fyrir liggur að í tengslum við veitingu þessa láns gerði bankinn greiðslumat, sem áfrýjandi áritaði um samþykki, en þar voru allar fjárhæðir tilgreindar í íslenskum krónum, þar á meðal vegna höfuðstóls skuldabréfsins og útreiknings á greiðslubyrði af því. Einnig gerði bankinn yfirlit um fjárhæð áætlaðra mánaðarlegra greiðslna af skuldabréfinu að meðtöldum vöxtum og kostnaði allt til loka lánstímans og voru þær allar tilteknar í íslenskum krónum, en yfirlit þetta áritaði áfrýjandi jafnframt um samþykki. Loks skrifaði áfrýjandi þennan dag undir yfirlýsingu, sem rituð var á bréfsefni bankans og var samkvæmt fyrirsögn „fylgiskjal með láni í erlendri mynt“, en þar sagði meðal annars: „Vegna fasteignaláns í erlendri mynt ... að jafnvirði IKR 26.000.000,-, samkvæmt neðangreindri myntkörfu: ... JPY 100% lýsir undirritaður útgefandi því yfir, að hann gerir sér grein fyrir því að lántaka með þessum hætti er áhættusamari en lántaka í íslenskum krónum, eins og bankinn hefur kynnt honum sérstaklega. Um er að ræða gengisáhættu, sem lýsir sér m.a. í því, að samkvæmt tölfræðilegu mati sem byggir á sögulegum sveiflum á áhættu lána sem skiptast með ofangreindum hætti, getur höfuðstóll láns sem tekið er í framangreindri myntkörfu hækkað umtalsvert á lánstímanum. Jafnframt er um að ræða vaxtaáhættu sem felst m.a. í því, að lánið er með breytilegum vaxtagrunni, LIBOR vöxtum, með föstu álagi. Vextir fyrir hverja mynt geta breyst með vaxtaákvörðunum í heimaríkjum hverrar myntar auk þess sem sveiflur á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum geta haft áhrif til hækkunar.“
Á bakhlið skuldabréfsins var að finna texta undir fyrirsögninni: „Skuldfærslubeiðni“, þar sem fram kom að útgefandi þess óskaði eftir að tiltekinn reikningur við Landsbanka Íslands hf. yrði skuldfærður fyrir afborgunum og vöxtum af skuld sinni. Óumdeilt er að reikningurinn, sem þar var tilgreindur, var í eigu áfrýjanda og í íslenskum krónum, en texta þennan undirritaði hún ekki. Þá var ekki tekið fram í skuldabréfinu eða fylgiskjölum með því hvernig bankinn ætti að haga útborgun lánsfjárins. Fyrir liggur á hinn bóginn að lánið var greitt út 12. janúar 2006 með því að 48.271.006 japönsk jen voru lögð á innlendan gjaldeyrisreikning á nafni áfrýjanda hjá bankanum, en í kaupnótu hans vegna skuldabréfsins frá sama degi var höfuðstóll þess sagður vera 48.762.191 japanskt jen og var fjárhæða þar ekki getið í íslenskum krónum. Stefndi viðurkennir að gjaldeyrisreikningur þessi hafi verið stofnaður án óskar áfrýjanda, en hann kveður það hafa verið óhjákvæmilegt sökum þess að hún hafi ekki leitað eftir því að lánsfénu yrði skipt í íslenskar krónur svo að leggja mætti það inn á reikning hennar í þeim gjaldmiðli.
Fyrsti gjalddagi afborgunar af skuldabréfinu og vaxta var sem áður segir 1. mars 2006 og voru gjalddagar síðan mánaðarlega upp frá því. Samkvæmt skjölum málsins sendi Landsbanki Íslands hf. tilkynningar til áfrýjanda um gjalddaga, þar sem fram kom hverju sinni að „upphaflegt nafnverð“ skuldar hennar hafi verið 48.762.191 japanskt jen og tiltekið í sama gjaldmiðli hverjar eftirstöðvar skuldarinnar hafi verið fyrir viðkomandi gjalddaga, hvað greiða ætti í afborgun af höfuðstól og vexti og hverjar eftirstöðvarnar yrðu eftir greiðslu, en lítilsháttar gjald vegna tilkynningar og greiðslu var á hinn bóginn tilgreint í íslenskum krónum. Kvittanir fyrir greiðslu sýndu einnig fjárhæð afborgunar og vaxta í japönskum jenum ásamt eftirstöðvum skuldarinnar eftir greiðslu. Sjö fyrstu greiðslurnar af skuldabréfinu voru inntar af hendi á tímabilinu frá 1. mars til 30. ágúst 2006 með því að fjárhæð, sem þeim svaraði, var hverju sinni tekin í japönskum jenum út af áðurnefndum gjaldeyrisreikningi áfrýjanda hjá bankanum. Lánsféð, sem lagt var sem fyrr segir inn á þann reikning 12. janúar 2006, var að öðru leyti tekið út af honum í nokkrum áföngum í janúar, apríl og ágúst á því ári og innstæðan þá tæmd, en í lok áranna 2006 og 2007 voru á hinn bóginn lagðir vextir inn á reikninginn, sem stóð annars óhreyfður þar til honum var lokað með útborgun í júní 2008. Fyrir liggur í málinu að samkvæmt umsókn áfrýjanda var opnaður annar gjaldeyrisreikningur í japönskum jenum á hennar nafni 30. ágúst 2006 við Landsbanka Íslands hf. Stefndi kveður sama hátt og að framan greinir hafa upp frá því verið hafðan á tilkynningum til áfrýjanda um gjalddaga og kvittunum til hennar fyrir greiðslu hverju sinni til og með 1. október 2008, en þó þannig að greiðslur hafi verið teknar út af nýja gjaldeyrisreikningnum hennar. Þessu hefur áfrýjandi ekki andmælt, en samkvæmt kvittun bankans til hennar 1. október 2008 voru eftirstöðvar skuldarinnar 45.511.378 japönsk jen eftir greiðslu þann dag.
Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008 heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., leysa stjórn félagsins frá störfum og setja yfir það skilanefnd. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. sama mánaðar var ýmsum réttindum og skyldum þess banka ráðstafað til stefnda og er óumdeilt að meðal þeirra hafi verið krafa samkvæmt skuldabréfinu, sem áfrýjandi gaf út 30. desember 2005.
Áfrýjandi undirritaði 27. október 2008 skjal með fyrirsögninni: „Viðauki við lán í erlendri mynt“, þar sem kveðið var á um þær breytingar á skilmálum skuldabréfsins að frekari afborgunum yrði frestað til 1. mars 2009 og vextir fram til þess tíma lagðir við höfuðstól skuldarinnar. Í þessum viðauka var skuldabréfinu lýst á þann hátt að „upphafleg lánsfjárhæð“ hafi verið 26.000.000 krónur, en eftirstöðvar skuldarinnar 1. október 2008 hafi numið 45.511.378 japönskum jenum. Aftur skrifaði áfrýjandi undir viðauka 26. febrúar 2009 um sambærilegar breytingar á skilmálum skuldabréfsins með því að afborgunum yrði áfram frestað til 1. júní 2009. Þar var skuldabréfinu lýst þannig að fjárhæð þess hafi verið „26.000.000,- krónur ... eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í eftirtalinni mynt: JPY 100%“, en eftirstöðvar skuldarinnar hafi 1. febrúar 2009 verið 45.866.883 japönsk jen.
