Hæstiréttur íslands

Mál nr. 387/2011

Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)
gegn
Y (Arnar Þór Jónsson hrl.)

Lykilorð

  • Nytjastuldur
  • Skilorð
  • Sératkvæði



Nytjastuldur. Skilorð. Sératkvæði.

Y var sakfelldur í héraði fyrir nytjastuld. Krafðist hann aðallega ómerkingar héraðsdóms þar sem mál hans hefði ekki átt að sæta meðferð sem játningarmál samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, dómari málsins hefði ekki gætt leiðbeiningarskyldu sinnar og loks taldi hann sig hvorki hafa fengið nægan tíma né aðstöðu til að taka ákvörðun um að taka til varna í málinu. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði meðal annars að háttsemi sú sem Y játaði hjá lögreglu hefði falið í sér fullframið brot gegn 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga. Sá munur sem væri milli þeirrar háttsemi sem hann játaði og þess sem greindi í ákæru væri óverulegur og þar sem hann hefði haft ákæruna undir höndum í þrjár vikur er málið var þingfest hefði hann átt þess allan kost að kynna sér efni hennar. Þá hefði Y verið leiðbeint fyrir dómi í samræmi við ákvæði laga um meðferð sakamála. Hefði héraðsdómara því verið rétt að fara með málið að hætti 164. gr. laga nr. 88/2008. Þá þótti ekki sannað að héraðsdómara hefði borið að nýta heimild til að skipa ákærða verjanda þótt hann hefði ekki óskað eftir því. Var héraðsdómur því staðfestur um sakfellingu Y sem og um refsingu hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 9. júní 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ómerkingarkröfu ákærða verði hafnað, hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða og refsing hans þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til nýrrar meðferðar, en til vara að hann verði sýknaður. Að því frágengnu krefst hann mildunar á refsingu.

I

Kröfu sína um ómerkingu héraðsdóms reisir ákærði í fyrsta lagi á því að mál hans hefði ekki átt að sæta meðferð sem játningarmál samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála þar sem játning hans hafi ekki verið ,,studd rannsóknargögnum málsins.“ Nokkuð hafi borið á milli frásagnar ákærða og meðákærða í héraði, X, í skýrslum þeirra hjá lögreglu. Lögreglan hafi þó ekki leitast við að skýra það misræmi. Frásögn X hjá lögreglu hafi verið lögð til grundvallar verknaðarlýsingu þeirra beggja í ákæru. Áréttar ákærði í þessu sambandi að sönnunarbyrði um sekt hans hvíli á ákæruvaldinu, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008. Dómara hafi borið að styðjast við þau sönnunargögn, sem lögð hafi verið fram í málinu af hálfu ákæruvalds og meta sjálfstætt, óháð játningu ákærða, hvort nægileg sönnun, sem ekki yrði vefengd með skynsamlegum rökum, væri fram komin um hvert það atriði er varðaði sekt hans og ákvörðun viðurlaga við því broti sem honum væri gefið að sök, sbr. 109. gr. sömu laga. Ákærði telur dómara ekki hafa gætt þessarar skyldu þar sem ekkert sjálfstætt mat dómarans á rannsóknargögnum hafi farið fram. Það sé augljóst þar sem játning ákærða fyrir dómi styðjist ekki við rannsóknargögn málsins. Dómari hafi því haft ríka ástæðu til að draga í efa að játning ákærða væri sannleikanum samkvæm, en það sé skilyrði þess að mál sé rekið sem játningarmál samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008.

Í öðru lagi er ómerkingarkrafan reist á því að dómari hafi ekki gætt leiðbeiningarskyldu sinnar. Af því hafi leitt að ákærði hafi ekki notið aðstoðar verjanda, hann hafi ekki gert sér grein fyrir eðli ákæru í málinu og hugsanlegum afleiðingum af því að játa þá háttsemi sem honum hafi verið gefin að sök í ákæru. Dómara hafi borið að gera honum grein fyrir því að málið gæti að hluta snúist um túlkun laga á sviði refsiréttar og réttarfars, áður en ákærði tók ákvörðun um að óska ekki eftir því að sér yrði skipaður verjandi. Í þessu sambandi skipti máli að ákærði var rétt rúmlega átján ára þegar dómur gekk í héraði, hann sé ólöglærður og að auki hæglæs vegna lesblindu. Dómari hafi ekki lagt mat á, er ákærði ,,afþakkaði“ að sér yrði skipaður verjandi, hvort hann væri hæfur til þess að halda sjálfur upp vörnum í máli sínu, auk þess sem ekkert komi fram um að dómari hafi leiðbeint honum um formhlið málsins eftir því sem nauðsyn bar til, en það hafi honum verið skylt, sbr. 29. gr. laga nr. 88/2008. Þá telur ákærði að dómari hafi ekki leitast við að meta með fullnægjandi hætti, hvort skipa skyldi ákærða verjanda, þótt ákærði hefði ekki ,,óskað eftir því“. Telur ákærði að dómara hafi borið að skipa sér verjanda í héraði þrátt fyrir þetta, sbr. 3. mgr. 31. gr. laga nr. 88/2008.