Þegar leið að nýjum gjalddaga sendi stefndi tilkynningu til áfrýjanda 25. maí 2009, þar sem hún var krafin um greiðslu afborgunar og vaxta af skuldabréfinu 1. næsta mánaðar. Í tilkynningunni kom fram að „upphaflegt nafnverð“ þess hafi verið 48.762.191 japanskt jen, en eftirstöðvar skuldarinnar væru 46.098.383 jen. Greiða ætti afborgun og vexti að fjárhæð samtals 163.622 jen auk 410 króna í tilkynningar- og greiðslugjald, en eftir greiðslu yrðu eftirstöðvar skuldarinnar 45.993.852 jen. Samkvæmt kvittun frá stefnda 2. júní 2009 stóð áfrýjandi skil á þessu með því að 206.836 krónur voru teknar út af tilteknum reikningi hennar hjá stefnda í þeim gjaldmiðli, en þar af hafi 206.426 krónum verið varið til að kaupa 163.622 japönsk jen. Þá greiðslu innti áfrýjandi af hendi með fyrirvara.
Enn ritaði áfrýjandi 22. júní 2009 undir skjal um viðauka við „veðskuldabréf í erlendri mynt“ frá 30. desember 2005. Sagði þar að „jafnvirði upphaflegs höfuðstóls í íslenskum krónum“ væri 26.000.000 krónur, en „upphafleg myntsamsetning lánsins 100% JPY“. Í viðaukanum var kveðið á um greiðslujöfnun, sem felast ætti í því að áfrýjandi myndi greiða „afborganir og vexti af láni í erlendum myntum miðað við greiðslubyrði lánsins í maí 2008“, sem yrði þó bundin við svonefnda greiðslujöfnunarvísitölu. Ef slík greiðsla næmi lægri fjárhæð en sem svaraði mánaðarlegri afborgun og vöxtum samkvæmt skilmálum skuldabréfsins ætti mismunurinn að leggjast við höfuðstól skuldarinnar og lánstíminn að lengjast því til samræmis þar til hún yrði að fullu greidd. Af gögnum málsins verður ráðið að áfrýjandi hafi eftir þessum breyttu skilmálum staðið stefnda skil á greiðslu afborgana og vaxta af skuldabréfinu frá gjalddaga 1. júlí 2009 til og með 1. desember 2010 og þá þannig að greiðslur hafi verið skertar talsvert með greiðslujöfnun og mismunur bæst við höfuðstól. Óumdeilt virðist vera að á þessu tímabili öllu hafi áfrýjandi fengið kvittanir frá stefnda fyrir greiðslum sínum, þar sem komið hafi hverju sinni fram að „upphafleg lánsfjárhæð“ hafi verið 48.762.191 japanskt jen, fjárhæð afborgunar og vaxta ásamt lækkun hennar vegna greiðslujöfnunar hafi verið tilgreind í sama gjaldmiðli og loks tiltekið í honum hverju eftirstöðvar næmu eftir greiðslu og hver staða á greiðslujöfnunarreikningi væri. Einnig hafi komið fram í þessum kvittunum að greiðsla hafi verið innt af hendi með úttekt fjárhæðar í íslenskum krónum af reikningi áfrýjanda í þeim gjaldmiðli, svo og að með henni hafi verið keypt japönsk jen tiltekinnar fjárhæðar til að greiða afborgun og vexti. Loks hafi þessar kvittanir borið fyrirvara, sem áfrýjandi hafi gert við greiðslu hverju sinni.
Stefndi sendi áfrýjanda bréf 15. febrúar 2011, þar sem vísað var til þess að í desember 2010 hafi verið gerðar breytingar á lögum nr. 38/2001, sem „kveða á um endurútreikning erlendra húsnæðislána“. Félli lán áfrýjanda samkvæmt skuldabréfinu frá 30. desember 2005 undir þessa lagabreytingu og yrðu „eftirstöðvar því endurútreiknaðar og breytt í íslenskar krónur.“ Fyrir endurútreikning hafi eftirstöðvar skuldar áfrýjanda numið 64.269.986 krónum, en samkvæmt honum ættu þær að færast niður í 41.020.110 krónur miðað við 1. febrúar 2011. Á þessum grundvelli gerðu áfrýjandi og stefndi enn á ný viðauka 25. mars 2011 við skuldabréfið, þar sem fram kom að nýr höfuðstóll þess yrði 41.120.211 krónur, sem bera myndi 5,25% ársvexti frá 1. sama mánaðar, en greiða ætti skuldina með 419 mánaðarlegum afborgunum frá 1. apríl 2011 að telja. Áfrýjandi gerði fyrirvara „um betri rétt v/dóms Hæstaréttar eða lagabreytinga“ við undirritun þessa viðauka.
Í framhaldi af síðastgreindum breytingum á skilmálum skuldabréfsins átti áfrýjandi eftir gögnum málsins í nokkrum bréfaskiptum við stefnda, þar sem hún gerði meðal annars athugasemdir um aðferðir við endurútreikning á skuld sinni við hann. Verður ekki annað séð en að athugasemdir þessar hafi einkum snúið að því að þar hafi meðal annars verið reiknaðar afborganir og vextir á nýjan leik af fjárhæð skuldarinnar í íslenskum krónum allt frá byrjun og greiðslur áfrýjanda á öllu tímabilinu síðan dregnar frá, en vextir, sem þar væri miðað við, væru mun hærri en þeir, sem áfrýjandi hafi þegar greitt, og fengi hún þess ekki notið að gefin hafi verið út hverju sinni fullnaðarkvittun fyrir þeim. Áfrýjandi virðist þó hafa staðið í skilum við stefnda eftir breyttum skilmálum skuldabréfsins, ávallt með fyrirvara, þar til hún greiddi upp eftirstöðvar skuldarinnar 5. júní 2014 með 37.271.616 krónum.
II
Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur við úrlausn um hvort samningur teljist hafa verið gerður um lán í erlendum gjaldmiðli, svo sem er og hefur verið heimilt, eða lán í íslenskum krónum og fjárhæð þess bundin við gengi erlends gjaldmiðils, sem óheimilt var þar til 13. gr. laga nr. 38/2001 var breytt með 1. gr. laga nr. 36/2017, verið við það miðað að fyrst og fremst beri að leggja til grundvallar skýringu á texta samningsins, þar sem skuldbindingu lántaka er lýst. Ráðist ekki úrslit þegar af slíkri textaskýringu verði að líta til þess hvernig lánssamningur hafi í þessu efni verið efndur og framkvæmdur, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 14. nóvember 2013 í máli nr. 337/2013.
Fjárhæð lánsins, sem Landsbanki Íslands hf. veitti áfrýjanda með skuldabréfinu 30. desember 2005, var sem fyrr greinir lýst með þeim orðum að hún væri „jafnvirði“ 26.000.000 króna „í eftirtöldum myntum og hlutföllum: JPY 100,0%“. Í dómum Hæstaréttar hefur ítrekað verið slegið föstu að slík tilgreining á fjárhæð láns í texta samnings nægi ekki ein og sér til að komast að niðurstöðu um hvort hann taki til láns í erlendum gjaldmiðli eða í íslenskum krónum með bindingu við gengi erlenda gjaldmiðilsins, sbr. meðal annars dóm 15. júní 2012 í máli nr. 3/2012. Verður því að líta hér til þess hvernig lánveitandinn og lántakinn efndu aðalskyldur sínar samkvæmt skuldabréfinu.
Landsbanki Íslands hf. greiddi út lánið til áfrýjanda sem fyrr segir með því að leggja fjárhæð þess á innlendan gjaldeyrisreikning í japönskum jenum á nafni hennar, en í kaupnótu vegna skuldabréfsins var fjárhæð höfuðstóls þess og kaupverð eingöngu tilgreind í þeim gjaldmiðli. Þótt áfrýjandi kunni að hafa ekki verið höfð með í ráðum um þessa aðferð við útborgun lánsins verður að fallast á með stefnda að bankanum hafi verið rétt að fara þessa leið sökum þess að áfrýjandi hafi ekki óskað eftir því eða heimilað að bankinn legði samsvarandi fjárhæð inn á reikning hennar í íslenskum krónum. Fjárhæð lánsins stóð síðan á gjaldeyrisreikningnum áfrýjanda til ráðstöfunar og hefur ekkert komið fram um að hún hafi ekki í framhaldinu ein ráðið því hvernig farið var með innstæðuna á honum. Leggja verður til grundvallar að í tilkynningum Landsbanka Íslands hf. og síðar stefnda til áfrýjanda um gjalddaga greiðslna af skuldabréfinu og kvittunum fyrir þeim hafi upphafleg fjárhæð þess og fjárhæð eftirstöðva fyrir og eftir greiðslu, svo og fjárhæð afborgunar og vaxta hverju sinni, ávallt verið tilgreind í japönskum jenum, allt þar til skilmálum skuldabréfsins var breytt með fyrrgreindum viðauka 25. mars 2011. Afborganir og vextir af skuldabréfinu voru í öllum tilvikum frá 1. mars 2006 til 1. október 2008 greidd með úttekt af gjaldeyrisreikningi áfrýjanda í japönskum jenum, en frá þeim tíma til 1. desember 2010 fóru greiðslur samkvæmt kvittunum stefnda fram með því að fé var tekið út af reikningi áfrýjanda í íslenskum krónum og keypt með því japönsk jen. Fóru þannig allar efndir af hálfu Landsbanka Íslands hf. og síðar stefnda annars vegar og áfrýjanda hins vegar á meginskyldum samkvæmt ákvæðum skuldabréfsins ávallt fram í japönskum jenum þar til viðaukinn var gerður við skuldabréfið 25. mars 2011. Þegar af þessum ástæðum verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Elsa Bjartmarsdóttir, greiði stefnda, Landsbankanum hf., 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. maí 2017.
Mál þetta sem var höfðað 13. desember 2016 af Elsu Bjartmarsdóttur, Fálkastíg 4, 210 Garðabæ gegn Landsbankanum hf., Austurstræti 11, 101 Reykjavík, var dómtekið að lokinni aðalmeðferð sem fram fór 25. apríl sl.
Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að lán stefnda samkvæmt veðskuldabréfi nr. 0111-36-4332 sem gefið var út þann 30. desember 2005 nr. 1/2008, sé lán í íslenskum krónum og bundið ólögmætri gengistryggingu í skilningi 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Ennfremur krefst stefnandi greiðslu málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda.
Stefndi krefst sýknu, og málskostnaðar úr hendi stefnanda.
I.
Stefnandi gaf út skuldabréf til Landsbanka Íslands hf. 30. desember 2005 en ágreiningur málsins snýst um lögmæti lánsins. Um er að ræða neytendalán og er það tryggt með fasteignaveði. Skuldabréfið er á stöðluðu skuldabréfaformi Landsbanka Íslands hf. fyrirrennara stefnda og ber yfirskriftina, „veðskuldabréf fasteignalán í erlendri mynt“, en þar við hliðina stendur að skuldabréfið sé gengistryggt með breytilegum vöxtum og jöfnum afborgunum. Þá segir að útgefandi viðurkenni að skulda Landsbanka Íslands hf. jafnvirði 26.000.000 íslenskra króna og er sú fjárhæð tilgreind bæði í tölustöfum og bókstöfum. Enn fremur segir að skuldin sé „í eftirtöldum myntum og hlutföllum: JPY 100%“, en ekki er getið um neina fjárhæð í þeirri mynt.
Megin greiðsluskilmálar skuldabréfsins eru þeir að stefnandi skyldi endurgreiða lánið á 40 árum með 480 mánaðarlegum afborgunum, þeirri fyrstu þann 1. mars 2006, og breytilegum LIBOR vöxtum að viðbættu 1,30% vaxtaálagi.
Í 1. gr. skilmála segir að lánið sé bundið kaupgengi Landsbanka Íslands hf. á „ofangreindum myntum“ tveimur virkum dögum fyrir útborgunardag. Útborgunardagur er skilgreindur í ákvæðinu tveimur virkum dögum eftir að skuldabréfið berst með athugasemdalausri þinglýsingu til bankans. Í 2. gr. segir að höfuðstóll skuldarinnar breytist í hlutfalli við breytingar á sölugengi hverrar myntar eins og það var tveimur dögum fyrir útborgunardag til fyrsta gjalddaga, og síðan í hlutfalli við breytingar á sölugengi myntanna milli gjalddaga. Í 3. gr. segir svo að vextir miðist við LIBOR eins og fyrr greinir.
Um leið og stefnandi undirritaði skuldabréfið, undirritaði hún fylgiskjal með skuldabréfinu að auki, sem innihélt niðurstöður fasteignalánamats og fylgiskjal skuldabréfs sem var greiðsluáætlun þar sem segir meðal annars að lánið sé 100% í erlendri myntkörfu auk þess sem tilgreindar eru fjárhæð til útborgunar, dagsetningar, áætlaðar fjárhæðir einstakra gjalddaga o.fl., jafnframt voru þar upplýsingar um greiðslubyrðina og kostnað en vísað var til laga um neytendalán nr. 121/1994 um skilmálana.
Þann 12. janúar 2006 var lánið greitt út. Á kaupnótu kemur fram að andvirði lánsins 48.274.569 japönsk jen, hafi verið greitt inn á reikning í eigu stefnanda.
Stefnandi fullyrðir að stefndi hafi stofnað þennan reikning fyrir hönd stefnanda án hennar vitundar eða samþykkis og færslur af þeim reikningi hafi verið án hennar atbeina. Greiðslur inn á þennan reikning og skuldfærslur af honum séu enda ekki í samræmi við áritun á skuldabréfið sjálft þar sem stefnandi óski eftir því að reikningur 0111-26-513105 verði skuldfærður fyrir afborgunum og vöxtum. Þessu mótmælir stefndi.
Þann 27. október 2008 var breyting á greiðsluskilmálum lánsins, þar sem var m.a. kveðið á um frestun afborgana til 1. mars 2009 og skuldbreytingu áfallinna vaxta, en að öðru leyti kveðið svo á um að ákvæði veðskuldabréfsins skyldu vera óbreytt. Yfirskrift skjalsins er „Viðauki við lán í erlendri mynt“. Upphaflegrar fjárhæðar er getið í íslenskum krónum, en stöðu lánsins á þeim tíma í japönskum jenum. Að lokum er gerður sá fyrirvari að þegar fyrsta greiðsla samkvæmt nýjum greiðsluskilmálum lánsins hefjist muni greiðslubyrði í íslenskum krónum ráðast af sölugengi Landsbankans á gjalddaga.