Í þriðja lagi er krafa um ómerkingu reist á því, að ákærði hafi hvorki fengið nægan tíma né aðstöðu til að taka ákvörðun um að taka til varna í málinu. Mál hans hafi verið afgreitt í flýti án þess að honum hafi verið gerð fullnægjandi grein fyrir þeim álitaefnum um túlkun laga og sönnunarfærslu sem skiptu máli. Þinghaldið 18. apríl 2011 hafi einungis varað í fáeinar mínútur en þá hafi málið fyrst verið tekið fyrir og jafnframt dómtekið með vísan til 164. gr. laga nr. 88/2008. Ákærði hafi því ekki haft tækifæri til að gera sér grein fyrir því ósamræmi sem var á milli verknaðarlýsingar ætlaðs brots hans í ákæru og framburðar hans á rannsóknarstigi enda hafi honum fyrst verið birt gögn málsins er hann mætti í þinghaldið áðurgreindan dag. Þá hafi hann ekki fengið frest til að kynna sér gögnin. Telur ákærði að örðugt hafi verið fyrir hann, ólöglærðan og lesblindan, að gera sér grein fyrir því við ,,slíka flýtimeðferð“, sem mál hans hlaut, hverjar væru hugsanlegar afleiðingar þeirrar ákæru, sem hann sætti, án leiðbeiningar frá dómara. Vísar ákærði um þetta til a. liðar 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, þar sem mælt sé fyrir um að hver sá, sem sökum sé borinn um refsiverða háttsemi, skuli ekki njóta minni réttar en þess að fá nægan tíma og aðstöðu til að undirbúa vörn sína. Ekki verði séð að ákærði hafi notið þessarar réttinda við meðferð máls hans í héraði.

Ákærði kveður ómerkingarkröfuna varða ,,grundvallarmannréttindi hans, nánar tiltekið að njóta réttlátrar málsmeðferðar fyrir óháðum og óvilhöllum dómstóli“, sbr. 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Fyrirmæli í tilvitnuðum greinum um rétt ákærða hafi ekki verið virt eins og meðferð máls hans hafi verið háttað í héraði.

II

Ákærði og X voru handteknir snemma morguns 27. júlí 2010. Tekin var skýrsla af þeim báðum hjá lögreglu síðar þann dag. Að ósk ákærða var honum þá skipaður verjandi sem var viðstaddur skýrslutökuna. Ákærði kvaðst ásamt X og þriðja manni, sem hann vildi ekki nafngreina, hafa verið að koma úr samkvæmi og verið á gangi ,,ofan af Holtinu“ í Hafnarfirði. Hann og X hafi stoppað við Suðurbæjarlaug, sem sé skammt frá Lækjarhvammi. Hinn ónafngreindi félagi hafi haldið áfram og komið skömmu síðar akandi á bifreið til þeirra. Hafi hann beðið ákærða um að aka bifreiðinni þar sem hann væri sjálfur undir áfengisáhrifum. Ákærði, sem kveðst ekki hafa fundið til áfengisáhrifa, hafi tekið við akstri bifreiðarinnar. Hafi hann ekið henni ,,upp á Holt“ en þá áttað sig á því að bifreiðin væri stolin. Hann kveðst í fyrstu hafa haldið að hinn ónafngreindi félagi þeirra hefði tekið bifreiðina frá einhverjum vini sínum eða fjölskyldumeðlim. Er ákærði hafi áttað sig á hvers kyns var segist hann hafa ætlað að skila bifreiðinni til baka og ekið henni að húsi við Lækjarhvamm, þaðan sem hún var tekin. Hafi þá annarri bifreið verið lagt fyrir aftan þá, sem hann ók, og út hafi komið fólk sem hafi haldið þeim þar til lögreglan kom. Ákærði kvað haft hafa verið orð á því í bifreiðinni, á meðan á akstri stóð, að þeim væri veitt eftirför af fólki í annarri bifreið, en hann hafi sjálfur ekki séð  það. Ákærði tók fram að ætlun þeirra hafi aðeins verið sú að aka bifreiðinni um, og þegar honum hafi orðið ljóst að bifreiðin var stolin hafi verið ætlunin að skila henni.