Þann 26. febrúar 2008 var undirritaður annar viðauki við veðskuldabréfið um skilmálabreytingu á þá leið að afborgunum yrði frestað til 1. júní 2009 og vöxtum skuldbreytt, en að öðru leyti héldist ákvæði veðskuldabréfsins óbreytt. Þar var sem fyrr tilgreind upphafleg fjárhæð lánsins í íslenskum krónum en eftirstöðvar lánsins á þeim tíma hins vegar tilgreindar í japönskum jenum 45.866.883.
Þann 22. júní 2009 var gerð þriðja skilmálabreytingin; skjal með yfirskriftinni „Greiðslujöfnun. Viðauki við lánssamning/veðskuldabréf í erlendri mynt“. Þar er upphafleg fjárhæð lánsins tilgreind í íslenskum krónum en upphafleg myntsamsetning lánsins 100% JPY. Var skjalið undirritað af stefnanda með fyrirvara um betri rétt.
Með bréfi 15. febrúar 2011 tilkynnti stefndi stefnanda að Alþingi hefði samþykkt í desember 2010 breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu, sem kváðu á um endurútreikning erlendra húsnæðislána og að sú lagabreyting hefði leitt til þess að eftirstöðvar láns stefnanda lækkuðu eftir endurútreikning úr 64.269.986 krónum í 41.020.110 krónur miðað við 1. febrúar 2011. Segir enn fremur í bréfinu að hægt sé að óska eftir því fram til 25. mars 2011 að vera áfram með lán í erlendri mynt og verði hlutaðeigandi lán þá ekki endurútreiknað. Með bréfinu fylgdi endurútreikningur á láninu. Í tilefni af þessum endurútreikningi var gerður viðauki. Segir í viðaukanum að upphaflegur höfuðstóll hafi verið að jafnvirði 26.000.000 króna. Undir viðauka þennan ritaði stefnandi aftur með fyrirvara um betri rétt „vegna dóms Hæstaréttar eða lagabreytinga“.
Þann 29. júní 2011 sendi stefnandi bréf til stefnda þar sem hún óskaði eftir því að lánið yrði sett í upphaflega fjárhæð í íslenskum krónum og dregið frá allt það sem hafði verið greitt inn á lánið. Jafnframt gerði hún athugasemdir við útreikninga bankans á láninu og lýsti þeirri skoðun sinni að lánið væri bundið við ólögmæta gengistryggingu og að endurútreikningur sem byggði á lögum 151/2010 gengi gegn meginreglum íslensks réttar um afturvirkni laga, stjórnarskrárvörðum eignarrétti og þar tilgreindum Evróputilskipunum.
Þessu hafnaði stefndi í bréfi 18. júlí 2011. Krafa stefnanda var áréttuð með bréfi 26. september 2012 og sambærilegt svar barst frá stefnda í bréfi 3. janúar 2012.
Þann 23. október 2013 sendi stefnandi bréf til stefnda þar sem krafist var endurgreiðslu á ofgreiddum afborgunum á neytendaláni því sem hér er til umfjöllunar. Ætti að hafa til hliðsjónar dóma Hæstaréttar um ólögmæt gengislán, lög nr. 121/1994 um neytendalán, lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005, ákvæði samningalaga um neytendarétt o.fl.
Aðilar og lögmaður stefnanda skiptust á bréfum og tölvuskeytum í framhaldi þar sem tekist var á um lögmæti gengistryggingar og endurútreikninga.
Þann 1. júlí 2016 lagði stefnandi fram kvörtun á hendur stefnda hjá úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki, sbr. mál nefndarinnar nr. 41/2016 þar sem krafist var að úrskurðað yrði að stefnda yrði gert að endurgreiða stefnanda vegna ólöglegs erlends láns. Kröfu stefnanda var hafnað.
II.
Stefnandi byggir á því að lánsskuldbinding samkvæmt umfjölluðu veðskuldabréfi sé í íslenskum krónum í skilningi 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu enda komi einungis fram höfuðstólsfjárhæð lánsins í íslenskum krónum í samningnum.
Horfa beri til nokkurra atriði þegar ákvarðað sé hvort um hafi verið að ræða lán í erlendri mynt eða lán í íslenskum krónum sem hafi verið gengistryggt. Einkum verði litið til orðalags lánaskjalsins sjálfs og fylgiskjala þess, en til fyllingar á því og ef um þrýtur sé einnig hægt að líta til efnis og orðalags á skjölum er lúta að framkvæmd eða lúkningu umdeilds lánaskjals.
Í fyrirsögn veðskuldabréfsins segi: „Veðskuldabréf fasteignalán í erlendri mynt". Hugtakið fasteignalán í erlendri mynt sé skýrt í samnefndu sérriti greiningardeildar Landsbankans frá 10. febrúar 2004 en þar segi að um sé að ræða fasteignalán þar sem höfuðstóll sé í erlendri mynt og vextir taki mið af erlendum grunnvöxtum. Síðan segi: „Lán í erlendri mynt eru gengistryggð en það þýðir að höfuðstóll lánsins og þar með greiðslubyrði tekur mið af gengi gjaldmiðla á hverjum tíma. Í textanum hér á eftir er ýmist talað um „lán í erlendri mynt“ eða „gengistryggð lán“ og er merkingin sú sama."
Í inngangi skjalsins viðurkenni stefnandi að skulda stefnda að jafnvirði: „IKR 26.000.000 eða tuttugu og sex milljónir 00/100 í eftirtöldum myntum og hlutföllum: JPY 100,0%.“
Þá sé talað um að skuldabréfið sé „gengistryggt, með breytilegum vöxtum og jöfnum afborgunum“ og að lánið sé „í eftirtöldum myntum og hlutföllum“ en þar sé verið að vísa til gengistengingar, sbr. einnig það sem segi í 1. gr. skilmála bréfsins: „Lán þetta er bundið kaupgengi Landsbanka Íslands hf. á ofangreindum myntum, tveimur virkum dögum fyrir útborgunardag“, sem og það sem segir í 2. gr. skilmálanna: „Höfuðstóll skuldarinnar breytist í hlutfalli við breytingar á sölugengi [viðkomandi myntar] hverrar myntar eins og það var tveimur dögum fyrir útborgunardag til fyrsta gjalddaga, og síðan í hlutfalli við breytingar á sölugengi myntanna milli gjalddaga. Afborganir eru reiknaðar þannig, að á hverjum gjalddaga er deilt í höfuðstól hverrar myntar, með þeim fjölda gjalddaga, sem þá eru eftir, að meðtöldum þeim gjalddaga sem er í það sinn.“
Ótvírætt sé að höfuðstóllinn hafi verið í íslenskum krónum, en tengdur gengisbreytingum sem hafi verið ólöglegt. Ef um erlent lán hefði verið að ræða, þ.e.a.s. höfuðstóllinn verið í erlendum myntum eða mynt, þá hefði augljóslega ekki þurft að miða við gengi viðkomandi mynta.