Framburður X hjá lögreglu var á þann veg að þeir þrír félagarnir hefðu verið á gangi niður Lækjarhvamm í Hafnarfirði þegar þeir sáu mannlausa bifreið í gangi. Þá hafi hinn ónafngreindi félagi þeirra fengið þá hugmynd að taka bifreiðina og hafi þeir gert það og ákærði ekið. Hafi hann ekið bifreiðinni um tilgreindar götur og hverfi í Hafnarfirði þar til þeir komu aftur að Lækjarhvammi þar sem þeir hafi stöðvað bifreiðina og hlaupið á brott. Fólk, sem veitt hafði þeim eftirför, hafi náð þeim.

III

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gaf út ákæru 22. mars 2011, sem birt var ákærða 29. sama mánaðar. Þar er ákærða og X gefið að sök í I. ákærulið að ,,hafa ... í félagi við óþekktan aðila í heimildarleysi tekið bifreiðina [...] þar sem hún stóð við Lækjarhvamm [...] og notað hana með þeim hætti að [ákærði] ók henni um ýmsar götur í Hafnarfirði og svo aftur að Lækjarhvammi þar sem þeir stöðvuðu aksturinn og umráðamenn bifreiðarinnar náðu til þeirra ...“

Brotið var talið varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Aðrar sakir voru ekki bornar á ákærða, en X var einnig gefin að sök háttsemi sem meðal annars var talin brot á tilgreindum ákvæðum laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni.

Málið var þingfest 18. apríl 2011 og mættu báðir ákærðu og voru þeim afhent afrit af skjölum málsins, en auk ákæru var um að ræða bréf Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til dómsins um að málið væri sent dómstólnum til meðferðar, skjalaskrá lögreglu og sakavottorð beggja ákærðu. Af hálfu dómara var meðal annars bókað: ,,Ákærðu óska ekki eftir því að þeim verði skipaður verjandi í málinu. Gætt er ákvæða 1. mgr. 114. gr. laga nr. 88/2008. Gerð er grein fyrir ákæru. Ákærðu játa sök samkvæmt I. ákærulið. Þá játar ákærði X sök skv. II. ákærulið. Með því að ákærðu hafa játað brot sín skýlaust og dómari telur ekki ástæðu til að draga í efa að játning þeirra sé sannleikanum samkvæm er ákveðið að fara með málið að hætti 164. gr. laga nr. 88/2008.“ Þá er bókað efnislega að sækjandi og ákærðu hafi í stuttu máli tjáð sig um lagaatriði máls og ákvörðun viðurlaga. Var málið dómtekið og þegar uppkveðinn í því dómur. Dómsorðið var lesið í réttinum að ákærðu viðstöddum. Þá var meðal annars bókað: ,,Dómþolum er kynnt þýðing skilorðs og afleiðingar skilorðsrofa. ... Dómþolar lýsa því yfir að þeir uni dómi.“ 

Endurrit dómsins var ekki tilbúið og var dómurinn því birtur ákærðu 9. maí 2011, sbr. 3. mgr. 185. gr. laga nr. 88/2008. Ákærði sendi ríkissaksóknara tilkynningu um áfrýjun 6. júní 2011 og áfrýjunarstefna var, sem áður greinir, gefin út 9. sama mánaðar.

IV

Háttsemi sú er ákærði játaði fyrir lögreglu felur í sér fullframið brot gegn 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga. Lýsing á broti í ákæru víkur frá þeirri háttsemi sem ákærði hafði játað hjá lögreglu að því er varðar aðdraganda að því að ákærði hóf akstur bifreiðarinnar, en samrýmist henni að öðru leyti. Sá munur, sem um ræðir, er óverulegur. Ákærði hafði haft ákæruna undir höndum í um þrjár vikur er málið var þingfest. Ákæruefnið var að því er hann varðaði eitt og var lýsing þess einföld. Hann átti þess því allan kost að kynna sér efni ákærunnar. Stöðluð skýrsla 6. apríl 2009 sem lögð hefur verið fyrir Hæstarétt um ætlaða lesblindu ákærða gefur til kynna að þótt leshraði hans kunni að vera lítill, sé lesskilningur hans langt yfir meðaltali. Í liðnum ,,Hlustun og skilningur“ í skýrslunni kemur fram að skor ákærða þar er 100%, en það er einnig langt yfir meðaltalinu, sem sagt er 75%. Skýrslan rennir engum stoðum undir að ákærði hafi ekki mátt gera sér grein fyrir því að óverulegur munur var á brotalýsingu í ákæru og þeirri háttsemi, sem hann hafði játað hjá lögreglu. Eins og áður segir var ákærða í þinghaldinu 18. apríl 2011 gerð grein fyrir efni ákæru. Honum var leiðbeint í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 114. gr. laga nr. 88/2008. Hann óskaði ekki eftir því að sér yrði skipaður verjandi, en það hafði hann gert hjá lögreglu. Þar sem ákærði játaði skýlaust brot það sem hann var ákærður fyrir og í ljósi annarra atvika, sem hér hafa verið rakin, og dómari mat það svo að játning hans væri sannleikanum samkvæm, var dómara við svo búið rétt að fara með málið að hætti 164. gr. laga nr. 88/2008.

Í 29. gr. laga nr. 88/2008 er mælt fyrir um að dómari skuli veita ákærða, sem er ólöglærður, leiðbeiningar um formhlið máls ,,eftir því sem nauðsyn ber til.“ Verður ekki fallist á að þörf hafi verið ítarlegri leiðbeiningar í máli þessu en bókað er að dómari hafi veitt ákærða, enda málið einfalt og ákærði hafði frá upphafi játað háttsemi, sem fól í sér brot á 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga.

Þá verður heldur ekki fallist á að sýnt sé fram á að mat héraðsdómara á því að ekki þyrfti að skipa ákærða verjanda, þar sem ákærði væri fær um að gæta sjálfur hagsmuna sinna nægilega, við meðferð málsins, hafi verið rangt. Er því ósannað að dómara hafi borið að nýta heimild 3. mgr. 31. gr. laga nr. 88/2008 og skipa ákærða verjanda þótt hann hefði ekki óskað eftir því.

Í ljósi atvika málsins, sem rakin eru í III. kafla að framan, er hafnað þeim röksemdum ákærða að hann hafi ekki haft nægan tíma til að kynna sér málið og undirbúa vörn sína, enda sakargiftir einfaldar og skjöl málsins fá og efnislítil.

Samkvæmt framansögðu verður kröfu ákærða um ómerkingu héraðsdóms hafnað.

V

Með því að ákærði hefur játað þá háttsemi, sem honum er gefin að sök, verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um sakfellingu hans svo og um refsingu þá sem honum var gerð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Y, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 385.647 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Arnars Þórs Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.

 

Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Ákærði byggir kröfu sína um ómerkingu héraðsdóms á því að ekki hafi mátt fara með málið sem játningarmál samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Við rannsókn málsins hjá lögreglu hafi hann að vísu viðurkennt að hafa ekið bifreiðinni umrætt sinn en ekki að hafa „tekið“ hana eins og kveðið sé á um í verknaðarlýsingu ákæru. Félagi hans hafi komið akandi á bifreiðinni til sín og meðákærða í héraði og beðið sig um að aka henni þar sem hann hafi sjálfur verið undir áhrifum áfengis. Kvaðst ákærði í skýrslu sinni hjá lögreglu hafa orðið við því en nokkru síðar áttað sig á að bifreiðin væri stolin. Hafi hann þá ætlað að skila henni til baka á þann stað þar sem hún hefði verið tekin. Í ákæru sé honum hins vegar gefið að sök að hafa ásamt meðákærða í héraði og „í félagi við óþekktan aðila í heimildarleysi tekið bifreiðina [...] þar sem hún stóð við Lækjarhvamm [...] og notað hana með þeim hætti að Y ók henni um ýmsar götur í Hafnarfirði og svo aftur að Lækjarhvammi þar sem þeir stöðvuðu aksturinn ...“.