Á skuldabréfinu geti að líta svohljóðandi texta um skuldfærslubeiðni: „Útgefandi óskar hér með eftir því að neðangreindur reikningur hjá Landsbanka Íslands hf. verði skuldfærður fyrir afborgunum og vöxtum lánsins. Skuldfærslureikningur 0111-26-513105“. Skuldabréfið beri það þannig með sér að við afborganir af bréfinu og greiðslu vaxta hefði borið að skuldafæra reikning sem er í íslenskum krónum. Verði ekki séð á þessu að útgefandi bréfsins, stefnandi þessa máls, hafi óskað eftir því að andvirði lánsins yrði greitt út í jenum.
Í greiðslumati, í tilefni af lántöku stefnanda hjá stefnda, sem unnið var af starfsmanni stefnda kemur fram í lánalýsingu að fjárhæð lánsins sé 26.000.000 króna, greiðslugjald sé 700 krónur og áætluð greiðslubyrði 87.684 krónur á mánuði. Ekkert af þessu sé tilgreint í erlendum myntum.
Í greiðsluáætlun sem var fylgiskjal með skuldabréfinu í máli þessu sagði m.a.: „Höfuðstóll: kr. 26.000.000 100% í erlendri myntkörfu. Fjárhæð til útborgunar (andvirði): kr. 25.348.100.“ Í greiðsluáætluninni séu eftirstöðvar, afborganir, vextir, kostnaður og samanlögð greiðsla ávallt og eingöngu tilgreind í íslenskum krónum. Fram komi einnig að heildarlántökukostnaður sé 8.228.519 krónur og að heildarupphæð sem greiða eigi miðað við óbreytta vexti sé 33.576.619 krónur. Hvergi séu fjárhæðir tilgreindar í erlendri mynt.
Í viðauka við veðskuldabréfið, frá 27. október 2008 þar sem breytt var greiðsluskilmálum sé vísað til þess að upphafleg lánsfjárhæð sé 26.000.000 króna en eftirstöðvar tilgreindar í jenum. Í þessum viðauka hafi verið staðfest yfirtaka stefnda á umræddu láni af hinum fallna Landsbanka Íslands hf. Í þessu skjali segir meðal annars: „… þegar fyrsta greiðsla skv. nýjum greiðsluskilmálum lánsins hefst mun greiðslubyrði í íslenskum krónum ráðast af sölugengi Landsbankans á gjalddaga.“ Nokkurn veginn sama gildi um viðauka frá 26. febrúar 2009.
Enn einn viðaukinn hafi verið gerður við veðskuldabréfið 22. júní 2009. Í viðauka þessum, sem lúti að greiðslujöfnun, segi m.a.: „Jafnvirði upphaflegs höfuðstóls í íslenskum krónum kr. 26.000.000 og upphafleg myntsamsetning lánsins 100% JPY.“ Það veki athygli stefnanda að stefndi skuli hafa séð ástæðu til þessara orðalagsbreytinga. Skýringanna sé sjálfsagt að leita í því að stefndi eins og flestar fjármálastofnanir á þessum tíma hafi staðið í dómsmálum vegna ólöglegra gengislána.
Þann 25. mars 2011 hafi aðilar ritað undir viðauka við lánið vegna endurútreiknings á höfuðstól. Í þeim viðauka segi að höfuðstóll upphaflega lánsins hafi verið að jafnvirði 26.000.000 króna. Þarna hafi upphaflegur höfuðstóll verið endurútreiknaður miðað við þróun neysluvísitölu og verðtryggða vexti Seðlabankans. Öll gengistenging hafi verið fallin út.
Stefnandi telur þá að eftirfarandi atriði er varða greiðslu á hinu umþrætta skuldabréfi eða lúta að lögskiptum stefnanda og stefnda vegna þessa veðskuldabréfs renni stoðum undir þá málsástæðu að lánsskuldbindingin samkvæmt veðskuldabréfinu sé lán íslenskum krónum í skilningi 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Stefndi bendir á að kaupnótan frá 12. janúar 2006 þar sem andvirði skuldabréfs er lagt inn á jenareikning, sé fyrsta skjalið sem tilgreini lán stefnda til stefnanda í japönskum jenum, en þessi ráðstöfun hafi verið í andstöðu við fyrirmæli stefnanda á skuldabréfinu.
Á kvittun fyrir greiðslu 1. mars 2006, komi fram að skuldfært sé af reikningi nr. 111-38-670036, sem sé jena-reikningur. Þetta gangi og þvert gegn efni skuldabréfsins þar sem mælt er fyrir um að skuldafæra skuli af reikningi 0111-26-513105. Fleiri dómskjöl beri þetta með sér. Á lánayfirlitum frá stefnda séu eftirstöðvar höfuðstóls tilteknar ýmist í jenum eða krónum, eða báðum gjaldmiðlum.
Í málinu séu kvittanir fyrir greiðslu stefnanda á afborgunum og vöxtum þann 2. júní og 2. júlí 2009 og 1. júní 2010 en þar komi fram að deginum áður hafi verið tekin út fjárhæð af krónureikningi stefnanda og jen keypt fyrir fjárhæðina áður en greitt hafi verið af láninu. Þá komi fram í tilkynningunum 19. febrúar og 25. maí 2009 að skuldfært verði af ISK reikningi 0111-26-513105.
Í ódagsettu bréfi stefnda til stefnanda sem lýtur að endurútreikningi lánsins á grundvelli tilmæla Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans vegna dóms Hæstaréttar frá 16. júní 2010 segi að skv. tilmælunum beri bönkum og fjármálafyrirtækjum að endurreikna lánssamninga sem að mati viðkomandi fjármálafyrirtækis innihaldi óskuldbindandi gengistryggingarákvæði og samrýmist ekki umræddum dómi. Síðan segir í bréfinu: „Þetta þýðir að lán þitt telst samkvæmt þessari áætlun lán í íslenskum krónum“. Í bréfinu er síðan greint frá því að um vaxtaviðmið fari eftir því sem segi í tilmælunum og vitnað til þeirra þar sem segir: „Í stað gengistryggingar og erlends vaxtaviðmiðs ...“. Í bréfi þessu taki stefndi undir málsástæðu stefnanda um að lánsskuldbinding samkvæmt veðskuldabréfinu sé í íslenskum krónum og svari með mjög afgerandi hætti kjarnaspurningu málsins hvort um sé að ræða lán í erlendri mynt eða gengistryggt lán í íslenskum krónum.
Í kvittun frá 30. mars 2011 komi fram að þann 1. mars 2011 hafi 23.171.617 krónur verið greitt vegna lánsins og er skýringin sú að um sé að ræða afskrift vegna endurútreikningsins. Í kvittun vegna bakfærslu sama dag komi fram að bakfærðar hafi verið 140.294 krónur. Þar kemur einnig fram að seld hafi verið japönsk jen að fjárhæð 98.816 krónur. Í samræmi við þessar breytingar hafi greiðsluseðlar eftir þetta verið í íslenskum krónum.
Við mat á því hvort um hafi verið að ræða lán í erlendri mynt eða lán í íslenskum krónum sem var gengistryggt telur stefnandi léttvæga þá staðreynd að lagðar hafa verið fram tvær kvittanir og yfirlit og fimm tilkynningar um gjalddaga þar sem greiðslur og eftirstöðvar eru tilgreindar í jenum.
Stefnandi reifar fjöldann allan af dómum Hæstaréttar um svipuð álitaefni. Ekki er ástæða til að rekja þá í dómi þessum en sjónarmið sem þar eru nefnd til stuðnings því að lán teljist íslensk og gengistryggð eru m.a. að fjárhæðir í láns- eða leigusamningum séu innheimtar í íslenskum krónum. Einnig að lánsfjárhæð sé ákveðin í íslenskum krónum. Þá er nefndur dómur þar sem að virtum öðrum atriðum hafi hvorki skipt máli að staðhæfing um erlent lán komi fram í fyrirsögn samnings né yfirlýsing skuldara um að skulda í erlendum gjaldmiðlum jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum. Þá skipti máli ef hvergi kemur fram hver fjárhæð skuldar sé í erlendum krónum en þá þurfi jafnvel ekki að líta til þess hvernig aðilar efndu skuldbindingar sínar í raun.
Skuldbinding stefnanda sé aðeins tilgreind í íslenskum krónum og sé því ekki um að ræða lán í erlendri mynt. Um sé að ræða lán í íslenskum krónum sem bundið sé gengi erlendra gjaldmiðla. Hafi stefndi á annað borð ætlað að hafa samninginn í erlendri mynt hefði honum verið í lófa lagið að tilgreina hina erlendu mynt sem höfuðstólsfjárhæð í samningi aðila. Það hafi stefndi hins vegar ekki gert og því blasi við að um sé að ræða gengistryggðan lánssamning.
Stefnandi byggir á því að kunni að leika einhver vafi á því hvort lánið hafi verið í erlendri mynt eða gengistryggt, þá beri að túlka þann vafa stefnanda í hag með vísan til þess að um neytendalán sé að ræða, og lánið talið gengistryggt.
Stefnandi kveður einnig rétt að vísa til laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Með hliðsjón af 5. gr., sbr. 9. gr. laganna um bann við röngum eða villandi upplýsingum um eðli og einkenni vöru eða þjónustu og um lögbundin réttindi neytenda, telur stefnandi að stefndi beri hallann af öllum óskýrleika í lánasamningi þeim sem mál þetta lýtur að.
III.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að með undirritun sinni á veðskuldabréf nr. 4332 hafi stefnandi skuldbundið sig til að taka lán í erlendum gjaldmiðli. Stefnanda beri að efna gerða samninga og virða skuldbindingar sínar. Stefndi telur að krafa hans á hendur stefnanda samkvæmt veðskuldabréfinu sé skuldbinding í erlendri mynt og falli þess vegna utan gildissviðs VI. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 13. gr. þeirra laga.
Stefndi kveðst leggja áherslu á að í fyrirsögn skjalsins segi að það sé „Veðskuldabréf fasteignalán í erlendri mynt“. Einnig sé vísað til þess að orðalagið „jafnvirði“ íslenskra króna geti ekki talist tilgreining á skuldbindingu í íslenskum krónum. Auk þessa hafi stefnandi undirritað sérstaka yfirlýsingu þess efnis að hún gerði sér grein fyrir því að lántaka í erlendri mynt væri áhættusamari en lántaka í íslenskum krónum. Hafi stefnanda því verið ljóst að hún var að taka erlent lán en ekki lán í íslenskum krónum.
Í lögum nr. 38/2001 sé ekki að finna skilgreiningu á því hvað skuli teljast „skuldbinding um lánsfé í íslenskum krónum“ og hvað teljist erlent lán. Af því leiði að túlka verður skuldbindingu aðila í hvert og eitt skipti samkvæmt fyrirliggjandi samningi og orðalagi hans. Við þá túlkun verði að horfa til grundvallarreglu samningaréttar um samningsfrelsi aðila, en af henni leiði m.a. að allar takmarkanir frá henni verði að túlka þröngt. Stefndi telur Hæstarétt Íslands hafa slegið því föstu að við þetta mat þurfi fyrst og fremst að líta til forms þess gernings sem liggur til grundvallar skuldbindingunni. Hafi rétturinn lagt á það áherslu að hér skipti einkum máli hvernig sjálf skuldbindingin sé tilgreind í viðkomandi löggerningi. Ef lánsfjárhæð er tilgreind á forsíðu lánssamnings í erlendri mynt hafi verið talið að þeir samningar séu um skuldbindingu í erlendri mynt.
Ef formskilyrðið er ekki uppfyllt, þ.e. að í lánssamningi sé getið um lánsfjárhæðina sem jafnvirði íslenskra króna og aðeins getið um hlutföll hinna erlendu mynta, horfi Hæstiréttur til þess hvernig aðilar samningsins efndu samningsskyldur sínar. Í umþrættu veðskuldabréfi sé fjárhæð lánsins tilgreind að jafnvirði íslenskra króna í eftirtöldum myntum og hlutföllum: 100% JPY. Því þurfi að horfa til þess hvernig aðilar samningsins efndu samningsskyldur sínar.
Stefndi kveður stefnandi ekki hafa óskað eftir því að fá lánið greitt út í íslenskum krónum og því hafi andvirði þess verið greitt út í lánsmyntinni, jenum. Stefndi hafi stofnað gjaldeyrisreikning í nafni stefnanda og lagt jenin inn á hann. Stefnandi hafi ekki mótmælt þessari framkvæmd við útgreiðslu lánsins en hún hafi tekið fjárhæðina út af reikningnum með 15 færslum og hafi síðasta úttektin verið þann 30. ágúst 2008 eða rúmum sjö mánuðum frá þeim tíma er lánið var greitt út. Stefndi mótmælir þeirri fullyrðingu stefnanda sem ósannaðri og rangri að allar úttektir af gjaldeyrisreikningnum hafi verið án hennar atbeina. Sem eigandi reikningsins hafi stefnandi ein getað tekið út af honum. Stefnandi hafi átt þennan gjaldeyrisreikning til 4. júní 2008, í þrjú og hálft ár (sic!), og bendi það ekki til þess að hann hafi verið stofnaður í óþökk hennar.
Stefnandi hafi fallið frá þeirri beiðni sinni að greiðsla afborgana og vaxta yrði skuldfærð af íslenskum tékkareikningi hennar. Var því gjaldeyrisreikningur hennar nr. 670036 skuldfærður fyrir afborgunum og vöxtum af láninu fram til 30. ágúst 2006. Þann dag stofnaði stefnandi annan gjaldeyrisreikning í jenum, nr. 0111-38-670054, og var sá reikningur skuldfærður fyrir greiðslum lánsins allt fram í október 2008 þegar gerður var viðauki við lánið um frestun afborgana og vaxta. Frá þeim tíma hafi íslenskur tékkareikningur hennar verið skuldfærður fyrir afborgunum lánsins og hafi verið keypt jen sem greidd voru inn á lánið. Stefnandi gerði aldrei athugasemdir við þessa framkvæmd á greiðslum lánsins og lítur stefndi svo á að hún hafi verið samþykk henni.
Sé því ljóst að báðir aðilar samningsins hafi efnt aðalskyldur sínar í erlendum myntum; stefndi með því að greiða lánið út í jenum á gjaldeyrisreikning stefnanda og stefnandi með því að endurgreiða lánið í jenum. Stefndi byggir á því að við þessar aðstæður geti skuldbinding aðila ekki talist vera í íslenskum krónum.
Þá bendir stefndi á að stefnandi átti samkvæmt efni veðskuldabréfsins að greiða stefnda tilgreinda LIBOR-vexti en LIBOR-vextir verði ekki ákvarðaðir á íslenskar krónur. Skuldbinding stefnanda var því án alls vafa í erlendum myntum og hafi þetta verið henni ljóst.