Þegar málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness 18. apríl 2011 var meðal annars bókað að ákærðu játuðu sök samkvæmt I. lið ákæru. Athygli ákærða var ekki vakin á því að ákæran væri ekki í samræmi við lýsingu hans á atburðum hjá lögreglu. Skilyrði þess að farið sé með mál eftir 164. gr. laga nr. 88/2008 eru að ákærði hafi skýlaust játað alla þá háttsemi sem honum er gefin að sök og að dómari telji ekki ástæðu til að draga í efa að játning sé sannleikanum samkvæm. Í þessu felst að dómara ber að prófa játningu ákærða eftir því sem atvik máls gefa tilefni til hverju sinni. Er með þessum hætti leitast við að fyrirbyggja hættu á að ákærðum manni sé í játningarmálum gerð refsing fyrir brot sem hann hefur ekki framið.

Af bókun í þingbók 18. apríl 2011 verður ekki ráðið að athygli ákærða hafi sérstaklega verið vakin á því að verknaðarlýsing ákærunnar væri ekki í samræmi við lýsingu hans á atburðum hjá lögreglu. Ekki var nokkrum vandkvæðum bundið að vekja athygli hans á þessu. Það sem á milli bar gat haft þýðingu fyrir úrslit málsins, til dæmis við mat á huglægri afstöðu ákærða til þess brots sem hann var ákærður fyrir. Einkum skiptir það miklu máli ef ekki hefði sannast að honum hafi verið kunnugt um að félagi hans hefði bifreiðina ekki í yfirráðum sínum með löglegri heimild. Við þær aðstæður hefðu ekki verið nein efni til að gera honum refsingu, jafnvel þó að akstur bifreiðarinnar til baka kunni hlutrænt að hafa falið í sér brot gegn 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Það var því brýnt að dómari vekti athygli ákærða á að hann væri nú að játa brot sem væri lýst með öðrum og alvarlegri hætti en ákærði hefði sjálfur viðurkennt og skráði síðan svör hans skilmerkilega í þingbók, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 88/2008. Verður ekki með óyggjandi hætti ráðið af bókuninni sem gerð var að ákærði hafi í þinghaldinu breytt framburði sínum frá því sem greinir í lögregluskýrslu yfir í að játa verknaðarlýsingu ákærunnar.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið tel ég að ekki hafi verið sýnt fram á að uppfyllt hafi verið skilyrði þess að fara mætti með mál þetta eftir 164. gr. laga nr. 88/2008 og tel ég því að ómerkja beri hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 18. apríl 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 22. mars 2011 á hendur Y, kt. [...], […], og X, kt. [...], [...], [...], fyrir eftirtalin brot:

I.

Ákærðu báðum fyrir hegningarlagabrot í Hafnarfirði með því að hafa þann 27. júlí 2010 í félagi við óþekktan aðila í heimildarleysi tekið bifreiðina [...] þar sem hún stóð við Lækjarhvamm [...] og notað hana með þeim hætti að Y ók henni um ýmsar götur í Hafnarfirði og svo aftur að Lækjarhvammi þar sem þeir stöðvuðu aksturinn og umráðamenn bifreiðarinnar náðu til þeirra en lögregla kom á vettvang skömmu síðar.

Þetta er talið varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 20/1956.

II.

Ákærða X fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa í sama skipti og greinir í I. kafla haft í vörslum sínum 3,52 grömm af tóbaksblönduðu kannabisefni sem hann framvísaði lögreglu.

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist að gerð verði upptæk fíkniefni sem lögregla lagði hald á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

Ákærðu krefjast vægustu refsingar er lög leyfa.

Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og ákærðu hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Ákærðu hafa skýlaust játað brotin. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að þeir eru sekir um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök og eru brot þeirra rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði Y er fæddur í […] 1992 en ákærði X í [...]. Samkvæmt sakavottorði ákærðu hafa þeir ekki áður gerst sekir um refsiverða háttsemi og þeir hafa skýlaust játað brot sín. Að þessu virtu þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í einn mánuð, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Þá skal ákærði [...] sæta upptöku á 3,52 g af tóbaksblönduðu kannabisefni.

Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

 Ákærðu, Y og X, sæti hvor um sig fangelsi í 1 mánuð, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði X sæti upptöku á 3,52 g af tóbaksblönduðu kannabisefni.