Þá sé skuldbindingin tilgreind í hinni erlendu mynt í öðrum skjölum sem séu tengd veðskuldabréfinu órjúfanlegum böndum.
Þegar skjalagerð vegna lánsins hafi verið lokið og skilyrðum fyrir útgreiðslu þess fullnægt, þ. á m. að þinglýsingu bréfsins, var fyrst hægt að greiða lánið út. Þá fyrst hafi legið fyrir hver höfuðstóll hinnar erlendu myntar var nákvæmlega. Kaupnóta lánsins, sýni hver var höfuðstóll lánsins á útborgunardegi og sé skuldbinding stefnanda samkvæmt veðskuldabréfinu þar einungis tilgreind í jenum. Stefnandi hafi fengið kaupnótuna senda til sín og enga athugasemd gert við efni hennar.
Í skilmálabreytingum lánsins, yfirlitum um stöðu lánsins, kvittunum fyrir greiðslu hvers gjalddaga og tilkynningum um gjalddaga, sé lánsfjárhæðin eingöngu tilgreind í jenum og ekki minnst á íslenskar krónur.
Þannig liggi fyrir að skuldbinding stefnanda hafi í öllum skjölum, frá og með útgreiðslu lánsins, verið tilgreind með þeim erlenda gjaldmiðli sem hún var í en ekki í íslenskum krónum. Telur stefndi því ljóst að af orðalagi samningsins, öðrum skjölum og athöfnum aðila, sé engum vafa háð að umþrættar skuldbindingar hafi verið í erlendum gjaldmiðlum, og slíkt raunar verið skýrlega staðfest í dómaframkvæmd. Beri þegar af framangreindum ástæðum, hverri og einni og öllum samanlögðum, að sýkna stefnda af dómkröfum stefnanda.
Stefndi vísar til og reifar ítarlega fjölmarga dóma Hæstaréttar sem hann telur í samræmi við framangreint.
Stefndi telur að þau dómafordæmi sem stefnandi vísar til í stefnu, þar sem niðurstaða Hæstaréttar varð sú að lán var talið gengistryggt, hafi ekki fordæmisgildi í þessu máli þar sem atvik séu ekki sambærileg. Í þeim málum efndu aðilar samningsins skyldur sínar í íslenskum krónum en í þessu máli efndu báðir aðilar samningsskyldur sínar í jenum.
Stefndi tilgreinir að þegar viðauki hafi verið gerður við lán stefnanda þann 27. október 2008 hafi greiðslum af láninu verið frestað frá 1. október 2008 til og með 1. febrúar 2009 og hafi næsti gjalddagi lánsins verið ákveðinn 1. mars 2009. Vextir fyrir þetta tímabil hafi verið lagðir við höfuðstól og því hafi eftirstöðvar lánsins hækkað án þess að lánstíminn lengdist. Þess vegna hafi verið tekið fram í viðaukanum að þegar afborganir hæfust af láninu að nýju yrði hver greiðsla hærri en áður sem næmi hlutfallinu af höfuðstólsfærðum vöxtum og færri heildarfjölda afborgana. Einnig hafi komið fram að þegar fyrsta greiðsla samkvæmt nýjum greiðsluskilmálum hæfist myndi greiðslubyrði í íslenskum krónum ráðast af sölugengi Landsbankans á gjalddaga. Ástæðan hafi verið sú að fleiri krónur þarf til þess að kaupa fleiri jen til þess borga hærri gjalddaga af láninu.
Stefndi mótmælir þeim rökum stefnanda að umfjöllun greiningardeildar Landsbanka Íslands hf. frá 10. febrúar 2004 um fasteignalán í erlendri mynt, bendi til þess að um gengistryggð lán sé að ræða. Fram komi í inngangi greinarinnar að Landsbanki Íslands hf. og Íslandsbanki hf. hefðu auglýst nýja tegund fasteignalána þar sem höfuðstóll sé í erlendri mynt og vextir taki mið af erlendum grunnvöxtum. Vaxtamunur á milli Íslands og viðskiptalandanna sé um 3% á mælikvarða millibankavaxta (LIBOR) og sé því óhætt að gera ráð fyrir því að íbúðarkaupendur velti því alvarlega fyrir sér hvort lántaka í erlendri mynt sé fýsileg.
Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands hafi sent tilmæli til fjármálafyrirtækja þann 30. júní 2010, í kjölfar uppkvaðningar fyrstu dómanna um að bílasamningar fjármögnunarleigufyrirtækja væru gengistryggð lán, þar sem þau voru beðin um að meta hvaða áhrif það gæti haft á fjárhagsstöðu og eigið fé fyrirtækjanna ef lán viðskiptavina þeirra sem teldust gengistryggð væru endurreiknuð í íslenskum krónum með lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum eða með lægstu vöxtum á nýjum almennum verðtryggðum útlánum. Tilgangur tilmælanna hafi verið að hjálpa eftirlitsaðilum með fjármálafyrirtækjum að gera sér grein fyrir hvaða áhrif dómar um gengistryggingu hefðu á rekstur fjármálafyrirtækja en farið var fram á að fjármálafyrirtækin sendu áætlanir um áhrifin. Ekki var um lagasetningu að ræða heldur tilmæli og þurftu fyrirtækin ekki að fara að þeim en ef þau gerðu það og sendu umbeðnar upplýsingar megi vera ljóst að um áætlanir hafi verið að ræða þar sem ekki lágu fyrir á þessum tíma skýr dómafordæmi um það hvaða lán teldust gengistryggð og hver erlend.
Í framhaldi af þessum tilmælum hafi stefndi sent stefnanda bréf, þar sem gerð var grein fyrir þeim og að lán stefnanda hefði verið endurreiknað samkvæmt þessari áætlun. Í bréfinu hafi komið fram að útreikningarnir væru mat á stöðu lánsins miðað við 1. júní 2010 og að þeir væru sendir til að auðvelda viðskiptavinum að gera sér grein fyrir áhrifum tilmælanna. Stefnandi hafi ekki brugðist við bréfinu og hafi ekki haft samband við stefnda vegna þess eða áætlaðs útreiknings sem birtur hafi verið í heimabanka stefnanda. Stefndi hafnar þeirri fullyrðingu stefnanda að með bréfinu hafi stefndi fallist á að umþrætt veðskuldabréf væri gengistryggt og byggir á því að um hafi verið að ræða bréf þar sem áætluð staða lánsins var kynnt ef til þess kæmi að það yrði endurreiknað. Stefnandi hefur ekki borið því við áður að í bréfinu hafi falist viðurkenning á að lánið sé gengistryggt og telur stefndi að um tómlæti sé að ræða hjá stefnanda að byggja á því að í bréfinu felist slík viðurkenning.
Með lögum nr. 151/2010, sem Alþingi samþykkti þann 29. desember 2010, var samþykkt breyting á vaxtalögum nr. 38/2001. Í lögunum eru ákvæði um það hvernig standa skuli að endurútreikningi gengistryggðra lána og voru fjármálafyrirtækjum gefnir þrír mánuðir til þess að endurreikna bæði gengistryggð og lögmæt erlend íbúðarlán. Stefndi hafi gert það og sent stefnanda bréf, 15. febrúar 2011, þar sem niðurstöður endurútreikningsins voru kynntar. Með viðauka við skuldabréfið 25. mars 2011 samþykkti stefnandi útreikninginn en eftir þann útreikning hafi verið um lán í íslenskum krónum að ræða með lægstu óverðtryggðum vöxtum samkvæmt 4. gr. vaxtalaga.
Stefndi vísar til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, einkum 1. – 4. gr. og 13. og 14. gr. Stefndi vísar til meginreglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga. Krafa stefnda um málskostnað byggir á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Stefndi er ekki virðisaukaskattsskyldur og ber honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefnanda.
IV.
Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort veðskuldabréf útgefið af stefnanda í árslok 2005, sé lán í erlendum myntum eða í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu samkvæmt 14. gr., sbr. 13. gr. laga nr. 38/2001, en á þetta álitaefni hefur margoft reynt í dómaframkvæmd.
Stefnandi kefst þess að viðurkennt verði að skuldabréfið sé lánssamningur í íslenskum krónum bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu. Stefndi heldur því fram að lánið hafi verið löglegt lán í erlendum gjaldmiðlum.
Af orðalagi fyrrgreindra lagaákvæða og lögskýringargögnum verður ráðið að við úrlausn á því hvort um sé að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli verði fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggja til grundvallar skuldbindingunni. Í því sambandi skiptir einkum máli hvernig sjálf skuldbindingin er tilgreind í þeim. Fjöldi dóma liggur fyrir þar sem reynt hefur á framangreint álitaefni. Hefur Hæstiréttur í dómum sínum, í samræmi við framangreint, fyrst og fremst lagt til grundvallar skýringu á texta lánssamnings þar sem lýst er skuldbindingunni sem lántaki tekst á hendur. Koma önnur atriði tengd samningsgerðinni þá fyrst til skoðunar ef samningsákvæðin sjálf taka ekki af vafa um þetta atriði. Þá hefur verið litið mjög til þess hvort lánsfjárhæðin hafi verið greidd út við kaup á skuldabréfi, í íslenskum krónum eða hinum erlenda eða erlendum gjaldmiðlum.
Ákvæðum hins umdeilda veðskuldabréfs hefur verið lýst hér að framan, en skjalið ber yfirskriftina „Veðskuldabréf fasteignalán í erlendri mynt“. Í skjalinu játast stefnandi undir að skulda Landsbanka Íslands hf. jafnvirði 26.000.000 króna í „eftirtöldum myntum og hlutföllum: JPY 100%“. Þá voru vextir samkvæmt láninu til samræmis við að um erlent lán væri að ræða. Samkvæmt þessu bar meginefni samningsins ótvírætt með sér að lán þetta hafi verið gilt lán í hinum erlenda gjaldmiðli. Aukinheldur liggur fyrir að lánið var greitt út í japönskum jenum án þess að nokkur andmæli hafi verið höfð uppi af hálfu stefnanda við þeirri ráðstöfun bankans, þótt hún beri því við nú að þetta hafi verið í óþökk hennar. Hið sama gildir um stofnun stefnda á reikningnum og útgreiðslur af honum í framhaldi, engar athugasemdir eru sjáanlegar af hálfu stefnanda vegna þessa. Vísa má um framangreind sjónarmið til dæmis til dóma Hæstaréttar í málunum nr. 3/2012 og 66/2012. Þá athugist að í bréfi stefnanda til stefnda 26. september 2013 segir hún lánið hafa verið í jenum. Þá liggur fyrir yfirlýsing stefnanda sem hún gaf við lántökuna 30. desember 2005 þar sem kemur fram með ótvíræðum hætti að hún átti sig á því að lánið sé í erlendri mynt og slík lán séu áhættusamari en lántaka í íslenskum krónum. Þá lagði stefndi fram umsókn stefnanda 30. ágúst 2008 um að stofna þrjá gjaldeyrisreikninga í Landsbankanum fyrir bandríkjadali, evrur og jen.
Samkvæmt framansögðu er það mat dómsins að lán það sem stefnandi tók 30. desember 2005 nr. 111-36-4332 hjá Landsbanka Íslands hf. hafi verið í erlendri mynt og breytir það ekki þeirri niðurstöðu þótt greitt hafi verið af láninu að því er virðist að hluta í íslenskum krónum og yfirlit og önnur skjöl hafi á stundum geymt vísbendingar um að lánið væri í íslenskum krónum, enda mun láninu hafa verið að sögn stefnda breytt í íslenskt lán með viðaukanum sem undirritaður var 25. mars 2011. Með vísan til framanritaðs verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.
Í málinu er lagt fram bréf frá stefnda til stefnanda sem er ódagsett en forsendur í útreikningi sem þar koma fram bera með sér að það hafi verið sent eftir 1. júní 2010 og væntanlega þá fljótlega eftir þann dag því frestur síðar í bréfinu til að bregðast við efni þess var settur til 15. ágúst. Í bréfinu segir að því fylgi áætlaður endurútreikningur á fasteignaláni stefnanda í erlendri mynt. Síðar segir efnislega að samkvæmt tilmælum Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands beri bönkum og fjármálafyrirtækjum að endurreikna lánasamninga sem að mati viðkomandi fjármálafyrirtækis innihéldu óskuldbindandi gengistryggingarákvæði og samrýmdust ekki dómi Hæstaréttar frá 16. júní. Svo sagði: „Þetta þýðir að lán þitt telst samkvæmt þessari áætlun lán í íslenskum krónum og fara því vaxtaviðmið þess eftir því sem segir í fyrrnefndum tilmælum.“ Í niðurlagi bréfsins sagði að ef endurútreikningur hentaði viðtakanda af einhverjum ástæðum ekki væri boðið upp á aðrar leiðir sem voru tilgreindar. Í lokin var minnt á að frestur til að taka einhverjum úrræðum stefnda vegna erlendra lána rynni út 15. ágúst.
Ekkert í málinu bendir til þess að stefnandi hafi með einhverjum hætti brugðist við þessu bréfi og verður ekki betur séð en að það sé fyrst í málatilbúnaði þessa máls sem hún ber því við að með þessu hafi hún í höndum viðurkenningu stefnda á því að fallast beri á stefnukröfur hennar. Í raun er þó orðalag þannig að ekki virðist byggt beint á þessari málsástæðu heldur tekið fram að með bréfinu hafi stefndi tekið undir málsástæður stefnanda. Engin merki eru hins vegar um að stefnandi hafi byggt upp einhverjar væntingar eða gert kröfur, eða þá samþykkt nálgun bankans sem birtist í bréfinu. Var um að ræða áætlun bankans og verður ekki betur séð en vænst væri viðbragða við því. Eftir að bréfið var sent meðhöndlaði stefndi lánið áfram eins og erlent lán. Með vísan til framangreinds verður ekki talið að stefnandi geti byggt rétt á umræddu bréfi.
Miðað við atvik málsins telur dómurinn ekki efni til að fjalla sérstaklega um möguleg áhrif laga nr. 57/2005 á réttarstöðu aðila.
Með vísan til framangreinds og 1. mgr. 130. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er óhjákvæmilegt að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað sem telst hæfilegur 500.000 krónur.
Af hálfu stefnanda flutti málið Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður og af hálfu stefnda flutti málið Hrannar Jónsson héraðsdómslögmaður.
Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Landsbankinn hf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Elsu Bjartmarsdóttur.
Stefnandi greiði stefnda 500.000 kr. í málskostnað.